Suðurkot

Í “Strönd og Vogar” getur Árni Óla um “Álagablett” við Suðurkot í Brunnastaðahverfi á vatnsleysuströnd:

Brunnastaðahverfi

“Í túni eystri hálflendunnar í Suðurkoti í Brunnastaðahverfi er stór hóll, sem kallaður er Þerrir. Honum fylgdi sú sögn, að þar ætti álfar heima, og þess vegna mætti aldrei slá hólkollinn. Ef það var gert, átti bóndinn að verða fyrir einhverju óhappi. Munu flestir bændur hafa virt þessi álög, því að engin dæmi vissu menn þess að hólkollurinn hefði verið sleginn.
Um 1890 flytur á þennan part maður, sem Hannes Hannesson hét, og tók hann þar við einu kúgildi. Fyrsta sumarið, sem hann var þama, mun grasspretta hafa verið lítil. Þóttist hann því nauðbeygður til þess að slá hólinn og gerði það.

Þerrir

Þerrir.

Á þessum árum var það venja að kýmar af mörgum bæjum voru reknar í einum hóp á haga, langt uppi í heiði, og skiptust bændur á um að láta reka þær. Seint um sumarið var að venju verið að reka kýmar, en sá, sem rak þær, tekur þá eftir því, að kýr Hannesar í Suðurkoti er eitthvað undarleg. Og allt í einu tekur hún sig bölvandi út úr hópnum og ræðst á þúfu nokkra, eins og hún væri blótneyti. Reif hún og tætti alla þúfuna sundur með hornunum, en féll því næst niður steindauð.
Ýmsir settu þetta í samband við það, að álögin á Þerri höfðu verið lítilsvirt, og aldrei sló Hannes hólinn upp frá því.” — (B. H.)

Brunnastaðir

Brunnastaðahverfi.

Í Örnefnalýsingur Gísla Sigurðssonar fyrir Brunnastaði segir: “Í Suðurkotstúni eru nokkrir hólar, svo sem: Langhóll og Þerrar, tveir hólar, Stóri-Þerrir og Minni-Þerrir og svo er Pelaflöt. Nafnið er tilkomið vegna þessa að maður nokkur seldi flötina fyrir einn pela af brennivíni”.

Í Örnefnalýsing Ara Gíslasonar fyrir Brunnastaði segir: “Upp frá því er Suðurkot og þar fyrir neðan garðinn er hóll sem heitir Þerrir. Langur og stór hóll hér austur af bæ heitir Langhóll”.

 Sigurjón Sigurðsson í Traðarkoti skráði Örnefnalýsingu fyrir Suðurkot: “Á honum stóð gamli Suðurkotsbærinn. Norðan við hann var Norðurkálgarðurinn, nú uppgróinn. Alveg við hann að norðanverðu er hár hóll”, Þerrishóllinn.

Heimildir:
-Strönd og vogar – Árni Óla, Álagablettur, 1961, bls. 262.
-Örnefnalýsing Gísa Sigurðssonar fyrir Brunnastaði.
-Örnefnalýsing Ara Gíslasonar fyrir Brunnastaði.
-Örnefnalýsing Sigurjóns Sigurðssonar fyrir Suðurkot.

Brunnastaðahverfi

Brunnastaðahverfi.