Reykjanesfólkvangur – upphaf
Í Bæjarbótinni, bæjarblaði Grindvíkinga, árið 1982 er m.a.a fjallað um „Reykjanesfólkvang„:
„Með vaxandi þéttbýli í surðvesturhorni landsins hefur þörf fyrir útivistarsvæði í nágrenni þess farið stöðugt vaxandi. Þessari þörf hefur verið mætt með friðlýsingu svæða og stofnun fólkvanga, þar sem fólk getur notið hvíldar og afþreyingar úti í óspilltri náttúrunni.
Eitt þessara svæða er Reykjanesfólkvangur. Hann var formlega stofnaður 1. des. 1975 með aðild Reykjavíkur, Hafnarfjarðar, Kópavogs, Garðabæjar, Seltjarnarness, Keflavíkur, Narðvíkur, Grindavíkur og Selvogs. Þetta er mikið landssvæði um 30.000 ha. og nær frá Krýsuvíkurbjargi að Heiðmörk, og er að mestum hluta í Grindavíkurhreppi.
Það var þó ekki fyrr en 1979 sem fólksvanginum var sett stjórn.
Fjárframlög til framkvæmda fara eftir íbúatölu ofangreindra sveitarfélaga og hefur því Reykjavík átt þar mestan hlut og í raun ráðið ferðinni. Ýmislegt hefur verið gert þessi þrjú ár til að opna svæðið almenningi og var byrjað á að fullgera veginn gegnum Móhálsdalinn, þannig að nú er vel bílfært frá Krýsuvíkurvegi um Vatnsskarð suður á Isólfsskálaveg. Einnig er unnið að úttekt á gróðurfari og gerð jarðfræði-, landslags-, og mannvistarkorta. Einnig er í undirbúningi söfnun örnefna, Verk þessi eru unnin af háskólanemum sem hluti af námi þeirra, og hefur þjóðhátíðarsjóður styrkt þetta starf ásamt fleiri aðilum.
Þá hefur verið gefinn út kynningarbæklingur og er í undirbúningi merking þeirra gönguleiða sem þar eru kynntar. Hafa nokkur merki verið sett upp nú þegar. Þá verður nú í sumar unnið að hreinsun og skipulagningu göngustíga á hverasvæðinu við Seltún, í samvinnu við Hafnarfjarðarbæ. Fleira er á dagskrá en framkvæmdahraði ræðst að sjálfsögðu af fjárframlögum hverju sinni.
Eins og að líkum lætur er margt að sjá og skoða á svo stóru landssvæði. Það virðist hafa verið trú manna að á Reykjanesskaga væri ekkert að sjá nema mosaþembur og auðnir. En því fer fjarri.
Í fólkvanginum er mjög fjölbreytt landslag, má þar sjá fjallavötn og formfagra gígi, litskrúðug hverasvæði, hella, lyngbrekkur, skógarkjarr og fuglabjarg.
Landmótun er þarna enn svo ný, að rekja má jarðfræðisöguna frá gíg til gígs um hraunbreiður og gróðurlendi, þótt menn séu ef til vill misskyggnir á slíkt.
Mannvistarleifar finnast einnig víða, bæjar og seljarústir sem bera glöggt vitni um mannlíf á þessum slóðum á liðnum öldum. Fróðlegt er að ganga um Selatanga og bera saman aðbúnað vermanna fyrr og nú.
Of langt mál yrði að telja upp alla þá forvitnilegu staði sem á Reykjanesfólkvangi er að finna. Allir sem þangað leggja leið sína ættu að geta fundirð eitthvað við sitt hæfi. Það þarf ekki að fara langt. Eysteinn Jónsson sá mikli náttúruunnandi sagði eitt sinn er hann var þarna á gangi að ef þessi staður væri fyrir norðan væri þarna krökt af sunnlendingum.
Vegfarandi góður, þú sem leggur leið þína um fólkvanginn. Gakktu um landið með virðingu fyrir öllu sem þar lifír, bæði dýralífi og gróðri. Gættu þess að sporgöngumenn þínir finni landið jafn ósnortið og þú. Farðu varlega um bjargbrúnir og hverasvæði og mundu að oft hylur þykkur mosi djúpar hraungjótur.
Góða ferð.“ – H.G.
Heimild:
-Bæjarbót, 2. tbl. 01.05.1982, Reykjanesfólkvangur, bls. 9.