Vífilsstaðasel

Eftirfarandi er úr erindi ÓSÁ um sel og selstöður á Vatnsleysustrandareheiði, sem flutt var á Sagnakvöldi í Kálfatjarnarkirkju 19. janúar 2006:

Gjásel Ætlunin er að reyna að gefa svolitla innsýn í 10 alda sögu seljanna ofan við Kálfatjörn og Ströndina á innan við 20 mínútum. Stikklað verður á stóru.
Byggðin á Vatnsleysuströnd var frá upphafi svo til öll með sjávarsíðunni. Útvegsbændurnir höfðu fjárbúskap samhliða útvegum. Fá býlin höfðu kýr og þá yfirleitt fáar. Bændur stærri og landmeiri bæja höfðu fé sitt í seli yfir sumarið. Selin voru í jaðri jarðanna til að nýta mætti landið sem best, þ.e. hlífa heimatúnum, sem almennt voru lítil, og heimahögum, en beittu úthagann. Lífið á Ströndinni hér áður fyrr, eins og svo víða annars staðar á Reykjanesskaganum, snerist fyrst og fremst um fisk og fé. Fólkið hélt lífinu í fénu og féð hélt lífinu í fólkinu. Erfiðara var að ganga að fiskinum vísum.
Á Reykjanesi, sem telur í dag um 168 sýnilegar selstöður, þ.e. á milli Suðurlandsvegar og Stampa yst á Reykjanesi, voru selin tímabundar nytjaútstöðvar útvegsbændanna með ströndinni.
Samkvæmt jarðabókinni 1703 voru þá a.m.k. 18 sel og selstöður í notkun frá Vatnsleysustrandarbæjunum. Það hefur því oft verið talsvert líf í heiðinni, eða um 40-60 manns að staðaldri yfir sumarmánuðina.
Mjög lítið hefur verið skrifað um sel og selsbúskap hér á landi og nær ekkert á þessu svæði. Ástæðan er fyrst og fremst sú að yfirleitt var ekki skrifað um það sem þótti bæði eðlilegt og sjálfsagt í daglegu lífi fólks. Þannig var t.d. ekki skrifað um það hvernig hin fornu handrit, hin dýrmæta arfleið, voru gerð eða hvað þurfti að gera til að koma texta á bókfell. Eftir standa ósögð orðin og lýsingarnar – líkt og selstóftirnar í heiðinni. Á sama hátt skiptu afurðir seljanna meiru en hvernig þær urðu til. Við vitum líka hverjar afurðinar voru og ef seljabúskapurinn stæði okkur ekki svo nálægt í tíma og raun ber vitni væri harla fátt vitað um hvernig hann hafi verið í framkvæmd. Á sama hátt og handritin eru áþreifanlegur vottur handbragðsins fyrrum tengja minjar seljanna okkur beint við þá gömlu búskaparhætti, sem þar tíðkuðust í gegnum aldir.
Í heimildum um sel segir m.a. á einum stað: “Í seljum þessum störfuðu venjulega 2-3 menn; selsmalinn og selráðskonan og oft einn unglingur þeim til aðstoðar, ýmist piltur eða stúlka. Áður fyrr voru þar gerðir úr mjólkinni, ostar, skyr, smjör og sýra….sótt var í selið tvisvar í viku; skyr, mysa og smjör og flutt heim á hestum”.
Fé yfirleitt haft í seli yfir sumarið, venjulega frá 6. – 16. viku sumars. en í þá tíð var árdagatalið miðað við meginárstíðarnar, sumar og vetur. Vegna ótíðar gat seljatíðin færst til um viku eða svo.
Selja er stundum getið í örnefnalýsingum, s.s. þessi af Hvassahraunsseli: “Heiman úr Tröðum liggur troðningur suður um Hellur, suður á hraunið. Það er Hvassahraunsselsstígur eða Selsstígur. Stígur þessi lá áfram suður hraun allt til Krýsuvíkur. Upp af Brennhólum er Hálfnaðarhæð. Þar er hálfnuð leið frá bænum í Selið. Þá tekur við sunnar nokkuð Selskrínshæð og þar sunnar er Viðunarhóll, skógi eða hrísi vaxinn. Þá er komið í Selið eða Hvassahraunssel, sem er vestan undir Selásum. Veggirnir standa enn nokkurn veginn uppi, og gróður er þar í kring. Vatnsbólið er undir skúta, eiginlega beint austur af Selinu, og er erfitt að finna það.”
Brunnaselstöðunni er t.d. lýst svo árið 1703: ”….Selstöðu hefur jörðin við fjallgarð, er þar hagar litlir, en vatnsskortur að miklu meini, þegar þerrar gánga”. Þessi heimild segir okkur margt um erfiða búskaparhætti og ástand gróðursins í heiðinni á þessum tíma. í Brunnastaðaseli hafa þá verið 30-40 kindur og er það hreint ekki lítið.
Oft bera selin nöfn þeirra bæja, sem gerðu þau út. Flekkuvíkursel var frá Flekkuvík og Hvassahraunssel var frá Hvassahrauni o.s.frv. Þó eru dæmi um að selin hafi dregið nöfn sín af staðháttum, s.s. Sogasel í Sogagíg og Selsvallasel af Selsvöllum, eða öfugt, þ.e. örnefnin er tilkomin vegna seljanna.
Í örnefnaslýsing segir og um Flekkuvíkursel: “Gunnar og Ólafur Erlendssynir nefna Flekkuvíkursel í örnefnaskrá árið 1976 og segja: “Herdís Jónsdóttir frá Flekkuvík, f: 1858, kom í selið sem barn og voru þar þá bæði smali og selráðskona. Í selinu voru þá eingöngu hafðar kindur”.
Auk þess sem flestra seljanna er getið í gömlum heimildum og örnefnalýsingum má sjá nokkur þeirra, a.m.k. þeirra stærstu, á gömlum kortum, s.s. dönsku herforingjakortunum svonefndu, en annað það er gefur vísbendingu um að sel hafi verið að ræða á tilteknum stöðum eru nafngiftir tengdar þeim, s.s. Selháls, Selshæð, Selsvallafjall, Selsvellir, Selsfjall, Seljahlíð, Selalda, Selstígur og Selshóll.
Stekkur í Brunnastaðaseli – Á Reykjanesskaganum var selið og önnur mannvirki í seli oftast í skjóli fyrir austanáttinni, rigningaráttinni, þ.e. í skjóli við hól, hæð eða gjábakka mót vestri.
Samkvæmt jarðabókinni 1703 voru þá a.m.k. 18 sel og sennilega fleiri selstöður í notkun frá Vatnsleysustrandar-bæjunum. Það hefur því oft verið talsvert líf í heiðinni, eða um 40-60 manns að staðaldri yfir sumarmánuðina.
Það virðist vera ríkjandi viðhorf meðal fólks að “minjar hér á landi séu bæði óskýrar og óskiljanlegar. En er það svo í raun?
Í ljóðinu fylgd eftir Guðmund Böðvarsson er getið um sel; “En frammi á fjöllum háum – fjarri sævi bláum – sefur gamalt sel”. Þessar línur geta vel átt við selin á Vatnleysustrandarheiðinni.
Sögur tengdar seljafólkinu eru nokkrar til, þá aðallega tengdar barnshafnandi seljamatsseljum eftir að huldumenn eða útilegumenn komust í tæri við þær. Þá gleymdist oft að bóndinn á bænum fór reglulega upp í selið á tveggja eða þriggja daga fresti til að sækja afurðirnar og færa þangað matarkyns, talsverður samgangur var á milli seljanna og auk þess var nokkur umferð fólks um heiðina yfir sumartímann, á leið hingað og þangað um Innnesin og Útnesin. Ekki fóru allir Almenningsleiðina.
Sigurlín Sigtryggsdóttir lýsir í handritinu “Upp til selja” lífi smala í seli í Eyjafirði:
“Mjög þótti það áríðandi að hafa trúa og ötula selsmala. Ærnar máttu helst ekki missa máls, en svo var það kallað, er vantaði af ánum til að mjalta. Vantaði á fékk smalinn að eta skömmina.
Smalinn var vakinn kl. 3-4 á nóttunni til smalamennskunnar og einnig var farið að smala um svipað leyti, kl. 3-4, að degi til. Smalinn hélt alltaf til í selinu.
Smalastarfið var erfitt, en samt minnast þeir margir hverjir starfans með lotningu og telja það jafnvel ánægjulegustu reynslu lífs síns.
“Áhugi fólks á minjum kviknar fyrst eftir að grafið hefur verið í þær”. “Rannsóknir virkja staði” sagði kennari minn í fornleifafræði við Háskólann okkur í tíma í gær. Þetta er að sumu leyti rétt, eins og dæmin sanna.
Sagt hefur verið að til þess að áhugi annarra á menningu svæðis vakni þurfi áhugi heimamanna á henni að vera fyrir hendi.
Þegar staðið er í tóftum fornra selja og horft á húsin, stekkinn, kvína, vatnsbólið, nátthagann og gömlu göturnar má vel sjá selsráðskonuna mjólka ærnar og vinna mjólkina, smalann færa féð frá og að seli kvölds og morgna, bóndann koma með viðurværi og færa nytjarnar til bæjar, heyra hávært jarmið við fráfærurnar og ímynda sér kyrrðina í heiðinni á fögrum og björtum sumarkvöldum.
Sagt hefur verið um hin fornu handrit: “Þessar minjar á að umgangast með tilhlýðilegri virðingu og hátíðlegu fasi, helst í sparifötunum”. Hvers vegna ekki minjarnar líka?
Í og við hvert sel má sjá selsstíg, selsvörðu, þrískipt hús (eldhús-íverustað og búr, stekk, kví, skjól, vatnsstæði/brunn, nátthaga, fjárskjól og mikinn gróanda.
Selstígurinn lá upp frá bænum að selinu. Hann var venjulega u.þ.b. Klukkustundar langur, stundum styttri, stundum lengri. Stundum markaður í klöppina.
Ágætt dæmi m draugagang í seli er Rauðhólssel. Í lýsingu þess segir að fyrir hafi komið að horfið hafi verið fyrr úr selinu en ætlað var vegna draugagangs, en líklegt er þó að vatnsskortur aðallástæðan.
Selsbúskapurinn leggst af á ofanverðri 19. öld. Ástæðan er ekki ein heldur nokkrar; fólki tók að fækka á einstökum bæjum, aukin áhersla var lögð á útveg, kýr voru nyjaðar í auknum mæli líkt og féð áður, þ.e. unnir ostar, smér og aðrar afurðir, og breytingar urðu á samfélagsmyndinni. „Um miðja 19. öld breyttist útgerð í Vogum og á Vatnsleysuströnd sem og víðasthvar annars staðar. Áður höfðu þar nær eingöngu verið smáfleytur, en nú koma stærri skip. Þeir sem eignuðust þessi skip fóru að græða á tá og fingri og brátt risu þarna upp nokkrir útvegsmenn sem báru höfuð og herðar yfir fjöldann.“ Féð var nýtt heima við framan af sumri, en síðan rekið á afrétt til sumarbeitar, en smalað að hausti.

Selsvellir

Á Selsvöllum.

Síðast mun hafa verið haft í seli á Skaganum árið 1914. Í dag má sjá móta fyrir 43 selstöðum í 26 seljum í heiðinni. Sum þeirra eru mun eldri en frá 1703.
Heiðin lítur öðruvísi út í dag en hún gerði þegar selsbúskapurinn var í sem mestum blóma. Telja má víst að landsnámsmenn hafi komið með selsbúskaparhættina með sér frá Noregi og haldið þeim þegar hingað var komið að teknu tilliti til aðstæðna hér. Þau munu skv. því hafa verið við lýði hér í um 1000 ára skeið. Selsbúskapurinn hefur því verið stór þáttur í búskaparháttum þessa landsvæðis, en er nú að mestu gleymdur. Hins vegar eru minjar seljanna enn vel sýnilegar í heiðinni og standa þar sem minnismerki um hið liðna – fortíðina – sem við þurfum að geta borið virðingu fyrir. Þau tala máli fólksins, forfeðra okkar og mæðra, sem hér bjó, stritaði og dó, en skyldu eftir sig dýrmæta arfleið – okkur.
Kannski verður einhvern tímann grafið í selstóftir í Strandarheiðinni og áhugi fólks vakinn á tilvist og hlutverki þeirra í fyrrum búskaparháttum svæðisins – fornleifin virkjuð, eins og kennarinn sagði. Hver veit?

[Erindið byggðist upp á myndasýningu].

Selsvellir

Selsvellir – uppdráttur ÓSÁ.