Ólafsskarðsvegur

Gengið var um Svínahraunsbruna milli Blákolls og Lambafellshnúks.

Eldborg

Eldborgin syðri í Svínahrauni.

Mikilli hrauntröð var fylgt upp hraunið, áleiðis að Eldborginni nyrðri. Hún blasti við framundan, há og tignarleg. Þaðan frá séð er hún líkari mosagrónu fjalli, en þegar hrauntröðinni var fylgt áleiðis austur fyrir hana kom eldfjallalagið betur í ljós. Slóði liggur upp að gígnum og hefur verið krukkað í hann að norðanverðu. Reykjavegurinn liggur upp með gjárbarminum að austanverðu, að Eldborginni og áfram til suðurvesturs, að gígnum Leiti undir austanverðum Bláfjöllum. Lambafellið sést vel í austri og Sauðadalshnúkarnir í vestri.

Kristnitökuhraun

Eldborgin syðri og gígurinn Leiti efst í Svínahrauni.

Gengið var upp á Eldborgina. Í henni eru tveir stórir gígar, hvorum öðrum myndarlegri. Frá brúnum þeirra sést hrauntröðin vel þar sem hún liðast niður hraunið. Ofar sést Eldborgin syðri, tilkomumikil.

Leitarhraun

Leitarhraun – uppdráttur.

Á milli Eldborganna er eldra hraun, Leitarhraunið, og sést Leiti vel undir brúnunum. Gígaröð liggur milli Eldborganna, mynduð af fremur litlum gígum og eru þeir flestir ofan við nyrðri Eldborgina. Í einum þeirra er gat niður, um tveggja mannhæða hátt. Forvitnilegt væri að skoða niður í það við tækifæri. Fjölmörg vatnsstæði er í grónum hraunbollum Leitarhrauns, sem er 5000 ára um þessar mundir.

Eldborgir

Hrauntröð norðan Eldborga.

Leitarhraun, sem ásamt ýmsum yngri hraunum (Hólmsárhraunum) gengur einnig undir nafninu Elliðaárhraun, einkum vestan til. Það verður rakið óslitið frá Draugahlíðum niður í Elliðaárvog. Hefur það breiðst víða út, svo sem um Sandskeið og norðvestur yfir Fóelluvötn; heita þar Mosar.

Einnig hefur hraunið runnið til austurs og niður á láglendi í Ölfusi, Hraunsheiði, og líklega í sjó í Þorlákshöfn. Í þessari álmu hraunsins eru tveir af stærstu hellum landsins, Raufarhólshellir og Búri. Annars staðar í hrauninu eru nokkrir smáhellar, svo sem hjá Vatnaöldum. Allvíða eru gervigígar í Leitahrauni, en merkastir eru Rauðhólar.

Eldborg

Hrauntröð.

Suðurlandsvegur liggur á löngum kafla á Leitahrauni, frá Elliðaám að Draugahlíðum. Einnig liggur Þrengslavegur á hrauninu, frá Þrengslum og niður í Ölfus. Frá Draugahlíðum að Þrengslum liggur vegurinn á Svínahraunsbruna en það eru tvö apalhraun sem komið hafa upp á sögulegum tíma í Eldborgum vestan Lambafells og liggja ofan á Leitahrauni. Annað þessara hrauna hefur verið nefnt Kristnitökuhraun.
Þegar komið var upp á syðri Eldborgina sást mikill ílangur gígur. Hraunið frá gígnum hefur mest runnið til austurs og beygt síðan til norðurs, vestan við Lambafellsháls. Ofan við hann sést Lambafellið og ennþá fjær.

Geitafell

Geitafell.

Í suðri stendur Geitafellið staðfast. Í hrauninu austan við Eldborgina sást í stórt gat. Þegar það var skoðað kom í ljós endi lítillar hrauntraðar. Í enda hennar er skúti og inn úr honum liggur rás. Hún var ekki skoðuð að þessu sinni. Fara þarf á fjórum fótum inn eftir rásinni, en ekki er vitað hvað þar kann að leynast inni.

Ólafsskarð

Ólafsskarðsvegur austan Geitafells – vörðukort (ÁH).

Gengið var upp á Ólafsskarðsveginn milli Eldborgarinnar syðri og Bláfjalla. Leiðin er vörðuð. Barmar Leitisins eru allháir, enda mikið hraun úr því komið. Mest af því hefur runnið til austurs og suðurs, en mjó ræma rann til norðvesturs, alla leið til sjávar í Elliðaárósum. Renna Elliðaárnar um það á kafla.

Eldborg

Eldborgin nyrðri í Svínahrauni.

Neðan við Leiti liggur vörðuð leiðin inn fyrir þau með austanverðum Bláfjallabrúnunum. Ólafsskarðsvegurinn heldur áfram áleiðis að Ólafsskarði, sem sést vel framundan, milli Sauðdalshnúka og Ólafsskarðshnúka. Neðan við Leiti er önnur leið vörðuð niður Lambafellshraunið, áleiðis að Sandfelli og niður með austanverðum Krossfjöllum þar sem eru gatnamót, annars vegar götu að Breiðabólstað og hins vegar að Hjalla. Þá sést og í A-laga skátaskála uppi í fyrrnefndu hnúkunum. Austan við skarðið er gamall skíðaskáli, en þegar kíkt er niður skarðið að vestanverðu, niður í Jósepsdal, má sjá leifar af gamalli skíðalyftu og fleira.

Ólafsskarð

Ólafsskarð – skíðaskáli.

Dalverpi suðaustan undir Vífilsfelli. Jósepsdalur er undir Ólafsskarði en um það var gömul alfaraleið úr Ölfusi til Reykjavíkur. Samkvæmt munnmælum átti tröllkona að hafa búið þar í helli fyrr á öldum.

Þjóðsaga um Jósepsdal hermir að í dalnum hafi búið maður sá er Jósep hét og verið smiður mikill. Hafði hann svo óguðlegan munnsöfnuð, blót og formælingar, að bærinn sökk.
Eftir að hafa skoðað skálann var gengið niður Leitarhraunið, að upphafsstað.

Jópsepsdalur

Jósepsdalur.

Á leiðinni var frábært útsýni yfir að Eldborgunum og fjöllunum umhverfis.
Kristnitökuhraunið svonefnda er rann um 1000 er talið vera úr þessum Eldborgargígunum. Þarna hefur gosið á sprungurein og endagígarnir verið sýnum stærstir. Svo virðist sem gosið hafi lengur, eða síðar, úr syðri Eldborginni því hraunið úr henni virðist liggja utan í og yfir hinu mikla hrauni, sem komið hefur úr megineldgígunum í nyrðri Eldborginni. Gígarnir tveir eru með fallegri hraungígum á Reykjanesskaganum.

Leiti

Leiti.

Ólafsskarðsvegur er nefndur eftir samnefndum bryta í Skálholti. Í frásögn Brynjúlfs Jónssonar frá Minna-Núpi segir að einni sinni hafi lyklakippa Skálholtsstaðar týnst, og fannst hún hvergi. Varð að smíða aðra lykla. Leið síðan fram, þangað til 12 ár voru liðin og lyklatapið farið að gleymast, þá fundust lyklarnir í Lyklafelli hjá Fóelluvötnum. Kom þá upp hið sama, að ráðsmaður (eða bryti) staðarins hafði haft lyklana á sér, er hann reið í Reykjavíkurkaupstað, og hafði týnt þeim í fellinu, er hann áði.

Austurleið

Austurleið sunnan Lyklafells.

Um Lyklafell fjallar og þekkt þjóðsaga af sama meiði. Hún er um nefndan Ólaf bryta í Skálholti. Á að hafa soðið upp úr milli hans og ráðskonunnar á staðnum. Hún var ótúlegt skass og skaut honum svo skelk í bringu að hann lagði á blindan flótta og nam ekki staðar fyrr en við Lyklafell og kastaði þar búrlyklunum. Síðan hélt hann um Ólafsskarð upp úr Jósefsdal Ólafsskarðveg og heitir skarðið eftir honum. Steðjaði hann austur sýslur á Fjallabaksleið syðri. Við Brytalæki á Fjallabaksleið austanverðri datt hann dauður niður.

Frábært veður – milt og hlýtt. Gangan tók 3 klst og 33 mínútur.

Eldborgir

Eldborgir – loftmynd.