Krýsuvíkurleið

Gengið var frá Skökugili um Siglubergsháls, eftir Krýsuvíkurleiðinni þar sem langar birgðarlestirnar fullhlaðnar þurrkfiski liðuðust um áleiðis til Skálholts forðum, gömlu gönguleiðinni austur til Krýsuvíkur, framhjá Drykkjarsteini og Hlínarvegi fylgt að Méltunnuklifi, haldið yfir Grákvíguhraun, yfir Núpshlíð og um Tófubruna niður af Lathólum og síðan var hinum forna Ögmundarstíg fylgt austur yfir Ögmundarhraun. Staðnæmst var við dys Ögmundar, þess er þjóðsagan segir að hafi rutt brautina í gegnum hraunið forðum daga.

Skálavegur

Gamli vegurinn að Skála um Siglubergsháls – nú horfinn vegna framkvæmda.

Nýr Suðurstrandarvegur mun fara yfir hina fallegu leið á Siglubergshálsi svo hver var að verða síðastur til að berja hana augum.
Að sögn Jóns Guðmundssonar frá Ísólfsskála var jafnan farið upp á Siglubergsháls um sneiðing utan í Skökugili. Nafnið er dregið af því að þar féll af hesti smjörskaka, en skaka hét smérstykkið, sem pressað hafði verið í strokknum. Nafnið er til komið líkt og Méltunnuklif nokkru austar, en þar munu menn hafa misst méltunnu af einum hestanna á leið sinni um klifið. Það var þá mun mjórra en nú er.
Jón sagði að elsta gatan um hálsinn hafi verið göngugatan er liggur upp með vestanverðu Festisfjalli. Guðmundur á Skála, faðir Jóns, og Bergur bróðir hans löguðu veginn að hluta árið 1930. Þá gerðu þeir götuna akfæra upp hálsinn. Sá hluti vegarins sést vel á honum vestanverðum þar sem hann liggur á ská niður brattann. Þessi hluti götunnar fer undir Suðurstrandarveginn.

Siglubergsháls

Vegur um Siglubergsháls.

Af Siglubergshálsi er fegurst útsýni til suðvesturs yfir fegurstu byggð á gjörvöllu landinu. Hún er og hefur verið fámenn, en með afbrigðum góðmenn. Fólkið þar hefur skilið tilgang lífsins betur en flest annað fólk, en borist lítið á, enda hreykir það fólk, sem veit og skilur, sér jafnan ekki hátt yfir meðvituð takmörk.

Gamla gatan frá Grindavík til Krýsuvíkur lá í gegnum Móklettana, en vegur þeirra Guðmundar og Bergs, sem sjá má ofan við Móklettana, lá áfram niður með og norður fyrir þá, þar sem nýi vegurinn mun liggja. Í austanverða Móklettana eru klöppuð landamerki Hrauns og Ísólfsskála (V 1890).

Drykkjarsteinn

Drykkjarsteinn í Drykkjarsteinsdal.

Gamla gatan liggur undir núverandi vegarstæði austan Mókletta. Hún liðaðist niður með norðanverðu Festisfjalli og áfram milli Lyngfells og Litlahálss. Utan í honum eru klöppuð fangamörk fyrrum vegfarenda í móbergið. Götuna áleiðis niður að Skála má sjá rétt ofan við nýja veginn, vestan og utan í Lyngfellinu. Jón sagði að yfirleitt hafi verið reynt að sneiða hjá bjallanum ofan við Skála vegna þess hve brattur hann var. Sem dæmi mætti nefna að þegar Jóhannes Reykdal sendi vörubíl fullhlaðinn timbri í íbúðarhúsið á Skála hafi gengið þokkalega að koma honum niður brekkuna, sem þá var skammt vestan við núverandi vegarstæði, en þegar aka átti bílnum upp aftur hafi ekkert gengið. Varð að sækja 13 menn og reipi til Grindavíkur með til að draga hann upp brekkuna svo hægt væri að koma honum til baka.

Krýsuvíkurvegur

Gamli-Krýsuvíkurvegur: Skála-Mælifell fjær.

Gömlu götunni til Krýsuvíkur var hins vegar fylgt frá Litlahálsi yfir Litla-Borgarhraun og áleiðis í Drykkjarsteinsdal. Gatan sést vel í gegnum hraunið. Fjárborgin í Borgarhrauni er skammt sunnan við götuna. Þar á hæð var hlaðið lítið ferkantað mannvirki.
Staðnæmst var við Drykkjarsteininn. Símon Dalaskáld orti um hann vísu og þjóðsaga er tengd steininum (sjá Drykkjarsteinn – saga – undir Fróðleikur).

Drykkjarsteinn með þorstans þraut
þráfalt gleður rekka.
Sá hefur mörgum geiragaut
gefið vatn að drekka.

Sagnir hafa og verið um að steinninn hafi verið vígður af Guðmundi góða Hólabiskupi með þeim orðum að vatnið í steininum ætti að vera meinabót. Vatn var nú í báðum skálum hans, en sú sögn hefur fylgt steininum að vatnið í þeim ætti aldrei að þverra.

Krýsuvíkurvegur

Gamli_Krýsvíkurvegurinn austan Skála-Mælifells.

Gengið var framhjá Stóra-Leirdal og Lyngbrekkum, inn á Hlínarveginn, sem Jón ásamt fjórum öðrum, þ.á.m. Indriða föðurbróðir hans, lögðu gegn kaupi fyrir Hlín Johnson í Herdísarvík árið 1932. Var lagður vagnfær vegur frá Skála ofan Slögu alla leið í Krýsuvík, aðallega fyrir fyrirhugaða heyflutninga þaðan til Grindavíkur. Hlínarvegurinn er beinn og mjög greinilegur á sléttum melnum. Fyrirhuguð efnistaka í Einihlíðum ofan við Lyngbrekkur vegna Suðurstrandarvegarins stefna þessum vegarkafla í hættu. Jón man að sérhver vegavinnumanna fékk kr. 100 greitt fyrir verkið úr hendi Hlínar. Vegurinn sést vel til hliðar við nýrri veg upp með Lyngbrekkum og síðan áfram áleiðis að Méltunnuklifi.

Méltunnuklif

Gamli-Krýsuvíkurvegurinn um Méltunnuklif.

Þegar komið var að Méltunnuklifi mátti vel sjá hvernig vegavinnumenn höfðu kroppað drjúgt úr berginu og sprengt sér leið fram hjá stóru bjargi í klifinu ofan við bjargbrúnina, mesta farartálmanum. Eftir það var leiðin nokkuð greið í gegnum Grákvíguhraun og Leggjabrjótshraun, upp og yfir Núpshlíð þar sem gatan er höggvin í gegnum móbergskletta efst á hálsinum, áfram niður á Djúpavatnsveg og síðan var gamla veginum fylgt yfir Tófubruna að Latsfjalli. Á Núpshlíðarhálsi eru nokkrir eldgígar. Undir einum þeirra er gat og sést þar niður í myndarlega hvelfingu undir. Stiga þarf til að komast niður. Forvitnilegt væri að skoða rýmið þarna niðri við tækifæri. Hellirinn hefur fengið nafnið S. Þá vantar bara Á-ið, en Óið er norðvestan Grindavíkur.

Krýsuvíkurvegur

Gamli-Krýsuvíkurvegur um Ögmundarhraun.

Af hálsinum var ágætt útsýni yfir Ögmundarhraun. Nýi vegurinn er eftir gamla sneiðingnum niður hlíðina að austanverðu. Ögmundarstígnum gamla var síðan fylgt yfir Ögmundarhraun. Jón sagði að þeir hefðu lagt veginn 1932, ofan í gömlu göngu- og hestagötuna í gegnum hraunið. Þá hafi klöppin verið djúpt mörkuð eftir hófa og fætur liðinna alda. Sums staðar hafi komin göt í bergið og holrúm verið undir. Það hafi verið fyllt upp og gatan breikkuð. Ef hreinsað væri upp úr götunni kæmi sú gamla eflaust aftur í ljós. Nú sæist hins vegar ekkert eftir af gömlu götunni nema stuttur spotti austast í hrauninu, þar sem hún liggur framhjá Ögmundardys.

Ögmundardys

Ögmundardys austast við Ögmundarstíg.

Staðnæmst var við dysina austur undir Krýsuvíkur-Mælifelli.
Best varðveittu kaflarnir á leiðinni frá Grindavík áleiðis til Krýsuvíkur eru á Siglubergshálsi, vestan við Méltunnuklífið og í gegnum Ögmundarhraunið vestan við Krýsuvíkur-Mælifell. Á þessum stöðum hefur þó verið farið yfir elstu götuna með nýrri vegagerð, nema á tveimur stöðum, þ.e. austast í Ögmundarhrauni og vestan við Tófubruna. Annars staðar hefur verið lagðir enn nýrri vegir yfir gömlu götuna eða þeir skemmdir með jeppaakstri. Þeir kaflar, sem heillegastir eru, eru vel þess virði að gefa góðan gaum.
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 33 mín.

Krysuvikurvegur-21

Gamli Krýsuvíkurvegurinn austan Skála-Mælifells.