Færslur

Hellisheiði

Í leit að C-64 herflugvél er fórst 22. okt. 1944 um kl. 15:00 á Skálafellssvæðinu og Anson farþegaflugvélar í eigu Loftleiða er fórst árið 1948 á svipuðum slóðum frétti FERLIR af braki úr flugvél í Lakadal við Stóra-Sandfell sunnan Lakadals, millum Norðurhálsa og Suðurhálsa Skálafells. Um væri að ræða hjólastell og fleira. Ætlunin var m.a. að kanna það sem og næsta nágrenni með hliðsjón af framangreindu.
Með C64 herflugvélinni fórust fimm manns; fjórir farþegar og flugmaðurinn, John. J. Custy, fyrsti liðþjálfi 33. bardagasveitar ameríska hersins hér á landi. aðrir voru Robert R. Richt, Anthony P. Colombo, Leonard T. Damerval og Floyd C. Van Orden, allt hermenn. Þegar vélin brotlenti kviknaði í brakinu skv. upplýsingum úr slysaskráningarskýrslu um atvikið.
Haldið var inn á svæðið frá Þrengslunum, til norðausturs inn með Litlameitli (milli hans og Innbruna (hluta Eldborgarhrauns)), upp að Eldborg og inn (norður) Lágaskarð milli Stórameitils og Stóra-Sandfells. Þá var komið inn í Lakadal suðaustan Lakahnúka.
Austan við Meitlana (Stóra- og Litla-Meitils), vestan undir Skálafelli á Hellisheiði, er lítið fell er heitir hinu stóra nafni Stóra-Sandfell (424 m.y.s.). Eftir því sem eftirgrennslan hefur leitt í ljós á þetta fell sér ekki ýkja merkilegri sögu en önnur sambærileg eða valdið eftirminnilegum straumhvörfum í fjallamennsku á Íslandi. Í gönguleiðalýsingum er ekki einu sinni minnst á þetta litla fell með stóra nafnið. Nöfnur þess eru þó nokkrar á Reykjanesskaganum og má segja með nokkurri sanni að þetta (stóra) standi þeirra hæst. Annað Sandfell þarna skammt frá, sunnan Þrengslavegar, er t.a.m. mun hærra (mælt frá rótum), en það stendur því miður bara lægra en Stóra-Sandfell.
Eldborgarhraunið kom eðlilega úr Eldborg austan Meitlanna. Talið er að það hafi gosið fyrir 2000 árum, enda ber þykkt gamburmosahraun hennar þess glögg merki.
Lágaskarðsvegar er liggur með hlíðunum hefur verið getið í nokkrum heimildum. Í seinni tíð hefur hann gjarnan verið nefndur Lakastígur (liggur með Lakahnúkum og Lakadal) og jafnvel Lákastígur. “Norður af Lambafellshrauni er Lambafell, sunnan við það er Stakihnúkur, er hann hjá Lágskarði. Eftir skarðinu liggur Lágaskarðsvegur.” segir í örnefnalýsingu. “[Á Breiðabólstað] hefst Lágaskarðsvegur. Hann liggur yfir Bæjarlæk [við Breiðabólsstað] rétt fyrir ofan Fossinn, inn Torfdalshraun, austan Torfdalsmels og innan til á móts við Krossfjöll austur yfir Eldborgarhraun, austur að Lönguhlíð.”
Leiðin liggur frá Hveradalaflöt, undir austurhlíðum Lakahnúka og síðan um breitt skarðið yfir slétt og greiðfært helluhraun (að mestu mosagróið) og síðan niður úr skarðinu (sem er meira eins og grunnt dalverpi en skarð) til Þorlákshafnar og í Selvog. Á herforingjaráðskorti frá 1909 (1:50000) er norðurendi leiðrinnar sýndur vestar en gera má ráð fyrir. Þar liggur Lágaskarðsleiðin útaf Hellisheiðarvegi undir neðstu brekkum Reykjafells og yfir hraunhólana neðan við Hveradalaflöt en sú leið er mun ógreiðfærari þó hún sé styttri. Á kortinu kvíslast leiðin við Lönguhlíð og liggur ein slóð til Breiðabólstaðar en önnur til Hrauns.
“Um grasi grónar hlíðar og slétt helluhraun, mosagróið, mjög greiðfær leið. Vegurinn er lengstaf aðeins kindastígur en nokkur vörðutyppi eru í sjálfu skarðinu (á helluhrauninu) og gætu sum þeirra verið gömul. Á nokkrum stöðum má ímynda sér að hestaumferð hafi gert för í hraunhelluna en hvergi er það skýrt. Þessi leið mun nú ganga undir nafninu Lákastígur.” Steindór Sigurðsson lýsir Lágaskarðsleið í Árbók Ferðafélagsins 1936: “Þessi leið liggur að mestu leyti samhliða Þrengslaleiðinni, en um það bil þremur km austar. Og Meitlarnir mynda takmörkin á milli þeirra. Leiðin liggur … frá Skíðaskálanum, og stefnir suður yfir lága öldu, um 50 m upp á við af veginum í byrjun.
Þegar upp á hana er komið, sér greinilega móta fyrir Lágaskarði. … Vestan undir [Lákahnúkum] er víðast hvar graslendi, sem ásamt haganum undir Lönguhlíð, austar á leiðinni, hefir orðið til þess að gera leið þessa vinsælli en Þrengslaleiðina. Lágaskarðsleiðin var ein aðalþjóðleiðin yfir Hellisheiði, allt fram að því að akvegur var gerður yfir heiðina og sjálfsögðust lið allra austanmanna, er um Eyrarbakka komu og fóru yfir Ölfusá í Óseyrarnesi og um Hafnarskeið. … Vestan undir Stóra-Sandfelli er hádepill Lágaskarðsleiðar, 303 m. Skammt austar liggur leiðin niður brekku eina talsvert bratta en ei langa, og þegar kemur á brekkubrúnina, sér vegafarandinn hvar Eldborgarhraunið breiðist út vestur með Meitilstöglunum og allt vestur að Sandfelli. … Með heiðarbrúninni er greiðfær og götumtroðinn grasmói, og heiðin fyrir ofan hann – að suðurbunga Skálafells, heitir Langahlíð… Norðaustur af Krossfjöllum skiptast leiðir… en gamla aðalleiðin lá suðaustur með Lönguhlíð, niður hjá Kömbum og Kerlingadrögum, vestanvert við brún Hjallafjalls og annaðhvort austur með fjallsbrúninni, að Hjalla eða suðvestur undir hraunið, að hrauni, sem var fyrrum alkunnur viðkomustaður þeirra, sem Lágaskarð fóru… Lágaskarðsleið er úr Hveradölum… austur að Hjalla… nál. 24 km.”
Hálfdan Jónsson getur Lágaskarðsleiðar í lýsingu Ölfushrepps frá 1703: “Á þessum fjallgarði, er fyrir norðan þessa byggð sveitarinnar liggur, eru þrír vegir vestur á Suðurnes, nefnilega Ólafsskarð, Lágaskarð og Sanddalavegur, hvorjir allir saman koma í einn veg á vestanverðu fjallinu, þá byggðarlönd taka til Suðurnesjajarða.. . Lágaskarð vestur á Bolavelli, er alfaravegur til Reykjavíkur og Hafnarfjarðar.. . Lágaskarð er… vel rudd. Einnig mátti fara um Lágaskarð sem er austar en Þrengslavegur liggur nú. Þeir sem komu “út á Eyrum” og þurftu að komast fljótt til Þingvalla hafa valið þessa leið. Hún var styst.”
Hér að framan er suðurhlíð Skálafells nefnd Langahlíð – ekki Suðurhálsar eins og skrifað er á landakort núdagsins. Langahlíð vestanverð er hins vegar hlíðin handan Skíðaskálans til suðurs.
Gengið var frá austanverðum Lakahnúkum, inn fyrir Lakakrók og inn í Lakadal. Þar var Tröllahlíðum í Trölladal fylgt áleiðis að Suðurhálsum.
Þegar komið er inn á svæðið milli Lakahnúka og Norðurhálsa er verra að hafa landakort meðferðis. Bæði virðast þau misvísandi auk þess sem örnefni virðast ekki vera rétt staðsett. Lakadalur er þarna í suðaustur og Tröllahlíð til austurs. Á milli er Trölladalur. Stóra-Sandfell er í suðri og handan þess Sanddalir. Þegar gengið er suðaustur fyrir Stóra-Sandfell er fallegt útsýni niður í Sanddal. Tröllahlíðin liggur þar upp áleiðis að Lakakrók.
Að þessu sinni var ákveðið að fara fyrst að norðurenda Tröllahlíðar og feta hana síðan ofanverða til suðurs. Hlíðin er mosaþaktir stallar, en auðvelt er að fylgja henni langleiðis. Landslag þarna er fagurt yfir að líta og má segja að hlíðin og og dalurinn beri nöfn með réttu
Leitin í Lakadal bar ekki árangur. Þá var að fara eftir vísbendingu Karls Hjartarsonar um að flakið af flugvélinni væri í gjótu í Orrustuhólshrauni. Samkvæmt henni átti að leggja norðvestast í gamalli malarnámu milli Skíðaskálans og annarrar skammt austar, en úr henni er hægt að aka upp á Ölkelduháls. Þar þangað væri komið átti að ganga með stefnu að bústöðunum undir hlíðum Skarðsmýrarfjalls, þó heldur meira til vesturs við þá.
Þegar komið var upp á hraunbrúnina innan við námuna virtist leitarsvæðið lítt árennilegt – gjóta við gjótu í þykku mosahrauninu svo langt sem augað eygði. Stefnan var samt tekin inn á hraunið samkvæmt framangreindum upplýsingum. Ef ekki hefði verið fyrir frosinn mosann má ætla að erfitt gæti verið að fara fótgangandi um þennan hluta hraunsvæðisins. Eftir u.þ.b. 300 metra gang birtist flakið í gjótunni. Svo virðist sem vélin hafi stungist þarna niður og brak úr henni lítið dreifst. Greinilegt var að eldur hafði kviknað í brakinu. Sjá mátti m.a. annað hjólastellið og annan hjólbarðann. Merki á hvorutveggja gáfu til kynna að um ameríska vél hefði verið að ræða. Á hvorutveggja voru áletranir. Hjólbarðinn bar “logo” líku gamla Flugfélagsmerkinu og inni í hjólskálinni var eftirfarandi áletrun: “HAYS Industries inc. – Jackson Mich U.S.A.”.
Orrustuhóll er í u.þ.b. 500 metra fjarlægð í austri. Sagnir eru um af flugvél hafi farist við Orrustuhól. Þá áttu hermenn á Núpafjalli að hafa séð blossa þegar flugvélin skall í jörðina. Þarna mun um sömu flugvél vera að ræða.
Eftir fund C64 höfðu báðar flugvélarnar, sem fórust í námunda við Núpafjall verið staðsettar. Ljóst er að ruglingur hefur verið á staðsetningu flugvélaleifanna og því hefur C64 vélin verið talin suðvestan við Núpafjall þar sem Anson vélin fórst á sínum tíma.
Þriðja vélin, sem þarna hrapaði skammt frá, fór í Efrafjall, en frá henni er sagt annars staðar á vefsíðunni (sjá HÉR). Þá á eftir að staðsetja flak flugvélar er fórst í austanverðum Bláfjöllum á sjötta áratug síðustu aldar.
Frábært veður. Gangan tók (3:03)

Heimildir m.a.:
-Heimildir: Ö-Afr.Ölf. 9; Ö-Breiðabólsstaður, 2; SSÁ, 236; ÁFÍ 1936, 116-118; SB III, 198
-Steinþór Sigurðsson & Skúli Skúlason: “IV. Austur yfir fjall.” ÁFÍ 1936, 116-118.
-Smári Karlsson.
-Karl Hjartarson.C64

Brennisteinsfjöll
Gengið var upp með suðurjaðri Hvammahrauns (Hvannahrauns) frá Gullbringu austan Kleifarvatns með stefnu á Vörufell (534 m.ys.). Ætlunin var að skoða hina formfögru gíga Vörufellsborga og halda síðan upp að Eldborg (570 m.y.s.) í Brennisteinsfjöllum, drottningu glepragíganna á Reykjanesskaganum. Miklar hrauntraðir, margir gígar og væntanlega allnokkur forvitnileg jarðop vörðu leiðina, en glöddu augað.
Orkufyrirtæki hafa haft ágirnd á Brennisteinsfjöllum. Ekki síst þess vegna var ákveðið að gaumgæfa það með hliðsjón af öðrum mögulegum verðmætum – og jafnvel meiri – til lengri tíma litið. Göngusvæðið er allt innan umdæmis Grindavíkur.
Hraunið norðan Gullbringu heitir Hvammahraun og er sagt kennt við hvammana sem eru í kring þar sem það fellur niður sunnanverða Vatnshlíð og út í vatnið. Þessi hraunstraumur er annar af meginstraumum sem hafa komið hafa úr mikilli gígaröð í Brennisteinsfjallaeldstöðinni til vesturs. Hluti hraunstraumsins rann til norðurs, m.a. niður í Fagradal. Hinn straumurinn féll niður í Herdísarvík, til suðausturs. Hins vegar, ef grannt er skoðað,má sjá fleira en eitt hraun í Hvömmunum. Þegar gengið var niður frá Eldborg má sjá stóran gíg. Úr honum hefur komið þunnfljótandi hraunkvika og runnið niður hlíðarnar. Það helluhraun hefur greinilega fallið niður syðst í Vatnshlíðinni og er undir hrauni því sem jafnan er nefnt Hvammahraun. Það er því eldra. Hvammahraunið hefur hins vegar komið úr gígunum vestan við Kistufell.
Gengið var upp með Gullbringu með hraunkantinum, inn á gömlu þjóðleiðina ofan hrauns (Dalaleiðin), upp gróinn sneiðing í brekkunni norðan Gullbringu og áfram upp með Brúnunum. Þar er stórt jarðfall, alveg við götuna. Niðri í því er Gullbringuhellir. Hann hefur m.a. verið notaður sem skjól því í hellinum er hlaðið undir bæli undir vegg. Ofar er annað op á hellinum. Rásin er sú sama. Þar í rás er rúmgóður hellir, a.m.k. 150 m langur.
Haldið var áfram upp með hraunjaðrinum, upp undir svonefndar Bringur, sem sumir hafa viljað meina að heiti Gullbringa. Nafnið sé komið af því að á kvöldin þegar sólin er að setjast á bak við Miðdegisnúk á Sveifluhálsi slái gullleitum bjarma á hlíðina alla. Það vita reyndar þeir sem séð hafa. Hinir, sem verið hafa á Bringunum þegar morgunsólin kemur upp sjá hins vegar gylltum bjarma slá á Gullbringu (þá neðri).
Beygt var til hægri upp úr hvömmunum og stefnan tekin á Vörðufell. Haldið var yfir í hrauntröð mikla er kemur úr eldborg norðvestan Vörðufells. Þá var gengið á hina breiðu og reglulega formuðu eldborg norðan Vörðufells. Kvikan úr henni hefur að mestu unnið niður í Herdísarvíkurhraun við Lyngskjöld.
Norðan eldborganna er Eldborg í Brennisteinsfjöllum. Hún er fremur lítil, en stendur hátt. Þegar staðið er uppi á henni má sjá svo til um allan Reykjanesskagann. Sást vel yfir að Hvirfli, Grindarskarðshnjúkum og Syðstubollum í norðri, Æsubúðum í suðri og yfir Sveifluhálsinn, Núpshlíðarhálsinn, Keilir, Fagradalsfjall, Þórðafell og Súlur í vestri. Gígaröðin liggur til NA norðan hennar og SV sunnan hennar. Áður en komið var að Eldborginni sást rjúpa þjóta hjá – og hvítur refur í loftköstum á eftir. Hann var svo upptekinn við veiðarnar að honum yfirsást mannfólkið.
Vestan Eldborgar er enn ein eldborgin, sem fyrr sagði. Þar er stærsti gígurinn og sá þeirra sem framleitt hefur mesta þunnfljótandi kvikuna er rann að mestur til vesturs, niður hlíðarnar.
Að þessu sinni var ekki gengið um Kistufell og niður í Brennisteinsnámurnar, enda gert ráð fyrir að um það svæði verði gengið í annarri ferð n.k. vor þegar skimað verður eftir “götunum djúpu” norðvestan Kistufells (fundust í einni FERLIRsferðinni, ca. 10-15 m djúp).
Tiltölulega fáir þekkja til Brennisteinsfjalla en þau eru í næsta nágrenni við höfuðborgina, í Reykjanesfólkvangi sem er náttúruperla við bæjardyr borgarinnar. Þar eiga Grindvíkingar og aðrir íbúar höfuðborgarsvæðisins og næsta nágrennis athvarf til að stunda útivist og njóta náttúrunnar á svæði, sem nýtur verndar.
Orkustofnun hefur skoðað Brennisteinsfjöll m.t.t. háhitaöflunar. Í umsögn stofnunarinnar segir að “Brennisteinsfjallasvæðið er fremur lítið og afmarkað” með hliðsjón af því. Á vefsíðu stofnunarinnar segir m.a. um svæðið:
“Jarðhitasvæðið í Brennisteinsfjöllum liggur í 400–500 m hæð yfir sjó. Virkur jarðhiti kemur fram sem gufur í um 450 m hæð, en köld ummyndun er á fjórum stöðum og vitnar um meiri virkni á fyrri tíð. Jarðhiti á yfirborði er óverulegur og miðað við útbreiðslu jarðhita og ummyndunar er svæðið um 3 km2. Viðnámsmælingar benda til þess að svæðið sé um 18 km2 á 700 m dýpi undir sjávarmáli, um 1200 m undir yfirborði þar sem jarðhita verður vart. Háhitasvæðið í Brennisteinsfjöllum liggur í samnefndri sprungurein og hefur gosið þar a.m.k. 30–40 sinnum eftir að ísöld lauk. Brotalínur eru ungar á svæðinu frá sjó og norður á Mosfellsheiði og verða oft jarðskjálftar á um 5 km breiðu og um 40 km löngu belti.
Jarðskjálftar í Brennisteinsfjöllum geta orðið nokkuð stórir. Megingerð jarðlaga er móberg, og þar sem gosstöðvar hafa náð upp úr jökli hafa runnið hraun og myndast stapar eða hraunahryggir. Allar bergmyndanir eru basalt og ekkert súrt eða ísúrt berg hefur fundist á yfirborði.” Með umfjölluninni fylgja yfirlitsmyndir, sem sýna alls ekki þá miklu náttúrufegurð er svæðið hefur að geyma.
Brennisteinsfjöll eru eina sprungureinin og háhitasvæðið sem enn er að mestu er ósnortið – öllum hinum hefur verið raskað að meira eða minna leyti vegna jarðhitanýtingar.
Náttúruperlur eins og sú sem hér er rædd eru gríðarlegar auðlindir í sjálfu sér, ósnortnar og kynngimagnaðar. Verndargildi þeirra er hátt sem þýðir á máli hagfræðinnar að þær eigi vafalaust eftir að margfaldast að verði eftir því sem tímar líða. En um leið má búast við ásókn þeirra sem vilja nýta sér jarðvarmann á þessum svæðum og virkja. Þegar hefur verið sótt um leyfi fyrir rannsóknaboranir í Kerlingarfjöllum og í Reykjanesfólkvangi, m.a. í Brennisteinsfjöllum. Augljóst er að virkjanir á þessum stöðum munu hafa mikil og óafturkræf náttúruspjöll í för með sér.
Forsætisráðherra hefur haldið því fram að ríkisstjórnin hafi enga stefnu í uppbyggingu álvera. Á sama tíma geysast menn áfram og leggja til að reist verði ný álver og þau eldri stækkuð, allt með fullum stuðningi stjórnvalda. Sama stefnuleysi ríkir í virkjanamálum. Stjórnvöld hafa gefið raforkufyrirtækjum lausan tauminn með því að innleiða samkeppni á raforkumarkaði en hafa ekki enn lokið við gerð rammaáætlunar um nýtingu vatnsafls og jarðvarma. Í raun má efast um að stjórnvöld ætli sér yfir höfuð nokkuð með þeirri vinnu sem hefur farið í gerð rammaáætlunarinnar. Í fyrsta áfanga hennar, er ekki einu sinni fjallað um Kerlingarfjöll sem virkjunarkost.
Til eru stjórnmálasamtök er telja að dýrmæt náttúrusvæði, eins og Brennisteinsfjöll, eigi að vernda. Það er engin þörf á því að ráðast að þessum perlum. Þvert á móti er mikilvægt að hlúa að þeim með því að samþykkja að gerð verði um þau verndaráætlun. Þannig yrði vernd þeirra tryggð og séð til þess að unnt væri að njóta þeirra um ókomna tíð.
Guðrún Hallgrímsdóttir segir Brennisteinsfjöll vera öræfi Reykvíkinga. Reyndar má segja að fjallasvæðið allt sé í rauninni ómetanleg verðmæti allra landsmanna.
Á Reykjanesskaganum má enn rekja stórkostlega jarðsögu, líklega sögu sem á engan sinn líka og hefur á síðustu 5000 árum mótað landsslag þéttbýlisins á suðvesturhorninu.
Áhrifavaldar í mótun skagans eru fjögur eldstöðvakerfi sem liggja á gosbeltinu eftir endilöngum skaganum og hefur gosið í þeim öllum á sögulegum tíma. Þau eru Reykjaneskerfið þar sem gaus fyrir um 1500 – 1800 árum og svo aftur í Reykjaneseldum árin 1211 – 1240, Trölladyngjukerfið en þar gaus fyrir 2000 árum og síðan aftur í Krýsuvíkureldum 1151-1180, Brennisteinsfjallakerfið sem var virkt fyrir 2000 árum og aftur í Reykjaneseldum og að lokum það stærsta Hengilskerfið sem var í essinu sínu fyrst fyrir um 5000 árum og svo aftur fyrir 2000 árum.
Þegar stórhuga menn mæltu fyrir stofnun Reykjavíkurfólksvangs um miðjan áttunda áratug síðustu aldar bentu þeir á að á fáum stöðum á landinu væri að finna fjölbreyttari eldgosmyndanir og hvergi í Evrópu væri að finna sambærileg jarðfræðifyrirbæri í návist þéttbýlis. Þarna mætti finna flest það sem sóst væri eftir inn á Miðhálendinu, öræfakyrrð og óröskuð víðerni.
Eftir stofnun fólksvangsins var ítrekuð nauðsyn þess að huga að framtíðarskipulagi varðandi landnotkun. Það skipulag hefur ekki litið dagsins ljós en nú 30 árum síðar er búið að ráðstafa þremur af þessum fjórum eldstöðvakerfum og háhitasvæðum til fjölnýttrar orkuvinnslu þ.e. að framleitt er rafmagn, hitaveituvatn, grunnvatn og iðnargufa. Byggðar hafa verið verksmiðjur, jarðböð og orkuver. Nýtingu háhitasvæða fylgja vegalagnir og efnisnámur, borholur, borplön, raflínur og vatns- og gufuleiðslur. Þeir sem fara um Hengilsvæðið og Hellisheiði, út á Reykjanes eða ganga um Svartsengi og meðfram Eldvörpum sjá hvernig borholum hefur verið dritað um allt. Vegir liggja þvers og kruss. Aðeins Brennisteinsfjöll ein eru eftir ósnortin.
Óþarfi er að bíða eftir áætlun um landnýtingu, en hins vegar er nauðsynlegt að bjarga Brennisteinsfjöllum. Þau heita eftir brennisteinsnámum á háhitasvæði á afskekktu landsvæði suður af Lönguhlíð þar sem merkar minjar er að finna um sambúð lands og þjóðar en er þó með öllu ósnortið af nútímanum. Svæðið er töfrandi náttúruparadís þar sem gefur að líta ýmsar gerðir gíga, stuðlaberg, hrauntraðir og tjarnir.
Orkuyfirvöld hafa nú þegar óskað eftir því að hefja rannsóknir í Brennisteinsfjöllum. Gegn því hefur Náttúrufræðistofnun lagst enda fylgja slíkum rannsóknum vegir, borholur og borplön. Þar með væri búið að eyðileggja öll háhitasvæðin á Reykjanesi.
Verði komið í veg fyrir veitingu leyfis til rannsókna í Brennisteinsfjöllum kæmi til greina að friðlýsa hluta Reykjanesfólksvangs sem fyrsta skref í stofnun rekbelta – heimsminjasvæðis sem næði áfram austur eftir gosbeltinu til Vatnajökuls og þaðan norður í Axarfjörð eins og Sigrún Helgadóttir hefur stungið upp á.
Full ástæða er til að ígrunda það alvarlega að friðlýsa Brennisteinsfjöllin sem ósnortið víðerni – og það fyrr en seinna.
Umhverfisstofnun vekur athygli á að í bréfi, dagsettu 26. nóvember 2003, er rektor Háskóla Íslands hafði farið þess á leit við umhverfisráðherra að auglýsingu um friðland í Herdísarvík verði breytt á þann veg að mögulegt verði að rannsaka og nýta jarðhita sem er að finna í Brennisteinsfjöllum. Umhverfisráðuneytið óskaði eftir afstöðu Umhverfisstofnunar til málsins með bréfi dagsettu 20. janúar sl. Álit stofnunarinnar var eftirfarandi:
“Í Brennisteinsfjöllum er jarðfræðileg fjölbreytni mikil, þar er að finna merkar og nánast ósnortnar eldgosaminjar, jarðskjálftasprungur, misgengi og háhita. Brennisteinsfjöll, og raunar allt Herdísarvíkurfriðland, eru hluti af stærra svæði sem fjallað er um í tillögu Umhverfisstofnunar um náttúruverndaráætlun, þ.e. Brennisteinsfjöll-Herdísarvík, en lagt er til að svæðið allt verði friðlýst sem náttúruvætti eða friðland.
Við val á tillögum sem fjallað er um í þingsályktunartillögu um þetta efni var svæðum meðal annars forgangsraðað með tilliti til jarðfræðilegra minja með einkunnagjöf. Þar fékk svæðið Brennisteinsfjöll-Herdísarvík næsthæstu einkunn og á eftir Geysi, en Reykjanes- Eldvörp- Hafnarberg og Grændalur fengu þriðju hæstu einkunnina. Þegar vinnuhópur umhverfisráðuneytis var að störfum lág fyrir að umhverfisráðuneyti hafði með bréfi dags 13. júní 2003, til iðnaðarráðuneytis, lagst gegn því að veitt yrði rannsókna- og nýtingarleyfi í Brennisteinsfjöllum. Í þingsályktunartillögunni var einungis fjallað um Geysi og Reykjanes- Eldvörp- Hafnarberg en ekki þótti ástæða til að fjalla um Brennisteinsfjöll- Herdísarvík að sinni, þar sem ekki voru áform uppi um nýtingu þessa svæðis.” Nú er hins vegar raunin önnur, en rökin um verndun svæðisins eru enn þau sömu.
Á 130. löggjafarþinginu lagði Ásta R. Jóhannesdóttir fram eftirfarandi fyrirspurn fyrir iðnaðarráðherra: “Hvernig hefur verið brugðist við umsóknum Hitaveitu Suðurnesja og Orkuveitu Reykjavíkur um leyfi til rannsókna í Brennisteinsfjöllum?”
Svar iðnaðarráðherra var eftrifarandi: “Á miðju ári 2000 barst iðnaðarráðuneyti erindi frá Hitaveitu Suðurnesja þar sem farið var fram á rannsóknarleyfi til jarðhitarannsókna í Brennisteinsfjöllum. Á sama tíma barst ráðuneytinu sams konar erindi frá Orkuveitu Reykjavíkur. Í báðum tilvikum óskuðu umsækjendur eftir rannsóknarleyfi með fyrirheit um nýtingarleyfi.
Þetta var í fyrsta sinn sem tveir aðilar sóttu um rannsóknarleyfi á sem næst sama tíma frá því lögum nr. 57/1998, um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu, voru sett. Í þeim lögum er ekki kveðið á um það að ekki megi veita tveimur hæfum aðilum rannsóknarleyfi á sama svæði og á sama tíma. Ráðuneytið hefur litið svo á að túlka beri lög nr. 57/1998 svo að heimilt sé að veita fleiri en einum aðila rannsóknarleyfi á sama svæðinu.

Ráðuneytið telur að í slíkum tilvikum þurfi sérstaklega að tryggja að þær framkvæmdir eða rannsóknir sem leyfishafar hyggjast fara í séu ekki ósamrýmanlegar. Hins vegar verður að telja afar ólíklegt að tveir aðilar skuli samtímis standa að dýrum rannsóknum á sama jarðhitasvæðinu án þess að hafa fengið fyrirheit um forgang að nýtingarleyfi.
Eðli málsins samkvæmt er ekki unnt að veita fleiri en einum aðila fyrirheit um forgang til nýtingar á sama svæði. Þar sem lög nr. 57/1998 mæla ekki fyrir um hvernig gert skuli upp á milli umsækjenda taldi ráðuneytið ekki unnt að veita öðrum umsækjandanna fyrirheit um forgang að nýtingarleyfi. Var því beiðni um fyrirheit um forgang til nýtingar fyrir Hitaveitu Suðurnesja annars vegar og Orkuveitu Reykjavíkur hins vegar hafnað í júní 2002. Ráðuneytið benti hins vegar umsækjendum á þann möguleika að þeir sameinuðust um rannsóknir á svæðinu og fengju tilskilin leyfi til þess ásamt fyrirheiti um forgang að nýtingu.
Í lok janúar 2003 sóttu fyrrgreind fyrirtæki sameiginlega um leyfi til að rannsaka umfang, magn og afkastagetu jarðhitasvæða í Brennisteinsfjöllum. Þar var farið fram á að fyrirtækjunum verði sameiginlega veitt nýtingarleyfi á svæðinu ef árangur rannsókna reynist jákvæður. Í apríl 2003 var óskað eftir umsögnum Orkustofnunar, umhverfisráðuneytis og viðkomandi sveitarfélaga um umsókn fyrirtækjanna um rannsóknarleyfi í samræmi við ákvæði laga um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu. Orkustofnun og sveitarfélögin tóku jákvætt í að rannsóknarleyfi yrði veitt, en umhverfisráðuneyti taldi að ekki ætti að svo komnu máli að veita Hitaveitu Suðurnesja og Orkuveitu Reykjavíkur rannsóknarleyfi og fyrirheit um forgang að nýtingarleyfi.
Á fundi með umhverfisráðuneyti 26. águst 2003 var farið yfir forsendur fyrir áliti ráðuneytisins, en árið 2000 hafði ráðuneytið ekki lagst gegn því að rannsóknarleyfi yrði veitt, þó með ströngum skilyrðum.
Á fundinum kom fram að undirstofnanir ráðuneytisins hefðu gert nokkrar athugasemdir um að upplýsingar vantaði, m.a. hvað varðaði aðkomuvegi að svæðinu, staðsetningu borplana, og auk þess kom ósk um að beðið yrði eftir niðurstöðum rammaáætlunar. Á fundi með orkufyrirtækjunum í september 2003 var ákveðið að freista þess að afla þeirra gagna og upplýsinga sem talið hafði verið að á skorti í umsókn fyrirtækjanna um rannsóknarleyfi. Þá voru niðurstöður rammaáætlunar kynntar í lok nóvember 2003 þar sem fram kom að virkjun í Brennisteinsfjöllum telst í þeim flokki virkjana er næst minnst umhverfisáhrif hafa.
Þegar framangreind viðbótargögn berast iðnaðarráðuneyti mun umsagnaraðilum lögum samkvæmt kynnt þau gögn og þeim gefið tækifæri á að tjá sig um þau. Komi ekki fram verulegar efnislegar og rökstuddar athugasemdir mun iðnaðarráðuneytið í framhaldi af því gefa út leyfi til jarðhitarannsókna í Brennisteinsfjöllum.”
Í þingræðu 7. des. 2005 fjallaði Kolbrún halldórsdóttir m.a. um Brennisteinsfjöll:
“Ef við værum skynsöm mundum við nú setja reiknimeistara yfir það að reikna ólíka hagsmuni, annars vegar af því að vernda Brennisteinsfjöll og hins vegar að hleypa orkufyrirtækjunum þar að til að ná í jarðvarmann til að selja raforkuna ódýrt til stóriðju. Hvorir hagsmunirnir ætli kæmu betur út? Í mínum huga er ekki nokkur vafi, langtímahagsmunirnir af náttúruverndinni yrðu miklu meiri. Ég er sannfærð um það af því að reikniaðferðirnar sem umhverfissinnaðir hagfræðingar hafa þróað í þeim efnum hafa sýnt okkur fram á að ef dæmin eru reiknuð til enda þar sem náttúruverndarsvæði eru eða verndarsvæði sem hafa mikla verndarhagsmuni eru þau svo þung á vogarskálunum þegar til langs tíma er litið.
Ef þau eru reiknuð inn í heildarverðmætamatið eða hagsmunamatið allt verður útkoman sú að á endanum borgi það sig beinlínis í beinhörðum peningum fyrir okkur að vernda slíkt svæði. (Gripið fram í: Hefurðu …?) Varðandi Brennisteinsfjöll hefur þetta ekki verið reiknað svo að ég viti en gerðir hafa verið útreikningar og skrifuð um þetta háskólaverkefni, bæði hér á landi og reyndar í háskólum erlendis. Ég minnist þess að í háskólum í Skotlandi hafa háskólastúdentar reiknað út svæði á þessum nótum hér á Íslandi. Það þarf oft að fara út fyrir landsteinana til að fólk átti sig á því hve mikil verðmæti eru í húfi. Þessi aðferð sem kölluð er „skilyrt verðmætamat“ hefur verið reynd á ákveðnum svæðum á Íslandi og það hefur ævinlega komið í ljós að verndargildi svæðanna sem hafa verið reiknuð er gríðarlega hátt. Stjórnvöld hafa þó verið ófáanleg til að meta þá hagsmuni og taka þá inn í lokaákvarðanatöku um endanlega nýtingu á svæðinu. Þá er ég að tala um að náttúruvernd sé líka nýting. Það er auðvitað það sem þessi stjórnvöld verða að fara að opna augu sín fyrir. Með því að vernda náttúruna ósnortna erum við að nýta hana til yndisauka og yndisaukinn hefur á reiknistokki þeirra hagfræðinga sem ég var að tala um ákveðið verðgildi.”
Enn ein rökin fyrir því að hinkra og hætta þessu óðagoti, láta ekki eftir orkufrekjunni í orkufyrirtækjunum vegna þess að það liggur ekki lífið á, er að hér er fjöldi virkjunarkosta, í vatnsaflinu jafnvel, fullrannsakaður og ónýttur. Hv. þm. Mörður Árnason fór yfir það áðan og það skiptir verulegu máli að við tökum þetta upp á arma okkar á þeim nótum að við horfum heildstætt á málin.
Í Brennisteinsfjöllum er sérstætt háhitasvæði, nánast ósnortið og með afar hátt verndargildi. Svæðið er hið eina fjögurra eldfjallakerfa á Reykjanesi, sem ekki hefur verið spillt með borunum, vegagerð og línulögnum. Í Brennisteinsfjöllum eru merkar gosminjar frá sögulegum tíma, umhverfið er stórbrotið með gígum, eldhraunum og hellum, og þar má rekja opnar jarðskjálftasprungur og misgengi. Eldvirkt svæði nær alveg frá sjó norður fyrir Sandskeið. Dýrmætt er að hafa aðgang að öræfakyrrð og svo fjölbreyttu landslagi í aðeins 20 km fjarlægð frá þéttbýlinu á suðvesturhorni landsins. Að Brennisteinsfjöllum steðjar nú hætta þar sem mikill þrýstingur er á stjórnvöld um að veita rannsóknarleyfi þeim aðilum er telja svæðið fýsilegt til orkunýtingar. Skorað hefur verið á stjórnvöld að friðlýsa Brennisteinsfjöll, varðveita þau sem ósnortið víðerni og tengja þau friðlandinu í Herdísarvík eins og lagt er til í Náttúruverndaráætlun.
Þegar staðið var ofan við Bringurnar norðanverðar og horft yfir Hvammana og Vatnshlíðina mátti vel ímynda sér þá ógnarkrafta sem þarna hafa verið að verki er hraunið rann, fyllti dalinn og stöðvaðist úti í Kleifarvatni austanverðu. Undir er eldra helluhraun, sem sést vel þar sem það rann niður hlíðna sunnanverða.
Hellir ofarlega í brúnum var skoðaður. Hann var í þröngri rás, en fallegar myndanir voru í honum. Vel mátti sjá hvar Dalaleiðin liggur yfir hraunið þar sem það er mjóst, inn í óbrennishólma að sunnanverðu. Breið kindagata liggur umhverfis hraunið. Líklegt má telja að gangandi fólk hafi farið beint af augum eftir stígnum þvert yfir hraunið til suðurs frá vestanverðum hraunkantinum í Vatnshlíðinni, en ríðandi fólk farið eftir hinni miklu og áberandi götu í hrauninu undir Vatnshlíðinni og síðan krækt með hraunkantinum að Gullbringu. Gatan þar er áberandi enn þann dag í dag. Við Gullbringu skiptist gatan enn á ný, annars vegar í sneiðing upp hlíðina austan við fjallið og áfram um Kálfadali, og hins vegar í gróna sneiðingnum til vesturs norðan fjallsins og síðan yfir að Hvömmum sunnan Kleifarvatns.
Frábært veður. Gangan tók 5 klst og 5 mín. (16. km).

Heimildir m.a.:
-Guðrún Hallgrímsdóttir.
-Svandís Svavarsdóttir.
-Helgi Torfason og Magnús Á. Sigurgeirsson 2001.
-Umhverfisstofnun.
-Kolbrún Halldórsdóttir
-Alþingi.

Brennisteinsfjöll

Ofan Fagradals.

Sogasel

Haldið var upp á Höskuldarvelli þar sem ætlunin var að ganga á Trölladyngju og síðan til baka um Sogin. Vegurinn upp á Höskuldarvelli liggur upp Afstapahraun, sem mun vera frá sögulegum tíma.

Keilir

Keilir, séður frá Trölladyngju.

Gengið var upp grasi gróna vesturhlíð Dyngjunnar, um skarð og síðan aflíðandi upp á hana að austanverðu. Dyngjan er ber á bakinu, en ekki erfið uppgöngu. Heildargangan tekur u.þ.b. 30 mínútur. Fallegt útsýni er af Trölladyngju yfir Höskuldarvelli, Oddafell, Eldborg, Lambafell, niður og norðaustur eftir Dyngjurana, Grænudyngju og um hálsinn að sunnanverðu, yfir að Spákonuvatni og Sogin. Grænadyngja er austan við Trölladyngju og er gróinn dalur (dyngja) á milli þeirra. Hún er gróin upp á topp og því tiltölulega auðveld uppgöngu.
Trölladyngja er móbergsfjall, en þegar komið er á efri hluta hennar verður bólstraberg áberandi. Stundum var talað um Trölladyngur, Dyngjur eða Dyngjuhnúka, og þá átt við báða hnúkana. Trölladyngja er um 375 m og Grænadyngja er um 400 m. Í Trölladyngju hefur fundist silfurberg.
Milli Dyngnanna er skarð sem skipt er þversum af lágum hálsi og heitir hann líklega Söðull. Sogin skilja Dyngjurnar frá Núpshlíðarhálsi, en þau eru grafningar miklir. Í þeim eru miklar eldstöðvar, bæði að sunnan- og norðanverðu, og litadýrðin mikil, einkum að sunnanverðu. Hraun hafa runnið bæði í norður og suður, meðal annars Afstapahraun, bæði yngra og eldra (Geldingahraun). Enn er þarna mikill jarðhiti á ýmsum stöðum.
Reykjanesinu er gjarnan skipt í 4 eða 5 eldstöðvakerfi, Reykjanes-Grindavík-Vogar (oft talið sem tvö kerfi), Krýsuvík-Trölladyngja, Brennisteinsfjöll-Bláfjöll og Hengill-Selvogur. Hliðrunarbelti með austur-vestur stefnu í gegnum þessi kerfi veldur tíðum jarðskjálftum á Reykjanesi og á því hafa myndazt háhitasvæði á yfirborði, s.s. á Reykjanesi, í Eldvörpum, í Svartsengi, í Krýsuvík og í Brennisteinsfjöllum. Eldstöðvakerfin hafa öll skilað blágrýti (þóleiískt berg) til yfirborðsins á nútíma nema Hengilssvæðið. Píkrít er að finna í gömlu og minni dyngjunum á svæðinu en ólivínþóleit í hinum yngri og stærri. Fjöldi dyngnanna frá nútíma er u.þ.b. 30 og gossprungur eru í tugatali.

Sogin

Litadýrð Soganna.

Eldborgin norðan við Trölladyngju var einnig nefnd Ketillinn. Hún hefur verið fallegur gígur, en er nú ekki svipur hjá sjón. Jón Jónsson, jarðfræðingur, segir að gosið í Eldborg hafi án efa verið með þeim seinustu á þessu svæði og sennilega það síðasta. Það er því yngra en Afstapahraun.
Höskuldavellir eru rúmur kílómetri að lengd og tæpur kílómetri á breidd. Þeir urðu til við leiframburð Sogalækjar, sem kemur úr Sogunum og rennur norður um vellina. Ekki er vitað við hvaða mann vellirnir eru kenndir, en þeir eru í landi Stóru-Vatnsleysu.
Gengið var upp skarðið stóra milli Dyngnanna, yfir að Sogunum. Búið er að girða af beitarhólf Suðurnesjamanna, en víða í grónum giljum má sjá allt að fimm metra undir girðinguna. Sogin eru 150-200 m djúp leirgil sem mikill jarðhiti hefur verið í fyrrum og aðeins eimir af enn. Þægilegt er að ganga niður í Sogin sunnan við Dyngjurnar og útsýnið er stórbrotið og litadýrðin mikil. Leirkenndur jarðvegurinn er rokgjarn, en drekkur í sig bleytu. Fallegur hver er í hlíðinni sunnan við Sogalæk. Honum var fylgt niður Sogaselsdalur eða Sogadal, litið á tóftir þar sunnan við lækinn og síðan haldið að selsminjunum inni í Sogagíg eða Sogaselsgíg. Gígurinn er opinn til suðurs, girtur skeifulaga hamrabelti og hefur því myndað gott aðhald fyrir skepnur. Þarna var Sogasel frá Kálfatjarnarhverfi og jafnvel Krýsuvík. Margar kofatóftir eru á þremur stöðum í gígnum og kví undir vestari hamraveggnum og við nyrstu tóftina.
Frábært veður. Gangan tók 1 klst og 33 mín.

Heimild m.a.:
-Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi eftir Sesselju G. Guðmundsdóttur.Sogin

Eldborg
Gengið var upp á Stóru-Eldborg undir Geitahlíð, niður hrauntröð suðaustur úr megingígnum, beygt að Litlu-Eldborg, horft niður um gígopið og síðan gengið niður mikla hrauntröð til suðurs í Krýsuvíkurhraun.

Krýsuvíkurrétt

Krýsuvíkurrétt undir Eldborgum.

Eftir að hafa fylgt tröðinni nokkurn spöl, var gengið yfir hraunið til austurs og síðan norðurs, uns komið var í aðra stóra hrauntröð úr gígunum. Hún var gengin upp að rótum. Svæði þetta er einstaklega áhugavert út frá jarðfræðilegum sjónarmiðum, en ekki síst náttúrulegum því í hrauninu hafa fest rætur hinar margvíslegustu plöntur, auk gamburmosans. Hraunin hafa jafnan verið nefnd undir samheitinu Krýsuvíkurhraun, en í rauninni er um nokkur aðskilin hraun að ræða, sem hvert hefur runnið yfir annað, að hluta til eða í heild. Á hraunakortum af Krýsuvíkurhrauninu en ljóst er að mjög margir hraunstraumar eru settir undir örnefnið Krýsuvíkurhraun. Sjá má hvernig hraunstraumar hafa runnið niður hlíðarnar, s.s. í Sláttudal, en ofan við þær eru einstaklega fallegir eldgígar, sem fáir hafa barið augum. Þeir eru í góðu göngufæri frá Herdísarvíkurveginum, t.d. upp frá Sláttudal eða upp frá Sýslusteini skammt austar.

Eldborgir eru venjulega túlkaðar í eintölu og eru undir Geitahlíð. Stóra-Eldborg er t.a.m. nokkrir gígar þótt einn þeirra sé sýnum myndarlegastur og reistastur. Þegar staðið er upp á suðuröxl Geitahlíðar sjást gígarnir mjög vel sem og hraunið niður undir þeim. Þetta eru formfagrir gjallgígar á suðvesturenda gígaraðar, sem skildi eftir hraun alla leið til sjávar. Hraunið frá Litlu-Eldborg er talsvert minna. Norðausturhluti gígaraðarinnar sést vel frá Æsubúðum.

Krýsuvík

Svæðið.

Geitahlíð, sem fóstrar eldborgirnar á öxlum sínum, er grágrýtisdyngja. Í suðurhlíðum, ofan við Stóru-Eldborg, er Hvítskeggshvammur, en Æsubúðir efst á hlíðinni. Við þær er gígur fjallsins, alldjúpur. Hvítskeggsvammi og Æsubúðum tengist þjóðsaga af kaupmönnum, sem í búðunum höfðu verslunarstað fyrrum. Við Hvítskeggshvamm bundu þeir skip sín og “mátti til langs tíma sjá festarkeng þar í klöppunum”. Líklegt er að þá hafi ströndin náð upp að fjöllunum, s.s. Herdísarvíkurfjalli, sem telja má líklegt. Ströndin neðan við fjallgarðinn er nýrra hraun, sem runnið hefur neðan af björgunum og fyllt upp og mótað landið neðan við þau. Ofan Stóru-Eldborgar liggur gamla þjóðleiðin milli Krýsuvíkur og Herdísarvíkur, um Deildarháls og Kerlingadal, þar fyrir eru dysjar Herdísar og Krýsu.
Eldborgir undir Geitahlíð eru hluti af gjallgígaröð. Stóra-Eldborg er meðal fegurstu gíga Suðvesturlands. Þær voru friðlýstar 1987, sbr. Stj.tíð. B, nr. 622/1987. Þar s egir m.a. um friðlýsinguna:

”Samkvæmt heimild í 22. gr laga nr. 47/1971, um náttúruvernd, hafa [Umhverfisstofnunar] og náttúruverndarnefnd Grindavíkur ákveðið að friðlýsa sem náttúruvætti Stóru – Eldborg og Litlu – Eldborg undir Geitahlíð, Grindavík, ásamt næsta nágrenni. Mörk hins friðlýsta svæðis eru eftirfarandi:
Að norðan fylgja þau mörkum hrauns og hlíðar, 200 m austur fyrir nyrstu gíga í gígaröð Litlu – Eldborgar. Þaðan hugsast bein lína í austurhorn hrauntraðar frá Litlu – Eldborg um 225 m sunnan borgarinnar. Síðan bein lína í vestnorðvestur að þjóðvegi, eftir honum að vesturjaðri hraunsins frá Stóru – Eldborg. Að vestan fylgja mörkin hraunjaðrinum.

Kerlingardalur

Dysjar Herdísar og Krýsu.

Eftirfarandi reglur gilda um svæðið:
Gjalltaka og mannvirkjagerð er óheimil, svo og hvers konar jarðrask, sem breytir eða veldur skemmdum á útliti gíganna. Skylt er vegfarendum að sýna varúð, svo að ekki spillist gróður eða aðrar minjar á hinu friðlýsta svæði umhverfis eldstöðvarnar.”
Eldborg myndast þegar þunnfljótandi kvika kemur upp um kringlótt gosop í fremur stuttum gosum og án kvikustrókavirkni (flæðigos). Umhverfis gosopið hlaðast upp brattir gígveggir úr hraunslettum. Hraunið frá þeim er ýmist hellu- eða apalhraun. Dæmi: Eldborg á Mýrum og þessar eldborgir í Krýsuvík.

Hraungos eða flæðigos nefnast þau gos sem nær eingöngu mynda hraun. Slík gos mynda ýmist eldborgir eða dyngjur. Eldborgir myndast við eitt, fremur stutt, flæðigos þegar þunnfljótandi gasrík hraunkvika flæðir upp um eldrás sem verður pípulaga er líður á gosið. Kvikan kraumar í gígskálinni og sýður upp úr henni með nokkru millibili. Við það flæðir kvikan yfir barmana og hlaðast þannig upp mjög reglulegir gígveggir úr nokkurra cm þykkum hraunskánum. Gígveggirnir eru brattir ofan til (40°- 60°) og mynda efst þunna egg og eru þeir aðaleinkenni eldborganna. Eldborgir eru mjög sjaldgæfar utan Íslands.

Eldborg

Hraun við Eldborgir – kort Jóns Jónssonar.

Þrátt fyrir friðlýsinguna hefur Litlu-Eldborg verið raskað með efnistöku. Svæðið sunnan Stóru-Eldborgar er í sárum eftir stórvirkar vinnuvélar og skammsýni mannanna. Þegar stigið er upp á leifarnar af gígopinu blasir það við, alldjúpt. Stiga eða band þarf til að komast niður. Barmarnir eru allsléttir.

Gengið var niður stóra hrauntröð vestast í Krýsuvíkurhrauni. Hraunin nefnast því einu nafni, sem fyrr sagði, en hraunið frá Litlu-Eldborg hefur runnið yfir hraunið frá Stóru-Eldborg og er síðarnefnda hraunið því eldra hraun. Annars greinir menn oft um aldur hrauna. Þannig hefur Ögmundarhraun t.d. verið sagt vera frá 1151, en þó hefur að verið aldursgreint frá árinu 1005 með geislakolsmælingum (C14 945 ± 85 ).
Ekki er nákvæmlega vitað um aldur hraunanna. Ofar eru þau úfin, en gróin á milli og eftir því sem neðar og austar dregur. Þau hafa runnið fram af gömlu bjargbrúninni, sem sést neðan við svonefnda Klofninga. Ofan brúnarinnar er t.d. Krýsuvíkurhellir og Bálkahellir ofar. Fleiri hellar og rásir eru í hrauninu, en það hefur verið lítt kannað.
Frábært veður. Gangan tók 2 klst og 22 mín.

Litla-Eldborg

Leifar gígs Litlu-Eldborgar.

Eldborg

Gengið var frá Trölladyngju á Núpshlíðarhálsi um Eldborg og Einihlíðar með stefnu á Mávahlíðar og Mávahlíðarhnúk. Þaðan var haldið yfir að Fjallsgjá norðan við Fjallið eina norðan Hrútargjárdyngju og endað á Krýsuvíkurvegi.

Dóruhellir

Dóruhellir í Konugjá.

Trölladyngjan er 375 m.y.s. Hún er formfagurt móbergsfjall. Í dyngjunni eru miklar eldstöðvar, bæði að sunnan- og norðanverðu. Hraun hafa runnið þaðan bæði í norður og suður, meðal annars Afstapahraun. Þar er og mikill jarðhiti á ýmsum stöðum, t.d. í Sogunum. Um þau rennur Sogalækur.
Höskuldarvellir er grasslétta yfir hrauninu vestur af Trölladyngju. Þangað liggur farvegur frá Sogalæk. Rennur hann niður á vellina í leysingum og hefur myndað það mikla landflæmi og gróðurbreiðu með framburði sínum. Höskuldarvellir munu vera ein stærsta samfellda graslendi í Gullbringusýslu eða um 100 ha.
Eldborgin norðan Trölladyngju hefur verið afmynduð með efnistöku. Sennilega hefur hún einhvern tímann verið eitt af djásnum Reykjanesskagans. Ef væntumþykjan og virðingin fyrir umhverfi og náttúru hefðu orðið efnishyggjunni yfirsterkari þegar ákvörðun um eyðilegginguna var tekin, væri Eldborgin nú margfalt verðmætari en krónurnar, sem fengust fyrir kápuna af henni á sínum tíma. En skaðinn verður ekki bættur, úr því sem komið er. Nú stendur Eldborgin þarna sem minnisvarði og þörf áminning um hvað ber að varast í umgengi við náttúruna. Ekki meira um það að sinni.

Mávahlíðar

Mávahlíðar.

Fallegir eldgígar eru utan í Dyngjuhálsi, eða Dyngjurana eins og hann er stundum nefndur. Lambafellið sást vel á vinstri hönd, en framundan sást einnig vel til Einihlíða. Fallegt er að sjá hvernig hraunstraumurinn hefur runnið niður hlíðarnar og elfan storknað í hlíðunum. Ofan við þær er nokkuð úfið hraun, en vönum greiðfært. Suðaustar blasa Mávahlíðar við. Nýrra hraunið er norðvestan við hlíðarnar, mikið jarðfall og hár hraunbakki við þær norðanverðar. Eldra hraun og grónara er ofan (sunnan) við Mávahlíðar. Gígarnir, sem það hefur komið úr, eru litlir og mynda röð samhliða sprungureininni. Frá Mávahlíðum sést vel upp í Hrúthólma, gróin skjöld í hrauninnu. Sunnar er Hrútfellið.
Gengið var yfir að Mávahlíðahnúki austan Mávahlíða og síðan strikið tekið frá vatnsstæði við gamla götu eftir tiltölulega sléttu, en eyðilegu, helluhrauni með úfnum hraunkanti á hægri hönd. Þegar honum sleppti tók við gróið hraun með fallegum hraunæðum. Í einni þeirra var beinagrind. Leggur af dýrinu var tekin með. Við greiningu á Keldum kom í ljós að um var að ræða hrossabógslegg. Óvíst var um aldur. Beinagrindin var ekki langt frá Stórhöfðastígnum frá Stórhöfða áleiðis upp á Ketilsstíg, ofan við Mávahlíðar og Hrútafell. Annað hvort hefur hrossið orðið til þarna við gömlu leiðina, eða refaveiðimenn hafa borið þar út hræ af hrossi til að egna fyrir ref.

Núpshlíðarháls

Svæðið. Horft til suðurs.

Skammt austar er falleg og tilkomumikil gjá, hér nefnd Konugjá, einu kvenveru hópsins að þessu sinni til heiðurs. Í gjánni er stór skúti, sem opnast hefur þegar jörðinn klofnaði og gjáin myndaðist, líkt og Hundraðmetrahellirinn ofan við Helgadal. Hann var nefndur Dóruhellir. Skútinn, sem er hinn skjólsælasti, verður að teljast álitlegur til samkomuhalds. Ofar í hæðinni eru nokkrir hellar. Að þessu sinni var gengið niður með hæðinni til austurs, að fallegum gervigíg, sem var líkt og hásæti í laginu – tilvalinn hópmyndastaður.
Suðaustar blasti Fjallið eina við í allri sinni reisn, en norðar opnaðist Fjallgjáin. Hún er ein af nokkrum gjám á svæðinu, en sú stærsta og lengsta. Víða er hún mjög djúp og sumsstaðar mjög breið, ekki ólík Almannagjá á köflum.
Gangan endaði á Krýsuvíkurvegi, sem fyrr sagði.
Frábært veður. Gangan tók 4 klst og 4 mín.

Heimildir m.a.:
-www.reykjanes.is

Trölladyngja

Mávahlíðar og Trölladyngja fjær.

Húshólmi

Svo er talið, að Ögmundarhraun hafi runnið (eða brunnið, eins og Snorri goði mundi hafa orðað það) um miðja 14. öld.

Austurengjahver

Við Austurengjahver.

Um stað þann, sem nú er kallaður Húshólmi, þar sem er miklu eldra hraun undir gróðrinum en Ögmundarhraun er, hefur hraunstraumurinn klofnað. Hefur önnur álman runnið fyrir vestan hólma þennan, en hin fyrir austan hann og báðar beint í sæ út. Rétt austan við vestari hrauntunguna eru bæjarrústir nokkrar, og er auðsætt, að eitthvað af húsunum hefur orðið undir hraunstraumnum. Er og almennt álitið, að þarna hafi bærinn Krýsuvík upphaflega staðið, enda lítt hugsanlegt, að bænum hafi verið valið víkurnafnið, ef hann hefði frá öndverðu verið þar, sem hann nú er, nálega hálfa fimm kílómetra frá sjó, enda ekki um neina vík neins staðar að ræða. Bæjarrústir þessar eru og enn þann dag í dag jafnan nefndar gamla Krýsuvík eða Krýsuvík hin forna. Suður og suðvestur af bæjarrústum þessum verður lægð nokkur í hraunstrauminn, og álíta sumir, að einmitt þar hafi víkin sjálf verið, sú er bærinn dró nafn sitt af rétt vestan við Húshólmann við Húshólmafjöruna. Kirkjuflöt heitir og rétt hjá rústunum.
Ráðleggja mætti þeim, sem skoða vildu tóftarbrot þessi og vinna sé það á sem auðveldastan hátt, að fara í bifreið úr Grindavík austur fyrir Ögmundarhraun, (akstur eins og vegurinn er nú), ganga síðan suður með austurjarðri hraunsins, þar til komið er að stíg þeim, sem liggur yfir eystri hraunálmuna út í Húshólmann, þar til komið er að bæjarrústunum. Mun ganga þessi vara eina klukkustund, þótt ekki sé allrösklega farið.
Svo sem mörgum er kunnugt liggur Kleifarvatn í klauf þeirri, sem verður millum Sveifluháls og Vatnshlíðarinnar, og þegar komið er sunnan við vatnið, virðist sem fjöll þessi nái saman við norðurenda vatnsins. Hyggja því sumir, að vatnið dragi nafn sitt af klofa þessum. Um háttsemi þessa stóra stöðuvatns og misvöxt þess hafa ýmsir mætir menn skrifað margt og mikið nú á síðari árum, og skal því ekki farið út í þá sálma hér, enda ekki leikmönnum hent að leggja þar orð í belg.

Víti

Víti að baki.

Sá hluti af Krýsuvíkurengjunum, sem lægst liggur og næst vatninu að sunnan, heitir Nýjaland (hið inna og fremra). Misvöxtur vatnsins veldur því, að engjasvæði þessi liggja oft svo árum skiptir í senn undir ágangi Kleifarvatns, en mjór malarhryggur, sem gengur til vesturs frá norðurenda Hvammholtsins, skiptir Nýjalandinu í tvennt, hið innra og fremra, og kallast tangi sá Rif. Vestan við Fremralandið og við vesturenda Rifsins rennur lækur sá, er nefnist Ós inn á Innralandið og í vatnið sjálft. Á Ósinn upptök sín að mestu á Vesturengjunum og í Seltúnshverfunum, en smálindir koma þó í hann af Austurengi, úr Hvömmunum og Lambafellum.
Svo er landslagi háttað, að Fremralandið var miklu lengur slægt en hið innra, og nam sá tími einatt nokkrum sumrum. Mátti í góðu grasári heyja um sex hundruð hestburði á hvoru Býjalandi, þegar vatnið var svo þorrið, að unnt var að slá þau bæði. Ekki er það fátítt, að stararstráin á Nýjalandi verði rúmlega álnarhá, því að oftast nær flæðir Ósinn yfir að vetraræagi, hvað sem vexti Kleifarvatns líður.
Hverir eru í vatninu, og sjást reykir nokkrir leggja upp úr því í logni, en á vetrum eru þar jafnan vakir. Sjaldan leggur vatnið fyrir vetrarsólstöður.
Þegar lítið var í vatninu, var jafnan “farið með því”, þá er sæ

Gvendarhellir

Gvendarhellir.

kja þurfti til Hafnarfjarðar. Lá sú leið eftir allri vesturströnd vatnsins, milli þess og Sveifluháls, þar sem seinna var gerður akvegur. Er sá vegur greiðfærari miklu og talsvert skemmri en sá að fara Ketilsstíg og síðan “með hlíðunum”.
Á korti herforingjaráðsins er nafnið Ketilstígur sett fram með Sveifluhálsi að norðvestan, en það er ekki nákvæmt, því að Ketilsstígur heitir aðeins sá hluti þeirrar leiðar, sem liggur upp á Sveifluháls að Norðanverðu, og er stígur þessi innan í gömlum gíg, sem kallast Ketill.
Austur og suðaustur af Arnarfelli er mýrarfláki, stór nokkuð, sem kallast Bleiksmýri, og var þar mikill áfangastaður á þeim tímum, sem þeir Árnesingar og Rangæingar fóru skreiðarferðir til verstöðvanna á Reykjanesskaga. Mátti einatt sjá marga tugi eða jafnvel nokkur hundruð hesta á Bleiksmýri í einu og fjöldi tjalda, þegar hæst stóðu lestaferðirnar. Mun og mörgum hestinum hafa þótt gott að koma í Bleiksmýri úr hagleysinu og vatnsskortinum á Reykjanesskaganum. Var og ekki óalgengt að menn lægju þar einn og tvo daga til þess að hestar þeirra fengju sem besta fylli sína, áður en lengra var haldið.

Ögmundarstígur

Ögmundarstígur.

Víða í hraununum á Reykjanesskaga, eins og reyndar víðar á landi hér, getur að líta nokkuð djúpa götutroðninga í hraunhellunum eftir margra alda umferð. Má þar um segja: “Enn þá sjást í hellum hófaförin.” Í Ögmundarhrauni mynduðust holur með þröskuldum á milli, og var hver hola um eitt fet í þvermál og hnédjúp hestum, og í rigningatíð stóðu holur þessar fullar af vatni. Fyrir nokkrum áratugum var gerð vegabót nokkur í Ögmundarhrauni, og holur þessar fylltar upp. Í gamalli og alþekktri vísu segir svo:
“Eru í hrauni Ögmundar
ótal margir þröskuldar,
fáka meiða fæturna
og fyrir oss brjóta skeifurnar.”

Geitahlíð

Arnarfellsvarða. Geitahlíð og Eldborg fjær.

Það mun mega teljast hæpið hvort örnefnið Gullbringa sé sýnt á alveg réttum stað á korti herforingjaráðsins, þar sem það er sett á hæð eina, 308 metra háa, sunnarlega í Vatnshlíðinni. Þeir, sem kunnugir eru á þessum slóðum, hafa jafnan kallað Gullbringu lyngbrekku þá, sem er vestan í Vatnshlíðinni og nær niður undir austurströnd Kleifarvatns. Ýmsir telja, að sýslan dragi nafn sitt af þessari brekku. Mætti í því sambandi benda á það, að ekki eru þeir allir fyrirferðarmiklir staðirnir á Íslandi, sem heilar sýslur draga nafn sitt af.
Þrjá til fjóra kílómetra austur frá bænum í Krýsuvík er Eldborgin, og svipar henni að mörgu leyti til nöfnu sinnar í Hnappadalssýslu – þeirrar, sem Hendersen gerði víðfræga með teikningu sinni. Skarð það, er verður millum Eldborgar og Geitahlíðar, heitir Deildarháls, og liggur alfaravegurinn yfir hann.
Dr. Þorvaldur Thoroddsen taldi gíginn í Eldborg vera 500 fet að ummáli að ofan og 105 á dýpt, en hæð fellsins telur hann 172 fet. Meinaði hann þar eflaust hæð Eldborgarinnar yfir jarðlendinu umhverfis hana, því að á korti herforingjaráðsins er hæð hennar yfir sjávarmáli talin 180 metrar.
Efst í Geitahlíð er og gígur mikill, en hann er eldri en síðasta jökulöld, eins og reyndar hlíðin öll er. Barma gígs þessa ber hærra en aðra hluta Geitahlíðar, er heita Æsubúðir. Niður af Æsubúðum, en sunnan í Geitahlíð, verður hvammur sá, er kallast Hvítskeggshvammur eða Hvítskeifshvammur, og er til prentuð þjóðsaga um þessi örnefni, en eigi er sú sögn allsennileg.
Skammt fyrir austan Deildarháls og hvamm þennan eru Kerlingar (sagan um Krýs og Herdísi), Bálkahellir (lítt eða ekki kannaður), Gvendarhellir (bóndi í Krýsuvíkurhverfinu, Guðmundur að nafni, hýsti fé sitt í þessum helli þá er harðindi gengu, líklega á fyrri hluta 19. aldar), og Kerið á Keflavík (uppi á 6 metra háum hamri ofan við Keflavík er op, Kerið, niður í flæðamál).
Leirhverin mikil í Krýsuvík, sá er myndaðist við sprengjugosið, er þar varð haustið 1924 og olli landskjálftum nokkrum víða um Surðurland, er þar, sem áður var vatnshver lítill og hét Austurengjahver. Virðist svo, að leirhverinn megi og vel halda sama nafninu. Fúlipollur er næstum á miðjum Vesturengjum, og er hann eitthvert stærsta hverastæðið, sem til er í Krýsuvík, virðist ekki þurfa að velkja það lengi fyrir sér, að endur fyrir löngu hafi þarna orðið sprengigos líkt því, er varð þá, er Austurnegjahver endurmagnaðist, haustið 1924. Auðsætt er, að hverinn er á hrörnunarskeiði. Ýms merki virðast og benda til þess, að Austurnegjahver muni ekki heldur verða neinn Ókólnir.

Arnarfellstjörn

Arnarfellstjörn.

Ekki skal hér rætt um breinnisteininn í Krýsuvík né þann í Brennisteinsfjöllunum, enda eru Brennisteinsfjöllin austan sýslumarkanna og því í Herdísarvíkurlandi.
Þess hefur orðið vart, að sumir menn halda, að örnefnið Víti sé hver, en svo er eigi. Víti er hraunfoss, sem fallið hefur vestur af hálendisbrún þeirri, sem verður norður af Geitahlíð, og er hraunfoss þessi sennilega á svipuðum aldri og Ögmundarhraun. Hann er nú storknaður fyrir löngu og allur gróinn þykkum grámosa.
Eiríksvarða á Arnarfelli er vel þekkt úr þjóðsögum, sem segja, að séra Eríkur Magnússon, hinn fjölkunnugi Vogsósaklerkur, hafi hlaðið hana og mælt svo um, að aldrei skyldu Tyrkir koma í Krýsuvík meðan varðan stæði uppi. Nú er varðan hrunin, næstum í grunn, en Bandaríkjamenn komu í Krýsuvík, þegar seta þeirra í landinu hófst.
Vestan í Geitahlíð og skammt fyrir neðan fjallsbrúnina sjálfa leggur jafnan á vetrum þykka fönn, langa en ekki breiða. Er fönn þessi sjaldan horfin með öllu fyrr en um Jónsmessu, og dregur hún nafn sitt af því.
Krýsuvík hefu lengi verið talin einhver mesta útigöngujörð fyrir sauðfé á landi hér, einkum þó þeirra jarða, sem ekki hafa fjörubeit, og ekki var það ótítt að sumt féð þar lærði aldrei átið.

Húshólmi

Garður í Húshólma.

Vægar jarðhræringar voru ekki sjaldgæfar í Krýsuvíkurhverfinu og voru þær kallaðar hverakippir þar.
Mótak er þar sums staðar í mýrunum, en ekki þykir mórinn þar góður til eldsneytis. Er hann allur mjög blandinn hveraleir, svo að af sumum kögglunum leggur brennisteinslyktina, þegar þeim er brennt.
Fremur þykir vera þokusamt í Þrýsuvík og lengi hefu verið við brugðið, hversu myrk þokan geti orðið þar. Er það haft eftir manni nokkrum, að eitt sinn hafi hann verið á ferð um Sveifluháls í svo miklu myrkviðri, að hann hafi séð þokuna sitja í olnbogabótinni á sér. Rigningasamt í meira lagi þykir og vera þar, svo einatt er þurrviðri í næstu byggðarlögum, þótt rigning sé í Krýsuvík.

Úr sunnudagsblaði Tímans 2. júlí 1967 – Stefán Stefánsson.

Gullbringa

Gullbringa.

Ólafsskarðsvegur

Gengið var um Svínahraunsbruna milli Blákolls og Lambafellshnúks.

Eldborg

Eldborg í Kristnitökuhrauni.

Mikilli hrauntröð var fylgt upp hraunið, áleiðis að Eldborginni nyrðri. Hún blasti við framundan, há og tignarleg. Þaðan frá séð er hún líkari mosagrónu fjalli, en þegar hrauntröðinni var fylgt áleiðis austur fyrir hana kom eldfjallalagið betur í ljós. Slóði liggur upp að gígnum og hefur verið krukkað í hann að norðanverðu. Reykjavegurinn liggur upp með gjárbarminum að austanverðu, að Eldborginni og áfram til suðurvesturs, að gígnum Leiti undir austanverðum Bláfjöllum. Lambafellið sést vel í austri og Sauðadalshnúkarnir í vestri.
Gengið var upp á Eldborgina. Í henni eru tveir stórir gígar, hvorum öðrum myndarlegri. Frá brúnum þeirra sést hrauntröðin vel þar sem hún liðast niður hraunið. Ofar sést Eldborgin syðri, tilkomumikil. Á milli Eldborganna er eldra hraun, Leitarhraunið, og sést Leiti vel undir brúnunum. Gígaröð liggur milli Eldborganna, mynduð af fremur litlum gígum og eru þeir flestir ofan við nyrðri Eldborgina. Í einum þeirra er gat niður, um tveggja mannhæða hátt. Forvitnilegt væri að skoða niður í það við tækifæri. Fjölmörg vatnsstæði er í grónum hraunbollum Leitarhrauns, sem er 5000 ára um þessar mundir.
Leitarhraun, sem ásamt ýmsum yngri hraunum (Hólmsárhraunum) gengur einnig undir nafninu Elliðaárhraun, einkum vestan til. Það verður rakið óslitið frá Draugahlíðum niður í Elliðaárvog. Hefur það breiðst víða út, svo sem um Sandskeið og norðvestur yfir Fóelluvötn; heita þar Mosar. Einnig hefur hraunið runnið til austurs og niður á láglendi í Ölfusi, Hraunsheiði, og líklega í sjó í Þorlákshöfn. Í þessari álmu hraunsins er einn af stærstu hellum landsins, Raufarhólshellir. Annars staðar í hrauninu eru nokkrir smáhellar, svo sem hjá Vatnaöldum. Allvíða eru gervigígar í Leitahrauni, en merkastir eru Rauðhólar.

Eldborg

Hrauntröð frá Eldborg.

Suðurlandsvegur liggur á löngum kafla á Leitahrauni, frá Elliðaám að Draugahlíðum. Einnig liggur Þrengslavegur á hrauninu, frá Þrengslum og niður í Ölfus. Frá Draugahlíðum að Þrengslum liggur vegurinn á Svínahraunsbruna en það eru tvö apalhraun sem komið hafa upp á sögulegum tíma í Eldborgum vestan Lambafells og liggja ofan á Leitahrauni. Annað þessara hrauna hefur verið nefnt Kristnitökuhraun.
Þegar komið var upp á syðri Eldborgina sást mikill ílangur gígur. Hraunið frá gígnum hefur mest runnið til austurs og beygt síðan til norðurs, vestan við Lambafellsháls. Ofan við hann sést Lambafellið og ennþá fjær. Í suðri stendur Geitafellið staðfast. Í hrauninu austan við Eldborgina sást í stórt gat. Þegar það var skoðað kom í ljós endi lítillar hrauntraðar. Í enda hennar er skúti og inn úr honum liggur rás. Hún var ekki skoðuð að þessu sinni. Fara þarf á fjórum fótum inn eftir rásinni, en ekki er vitað hvað þar kann að leynast inni.
Gengið var upp á Ólafsskarðsveginn milli Eldborgarinnar syðri og Bláfjalla. Leiðin er vörðuð. Barmar Leitisins eru allháir, enda mikið hraun úr því komið. Mest af því hefur runnið til austurs og suðurs, en mjó ræma rann til norðvesturs, alla leið til sjávar í Elliðaárósum. Renna Elliðaárnar um það á kafla.

Eldborg

Efri Eldborg.

Neðan við Leiti liggur vörðuð leiðin inn fyrir þau með austanverðum Bláfjallabrúnunum. Ólafsskarðsvegurinn heldur áfram áleiðis að Ólafsskarði, sem sést vel framundan, milli Sauðdalshnúka og Ólafsskarðshnúka. Neðan við Leiti er önnur leið vörðuð niður Lambafellshraunið, áleiðis að Sandfelli og niður með austanverðum Krossfjöllum þar sem eru gatnamót, annars vegar götu að Breiðabólstað og hins vegar að Hjalla. Þá sést og í A-laga skátaskála uppi í fyrrnefndu hnúkunum. Austan við skarðið er gamall skíðaskáli, en þegar kíkt er niður skarðið að vestanverðu, niður í Jósepsdal, má sjá leifar af gamalli skíðalyftu og fleira.
Dalverpi suðaustan undir Vífilsfelli. Jósepsdalur er undir Ólafsskarði en um það var gömul alfaraleið úr Ölfusi til Reykjavíkur. Samkvæmt munnmælum átti tröllkona að hafa búið þar í helli fyrr á öldum.
Þjóðsaga um Jósepsdal hermir að í dalnum hafi búið maður sá er Jósep hét og verið smiður mikill. Hafði hann svo óguðlegan munnsöfnuð, blót og formælingar, að bærinn sökk.
Eftir að hafa skoðað skálann var gengið niður Leitarhraunið, að upphafsstað. Á leiðinni var frábært útsýni yfir að Eldborgunum og fjöllunum umhverfis.
Kristnitökuhraunið svonefnda er rann um 1000 er talið vera úr þessum Eldborgargígunum. Þarna hefur gosið á sprungurein og endagígarnir verið sýnum stærstir. Svo virðist sem gosið hafi lengur, eða síðar, úr syðri Eldborginni því hraunið úr henni virðist liggja utan í og yfir hinu mikla hrauni, sem komið hefur úr megineldgígunum í nyrðri Eldborginni. Gígarnir tveir eru með fallegri hraungígum á Reykjanesskaganum.

Leiti

Leiti.

Ólafsskarðsvegur er nefndur eftir samnefndum bryta í Skálholti. Í frásögn Brynjúlfs Jónssonar frá Minna-Núpi segir að einni sinni hafi lyklakippa Skálholtsstaðar týnst, og fannst hún hvergi. Varð að smíða aðra lykla. Leið síðan fram, þangað til 12 ár voru liðin og lyklatapið farið að gleymast, þá fundust lyklarnir í Lyklafelli hjá Fóelluvötnum. Kom þá upp hið sama, að ráðsmaður (eða bryti) staðarins hafði haft lyklana á sér, er hann reið í Reykjavíkurkaupstað, og hafði týnt þeim í fellinu, er hann áði.
Um Lyklafell fjallar og þekkt þjóðsaga af sama meiði. Hún er um nefndan Ólaf bryta í Skálholti. Á að hafa soðið upp úr milli hans og ráðskonunnar á staðnum. Hún var ótúlegt skass og skaut honum svo skelk í bringu að hann lagði á blindan flótta og nam ekki staðar fyrr en við Lyklafell og kastaði þar búrlyklunum. Síðan hélt hann um Ólafsskarð upp úr Jósefsdal Ólafsskarðveg og heitir skarðið eftir honum. Steðjaði hann austur sýslur á Fjallabaksleið syðri. Við Brytalæki á Fjallabaksleið austanverðri datt hann dauður niður.

Frábært veður – milt og hlýtt. Gangan tók 3 klst og 33 mínútur.

Kristnitökuhraun

Kristnitökuhraun – eldvörp.