Nú hafa sögu- og minjaskiltin í Grindavík verið lagfærð. Skiltin eru orðin sjö talsins; í Þórkötlustaðahverfi, á Þórkötlustaðanesi, við Hóp, í Járngerðarstaðahverfi, á Gerðarvöllum, í Staðarhverfi og við Hraun.
Fyrsta sögu- og minjaskiltið var sett upp í Járngerðar-staðahverfi fyrir þremur árum. Kortið á því, og næstu skiltum þar á eftir, var prentað á hlífðarlausan pappír og sett undir plasthlíf. Þegar raki komst að pappírnum vildi hann smám saman bæði bólgna og upplitast. Núverandi kort eru varin álfilmu svo þau ættu að verja sig betur og endast þar af leiðandi lengur. Nýju kortin eru auk þess skýrari en þau gömlu.
Í kjölfar afhjúpunar skiltisins við Hraun var farið í þá vinnu að gefa út veglegan bækling með öllum kortunum, textum og fjölda ljósmynda af sögu- og minjastöðum í Grindavík. Vonast er til að Ferðamálafélag Grindavíkur komi að því verki líkt og það gerði svo myndarlega við útgáfu bæklinga um Selatanga og Húshólma.
Líklegt má telja að kortabæklingurinn verði vinsæll, bæði meðal heimafólks og ekki síður gesta þess. Í raun má segja að hér verði um einstakt verk að ræða því ekkert annað sveitarfélag á landinu getur státað að því að hafa látið teikna upp og staðsetja allar sýnilegar (og jafnvel horfnar) minjar og örnefni í bænum og gera gögnin aðgengileg fyrir áhugafólk um efnið. Kennarar og nemendur í skólum bæjarins munu og geta notað gögnin til að fræðast betur um bæinn sinn, sögu hans og þróun allt frá upphafi byggðar.
Kortin er allnákvæm. Upplýsingar- og staðsetningar eru unnar í nánu samráði við aldna Grindvíkina er gerst þekkja til staðháttu. Sem dæmi má nefna að í fornleifaskráningu fyrir Staðarhverfi er getið um 8 býli í hverfinu, en á kortinu er getið um 28 slík, enda má sjá leifar þeirra enn ef grannt er skoðað. Nú við endurnýjun skiltanna hefur 29 bærinn (sem verið hefur nafnlaus á kortinu) skilað sér. Hann mun hafa heitið “Ölfus”.