Eldvörp

Gengið var um norðurhluta Eldvarpa. Þessi hluti er allstórbrotinn, fallegir gígar og hyldjúpir svelgir. Teknir voru GPS-punktar á fjórum þeirra, en ekki reyndist unnt að komast niður í tvo til viðbótar vegna þess hver djúpir þeir voru. Í einum þeirra (sjá myndina) er falleg rás, en band þarf til að komast niður.

Eldvörp

Í Eldvörpum.

Sá fyrsti var 15 metra langur. Á honum voru þrjú op og reyndist hægt að komast niður í hann um nyrsta opið. Annar var um 15 metrar, bogadreginn. Þriðji var litskrúðug hola niður á við er endaði í sal. Litskrúðugir kleprar voru í lofti. Fjórði var með inngang í fallegu gígopi.

Eldvörp

Eldvörp.

Svæðið er eins og ostur. Ekki er að sjá að margir hafi stigið þar niður fæti. Þunnt hraunið brotnar auðveldlega undan fótum og hætta er á að stíga niður úr mosaþakinni skelinni. Landið er stórbrotið og býður upp á óvænta sýn við hvern gíg, hæð eða bugðu.
Í einum gíganna er víð rás. Hún lokaðist að hluta, en með lagni var hægt að komast úr henni inn í ókleifan gíg. Rásin var nefnd Tvígígahellir.

Eldvörp

Í Tvígígahelli.

Gengið var yfir slétt mosahraun, eftir gamalli götu, sem farið er að gróa yfir og inn í stóra og breiða hrauntröð austan við gíg milli Lágafells og Þórðarfells. Tröðin virðist enda í krika eftir 90° beygju, en mjó tröð er þaðan inn í tröð nær gígnum, hærri og fallegri. Í tröðinni er m.a. stórt fallegt skjól. Gengið var um gíginn og upp á hann að norðanverðu. Milli hans og Þórðarfells var op, sem leitað var að eftir lýsingu BH. Gekk vel að finna það. Innan þess reyndist vera um 90 metra langur hellir, um 10-15 metra breiður á köflum, en ganga varð hálfboginn um hann að mestu. Sandur var í botni.
Á bakaleiðinni var gengið inn á gamla götu austan Árnastígs og kom hún inn á hann norðan Eldvarpa. Við gatnamótin er varða.
Árnastígurinn var síðan genginn að upphafsstað.
Í Örnefnaskrám Grindavíkur er gefin eftirfarandi skýring á örnefninu Árnastígur: ” Rétt fyrir suðaustan Klifgjá er vegurinn ruddur og greiðfær. Heitir sá spölur Árnastígur. Árni nokkur, sem fyrrum bjó í Kvíadal, litlu koti í Staðartúni, mun hafa rutt þennan stíg.”
Veður var frábært – sól, lygnt og hiti. Gangan tók 4 klst og 11 mínútur.

Eldvörp

Í Tvígígahelli.