Vörðufellsrétt

“Svo er sagt að ræningjar hafi komið í land ekki langt frá Krýsuvíkurlandi og hefði flokkur mikill af þeim komið gangandi og stefnt fram til Krýsuvíkur, en er til þeirra sást var strax sendur maður til Eiríks prests. Reið hann sem mest mátti, hitti prest og bjóst hann strax með sendimanni, en er þeir sáu heim að bænum þá hafði ræningjaflokkurinn staðar numið á hóli nokkrum fyrir sunnan kirkjuna í Krýsuvík og börðust í ákafa svo að þeir drápust þannig niður fyrir vopnum sjálfra sín, en komust aldrei heima að bænum.

Vörðufell

Vörðufell – LM/krossmark?

En nokkru eftir þetta er sagt að prestur hafi farið austur á Selvogsheiði og numið staðar á felli einu lágu; hafi hann þá byggt þar upp fjarska margar vörður og sagt að meðan nokkur varðan stæði mundi Selvogurinn ekki verða rændur og heitir fellið síðan Vörðufell.”
Í örnefnaskrá fyrir Þorkelsgerði í Selvogi segir m.a. um Vörðufell: “Allangt austan við norður frá strandhæð er Vörðufell, eldgígur. Á því er Markavarða milli Eimu og Þorkelsgarðis [á að vera Eimu og Strandar (ÞS)]. Neðan undir vörðunni er stafur í klöpp (M).

Vörðufell

Markavarðan á Vörðufelli.

Á [Vörðu]fellinu eru margar vörður hingað og þangað, Vörðufellsvörður, sem hlaðnar eru af unglingum. Það brást þeim aldrei, er þeir voru að leita að skepnum, að þeir fundu það, sem leitað var að, ef þeir settu stein í vörðu eða hlóðu nýja, Eyþór kannast vel við þetta.”
Skv. örnefnalýsingum á stafurinn M að vera markaður á jarðfastan stein sunnan við Markavörðuna syðst á fellinu. Þegar betur er að gáð er þar um að ræða kross, en sprungur beggja vegna. Efri hluti steinsins hefur brotnað af skammt ofan við krossinn. Á fellinu eru enn urmull smávarða, en sagt er að smalar hefðu hlaðið vörðurnar og áttu þær að uppskera fundvísi að launum. Víðsýnt er af fellinu þótt það sé ekki hátt.
Á Vörðufelli er gamla lögrétt Selvogsbúa, Vörðurétt eða Selvogsrétt. Hún er fallega hlaðin, almenningur austast, innan dráttur og dilkar um kring. Notkun hennar var hætt árið 1924.

Svörtubjörg

Þórarinn Snorrason á Vogsósum á ferð með FERLIRsfélögum í Vörðufelli.

Jón Árnason III 505