Strandarkirkja

“Strandarkirkja í Selvogi stendur við skerjótta Suðurströndina, leiðarljós þeirra er um sjávarslóð fara. Kirkjan er eins og kunnugt er vinsæl til áheita og um tilurð kirkjunnar hafa myndast helgisagnir sem vitna um þann lífsháska sem sjómönnum var búinn úti fyrir þessari klettóttu, hafnlausu úthafsströnd.

Strandarkirkja

Fyrsta helgisögnin er að Gissur hvíti á 10. og 11. öld hafi fyrst gert kirkju á Strönd og þá úr kirkjuviðnum sem Ólafur Noregskonungur sendi hann hingað með. Gissur ásamt Hjalta Skeggjasyni tengdasyni sínum átti ríkan hlut að kristnitökunni árið 1000. Þessi skoðun byggir eingöngu á kvæði Gríms Thomsens um kirkjuna þar sem segir m.a.:
,,Gissur hvíti gjörði heit
guði hús að vanda
hvar sem lífs af laxareit
lands hann kenndi stranda.”
Önnur sögn er að kirkjuna hafi reist Árni nokkur formaður þegar hann var að koma með timburfarm frá Noregi. Um þennan Árna yrkir séra Jón Vestmann er hann orti um Strandarkirkju árið 1843. Í kvæðinu er Árni Þorláksson biskup í Skáholti nefndur og sagður gefa honum heimild til kirkjubyggingar á Strönd. Árni var biskup 1269 til 1298 og ætti því Strandarkirkja samkvæmt þessari sögn að hafa verið reist í fyrsta skipti á síðari helmingi 13. aldar. Í kirknatali Páls biskups Jónssonar í Skálholti (1195-1211) sem að stofni til er frá árinu 1200 er kirkjan á Strönd hins vegar nefnd.
Þriðja helgisögnin er á þessa leið: ,,Fyrir langa löngu gerði ungur bóndi úr uppsveitum Árnessýslu för sína til Noregs á sínu eigin skipi. Var ferð þessi farin til að sækja valinn við til húsagerðar. Segir nú ekki af ferðum bónda fyrr en hann hefur verið lengi á hafi úti á leið sinni til Íslands. Lendir hann þá í sjávarháska og hafvillu í dimmviðri og veit ekki lengur hvert skip hans stefnir. Í örvæntingu sinni heitir hann því þá að gefa allan húsagerðarvið sinn til kirkjubyggingar á þeim stað er hann næði landi heilu og höldnu. Að þessu heiti unnu birtist honum sýn í líki ljósengils framundan stefni skipsins og verður nú ljósengill þessi stefnumið er hann stýrir eftir.
Eldri klukkanSegir ekki frekar af siglingu þessari fyrr en skipið kennir grunns í sandvík milli sjávarklappa. Hvarf þá engillinn og birta tók af degi. Sáu þá skipsmenn að þeir höfðu verið leiddir eftir bugðóttu lendingarsundi milli boðaskerja á úthafsbrimströnd. Þar skammt fyrir ofan var hin fyrsta Strandarkirkja reist úr fórnarviðnum.”
Sameiginlegt þessum frásögnum er að menn hafi verið á leið til Íslands og lent í hafvillum og sjávarháska uti fyrir þessari hafnlausu strönd og unnið Guði sínum það heit að reisa kirkju þar sem þeir næðu landi.
Sennilega hefur lendingin verið um Strandarsund sem er suður og austur af kirkjunni. Kunnugir segja að oft sé kyrrt í Standarsundi þó að haugasjór sé allt um kring.
Núverandi kirkja er frá 1888. Hún var endurvígð eftir endurbætur 14. júlí 1968 og enn endurbætt og endurvígð 13. okt. 1996.
Vorið 1950 var rest var reistur minnisvarði um kraftaverkið í Engilsvík norðvestan við kirkjuna. Er það standmynd á stalli eftir Gunnfríði Jónsdóttur myndhögvara og nefnist Landsýn. Sýnir hún hvítklædda konu sem heldur á skínandi krossmarki og bendir sjómönnum í lífsháska inn í Engilsvík.
Þjónustuhús var reist nálægt kirkjunni 1988. Í jarðhýsi er snyrtiaðstaða fyrir gesti og gangandi. Umhverfi kirkjunnar er allt til mikillar fyrirmyndar. (Byggt í meginatriðum á riti Magnúsar Guðjónssonar biskupsritara um Strandarkirkju).
Kirkjan og garðurinn er í mjög góðri hirðu og góðu ásigkomulagi. 1986 var land Kirkjunnar girt af og hafin ræktun. Gróðursettar hafa verið 4000 plöntur og sáldrað um 30 kílóum af lúpínufræi. Árlega er áburður borinn á landið. Áður var sandfok illvígt þarna og ógnaði tíðum kirkjunni.

Yngri klukkan

Árið 1996 var kirkjan endurbætt að innan, skipt um glugga, einangrað og hvelfing sett yfir kirkjuskipið. 1998 var lokið við byggingu nýs turns á kirkjuna. 1987 var kirkjugarðurinn stækkaður og unnið hefur verið að endurbótum, merkingum og lagfæringum leiða. 1994 var vígt minnismerki um látna sjómenn. Settur hefur verið upp minningarsteinn um presta er þjónuðu og bjuggu í Selvogi. Sumarhúsið Strönd var keypt og sett upp 1988 en það er m.a.a afdrep þeirra er gæta kirkjunnar á sumrin. Gömul bæjarstæði í landi kirkjunnar hafa verið merkt. Útbúið var bílaplan 1988 og aðgengi fatlaðra þaðan og að kirkju tryggt. Steyptar nýjar tröppur.
Kirkjuhúsið er upphaflega byggt 1887-88 og mun hafa að mestu haldið formi sínu óbreyttu síðan. Árið 1968 var kirkjan að mestu endurbyggð. Þó eru máttarviðir hennar hinir sömu svo og gólf. Við þessa endurbyggingu var kirkjan lengd um „eitt gluggabil” eða rúml. 2 metra. Henni var breytt að því leyti að söngloft var sett í hana og hvelfing fjarlægð úr henni og var hún með súð og sýnilegum sperrum. Breytingum er lýst í Biskupsvísitasíu frá 1982 og 1968. Þetta var fært í fyrra horf 1996.
Kirkjan er mjög hlýleg að innan. Dregill er á kirkjugangi. Norðanmegin dyra er skrúðhús vel búið. Þar er eldtraustur skápur sem varðveitir dýrgripi kirkjunnar.
Kerti á altari eru máluð af Sigurbjörgu Eyjólfsdóttur frá Þorkelsgerði. Pípuorgel kirkjunnar 6 radda af Walker gerð er frá 1969. Gamla orgelið frá 1898 var gefið kirkjunni 1997. Altaristafla (Upprisan eftir Sigurð Guðmundsson frá 1865) stærð 175 x 118 cm. Númeratafla er frá 1865 ásamt kassa með númerum. Altari og prédikunarstóll eru frá 1888.
AltaristaflanEnn önnu sögn um Strandarkirkju er þessi: “Á elleftu öld var stórbóndi úr Fljótshlíðinni á leið til Íslands með skipið sitt fullt af timbri frá Noregi sem hann ætlaði til að byggja sér nýjan bæ. Þegar bóndinn og skipshöfn hans tóku að nálgast suðurströnd Íslands, skall á aftaka veður. Allir héldu að skipið mundi farast og krupu þeir allir í bæn til Heilagrar Maríu. Eigandi skipsins hét á Maríu Guðsmóður að ef þeir kæmust lífs af mundi hann nota farminn til kirkjubyggingar hvar sem þeir kæmust að landi. – Skyndilega kom þá ljós af himni sem lýsti upp þungbúinn nætur himininn og mennina og himneskt ljós lýsti upp sjóinn fyrir stefni skipsins og frammi fyrir þeim myndaðist líkt og vegur með lygnum sjó þótt á sitt hvora hlið við lygnan sjávarveginn ólmaðist sjórinn með mannhæðar háum hvítfyssandi öldum. Skipið sigldi eftir þessum lygna vegi í átt til strandar og þegar ströndin birtist sjómönnunum stóð hin heilaga María þar með ljósker í hendi (Þegar sagan er sögð á 15 öld hefur hin “Helga Jómfrú” breyst í Engil, því Lútherstrúarmenn vilja að sem minnst sé minnst á Heilaga Guðsmóður en eldri heimildir eigna henni þetta kraftaverk) Um leið og skipið lagði að landi hvarf veran með ljóskerið en eigandi skipsins hélt heit sitt og byggði kirkju þar á ströndinni, svo eina og sér svo fjarri manna byggðum. Og þar stendur hún enn þann dag í dag.
Tvisvar í gegnum aldirnar, hefur átt að flytja kirkjuna nær prestsetri þá þjónandi prests. Í seinna skiptið sem var á 18 öld, hafði presturinn meira segja fengið leyfi biskupsins í Skálholti til kirkjuflutningsins. En daginn áður dó presturinn með sviplegum hætti. Í fyrra skipti var það einn flutningsmanna sem hneig örendur niður, rétt áður en rífa skyldi kirkjuna.
ÚtsaumurÁ 13 öld byrjaði fólk að heita á Strandarkirkju og í 7 aldir hefur fólk hvaðanæfa úr heiminum heitið á kirkjuna. Og hafa áheit farið þannig fram að fólk biður til Guðs, fyrir lækningu sinni eða annarra og heitir vissri fjárupphæð og bænheyri Guð biðjandann, þá fyrst er borguð sú peningaupphæð sem lofað var áður en bænin var beðin. Strandarkirkja er vinsælasta áheitakirkja í Evrópu. Og með áheitapeningum sem koma til Strandarkirkju er ekki aðeins séð um viðhald á Strandarkirkju sem er afskaplega vel við haldin og ótrúlega falleg lítil kirkja, heldur hafa áheitarpeningar til kirkjunnar verið notaðir til að halda við ótal kirkjum á Íslandi.
Mörg tákn og stórmerki hafa gerst í tengslum við þetta fallega Guðshús sem stendur hátt á sjávarkambinum. Svo þegar setið er þar í Kirkjunni við Guðsþjónustur sér maður langt út á Atlanshafið. Eitt sinn var fundur hjá safnaðarnefnd og prestinum þar í Selvoginum inni í kirkjunni. Var fundinum að ljúka nema meðhjálparinn og presturinn urðu einir eftir til að undirbúa messu næsta sunnudag. Þegar þeir höfðu lokið sínum umræðum og ætluðu út úr kirkjunni, gátu þeir ekki með nokkru móti lokað útihurð kirkjunnar. Hvað sem þeir gerðu, þeir reyndu allt, enda stórir og sterklegir menn. Ekki gátu þeir farið heim og skilið kirkjuna eftir opna. Þeir ákváðu að fara aftur inn í kirkjuna til að ráða ráðum sínum um hvað þeir ættu til bragðs að taka til að loka kirkjuhurðinni. En þegar þeir komu aftur inn í helgidóminn, sáu þeir að þeir höfðu gleymt að slökkva á kertunum á altarinu. Þeir litu hvor á annan fóru svo upp að altarinu og slökktu á kertunum. Gengu síðan út og kirkjuhurðin lokaðist ljúflega á eftir þeim.

Silfurkross

Áheitin eru auðvitað ótrúlegt fyrirbæri út af fyrir sig, eitthvað sem stendur tímans tönn og fólk hættir ekki að heita á kirkjuna þrátt fyrir efasemdaraddir nútímans. Það er líka afar einstakt að áheitin sem fremur eru kaþólskur siður en lútherskur skuli lifa svo vel af í íslensku samfélagi. Vegna áheitanna og gjafa er Strandarkirkja einhver ríkasta kirkja landsins, það streyma til hennar áheit bæði frá Íslendingum og erlendis frá. En hvers vegna heita svona margir á kirkjuna? Það er ekki annað hægt en að vera sannfærður um það að áheitin rætast og kirkjan borgi fyrir sig vegna þess að fólk borgar einungis til hennar ef það telur áheitið hafa gengið eftir.
Árið 1964 segir Árni Óla, í ritgerð sinni Áheitatrú á Íslandi, eftirfarandi um áheitin: ,,Áheitatrúin er trú á góð máttarvöld. Í trúnni á Strandarkirkju birtist vissan um, að til sé hulinn verndarkraftur. Er sú trú engu óvísindalegri heldur en trúin á að í geimnum leiki óteljandi geislar og orkustraumar sem nú hefur verið sannað”.
Strandarkirkja er lítil kirkja og afskekkt, það eru ekki margir sem sækja þangað guðsþjónustur, í sókninni eru innan við 20 manns. En þó svo að áheitin og sögurnar í kringum þau séu hið dularfyllsta mál eru þau um leið dæmi um sanna og einlæga guðstrú. Þau eru einnig sönnun þess að kraftaverkin gerast í heiminum eða að minnsta kosti trúir sá stóri hópur fólks því innilega sem heitir á Strandarkirkju á ári hverju.
BrúðarstólarStundum er talað um að það að heita á kirkjur sé sprottið af þörf fólks fyrir samband við verndandi mátt og það tengi hann þannig kirkjunni þótt trúin sem þeim fylgir sé einkamál. Stundum tekur fólk t.d. fram að það vilji ekki láta nafn síns getið þegar kirkjunni eru færðar gjafir. Í könnun sem Guðfræðistofnun gerði árið 1986, þar sem spurt var um áheit á kirkjur, kom í ljós að u.þ.b. þriðji hver Íslendingur hefur einhvertíma heitið á kirkju. Það er ekki ólíklegt að langflestir þeirra hafi heitið á Strandarkirkju.
Það má segja að hægt sé að skipta þeim sem heita á kirkjuna upp í tvo hópa. Annars vegar eru það þeir sem heita á kirkjuna ef eitthvað bjátar á og finnst þeir þurfa á kraftaverki, stóru eða smáu, að halda. Hins vegar eru það þeir sem t.d. borga alltaf einhverja vissa upphæð til kirkjunnar á ári hverju og trúa því að hún veiti þeim vernd sína í staðinn. Þannig heita sumir kannski bara einu sinni á ævinni á Strandarkirkju meðan aðrir gera það jafnt og þétt allt lífið.

Minningarsteinn

Eins og áður segir eru áheit fremur kaþólskur siður en lútherskur og siðbreytingin hefur eflaust haft sitt að segja um trú manna á Strandarkirkju. Biskupar og prestar hafa vafalaust reynt að mæla gegn áheitunum eftir siðbreytingu og fundist fé fólksins betur varið í eitthvað annað. En áheitin héldu áfram og ekkert gat stöðvað þau.
Fyrir siðbreytingu voru Skálholt og Kallaðarnes mestu áheitastaðir Íslendinga og er stundum talið að Strandarkirkja hafi leyst þessa tvo staði við siðbreytingu, hvað áheitin varðar.
,,Árnessýsla átti um aldir tvo mestu áheitastaði landsins, Skálholt og Kallaðarnes. Og enn á hún mesta áheitastaðinn, þar sem er Strandarkirkja. Hún er líkt og arftaki beggja hinna kirknanna. Það er ekki fyrr en eftir að siðbótamenn hafa afnumið og bannað áheit á Þorláksskrín og krossinn helga í Kallaðarnesi, að áheit manna taka að berast til Strandarkirkju.”
Áheitin lifðu tímans tönn og lifa enn sem hluti af trúarlífi okkar Íslendinga. Árni Óla segir í ritgerð sinni að það sé rangt að halda því fram að áheitin hafi borist hingað til lands með pápiskum sið. Hann segir að áheitatrúin sé miklu eldri og eigi líklega rætur sínar að rekja til þess að maðurinn fór fyrst að huga að og gera sér grein fyrir því að til væru æðri máttarvöld. Maðurinn hefur svo leitað ráða til að komast í samband við þessi æðri máttarvöld og fá þau þannig til að hjálpa sér. Slíka trú má finna í öllum löndum og hefur gefist fólki vel, annars mundi hún ekki halda velli. Svona trú er ekki hægt að banna því menn standa vörð um það sem þeim er heilagt. Við kristintökuna blönduðust saman kristnar og heiðnar hugmyndir.

Landsýn

Með siðbótinni var blandað saman pápískum og lúterskum hugmyndum, allt hafði þetta glundroða og öfgar í för með sér. En þegar upp er staðið er það eina sem hélst óbreytt trúin á góð og ill öfl.
Styttan Landsýn, sem stendur framan við Strandarkirkju er eftir listakonuna Gunnfríði Jónsdóttur (f: 26. desember árið 1889 að Sæunnarstöðum í Hallárdal í Austur-Húnavatnssýslu). Gunnfríður var við nám í Kaupmannahöfn þegar hún kynntist tilvonandi manni sínum Ásmundi Sveinssyni myndhöggvara og þau felldu hugi saman. Styttan var vígð sumarið 1953. Styttuna vígði þáverandi biskup Íslands Sigurgeir Sigurðsson. Styttan er af englinum sem birtist sæförunum sem lentu í sjávarháska fyrir langa löngu og er minnisvarði um kraftaverkið í Engilsvík.
Höggmyndin er úr ljósu graníti og var höggvin í Noregi. Hún sýnir okkur hvítklædda konu sem heldur á skínandi krossmarki og bendir sjómönnum í lífsháska inn í Engilsvík.
Gunnfríður lést árið 1968 og á sér legstað í kirkjugarði Strandarkirkju.

 

Heimild:
-www.kirkjan.is/strandarkirkja
-www.olfus.is

Strandarkirkja

Strandarkirkja.