Bjó Molda-Gnúpur að Hópi? Eða kannski einhver sona hans?
Í Landnámu (IV.hluti) segir að “Maður hét Hrólfur höggvandi; hann bjó á Norðmæri, þar sem hét Moldatún. Hans synir voru þeir Vémundur og Molda-Gnúpur; þeir voru vígamenn miklir og járnsmiðir …. Gnúpur fór til Íslands fyrir víga sakir þeirra bræðra og nam land milli Kúðafljóts og Eyjarár, Álftaver allt; þar var þá vatn mikið og álftveiðar á. Molda-Gnúpur seldi mörgum mönnum af landnámi sínu, og gerðist þar fjölbyggt, áður en jarðeldur rann þar ofan, en þá flýðu þeir vestur til Höfðabrekku og gerðu þar tjaldbúðir, er heitir á Tjaldavelli. En Vémundur, son Sigmundar kleykis, leyfði þeim eigi þar vist. Þá fóru þeir í Hrossagarð og gerðu þar skála og sátu þar um veturinn, og gerðist þar ófriður með þeim og vígafar. En um vorið eftir fóru þeir Molda-Gnúpur vestur í Grindavík og staðfestist þar; þeir höfðu fátt kvikfjár. Þeir voru þá fulltíða synir Molda-Gnúps, Björn og Gnúpur, Þorsteinn hrungnir og Þórður leggjaldi.”
Hér að framan er einungis sagt Grindavík en ekki nákvæmlega hvar í Grindavík. í önefnalýsingu um Hóp í Grindavík sem Ari Gíslason skráði segir m.a. um jörðina Hóp, sem hefur um langt skeið verið miðsvæðis og ein af lykiljörðum byggðalagsins: “Hóp í Grindavík er næsta jörð vestan við Þorkötlustaðahverfi. Bærinn stendur niður við sjó, við Hópið, sem hann dregur nafn af. Sagt er, að hann hafi upphaflega verið nefndur Hof, og er hér gömul goðatóft til. Sagt er, að Hofsnafnið finnist og í gömlum heimildum. Ekki hef eg kannað það. Þó hef eg flett upp einum slíkum stað, en þar er bærinn nefndur Hóp. Þjóðvegurinn liggur rétt ofan við túnið. Landið er því sneið af Þorkötlustaðanesinu og svo spildan samhliða landi Þorkötlustaða norður til Skógfells. Mikið af landinu er eldbrunnið, en gróið upp aftur á allstórum svæðum. Lón það, sem bærinn stendur upp frá og dregur nafn af, heitir Hóp…
Austur af gömlu traðartóftinni neðan bæjar er Goðatóft, gamalt goðahús friðlýst, sem má ekki róta. Vestan við túnið á Hópi er Eystri-Vikradalur. Vestan hans er stór hóll, sem heitir Miðaftanshóll. Hann er eyktamark frá gamla bænum.
FERLIR flaug nýlega yfir Hóp með Ólafi Ólafssyni, bæjarstjóra. Tilefnið var m.a. að ljósmynda gömlu bæjartóftirnar og næsta nágrenni. Útkoman var ótrúleg; á túninu umhverfis gamla bæinn voru jarðlægar tóftir og garðar svo til við hvert augnmál. Garðarnir eru greinilega misgamlir og hafa flestir verið sléttaðir út. Ofan við gamla bæjarhólinn, norðvestan fjárhúsanna má greina 5 tóftir, auk matjurtargarða. Heimtröðin sést vel vestan við hólinn og suðvestan við Goðatóftina fyrrnefndu. Jarðlægur vörslugarður hefur verið í boga ofan við gamla bæinn, en hann síðan verið færður út og stækkaður og auk þess verið hlaðinn garður til norðurs. Innan gamla garðsins og ofan gamla bæjarhólsins er forvitnileg jarðlæg rúst með görðum til beggja átta er teygja sig að gamla garðinum. Við norðvesturhornið hefur verið hlið. Nokkru vestar í túninu eru tóftir nýrri útihúsa.
Forvitnilegasta rústin er þó sú minnst sýnilega í túninu. Hún virðist vera leifar af fornum skála er snýr til SV og NA. Stærðin á mannvirkinu er svipuð skála þeim er sjá má í Húshólma og lögunin er áþekk.
Aðrar minjar eru þekkjanlegar á loftmyndinni, en verða ekki raktar hér. Hins vegar er hér um áhugaverðar minjar að ræða, sérstaklega með hliðsjón af framangreindri lýsingu Landnámu.
Heimildir m.a.:
-Landnámabók – IV. hluti.
-Örnefnalýsing AG fyrir Hóp – ÖÍ.