Færslur

Hellisheiði

Í leit að C-64 herflugvél er fórst 22. okt. 1944 um kl. 15:00 á Skálafellssvæðinu og Anson farþegaflugvélar í eigu Loftleiða er fórst árið 1948 á svipuðum slóðum frétti FERLIR af braki úr flugvél í Lakadal við Stóra-Sandfell sunnan Lakadals, millum Norðurhálsa og Suðurhálsa Skálafells. Um væri að ræða hjólastell og fleira. Ætlunin var m.a. að kanna það sem og næsta nágrenni með hliðsjón af framangreindu.

Hellisheiði

Hellisheiði – kort.

Með C64 herflugvélinni fórust fimm manns; fjórir farþegar og flugmaðurinn, John. J. Custy, fyrsti liðþjálfi 33. bardagasveitar ameríska hersins hér á landi. Aðrir voru Robert R. Richt, Anthony P. Colombo, Leonard T. Damerval og Floyd C. Van Orden, allt hermenn. Þegar vélin brotlenti kviknaði í brakinu skv. upplýsingum úr slysaskráningarskýrslu um atvikið.
Haldið var inn á svæðið frá Þrengslunum, til norðausturs inn með Litlameitli (milli hans og Innbruna (hluta Eldborgarhrauns)), upp að Eldborg og inn (norður) Lágaskarð milli Stórameitils og Stóra-Sandfells. Þá var komið inn í Lakadal suðaustan Lakahnúka.

Skálafell

Skálafell – kort.

Austan við Meitlana (Stóra- og Litla-Meitils), vestan undir Skálafelli á Hellisheiði, er lítið fell er heitir hinu stóra nafni Stóra-Sandfell (424 m.y.s.). Eftir því sem eftirgrennslan hefur leitt í ljós á þetta fell sér ekki ýkja merkilegri sögu en önnur sambærileg eða valdið eftirminnilegum straumhvörfum í fjallamennsku á Íslandi. Í gönguleiðalýsingum er ekki einu sinni minnst á þetta litla fell með stóra nafnið. Nöfnur þess eru þó nokkrar á Reykjanesskaganum og má segja með nokkurri sanni að þetta (stóra) standi þeirra hæst. Annað Sandfell þarna skammt frá, sunnan Þrengslavegar, er t.a.m. mun hærra (mælt frá rótum), en það stendur því miður bara lægra en Stóra-Sandfell.

Lakastígur

Lakastígur.

Eldborgarhraunið kom eðlilega úr Eldborg austan Meitlanna. Talið er að það hafi gosið fyrir 2000 árum, enda ber þykkt gamburmosahraun hennar þess glögg merki.

Lágaskarðsvegar er liggur með hlíðunum hefur verið getið í nokkrum heimildum. Í seinni tíð hefur hann gjarnan verið nefndur Lakastígur (liggur með Lakahnúkum og Lakadal) og jafnvel Lákastígur. “Norður af Lambafellshrauni er Lambafell, sunnan við það er Stakihnúkur, er hann hjá Lágskarði. Eftir skarðinu liggur Lágaskarðsvegur.” segir í örnefnalýsingu. “[Á Breiðabólstað] hefst Lágaskarðsvegur. Hann liggur yfir Bæjarlæk [við Breiðabólsstað] rétt fyrir ofan Fossinn, inn Torfdalshraun, austan Torfdalsmels og innan til á móts við Krossfjöll austur yfir Eldborgarhraun, austur að Lönguhlíð.”

Eldborg

Eldborg undir Meitlum – loftmynd.

Leiðin liggur frá Hveradalaflöt, undir austurhlíðum Lakahnúka og síðan um breitt skarðið yfir slétt og greiðfært helluhraun (að mestu mosagróið) og síðan niður úr skarðinu (sem er meira eins og grunnt dalverpi en skarð) til Þorlákshafnar og í Selvog. Á herforingjaráðskorti frá 1909 (1:50000) er norðurendi leiðrinnar sýndur vestar en gera má ráð fyrir. Þar liggur Lágaskarðsleiðin útaf Hellisheiðarvegi undir neðstu brekkum Reykjafells og yfir hraunhólana neðan við Hveradalaflöt en sú leið er mun ógreiðfærari þó hún sé styttri. Á kortinu kvíslast leiðin við Lönguhlíð og liggur ein slóð til Breiðabólstaðar en önnur til Hrauns.

Lákastígur

Varða við Lakastíg.

“Um grasi grónar hlíðar og slétt helluhraun, mosagróið, mjög greiðfær leið. Vegurinn er lengstaf aðeins kindastígur en nokkur vörðutyppi eru í sjálfu skarðinu (á helluhrauninu) og gætu sum þeirra verið gömul. Á nokkrum stöðum má ímynda sér að hestaumferð hafi gert för í hraunhelluna en hvergi er það skýrt. Þessi leið mun nú ganga undir nafninu Lákastígur.” Steindór Sigurðsson lýsir Lágaskarðsleið í Árbók Ferðafélagsins 1936: “Þessi leið liggur að mestu leyti samhliða Þrengslaleiðinni, en um það bil þremur km austar. Og Meitlarnir mynda takmörkin á milli þeirra. Leiðin liggur … frá Skíðaskálanum, og stefnir suður yfir lága öldu, um 50 m upp á við af veginum í byrjun.
Þegar upp á hana er komið, sér greinilega móta fyrir Lágaskarði.

Lakadalur

Lakadalur.

… Vestan undir [Lákahnúkum] er víðast hvar graslendi, sem ásamt haganum undir Lönguhlíð, austar á leiðinni, hefir orðið til þess að gera leið þessa vinsælli en Þrengslaleiðina. Lágaskarðsleiðin var ein aðalþjóðleiðin yfir Hellisheiði, allt fram að því að akvegur var gerður yfir heiðina og sjálfsögðust lið allra austanmanna, er um Eyrarbakka komu og fóru yfir Ölfusá í Óseyrarnesi og um Hafnarskeið. … Vestan undir Stóra-Sandfelli er hádepill Lágaskarðsleiðar, 303 m. Skammt austar liggur leiðin niður brekku eina talsvert bratta en ei langa, og þegar kemur á brekkubrúnina, sér vegafarandinn hvar Eldborgarhraunið breiðist út vestur með Meitilstöglunum og allt vestur að Sandfelli. …

Lakadalur

Sanddalur.

Með heiðarbrúninni er greiðfær og götumtroðinn grasmói, og heiðin fyrir ofan hann – að suðurbunga Skálafells, heitir Langahlíð… Norðaustur af Krossfjöllum skiptast leiðir… en gamla aðalleiðin lá suðaustur með Lönguhlíð, niður hjá Kömbum og Kerlingadrögum, vestanvert við brún Hjallafjalls og annaðhvort austur með fjallsbrúninni, að Hjalla eða suðvestur undir hraunið, að hrauni, sem var fyrrum alkunnur viðkomustaður þeirra, sem Lágaskarð fóru… Lágaskarðsleið er úr Hveradölum… austur að Hjalla… nál. 24 km.”

Ölfus

Ölfus – kort.

Hálfdan Jónsson getur Lágaskarðsleiðar í lýsingu Ölfushrepps frá 1703: “Á þessum fjallgarði, er fyrir norðan þessa byggð sveitarinnar liggur, eru þrír vegir vestur á Suðurnes, nefnilega Ólafsskarð, Lágaskarð og Sanddalavegur, hvorjir allir saman koma í einn veg á vestanverðu fjallinu, þá byggðarlönd taka til Suðurnesjajarða.. . Lágaskarð vestur á Bolavelli, er alfaravegur til Reykjavíkur og Hafnarfjarðar.. . Lágaskarð er… vel rudd. Einnig mátti fara um Lágaskarð sem er austar en Þrengslavegur liggur nú. Þeir sem komu “út á Eyrum” og þurftu að komast fljótt til Þingvalla hafa valið þessa leið. Hún var styst.”
Hér að framan er suðurhlíð Skálafells nefnd Langahlíð – ekki Suðurhálsar eins og skrifað er á landakort núdagsins. Langahlíð vestanverð er hins vegar hlíðin handan Skíðaskálans til suðurs.

Lakadalur

Lakadalur – brak.

Gengið var frá austanverðum Lakahnúkum, inn fyrir Lakakrók og inn í Lakadal. Þar var Tröllahlíðum í Trölladal fylgt áleiðis að Suðurhálsum.
Þegar komið er inn á svæðið milli Lakahnúka og Norðurhálsa er verra að hafa landakort meðferðis. Bæði virðast þau misvísandi auk þess sem örnefni virðast ekki vera rétt staðsett. Lakadalur er þarna í suðaustur og Tröllahlíð til austurs. Á milli er Trölladalur. Stóra-Sandfell er í suðri og handan þess Sanddalir. Þegar gengið er suðaustur fyrir Stóra-Sandfell er fallegt útsýni niður í Sanddal. Tröllahlíðin liggur þar upp áleiðis að Lakakrók.
Að þessu sinni var ákveðið að fara fyrst að norðurenda Tröllahlíðar og feta hana síðan ofanverða til suðurs. Hlíðin er mosaþaktir stallar, en auðvelt er að fylgja henni langleiðis. Landslag þarna er fagurt yfir að líta og má segja að hlíðin og og dalurinn beri nöfn með réttu
Leitin í Lakadal bar ekki annan árangur en þar fannst hurð af herflugvél.

Orrustuhólshraun

Brak af C-64 í Orrustuhólshrauni.

Þá var að fara eftir vísbendingu Karls Hjartarsonar um að flakið af flugvélinni væri í gjótu í Orrustuhólshrauni. Samkvæmt henni átti að leggja norðvestast í gamalli malarnámu milli Skíðaskálans og annarrar skammt austar, en úr henni er hægt að aka upp á Ölkelduháls. Þar þangað væri komið átti að ganga með stefnu að bústöðunum undir hlíðum Skarðsmýrarfjalls, þó heldur meira til vesturs við þá.
Þegar komið var upp á hraunbrúnina innan við námuna virtist leitarsvæðið lítt árennilegt – gjóta við gjótu í þykku mosahrauninu svo langt sem augað eygði. Stefnan var samt tekin inn á hraunið samkvæmt framangreindum upplýsingum. Ef ekki hefði verið fyrir frosinn mosann má ætla að erfitt gæti verið að fara fótgangandi um þennan hluta hraunsvæðisins. Eftir u.þ.b. 300 metra gang birtist flakið í gjótunni. Svo virðist sem vélin hafi stungist þarna niður og brak úr henni lítið dreifst. Greinilegt var að eldur hafði kviknað í brakinu. Sjá mátti m.a. annað hjólastellið og annan hjólbarðann. Merki á hvorutveggja gáfu til kynna að um ameríska vél hefði verið að ræða. Á hvorutveggja voru áletranir.

Orrustuhólshraun

Orrustuhólshraun – hjólbarði.

Hjólbarðinn bar “logo” líku gamla Flugfélagsmerkinu og inni í hjólskálinni var eftirfarandi áletrun: “HAYS Industries inc. – Jackson Mich U.S.A.”.
Orrustuhóll er í u.þ.b. 500 metra fjarlægð í austri. Sagnir eru um af flugvél hafi farist við Orrustuhól. Þá áttu hermenn á Núpafjalli að hafa séð blossa þegar flugvélin skall í jörðina. Þarna mun um sömu flugvél vera að ræða.
Eftir fund C64 höfðu báðar flugvélarnar, sem fórust í námunda við Núpafjall verið staðsettar. Ljóst er að ruglingur hefur verið á staðsetningu flugvélaleifanna og því hefur C64 vélin verið talin suðvestan við Núpafjall þar sem Anson vélin fórst á sínum tíma – Sjá HÉR.
Þriðja vélin, sem þarna hrapaði skammt frá, fór í Efrafjall, en frá henni er sagt annars staðar á vefsíðunni. Þá á eftir að staðsetja flak flugvélar er fórst í austanverðum Bláfjöllum á sjötta áratug síðustu aldar.
Frábært veður. Gangan tók 3:03.

Heimildir m.a.:
-Heimildir: Ö-Afr.Ölf. 9; Ö-Breiðabólsstaður, 2; SSÁ, 236; ÁFÍ 1936, 116-118; SB III, 198
-Steinþór Sigurðsson & Skúli Skúlason: “IV. Austur yfir fjall.” ÁFÍ 1936, 116-118.
-Smári Karlsson.
-Karl Hjartarson.

C64

Kristnitökuhraun

Í Lesbók Morgunblaðsins árið 2000 fjallar Gísli Sigurðsson um “Hugmyndir og kenningar um Kristnitökuhraunið“.

KristnitökuhraunVegna þess að Kristnisaga hefur eftir sendiboða að hraunið „mundi hlaupa á bæ Þórodds goða” töldu menn að hér væri sagt frá framrás Þurárhrauns eða Eldborgarhrauns, nokkru vestar, sem bæði runnu niður af hlíðinni ofan Ölfuss. En bæði þessi hraun eru eldri en 1000 ára og Kristnitökuhraunið er nú talið vera á öðrum slóðum.

“Á umliðnum öldum og þá ekki sízt nú á þúsund ára afmæli kristni á Íslandi hafa margsinnis verið rifjuð upp merkileg orðaskipti á Alþingi árið 1000 þegar tekizt var á um hvort heiðinn siður skyldi víkja fyrir hinum kristna. Í nýrri bók, Frumkristni og upphaf kirkju, segir Hjalti Hugason svo um stórmerki á þingtíma: „Í frásögn sinni af kristnitökunni heldur Ari fróði sigalfarið við störf manna á alþingi þetta sumar. Ýmsir þættir kristnitökusögunnar eins og hún er almennt þekkt nú á dögum koma því ekki fyrir í þessari elstu útgáfu hennar. Þar á meðal er sagnstefið um eldsumbrot í Ölfusi.
KristnitökuhraunÍ núverandi mynd kemur það fyrst fram í Kristnisögu frá 13. öld. Þar segir að þegar Gissur og Hjalti luku máli sínu á Lögbergi hafi svo mikill ótti gripið andstæðinga þeirra að þeir hafi ekki árætt að andmæla þeim. Sögðu kristnir menn og heiðnir því næst upp friði sín í milli. Má ætla að sú ógn, sem þannig var upp komin, hafi þó aðeins verið forsmekkur þess sem koma skyldi, en sagan heldur áfram: Þá kom maður hlaupandi, og sagði, aðjarðeldur var upp kominn í Ölfusi, og mundi hann hlaupa á bæ Þórodds goða. Þá tóku heiðnir menn til orðs: „Eigi er undur í að guðin reiðist tölum slíkum.” Þá mælti Snorri goði: „Um hvað reiddust guðin þá, er hér brann hraunið, er nú stöndum vér á”.

KristnitökuhraunBer tvímælalaust að skilja atvik þetta sem eitt af þeim stórmerkjum sem fylgdu kristnitökunni að sögn ýmissa miðaldarita og sýndu að kristnitakan fól í sér úrslitaátök illra og góðra afla tilverunnar.
Athyglisvert er að í þetta sinn er sú túlkun sett fram út frá sjónarhorni heiðinna manna. Hér er á ferðinni eina atvik kristnitökusögunnar sem mögulegt er að styðja ytri rökum, en Kristnitökuhraun á vestanverðri Hellisheiði rann einmitt um þetta leyti. Því kann hér að vera um forna sögn að ræða.”

Kristnitökuhraun

Hellisheiðarhraun.

Bókarhöfundurinn fer frjálslega með staðhætti þegar hann segir Kristnitökuhraun vera á vestanverðri Hellisheiði, að minnsta kosti teygir hann Hellisheiði lengra vestur á bóginn en gott og gilt getur talizt.

Hellisheiði

Hellisheiði – kort.

Ég hygg að sú skilgreining hafi verið til lengi og ekki breytzt neitt nýlega, að Hellisheiði nái frá Kambabrún að austan að Hveradölum og Reykjafelli að vestanverðu. Hverahlíð sé í suðurmörkum heiðarinnar, en Skarðsmýrarfjöll að norðanverðu. Það er fyrst þegar komið er niður úr brekkunum við Hveradali og hálfa leið að vegamótunum suður í Þrengsli að komið er út á Svínahraunsbruna, sem fullvíst má nú telja að sé Kristnitökuhraunið. Þjóðvegurinn liggur síðan á þessu hrauni 10-12 km. Þetta er hluti þeirra hrauna sem tíðkast hefur að nefna Svínahraun, en jarðfræðingar nefna það Svínahraunsbruna. Með mælingum hefur verið staðfest að hraunið rann fyrir um 1000 árum.

Kristnitökuhraun

Svínahraun.

Ekkert annað hraun rann á þessum slóðum um svipað leyti svo það er nokkuð ljóst að sendiboðinn á Alþingi hefur verið að segja frá þessum jarðeldi. Það hefur hinsvegar verið nokkuð frjálslega með farið, en þjónað tilganginum, að gefa til kynna hættu á bæ Þórodds goða, hvort sem hann bjó á Hjalla eða Þóroddsstöðum. Enda þótt meginhluti hraunsins dreifðist til norðausturs frá eldstöðinni náði angi hans suður í Þrengslin. Hefur þá með góðum vilja mátt segja að hann stefndi suður í Ölfus og á bæ goðans.

Leiti

Gígurinn Leiti (á miðri mynd) austan Bláfjalla. Lambafellshnúkur fjær.

Gosið árið 1000 varð á vestara sprungusvæðinu, sem svo er nefnt, og liggur nokkurnveginn samhliða Bláfjöllum að austanverðu. Þar varð stórgos fyrir 4.600 árum í Leitinni, gíg sem er alveg upp við fjallshlíðina og hefur með tímanum fyllst af framburði úr hlíðinni.

Leitarhraun

Leitarhraun – kort.

Leitarhraun rann bæði suður á bóginn, líklega allt til Ölfusárósa, einnig yfir stór flæmi til norðausturs og kvísl úr því rann undan hallanum til vesturs, nokkurnveginn nákvæmlega þar sem Suðurlandsvegurinn liggur, og allt niður í Elliðaárvog.
Sprungusvæðið austan við Bláfjöll hafði að líkindum ekki látið á sér bæra í 3.600 ár þegar upp kom jarðeldur árið 1000 í miðju hrauninu milli Bláfjalla og Lambafells. Þeim sem ekki eru með einstök fjöll og örnefni á hreinu skal bent á að vegamótin suður í Þrengsli eru við Lambafell og fellið þekkist af stóru sári vegna umfangsmikillar efnistöku sem varla fer framhjá vegfarendum.

Vestan og norðvestan við Lambafell urðu til tvær eldstöðvar, Nyrðri- og Syðri-Eldborg. Sú nyrðri sést tilsýndar af veginum í Svínahrauni og þangað liggur stórgrýttur og illfær vegarslóði, en til hvers skyldi hann hafa verið lagður í svo úfið hraun?

Kristnitökuhraun

Eldborgir efst í Svínahrauni.

Það sést þegar komið er nær eldstöðinni. Þar er svöðusár austan í henni eftir efnistöku, hreinn barbarismi og skaði sem ekki er hægt að bæta. Austur frá Nyrðri-Eldborg er á alllöngum kafla mikilfengleg hrauntröð; svo djúp að í henni eru ennþá fannir.

Hellisheiði

Hellisheiðargígar (1900 ára gamlir) – nú gjallhraukar vegna efnistöku. Myndin er frá 1982.

Milli Eldborganna tveggja eru á að giska 4 km. Syðri-Eldborg er aðeins um 2 km frá Leitinni; gosið úr henni kom eitthvað örlítið síðar, það sést á hraunstraumnum.
Kristnitökuhraunið, eða Svínahraunsbruni, sem nú er talið víst að sé úr þessum eldstöðvum, dreifðist undan hallanum norðaustur með Lambafelli og er gífurlega úfið og illt yfirferðar á köflum; samt vaxið þykkum grámosa sem tekur oft á sig gulan lit þegar hann vöknar. Til suðurs rann hraunið sáralítið nema kvísl sem rann fyrir hornið á Lambafelli, út í Þrengslin, yfir eldra hraun úr Hellisheiðareldstöðinni ofan Hveradala, og hefur þá lokað alfaraleið yfir heiðina um Þrengslin. En mest dreifðist hraunrennslið árið 1000 yfir Leitarhraunið til norðausturs, þó ekki nema 2-3 km austur og norðaustur af veginum í Svínahrauni.
Danski fræðimaðurinn Kristian Kálund ferðaðist um Ísland á árunum 1872-74 og gaf síðan út bók um íslenzka sögustaði, sem Haraldur Matthíasson hefur þýtt. Kálund nefnir frásögn Kristnisögu um jarðeld sem ógnaði Hjalla í Ölfusi. Hann segir þar að hraunið sem stefndi á bæ Þórodds goða hafi verið Þurárhraun, sem runnið hafi út úr þröngu gili og fram af brúninni talsvert austan við Hjalla. Þar hafi það dreift talsvert úr sér á flatlendinu.
Þarna fór Kálund villur vegar, enda hafði hann engar rannsóknir til að byggja á. Þurárhraun er úr eldstöðinni ofan við Hveradalabrekkur og rann í mjóum farvegi fram með Skálafelli að austanverðu og niður af hlíðinni eins og áður er lýst.

Kristnitökuhraun

Eldborg við Meitla.

Að sögn Jóns Jónssonar jarðfræðings hefur gosið fjórum sinnum í Hellisheiðareldstöðinni á nútíma, það er síðustu 10 þúsund árin. Hraunið sem þekur hlíðina í Kömbum er þaðan ættað; annað rann suðvestur með Stóra-Meitli og niður Hveradalabrekkuna, en Þurárhraun er yngst; þó miklu eldra en Kristnitökuhraun eða Svínahraunsbruni. Eins og víðar hafa veruleg spjöll verið unnin á Hellisheiðareldstöðinni vegna efnistöku. Gígarnir, eða það sem eftir sést af þeim, eru austan undir háum rauðamalar- og gjallkollum; hrauntraðir út frá þeim til austurs. Hár gjallkollur, sá þeirra sem næstur er þjóðveginum á Hellisheiði, er þó lítt skemmdur og þyrfti að friða hann.
KristnitökuhraunÞorvaldur Thoroddsen fór um þessar slóðir 1882 og minnist í ferðabók sinni á munnmæli um að Þurárhraun sé það hraun sem Kristnisaga getur um. Þorvaldur efast um að það standist og nefnir, að hafi Þóroddur goði búið að Hjalla sé líklegra að sagan eigi við annað nýlegra hraun, komið úr Meitli. Hér á Þorvaldur við hraunið sem runnið hefur fram af hlíðinni vestan við Hjalla og liggur Þrengslavegurinn á þessu hrauni í brekkunni upp á heiðina.
Ekki er alveg ljóst hvort sá mæti maður, Þóroddur goði, bjó á Hjalla eða á Þóroddsstöðum, lítið eitt vestar, og hvort sá bær sé þá nefndur eftir honum. Hafi hann búið þar og þetta hraun steypst fram af hlíðinni sumarið 1000 hefur það verið mjög áhrifamikil bending um reiði guðanna. En sú guða reiði hafði reyndar orðið löngu áður, og hverju reiddust guðin þá? Þetta hraun sem nefnt er Eldborgarhraun eftir eldstöðinni er miklu eldra en kristni á Íslandi; það er að vísu nútímahraun, en nokkur þúsund ára gamalt. Upptökin eru í Eldborg undir Meitlum, mikilfenglegum gíg sem hlaðið hefur upp háan gígbarm að vestanverðu. Hinsvegar er gígurinn opinn mót suðaustri og liggur hrauntröð frá honum fram eftir hrauninu.

Eldborg

Eldborg í Þrengslum.

Sæmileg jeppaslóð liggur frá Þrengslaveginum sunnan undir hlíð Litla-Meitils og allar götur að eldstöðinni. Hafa menn riðlast á torfærubílum alveg upp á gígbrún, en hlíðarnar eru að utanverðu vaxnar þykkum grámosa sem þolir ekki einu sinni umgang, hvað þá ruddaskap af þessu tagi. Ofan af gígbarmi Eldborgar undir Meitlum sést vel yfir þetta hraun og allt til Þorlákshafnar, en til norðausturs yfir eystra sprungusvæðið þar sem áður nefnd eldstöð ofan Hveradala er í beinni línu. Öskulag, sem kennt er við landnám, úr gosi sem átti sér stað liðlega einni öld fyrir kristnitöku, er bæði ofaná Þurárhrauni og Eldborgarhrauni. Þessvegna vita menn að hvorugt þeirra er Kristnitökuhraunið.
Kristnitökuhraun
Þorvaldur Thoroddsen fer villur vegar í lýsingu sinni; segir bæði hraunin „tiltölulega ný og hafa efalaust runnið síðan land byggðist, en sögur segja mjög sjaldan frá náttúruviðburðum, síst á þessum útkjálka.” Í gosannál eldfjallasögu sinnar gerir Þorvaldur ekki upp á milli þessara hrauna, en er þó fyrstur til að draga í efa munnmælin um að Þurárhraun sé Kristnitökuhraunið.
Í lýsingu sinni á jarðfræði Árnessýslu 1943 greinir Guðmundur Kjartansson jarðfræðingur frá eldstöðvum á Hellisheiði og telur hann þar að bæði Þurárhraun og Eldborgarhraun geti átt við lýsingu Kristnisögu. Fram yfir 1960 héldu menn í þessa skoðun.

Heillisheiði

Heillisheiðarhraun (Þurárhraun) og Eldborgarhraun (Grímslækjarhraun).

Víðtækar rannsóknir fóru fram árin 1947-49 á jarðhitasvæðum í Hengli og Hveragerði og þá kannaði Trausti Einarsson jarðfræðingur meðal annars hraunin á Hellisheiði. Í skýrslu sinni frá 1951 segir hann:

Þurárhraun

Þurárhraun.

„Viðvíkjandi aldri Þurárhrauns, má geta þess, að Eldborgarhraun sunnan við Hjalla, sem er mjög gamalt, hefur verið þakið þykkum jarðvegi, er síðar fauk nær algerlega af því. Þurárhraun er hinsvegar mjög unglegt og yngst Hellisheiðarhraunanna, og eina hraunið, sem komið getur heim við frásögn Kristnisögu um eldgos árið 1000.” Þessi kenning fær enn stuðning frá Þorleifi Einarssyni jarðfræðingi 1960. Á sjötta tugnum hafði hann kannað jarðfræði Hellisheiðar og fjallaði hann um niðurstöðurnar í ritgerð sinni til fyrrihlutaprófs í jarðfræði við Kölnarháskóla og síðar einnig í Náttúrufræðingnum.
Kristnitökuhraun
Niðurstaða Þorleifs var svofelld: „Eldstöðvar þær sem best eiga við frásögn Kristnisögu, er eystri gossprungan á Hellisheiði. Hún er um 7 km á lengd frá rótum Stóra-Skarðsmýrarfjalls gegnum Lakahnúka allt suður til Eldborgar undir Meitlum, en Eldborg er reyndar stærsti gígur sprungunnar.”
Raunar segir Þorleifur einnig að Svínahraunsbruni hafi runnið út yfir hraunkvíslina, sem rann vestur af Hellisheiði framan við Hveradali, og sé því runnin eftir árið 1000.
Það virðist vera fyrst um og eftir 1977 að jarðfræðingar átta sig á því að hvorugt hraunanna sem flæddu fram af heiðarbrúninni niður í Ölfus séu Kristnitökuhraunið frá árinu 1000. Jón Jónsson jarðfræðingur birti grein í Náttúrufræðingnum 1977 og þar kemur fram að greining á aldri yngsta hraunsins á Hellisheiði reyndist vera um 1850 geislakolsár. Með öðrum orðum; hraunin, sem runnu niður í Ölfus og talin voru þau sem ógnuðu bæ goðans, voru búin að vera hluti af landslaginu þar í mörg hundruð ár áður en land byggðist.

Eldborgir

Eldborgir efst í Svínahrauni.

Í sömu grein kveðst Jón hafa fundið öskulagið sem kennt er við landnám í jarðvegi ofan á gosmölinni frá Eldborg undir Meitlum. Því sé ljóst að gosið sem Kristnisaga getur um, sé hvorki komið ofan af Hellisheiði né frá Eldborg undir Meitlum. Þar með er ljóst að böndin hafa borizt að Svínahraunsbruna á svæðinu vestan Hellisheiðar.

Grímslækjarhraun

Grímslækjarhraun – afurð Eldborgarhrauns.

Jón Jónsson skrifaði aðra grein í Náttúrufræðinginn 1979 og er fyrirsögn hennar „Kristnitökuhraunið”. Þar segir Jón frá því að landnámsöskulagið hafi fundizt í jarðvegi undir Svínahraunsbruna. Þar með sé ekkert því til fyrirstöðu, að fundið sé það hraun sem getið er um í Kristnisögu og hin fyrsta gosheimild í sögu þjóðarinnar sé því í meginatriðum rétt.
Kenning Jóns fékk mikilvægan stuðning í grein um Krýsuvíkurelda eftir Sigmund Einarsson jarðfræðing árið 1991. Í þeirri grein, sem birtist í tímaritinu Jökli, eru færð rök fyrir því að Eldborgir í Svínahraunsbruna séu hluti af eldstóðvakerfi Brennisteinsfjalla og að þar hafi staðið yfir goshrina á síðari hluta 10. aldar.”

Heimild:
-Lesbók Morgunblaðsins, 01.07.2000, Hugmyndir og kenningar um Kristnitökuhraunið, Gísli Sigurðsson, bls. 10-12.

Eldborg

Eldborg í Kristnitökuhrauni.

Eldborg

Í “Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi (ofan Gamla-Keflavíkurvegarins)” skrifar Sesselja Guðmundsdóttir m.a. um Eldborgina undir Trölladyngju og næsta nágrenni.

Eldborg

Jarðhiti við Eldborg.

“Jarðhiti er í suðurenda Vestra-Lambafells í brekku sem snýr til vesturs. Í fellinu nyrst er djúp og mikilfengleg gjá, Lambafellsgjá, sem gaman er að skoða. Gjáin gengur inn í mitt fellið og er mjög þröng neðst, eða 1—3 m á breidd, en víkkar þegar ofar dregur, lengd sprungunnar er um 150 m og hærra veggstálið er 20-25 m hátt. Það er skemmtilegur „álfabragur“ á því að geta gengið inn í fjall og síðan upp úr því. Í fellinu er bólstrabrotaberg og í gjárveggjunum sést hver „koddinn“ við annan. Örnefnið Lambafellsklofi hefur einnig heyrst og þá er átt við gjána og ein heimild nefnir fellið sjálft Klofningsfell.

Jarðhiti

Jarðhiti í Lambafelli.

Með hlíðum Lambafella liggur Mosastígur (Rauðamelsstígur) . Fyrrum var farið meðfram Núpshlíðarhálsi eða yfir hann allt eftir því hvort fólk var á leið til Krýsuvíkur, á Vigdísarvelli, Selatanga eða til Grindavíkur og var leiðin þarna um kölluð Hálsagötur. Dr. Bjarni Sæmundsson lýsir þessum götum í Árbók Ferðafélags Íslands árið 1936 og segir hann Grindvíkinga nota orðasambandið „aðfara inn í Fjall“ þegar þeir fóru göturnar vestan hálsins.

Eldborg

Eldborg undir Trölladyngju í dag.

Frá Vestra-Lambafelli höldum við yfir svolítið hraunhaft og komum að Eldborg eða Katli en síðara nafnið er að finna í heimild frá Hvassahrauni. Eldborgin var fallega lagaður gígur um 20 m hár með djúpa og gróna gígskál. Borgin var á náttúruminjaskrá en er þar ekki lengur. Mikið efni hefur verið tekið úr gígnum allt frá því vegur var lagður þarna upp eftir og fram til dagsins í dag.

Lambafellsklofi

Í Lambafellsklofa.

Framkvæmdir við tilraunaborholur á svæðinu hafa tekið sinn toll úr Eldborg og er borgin nú sorglegt merki um aðför að náttúrugersemum. Jarðhiti er í og við borgina. Jón Jónsson jarðfræðingur segir í einni ritsmíð sinni: „Gosið í Eldborg er án efa með þeim síðustu á þessu svœði og sennilega hið síðasta. Það er yngra en Afstapahraun …”. Hraunið er frá sögulegum tíma eins og fyrr segir.

Eldborgarhraun sem þekur tæplega fimm ferkílómetra rann upp að Lambafellum og síðan áfram norður og niður úr. Hraunið liggur m.a. að Mosum, Snókafelli og Sóleyjakrika. Sumir kalla fyrrnefnt hraun Lambafellshraun en líklega er réttara að kenna það við Eldborgina sem það kom úr.
Jónsbrennur heitir hitasvæðið suður og vestur af Eldborg og þar sjáum við töluverða gufu á nokkru svæði. Ekki er vitað frá hvaða manni nafnið er komið. Menjar um gamla tilraunaborholu frá Orkustofnun má sjá ofan Jónsbrenna, fast við norðurrætur Trölladyngju.”

Í bókinni “Icelandi pictures” eftir Frederik W.W. Howell frá árinu 1893 má sjá teiknaða mynd af Eldborginni.

Eldborg

Teikning Frederik W.W. Howells af Eldborginni 1893.

Árni Óla segir í bók sinni “Strönd og Vogar” eftirfarandi um Eldborgina undir Dyngjum:
“Norðan við Trölladyngju er stór, gamall og rauður eldgígur, sem nefnist Eldborg. Hann er um 70 fet á hæð. Milli hans og fjallsins er mikill jarðhiti og koma vatnsgufur þar víða upp, allt inn að Höskuldarvöllum og út að Sogi. Fara má norðan við fjöllin og austur fyrir þau. Blasir þá við fell skammt norðaustur í hrauninu. Kallast það Mávahlíðar. Þar eru einnig stórkostlegar gosstöðvar. Rétt fyrir neðan efsta toppinn á þeim (237 m) er stór gígur, allur sundur tættur af eldsumbrotum. Héðan hafa runnið mikil hraun, og sum eftir landnámstíð.”

Eldborg

Jarðhitinn við Eldborg.

Vatnsgufusvæðið umleikis Eldborgina er mismundandi greinanlegt. Það sést best þegar kólnar í veðri. Norðan hennar eru hleðslur, sem einhverjir hafa hlaðið til gufubaðsnota um tíma.

Heimildir:
-Heimild:
-Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi (ofan Gamla-Keflavíkurvegarins), Sesselja Guðmundsdóttir, bls. 123-126.
-Strönd og Vogar, Eldfjöllin, Árni Óla, bls. 250.
-Icelandi pictures, Frederik W.W. Howell, London 1893, bls. 141

Eldborg

Eldborg norðan Trölladyngja. Lambafell fjær.

Stóra-Kóngsfell

Húsfellsbruni er samheiti nokkurra hrauna umleikis og ofan Húsfells í landi Garðabæjar, s.s. Hólmshraunin, Strípshraun, Rjúpnadyngjuhraun, Eyrarhraun og Kóngsfellshraun. Ekkert hraunanna er komið frá Húsfelli. Fellið það er í rauninni saklaust af nafngiftinni, stóð bara þarna eftir að hafa fyrrum áður fæðst undir jökli samfara hánu sinni Helgafelli og Valahnúkum á millum.

Húsfellsbruni

Húsfellsbruni – upptökin við Stóra-Kóngsfell (Kóngsfell). Ruglingur nafngiftarinnar er vegna þess að Kóngsfell er til ekki víðs fjarri, sem og Litla-Kóngsfell. Þá er “Kóngsfell” sýnt á kortum fyrrum, en átti að vera “Konungsfell”. Eftir stendur nefnt “Stóra-Kóngsfell”. Örnefnaruglingur þessi hefur verið tilefni til landamerkjadeilna og dómsmála í gegnum tíðina.

Flest eru brunahraunin svonefndu frá mismunandi tímaskeiðum runnin niður að Húsfelli úr gígum vestan við Kóngsfell (Stóra-Kónsgfell) norðvestan Bláfjalla. Stærsti gígurinn þar er Eldborg austan Drottningar.

Húsfellsbruni er örnefni sem nær yfir mörg nútímahraun og tvö söguleg hraun, Mið-Húsfellsbruna og Elsta-Húsfellsbruna, sem talin eru hafa runnið árið 950. Hraunin hafa þó hlotið önnur örnefni. Hraunið er á köflum úfið, brotið og þakið mosa. Í Húsfellsbrununum leynast eldri hraun, eins og Strípshraun og Stampahraun, sem eru oft töluvert meira gróin. Þá er einnig mikið um gjótur og niðurföll á svæðinu sem sjást vel þegar flogið er yfir svæðið.

Litluborgir

Litluborgir – gervigígur.

Í hrauninu austan og sunnan við Helgafell er að finna fjölda gervigíga og kynjamyndir sem að öllum líkindum hafa myndast þegar Hellnahraun rann yfir grunnt vatn á svæðinu í kringum árið 950. Hluti af svæðinu hefur verið nefnt Litluborgir en þar er að finna áhugaverðar hraunborgir og hraunmyndanir. Sunnan Helgafells er Skúlatúnshraun.

Húsfellsbruna er getið í örnefnalýsingu Ara Gíslasonar um “Garðakirkjuland”: “Sunnan Einihlíðar er Húsfellið fyrrnefnda, og kringum Húsfell heitir Húsfellsbruni. Norður af því heita Grænulautir. Vestur frá Húsfelli er gamalt fróðlegt eldfjall, sem heitir Búrfell.”

HúsfellsbruniÍ “Rannsókn á Kóngsfellshrauni með fjarkönnun og landupplýsingum“, sem Tryggvi Már Sigurjónsson gerði í Jarðvísindadeild Háskóla Íslands 2021, segir m.a.:

Kóngsfellshraun
Kóngsfellshraun er er myndað við eldgos í Brennisteinsfjallakerfinu. Kóngsfellshraun er talið hafa orðið til við eldvirkni kringum árið 950. Kóngsfellshraun er partur af stærri hraunbreiðu sem er kölluð Húsfellsbruni II eða Mið-Húsfellsbruni. Ekki er þekkt hvort Kóngsfellshraun hafi myndast í sama eldgosi og Húsfellsbruni eða hvort hraunin sem hafa myndað Húsfellsbruna einni samfelldri eða ósamfelldri goshrinu. Í þessari ritgerð var notast við kort Jóns Jónssonar (1978) sem viðmið fyrir Kóngsfellhraun ásamt korti Helga Torfason (1999).
HúsfellsbruniÁ myndinni má sjá Kóngsfellshraun ásamt Húsfellsbruna eins og var sett fram Helga Torfasyni o.fl. (1999). Jón Jónsson setti ekki fram áætlun á rúmmáli Kóngsfellshrauns, en hann setti fram áætlun á rúmmáli Rjúpnadyngjuhrauns og Eldborgarhrauns sem hann taldi vera 0,36 km3 hvort. Hans nálgun á áætlun á rúmmáli er að miða við 20 metra meðalþykkt og að áætla flatarmál þess hluta hraunanna sem eru huldir öðru hrauni.

Upptök Kóngsfellshrauns er frá gossprungu sem liggur við og er að hluta til í Stóra-Kóngsfelli sem er 1500 m löng og stefnir N40°.

Húsfellsbruni

Húsfellsbruni.

Stærstu gígarnir liggja á hásléttu við suðvesturhlíð Stóra-Kóngsfells en í suður og norður frá gígunum eru aflíðandi hlíðar sem hraunið hefur runnið niður eftir. Frá tveimur stærstu gígunum hefur verið mesta hraunrennslið. Hraunrennslið úr gígunum var í norðurátt meðfram vesturhlíð Stóra-Kóngsfells og í austurátt meðfram suðurhlíð Stóra-Kóngsfells þar sem það rann áfram milli Stóra-Kóngsfells og Drottningar og þaðan dreifði það sér til vestur, norður og austur. Tvö stór hraunflóð runnu í norður og vestur en minni flæddu í austur meðfram Rauðuhnúkum. Á svæðinu í kringum Stóra-Kóngsfell og Drottningu er hraunið úfið og einkennist af hraunrásum, hraunflóðum og hraunsepum sem hafa runnið yfir hvort annað.

Kóngsfellshraun og Húsfellsbruni
HúsfellsbruniÞað hraun sem skoðað hefur verið í þessari ritgerð er Kóngsfellshraun eins og Jón Jónsson (1978) lýsti því. Eftir nánari skoðun á því má vel búast við því að Kóngsfellshraun gæti verið talsvert umfangsmeira en Jón taldi. Hraun það sem Jón telur vera dyngjuhraun og nefndi Rjúpnadyngjuhraun og liggur milli vestur og norðurhraunflóðanna. Það telst líklegt að það sem Jón Jónsson (1978) taldi vera upptök Rjúpnadyngjuhrauns eru aðeins risgjótur og því ekki gosgígur. Síðari kortlagning af svæðinu sem er á vegum Orkustofnunnar hefur breytt skilgreiningu hrauna á svæðinu. Rjúpnadyngjuhrauni var skipt upp í Húsfellsbruna I og II og einnig var Eldborgarhraun skilgreint sem Húsfellsbruni II.
KóngsfellshraunKóngsfellshraun hafi myndast í sama eldgosi og Húsfellsbruni eða hvort hraunin sem hafa myndað Húsfellsbruna einni samfelldri eða ósamfelldri goshrinu. Jón Jónsson (1978) gaf þó vísbendingar um að Rjúpadyngjuhraun (Húsfellsbruni) gæti verið hluti af Kóngsfellshrauni þar sem bergfærði þeirra voru líkar.
Eins og sést er svæðið sem er skilgreint sem Húsfellsbruni gríðarlega stórt. Svæðið sem það þekur er 29 km2 að stærð og lágmarksrúmmál sem var reiknað er 0,3 km3.
Samanborið við áætlanir Jóns Jónssonar á rúmmáli Rjúpnadyngjuhrauns og Eldborgarhrauns sem hann áætlaði vera 0,36 km3 að rúmmáli eru þetta svipuð gildi. Þó menn séu ekki sammála skilgreiningu hraunanna er ljóst að þetta eru rúmmálsstór hraun sem finnast á þessu svæði.
HúsfellsbruniÞað má telja víst að rannsóknir á Húsfellsbruna og Kóngsfellshrauni hafi verið ófullnægjandi og þarfnist frekari rannsókna. Það er meiri þörf á að rannsaka þessi svæði eftir að gos hófst í Geldingadölum. Það eru því auknar líkur á því að það muni gjósa í fleiri eldstöðvakerfunum sem eru í næsta nágrenni höfuðborgarsvæðisins. Það er því mikilvægt að fá betri mynd á það hvaðan hraunin komu og hversu umfangsmikil eldgosin sem mynduðu þau voru. Það er mikilvægt að vita það til þess að geta áætlað hvert hraun mun geta flætt og hversu langt það getur runnið. Hraun af sömu stærðargráðu og Húsfellsbruni gæti hæglega ógnað byggð.
Eldstöðvar og hraun kringum Stóra-Kóngsfell

Húsfellsbruni

Húsfellsbruni – Herforingjaráðskort frá 1903.

Stóra-Kóngsfell (596 m) er móbergsstapi sem liggur um 12 km frá Reykjavík og 2 km frá skíðasvæði Bláfjalla. Tvö misgengi ganga í gegnum það. Frá suðvesturhlíð Stóra-Kóngsfells liggur háslétta sem nær vestur til Grindaskarða. Rétt austan við Stóra-Kóngsfell er Drottning (513 m) sem er einnig móbergsstapi en þó töluvert smærri.

Hólmshraun

Hólmshraun – uppdráttur Jón Jónsson.

Hólmshraunin er að finna í suðaustur átt frá Höfuðborgarsvæðinu. Hraunbreiður þeirra teygja anga sína í Heiðmörk við Reykjavík og hafa runnið yfir hluta af Leitarhrauni.
Hraunin liggja á svæði norður frá Þríhnúkum og Stóra-Kóngsfelli, austan frá Húsfelli að Rjúpnadalshnúka og niður í Heiðmörk. Hólmshraun er ekki eitt hraun heldur nokkur hraun sem eiga upptök sín á svæðinu milli Bláfjalla og Þríhnúka.

Bláfjöll

Bláfjöll – Eldborg er einn þriggja gíga af eldborgargerð hjá fjallinu Kóngsfelli, sem er áberandi fjall í Bláfjallafjallgarðinum.
Þegar þunnt hraun flæðir upp úr gossprungu myndar það smám saman litla gíga úr hraunslettum. Við það verður til glóandi hrauntjörn innan gígveggjanna. Hraunið slettist og streymir jafnvel yfir barmana sem hækka og þykkna. Þannig myndast eldborg. Gígveggirnir verða brattir efst og þunnir. Verði veggirnir mjög háir finnur kvikan sér stundum leið í gegnum þá.

Eldborg er stærsti gígur á 1,5 km langri gossprungu með norðaustur stefnu sem úr rann hraun sem er nefnt Hólmshraun V af Jóni Jónssyni (1972). Eldborg liggur um 0,5 km austan við Drottningu. Samkvæmt jarðfræðikorti er hraunið frá Eldborg partur af hraunbreiðu sem er nefnd Húsfellsbruni I. Það hraun rann vestur að Húsfelli og norðan Selfjalls.

Á hásléttunni sem liggur vestur frá Stóra-Kóngsfelli eru Þríhnúkar sem samanstanda af þrem hnúkum, af þeim eru tveir gjallhnúkar og einn móbergshnúkur. Tvö þekkt hraun hafa komið frá Þríhnúkum, Þríhnúkahraun eldra og yngra. Þríhnúkahraun eldra hefur náð alla leið til Helgafells og hefur líklega runnið að einhverju leyti að Stóra-Kóngsfelli. Bæði hraunin eru talin hafa gosið fyrir meira en 4500 árum .

Eyra

Eyra.

Vestan við Stóra-Kóngsfell og norðaustan frá Þríhnúkum er einn stakur gígur sem Jón Jónsson (1978) nefnir Eyra. Kóngsfellshraun rennur alveg upp að honum og hylur hraunið sem hefur komið frá honum. Samkvæmt Jóni Jónssyni er Strípshraun sem liggur sunnan Elliðavatns komið frá þessum gíg. Um 5 kílómetra vegalengd er þakin yngra hrauni milli Eyra og Strípshrauns. Norðurhluti Kóngsfellshrauns rennur að Strípshrauni og hefur runnið yfir hluta þess.

Heimild m.a.:
-Rannsókn á Kóngsfellshrauni með fjarkönnun og landupplýsingum, Tryggvi Már Sigurjónsson, Háskóli Íslands, 2021.
-Örnefnaskrá, Ari Gíslason; “Garðakirkjuland”.

Stóra-Kóngsfell

Gígur í Stóra-Kóngsfelli.

Kleifarvatn

“Svo er talið, að Ögmundarhraun hafi runnið (eða brunnið, eins og Snorri goði mundi hafa orðað það) um miðja 14. öld.

Austurengjahver

Austurengjahver.

Um stað þann, sem nú er kallaður Húshólmi, þar sem er miklu eldra hraun undir gróðrinum en Ögmundarhraun er, hefur hraunstraumurinn klofnað. Hefur önnur álman runnið fyrir vestan hólma þennan, en hin fyrir austan hann og báðar beint í sæ út. Rétt austan við vestari hrauntunguna eru bæjarrústir nokkrar, og er auðsætt, að eitthvað af húsunum hefur orðið undir hraunstraumnum.

Húshólmi

Vísan á Húshólmastíg.

Er og almennt álitið, að þarna hafi bærinn Krýsuvík upphaflega staðið, enda lítt hugsanlegt, að bænum hafi verið valið víkurnafnið, ef hann hefði frá öndverðu verið þar, sem hann nú er, nálega hálfa fimm kílómetra frá sjó, enda ekki um neina vík neins staðar að ræða. Bæjarrústir þessar eru og enn þann dag í dag jafnan nefndar gamla Krýsuvík eða Krýsuvík hin forna. Suður og suðvestur af bæjarrústum þessum verður lægð nokkur í hraunstrauminn, og álíta sumir, að einmitt þar hafi víkin sjálf verið, sú er bærinn dró nafn sitt af rétt vestan við Húshólmann við Húshólmafjöruna. Kirkjuflöt heitir og rétt hjá rústunum.

Húshólmi

Húshólmi – minjar.

Ráðleggja mætti þeim, sem skoða vildu tóftarbrot þessi og vinna sé það á sem auðveldastan hátt, að fara í bifreið úr Grindavík austur fyrir Ögmundarhraun, (akstur eins og vegurinn er nú), ganga síðan suður með austurjarðri hraunsins, þar til komið er að stíg þeim, sem liggur yfir eystri hraunálmuna út í Húshólmann, þar til komið er að bæjarrústunum. Mun ganga þessi vara eina klukkustund, þótt ekki sé allrösklega farið.

Kleifarvatn

Kleifarvatn.

Svo sem mörgum er kunnugt liggur Kleifarvatn í klauf þeirri, sem verður millum Sveifluháls og Vatnshlíðarinnar, og þegar komið er sunnan við vatnið, virðist sem fjöll þessi nái saman við norðurenda vatnsins. Hyggja því sumir, að vatnið dragi nafn sitt af klofa þessum. Um háttsemi þessa stóra stöðuvatns og misvöxt þess hafa ýmsir mætir menn skrifað margt og mikið nú á síðari árum, og skal því ekki farið út í þá sálma hér, enda ekki leikmönnum hent að leggja þar orð í belg.

Víti

Víti.

Sá hluti af Krýsuvíkurengjunum, sem lægst liggur og næst vatninu að sunnan, heitir Nýjaland (hið inna og fremra). Misvöxtur vatnsins veldur því, að engjasvæði þessi liggja oft svo árum skiptir í senn undir ágangi Kleifarvatns, en mjór malarhryggur, sem gengur til vesturs frá norðurenda Hvammholtsins, skiptir Nýjalandinu í tvennt, hið innra og fremra, og kallast tangi sá Rif.

Nýjaland

Nýjaland.

Vestan við Fremralandið og við vesturenda Rifsins rennur lækur sá, er nefnist Ós inn á Innralandið og í vatnið sjálft. Á Ósinn upptök sín að mestu á Vesturengjunum og í Seltúnshverfunum, en smálindir koma þó í hann af Austurengi, úr Hvömmunum og Lambafellum.

Nýjaland

Nýjaland – tóft.

Svo er landslagi háttað, að Fremralandið var miklu lengur slægt en hið innra, og nam sá tími einatt nokkrum sumrum. Mátti í góðu grasári heyja um sex hundruð hestburði á hvoru Nýjalandi, þegar vatnið var svo þorrið, að unnt var að slá þau bæði.

Ekki er það fátítt, að stararstráin á Nýjalandi verði rúmlega álnarhá, því að oftast nær flæðir Ósinn yfir að vetrarengi, hvað sem vexti Kleifarvatns líður.

Kleifarvatn

Kleifarvatn – hverir.

Hverir eru í vatninu, og sjást reykir nokkrir leggja upp úr því í logni, en á vetrum eru þar jafnan vakir. Sjaldan leggur vatnið fyrir vetrarsólstöður.
Þegar lítið var í vatninu, var jafnan “farið með því”, þá er sækja þurfti til Hafnarfjarðar. Lá sú leið eftir allri vesturströnd vatnsins, milli þess og Sveifluháls, þar sem seinna var gerður akvegur. Er sá vegur greiðfærari miklu og talsvert skemmri en sá að fara Ketilsstíg og síðan “með hlíðunum”.

Á korti herforingjaráðsins er nafnið Ketilstígur sett fram með Sveifluhálsi að norðvestan, en það er ekki nákvæmt, því að Ketilsstígur heitir aðeins sá hluti þeirrar leiðar, sem liggur upp á Sveifluháls að Norðanverðu, og er stígur þessi innan í gömlum gíg, sem kallast Ketill.

Ketilsstígur

Ketilsstígur.

Austur og suðaustur af Arnarfelli er mýrarfláki, stór nokkuð, sem kallast Bleiksmýri, og var þar mikill áfangastaður á þeim tímum, sem þeir Árnesingar og Rangæingar fóru skreiðarferðir til verstöðvanna á Reykjanesskaga. Mátti einatt sjá marga tugi eða jafnvel nokkur hundruð hesta á Bleiksmýri í einu og fjöldi tjalda, þegar hæst stóðu lestaferðirnar. Mun og mörgum hestinum hafa þótt gott að koma í Bleiksmýri úr hagleysinu og vatnsskortinum á Reykjanesskaganum. Var og ekki óalgengt að menn lægju þar einn og tvo daga til þess að hestar þeirra fengju sem besta fylli sína, áður en lengra var haldið.

Víða í hraununum á Reykjanesskaga, eins og reyndar víðar á landi hér, getur að líta nokkuð djúpa götutroðninga í hraunhellunum eftir margra alda umferð. Má þar um segja: “Enn þá sjást í hellum hófaförin”.”

Ögmundarstígur

Ögmundarstígur.

Í Ögmundarhrauni mynduðust holur með þröskuldum á milli, og var hver hola um eitt fet í þvermál og hnédjúp hestum, og í rigningatíð stóðu holur þessar fullar af vatni. Fyrir nokkrum áratugum var gerð vegabót nokkur í Ögmundarhrauni, og holur þessar fylltar upp. Í gamalli og alþekktri vísu segir svo:
Eru í hrauni Ögmundar
ótal margir þröskuldar,
fáka meiða fæturna
og fyrir oss brjóta skeifurnar.

Fáni

Flaggað við Eiríksvörðu á Arnarfelli.

Það mun mega teljast hæpið hvort örnefnið Gullbringa sé sýnt á alveg réttum stað á korti herforingjaráðsins, þar sem það er sett á hæð eina, 308 metra háa, sunnarlega í Vatnshlíðinni. Þeir, sem kunnugir eru á þessum slóðum, hafa jafnan kallað Gullbringu lyngbrekku þá, sem er vestan í Vatnshlíðinni og nær niður undir austurströnd Kleifarvatns. Ýmsir telja, að sýslan dragi nafn sitt af þessari brekku. Mætti í því sambandi benda á það, að ekki eru þeir allir fyrirferðarmiklir staðirnir á Íslandi, sem heilar sýslur draga nafn sitt af.

Stóra-Eldborg

Stóra-Eldborg vestast undir Geitahlíð.

Þrjá til fjóra kílómetra austur frá bænum í Krýsuvík er Eldborgin, og svipar henni að mörgu leyti til nöfnu sinnar í Hnappadalssýslu – þeirrar, sem Hendersen gerði víðfræga með teikningu sinni. Skarð það, er verður millum Eldborgar og Geitahlíðar, heitir Deildarháls, og liggur alfaravegurinn yfir hann.
Dr. Þorvaldur Thoroddsen taldi gíginn í Eldborg vera 500 fet að ummáli að ofan og 105 á dýpt, en hæð fellsins telur hann 172 fet. Meinaði hann þar eflaust hæð Eldborgarinnar yfir jarðlendinu umhverfis hana, því að á korti herforingjaráðsins er hæð hennar yfir sjávarmáli talin 180 metrar.

Æsubúðir

Æsubúðir.

Efst í Geitahlíð er og gígur mikill, en hann er eldri en síðasta jökulöld, eins og reyndar hlíðin öll er. Barma gígs þessa ber hærra en aðra hluta Geitahlíðar, er heita Æsubúðir. Niður af Æsubúðum, en sunnan í Geitahlíð, verður hvammur sá, er kallast Hvítskeggshvammur eða Hvítskeifshvammur, og er til prentuð þjóðsaga um þessi örnefni, en eigi er sú sögn allsennileg.
Skammt fyrir austan Deildarháls og hvamm þennan eru Kerlingar (sagan um Krýs og Herdísi), Bálkahellir (lítt eða ekki kannaður), Gvendarhellir (bóndi í Krýsuvíkurhverfinu, Guðmundur að nafni, hýsti fé sitt í þessum helli þá er harðindi gengu, líklega á fyrri hluta 19. aldar), og Kerið á Keflavík (uppi á 6 metra háum hamri ofan við Keflavík er op, Kerið, niður í flæðamál).

Austurengjahver

Austurengjahver.

Leirhverin mikil í Krýsuvík, sá er myndaðist við sprengjugosið, er þar varð haustið 1924 og olli landskjálftum nokkrum víða um Surðurland, er þar, sem áður var vatnshver lítill og hét Austurengjahver. Virðist svo, að leirhverinn megi og vel halda sama nafninu. Fúlipollur er næstum á miðjum Vesturengjum, og er hann eitthvert stærsta hverastæðið, sem til er í Krýsuvík, virðist ekki þurfa að velkja það lengi fyrir sér, að endur fyrir löngu hafi þarna orðið sprengigos líkt því, er varð þá, er Austurnegjahver endurmagnaðist, haustið 1924. Auðsætt er, að hverinn er á hrörnunarskeiði. Ýms merki virðast og benda til þess, að Austurnegjahver muni ekki heldur verða neinn Ókólnir.

Arnarfellstjörn

Arnarfellstjörn.

Ekki skal hér rætt um breinnisteininn í Krýsuvík né þann í Brennisteinsfjöllunum, enda eru Brennisteinsfjöllin austan sýslumarkanna og því í Herdísarvíkurlandi.
Þess hefur orðið vart, að sumir menn halda, að örnefnið Víti sé hver, en svo er eigi. Víti er hraunfoss, sem fallið hefur vestur af hálendisbrún þeirri, sem verður norður af Geitahlíð, og er hraunfoss þessi sennilega á svipuðum aldri og Ögmundarhraun. Hann er nú storknaður fyrir löngu og allur gróinn þykkum grámosa.

Dysjar

Dysjar Herdísar, Krýsu og smalans í Kerlingadal.

Eiríksvarða á Arnarfelli er vel þekkt úr þjóðsögum, sem segja, að séra Eríkur Magnússon, hinn fjölkunnugi Vogsósaklerkur, hafi hlaðið hana og mælt svo um, að aldrei skyldu Tyrkir koma í Krýsuvík meðan varðan stæði uppi. Nú er varðan hrunin, næstum í grunn, en Bandaríkjamenn komu í Krýsuvík, þegar seta þeirra í landinu hófst.
Vestan í Geitahlíð og skammt fyrir neðan fjallsbrúnina sjálfa leggur jafnan á vetrum þykka fönn, langa en ekki breiða. Er fönn þessi sjaldan horfin með öllu fyrr en um Jónsmessu, og dregur hún nafn sitt af því.
Krýsuvík hefu lengi verið talin einhver mesta útigöngujörð fyrir sauðfé á landi hér, einkum þó þeirra jarða, sem ekki hafa fjörubeit, og ekki var það ótítt að sumt féð þar lærði aldrei átið.

Húshólmi

Húshólmi – einn hinna fornu garða.

Vægar jarðhræringar voru ekki sjaldgæfar í Krýsuvíkurhverfinu og voru þær kallaðar hverakippir þar.
Mótak er þar sums staðar í mýrunum, en ekki þykir mórinn þar góður til eldsneytis. Er hann allur mjög blandinn hveraleir, svo að af sumum kögglunum leggur brennisteinslyktina, þegar þeim er brennt.
Fremur þykir vera þokusamt í Þrýsuvík og lengi hefu verið við brugðið, hversu myrk þokan geti orðið þar. Er það haft eftir manni nokkrum, að eitt sinn hafi hann verið á ferð um Sveifluháls í svo miklu myrkviðri, að hann hafi séð þokuna sitja í olnbogabótinni á sér. Rigningasamt í meira lagi þykir og vera þar, svo einatt er þurrviðri í næstu byggðarlögum, þótt rigning sé í Krýsuvík.

-Úr sunnudagsblaði Tímans 2. júlí 1967 – Stefán Stefánsson.

Gullbringa

Gullbringa.

Ólafsskarðsvegur

Gengið var um Svínahraunsbruna milli Blákolls og Lambafellshnúks.

Eldborg

Eldborgin syðri í Svínahrauni.

Mikilli hrauntröð var fylgt upp hraunið, áleiðis að Eldborginni nyrðri. Hún blasti við framundan, há og tignarleg. Þaðan frá séð er hún líkari mosagrónu fjalli, en þegar hrauntröðinni var fylgt áleiðis austur fyrir hana kom eldfjallalagið betur í ljós. Slóði liggur upp að gígnum og hefur verið krukkað í hann að norðanverðu. Reykjavegurinn liggur upp með gjárbarminum að austanverðu, að Eldborginni og áfram til suðurvesturs, að gígnum Leiti undir austanverðum Bláfjöllum. Lambafellið sést vel í austri og Sauðadalshnúkarnir í vestri.

Kristnitökuhraun

Eldborgin syðri og gígurinn Leiti efst í Svínahrauni.

Gengið var upp á Eldborgina. Í henni eru tveir stórir gígar, hvorum öðrum myndarlegri. Frá brúnum þeirra sést hrauntröðin vel þar sem hún liðast niður hraunið. Ofar sést Eldborgin syðri, tilkomumikil.

Leitarhraun

Leitarhraun – uppdráttur.

Á milli Eldborganna er eldra hraun, Leitarhraunið, og sést Leiti vel undir brúnunum. Gígaröð liggur milli Eldborganna, mynduð af fremur litlum gígum og eru þeir flestir ofan við nyrðri Eldborgina. Í einum þeirra er gat niður, um tveggja mannhæða hátt. Forvitnilegt væri að skoða niður í það við tækifæri. Fjölmörg vatnsstæði er í grónum hraunbollum Leitarhrauns, sem er 5000 ára um þessar mundir.

Eldborgir

Hrauntröð norðan Eldborga.

Leitarhraun, sem ásamt ýmsum yngri hraunum (Hólmsárhraunum) gengur einnig undir nafninu Elliðaárhraun, einkum vestan til. Það verður rakið óslitið frá Draugahlíðum niður í Elliðaárvog. Hefur það breiðst víða út, svo sem um Sandskeið og norðvestur yfir Fóelluvötn; heita þar Mosar.

Einnig hefur hraunið runnið til austurs og niður á láglendi í Ölfusi, Hraunsheiði, og líklega í sjó í Þorlákshöfn. Í þessari álmu hraunsins eru tveir af stærstu hellum landsins, Raufarhólshellir og Búri. Annars staðar í hrauninu eru nokkrir smáhellar, svo sem hjá Vatnaöldum. Allvíða eru gervigígar í Leitahrauni, en merkastir eru Rauðhólar.

Eldborg

Hrauntröð.

Suðurlandsvegur liggur á löngum kafla á Leitahrauni, frá Elliðaám að Draugahlíðum. Einnig liggur Þrengslavegur á hrauninu, frá Þrengslum og niður í Ölfus. Frá Draugahlíðum að Þrengslum liggur vegurinn á Svínahraunsbruna en það eru tvö apalhraun sem komið hafa upp á sögulegum tíma í Eldborgum vestan Lambafells og liggja ofan á Leitahrauni. Annað þessara hrauna hefur verið nefnt Kristnitökuhraun.
Þegar komið var upp á syðri Eldborgina sást mikill ílangur gígur. Hraunið frá gígnum hefur mest runnið til austurs og beygt síðan til norðurs, vestan við Lambafellsháls. Ofan við hann sést Lambafellið og ennþá fjær.

Geitafell

Geitafell.

Í suðri stendur Geitafellið staðfast. Í hrauninu austan við Eldborgina sást í stórt gat. Þegar það var skoðað kom í ljós endi lítillar hrauntraðar. Í enda hennar er skúti og inn úr honum liggur rás. Hún var ekki skoðuð að þessu sinni. Fara þarf á fjórum fótum inn eftir rásinni, en ekki er vitað hvað þar kann að leynast inni.

Ólafsskarð

Ólafsskarðsvegur austan Geitafells – vörðukort (ÁH).

Gengið var upp á Ólafsskarðsveginn milli Eldborgarinnar syðri og Bláfjalla. Leiðin er vörðuð. Barmar Leitisins eru allháir, enda mikið hraun úr því komið. Mest af því hefur runnið til austurs og suðurs, en mjó ræma rann til norðvesturs, alla leið til sjávar í Elliðaárósum. Renna Elliðaárnar um það á kafla.

Eldborg

Eldborgin nyrðri í Svínahrauni.

Neðan við Leiti liggur vörðuð leiðin inn fyrir þau með austanverðum Bláfjallabrúnunum. Ólafsskarðsvegurinn heldur áfram áleiðis að Ólafsskarði, sem sést vel framundan, milli Sauðdalshnúka og Ólafsskarðshnúka. Neðan við Leiti er önnur leið vörðuð niður Lambafellshraunið, áleiðis að Sandfelli og niður með austanverðum Krossfjöllum þar sem eru gatnamót, annars vegar götu að Breiðabólstað og hins vegar að Hjalla. Þá sést og í A-laga skátaskála uppi í fyrrnefndu hnúkunum. Austan við skarðið er gamall skíðaskáli, en þegar kíkt er niður skarðið að vestanverðu, niður í Jósepsdal, má sjá leifar af gamalli skíðalyftu og fleira.

Ólafsskarð

Ólafsskarð – skíðaskáli.

Dalverpi suðaustan undir Vífilsfelli. Jósepsdalur er undir Ólafsskarði en um það var gömul alfaraleið úr Ölfusi til Reykjavíkur. Samkvæmt munnmælum átti tröllkona að hafa búið þar í helli fyrr á öldum.

Þjóðsaga um Jósepsdal hermir að í dalnum hafi búið maður sá er Jósep hét og verið smiður mikill. Hafði hann svo óguðlegan munnsöfnuð, blót og formælingar, að bærinn sökk.
Eftir að hafa skoðað skálann var gengið niður Leitarhraunið, að upphafsstað.

Jópsepsdalur

Jósepsdalur.

Á leiðinni var frábært útsýni yfir að Eldborgunum og fjöllunum umhverfis.
Kristnitökuhraunið svonefnda er rann um 1000 er talið vera úr þessum Eldborgargígunum. Þarna hefur gosið á sprungurein og endagígarnir verið sýnum stærstir. Svo virðist sem gosið hafi lengur, eða síðar, úr syðri Eldborginni því hraunið úr henni virðist liggja utan í og yfir hinu mikla hrauni, sem komið hefur úr megineldgígunum í nyrðri Eldborginni. Gígarnir tveir eru með fallegri hraungígum á Reykjanesskaganum.

Leiti

Leiti.

Ólafsskarðsvegur er nefndur eftir samnefndum bryta í Skálholti. Í frásögn Brynjúlfs Jónssonar frá Minna-Núpi segir að einni sinni hafi lyklakippa Skálholtsstaðar týnst, og fannst hún hvergi. Varð að smíða aðra lykla. Leið síðan fram, þangað til 12 ár voru liðin og lyklatapið farið að gleymast, þá fundust lyklarnir í Lyklafelli hjá Fóelluvötnum. Kom þá upp hið sama, að ráðsmaður (eða bryti) staðarins hafði haft lyklana á sér, er hann reið í Reykjavíkurkaupstað, og hafði týnt þeim í fellinu, er hann áði.

Austurleið

Austurleið sunnan Lyklafells.

Um Lyklafell fjallar og þekkt þjóðsaga af sama meiði. Hún er um nefndan Ólaf bryta í Skálholti. Á að hafa soðið upp úr milli hans og ráðskonunnar á staðnum. Hún var ótúlegt skass og skaut honum svo skelk í bringu að hann lagði á blindan flótta og nam ekki staðar fyrr en við Lyklafell og kastaði þar búrlyklunum. Síðan hélt hann um Ólafsskarð upp úr Jósefsdal Ólafsskarðveg og heitir skarðið eftir honum. Steðjaði hann austur sýslur á Fjallabaksleið syðri. Við Brytalæki á Fjallabaksleið austanverðri datt hann dauður niður.

Frábært veður – milt og hlýtt. Gangan tók 3 klst og 33 mínútur.

Eldborgir

Eldborgir – loftmynd.

Kiwanis

FERLIR var mað kynningu á Kiwanisfundi Eldborgar í Hafnarfirði um dásemdir Reykjanesskagans, auk þess sem tækifærið var notað til að kynna sér félagsskapinn. FERLIR notar jafnan tækifærið á samkomum sem þessum að fræðast um viðfangsefnin því meðlimir klúbbanna búa sem einstaklingar yfir mikilli alhliða vitneskju.

1. Staðreyndir um Kiwanishreyfinguna
KiwanisKiwanishreyfingin var stofnuð í Detroit í Michiganfylki í Bandaríkjunum þann 21.janúar 1915. Þann 1.nóvember 1916 var fyrsti klúbburinn stofnaður í Kanada í Hamilton í Ontarioríki. Sama ár var heitið “Kiwanisklúbbur” tekið upp á fundi í Cleveland í Ohio (USA). Átta árum síðar var heitinu breytt í “Kiwanis International” (Alþjóðahreyfing Kiwanisfélaga) og þá var stofnskrá sú og lög staðfest, sem gilda enn í dag, svo og meginmarkmiðin sex. Kiwanishreyfingin óx jafnt og þétt, bæði í Bandaríkjunum og Kanada, í nær hálfa öld áður en ákveðið var að breiða hana út til annarra heimsálfa og þjóða, en það var árið 1961.

Árið 1962 var fyrsti klúbbur utan Bandaríkjanna og Kanada stofnaður, en það var í Mexíco og skömmu síðar var annar stofnaður á Bahamaeyjum. Árið 1963 voru 7 klúbbar stofnaðir í Evrópu, sá fyrsti 25. febrúar í Vínarborg í Austurríki. Fyrsti klúbburinn á Norðurlöndum var stofnaður 10.janúar 1964 í Osló í Noregi og fjórum dögum síðar var komið að Íslandi, en þá var Kiwanisklúbburinn Hekla stofnaður í Reykjavík og var hann 9. klúbburinn sem stofnaður var í Evrópu.

Kiwanis á Íslandi

FERLIR

Fulltrúi FERLIRs rakti söguna…

Tveimur árum síðar eða 31.mars 1966 var annar klúbbur stofnaður en það var Kiwanisklúbburinn Katla í Reykjavík. Þar með má segja að Kiwanishreyfingin hafi náð fótfestu á Íslandi og voru fjölmargir klúbbar stofnaðir í kjölfarið. Kiwanisklúbburinn Helgafell sem starfar í Vestmannaeyjum var stofnaður af Kötlu 28.september 1967 og er nú langstærsti Kiwanisklúbbur á Íslandi og þó víðar væri leitað og hefur verið lengi. Félagafjöldi Helgafells starfsárið 1999-2000 er 78 félagar. Kiwanisklúbburinn Harpa var stofnaður 15.júní 1989 og var fyrsti klúbburinn sem eingöngu er skipaður konum.

2. Hvað er Kiwanis

Kiwanis

Á Kiwanisfundi.

Kiwanis er alþjóðleg þjónustuhreyfing manna og kvenna, sem hafa áhuga á að taka virkan þátt í að bæta samfélagið, og láta gott af sér leiða. Í samstarfi fá þessir aðilar áorkað því sem einstaklingar geta ekki einir. Frjálst samstarf gerir þeim kleift að vinna að alþjóðlegum verkefnum innan hinnar alþjóðlegu hreyfingar. Þeir vinna einnig að umbótum á landsvísu. Ekki síst vinna þeir að mannúðar og framfaramálum sem horfa til heilla fyrir bæjarfélag þeirra, sem opinberir aðilar annað hvort vilja ekki eða geta ekki sinnt. Þannig verða þeir leiðandi aðilar í sínu byggðarlagi.

Sem dæmi má nefna aðstoð við ungt fólk eða aldrað, náttúruvernd, þróun félagslegrar aðstöðu og eflingu vináttu og skilnings milli manna og þjóða. En hvert svo sem markmið Kiwanisfélaga er, er þeim öllum sameiginlegur þjónustuviljinn og löngunin til að eignast góða félaga innan klúbbsins síns og Kiwanishreyfingarinnar.

Nokkrar skilgreiningar:

Kiwanis

Nokkrir Kiwanisfélagar Eldborgar.

Kiwanishreyfingin er þjónustuhreyfing en ekki afþreyingarfélag. Þó geta menn eignast þar góða vini í samvinnu við aðra Kiwanisfélaga um ýmis þjóðþrifa- og framfaramál í hinum sanna Kiwanisanda.
Kiwanisfélagar starfa fyrir opnum tjöldum enda er hér ekki um leynilegan félagsskap að ræða. Kiwanisfélagar vilja einmitt gjarnan vekja athygli á störfum sínum til þess að afla sér stuðnings í þjónustustarfi sínu.
Kiwanishreyfingin leggur áherslu á manngildi og eflingu félagskenndar meðal félaganna.
Hver klúbbur reynir að þjóna sem best því samfélagi, sem hann starfar í. Kiwanishreyfingin skyldar hvorki klúbba né einstaka félaga þeirra til að taka þátt í neinni sérstakri starfsemi.

Nafnið
Nafnið “Kiwanis er tekið úr máli indíánaþjóðflokks sem eitt sinn byggði það svæði þar sem Kiwanishreyfingin var stofnuð. Upprunalega hljómaði þetta sem “Nunc Keewanis” í þeirra munni og þýðir nánast “sjálfstjáning”. Þetta var stytt í “Kiwanis” – “tjáning”.

3. Kjörorðin og hin sex megin markmið

Kiwanis

Í Kiwanis er meiri áhersla lögð á andleg verðmæti en veraldleg.

Undir kjörorðinu “Við byggjum” hefur Kiwanishreyfingin vaxið og dafnað og orðið víðkunn um allan heim. Undanfarin ár hafa íslensku umdæmisstjórarnir haft að leiðarljósi kjörorðið “Börnin fyrst og fremst” og hefur íslenska hreyfingin unnið að málefnum barna undir þessu kjörorði.

Hin sex megin markmið Kiwanishreyfingarinnar:
-Að láta andleg og mannleg verðmæti skipa æðri sess, en verðmæti af veraldlegum toga spunnin.
-Stuðla ber að því að dagleg breytni manna á meðal byggist á hinni gullvægu reglu: “Eins og þér viljið að aðrir menn gjöri yður, það skuluð þér og þeim gjöra”.
-Að beita sér fyrir bættum viðskiptaháttum, starfsháttum og félagslegri hegðun.
-Að efla borgaralegar dyggðir með góðu fordæmi.

Kiwanis

Á Kiwanisfundir Eldborgar.

-Að skapa, með stofnun Kiwanisklúbba, leiðir til þess að menn geti bundist varanlegum vináttuböndum og ósérhlífnir innt af höndum þjónustustörf og stuðlað að betra samfélagi.
-Að vinna saman að mótun og eflingu heilbrigðs almenningsálits og göfugrar hugsjónastefnu, sem er undirstaða aukinnar ráðvendni, bættrar stundvísi, vaxandi þjóðrækni og bræðralags.

4. Tímamót í Kiwanishreyfingunni

Árið 1915. Kiwanishreyfingin er stofnuð 21.janúar 1915. Þann dag var Kiwanisklúbbi nr. 1 í Detroit veitt stofnskjal frá Michiganríki í Bandaríkjunum.
Árið 1916. Fyrsti Kiwanisklúbburinn stofnaður utan Bandaríkjanna í Hamilton, Ontario, Kanada, í nóvember.
Árið 1964. Fyrsti klúbburinn stofnaður á Íslandi, Kiwanisklúbburinn Hekla.

5. Fjöldi Kiwanisklúbba og félaga
KiwanisHeildarfjöldi Kiwanisklúbba í heiminum er um 8600 og félagatala þeirra er rúmlega 310 þúsund manns. En ef teknir eru með meðlimir klúbba úr ungliðahreyfingu Kiwanis og fleiri hliðarklúbba hreyfingarinnar eru um 600 þúsund manns tengdir hreyfingunni.
Fjöldi Kiwanisklúbba í umdæminu Ísland-Færeyjar hefur mest orðið 49. Í dag eru starfandi 42 Kiwanisklúbbar í umdæminu með rúmlega ellefu hundruð félögum.
Lengi vel var Kiwanishreyfingin eingöngu skipuð körlum. En á árinu 1987 var samþykkt á heimsþingi Kiwanis, að leyfilegt væri að taka konur inn í hreyfinguna. Stuttu síðar hófst innganga kvenna í íslensku Kiwanishreyfinguna. Fyrsti Kiwanisklúbburinn sem eingöngu var skipaður konum var stofnaður 1989 en það er Kiwanisklúbburinn Harpa.

6. Sameiginleg verkefni Umdæmisins Ísland-Færeyjar

Kiwanis

Kiwanis þýðir “tjáning”.

Stærsta verkefni íslensku Kiwanishreyfingarinnar er sala K-lykilsins sem er landssöfnun. Ágóðinn af verkefninu hefur runnið til styrktar geðsjúkum, undir kjörorðinu “Gleymum ekki geðsjúkum”. K-dagur var fyrst haldinn árið 1974 og hefur síðan verið haldinn þriðja hvert ár frá þeim tíma.

Annað stórt verkefni sem íslenska Kiwanishreyfingin tekur þátt í er alþjóðlegt verkefni sem hófst árið 1993, og er unnið í samvinnu við UNICEF. Það miðar að því að útrýma joðskorti í heiminum fyrir árið 2000. Þetta er gert með byggingu saltverksmiðja í löndum þar sem joðskortur ríkir og er joði bætt í saltið. Joð skortur veldur því meðal annars að mæður fæða andvana eða þroskaheft börn.

Frá stofnun fyrsta íslenska Kiwanisklúbbsins hefur íslensk/færeyska Kiwanishreyfingin veitt 550 milljónum króna til líknarmála á Íslandi og í Færeyjum fram til 1999.

7. Kiwanisfréttir
KIwanisKiwanisfréttir er blað sem Kiwanishreyfingin í íslenska umdæminu gefur út þrisvar sinnum á ári. Í Kiwanisfréttum birtast fréttir og tilkynningar frá umdæmisstjórn, pistlar frá umdæmisstjóra og fréttir frá klúbbunum í íslenska umdæminu. Kiwanisfréttir eru kjörinn vettvangur til að koma fréttum af starfi klúbbanna á framfæri en einnig ágætur vettvangur til skoðanaskipta innan hreyfingarinnar.

8. Kiwanis – Eldborg

Kiwanis

Kiwanis – Eldborg.

Kiwanisklúbburinn Eldborg í Hafnarfirði var stofnaður 27. nóvember 1969. Móðurklúbburinn er Katla. Fundarstaður er Helluhraun 22. Fundartími er annan hvern miðvikudag kl. 19:30.
Forsetinn er Magnús P. Sigurðsson, netfang: eldborg@kiwanis.is, ritari Bergþór Ingibergsson, féhirðir Sigurður Sigurðsson, kjörforseti Kristján Hannes Ólafsson, formúlutengill Sigurður Sigurðsson og meðstjórnendur Guðjón Guðnason, Skúli Gunnarsson og Guðmundur Guðmundsson.

Gamansemi

Kiwanis

Á Kiwanisfundi.

Kiwanisfélagar eru gamansamir og eru þekktir fyrir að sjá hið jákvæða í tilverunni. Þessi var látinn flakka á fundinum: “Jón var lagður inn á spítala. Fjarlægja þurfti vinstri fótinn. Eftir aðgerðina kom í ljós að í misgripum hafði hægri fóturinn verið fjarlægður. Slæmu fréttirnar voru þær að fjarlægja þyrfti vinstri fótinn, en góðu fréttirnar voru að sjúklingurinn í næsta rúmi var tilbúinn að kaupa af Jóni báða inniskóna.”

Heimild:
-https://kiwanis.is/page/saga-kiwanis
-https://www.facebook.com/people/Kiwaniskl%C3%BAbburinn-Eldborg/100069024344466/
Kiwanis

Stóra Eldborg

Jón Jónsson, jarðfræðingur, skrifaði í Náttúrufræðinginn árið 1973 um Eldborgir undir Geitahlíð:
“Þær eru raunar fleiri en tvær eldborgirnar undir Geitahlíð austan við Krýsuvík, skammt frá mörkum Stora-Eldborg-21Gullbringusýslu og Árnessýslu, en Stóra- og Litla Eldborg heita þær eigi að síður, og hvor þeirra á sína sögu. Þó nágrannar séu eru þær harla ólíkar um margt. Stóra Eldborg er einhver fegursti hraungígurinn á öllu Suðvesturlandi hún er yfir 50 m há yfir næsta umhverfi og gígurinn er um 30 m djúpur. Borgin er hlaðin úr hraunkleprum og gjalli og hin fegursta náttúrusmíði.
Stóra Eldborg er raunar suðvesturendinn á gígaröð, sem stefnir norðaustur — suðvestur eins og nær allar gígaraðir hér sunnanlands. Sunnan Geitahlíðar er þessi gígaröð aðeins um 350 m löng, en önnur gígaröð er norðan við Geitahlíð, uppi á fjallinu, í beinu framhaldi af þessari og er sú að minnsta kosti eins löng, en gæti raunar hafa verið mun meira, því yngri hraun, komin ofan af Lönguhlíð hafa þar runnið yfir. Af þeim sökum má nú heldur ekki sjá hversu mikið hraun hefur runnið frá þessum eldborgum, en sjálfar eru þær ekki stórar. Hafi hraun runnið úr þeim svo teljandi sé, hefur það runnið niður af fjallinu um svonefndan Sláttudal austan við Geitahlíð, en yngri hraun þekja nú það svæði.
litla-eldborg-21Sunnan undir Geitahlíð eru gígirnir aðallega tveir, sem hraun hefur runnið úr. Er það Stóra Eldborg sjálf og annar stór gígur alveg við hana norðan megin. Svo eru nokkur gígahrúgöld, sem liggja út frá þeim á beinni línu og enda utan í hlíðinni fyrir ofan. Lítið hraun hefur frá þeim runnið. Megin eldvarpið er Stóra Eldborg og áðurnefndur gígur við hliðina á henni. Frá þeim hafa hraunstraumar runnið, frá Eldborg sjálfri um undirgöng að suðaustan, en kvikustrókar hafa byggt hana upp, en frá hinum gígnum eftir eldrás mikilli. Eldrásir þrjár liggja út frá gígunum. Sú þeirra, sem mest er liggur til austurs út frá gígnum næst norðan við Eldborg, og virðist mesta hraunrennslið hafa verið þaðan. Sú rás stefnir austur með Geitahlíð, en hverfur brátt inn undir hraunið úr Litlu Eldborg. Næsta rás stefnir nær beint til suðurs, en hverfur skammt neðan við stóru Eldborg og sést ekki ofan vegarins eftir það. Vel gæti þar verið hellir í framhaldi af hraunrásinni, því ekki verður annað séð en neðsti hluti hennar séu leyfar af helli, sem fallið hefur saman.
Þriðja hraunrásin liggur svo nokkuð til suðvesturs eldborgir-21og alla leið niður á sléttuna neðan og vestan við Eldborg. Þar hefur fjárrétt verið hlaðin í henni og veggir hrauntraðanna notaðir á tvo vegu. Þetta er rétt við vesturjaðar hraunsins, aðeins sunnan vegar. Tvær síðastnefndu eldrásirnar hafa komið úr dálítilli skál suðaustan undir borginni. Sú skál er hraunop borgarinnar, en í Eldborg sjálfri virðist eingöngu hafa verið um kvikustrókavirkni að ræða. Sést það bezt á byggingu borgarinnar sjálfrar. Þó virðast hraungusur hafa komið úr gígnum um skarð, sem snýr móti austri og er beint upp af upptökum hraunrásanna beggja. Á þeim stað má sjá hraunkúlur, sem fallið hafa ofan í hálfstorknað hraunið og sokkið í það til hálfs. Hraunið hefur runnið til austurs og suðurs og þar hefur það fallið fram af sjávarhömrum, sem nú ekki sér fyrir lengur. Við sjó nær það yfir um 5 km strandlengju, en mesta breidd þess milli fjalls og fjöru er um 2,5 km. Gæti því látið nærri að flatarmál þess væri um 12 km2. Sjór hefur nú brotið framan af því, svo nú er það jafnt grágrýtinu, sem það hvílir á. Ekki sjást þess merki hvort það hafi áður náð eitthvað að ráði út fyrir núverandi strönd eins og hraunið úr Litlu Eldborg hefur gert. Bendir þetta til þess að allverulegur aldursmunur sé á þeim systrum (sjá síðar). Að austan hefur hraunið runnið út á eldra, slétt helluhraun, sem á kortinu ber nafnið Herdísarvíkurhraun, og er þar um nokkur mismunandi hraun að ræða, sem eiga upptök sín á mismunandi stöðum uppi á Lönguhlíð. Að vestan hefur hraunið runnið út á grágrýtið, sem myndar berggrunninn suður og vestur af Geitahlíð og sem nær vestur að Sveifluhálsi og að Ögmundarhrauni. Hraunið úr Stóru Eldborg er að mestu helluhraun, enda þótt kargi komi fyrir í því á stöku stað.

eldborgir-23

Eins og nafnið bendir til er Litla Eldborg minna áberandi en Stóra Eldborg. Þegar um Litlu Eldborg er að ræða er mun síður réttmæli að tala i eintölu, því þar er raunar um að ræða eldstöð, sem er mjög svo áberandi gígaröð. Það er röð af hraunklepra- og gjallborgum um 350 m á lengd með stefnu norðaustur — suðvestur. Gígaröðin endar utan í Geitahlíð í örlitlum kleprahól aðeins ofan við gamla veginn, sem þarna er á mótum hrauns og hlíðar. Lítið hraunrennsli hefur verið úr borgunum sjálfum. Frá þeim hefur hrauntunga teigt sig austur með Geitahlíð og nær nokkuð austur fyrir Sláttudal. Megin hraunstraumurinn kom ekki úr eldborgunum, heldur átti hann upptök við rætur Geitahlíðar norðan vegarins nokkuð til hliðar við eldborgirnar. Þar hefur hraunið ollið upp án þess að til gígmyndunar hafi komið í þungum straumi hefur það svo runnið vestur með eldborgarröðinni, og beygt til suðurs við vesturenda hennar. Af þessu er ljóst að borgirnar byggðust upp í fyrstu hrinu gossins, en megin hraunrennslið kom fyrst eftir það. Má vel sjá þetta í vesturenda gígaraðarinnar þar sem gjallnáman er. Nær hún inn undir skör hraunsins. Þessi álma hraunsins hefur eftir það fallið beint suður til sjávar, og þar fram af sjávarhömrum, sem myndaðir voru í hrauninu frá Stóru Eldborg, en það hraun er að heita má undir öllu hrauninu úr Litlu Eldborg, sem því er hin yngri þeirra systra. Síðastnefnd hrauntunga hefur fallið fram af sjávarhömrum, og myndað allbreiðan tanga út í sjó milli Bergsenda og Seljabótar. Þar hefur það bætt við landið smá sneið, sem ennþá stenzt ágang hafsins. Þarna sér fyrir hinum fornu sjávarhömrum lítið eitt uppi í landinu.”

Heimild:
-Náttúrufræðingurinn, 42. árg. 1972-1973, 1.-2. tbl., bls. 59-66.

Stóra-Eldborg

Stóra-Eldborg.

Eldborg

Gengið var frá Trölladyngju á Núpshlíðarhálsi um Eldborg og Einihlíðar með stefnu á Mávahlíðar og Mávahlíðarhnúk. Þaðan var haldið yfir að Fjallsgjá norðan við Fjallið eina norðan Hrútargjárdyngju og endað á Krýsuvíkurvegi.

Dóruhellir

Dóruhellir.

Trölladyngjan er 375 m.y.s. Hún er formfagurt móbergsfjall. Í dyngjunni eru miklar eldstöðvar, bæði að sunnan- og norðanverðu. Hraun hafa runnið þaðan bæði í norður og suður, meðal annars Afstapahraun. Þar er og mikill jarðhiti á ýmsum stöðum, t.d. í Sogunum. Um þau rennur Sogalækur.
Höskuldarvellir er grasslétta yfir hrauninu vestur af Trölladyngju. Þangað liggur farvegur frá Sogalæk. Rennur hann niður á vellina í leysingum og hefur myndað það mikla landflæmi og gróðurbreiðu með framburði sínum. Höskuldarvellir munu vera ein stærsta samfellda graslendi í Gullbringusýslu eða um 100 ha.

Eldborg

Eldborgin í dag.

Eldborgin norðan Trölladyngju hefur verið afmynduð með efnistöku. Sennilega hefur hún einhvern tímann verið eitt af djásnum Reykjanesskagans. Ef væntumþykjan og virðingin fyrir umhverfi og náttúru hefðu orðið efnishyggjunni yfirsterkari þegar ákvörðun um eyðilegginguna var tekin, væri Eldborgin nú margfalt verðmætari en krónurnar, sem fengust fyrir kápuna af henni á sínum tíma. En skaðinn verður ekki bættur, úr því sem komið er. Nú stendur Eldborgin þarna sem minnisvarði og þörf áminning um hvað ber að varast í umgengi við náttúruna. Ekki meira um það að sinni.

Mávahlíðar

Mávahlíðar.

Fallegir eldgígar eru utan í Dyngjuhálsi, eða Dyngjura

na eins og hann er stundum nefndur. Lambafellið sást vel á vinstri hönd, en framundan sást einnig vel til Einihlíða. Fallegt er að sjá hvernig hraunstraumurinn hefur runnið niður hlíðarnar og elfan storknað í hlíðunum. Ofan við þær er nokkuð úfið hraun, en vönum greiðfært. Suðaustar blasa Mávahlíðar við. Nýrra hraunið er norðvestan við hlíðarnar, mikið jarðfall og hár hraunbakki við þær norðanverðar. Eldra hraun og grónara er ofan (sunnan) við Mávahlíðar. Gígarnir, sem það hefur komið úr, eru litlir og mynda röð samhliða sprungureininni. Frá Mávahlíðum sést vel upp í Hrúthólma, gróin skjöld í hrauninnu. Sunnar er Hrútfellið.

Mávahlíð

Mávahlíð – stígur.

Gengið var yfir að Mávahlíðahnúki austan Mávahlíða og síðan strikið tekið frá vatnsstæði við gamla götu eftir tiltölulega sléttu, en eyðilegu, helluhrauni með úfnum hraunkanti á hægri hönd. Þegar honum sleppti tók við gróið hraun með fallegum hraunæðum. Í einni þeirra var beinagrind. Leggur af dýrinu var tekin með. Við greiningu á Keldum kom í ljós að um var að ræða hrossabógslegg. Óvíst var um aldur. Beinagrindin var ekki langt frá Stórhöfðastígnum frá Stórhöfða áleiðis upp á Ketilsstíg, ofan við Mávahlíðar og Hrútafell. Annað hvort hefur hrossið orðið til þarna við gömlu leiðina, eða refaveiðimenn hafa borið þar út hræ af hrossi til að egna fyrir ref.

Hálsar

Hraunin milli Hálsa – loftmynd.

Skammt austar er falleg og tilkomumikil gjá, hér nefnd Konugjá, einu kvenveru hópsins að þessu sinni til heiðurs. Í gjánni er stór skúti, sem opnast hefur þegar jörðinn klofnaði og gjáin myndaðist, líkt og Hundraðmetrahellirinn ofan við Helgadal. Hann var nefndur Dóruhellir. Skútinn, sem er hinn skjólsælasti, verður að teljast álitlegur til samkomuhalds. Ofar í hæðinni eru nokkrir hellar. Að þessu sinni var gengið niður með hæðinni til austurs, að fallegum gervigíg, sem var líkt og hásæti í laginu – tilvalinn hópmyndastaður.

Suðaustar blasti Fjallið eina við í allri sinni reisn, en norðar opnaðist Fjallgjáin.

Fjallið eina

Fjallið eina.

Hún er ein af nokkrum gjám á svæðinu, en sú stærsta og lengsta. Víða er hún mjög djúp og sumsstaðar mjög breið, ekki ólík Almannagjá á köflum.
Gangan endaði á Krýsuvíkurvegi, sem fyrr sagði.
Frábært veður. Gangan tók 4 klst og 4 mín.

Heimildir m.a.:
-www.reykjanes.is

Trölladyngja

Mávahlíðar og Trölladyngja fjær.

Eldborgir

Af og til hafa verið unnar skemmdir á náttúruverðmætum Reykjanesskagans. Áður fyrr voru það einkum vegargerðarmenn og landeigendur en í seinni tíð hafa orkufyrirtækin verið stórtækust í eyðileggingunni. Raunar er fyndið að heyra fólk tala um að gufuaflsvirkjanir “valdi minni eyðileggingu” en fallvatnsvirkjanir. Þetta er svona álíka gáfulegt og halda því fram að hver sá sem orðið hefur fyrir skaða geti þakkað fyrir að skaðinn varð ekki meiri. Best er að enginn verði skaðinn þegar hægt er að koma í veg fyrir hann.

EldborgFallegir gjall- og klepragígar svo og önnur verðmæt svæði, sem eyðilögð hafa verið á svæðinu eru allnokkur. Má þar nefna Moshól undir og vestan Núpshlíðarhorns, sem Krýsuvíkurvegurinn var lagður í gegnum. Jón Jónsson, jarðfræðingur, taldi hann einn merkilegastan slíkra á landinu. Í honum var t.a.m. hægt að sjá þverskurð myndunarinnar. Eldborg norðan Höskuldarvalla er ágætt dæmi um eyðilegginguna, hluta Rauðhóls við Afstapahraun, minjar í Herdísarvíkurhrauni austanverðu, Rauðhóla við Suðurlandsveg (sem voru gervigígar), gíg austan Hesthúsabrekku við Grindavíkurveg, Hraunhóla undir Vatnsskarði, Óbrennishóla við Bláfjallaveg og Litlu-Eldborg undir Geitahlíð, auk síðustu skemmdarverkanna á gígum Hellisheiðarinnar. Hægt er að fullyrða hér og nú að í öllum tilvikum hefði verið hægt að komast hjá eyðileggingunni og að þau verðmæti, sem þar fóru forgörðum, hefðu nú þegar margfaldast í “verði”. En því miður er það nú svo að enn er líkt með allt of mörgum og verktakanum er greinir frá í fréttinni hér á eftir.
Í Mbl. föstudaginn 16. ágúst árið 1968 er frétt með fyrirsögnina “Skemmdir á fallegum gíg á Hellisheiði – Náttúrvernadrráð stöðvar framkvæmdir”.
Í fréttinni kemur fram að “framtakssamur maður úr Ölfushreppi fékk fyrir nokkru leyfi hreppsins til að taka möl úr eldgígnum Nyrðri-Eldborg, sem er milli Bláfjalla og Lambafells á Hellisheiði. Gígur þessi er hinn fegusti og er Náttúrverndarráð komst á snoðir um hvað gera átti, voru gerðar ráðstafnir til þess að koma í veg fyrir skemmdir á gígnum en því miður virðist það orðið of seint. Hefur verið farið yfir norðurhlið gígsins með jarðýtu og skafinn mosinn ofan af og vegur verið lagður upp í miðja hlíðina.

EldborgBlaðamanni Morgunblaðsins gafst í dag tækifæri til þess að fara með dr. Þorleifi Einarssyni, jarðfræðingi, upp í Svínahraun til þess að skoða þær skemmdir, sem orðið hafa á gígnum Eldborg. Milli Bláfjalla og Lambafells lá nýrudd slóð út af þjóðveginum og stór mannlaus jarðýta við vegamótin. Ókum við 3 kílómetra upp eftir slóðinni unz við komum að gígnum.
Þorleifur, sem þekkir jarðfræði Hellisheiðar manna bezt, benti á það á leiðinni, að slóðin hefur verið lögð á brún hrauntraðar, sem hraunið úr Eldborg rann um og væri þessi hrauntröð ein fallegasta sinnar tegundar hér á landi. Var hún frá slóðinni að sjá sem djúpur árfarvegur og var botninn sem hvítfreyðandi á yfir að líta. Sagði Þorleifur, að þessi slóð væri ljótt ör á þessu fallega landslagi.
Er að gígnum kom, var ljótt umhorfs. Gígurinn er tvöfaldur og hefur hraunið komið þar upp úr nyrðri gígnum. Brattar hliðar gígsins hafa á undanförnum öldum náð að verða mosagrónar, en nú er stór svartur blettur á þeirri hlið gígsins, sem að þjóðveginum snýr. Þar hefur greinilegt verið farið yfir með jarðýtu nýlega og mosinn skafinn ofan af. Sárið var mjög nýlegt og að því er virðist ekki eldra en frá því í gærmorgun. Auk þess að mosinn hefur verið skafinn af hlíðinni hefur verið ruddur slóði upp í miðja hlíð.
Eldborg Er þorleifur skoðaði verksummerki á staðnum, varð honum að orði, að hann skildi ekki hver ætlunin hefði verið með því að gera þetta jarðrask. Þeim, sem þarna ætlaði að taka möl, hlyti að hafa verið kunnugt um, að gjall væri í gígnum og því væri ekki unnt að sjá hver ætlun hans hefði verið með því að spilla hlíðinni, því enn væri vegarslóðinn að gígnum ekki orðin bílfær. Sagði Þorleifur, að verk þetta hlyti að hafa verið unnið af óvitaskap.
Dr. Finnur Guðmundsson sagði í gær, aðð Náttúrverndarráð hefði komist á snoðir um það, sem frra, fór í Eldborg fyrir fáeinum dögum. Hefði þá þegar verið hringt til sýslumanns Árnessýslu og oddvita Ölfushrepps og um leið rætt við eiginkonu mannsins, sem fyrir framkvæmdunum stóð, því ekki hefði verið unnt að ná tali af honum sjálfum. hefði svo um samizt, að ekki yrði haldið áfram framkvæmdum næstu tvo eða þrjá daga, þar til Náttúruverndarráð hefði haldið fund um málið.
Í gær sagði dr. Finnur svo, að haldinn hafi verið fundur í Náttúruverndarráði og hefði verið ákveðið á þeim fundi að friðlýsa staðinn eins og ráðinu er heimilt samkvæmt lögum. Sendi ráðið skeyti sýslumanni Árnessýslu, formanni náttúruverndarnefndar sýslunnar og oddvita Ölfushrepps og tilkynnti um ákvörðun sína.
Að lokum gat dr. Finnur Guðmundsson þess, að ef rétt reyndist, að jarðraski hefði verið haldið áfram eftir að Náttúruverndarráði var gefinn frestur til þess að halda fund um málið, teldi hann það vísvitandi gerð náttúruspjöll og sér þætti mjög alvarlegt, ef ráðist hefði verið á hlíð gígsins í gærmorgun.
Eldborg Morgunblaðið náði í gær tali af Páli Hallgrímssyni, sýslumanni, sem sagði að sér hefði ekki verið kunnugt um framkvæmdir við Eldborg fyrr en dr. Sigurður Þórarinsson hefði hringt til sín í fyrradag. Hreppsnefnd Ölfushrepps hefði upphaflega leyft, að möl yrði tekin úr gígnum, og hefði verið vegna þess, að hún hefði álitið gíginn hverja aðra gjallhrúgu. Myndu á hinn bóginn hreppsnefndarmenn allir af vilja gerðir að stöðva framkvæmdir nú, er víst væri um miklvægi þess, að það yrði gert. Ekki kvaðst Páll hafa fengið skeyti Náttúruverndarráðs, en ef búið væri að friðlýsa staðinn, kæmi það væntanlega til sinna kasta, að sjá um, að því yrði framfylgt.
Morgunblaðið gerði í gær ráðstafanir til að ná tali af manni þeim, sem staðið hefur fyrir framkvæmdum við Eldborg, en á árangurs.”
Slóðinn, sem um getur í fréttinni er enn greinilegur – 38 árum seinna. Hann hefur reyndar verið nýttur talsvert í seinni tíð. Rask það er að honum laut á því enn við og rúmlega það. Gígsárið sjálft hefur hins vegar smám saman verið að gróa upp þó enn megi vel greina það í hlíðinni. Svona sár gróa upp á 60-100 árum. Það verður því að gaumgæfa vel allar framkvæmdir, jafnvel þær smærstu, er áhrif geta haft á umhverfið – til lengri tíma litið. Hér er ekki verið að halda því fram að engu megi raska. Einungis er verið að vara við vanhugsuðari röskun eða röskun án tilgangs.
Segja má að framangreind umfjöllun MBL fyrir 38 árum hafi komið í veg fyrir skemmdir á náttúruverðmætum. Í dag ríkir þögnin ein – og verðmæti glatast.

Heimildir:
-Mbl. 16. ágúst 1968.

Eldborgir