Skógfellavegur

Hér verður fjallað um heimildir um svonefndan “Suðurnesjaalmenning“. Umfjöllunin er byggð á skýrslu Óbyggðanefndar um Grindavík og Vatnsleysustrandarhrepp árið 2004.

Trölladyngja

Trölladyngja og nágrenni.

Í greinargerð Þjóðskjalasafns Íslands má lesa eftirfarandi: “Í hinni prentuðu gerð Jarðabókar Árna Magnússonar og Páls Vídalíns er aftan við umfjöllunina um Vatnsleysustrandarhrepp neðanmálsgrein sem hefst á þessum orðum: Í Jarðabókinni er seðill og á honum þetta, sem á hjer við: “Það sem Suðurnesjamenn kalla Almenníng tekur til suður við Hvassahrauns land og Trölladyngjur, gengur so norður eftir fyrir ofan lönd allra Hraunabæjanna og endast so norðan til, þar sem hann mætir Ásslandi,”” … Eftir orðanna hljóðan virðist sem Almenningurinn takmarkist af landi Hvassahrauns og Trölladyngjum og sé því ekki innan Vatnsleysustrandarhrepps.
Í greinargerð Þjóðskjalasafnsins er vakin sérstök athygli á því hvaða jarðir á Suðurnesjum hafi átt rétt til kolgerðar í „almenníngi” eða „almenningum” og vísað til orðalags í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá árinu 1703. Í Grindavíkurhreppi séu það Ísólfsskáli, Hraun, Þorkötlustaðir, Hóp, Járngerðarstaðir, Húsatóftir og Staður, þ.e. allar jarðir í hreppnum, hvort sem þær töldust eign Skálholtsstóls eða konungs, nema Krýsuvík, sem hafði eigin skóg en um það segir: “Skógur lítill þó til kolagjörðar fyrir ábúendur og líka að nokkru leyti til eldiviðar.” … Öll hlunnindi jarðarinnar, sem áður eru upptalin, mega hjáleigumenn allir nýta sjer hvör eftir efli og nauðsyn, nema reka einn; …

Fuglavíkursel

Fuglavíkursel í Miðnesheiði.

Í Hafnahreppi voru byggðar jarðir annað hvort í einkaeign eða eign Kirkjuvogskirkju. Engin þeirra átti rétt til kolagerðar. Í Rosmhvalanesshreppi voru langflestar jarðir í eigu konungs; í byggð voru: Stafnes, Hvalsnes, Bursthús, Lönd, Másbúðir, Fúlavík (nú Fuglavík), Býarsker, Fitjar, Þórustaðir, Kirkjuból, Hafurbjarnarstaðir, Kolbeinsstaðir, Lambastaðir, Miðhús, Gerðar, Skúlahús, Gauksstaðir, Skeggjastaðir, Brekka, Varir, Kothús, Ívarshús, Meiðastaðir, Gufuskálar, Litli-Hólmur, Hrúðurnes, Stóri-Hólmur og Keflavík. Þær eru allar taldar brúka eða hafa skóg í almenningum til kolagerðar, nema Bursthús, Fitjar, Lambastaðir og Skúlahús, þar sem slíkt er ekki nefnt. Hins vegar eru kolskógarréttindi ekki nefnd við þær jarðir sem voru í einkaeign og voru: Uppsalir, Sandgerði, Flankastaðir, Krókur og Rafnkelsstaðir. Útskálar, sem voru staður (beneficium), eru ekki heldur með slík réttindi.

Kolhólssel

Kolhólssel í Vatnsleysuheiði.

Konungur átti allar jarðir í Vatnsleysustrandarhreppi, nema Kálfatjörn, Bakka og Flekkuvík, sem voru eign Kálfatjarnarkirkju. Allar jarðir í hreppnum brúkuðu skóg til kolgerðar í almenningi/almenningum nema Hvassahraun, sem átti skóg: “Rifhrís til kolgjörðar á jörðin í heimalandi, og líður hún á því hrísrifi stóran ágáng af Stærri og Minni Vatnsleysum, ábúendum og hjáleigumönnum. Annars brúkar jöðin þetta hrís til að fæða kvikfjenað í heyskorti”. Raunar höfðu Stóruvogar átt skóg, sem þá var eyddur: “Skóg hefur jörðin átt til forna til kolgjörðar naumlega, nú er hann fyrir löngu so eyddur, að þar er valla rifhrís að fá, sem þjena megi so styrkur heiti til eldiviðar. Og hefur hún að frjálsu kolgjörð í almenníngum”.

Kolhóll

Stóri-Kolhóll í Vatnsleysuheiði

Jarðir þær, sem konungur átti á Suðurnesjum, höfðu áður verið í eigu Viðeyjarklausturs, sem konungur sló eign sinni á, eða Skálholtsstóls. Hafði Skálholtsbiskup verið látinn skipta á jörðum við konungsvaldið með hirðstjórabréfi 27. september 1563.

Grindavík

Grindavík – Hópsnes- og Þórkötlustaðanes sem og Suðurnesjaalmenningur fyrrum.

Eins og áður var nefnt getur Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns þess ekki, að þær fáu jarðir, sem voru í einkaeign á Suðurnesjum, ættu rétt til kolagerðar í almenningi, ekki heldur Útskálar.
Í lýsingu Grindavíkursóknar 1840-1841 telur séra Geir Bachmann Almenning vera mjög víðtækan. Hann segir í lýsingu sinni á hraunum í Grindavík: “Það er að segja um öll þau hraun, sem finnast í Grindavík, að þau eru til samans tekin angar eða afleiðingar af þeim svo kallaða Almenningi fyrir sunnan Hafnarfjörð og ofan Vatnsleysuströnd”.
Síðar segir Geir: “Þess er áður getið, að hraun þau, sem í sókn þessari eru séu afleiðingar af Almenningnum. Hann liggur, sem kunnugt er, milli fjalls og sjóar, suður alla Vatnsleysuströnd, fyrir ofan Vogana, Vogastapa og Njarðvíkur. … [Geir telur hraunin sem liggja vestur í Hafnir og suður í Grindavík til Almenningsins]”. … Þá er ennþá einn angi Almenningsins, sem skerst út úr fyrir sunnan Stóra-Skógfell, milli Svartsengis og Þorbjarnarfells að norðan, en Húsafells að sunnanverðu. Liggur sá armurinn fram í Þorkötlustaðanes.Ekki hefur fundist annar staður þar sem Almenningnum er svo lýst. Geir Bachmann var tiltölulega nýkominn til Staðarprestakalls, fékk kallið árið 1835, en hafði raunar dvalið í Keflavík frá árinu 1832.

Kolbeinshæðarskjól

Kolbeinshæðarskjól.

Í kjölfar þess að stiftamtmaðurinn á Íslandi komst að þeirri niðurstöðu að Almenningsskógarnir á Álftanesi væri ennþá í eigu danska konungsins skipaði hann svo fyrir að farin yrði skoðunarferð um svæðið til þess að kanna hvað af almenningnum væri beitarland og hvað skógland þannig að ákvarða mætti hvaða hluta hans hægt væri að friða. Áreiðin fór fram 2. júní 1848. Samkvæmt henni voru mörk skógarlandsins: “ad nedan byrjar þad nyrdst vid Kolbeinshæd, gengur svo til vesturs nidur ad Markhólum fyrir nordan Lónakotssel, hvar skógurinn endar mót sudri. Þó gengur skógartúnga þríhyrndt nidur frá Alfaraveginum. Hennar botn eda breidd er ad ofan, og gengur frá Laungubrekkum til sudurs ad Markhólum. Spordur skógarspildu þessarar endar í útnordri vid Brunnhólavördu skamt fyrir ofan Lónakot. ad nordan. gengur skógarlandid frá Kolbeinshæd til Landsudurs lángs med Kapelluhrauni og brunanum upp ad Stórhöfdastíg, þadan til sudurs í Fremstahöfda lángs med brunanum sudur ad „fjallinu eina” þadan til vesturs og útnordurs í krókum og hlikkjum alt nidur ad Markhólum. Alt þetta land, sem álítst ad vera 1 ferhyrnings míla ad stærd, vidurkenna allir þeir, sem mætt hafa, ad kallad sé med adalnafni (Generelt) Almenníngur. Landid er alt skógi vaxid, og er skógurinn ad nordann og ad ofan vída ílla högginn… Gjördarmannanna álit og meining er, ad sú nýnefnda skógarspilda upp frá Lónakoti ad alfaraveginum hljóti ad vera beitarland bædi vegna nærlægdar þess vid Lónakot og Ottarstadi, og líka hins, ad þetta skógarland er í sjálfu sér lítilfjörlegt. Þarámóti finna þeir ei ástædu til ad skipta hinu ödru hér ad framan tilgreinda skógarlandi í tvent, … Land þad alt beri ad álíta sem skóg, er frida beri….

Brennisel

Brennisel í Almenningum.

Eigendurnir af jördunum Þorbjarnastödum, Straumi, Ottarstödum og Lónakoti samt af Hvassahrauni athugudu ad selstöður þeirra lægju í því að framan tiltekna skógarlandi, og ad þar hefdi verið frá alda ödli, þótt med millibilum, haft í seli frá tedum jördum einsog þeir hefdu beitt fé sínu í þessu tilgreinda landi og yrkt þar skóg. Þeir geima ser því rett sinn í þessu tilliti um leid og þeir framleggja eitt bréf til Sýsslumannsins [í Gullbringu- og Kjósarsýslu]” … Bréfið hefst á tilvísun í tilkynningu hans til eigenda Hraunajarða um áreiðina.
Síðan segir: “þar óckur eru ofann nemdar jarder seldar undann tekníngarlaust med öllumm Herlogheitumm gögnumm og gjædumm til ytstu Landa merki, ljka Sagdar ockar kaupenda, fullkomnasta eign þadann í fra – undann fillum vid því ecke hier underskrifader menn, ad begiöra af vidkomande Sýslumanne í sínu lögsagnar ummdæmi ad Seiga ockur enn Hrauna jarda landi Sem bruna Hraun Halda þad land kallast ad ödru nafne Almenníngur alt nidur ad sjó”. …. Einnig var framlagt bréf frá prestinum í Garðaprestakalli þar sem hann minnir á að nokkrum jörðum tengdum því sé í Jarðabókinni frá 1760 eignað skógarhögg í Almenningnum.

Draughólshraun

Í Almenningum.

Stuttu eftir að áreiðargjörðin fór fram voru tveir vitnisburðir um landamerki Hraunajarða skráðir niður. Sá fyrri var saminn þann 5. júní 1848 að beiðni eigenda Hraunajarða en þeir vildu fá upplýsingar um hvað ákveðnir aðilar vissu um eignir Hraunajarða og notkun þeirra. Samkvæmt vitnunum var það land sem afmarkaðist af svokölluðu brunahrauni áður fyrr kallað Hrauna pláss eða Almenningur. Það land höfðu allar Hraunajarðir nýtt sér. Hver jörð hafði sitt svæði samkvæmt ákveðnum landamerkjum.
Seinni vitnisburðurinn var saminn degi seinna að undirlagi Guðmundar Guðmundssonar, bónda í Litla – Lambhaga, eiganda jarðarinnar Straums. Í honum greina vitni frá því hvað þeim hafi verið sagt varðandi landamerki jarðarinnar og notkun ábúenda á henni. Þessi lýsing fer hér á eftir: “Landa mörk höfumm vid heirt ad væru þesse – ad nordann vid sio – úr Briniolfs skarde í Hádeigeshæd frá Straume ur Hadeig<is>hæd í þufu á austur enda midmunda hæd fra Þorbiarnarstödumm þadann beina stebnu uppa Hafurbiarnar Holt af þúfu á Hafurbiarnar Holte í Heimsta Höfda beint upp í bruna – ad sunnann – fra bruna firer ofann raud Hóla í nordasta Hraunhol beinastebnu í þufu á eiólfs hól sem er [sem er verður helzt lesið úr þessu orði] firer ofann steinhus þadann í nordur enda gvendarbrun<n>s Hædar So í nónhól af nonhól í Skip Hól þadann í markhól firer ofann vatna skier vid sjo”.

Fjallið eina

Fjallið eina.

Þann 7. júní samdi Guðmundur Guðmundsson bréf til sýslumannsins í Gullbringu– og Kjósarsýslu. Þar kemur fram að hann hafi haft samband við stiftamtmanninn sem hafi hvatt hann til þess að sýna sýslumanninum vitnisburðina tvo þannig að hann gæti kynnt sér þá áður en hann léti skoðunargerðina frá 2. júní frá sér fara. Í bréfinu kemur einnig fram að eigendur Hraunajarða telja sig eiga landsvæði það sem er afmarkað af brunahrauninu og að þeir vilji að skóglendi þeirra á landspildunni verði friðað.
Þremur dögum eftir að Guðmundur samdi bréfið til sýslumannsins, nánar tiltekið 10. júní, bað sá síðarnefndi stiftamtmanninn um að svara því hvort að fyrirhuguð friðlýsing almenningsskóga Álftaness gæti haft áhrif á nýtingarmöguleika Hraunajarða á því landi sem eigendur þeirra teldu sig eiga þar.

Stórhöfðastígur

Stórhöfðastígur.

Þann 19. júní 1848 voru almenningsskógar Álftaness gerðir að friðlýstu svæði og öðrum en ábúendum Hraunajarða bannað nýta landið. Með yfirlýsingunni fylgdi lýsing á mörkum hins friðlýsta svæðis: “að neðan frá Kolbeinshæð alt suður að Markhólum að norðan frá Kolbeinshæð með Kapelluhrauni og brunanum að Stórhöfðastíg, þaðan til suðurs – í Fremstahöfða langs með brunanum suður að Fjallinu eina, þaðan til vesturs og útnorðurs niður að Markhólum”.

Markraki

Markraki – markavarða.

Þann 21. júní 1849 samdi umsjónarmaður almennings Álftaness greinargerð um umsjónarsvæði sitt. Í henni var m.a. lýsing á þessu svæði: “Fyrst milli Garðakirkju fjall<l>lands, ur steinhusi suður í Markagil á Marraka eður undirhlíðum þaðan á Hæðstaholt, á Dauðadölum á annan vegur Dauðadölum norður í Húsfell af Húsfelli upp á Þríhnjuka þaðan á suðurenda Blafells, á milli afrjetta Alptanes og se<l>tjarnarneshreppa. A milli Gullbríngu og Arnessyslna af Bláfjöllum vestur á Kistufell. A milli Alptaneshrepps og almennings og Krísivíkur lands af Kistufelli niður á syðra Horn á Fagradals-brún þaðan í Marrakagil, so í þúfu á fjallinu eina þaðan í Helguflöt norðaná Buðarhólum. A milli jarðanna Heimalands og afrjettar af Buðarhólum eptir Buðarhólagjá, þaðan aptur í Steinhús”. …
Í yfirlýsingum dagsettum 12. og 24. júní 1865 kemur fram að umboðsmenn Hraunajarða hafi ákveðið að banna notkun á skógi þessara jarða. Samkvæmt yfirlýsingunni frá 24. júní liggur skógurinn fyrir neðan hinn svokallaða Almenning eftir þeim landamerkjum sem voru ákveðin við áreiðargjörð árið 1848. Yfirlýsingin frá 24. júní var þinglesin tveimur dögum síðar.

Snókalönd

Snókalönd – varða.

Hinn 12. september 1874 var, að beiðni Árna bónda Hildibrandssonar í Hafnarfirði, gerð áreið á landamerki Hraunajarða og Almenningsskógana til að ákveða landamerki milli þessara staða. Áreiðarmenn urðu sammála um að: “bein stefna af kletti þeim, er liggur næst fyrir ofan Snókalönd, á Stórasteini, þaðan á Eyólfsbala og þaðan í Háholt sem liggur nálægt landamerkjum Hvassahrauns og Lónakots, [Yfirstrikun] væri sanngjarnlegust og réttust landamerki milli Almenningsskógar og Hraunjarða”. Til glöggvari auðkenningar hlóðu áreiðarmenn vörðu á Eyólfsbala, og aðra ofaná Stórastein. En fremur eru [yfirstrikun] 2 vörður í beinni stefnu milli Stórasteins og klettsins hjá Snókalöndum, er áður var getið. Þá kom og áreiðarmönnum saman um, að bezt væri að hlaða vörðu á þennan stein hjá Snókalöndum, til þess að landamerki yrðu sem glöggvust og lofaði herra Árni Hildibrandsson að sjá um að það yrði gjört.

Litla-Skógfell

Litla-Skógfell.

Þann 29. júní 1875 var áreiðargjörðin á landamerki Hraunajarða, sem farin var í september árið áður, þinglesin á manntalsþingi Álftanesshrepps.
Svo virðist sem Óbyggðanefndinni hafi eitthvað skolast af leið er hún fjallaði um “Suðurnesjaalmenning. Tilgangurinn virtist vera að fjalla um svæðið ofan Grindavíkur og vestan Vatnsleysustrandar, þ.á.m. land Njarðvíkur og svæðið ofan Hafna. Það virðist hafa mistekist, ef marka á framangreinda lýsingu. Nokkur örnefni um skóg eru á því svæði, s.s. Litla- og Stóra-Skógfell og Skóghæð. Aftur á móti eru framkomnar upplýsingar ávallt vel þegnar, þótt þær fjalli ekki beint um upphaflega viðfangsefnið.

Heimild:
Úrskurður Óbyggðanefndar 2004 – Grindavík og Vatnsleysuströnd.

Straumssel

Í Straumsseli – tóftum húss skógarvarðarins, sem ætlað var að gæta að Almenningsskógum Hraunajarðanna í Garðalandi.