Í Náttúrufræðingnum 1983 fjallar Jón Jónsson, jarðfræðingur, um “Aldur Afstapahrauns milli Kúagerðis og Mávahlíða“:
“Áður hef ég leitt nokkur rök að því (Jón Jónsson 1978) að nafnið á þessu hrauni sé afbökun úr Arnstapa — enda er hitt nafnið lítt skiljanlegt.
Ekkert hefur verið vitað með vissu um aldur þessa hrauns. Þorvaldur Thoroddsen (1925, bls. 187) segir raunar að það sé „in aller Wahrscheinlich nach bei Ausbrúcken in historischer Zeit hervorgebrochen”, en ekki fer hann í þessu eftir öðru en
unglegu útliti hraunsins.
Í norðanverðu hrauninu eru nokkrir óbrennishólmar og eftir að athuganir meðfram vesturbrún hraunsins höfðu ekki borið árangur, leituðum við Sigmundur Einarsson jarðfræðingur fyrir okkur nyrst í einum þessara hólma.
Eftir að hafa grafið á nokkrum stöðum við hraunröndina töldum við okkur hafa fundið landnámslagið, sem liggur inn undir hraunið. Þar eð ég var ekki fyllilega ánægður með sniðið fór ég aftur á staðinn og gróf lengra inn undir hraunið. Þar fann ég landnámslagið mjög greinilegt með þess einkennum, ljóst að neðan en dökkt að ofan. Þetta má vel greina á ljósmyndinni (5. mynd) ef hún prentast sæmilega. Þar með er ljóst að Afstapahraun er runnið á sögulegum tíma. Ekki heppnaðist að finna gróðurleifar nothæfar til aldursákvörðunar.”
Í Andvara 1884 segir Þorvaldur frá Afstapahrauni í riterð sinni “Ferðir á suðurlandi sumarið 1883”:
“Afstapahraun hefir runnið alveg niður í sjó hjá Kúagerði og armur úr því nærtöluvert til vesturs; mestur hluti þessa hrauns hefir komið frá Trölladyngju, on þó virðist töluvert hafa komið úr gígunum við Máfahlíðar. Upp úr Afstapahrauni ofauverðu stendur einstakt móbergsfell, sem heitir Snókafell. Strandahraun eru þau hraun, sem liggja fyrir vestan Afstapahraun, on hinn eiginlegi Almenningur er á milli Afstapahrauns og Kapelluhrauns.”
Afstapahraunið er víðast hvar ill yfirferðar, einkum að austan-, sunnan- og norðanverðu. Að vestanverðu er það jafnara og greiðara yfirferðar, einkum er kemur norður fyrir Rauðhóla. Tóurnar eru óbrennishólmar í miðju hrauninu – sjá HÉR.
Heimildir:
-Náttúrufræðingurinn, 1.-4. tbl. 01.05.1983, Eldgos á sögulegum tíma á Reykjanesskaga, Jón Jónsson, bls. 134.
-Andvari, 1. tbl. 01.01.1884, Ferðir á suðurlandi sumarið 1883 – Þorvaldur Thoroddsen, bls. 50-51.