Færslur

Búðarvatnsstæðið

Gengið var upp og suður um Almenning eftir landamerkjum Lónakots og Hvassahrauns austan Lónakotssels. Landamerkjagirðingunni var fylgt upp Taglhæð, um Hólbrunnshæð og áfram upp að Mið-Krossstapa. Girðingin liggur í gegnum stapann og áfam upp í Hraunkrossstapa.

Krossstapi

Neðri-Krossstapi.

Geldingahraunið er vestar, en þegar komið er upp fyrir efsta krossstapann taka við neðri Skógarnefsbrúnir. Skógarnefið sjálft er nokkuð stór kjarri vaxin hraunhvilft, vel gróin. Efri brúnirnar sjást við sjónarmörkin í suðri. Ofan þeirra tekur við tiltölulega slétt mosahraun þar sem fyrir eru heillegar hleðslur grenjaskyttu við a.m.k. tvö greni, sem þar eru. Ofar er Búðarvatnsstæðið.
Ef fylgt er landamerkjalínu Lónakots og Hvassahrauns lá landamerkjalínan úr Söndugrjóti í Markhól eða Hól, sprunginn, með Markhólsþúfu. Þar er sagt að áletrun hafi verið, en hana er ekki að finna í dag. Þaðan liggur landamerkjalínan milli, eða um, austustu lónanna og hólmanna, upp hraunið í Sjónarhól, sem er stór, sprunginn hraunhóll, sem víða sést að, bæði neðan frá sjó, vestan úr hrauni og austan og sunnan langt að. Landamerkjalínan lá um Sjónarhólsvörðu, sem er efst á Sjónarhólshæð, og þaðan áfram suður og yfir Högnabrekkur. Þar kom Lónakotsvegurinn á suðurveginn. En Lónakotsselsstígurinn lá áfram suður á alfaraleiðina, gömlu hestaslóðina á Suðurnes. Högnabrekkur liggja vestan Smalaskála, og ber ekki mikið á þessum brekkum.

Krossstapi

Efri-Krossstapi.

Neðan þjóðvegarins er nafnasnautt upp undir veginn, en um hann liggja hraunbrekkur þvert. Þær heita Högnabrekkur. Svo er þar á vesturmerkjum, nokkuð ofan vegar, Taglhæð og Hólbrunnshæðin, eða Hólabrunahæðin, fyrrnefnda. Enn ofar er svo Lónakotssel. Ofan þess liggur hraunás þvert yfir landið, sem heitir Skorás, og þar, sem landið nær lengst í suður, heitir Mið-Krossstapi. Línan liggur um Skorásvörðu á Skorás og þaðan í Mið-Krossstapa.
Eins og segir í landamerkjalýsingu Lónakots og Óttarsstaða, liggur landamerkjalínan úr Sjónarhól í Vörðu eða Klett austan til við Lónakotssel. Þar höfðu í seli auk Lónakotsbónda hjáleigumenn frá Óttarsstöðum. Enda eru þarna þrjár aðgreindar seljatættur. Selið liggur rétt austan við Skorás, sem af þessum ástæðum er nefndur Lónakotsselshæð. Norðan í því er jarðfall nokkurt og nefnist Skorásbyrgi eða Lónakotsselshæðarbyrgi. Þar mátti nátta ásauðum. Norður frá Skorás er Lónakotsselsvatnsstæði í flagi og þraut oftast í þurrkatíð. Skjöldubali er klapparhæð norður frá Hólbrunnshæð.
Gata liggur upp gróið hraunið um Almenning fast austan krossstapana. Staparnir áttu að hafa verið þrír. Sumir telja að þriðji og neðsti krossstapinn sé Álfakirkjan eða Álfaklettur norðaustan við Lónakotssel, en líklegra verður að telja hann norðan Mið-Krossstapa, í svo til beinni línu við Hraunkrossstapa.

Krossstapi

Krossstapar.

Fyrrnefnd gata liggur til suðurs austan hans.
Þegar komið var upp undir neðri brúnir Skógarnefsins var snúið við að þessu sinni. Vel gróið er undir brúnunum. Skógarnefsgrenin eru skammt vestar. Hraunið austan við krossstapana er úfið, mosavaxið, en tiltölulega greiðfært yfirverðar. Upp úr því rísa hraunklettar, sem taka á sig allskyns myndir í kvöldsólinni. Svo virðist sem vörður séu á stangli þarna í hrauninu, en þær eru klettar eða steinar, sem standa upp úr hrauninu.
Þrátt fyrir góða gaumgæfni á svæðinu vildi fyrrnefndur Skógarnefsskúti ekki sýna sig að þessu sinni. Ekki er ólíklegt að hann kunni að leynast svolítið sunnar og vestar við leitarlínuna. Norðan við hana er hraunið mosavaxið og úfið, en nokkuð greiðfært. Sunnan við það og vestan eru víða hraunhvilftir, sem vert er að skoða nánar.
Frábært veður. Kvöldsólin samstillti haustlitasetteringuna. Gangan tók 2 klst og 2 mín.

Skógarnefsgreni

Skógarnefsgreni.

Almenningur

Ætlunin var að skoða þann hluta Hrauntungustígsins, sem liggur um trjáræktarsvæði Skógræktar ríkisins við Brunntorfur (Brundtorfur/Brunatorfur) norður undir Almenningi. Þarna ofan við hraunrönd hins mosavaxna Nýjahrauns (Kapelluhrauns), í gróður- og kjarrríkt Hrútargjárdyngjuhraunið, hefur verið plantað miklu magni af greni- og furutrjám.

Bruninn

Birkið hefur náð sér vel á strik í skjóli þeirra og er orðið allhátt. Vaxið hefur upp á örfáum áratugum myndarlegur skógur í bollóttum og hólóttum hlíðunum. Þegar trjánum var plantað á sínum tíma var þess, eins og svo víða annars staðar, ekki gætt að hlífa hinum gömlu götum um hraunlænurnar heldur trjám stungið niður hvar sem skjól var að finna. Ekki er víst að skógræktarfólkið hafi haft auga fyrir götunum eða það metið þær nokkurs. Fólk getur engu að síður blindast af litlum trjáplöntum en stórum. Reyndar ætti að vera í lagi að setja niður skóg í lægðum sem þarna eru, en gæta þarf þess vel að halda honum á takmörkuðum svæðum. Ísland er nú svo fallegt land að það er óþarfi að hindra útsýnið til dýrðarinnar. Svæði þessu var úthlutað til áhugasamra einstaklinga um skógrækt á sínum tíma.
Hrauntungustígurinn liggur frá Áslandi um Hádegisskarð með Hamranesi og suður yfir Brunann að Hrauntungum. Þar hefur stígurinn vikið á löngum kafla fyrir efnisnámum Skógræktarinnar. Bera þær með sér einstakan vitnisburð hins einsleita gildismats. Fallegt nútímahraunið (rann 1151) fékk að fjúka til að hægt væri að ná inn aurum fyrir nokkrum trjáplöntum. Nú eru þarna stór sár, sem aldrei verða söm sem fyrr.

Hrauntungustígur

Úr Hrauntungunum liggur leiðin milli Gjásels og Fornasels, hjá Hafurbjarnarholti upp í hæsta hluta Almennings og að Sauðabrekkum. Þá er farið yfir Sauðabrekkugjá um Mosa vestan við Fjallið eina að Hrútagjárdyngju. Stefnan er síðan á Hrúthólma og farið um nokkuð slétt helluhraun að Hrútafelli. Þá er stutt yfir á Ketilsstíginn, sem liggur yfir hálsinn til Krýsuvíkur.
Það var sem sagt leiðin frá Hrauntungunum og upp á milli Fornasels og Gjásels, að Stóra-Steini, sem ætlunin var að rekja að þessu sinni – í gegnum skógræktina og upp fyrir hana, austur fyrir Hafurbjarnarholt.
Gatan sést vel þar sem hún fer í gegnum Hrauntungurnar og undir girðingu Skógræktarinnar. Príla er á girðingunni skammt norðar. Þarna er mosinn ráðandi og hefur hann náð að afmá götuna á körflum. En ef vörðunum er fylgt af nákvæmni má rekja götuna í gegnum og upp grónar hraunkvosir, undir hraunhólahlíðum og áfram áleiðis upp norðurhlíð Almennings.
Í rauninni er hægt að velja um þrjár leiðir þegar komið er spölkorn upp í skóginn. Hér á eftir verða tvær raktar upp eftir (til suðurs) og ein síðan til baka (til norðurs). Gatnamótin eru þar sem lækkunin er hvað mest í skógræktinni, en erfitt er að kom auga á þau vegna trjánna.
Áður en komið er að Fornaseli greinist fyrsta gatan, sú austasta, í tvennt; annars vegar áfram til suðausturs að Fornaseli, og hins vegar upp nokkuð þægilega gróna lægð norðvestan þess. Ef götunni upp í selið er fylgt kemur hún að við vörðu skammt norðvestan við það. Frá vörðunni sést gróið selið og umhverfi þess mjög vel, einkum selsvarðan austan þess. Áfram liggur gatan síðan til suðausturs og beygir síðan til suðurs austan við kúptlagaðan (ávalan) hraunhól.

Í Almenningi

Ofan hans eru gatamót þeirrar götu og götunnar, sem greindist af henni neðan Fornasels. Ef henni er fylgt upp eftir kemur hún vestan við þennan ávala hól. Sú leið er greiðfærust og þægilegust allra gatnanna, hvergi klöngu, einungis aflíðandi gangur. Báðar leiðirnar eru varðaðar með litlum vörðum. Á þeim báðum koma fram stærri vörður svolítið utan við þær, en þar er um að ræða landamerkjavörður Þorbjarnarstaða. Línan liggur úr vörður á Hafurbjarnarholti til norðausturs yfir hraunhlíðina. Við leiðirnar má sjá a.m.k. þrjár þeirra. Tvær varðanna eru stærri en gengur og gerist með vörður við Hrauntungustíginn.
Þegar komið er upp fyrir ávala hólinn sameinast göturnar á ný. Þá liggur gatan í krókum upp hlíðina uns hún beygir til vesturs og síaðn aftur til suðurs á hábrúninni. Þaðan sést í vörður við Stóra-Stein og aðra ofar. Gatan liggur síðan með hraunhólnunum upp að Fjallsgrensvörðu þar sem hún beygir til austurs, eins og áður hefur verið lýst (Hrauntungustígur – norðan Sauðabrekkugjár).
Þá var gatan rakin til baka, að gatnamótum þess stígs sem vestast liggur niður í Hrauntungur. Farið var að halla að ljósakiptum. Ljósir sveppirnir urðu skyndilega áberandi í landslaginu. Lyngið og kjarrið runnu saman í eitt.
VarðaGatan liggur til norður vestan við ávala hraunhólinn og er augljós í gróningunum. Vörður eru á stangli. Þegar komið var niður á holtið austan Gjásels fór gatan yfir hina augljósu götu milli seljanna, Gjásels og Fornasels. Nútímamenn hafa gengið til nýrri götu suðvestan skógræktargirðingarinnar, en ef gömlu götunni er fylgt á milli seljanna þarf að fara inn fyrir girðinguna og í lægð á milli hraunhóla. Þaðan liðast hún um hvylftir milli hraunhóla. Litlar vörður eru á þeim. Trén hindra að vísu eðlilega leið, en þó óverulega.
Þegar gatan fyrrnefnda er rakin áfram niður að Hrauntungum þarf að hafa augu vel opin. Á kafla virðast tré hafa vaxið yfir leiðina, en hægt er að feta sig framhjá og meðfram þeim inn á götuna að nýju. Með góðu móti er þannig hægt að rekja hana alla leið niður að fyrstnefndu gatnamótunum þar sem jafnsléttan er hvað mest undir hlíðunum. Í rauninni þyrfti bæði að merkja þau gatnamót sem og þau efri. Fyrir þá sem vilja ganga styttri götu en allan liðlangan Hrauntungustíginn væri kjörið að ganga vestustu götuna upp fyrir ávala hólinn (réttast væri að nefna hann Vegamótahól) og síðan til baka um austustu götuna með viðkomu í Fornaseli. Um er að ræða bæði fallega og fjölbreytilega leið, ca. 1 1/2 – 2 km).

Varða

Skógræktarfélag Íslands hefur nú gefið út leiðbeiningar hvernig og hvað skógræktarfólks þurfi að varast þegar fornminjar eru annars vegar. Þar segir m.a.: “Skógrækt í nágrenni fornleifa þarf að skipuleggja þannig að þær spillist ekki. Slikum minjum á að reyna að gera hátt undir höfði á ræktunarsvæðunum, enda eykur vitneskja um þær fjölbreytileika svæðanna. Til fornleifa teljast hvers kyns leifar fornra mannvirkja og annarra staðbundinna minja sem menn hafa gert eða mannaverk eru á. Minjar 100 ára og eldri teljast til fornleifa, en heimilt er þó að friðlýsa yngri minjar.
Hér á eftir eru listaðar helstu tegundir fornleifa, sem búast má við að finna á Íslandi en ekki má þó líta á þennan lista sem tæmandi upptalningu allra fornleifa: Búsetuminjar, vinnustaðir, samgöngumannvirki (Gamlir vegir, stíflur, brýr, vatnsvöð, varir, hafnir og bátalægi, slippir, ferjustaðir, kláfar, vörður og vitar og önnur vega- og siglingarmerki ásamt kennileitum þeirra), varnarmannvirki, áletranir og fleira.

Hrauntungur

Eftirtalin atriði þarf að varast þegar skógrækt er undirbúin nærri fornleifum:
1. Mikilvægt er skógræktin sé skipulögð þannig að hún falli sem best að slíkum minjum í landinu. Ekki síst á það við um skógarjaðarinn næst minjunum. Einnig fer oft betur að hafa meira en 20 m radíus í kringum minjarnar. Fornminjasvæði auka mjög á útivistargildi viðkomandi skógræktarsvæða og gera þau áhugaverðari.
2. Ekki skal jarðvinna með vélum á svæðum þar sem talið er að fornminjar séu í jörðu.
3. Oft eru fleiri einstakar fornminjar nálægar og mynda heild. Þá skal opið, skóglaust svæði vera nægjanlega stórt umhverfis þær allar.
4. Þess skal gætt að girðingar, vegir og slóðar liggi ekki þvert yfir fornminjarnar.”
Að öllu jöfnu eiga allir að forðast að skemma verðmæti sem fyrir eru s.s. fornminjar og útsýni. Hafa ber í huga að hinar gömlu götur eru fornminjar. Í rauninni er sárgrætilegt að sjá nýlega gróðursettar plöntur í fornum tóftum, t.a.m. seljum – nú þegar skilningurinn ætti að vera miklu mun meiri en raun ber vitni.

Hrauntungustígur

Hvað um það – Hrauntungustígurinn er ekki einn. Hann liggur um Almenning á fleiri en einum stað, enda má ætla að kunnugir hafi farið þar sínar eigin götur, allt eftir því á hvaða leið þeir voru og hverra erinda.
Víða eru litlar vörður við hraunker og klofninga. Þær hafa leitarmenn hlaðið til að auðvelda þeim sín verk. Vörður við leiðir hafa ferðamenn hlaðið til að gera þeim kleift að fara auðveldustu, og jafnvel stystu leiðina á langri leið – og svona mætti halda lengi áfram.
Sameiginlegt með þessum leiðum er að þær liggja um tilkomumikið, fjölbreytilegt og gróið hraunsvæði, sem nútímamanninum ætti að vera kærkomið tækifæri til útivistar.
Sjá MYNDIR.
Frábært veður.

Þorbjarnarstaðaborg

Þorbjarnarstaðaborg.

Lambhagi

Þegar gengið var um Lónakot og Svínakot í Hraunum voru rifjaðar upp eftirfarandi upplýsingar um gömlu bæina og Suðurnesjaalmenning þar fyrir ofan í hraununum:

Þorbjarnastaðir

Þorbjarnastaðir – tilgáta.

Í Jarðabók ÁM og PV 1703 er eftirfarandi lýsing: “ Það sem Suðurnesjamenn kalla Almenning tekur til suður við Hvassahrauns land og Trölladyngjur, gengur svo norður eftir fyrir ofan lönd allra Hraunbæjanna og endast svo norðan til þar sem hann mætir Áslandi svo sem við taglið á Kapelluhrauni. Þá kemur Garðastaðaland og selstaða.
Þar fyrir norðan tekur til það, sem Innesingar kalla Kóngsland, gengur það norður og austur með fjöllunum inn að Elliðaám og upp undir Hellisheiði fyrir ofan Vífilsstaði, Urriðakot, Elliðavatn, og hina aðra bæina. Er þetta land eigi sérdeilis kóngsland, þó það svo kallað sé, heldur er það svo sem afréttur eður óskipt land þeirra kóngsjarðanna, sem liggja upp og inn undan Álftanesi.”
Í jarðabókinni er víða getið um Suðurnesjaalmenninga, sem ofangreind býli áttu rétt í. Auk jarða á Vatnsleysuströnd áttu öll lögbýli í Grindavíkurhreppi rétt til kolagerðar í almenningum eða Suðurnesjaalmenningum án þess að getið sé hvar þeir eru. Sama er um margar jarðir Í Rosmhvalaneshreppi og nokkrar í Álftaneshreppi.
Um jörðina Þorbjarnarstaði, sem er nú í lögsagnarumdæmi Hafnarfjarðar þar sem Straumsvík er, segir þetta:

Réttarklettar

Réttarklettar- stekkur.

“Skóg hefur jörðin átt, en nú má það varla kalla nema rifhrís. Það hefur hún svo bjarglega mikið, að það er brúkað til kolagerðar og eldiviðar, og svo til að fæða pening á í heyskorti. Aldrei ljá það búendur til annarra og eru þetta þau skógarpláss, sem almenningar eru kölluð.” Ennfremur segir í jarðabókinni um Hamarskot, að hrísrif hafi jörðin í Þorbjarnarstaðalandi, þar sem heita almenningar, er það haft til kolagerðar og eldiviðar og til að fæða pening í heyskorti.

Straumur

Óttarsstaðir/Straumur – örnefni og minjar. Uppdráttur ÓSÁ.

Jarðirnar Stóri-Lambhagi, Þorbjarnarstaðir, Straumur, Óttarsstaðir, Lónakot og Svínakot voru fyrrum nefndar Hraunjarðir og voru allar í eigu Viðeyjarklausturs og urðu því kóngsjarðir við siðaskipti. Sá almenningur, sem hér er fjallað um er fyrir ofan (eða sunnan) lönd þessara jarða og einnig fyrir ofan Hvassahraun hvað þetta mál varðar. Svínakot mun hafa verið þar sem nú eru Réttarklettar vestan Lónakots. Hagar þar mannvirkjum svipað til og í Borgarkoti á Vatnsleysuströnd, austan Kálfatjarnar.

Gvendarbrunnur

Gvendarbrunnur.

Eftir að jarðir þessar voru seldar á árabilinu 1827-1839 reis upp ágreiningur um eignarheimildir á almenningnum ofan þeirra. Stiftamtmaður fól sýslumanni að skoða málið 1847 og fór áreið fram árið eftir með eigendum og ábúendum hraunsjarðanna,
sem liggja við almenninginn og helst hafa notað landið til beitar og skógaryrkingar sökum afstöðu þeirra og þess að þetta land tekur við, þar sem tún þeirra og Brunahraunsgirðingum um þau sleppa.
Í skoðunar- og áreiðargerðinni var mörkum lýst með þessum hætti:

Lónakot

Grænhólsskjól.

“Að neðan byrjar það nyrst við Kolbeinshæð, gengur svo til vesturs niður að Markhólum fyrir neðan Lónakotssel hvar skógurinn endar á móti suðri. Þó gengur skógartunga þríhyrnt niður frá alfararveginum. Hennar botn og breidd er að ofan og gengur frá Löngubrekkum til suðurs að Markhólum. Sporður skógarspildu þessarar endar í útnorðri við Brunnhólavörðu skammt fyrir ofan Lónakot.
Að norðan gengur skógarlandið frá Kolbeinshæð til landsuðurs langs með Kapelluhrauni og Brunanum upp að Stórhöfðastíg, þaðan til suðurs í Fremstahöfða langs með Brunanum suður að Fjallinu Eina, þaðan til vesturs og útnorðurs í krókum og hlykkjum allt niður að Markhólum.
Yfirvöld mæltu eftir áreiðina fyrir um eins konar friðlýsingu svæðisins vegna lélegs ástands skógar og umsjón var falin einum Hraunjarðarbónda, en þeir einir máttu nýta landið án leyfis yfirvalda.
Segir síðan að allt þetta land álítist vera ein fermíla að stærð (dönsk míla var 7.5 km) eða 56 ferkílómetrar og er þetta svæði nú bæði innan lögsagnarumdæmis Hafnarfjarðar (29.71 ferkílómetri), en einnig upp af Vatnsleysustrandarhreppi, aðallega upp af Hvassahrauni.
Sjá MYNDIR.

Lónakot

Sjóbúð við Lónakot.

Almenningur

Þær jarðir innan staðarmarka Hafnarfjarðar suð-vestur af kaupstaðnum voru nefndar áður einu nafni Hraun(a)jarðir, vestan Straumsvíkur, nú helsta kennileitis svæðisins. Minna fer nú fyrir minjum og rústum gömlu bæjanna. Þetta voru jarðirnar Stóri-Lambhagi, Þorbjarnarstaðir, Straumur, Óttarsstaðir, Lónakot og Svínakot. Jörðin Hvassahraun var ein af Hraun(a)-jörðunum, en hún var í Vatnsleysustrandarhreppi. Þessar jarðir voru allar í eigu Viðeyjarklausturs um tíma og urðu því kóngsjarðir með siðaskiptunum 1550. Ofan við jarðirnar (sunnan) er stór almenningur þar sem þessar jarðir áttu ítök, sem gert er grein fyrir í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns.

Straumssel

Straumssel.

“Eftir að kóngsjarðirnar í Hraununum höfðu verið seldar á árunum 1837-39 – Lambhagi var þó seldur 1827- reis fljótt upp ágreiningur um eignarheimildir á hinum svonefnda Almenningi. Eftir að þeir Magnús Árnason, Guðmundur Eyjólfsson, líklega í Stóra Lambhaga og Guðmundur Guðmundsson, þá á Þorbjarnarstöðum, höfðu skrifað stiftamtmanni 29. 10. 1847, fyrirskipaði hann sýslumanni að rannsaka málið. Stiftamtmaður taldi, að hugsanlegt væri, að Almenningurinn væri eftir sem áður kóngsland, þar sem jarðirnar í Álftaneshreppi ættu ítök þar til viðarhöggs og kolagjörðar, sbr. Kópíubók í Þjskjs. Samkvæmt þessu boðaði sýslumaður bréflega og með auglýsingu 18.5. 1848 til áreiðar, er fram átti að fara 2.6. þ.á., sbr. Kópíubók nr. 767-69. Áreiðin fór fram á tilsettum tíma og var gerðin bókuð í aukadómsmálabók, nú á Þjskjs. Gögnin voru send amtinu 10.6. (nr. 784). Amtið svaraði 15.6. og leyfði þá Hraunbæjarmönnum einum afnot óskert, sbr. Kópíubækur.

Í Straumsseli

Gerði í Straumsseli.

Í samræmi við þetta tilkynnti sýslumaður friðlýsingu skógarins innan tiltekinna marka 19.6. (nr. 789). Friðlýsingin var svo birt á manntalsþingi í Görðum næsta dag, 20.6. 1848, samkvæmt þingbók. En 24.1. 1849 tilkynnti sýslumaður stiftamtmanni, að það myndi ekki vera nauðsynlegt að láta Hraunabændur fá ný bréf fyrir jörðum sínum (nr. 930). Á manntalsþingi í Görðum 22.6.1849 birti sýslumaður auglýsingu Guðmundar Guðmundssonar “sem umsjónarmanns Almenningsskógarins viðvíkjandi takmörkun þessa skógarlands, reglulegri yrkingu sama og fleiru,” samkvæmt þingbók, en sjálf auglýsingin er færð í afsalsbréfabók Ltr. C no. 81.

Laufhöfðavarða

Laufhöfðavarða.

Sama dag voru samþykktar lögfestur Guðmundar fyrir jörðunum Óttarsstöðum og Straumi, Ltr. C no. 81 og 82.” Í skoðunar- og áreiðargerðinni er mörkum lýst með þessum hætti: “Að neðan byrjar það nyrst við Kolbeinshæð, gengur svo til vesturs niður að Markhólum fyrir neðan Lónakotssel, hvar skógurinn endar á móti suðri. Þó gengur skógartunga þríhyrnt niður frá alfaraveginum. Hennar botn eða breidd er að ofan og gengur frá Löngubrekkum til suðurs að Markhólum. Sporður skógarspildu þessarar endar í útnorðri við Brunnhólavörðu skammt fyrir ofan Lónakot. Að norðan gengur skógarlandið frá Kolbeinshæð til landsuðurs langs með Kaphelluhrauni og Brunanum upp að Stórhöfðastíg, þaðan til suðurs í Fremstahöfða langs með Brunanum suður að Fjallinu eina, þaðan til vesturs og útnorðurs í krókum og hlykkjum allt niður að Markhólum. Allt þetta land sem álíst að vera ein fermíla að stærð viðurkenna allir þeir sem mætt hafa að kallað sé með aðalnafni (gamalt) Almenningur.” Ein dönsk fermíla er nú ca. 7,5 x 7,5 km eða ca. 56 ferkílómetrar. Sá hluti sem er innan staðarmarka Hafnarfjarðar er 29,71 ferkílómetri.

Hvassahraunssel

Hvassahraunssel.

Töluverður hluti almenningsins er einnig innan staðarmarka Vatnsleysustrandarhrepps, aðallega upp af Hvassahrauni. Haft er í huga að almenningurinn verði skilgreindur með þeim hætti að hann fari með engu móti inn á eignarlönd Hraunjarðanna, sem eru eins og fram hefur komið Lónakot, Óttarsstaðir, Straumur, Stóri-Lambhagi, Þorbjarnarstaðir og Svínakot, heldur væri hann allur sunnan jarðanna. Í því sambandi má nefna aðalmenningur er í skoðunar- og álitsgjörðinni frá 2. júní 1848 sagður ná að Brunnhólavörðu sem er skammt fyrir ofan Lónakot. Í staðinn er almenningurinn skilgreindur varlega á þessu svæði og látið nægja að fara með norð-vesturmörk almenningsins að alfaraveginum sem er töluvert sunnan Brunnhólavörðu. Getið er um Markhóla í skoðunar- og áreiðargjörðinni. Þrír Markhólar eru í almenningnum, einn neðan Lónakotssels, annar nálægt Óttarsstöðum og sá þriðji við Straum. Þess ber að geta að Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá því um 1700 staðfestir að um gamlan almenning er að ræða. Verður nánar gerð grein fyrir því ígreinargerðinni sem síðar verður lögð fram. Merkjalýsing frá punkti í Markrakagil (Markagil), sem er í samræmi við varakröfu ríkisins, tekur mið af merkjalýsingu Garðakirkjulands samkvæmt landamerkjabréfi nr. 154, sem Þórarinn Böðvarsson prófastur í Görðum undirritaði 7. júní 1890 og þinglesið var á manntalsþingi í Görðum hinn 9. júní 1890, sbr. 3. lið. Verður nánari grein gerð fyrir lýsingunni í greinargerð. Landamerkjalýsingar á Hraunjörðunum sem þinglýst var 9. júní 1890 eru sérstaklega milli jarðanna.

Skjól við Gömlu-þúfu

Skjól við Gömlu-Þúfu.

Í þessum lýsingum er farið langt út fyrir hin eiginlegu eignarréttindi jarðanna til suðurs. Þessar landamerkjalýsingar eru milli eigenda Hraunajarðanna, þær eru einhliða gerðar og ekki samþykktar af öðrum aðilum sem tengjast málinu og hagsmuna hafa að gæta svo sem ríkinu og sveitarfélaginu. Hafnarfjarðarbær er þeirrar skoðunar að umræddur almenningur sé landsvæði utan eignarlanda þó að einstaklingar eða lögaðilar kunni að eiga þar takmörkuð eignar-réttindi. Þær landamerkjaskrár sem gerðar voru á milli Hraunajarðanna og þinglýst var 9. júní 1890 og miðuðu við að afmarka þær jarðir breyta því engu um ofangreind mörk milli Hraunjarðanna annars vegar og almenningsins hins vegar. Að því leyti sem þær ná yfir almenninginn voru þær einungis gerðar að nafninu til, þar sem þær eru án samþykktar allra hlutaðeigandi. Landamerkjabréfin frá 1890 breyta því ekki efni þeirrar skoðunar- og áreiðargerðar frá 1848 sem gerð var með samþykki allra hutaðeigandi og fela því enn síður í sér sönnun um beinan eignarrétt yfir því landi sem fyrr var afmarkað sem almenningur. Gildi þessara landamerkjabréfa nær því eingöngu til marka milli Hraunjarðanna. Ljóst er að menn máttu ekki einhliða auka við land sitt eða annan rétt umfram það sem verið hafði. Tilvist þessara landamerkjabréfa breyta því engu um mörk almenningsins sem ákveðin voru með skoðunar- og áreiðargerðinni 2. júní 1848.
Þó að stiftamtmaður hafi heimilað Hraunabæjarmönnum einum afnot af almenningnum árið 1848 veitti það þeim ekki rétt til þess að útvíkka mörk jarða sinna með þeim hætti sem þeir gera með þeim samningum sín í milli sem þinglýst var 9. júní 1890.

Réttarklettar

Rétt við Réttarkletta.

Þessir þinglýstu samningar breyta engu um eignarheimildir eigenda Hraunjarðanna. Hafnarfjarðarbæ finnst rétt að þegar komi fram að þetta land sen ríkið gerir kröfu um að verði úrskurðað sem þjóðlenda er framtíðarbyggingarland bæjarins og litið er svo á að bærinn muni fá þetta land sem er innan staðarmarka Hafnarfjarðarbæjar frá ríkinu sem byggingarland. Rökin bæjarins fyrir því eru: 1) Með lögunum um þjóðlendur o.fl. nr. 58/1998 er ekki gert ráð fyrir því að skerða hagsmuni sveitarfélaga til lands, sem þýðir að land sem er á láglendi, nálægt þéttri byggð og er á skipulagi sem byggingarland sveitarfélags verður það áfram þrátt fyrir gildistöku nefndra laga um þjóðlendur. Þegar litið er til efnis laganna, greinargerðarinnar með frumvarpinu og umræðna á Alþingi er alveg ljóst að það samrýmist ekki nefndum lögum um þjóðlendur nr. 58/1998 að meina Hafnarfjarðarbæ að skipuleggja þetta land sem byggingarland. 2) Með samningi 28. apríl 1964 höfðu Hafnarfjörður og Garðahreppur (nú Garðabær) makaskipti á löndum. Í hlut Hafnarfjarðar kom sá hluti Garðahrepps sem lá sunnan við Hafnarfjörð. Þar var um að ræða umræddan almenning. Á móti féll Hafnarfjörður frá leigurétti sínum á ræktunarspildum úr landi jarðeignadeildar ríkisins á Hraunsholti og við Arnarnes samkvæmt leigusamningi, dagsettum 14. nóv. 1940.

Straumsvík

Straumsvík.

Í framhaldi þessara makaskipta samþykkti Alþingi frumvarp til laga um lögsagnarumdæmi Hafnarfjarðar og breyttust lögsagnarumdæmi sveitarfélaganna tveggja í samræmi við þennan makaskiptasamning. Samþykkti ríkið því með þeim lögum þennan makaskiptasamning sveitarfélaganna. Fær Hafnarfjörður skv. því almenninginn sem framtíðarbyggingarland og Garðabær, Hraunsholtið og Arnarnesmýrina sem Garðabær hefur nú úthlutað að stærstum hluta undir byggingarlóðir. 3) Hafnarfjarðarbær hefur þegar skipulagt þetta umrædda landsvæði að hluta sem byggingarland og hafa atvinnuhús verið byggð nyrst á þessu landi, eða því landi sem næst er álverinu í Straumsvík. Þetta land hefur að öðru leyti verið skipulagt, sbr. meðfylgjandi skipulagsuppdrátt fyrir aðalskipulag Hafnarfjarðar 1995 til 2015.
Þetta landsvæði ofan (sunnan) við Straumsvík er, eins og þegar hefur komið fram, framtíðarbyggingarland Hafnarfjarðar. Framlögð skjöl: 1) Uppdráttur 2) Staðfest ljósrit af samningi milli Hafnarfjarðar og Garðabæjar dags. 28. apríl 1964 3) Aðalskipulagsuppdráttur fyrir Hafnarfjörð 1995-2015.
Hér er orðið fullljóst að markmið Hafnarfjarðarbæjar er að byggja þar sem nú er óraskað hraunið í Almenningi.
Sjá MYNDIR.

Heimild:
-Óbyggðanefnd.
-Guðmundur Benediktsson hrl. f.h. Hafnarfjarðarbæjar.
-Magnúsar Más Lárussonar fyrrverandi rektors Háskóla Íslands um merki Krýsuvíkurlands. bls. 26.

Í Almenningi

Í Almenningi.

Óttarsstaðasel

“Almenningsskógur er gamalt heiti hraunasvæðisins suður og vestur af Straumsvík. Þetta var úthagi Hraunajarðanna sem voru í eigu kirkjunnar en komust i konungseign við siðaskiptin 1550. Þessar jarðir voru allar seldar um og eftir 1830 og eftir Það voru þær í eigu bænda þar til buskapur lagðist að mestu af u.þ.b. 100 árum seinna. Á meðan jarðirnar voru í eigu kirkjunnar og konungs gátu íbúar á suðvesturhorni landsins nýtt Almenningsskóg til beitar og þeir fóru þangað til að höggva skóg til kolagerðar. Þegar litla ísöld gekk í garð upp úr 1450 tók að kólna verulega á Íslandi og víðar í norðurhöfum og hratt gekk á skóglendi þar sem viðar- og skógarhögg jókst til muna. Þegar fram í sótti var ekki mikið um stærri tré því þau voru tekin fyrst og með tímanum var lítið annað eftir en nýgræðingur og hverskonar runnagróður, sem var jafnan nefndur einu nafni hrís.
fornasel-vatnsbolGengdarlaust hrístaka og skógarhögg gekk nærri gróðrinum í Almenningi og var svo komið um 1700 að varla var lengur hægt að tala um að hrís væri nægjanlegt og skógurinn sem svo hafði verið kallaður var að mestu eyddur. Samt sem áður var haldið áfram að ganga á takörkuð gæði landsins með sauðfjárbeit og kolagerð. Fyrir kom að tré og runnar voru rifin upp með rótum, sérstaklega næst bæjum en ekki síður upp til fjalla þar sem mest hætta var á uppblæstri. Hirðstjóri konungs lagði álögur á alla bændur sem bjuggu nærri Bessastöðum og þurftu þeir að skaffa einn til tvo hríshesta á ári hverju og stærri jarðirnar þurftu auk þess að útvega einn eða tvo stórviði árlega.
Þegar Hraunajarðirnar voru seldar hver af annarri úr konungseign voru heimalönd þeirra skilgreind og miðuðust við landsvæði sem náði þó nokkuð suður fyrir selin. Eigendur jarðanna lögðu ríka áherslu á að verja heimalönd sín og bönnuðu hverskonar nytjar svo sem veiði, hrísrif og beit í úthaganum í löndum sínum. Ekki fóru allir eftir þessu og töldu sumir að sú hefð að sækja hrís í Almenning og að beita sauðfé þar væri ofar eignarréttinum. Gengu klögumál á víxl þar til sýslumaður kynnti vilja konungs í þessu efni. Landsmenn áttu að leggjast á eitt um að verja þá skóga sem eftir voru í landinu en ekki halda áfram að eyða þeim. Skógarhögg og hrísrif mátti aðeins stunda samkvæmt sérstöku leyfi og undir eftirliti umsjónarmanna skógarhöggs sem konungur lét skipa víða um land.
straumssel-231Guðmundur Guðmundsson bóndi var skipaður umsjónarmaður skógarhöggs í Álftaneshreppi um miðja 19. öld. Guðmundur bjó ásamt Katrínu Guðmundsdóttur eiginkonu sinni í Straumsseli og átti fremur auðvelt með að fylgjast með þvi sem fram fór í Almenningi. Sýslumaður undirritaði reglur um skógarhögg í vitna viðurvist á manntalsþingi í Görðum og skipaði Guðmund í embættið á sama tíma.
Guðmundur keypti Straum og hálfa Óttarstaði árið 1849 með gögnum og gæðum og ítökum og öllum herlegheitum sem jörðunum fylgdu og höfðu og fylgt til sjós og lands. Guðmundur kaus að byggja sér bú í Straumsseli og lýsa staðinn lögbýli. Straumur var í ábúð og leiguliðinn mótmælti því harðlega að Guðmundur gerði Straumssel að lögbýli sínu. Áður hafði Guðmundur átt Lambhaga og hluta Þorbjarnarstaða en seldi hvorutveggja 31. maí 1848 til Eyjólfs Péturssonar. Guðmundur fékk sínu framgengt en sat ekki Straumssel lengi heldur byggði það leiguliðum og settist að á Setbergi.
 Guðmundur skógarvörður varð ekki langlífur. Hann lést 44 ára gamall árið 1855 að Setbergi. Guðmundur Tjörvi sonur hans var aðeins fimm ára gamall, en tók eignir föður síns í arf eftir. Katrín móðir Guðmundar Tjörva og ekkja Guðmundar skogarvarðar giftist stuttu seinna Guðmundi Símonarsyni og bjuggu þau fyrst á Setbergi. Þau tóku við búskap í Straumi þegar jörðin losnaði úr ábúð og bjuggu straumsselshellar-231myndarbúi framundir aldamótin 1900.
Að þeim látnum tók Guðmundur Tjörvi við jörðinni, en hann hafði í raun réttri verið bóndi þar um árabil enda móðir hans og fósturfaðir komin nokkuð við aldur er þau féllu frá.

Guðmundur Tjörvi var dugnaðarbóndi, sem átti um hundrað fjár og stækkaði túnin umhverfis Straum. Hann fór í mikla útgræðslu, byggði fjárhús í Fjárhússkarði við Brunntjörn, hljóð Tjörvagerði nálægt Þýskubúð og Gerðið suður af Straumsseli. Þegar ellin fór að gera vart við sig ákvað hann að bregða búi þar sem hann átti enga afkomendur og systur hans höfðu ekki heldur komið neinum börnum á legg, enda gengu þær ekki allar heilar til skógar. Hann seldi Bjarna Bjarnasyni Straum árið 1918. Tveimur árum seinna keypti Bjarni Þorbjarnarstaði ásamt Stóra- og Litla Lambhaga til að eiga möguleika á að fá nægan heyfeng fyrir bústofn sinn. Þegar gamli Straumsbærinn brann árið 1925 var ráðist í að reisa nýtt og veglegt hús úr steinsteypu. Þetta var með stærri húsum á landinu og var það tilbúið árið 1926 og stendur enn. Guðjón Samúelsson húsameistari ríkisins teiknaði húsið sem er í svipuðum stíl og Korpúlfsstaðir og Héraðsskólahúsið á Laugavatni.
straumur-231Bjarni var íþróttakennari við Barnaskóla Hafnarfjarðar frá 1912 en tók við skólastjórn 1915. Hélt hann þeirri stöðu til 1929 er hann var skipaður skólastjóri Héraðsskólans á Laugarvatni. Bjarni var maður framfara og var annálaður dugnaðarforkur. Hann átti eina af fyrstu bifreiðunum sem komu til landsins og ók daglega milli Straums og Hafnarfjarðar. Bjarni átti drjúgan þátt í að ákveðið var að byggja veglegt steinsteypt skólahús í Hraungerðistúninu við Hamarskotslæk árið 1927 þar sem Barnaskólinn (Menntasetrið við Lækinn var til húsa þar til hann flutti í nýtt hús á Hörðuvöllum.
Þegar Bjarni var fluttur alfarinn austur að Laugarvatni reyndi hann að selja Straum, Lambhaga og Þorbjarnarstaði. Það gekk ekki og er sennilegasta ástæðan sú að kreppa skall á um þessar mundir og á sama tíma voru búskaparhættir að breytast verulega hér á landi. Bjarni ákvað því að halda búskapnum í Straumi óbreyttum um sinn og fékk bústjóra til að flytja í Straum og annast búreksturinn. Þegar mæðuveiki kom upp á suðvesturhorni landsins um 1937-38 varð að fella bústofn Bjarna og þar með var engin þörf lengur fyrir bústjóra. Þorbjörg Þorkelsdottir eiginkona Bjarna leigði KFUK í Reykjavík Straumshúsið fyrir lágt verð sumarið 1938. Næstu árin fékk KFUK húsið til afnota og hélst þessi tilhögun til ársins 1946. Straumur var sumardvalarstaður fyrir stúlkur á vegum KFUK en Vindáshlíð tók við þessu hlutverki árið 1949.
Bjarni leitaði stöðugt að kaupanda að Straumi, Þorbjarnarstöðum og Lambhaga en lítið þokaðist, enda voru Hraunin farin í eyði áður en fyrri heimsstyrjöldin brast á. Hann leitaði til ýmissa aðila, þar á meðal Hákonar Bjarnasonar skógræktarstjóra sem þótti koma til greina að Skógrækt ríkisins eignaðist jörðina, en vildi lítið sem ekkert greiða fyrir hana. Sumarið 1944 var bundist fastmælum að Skógrækt ríkisins keypti nokkurn hluta af löndum Straums og Þorbjarnarstaða, en staðreyndin var sú að Bjarni gaf því sem næst þennan hluta jarða sinna. Samkvæmt frétt sem birtist í Vísi 14. desember 1944 var um kjarri vaxin hraun að ræða sem ætlunin var að kaupa fyrst og fremst til þess að sjá hversu miklum þroska trjágróður gæti náð á þessum stað. Reykjanesskaginn var illa farinn vegna óhóflegrar beitar og voru miklar vonir bundnar við að auka mætti gróður til verulegra muna með því að friða landið að hluta eða öllu leyti.
brunntorfuskogur-321Vorið 1948 var gengið frá jarðakaupum Skógræktar ríkisins á 600 ha landi í Almenningi úr landi Straums og Þorbjarnarstaða. Sama vor plöntuðu starfsmenn Skógræktarinnar út 1000 sitkagreniplöntum í Almenningi í upplandi Þorbjarnarstaða í um 50 metra hæð yfir sjávarmáli nærri Fornaseli. Vorið 1954 var landsvæðið girt af með 6 km langri girðingu til að vernda barrtrén sem búið var að gróðursetja og til að sjá hvernig sjálfgræðslu lands í hrauninu miðaði ef það væri beitarfriðað.
Bjarni Bjarnason afsalaði Skógrækt ríkisins landinu sem hann seldi árinu áður með bréfi sem var dagsett 16. febrúar 1949. Þar segir: ,,…Þann hluta …sem liggur milli þjóðveganna til Krýsuvíkur og Keflavíkur, frá norðurbrún Nýjahrauns og að landamerkjum Straums og Óttarstaða, með gögnum og gæðum og án allra kvaða. – Undanskilið gjöfinni er norðausturhorn landsins (neðsti hluti Nýjahrauns), frá vörðu vestarlega á Rauðaamelshólum og línum dregnum frá henni, annars vegar hornrétt á Krýsuvíkurveg, en hins vegar í beina stefnu á Reykjanesbraut á hábrún Nýjahrauns, ofan Þorbjarnarstaða og Litla-Lambhaga.
Sama dag seldi Bjarni landspilduna sem hann undanskildi til Hákons Bjarnasonar skógræktarstjóra ríkisins. Spildan markaðist af ,,Reykjanesbraut að vestan, að norðan af landamerkjum Hvaleyrar og áðurnefndra jarða, og að öðru leyti af línum dregnum úr vörðu á Rauðamelshólum, eins og nánar er tiltekið í afsali mínu til Skógræktar ríkisins, dagsettu í dag.”
bruninn-231Hákon Bjarnason gaf Landgræðslusjóði þessa landspildu til eignar 7. febrúar 1967, að undanskildu túni Þorbjarnarstaða og 100 metra spildu í allar áttir frá túngarðinum.
Árið 1955 gerði Hafnarfjarðarbær makaskiptasamning við Skógrækt ríkisins um viðbótarhluta úr landi Straums. Þann 7. apríl 1994 afsalaði Landgræðslusjóður öllu landi sínu í Straumi til Hafnarfjarðar en það var 223,6 ha að stærð. Ríkissjóður, fyrir hönd Skógræktar ríkisins, seldi Íslenska álfélaginu hf land í Straumi, austan Reykjanesbrautar, u.þ.b. 220 ha, 30. nóvember 2001. Undanskilið var í sölunni land Tjarnarhóls, Gerðis og Þorbjarnarstaða.
Vorið 1956 tóku nokkrir einstaklingar við skógræktarsvæðinu í Almenningi og var litið á þetta sem tilraunareit. Landsvæðið sem var lagt undir verkefnið spannaði 140 ha. hrauns, annarsvegar ágætlega gróið beitiland í Almenningi og hinsvegar brunahraun sem var hluti Nýjahrauns sem rann um 1151. Hafist var handa við að girða landið og hófst útplöntun um 1960. Þeir sem tóku stærsta hluta svæðisins í fóstur voru Björn Þorsteinsson sagnfræðingur, Þorbjorn Sigurgeirsson prófessor, Broddi Jóhannesson skólastjóri Kennaraskólans og Marteinn Björnsson. Fengu þeir plöntur og áburð frá Skógrækt ríkisins en önnuðust sjálfir útplöntun með fjölskyldum sínum og vinum. Á næstu árum bættust Kristinn Skæringsson frá Landgræðslu ríkisins og Arngrímur Ísberg í hópinn. Þessir menn kölluðu sig Landvinningarflokkinn sín á milli.
lonakotssel-231Gróskumikill barrskógur er nú á þessu 50 ha landi og víða orðinn svo þéttur að full ástæða er til að ráðast í grisjunarvinnu. Sjálfsánar furur og greni er víða að sjá og landið nánast sjalfbært að þessu leyti. Kjarrlendi í Almenningi hefur jafnframt tekið verulega við sér eftir að sauðfjárbeit var að mestu útrýmt á þessum slóðum. Víðáttumiklir birki- og víðiflákar breiða úr sér og inn á milli má finna stór birkitré. Allvíða eru einirunnar en lynggróður og mosi þekja stærsta hluta Almennings. Þetta er fyrirtaks útivistarsvæði og spennandi gönguland með miklu meiri gróðri en hægt er að ímynda sér og ótrúlega margbreytilegum hraundröngum, klettum, hæðum, hólum, flatlendi, kötlum, gjótum og jarðföllum.
Minjar frá þeirri tíð þegar búskapur var stundaður á Hraunabýlunum finnast út um allan Almenning. Gjásel, Fornasel, Straumssel, Óttarstaðasel og Lónakotssel eru í Almenningi miðjum og allt um kring eru grjóthleðslur sem voru fyrrum stekkir, kvíar, fyrirhlaðnir fjárhellar og skjól, eða skotbyrgi, réttir, vörður og hvaðeina sem tilheyrði gamla bændasamfélaginu. Þess utan liggja þarna þvers og kruss fornar götur, alfaraleiðir og innansveitarleiðir, smalaslóðar og fjárgötur sem enn markar fyrir þó svo að gróðurinn sé í óða önn að fela forðum gengin spor.”
.

Heimild:
-http://www.hraunavinir.net/2012/05/almenningur/#more-1075

Sraumsrétt

Straumsrétt.

Skógfellavegur

Hér verður fjallað um heimildir um svonefndan “Suðurnesjaalmenning“. Umfjöllunin er byggð á skýrslu Óbyggðanefndar um Grindavík og Vatnsleysustrandarhrepp árið 2004.

Trölladyngja

Trölladyngja og nágrenni.

Í greinargerð Þjóðskjalasafns Íslands má lesa eftirfarandi: “Í hinni prentuðu gerð Jarðabókar Árna Magnússonar og Páls Vídalíns er aftan við umfjöllunina um Vatnsleysustrandarhrepp neðanmálsgrein sem hefst á þessum orðum: Í Jarðabókinni er seðill og á honum þetta, sem á hjer við: “Það sem Suðurnesjamenn kalla Almenníng tekur til suður við Hvassahrauns land og Trölladyngjur, gengur so norður eftir fyrir ofan lönd allra Hraunabæjanna og endast so norðan til, þar sem hann mætir Ásslandi,”” … Eftir orðanna hljóðan virðist sem Almenningurinn takmarkist af landi Hvassahrauns og Trölladyngjum og sé því ekki innan Vatnsleysustrandarhrepps.
Í greinargerð Þjóðskjalasafnsins er vakin sérstök athygli á því hvaða jarðir á Suðurnesjum hafi átt rétt til kolgerðar í „almenníngi” eða „almenningum” og vísað til orðalags í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá árinu 1703. Í Grindavíkurhreppi séu það Ísólfsskáli, Hraun, Þorkötlustaðir, Hóp, Járngerðarstaðir, Húsatóftir og Staður, þ.e. allar jarðir í hreppnum, hvort sem þær töldust eign Skálholtsstóls eða konungs, nema Krýsuvík, sem hafði eigin skóg en um það segir: “Skógur lítill þó til kolagjörðar fyrir ábúendur og líka að nokkru leyti til eldiviðar.” … Öll hlunnindi jarðarinnar, sem áður eru upptalin, mega hjáleigumenn allir nýta sjer hvör eftir efli og nauðsyn, nema reka einn; …

Fuglavíkursel

Fuglavíkursel í Miðnesheiði.

Í Hafnahreppi voru byggðar jarðir annað hvort í einkaeign eða eign Kirkjuvogskirkju. Engin þeirra átti rétt til kolagerðar. Í Rosmhvalanesshreppi voru langflestar jarðir í eigu konungs; í byggð voru: Stafnes, Hvalsnes, Bursthús, Lönd, Másbúðir, Fúlavík (nú Fuglavík), Býarsker, Fitjar, Þórustaðir, Kirkjuból, Hafurbjarnarstaðir, Kolbeinsstaðir, Lambastaðir, Miðhús, Gerðar, Skúlahús, Gauksstaðir, Skeggjastaðir, Brekka, Varir, Kothús, Ívarshús, Meiðastaðir, Gufuskálar, Litli-Hólmur, Hrúðurnes, Stóri-Hólmur og Keflavík. Þær eru allar taldar brúka eða hafa skóg í almenningum til kolagerðar, nema Bursthús, Fitjar, Lambastaðir og Skúlahús, þar sem slíkt er ekki nefnt. Hins vegar eru kolskógarréttindi ekki nefnd við þær jarðir sem voru í einkaeign og voru: Uppsalir, Sandgerði, Flankastaðir, Krókur og Rafnkelsstaðir. Útskálar, sem voru staður (beneficium), eru ekki heldur með slík réttindi.

Kolhólssel

Kolhólssel í Vatnsleysuheiði.

Konungur átti allar jarðir í Vatnsleysustrandarhreppi, nema Kálfatjörn, Bakka og Flekkuvík, sem voru eign Kálfatjarnarkirkju. Allar jarðir í hreppnum brúkuðu skóg til kolgerðar í almenningi/almenningum nema Hvassahraun, sem átti skóg: “Rifhrís til kolgjörðar á jörðin í heimalandi, og líður hún á því hrísrifi stóran ágáng af Stærri og Minni Vatnsleysum, ábúendum og hjáleigumönnum. Annars brúkar jöðin þetta hrís til að fæða kvikfjenað í heyskorti”. Raunar höfðu Stóruvogar átt skóg, sem þá var eyddur: “Skóg hefur jörðin átt til forna til kolgjörðar naumlega, nú er hann fyrir löngu so eyddur, að þar er valla rifhrís að fá, sem þjena megi so styrkur heiti til eldiviðar. Og hefur hún að frjálsu kolgjörð í almenníngum”.

Kolhóll

Stóri-Kolhóll í Vatnsleysuheiði

Jarðir þær, sem konungur átti á Suðurnesjum, höfðu áður verið í eigu Viðeyjarklausturs, sem konungur sló eign sinni á, eða Skálholtsstóls. Hafði Skálholtsbiskup verið látinn skipta á jörðum við konungsvaldið með hirðstjórabréfi 27. september 1563.

Grindavík

Grindavík – Hópsnes- og Þórkötlustaðanes sem og Suðurnesjaalmenningur fyrrum.

Eins og áður var nefnt getur Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns þess ekki, að þær fáu jarðir, sem voru í einkaeign á Suðurnesjum, ættu rétt til kolagerðar í almenningi, ekki heldur Útskálar.
Í lýsingu Grindavíkursóknar 1840-1841 telur séra Geir Bachmann Almenning vera mjög víðtækan. Hann segir í lýsingu sinni á hraunum í Grindavík: “Það er að segja um öll þau hraun, sem finnast í Grindavík, að þau eru til samans tekin angar eða afleiðingar af þeim svo kallaða Almenningi fyrir sunnan Hafnarfjörð og ofan Vatnsleysuströnd”.
Síðar segir Geir: “Þess er áður getið, að hraun þau, sem í sókn þessari eru séu afleiðingar af Almenningnum. Hann liggur, sem kunnugt er, milli fjalls og sjóar, suður alla Vatnsleysuströnd, fyrir ofan Vogana, Vogastapa og Njarðvíkur. … [Geir telur hraunin sem liggja vestur í Hafnir og suður í Grindavík til Almenningsins]”. … Þá er ennþá einn angi Almenningsins, sem skerst út úr fyrir sunnan Stóra-Skógfell, milli Svartsengis og Þorbjarnarfells að norðan, en Húsafells að sunnanverðu. Liggur sá armurinn fram í Þorkötlustaðanes.Ekki hefur fundist annar staður þar sem Almenningnum er svo lýst. Geir Bachmann var tiltölulega nýkominn til Staðarprestakalls, fékk kallið árið 1835, en hafði raunar dvalið í Keflavík frá árinu 1832.

Kolbeinshæðarskjól

Kolbeinshæðarskjól.

Í kjölfar þess að stiftamtmaðurinn á Íslandi komst að þeirri niðurstöðu að Almenningsskógarnir á Álftanesi væri ennþá í eigu danska konungsins skipaði hann svo fyrir að farin yrði skoðunarferð um svæðið til þess að kanna hvað af almenningnum væri beitarland og hvað skógland þannig að ákvarða mætti hvaða hluta hans hægt væri að friða. Áreiðin fór fram 2. júní 1848. Samkvæmt henni voru mörk skógarlandsins: “ad nedan byrjar þad nyrdst vid Kolbeinshæd, gengur svo til vesturs nidur ad Markhólum fyrir nordan Lónakotssel, hvar skógurinn endar mót sudri. Þó gengur skógartúnga þríhyrndt nidur frá Alfaraveginum. Hennar botn eda breidd er ad ofan, og gengur frá Laungubrekkum til sudurs ad Markhólum. Spordur skógarspildu þessarar endar í útnordri vid Brunnhólavördu skamt fyrir ofan Lónakot. ad nordan. gengur skógarlandid frá Kolbeinshæd til Landsudurs lángs med Kapelluhrauni og brunanum upp ad Stórhöfdastíg, þadan til sudurs í Fremstahöfda lángs med brunanum sudur ad „fjallinu eina” þadan til vesturs og útnordurs í krókum og hlikkjum alt nidur ad Markhólum. Alt þetta land, sem álítst ad vera 1 ferhyrnings míla ad stærd, vidurkenna allir þeir, sem mætt hafa, ad kallad sé med adalnafni (Generelt) Almenníngur. Landid er alt skógi vaxid, og er skógurinn ad nordann og ad ofan vída ílla högginn… Gjördarmannanna álit og meining er, ad sú nýnefnda skógarspilda upp frá Lónakoti ad alfaraveginum hljóti ad vera beitarland bædi vegna nærlægdar þess vid Lónakot og Ottarstadi, og líka hins, ad þetta skógarland er í sjálfu sér lítilfjörlegt. Þarámóti finna þeir ei ástædu til ad skipta hinu ödru hér ad framan tilgreinda skógarlandi í tvent, … Land þad alt beri ad álíta sem skóg, er frida beri….

Brennisel

Brennisel í Almenningum.

Eigendurnir af jördunum Þorbjarnastödum, Straumi, Ottarstödum og Lónakoti samt af Hvassahrauni athugudu ad selstöður þeirra lægju í því að framan tiltekna skógarlandi, og ad þar hefdi verið frá alda ödli, þótt med millibilum, haft í seli frá tedum jördum einsog þeir hefdu beitt fé sínu í þessu tilgreinda landi og yrkt þar skóg. Þeir geima ser því rett sinn í þessu tilliti um leid og þeir framleggja eitt bréf til Sýsslumannsins [í Gullbringu- og Kjósarsýslu]” … Bréfið hefst á tilvísun í tilkynningu hans til eigenda Hraunajarða um áreiðina.
Síðan segir: “þar óckur eru ofann nemdar jarder seldar undann tekníngarlaust med öllumm Herlogheitumm gögnumm og gjædumm til ytstu Landa merki, ljka Sagdar ockar kaupenda, fullkomnasta eign þadann í fra – undann fillum vid því ecke hier underskrifader menn, ad begiöra af vidkomande Sýslumanne í sínu lögsagnar ummdæmi ad Seiga ockur enn Hrauna jarda landi Sem bruna Hraun Halda þad land kallast ad ödru nafne Almenníngur alt nidur ad sjó”. …. Einnig var framlagt bréf frá prestinum í Garðaprestakalli þar sem hann minnir á að nokkrum jörðum tengdum því sé í Jarðabókinni frá 1760 eignað skógarhögg í Almenningnum.

Draughólshraun

Í Almenningum.

Stuttu eftir að áreiðargjörðin fór fram voru tveir vitnisburðir um landamerki Hraunajarða skráðir niður. Sá fyrri var saminn þann 5. júní 1848 að beiðni eigenda Hraunajarða en þeir vildu fá upplýsingar um hvað ákveðnir aðilar vissu um eignir Hraunajarða og notkun þeirra. Samkvæmt vitnunum var það land sem afmarkaðist af svokölluðu brunahrauni áður fyrr kallað Hrauna pláss eða Almenningur. Það land höfðu allar Hraunajarðir nýtt sér. Hver jörð hafði sitt svæði samkvæmt ákveðnum landamerkjum.
Seinni vitnisburðurinn var saminn degi seinna að undirlagi Guðmundar Guðmundssonar, bónda í Litla – Lambhaga, eiganda jarðarinnar Straums. Í honum greina vitni frá því hvað þeim hafi verið sagt varðandi landamerki jarðarinnar og notkun ábúenda á henni. Þessi lýsing fer hér á eftir: “Landa mörk höfumm vid heirt ad væru þesse – ad nordann vid sio – úr Briniolfs skarde í Hádeigeshæd frá Straume ur Hadeig<is>hæd í þufu á austur enda midmunda hæd fra Þorbiarnarstödumm þadann beina stebnu uppa Hafurbiarnar Holt af þúfu á Hafurbiarnar Holte í Heimsta Höfda beint upp í bruna – ad sunnann – fra bruna firer ofann raud Hóla í nordasta Hraunhol beinastebnu í þufu á eiólfs hól sem er [sem er verður helzt lesið úr þessu orði] firer ofann steinhus þadann í nordur enda gvendarbrun<n>s Hædar So í nónhól af nonhól í Skip Hól þadann í markhól firer ofann vatna skier vid sjo”.

Fjallið eina

Fjallið eina.

Þann 7. júní samdi Guðmundur Guðmundsson bréf til sýslumannsins í Gullbringu– og Kjósarsýslu. Þar kemur fram að hann hafi haft samband við stiftamtmanninn sem hafi hvatt hann til þess að sýna sýslumanninum vitnisburðina tvo þannig að hann gæti kynnt sér þá áður en hann léti skoðunargerðina frá 2. júní frá sér fara. Í bréfinu kemur einnig fram að eigendur Hraunajarða telja sig eiga landsvæði það sem er afmarkað af brunahrauninu og að þeir vilji að skóglendi þeirra á landspildunni verði friðað.
Þremur dögum eftir að Guðmundur samdi bréfið til sýslumannsins, nánar tiltekið 10. júní, bað sá síðarnefndi stiftamtmanninn um að svara því hvort að fyrirhuguð friðlýsing almenningsskóga Álftaness gæti haft áhrif á nýtingarmöguleika Hraunajarða á því landi sem eigendur þeirra teldu sig eiga þar.

Stórhöfðastígur

Stórhöfðastígur.

Þann 19. júní 1848 voru almenningsskógar Álftaness gerðir að friðlýstu svæði og öðrum en ábúendum Hraunajarða bannað nýta landið. Með yfirlýsingunni fylgdi lýsing á mörkum hins friðlýsta svæðis: “að neðan frá Kolbeinshæð alt suður að Markhólum að norðan frá Kolbeinshæð með Kapelluhrauni og brunanum að Stórhöfðastíg, þaðan til suðurs – í Fremstahöfða langs með brunanum suður að Fjallinu eina, þaðan til vesturs og útnorðurs niður að Markhólum”.

Markraki

Markraki – markavarða.

Þann 21. júní 1849 samdi umsjónarmaður almennings Álftaness greinargerð um umsjónarsvæði sitt. Í henni var m.a. lýsing á þessu svæði: “Fyrst milli Garðakirkju fjall<l>lands, ur steinhusi suður í Markagil á Marraka eður undirhlíðum þaðan á Hæðstaholt, á Dauðadölum á annan vegur Dauðadölum norður í Húsfell af Húsfelli upp á Þríhnjuka þaðan á suðurenda Blafells, á milli afrjetta Alptanes og se<l>tjarnarneshreppa. A milli Gullbríngu og Arnessyslna af Bláfjöllum vestur á Kistufell. A milli Alptaneshrepps og almennings og Krísivíkur lands af Kistufelli niður á syðra Horn á Fagradals-brún þaðan í Marrakagil, so í þúfu á fjallinu eina þaðan í Helguflöt norðaná Buðarhólum. A milli jarðanna Heimalands og afrjettar af Buðarhólum eptir Buðarhólagjá, þaðan aptur í Steinhús”. …
Í yfirlýsingum dagsettum 12. og 24. júní 1865 kemur fram að umboðsmenn Hraunajarða hafi ákveðið að banna notkun á skógi þessara jarða. Samkvæmt yfirlýsingunni frá 24. júní liggur skógurinn fyrir neðan hinn svokallaða Almenning eftir þeim landamerkjum sem voru ákveðin við áreiðargjörð árið 1848. Yfirlýsingin frá 24. júní var þinglesin tveimur dögum síðar.

Snókalönd

Snókalönd – varða.

Hinn 12. september 1874 var, að beiðni Árna bónda Hildibrandssonar í Hafnarfirði, gerð áreið á landamerki Hraunajarða og Almenningsskógana til að ákveða landamerki milli þessara staða. Áreiðarmenn urðu sammála um að: “bein stefna af kletti þeim, er liggur næst fyrir ofan Snókalönd, á Stórasteini, þaðan á Eyólfsbala og þaðan í Háholt sem liggur nálægt landamerkjum Hvassahrauns og Lónakots, [Yfirstrikun] væri sanngjarnlegust og réttust landamerki milli Almenningsskógar og Hraunjarða”. Til glöggvari auðkenningar hlóðu áreiðarmenn vörðu á Eyólfsbala, og aðra ofaná Stórastein. En fremur eru [yfirstrikun] 2 vörður í beinni stefnu milli Stórasteins og klettsins hjá Snókalöndum, er áður var getið. Þá kom og áreiðarmönnum saman um, að bezt væri að hlaða vörðu á þennan stein hjá Snókalöndum, til þess að landamerki yrðu sem glöggvust og lofaði herra Árni Hildibrandsson að sjá um að það yrði gjört.

Litla-Skógfell

Litla-Skógfell.

Þann 29. júní 1875 var áreiðargjörðin á landamerki Hraunajarða, sem farin var í september árið áður, þinglesin á manntalsþingi Álftanesshrepps.
Svo virðist sem Óbyggðanefndinni hafi eitthvað skolast af leið er hún fjallaði um “Suðurnesjaalmenning. Tilgangurinn virtist vera að fjalla um svæðið ofan Grindavíkur og vestan Vatnsleysustrandar, þ.á.m. land Njarðvíkur og svæðið ofan Hafna. Það virðist hafa mistekist, ef marka á framangreinda lýsingu. Nokkur örnefni um skóg eru á því svæði, s.s. Litla- og Stóra-Skógfell og Skóghæð. Aftur á móti eru framkomnar upplýsingar ávallt vel þegnar, þótt þær fjalli ekki beint um upphaflega viðfangsefnið.

Heimild:
Úrskurður Óbyggðanefndar 2004 – Grindavík og Vatnsleysuströnd.

Straumssel

Í Straumsseli – tóftum húss skógarvarðarins, sem ætlað var að gæta að Almenningsskógum Hraunajarðanna í Garðalandi.

Tóustígur

Gengið var frá Hvassahrauni að Afstapahrauni (Arnstapahrauni) og inn í hraunið. Það virtist ógreiðfært við fyrstu sýn, en raunin var önnur. Það er vel gróið á kafla og auðvelt yfirferðar. Að austanverðu eru falleg gróin svæði strax og komið er inn í hraunið með fallegum klettamyndunum.

Tóustígur

Stórvirkar vinnuvélar komnar að hlöðnum garði við Tóustíg.

Sjá mátti fyrirhleðslu á einum stað. Stígur liggur þar í gegnum. Gengið var upp á línuveginn og eftir honum til vesturs uns komið var inn í Tóu tvö. Jarðvinnuvélar voru að moka hrauninu vestan hennar, u.þ.b. tveimur metrum frá Tóustígnum og hlöðnu görðunum, fornminjum, sem þar eru. Sorglegt á að horfa. (FERLIR vakti athygli MBL á aðstæðum. Það birti mynd af jarðvinnuvélunum og sagði frá nálægðinni við garðana. Vegagerð ríkisins stöðvaði framkvæmdir og þáði afsökun verktakans. Hann hafði ekki áttað sig, að sögn, á hversu nálægt hann var kominn, þrátt fyrir skráða skilmála þess efnis).

Toustigur

Tóustígur.

Gengið var til suðurs upp eftir Tóustígnum, upp í Tóu þrjú. Þar er jarðfall og hleðsla fyrir. Bændur munu hafa hýst fé þar í skjóli. Bein voru ofan við jarðfallið eftir refaveiðimenn, en þeir munu hafa borið þar út æti með það fyrir augum að veiða refinn. Greni eru þarna í hraunkantinum. Haldið var eftir stíg í Hrístóu. Hún er vel gróin að hluta. Gengið var með Seltóunni og var stígurinn þræddur til austurs í gegnum gróft hraunið uns komið var í slétt mosahraun – Dyngnahraun. Í því voru greni og mjög fallega hlaðið refabyrgi. Mjög erfitt er að koma auga á það – svo vel fellur það inn í landslagið. Sennilega er þarna fundið byrgi er Jónas Bjarnason var að reyna að lýsa fyrir FERLIR fyrir u.þ.b. tveimur árum og nokkrum sinnum hefur verið reynt að hafa uppi á. Allt finnst þetta þó að lokum.

Tóustígur

Tóustígur.

Efst suðvestan í efstu Tóunni liggur varðaður stígur til suðvesturs yfir Afstapahraunið. Stígurinn er mjög greinilegur og hefur verið fjölfarinn fyrrum. Greinilegt er að þarna hefur verið um hrísgötu að ræða, enda lagaður til umferðar. Hún hefur legið upp með vesturjaðri Afstapahrauns og beygt inn á hraunið að efstu Tóunni þar sem haunhaftið er mjóst. Með því að fara upp með gróningunum vestan hraunsins hefur meðferð hesta verið mun meðfærilegri en að fara með þá niður Tóurnar, yfir hraunhöft og torleiði þar sem hrísið var m.a. annars vegar.

Upp af Tóunum tók við hraunkantur, sem stígurinn lá í gegnum.
Þegar út úr hrauninu var komið var haldið til austurs uns komið var í hraunkrika Dyngnahrauns.

Skógarnef

Skógarnefsgreni.

Haldið var upp í krikann og stígur þræddur yfir úfið hraunið. Þegar yfir það var komið tók við gróinn Almenningur skammt vestan við Gömlu þúfu. Gengið var spölkorn norður með hraunkantinum og þá komið að Búðarvatnsstæðinu. Það reyndist því miður þurrt með öllu. Vatnsbirgðirnar voru því látnar duga. Girðing hefur legið í gegnum vatnsstæðið og beygt þar hornrétt. Eftir að hafa áð við vatnsstæðið var gengið með hraunkantinum og stefnan tekin á Hvassahraun.

Skógarnefsgreni

Skógarnefsgreni.

Gengið var í gegnum gróið hraun, niður í gegnum Skógarnefið, sem er þarna skammt frá, og áfram í genum gróið mosahraun vestan þess. Gerð var leit að Skógarnefsskúta, en án árangurs. Gengið var um Jónshæð og niður að Öskjuholti. Staldrað var við Öskjuholtsskúta og hann skoðaður. Þá var gengið áfram til norðurs, niður með Bláberjahrygg og að upphafsreit.
Frábært veður. Gangan tók 6 klst og 6 mín. Gengnir voru 19.4 km.

Víkingaskip

“Víkingaskip” í Afstapahrauni.

Almenningur

Ofan við Garða-Hraunabæina vestan Hafnarfjarðar er svonefndur Almenningur. En hvað er “Almenningur”?
Tilefnið að skrifum þessum er að Hafnarfjarðarbær hefur skipað starfshóp bæjarfulltrúa um gerð reiðleiða um Almenning. Þarna fer Hafnarfjarðarbær villu vega, líkt og svo oft áður, þegar kemur að minjum og minjasvæðum. Fæstir fulltrúar bæjarins hafa stigið þarna niður fæti. Hafnarfjarðarbær hefur nánast aldrei leitað leiðsagnar þeirra er gerst þekkja ofanvert bæjarlandið. Á svæðinu má finna fjölmarga forna stíga og leiðir, sem fyrrum voru notaðir af bæði fótgangandi og ríðandi.

Í Náttúrufræðingnum 1998 fjallar Jónatan Garðarsson um “Útivistarperluna í Hraunum” og getur um “Almenninga“.

Jónatan Garðarsson

Jónatan Garðarsson.

“Almenningar, sunnan við bæina og selin í Hraunum, voru skrýddir trjágróðri í eina tíð. Þar hefur allt verið kjarri vaxið fram eftir öldum en hrístekja til eldiviðar, ásamt sauðfjárbeit, hefur eytt skóglendinu. Þetta landsvæði mætti varðveita og hlúa frekar að þeim gróðri sem þar vex.
Einhvern tíma hefur hann verið gróskumikill og getur vel orðið það aftur. Í landi Hvassahrauns eru t.d. örnefnin Skógarhóll og Skógarnef, sem gefa til kynna mikinn kjarrgróður fyrrum, og í Undirhlíðum má finna kennileitið Stóriskógahvammur sem vísar til að þar hafi stórviður einhvern tíma vaxið.
Í Jarðabókinni 1703 má lesa um ástand gróðurs í Gullbringu- og Kjósarsýslu á þeim tíma. Látum þær lýsingar verða okkur til umhugsunar. Þar segir að í Álftaneshreppi hafi verið 27 konungsjarðir og áttu bændur að skila 48 hríshestum heim til Bessastaða og stundum meira. Flestum var vísað á skóg í Almenningum. Allar jarðirnar og hjáleigur þeirra höfðu rétt til kolagerðar í Almenningum. Um skóg er getið á nokkrum jörðum.”

Lónakot:
„Skógur hefur til forna verið, og er það nú meira rifhrís, það brúkarjörðin til kolgjörðar og eldiviðar, og jafnvel til að fóðra nautpening um vetur.”

Óttarsstaðir:
„Skóg til kolgjörðar og eldiviðar sækir ábúandi í almenning betalingslaust, hver sá eyddur er, sem skamt sýnist að bíða.”

Straumur:
„Skóg til kolgjörðar og eldiviðartaks brúkar jörðin í almenningum, líka er stundum hrís gefið nautpeningi.”

Þorbjarnarstaðir:
„Skóg hefir jörðin átt, en nú má það valla kalla nema rifhrís, það hefur hún so bjarglega mikið, að það er bæði brúkað til kolgjörðar og eldiviðar, og so til að fæða pening á í heyskorti. Aldrei ljá það búendur til annara, og eru þetta þau skógarpláts, sem almenningar eru kölluð.”

Þorgeir örlygsson

Þorgeir Örlygsson, prófessor.

Í Tímariti lögfræðinga 1998 skrifar prófessor Þorgeir Örlygsson um Almenninga undir fyrirsögninni “Hver á kvótann?

“Menn hefur greint á um það, hvar almenningar eru hér á landi og hvernig eignarrétti að þeim er háttað, en í sjálfu sér er ekki ágreiningur um, að þeir geti verið til, enda gerir löggjöf ótvírætt ráð fyrir tilvist þeirra og hefur lengi gert. Eru menn og almennt sammála um, að almenningar séu landsvæði, sem enginn getur talið til einstaklingsbundins eignarréttar yfir, þótt ekki sé útilokað, að menn kunni að eiga þar ákveðin og afmörkuð réttindi.
Í síðari tíma löggjöf og fræðiviðhorfum hefur helst verið við það miðað, að almenningar séu tiltekin svæði á þurrlendi og á hafsvæðum úti fyrir ströndum landsins og auk þess sérstakur hluti stöðuvatna, þ.e. svæði utan netlaga. Hafa þessi svæði verið nefnd almenningar frá fornu fari.
Almenningar hafa samkvæmt þessu bæði verið til inni á óbyggðum og út við hafið, þ.e. almenningar hið efra og hið ytra. Í bæði Grágás og Jónsbók var að finna ákvæði um almenninga. Við lögtöku Jónsbókar 1281 varð ekki breyting á meginreglunni um almenninga, sbr. þau orð 52. kaptítula Landsleigubálks: Svo skulu almenningar vera sem að fornu hafa verið, bœði hið efra og hið ytra. Í norskum rétti voru svipuð ákvæði um almenninga. Þar sagði t.d. í NL 3-12-1: Saa skal Alminding være, saasom den haver vœret af gammel Tid, baade det 0verste og det yderste.
Því er mismunandi háttað í löggjöf, hvaða heimildir eru fyrir hendi varðandi nýtingu almenninga og hverjir eiga þær heimildir. I gildandi ákvæðum íslenskra laga, sem varða meðferð tiltekinna réttinda í almenningum, er yfirleitt út frá því gengið, að landsmenn allir njóti þeirra réttinda, þótt frá því kunni að vera ákveðnar undantekningar í einstökum og afmörkuðum tilvikum.

Straumssel

Straumssel og nágrenni – uppdráttur ÓsÁ.

Hafalmenningur er það svæði sjávar við strendur landsins, sem tekur við utan netlaga, en netlög eru sjávarbelti, sem nær 115 metra út frá stórstraumsfjörumáli landareignar. Um hafalmenninga er það að segja, að frá upphafi íslandsbyggðar og allt fram yfir miðja þessa öld hefur sú meginregla verið viðurkennd, að hafið utan netlaga væri almenningur, þar sem öllum væri heimil veiði. Reglan kemur fram í Grágás, Landabrigðaþætti Konungsbókar: Menn eigu allir að veiða fyrir utan netlög að ósekju og í Landabrigðisþætti Staðarhólsbókar: Allir menn eigu að veiða fyrir utan netlag að ósekju ef vilja. Í Jónsbók er reglan í 61. kapítula Landsleigubálks, rekabálki, 2. kap.: Allir menn eigu að veiða fyrir utan netlög at ósekju. Er ákvæði þetta enn tekið upp í íslenska lagasafnið, nú síðast í útgáfuna 1995.
Um réttarstöðu íslenska rfkisins gagnvart landsvæðum, sem enginn getur talið til einstaklingseignarréttinda yfir, hvort heldur sem eru afréttareignir eða almenningar, er það að segja, að sú stefna hefur verið mótuð af dómstólum, að íslenska ríkið sé ekki eigandi þessara landsvæða, nema það færi fram eignarheimildir fyrir eignatilkalli sínu. Er framangreint annars vegar staðfest í Landmannaafréttardóminum síðari, sbr. H 1981 1584 og í Mývatnsbotnsmálinu, sbr. H1981182. Samkvæmt þessum dómum nýtur ríkið engrar sérstöðu umfram aðra, sem gera tilkall til einstaklingseignarréttar yfir tilteknum hlutum eða verðmætum. Ríkið verður eins og hver annar að færa fram skilríki eða heimildir fyrir eignatilkalli sínu.”

Í Sögu 2008 reynir Sveinbjörn Rafnsson að skilgreina “Almenninga” í grein sinni um “Hvað er Landnámabók?“.

Lónakotssel

Lónakotssel.

“Almenningar og afréttir í Jónsbók. Lengja má í þessum þræði og skoða ákvæði Jónsbókar: „Svo skulu almenningar vera sem að fornu hafa verið, bæði hið efra og hið ytra.“ Íslendingar héldu sínum íslensku lögum í samræmi við sáttmála við Noregskonunga á síðari hluta 13. aldar og konungur hafði því ekki rétt til almenninga á Íslandi eins og í Noregi.
Landsfjórðungarnir voru ekki lagðir niður með tilkomu nýrrar lög bókar á 13. öld; þeir haldast m.a. sem dómssögur og umsýslusvæði um landeignir í Jónsbók.
Það er einnig ljóst að fjórðungsmönnum hefur verið í lófa lagið sem eigendum almenninga að skipta þeim á milli sín, þar sem þess var talin þörf, í svokallaða afrétti. Í Grágás og Jónsbók er afréttur skilgreindur svo: „Það er afréttur er tveir menn eiga saman eða fleiri, hversu mikið land sem hver þeirra á í.“ Samkvæmt Grágás og Jónsbók hefur því almenningur verið í sameign allra fjórðungsmanna, þ.e. landeigenda eða lögbýla innan fjórðungs, en afréttur verið í sameign tiltekinna landeigenda eða lögbýla innan fjórðungs. Þetta skýrir til fullnustu stöðu og legu afrétta í Sunnlendingafjórðungi. Bæði í Grágás og Jónsbók eru almenningar og afréttir gjarna spyrtir saman enda er um að ræða land sem verið hefur í sameign margra manna og fylgt ákveðnum jörðum innan fjórðungs. Í ákvæðum Grágásar um að telja fé í afrétt eru eigendur afréttar kallaðir landeigendur.

Tobburétt

Landvættur í Almenningum í Hraunum.

Það er í fullu samræmi við ákvæði Grágásar um að hver maður eigi gróður á sínu landi. Það sýnir líka að mönnum hefur verið heimilt að ráðstafa eign sinni og greina hana í það sem ofan á landi er og landið sjálft, sbr. skógarítök, skógartóft, beitarítök, reka o.s.frv., enda mörg forn dæmi varðveitt um slíkt í frásögnum og skjölum. Slíkur ítakaréttur hefur ekki falið í sér eign á landi heldur afnotaeign og hafa menn hér á landi hugsað líkt í lögum og búrekstri og menn gerðu í nágrannalöndunum á miðöldum, um dominium directum, beina eign, og dominium utile, afnotaeign, enda samfélagsgerðin ekki ósvipuð. Deiluefni gat komið upp um það hvar væru mörk bújarðar annars vegar og afréttar eða almennings hins vegar. Um þetta er fjallað í 52. kap. Landsleigubálks Jónsbókar.

Almenningur

Í Almenningum í Hraunum.

Menn áttu að reyna að lögfesta sinn málstað, en ef ágreiningur varð skyldi málið koma til dóms. Þarna er eign á afrétti jafngild eign á bújörð. Samkvæmt 54. kap. Landsleigubálks Jónsbókar gat maður er næstur bjó afrétti gert eigendum afréttar stefnu til garðlags á mörkum bújarðarinnar og afréttarins. Svo segir um það: „Þeir skulu gera garð að jarðarmagni, svo sem hver þeirra á afrétt til, svo að þeir geri hálfan, en sá hálfan er garðlags beiddi, og svo haldi hvorir síðan.“ Hér kemur það glöggt fram að afréttur er full eign engu síður en bújörðin sem næst er afréttinum.
Óbyggðanefnd telur að frumstofnun eignarréttar hér á landi hafi farið fram með landnámi, hefð og lögum, sbr. löggjöf um nýbýli og þjóðlendur. Þessi kennisetning (doktrin) hefur ýmsa annmarka og kemur ekki að öllu leyti heim við sögulegar heimildir. Hún er varla rökheld við nánari skoðun, eins og komið hefur fram í máli greinarhöfundar hér á undan þótt því sé alls ekki stefnt gegn henni sérstaklega.
Hér hefur meðal annars komið fram að höfundar Landnámu og Grágásarlaga hafa alls ekki talið allt land á Íslandi numið í öndverðu. Hið ónumda land er almenningar samkvæmt Grágás. Almenningar voru að fornu eign fjórðungsmanna samkvæmt Grágás og mun það líklega vera ein af ástæðum þess að Landnáma er fjórðungaskipt. Almenningar voru eign allra fjórðungsmanna, afréttir voru eign tiltekinna fjórðungsmanna, tveggja eða fleiri, samkvæmt Grágás og svo skal áfram vera samkvæmt Jónsbók. Eðlilegast er að líta svo á samkvæmt þessum sögulegu heimildum, Landnámu, Grágás og Jónsbók, að allt landið sé talið í eign landsmanna, hvergi sé einskismannsland á Íslandi eða land án landsdrottins. Almenningar og afréttir voru taldir eignarlönd í lögum og lögbókum þótt ónumin væru.
Að þýða „landnám“ eins og það birtist í Landnámu og fornum ritum háðum henni beint sem rómarréttarlega „occupatio“ að klassískum hætti virðist vera tímaskekkja (anakrónismi). Það væri rangtúlkun á Landnámu og raunar einnig íslensku miðaldasamfélagi.”

Í Búnaðarriti 1973 er greinargerð um svonefnda “Almenninga“.

Almenningur

Fjárskjól í Almenningi í Hraunum.

“Íslendingar eru um það einir þjóða í Evrópu, að þeir eiga skráðar heimildir um landnám, og þær heimildir eru skráðar eftir að landnámi lauk. Frásagnir af því máttu auðveldlega hafa geymzt rétt í minni manna. Landnámsmenn námu ýmist mjög stór landsvæði, er þeir síðar úthlutuðu öðrum að miklu leyti, eða minni svæði, er þeir nýttu sjálfir. Svo er að sjá, að ekkert land hafi verið látið ónumið eða óhelgað. Þess er getið á tveim stöðum í Landnámabók, að spildur voru ónumdar á milli landnámsjarða, en þær voru báðar bráðlega helgaðar og lagðar til hofa. Heiðar og fjöll hafa ekki verið undanskilin. Ingólfur Arnarson nemur alla spilduna milli sjávar að sunnan og vestan og Brynjudalsár og Öxarár að norðan og Ölfusár að austan, jafnt gróið land sem fjöll og firnindi.
Fjalllendi virðast sem sagt hafa verið látin fylgja þeim jörðum, sem næst þeim lágu, og svo er mjög víða enn, þótt víða hafi þau nú verið seld sem afréttarlönd. Sumir vilja telja, að öðru máli kunni að gegna um miðhálendi Íslands vegna þess, að þar eru stór svæði lítt gróin. Þessi kenning er mjög hæpin. Gróður hefur víða minnkað stórum frá því, er var, og eru til margar sannanir um það (t.d. á Kili, landið sunnan Sprengisands og miklu víðar). Þetta land var þá nytjað, og einatt þurfti þar smölunar við. Efalaust hafa menn mjög snemma bundizt samtökum um nýtingu lands og smölun, og framkvæmt þær eftir fyrirmælum goða og síðar hreppstjórnarmanna.
Það er fullvíst, að sveitarfélög og upprekstrarfélög hafa ávallt talið, að afréttarlönd, er þau hafa nytjað frá fornu fari, hafi verið og séu óskoruð eign þeirra (nema þar, sem einstaka jarðir eða kirkjur áttu ítök, sem oftast voru veiðiítök), þótt ekki séu kaup- eða afsalsbréf til nú. Í fornum ritum eða skjölum finnst hvergi, hvar sem leitað er, nokkur heimild um það, að ríkið eða þjóðarheildin hafi átt afrétt eða heiðalönd. Mönnum var auðvitað heimil ferð um afrétt eins og annað land, og beit og jafnvel veiði, á meðan á ferð stóð. Hreppar, eftir að þeir voru myndaðir, sem trúlega hefur gerzt skömmu eftir, að landnámi lauk, og upprekstrarfélög geta hafa eignazt afréttarlönd löngu áður en farið var að færa gerninga í letur eða á skrá, og engin áslæða var fyrir menn til bréfagerða um það síðar, því að enginn vefengdi rétt þeirra, og ekki þurftu þeir að svara sjálfum sér.
Nær alltaf er vitað, að notaréttur sveitar- eða upprekstrarfélaga er ævagamall. En því fer víðs fjarri, að það afsanni eignarrétt á landi, þótt ekki séu nú til aðrar heimildir frá fyrri tímum en um beitarnot af afréttinum.

Almenningur

Vörðukort af Almenningi í Hraunum.

Eignarrétti lands var oftast ekki unnt að viðhalda með öðrum hætti en þeim, að eigendur nytjuðu það á þann hátt, sem möguleikar voru til. Sum þessara nota voru að mestu bundin við árstíðir, eins og til dæmis not afréttarlands. Þar var naumast um önnur not að ræða en beit og grasatekju og sums staðar veiði, sem oft var þó einungis nýtt á sumardag sakir fjarlægðar frá byggð.
Nýir atvinnuhættir og gerbreytt tækni veldur því, að nú er unnt að nýta land á margan hátt, sem áður var ógerlegt. Má um það nefna að sjálfsögðu fjölda dæma, t. d. virkjun vatna og notkun sands og malarnáma. Þessi þróun getur ekki valdið því, að ríkið eignist gœði lands og jarðar jafnótt og möguleiki skapast til að nota þau. Fáir eða engir halda því heldur fram, þegar um land í einkaeigu er að ræða, en hví skyldi gegna öðru máli um land sveitarfélaga?

Óttarsstaðasel

Í Óttarsstaðaseli í Hraunum. Liður í Ratleik Hafnarfjarðar.

Löggjöf vor gerir ráð fyrir því á nokkrum stöðum, að til séu almenningar. Nefndar athugasemdir, er fylgja frumvarpi til námulaga, virðast gera ráð fyrir, að þeir séu eign þjóðarheildarinnar. Öll rök hníga að því, að sú kenning sé alröng, og ríkið (eða konungur fyrr á tímum) hafi aldrei átt almenninga. Almenningar, sem oftar en hitt hafa verið við sjó og tengdir við hlunnindi, hafa ef til vill stöku sinnum verið eign f jórðungsmanna (sbr. Grágás), en oftast eign eða afnotaland fárra jarða eða eins hrepps. Þannig er enn um Almenning í Biskupstungum, að hann er eign Haukadalsjarða. Almenningur í Þjórsárdal var skógarítak nokkurra hreppa og Skálholtsstóls.
Almenningur suður frá Öxnadalsheiði var afréttur jarða í Öxnadal með ítaksrétti einnar jarðar þar, og þannig má telja fjölda dæma. Mörg þau svæði, er bera heiti af almenningi, eru og hafa verið um óratíma eign einstakra jarða. Efalaust hafa almenningar þessir verið hluti af landi jarða, en verið dæmdir af mönnum fyrir sakferli. Finnast frásagnir um slíka refsidóma bæði í Íslendingabók og Landnámu og Sturlungu. Þess munu og finnast dæmi, að í hallæri hafi mönnum verið tildæmdur almenningur (hlunnindaalmenningur) til að geta bjargað sér frá því að lenda á vergangi, en, eins og fyrr er sagt, örlar hvergi á því í fornum lögum eða skrám, að ríkið (þjóðarheildin) eigi almenning.
Vill Búnaðarþing því sterklega vara við þeirri ásælni, sem orðið hefur vart bæði með flutningi frumvarpa á Alþingi í ýmsum myndum og með málarekstri gegn sveitarfélögum, að ríkið eigi almenninga og drjúgan hluta afréttarlanda.”

Sjá meira um Almenning í Hraunum HÉR.

Heimildir:
-Tímarit lögfræðinga, 1. tbl. 01.02.1998, Þorgeir Örlygsson, prófessor, Hver á kvótann?, bls. 35-36.
-Saga, 2. tbl. 2008, Sveinbjörn Rafnsson, Hvað er Landnámabók?, bls. 189-196.
-Búnaðarrit, 1. tbl. 01.01.1973, bls. 193-194.
-Náttúrufræðingurinn, 3.-4. tbl. 01.05.1998, Jónatan Garðarsson, Útivistarperlan í Hraunum, bls. 168-169.

Almenningur

Almenningur í Hraunum – herforingjakort 1903.

Straumssel

Almenningsskógur er gamalt heiti hraunasvæðisins suður og vestur af Straumsvík. Þetta var úthagi Hraunajarðanna sem voru í eigu kirkjunnar en komust í konungseign við siðaskiptin 1550. Þessar jarðir voru allar seldar um og eftir 1830 og eftir það voru þær í eigu bænda þar til búskapur lagðist að mestu af u.þ.b. 100 árum seinna. Á meðan jarðirnar voru í eigu kirkjunnar og konungs gátu íbúar á suðvesturhorni landsins nýtt Almenningsskóg til beitar og þeir fóru þangað til að höggva skóg til kolagerðar. Þegar litla ísöld gekk í garð upp úr 1450 tók að kólna verulega á Íslandi og víðar í norðurhöfum og hratt gekk á skóglendi þar sem viðar- og skógarhögg jókst til muna. Þegar fram í sótti var ekki mikið um stærri tré því þau voru tekin fyrst og með tímanum var lítið annað eftir en nýgræðingur og hverskonar runnagróður, sem var jafnan nefndur einu nafni hrís.

Almenningur

Í Almenningi ofan Straums.

Gegndarlaust hrístaka og skógarhögg gekk nærri gróðrinum í Almenningi og var svo komið um 1700 að varla var lengur hægt að tala um að hrís væri nægjanlegt og skógurinn sem svo hafði verið kallaður var að mestu eyddur. Samt sem áður var haldið áfram að ganga á takmörkuð gæði landsins með sauðfjárbeit og kolagerð. Fyrir kom að tré og runnar voru rifin upp með rótum, sérstaklega næst bæjum en ekki síður upp til fjalla þar sem mest hætta var á uppblæstri. Hirðstjóri konungs lagði álögur á alla bændur sem bjuggu nærri Bessastöðum og þurftu þeir að skaffa einn til tvo hríshesta á ári hverju og stærri jarðirnar þurftu auk þess að útvega einn eða tvo stórviði árlega.

Almenningur

Gengið um Almenning í Hraunum.

Meginhluti hraunmassans ofan Hraunabæjanna er kominn frá Hrútagjárdyngju, nefndur Almenningur og tilheyrði í eina tíð Hraunabæjunum sem voru með fram strandlengjunni milli Straumsvíkur og Vatnsleysuvíkur. Almenningu var beitiland þessara jarða og þar áttu þær skógarítak og sóttu sér eldivið um margra alda skeið. Samkvæmt því sem næst verður komist máttu flestir íbúar Álftaneshrepps hins forna sækja sér hrís í Almenningsskóga á meðan jarðirnar tilheyrðu kaþólsku kirkjunni og seinna Danakonungi. Þessar jarðir voru seldar um og eftir 1830 og þar með féll almannarétturinn til þeirra sem eignuðust jarðirnar, eða svo töldu þeir sem keyptu jarðirnar af ríkisvaldinu. Almenningsnafnið hélst samt sem áður áfram og vísar til þess tíma þegar svo til hver sem var gat nýtt hlunnindin. Bændur og búalið sótti sér skógarvið til húsbygginga á meðan skógurinn gaf eitthvað af sér en eftir að kólna fór verulega á landinu um og eftir 1600 gekk hratt á stærstu trén. Þegar Árni Magnússon og Páll Vídalín unnu Jarðabókartal sitt árið 1703 var mjög farið að sneiðast um skógarvið og hrísrif orðið býsna erfitt í Almenningi enda kvörtuðu bændur mjög undan kröfum hirðstjóra konungs á Bessastöðum um skil á stórviði og hrísknippum til yfirvaldsins.

Straumssel

Gengið um Straumssel.

Þegar Hraunajarðirnar voru seldar hver af annarri úr konungseign voru heimalönd þeirra skilgreind og miðuðust við landsvæði sem náði þó nokkuð suður fyrir selin. Eigendur jarðanna lögðu ríka áherslu á að verja heimalönd sín og bönnuðu hverskonar nytjar svo sem veiði, hrísrif og beit í úthaganum í löndum sínum.

Straumssel

Straumssel – tilgáta.

Ekki fóru allir eftir þessu og töldu sumir að sú hefð að sækja hrís í Almenning og að beita sauðfé þar væri ofar eignarréttinum. Gengu klögumál á víxl þar til sýslumaður kynnti vilja konungs í þessu efni. Landsmenn áttu að leggjast á eitt um að verja þá skóga sem eftir voru í landinu en ekki halda áfram að eyða þeim. Skógarhögg og hrísrif mátti aðeins stunda samkvæmt sérstöku leyfi og undir eftirliti umsjónarmanna skógarhöggs sem konungur lét skipa víða um land.
Guðmundur Guðmundsson bóndi var skipaður umsjónarmaður skógarhöggs í Álftaneshreppi um miðja 19. öld. Guðmundur bjó ásamt Katrínu Guðmundsdóttur eiginkonu sinni í Straumsseli og átti fremur auðvelt með að fylgjast með því sem fram fór í Almenningi. Sýslumaður undirritaði reglur um skógarhögg í vitna viðurvist á manntalsþingi í Görðum og skipaði Guðmund í embættið á sama tíma.

Straumssel

Efri-Straumsselshellar.

Guðmundur keypti Straum og hálfa Óttarsstaði árið 1849 með gögnum og gæðum og ítökum og öllum herlegheitum sem jörðunum fylgdu og höfðu og fylgt til sjós og lands. Guðmundur kaus að byggja sér bú í Straumsseli og lýsa staðinn lögbýli. Straumur var í ábúð og leiguliðinn mótmælti því harðlega að Guðmundur gerði Straumssel að lögbýli sínu. Áður hafði Guðmundur átt Lambhaga og hluta Þorbjarnarstaða en seldi hvoru tveggja 31. maí 1848 til Eyjólfs Péturssonar. Guðmundur fékk sínu framgengt en sat ekki Straumssel lengi heldur byggði það leiguliðum og settist að á Setbergi.
Guðmundur skógarvörður varð ekki langlífur. Hann lést 44 ára gamall árið 1855 að Setbergi. Guðmundur Tjörvi sonur hans var aðeins fimm ára gamall, en tók eignir föður síns í arf eftir. Katrín móðir Guðmundar Tjörva og ekkja Guðmundar skógarvarðar giftist stuttu seinna Guðmundi Símonarsyni og bjuggu þau fyrst á Setbergi. Þau tóku við búskap í Straumi þegar jörðin losnaði úr ábúð og bjuggu myndarbúi fram undir aldamótin 1900. Að þeim látnum tók Guðmundur Tjörvi við jörðinni, en hann hafði í raun réttri verið bóndi þar um árabil enda móðir hans og fósturfaðir komin nokkuð við aldur er þau féllu frá.

Litli-Lambhagi

Eldhús við Litla-Lambhaga.

Guðmundur Tjörvi var dugnaðarbóndi, sem átti um hundrað fjár og stækkaði túnin umhverfis Straum. Hann fór í mikla útgræðslu, byggði fjárhús í Fjárhússkarði við Brunntjörn, hljóð Tjörvagerði nálægt Þýskubúð og Gerðið suður af Straumsseli. Þegar ellin fór að gera vart við sig ákvað hann að bregða búi þar sem hann átti enga afkomendur og systur hans höfðu ekki heldur komið neinum börnum á legg, enda gengu þær ekki allar heilar til skógar. Hann seldi Bjarna Bjarnasyni Straum árið 1918. Tveimur árum seinna keypti Bjarni Þorbjarnarstaði ásamt Stóra- og Litla Lambhaga til að eiga möguleika á að fá nægan heyfeng fyrir bústofn sinn.

Bjarni Bjarnason

Bjarni Bjarnason.

Þegar gamli Straumsbærinn brann árið 1925 var ráðist í að reisa nýtt og veglegt hús úr steinsteypu. Þetta var með stærri húsum á landinu og var það tilbúið árið 1926 og stendur enn. Guðjón Samúelsson húsameistari ríkisins teiknaði húsið sem er í svipuðum stíl og Korpúlfsstaðir og Héraðsskólahúsið á Laugavatni.

Bjarni var íþróttakennari við Barnaskóla Hafnarfjarðar frá 1912 en tók við skólastjórn 1915. Hélt hann þeirri stöðu til 1929 er hann var skipaður skólastjóri Héraðsskólans á Laugarvatni. Bjarni var maður framfara og var annálaður dugnaðarforkur. Hann átti eina af fyrstu bifreiðunum sem komu til landsins og ók daglega milli Straums og Hafnarfjarðar. Bjarni átti drjúgan þátt í að ákveðið var að byggja veglegt steinsteypt skólahús í Hraungerðistúninu við Hamarskotslæk árið 1927 þar sem Barnaskólinn (Menntasetrið við Lækinn var til húsa þar til hann flutti í nýtt hús á Hörðuvöllum.

Straumur

Straumur.

Þegar Bjarni var fluttur alfarinn austur að Laugarvatni reyndi hann að selja Straum, Lambhaga og Þorbjarnarstaði. Það gekk ekki og er sennilegasta ástæðan sú að kreppa skall á um þessar mundir og á sama tíma voru búskaparhættir að breytast verulega hér á landi. Bjarni ákvað því að halda búskapnum í Straumi óbreyttum um sinn og fékk bústjóra til að flytja í Straum og annast búreksturinn. Þegar mæðuveiki kom upp á suðvesturhorni landsins um 1937-38 varð að fella bústofn Bjarna og þar með var engin þörf lengur fyrir bústjóra. Þorbjörg Þorkelsdóttir eiginkona Bjarna leigði KFUK í Reykjavík Straumshúsið fyrir lágt verð sumarið 1938. Næstu árin fékk KFUK húsið til afnota og hélst þessi tilhögun til ársins 1946. Straumur var sumardvalarstaður fyrir stúlkur á vegum KFUK en Vindáshlíð tók við þessu hlutverki árið 1949.

Kapelluhraun

Skógræt ríkisins fór illa með lfyrrum land Straums í Kapelluhrauni.

Bjarni leitaði stöðugt að kaupanda að Straumi, Þorbjarnarstöðum og Lambhaga en lítið þokaðist, enda voru Hraunin farin í eyði áður en fyrri heimsstyrjöldin brast á. Hann leitaði til ýmissa aðila, þar á meðal Hákonar Bjarnasonar skógræktarstjóra sem þótti koma til greina að Skógrækt ríkisins eignaðist jörðina, en vildi lítið sem ekkert greiða fyrir hana. Sumarið 1944 var bundist fastmælum að Skógrækt ríkisins keypti nokkurn hluta af löndum Straums og Þorbjarnarstaða, en staðreyndin var sú að Bjarni gaf því sem næst þennan hluta jarða sinna. Samkvæmt frétt sem birtist í Vísi 14. desember 1944 var um kjarri vaxin hraun að ræða sem ætlunin var að kaupa fyrst og fremst til þess að sjá hversu miklum þroska trjágróður gæti náð á þessum stað. Reykjanesskaginn var illa farinn vegna óhóflegrar beitar og voru miklar vonir bundnar við að auka mætti gróður til verulegra muna með því að friða landið að hluta eða öllu leyti.

Tjörvagerði

Tjörvagerði.

Vorið 1948 var gengið frá jarðakaupum Skógræktar ríkisins á 600 ha landi í Almenningi úr landi Straums og Þorbjarnarstaða. Sama vor plöntuðu starfsmenn Skógræktarinnar út 1000 sitkagreniplöntum í Almenningi í upplandi Þorbjarnarstaða í um 50 metra hæð yfir sjávarmáli nærri Fornaseli. Vorið 1954 var landsvæðið girt af með 6 km langri girðingu til að vernda barrtrén sem búið var að gróðursetja og til að sjá hvernig sjálfgræðslu lands í hrauninu miðaði ef það væri beitarfriðað.
Bjarni Bjarnason afsalaði Skógrækt ríkisins landinu sem hann seldi árinu áður með bréfi sem var dagsett 16. febrúar 1949. Þar segir: ,,…Þann hluta …sem liggur milli þjóðveganna til Krýsuvíkur og Keflavíkur, frá norðurbrún Nýjahrauns og að landamerkjum Straums og Óttarsstaða, með gögnum og gæðum og án allra kvaða. – Undanskilið gjöfinni er norðausturhorn landsins (neðsti hluti Nýjahrauns), frá vörðu vestarlega á Rauðamelshólum og línum dregnum frá henni, annars vegar hornrétt á Krýsuvíkurveg, en hins vegar í beina stefnu á Reykjanesbraut á hábrún Nýjahrauns, ofan Þorbjarnarstaða og Litla-Lambhaga.

Straumur

Fjárskjól við Tjörvagerði.

Sama dag seldi Bjarni landspilduna sem hann undanskildi til Hákons Bjarnasonar skógræktarstjóra ríkisins. Spildan markaðist af ,,Reykjanesbraut að vestan, að norðan af landamerkjum Hvaleyrar og áðurnefndra jarða, og að öðru leyti af línum dregnum úr vörðu á Rauðamelshólum, eins og nánar er tiltekið í afsali mínu til Skógræktar ríkisins, dagsettu í dag.”
Hákon Bjarnason gaf Landgræðslusjóði þessa landspildu til eignar 7. febrúar 1967, að undanskildu túni Þorbjarnarstaða og 100 metra spildu í allar áttir frá túngarðinum.

Árið 1955 gerði Hafnarfjarðarbær makaskiptasamning við Skógrækt ríkisins um viðbótarhluta úr landi Straums. Þann 7. apríl 1994 afsalaði Landgræðslusjóður öllu landi sínu í Straumi til Hafnarfjarðar en það var 223,6 ha að stærð. Ríkissjóður, fyrir hönd Skógræktar ríkisins, seldi Íslenska álfélaginu Straumi, austan Reykjanesbrautar, u.þ.b. 220 ha, 30. nóvember 2001. Undanskilið var í sölunni land Tjarnarhóls, Gerðis og Þorbjarnarstaða.

Brunntorfur

Skógrækt í Brunntorfum.

Vorið 1956 tóku nokkrir einstaklingar við skógræktarsvæðinu í Almenningi og var litið á þetta sem tilraunareit. Landsvæðið sem var lagt undir verkefnið spannaði 140 ha. hrauns, annarsvegar ágætlega gróið beitiland í Almenningi og hinsvegar brunahraun sem var hluti Nýjahrauns sem rann um 1151. Hafist var handa við að girða landið og hófst útplöntun um 1960. Þeir sem tóku stærsta hluta svæðisins í fóstur voru Björn Þorsteinsson sagnfræðingur, Þorbjörn Sigurgeirsson prófessor, Broddi Jóhannesson skólastjóri Kennaraskólans og Marteinn Björnsson. Fengu þeir plöntur og áburð frá Skógrækt ríkisins en önnuðust sjálfir útplöntun með fjölskyldum sínum og vinum. Á næstu árum bættust Kristinn Skæringsson frá Landgræðslu ríkisins og Arngrímur Ísberg í hópinn. Þessir menn kölluðu sig Landvinningarflokkinn sín á milli.

Þorbjarnastaðir

Þorbjarnastaðir – tilgáta ÓSÁ.

Gróskumikill barrskógur er nú á þessu 50 ha landi og víða orðinn svo þéttur að full ástæða er til að ráðast í grisjunarvinnu. Sjálfsánar furur og greni er víða að sjá og landið nánast sjalfbært að þessu leyti. Kjarrlendi í Almenningi hefur jafnframt tekið verulega við sér eftir að sauðfjárbeit var að mestu útrýmt á þessum slóðum. Víðáttumiklir birki- og víðiflákar breiða úr sér og inn á milli má finna stór birkitré. Allvíða eru einirunnar en lynggróður og mosi þekja stærsta hluta Almennings. Þetta er fyrirtaks útivistarsvæði og spennandi gönguland með miklu meiri gróðri en hægt er að ímynda sér og ótrúlega margbreytilegum hraundröngum, klettum, hæðum, hólum, flatlendi, kötlum, gjótum og jarðföllum.

Óttarsstaðasel

Óttarsstaðasel – tilgáta.

Minjar frá þeirri tíð þegar búskapur var stundaður á Hraunabýlunum finnast út um allan Almenning. Gjásel, Fornasel, Straumssel, Óttarstaðasel og Lónakotssel eru í Almenningi miðjum og allt um kring eru grjóthleðslur sem voru fyrrum stekkir, kvíar, fyrirhlaðnir fjárhellar og skjól, eða skotbyrgi, réttir, vörður og hvaðeina sem tilheyrði gamla bændasamfélaginu. Þessutan liggja þarna þvers og kruss fornar götur, alfaraleiðir og innansveitarleiðir, smalaslóðar og fjárgötur sem enn markar fyrir þó svo að gróðurinn sé í óða önn að fela forðum gengin spor.

Heimild m.a.:
http://www.hraunavinir.net/almenningur/#more-1075

Straumssel

Straumssel og nágrenni – uppdráttur ÓSÁ.

Portfolio Items