Miðvogsstekkur

Í heimsókn til Þórarins Snorrasonar á Vogsósum komu upp við undirleik slátursuðunnar vangaveltur um staðsetningu Bjarnastaðastekks í Selvogi.
Þórarinn sagðist hafa skoðað örnefnalýsingar Götu og Bjarnastaða og skv. hans bestu vitund, með hliðsjón af nálægum örnefnum, gæti stekkurinn varla Þórarinnverið annars staðar en milli Snældhóla og Stóraklifs austan núverandi vegar niður að Selvogi. Ákveðið var í framhaldi af því að slá til og fara á vettvang, enda var veður hið ákjósanlegasta í kvöldhúminu, logn og haustangan.
Í örnefnalýsingu fyrir Götu segir m.a.: “Örnefnaskrá þessi er samin með hliðsjón af skrám eftir Gísla Sigurðsson, sem lesnar voru yfir með Eyþóri Þórðarsyni, Hraunbæ 56, Reykjavík. Eyþór er fæddur í Torfabæ í Selvogi 1898 og ólst þar upp. Hann bjó í Torfabæ til 1962. Skráð var að heimili Eyþórs 15. og 21. okt. 1980.
Gata er næst fyrir vestan Bjarnastaði. Landamerki Götu og Bjarnastaða eru: Mörk Götu og Þorkelsgerðis eru: Markhella, sem er klöpp í fjöru, þaðan í Markklett við túngarð, þ.e. jarðfastur klettur við Litlu-Götuhlið (M er bæði í hellunni og klettinum), þaðan í Markhól austan Stóra-Klifs, þaðan í miðjan Gjáardal, sem er dalverpi ofan vegar, þaðan í Svarthól og loks í Kálfahvamm í Geitafelli (ekki Kálfahvammsöxl). Tveir bæir voru í Götu, Stóra-Gata og Litla-Gata. Stóra-Gata stóð neðarlega í túni, u. þ. b. mitt á milli landamerkja, en Litla-Gata ofar og vestar, skammt frá landamerkjum Þorkelsgerðis, rétt við Markklett. Tún bæjanna eru kennd við hvorn um sig.
StóraklifVestast í fjöru er Markhella  á mörkum móti Þorkelsgerði. Upp frá fjörunni er Kampurinn, sjávarkampur, sem hér er kallaður Götukampur. Fyrir ofan hann er Grásteinn á merkjum móti Bjarnastöðum. Upp frá Kampinum liggur Götubryggja, garður, sem nær upp undir Stóru-Götu. Hann var gerður til að ganga á vetrum, en þá var oft tjörn fyrir ofan Kampinn.  U.þ.b. beint upp frá Stóru-Götu var brunnur bæjanna. Ofan við tún er túngarður, kenndur við Götu. Traðir liggja niður með merkjunum að austan. Göturás rann niður mitt tún, kom innan að. Vatn var í henni í leysingum, en var annars þurr.
Ofan túngarða tekur Selvogsheiði við, og er nefnd Miðheiði upp af Bjarnastöðum og Götu  og vestur um Torfabæjaland, en Útheiði eða Vesturheiði þar fyrir vestan. Fyrir ofan Götutún halda áfram Bjarnastaðaflatir, og á þeim eru Bjarnastaðahólar. Vestasti-Bjarnastaðahóll er í Götulandi og e. t. v. einnig Mið-Bjarnastaðahóll. Ofan við hólana var lægð eða flöt, sem nefnd var Skjaldbreið, en er nú orðin uppblásin og nefnd Grjót (ft.). Þar ofar var Bjarnastaðastekkur, alveg við mörkin í Götu og e.t.v.  í Útvogslandi. Sést fyrir honum enn. Við stekkinn var Stekkatún og Stekkatúns-flatir í kring. Þetta er við veginn niður að bæjunum.”
ÞórarinnÞegar á vettvang var komið sagði Þórarinn hólana fyrir ofan stekkinn heita Snældhóla. Á þeim austasta er varða. Um þriggja mínútna gangur er að stekknum frá veginum. Þegar að var komið var augljóst að þarna voru stekkjarleifar. Þær virðast í fjarlægð vera lágur, gróinn, hóll, en í nærsýn má vel sjá efstu lög veggja. Gott útsýni er frá stekknum heim að Bjarnastöðum. Neðar má sjá gömlu leiðina sem og vörðuna á Stóraklifi suðvestar. Neðar (sunnar) eru Bjarnastaðahólar.
Í fyrrnefndri örnefnalýsingu segir auk þessa: “Ofar eru tveir hólar, Grænshólar (G.S. nefnir þá Grenshóla). Við þá mun áður fyrr hafa verið gren. Umhverfis hólana eru Grænshólaflatir. Þar austur af er Fornagata í Bjarnastaðalandi. Mörkin milli Útvogs og Götu eru úr Markhól austan Stóraklifs í Þorkelsgerðislandi í miðjan Gjáardal, sem er kringlótt ker ofan við ferðamannaveginn út að Vogsósum, austur af Bjargarhelli. Milli Gjáardals og Torfdals er mjótt haft, líklega tíu metrar. Þar er Miðvogsstekkur í Götulandi. Línan liggur úr Gjáardal um þúfu á Götugjá.”
FERLIR skoðaði Miðvogsstekkinn s.l. vetur ásamt fleiri minjum á svæðinu.
ÞórarinnÍ örnefnalýsingu fyrir Bjarnastaði segir um þetta sama svæði m.a.: “Selvogsheiði tekur við ofan túngarða á Bjarnastöðum, og er kölluð Miðheiði upp frá Bjarnastöðum og vestur um Torfabæjarland, en Vesturheiði eða Útheiði þar fyrir vestan. Ofan Bjarnastaðatúns eru Bjarnastaðaflatir. Vestast á þeim ofan við hjáleiguna Klöpp var Litlavarða og Litluvörðuflöt. Eitthvað mun vera eftir af vörðunni. Ofar en Litlavarða var önnur varða ofarlega á Flötunum, kölluð Digravarða, Stóravarða eða Austurvogsvarða. Hún var Sundvarða fyrir Útvogssund.  Átti hana að bera í austustu Hnúkana. Við túngarðshlið Bjarnastaða byrjaði leiðin suður og lá upp heiðina. Spölkorn upp frá Flötunum eru Bjarnastaðahólar kringum Digruvörðu. Það eru þrír lágir hraunhólar. Vestasti hóllinn er í Götulandi, Mið-Bjarnastaðahóll e.t.v. einnig, en Austasti-Bjarnastaðahóll er í Bjarnastaðalandi. Eitthvað er eftir af grónu landi milli hólanna, sandurinn er ekki kominn þangað. Austur við Nesmörk er Fornagata, langur hraunhóll sprunginn eftir endilöngu. Á honum var Fornugötuvarða, sem nú er fallin, og kringum hann Fornugötuflatir.”
Allt framangreint má sjá enn.
Til að nota ferðina var stefnan tekin á Strandarkirkju. Í viðtali við Þórarinn fyrir nokkrum árum (sjá HÉR) hafði komið fram að hann hafði fyrrum farið sinna ferða á sauðskinnsskóm. Kirkjugatan millum Vogsósa og Strandarkirkju hefði verið u.þ.b. 1/2 klst löng. Rétt áður en komið var að kirkjunni hefðu gestir farið úr hversdagsskónum og sett spariskó á fætur sér. Það hefði verið gert við svonefndan “Skóstein”. Þrátt fyrir aðgát þá hafði skósteinninn sá ekki opinberast svo augljóslega. Skammt frá eru t.d. Fornigarður og Sveinagerði.

Þórarinn

Þórarinn gekk óhikað frá Strandarkirkju eftir sandorpinni götunni fyrrum, nú ósýnilegri, áleiðis að vörðu og áfram í gegnum seinni tíma tilkomna lúpínubreiðu. Þar staðnæmdist hann á klapparhrygg og sagðir: “Hér er það – þetta er skósteinninn. Hann er reyndar bara sléttbökuð klöpp, en hér skiptum við um skó á leiðinni. Kirkjan er þarna”, bætti hann við og benti í átt að henni. “Segja má að ég tilheyri þeirri kynslóð er brúar bilið millum gamla bændasamfélagsins hér á landi og þess nútíma, sem flestir þekkja nú til dags.”
Í viðræðum við Þórarinn kom m.a. fram mikilvægi örnefna fyrrum – þegar fé gekk sjálfala allt árið. Mikilvægt var að huga vel að því og þurfti þá oft að fara um lönd og heiðar til eftirlits. Sérhver hóll og sérhvert kennileiti hafði þá nefnu svo auðvelda mætti eftirlitið eða bregðast við ef þurfa þótti. Benti hann sem dæmi á “ómerkilegan” hól efst í Vogsósalandi að austanverðu, svonefndan Hatthól. “Hvers vegna Hatthóll?”, var spurt. “Af því hann er eins og hattur í laginu”, var svarið, enda það augljósasta þegar betur var að gáð. “Svona var um mörg örnefnin, þau komu til af sjálfu sér, líkt og Snældhólar, þ.e. snældulaga hólar.”
Seinna verður rakið áhugavert viðtal við Þórarinn um tilurð og gildi örnefna fyrr á öldum.
Hnit voru tekin á “Skósteininum” líkt og á Bjarnastaðastekknum.
Frábært veður.

Heimildir m.a.:
-Þórarinn Snorrason á Vogsósum.
-Örnefnalýsing fyrir Götu.
-Örnefnalýsing fyrir Bjarnastaði.

Þórarinn