Hafmey

“Það var nálægt 1705 er Sigurður prestur Eyjólfsson hélt Stað í Grindavík að skip það er prestur átti lét úr vörum til fiskifangs og renndi færum á svokölluðu Þórkötlumiði. Ormur hét stjórnbitamaður er réði næst formanni; hann var forsöngvari að Stað. Þeir draga þegar nægan fisk. En þá sjá þeir allt í einu hvar skýst upp úr sjónum kvenmaður með nýgreitt og slegið hár. Logn var og sléttur sjór sem thorkotlustadir-225rjómatrog. Sjá þeir að það er hafmey. Hún sest þegar á marflötinn og horfir að skipi.
“Sjáið piltar! Hún er að hagræða sér til söngs,” segir formaður, “en illt er að fara strax frá góðum fiski í land. Hvað segið þið, piltar?”
Andþófsmaður svarar: “Öllu er óhætt meðan hún þegir.”
Drógu menn nú af kappi fiskinn. En þá hóf markvendi þetta sönginn og reri sér yndislega en söngur hennar hreif skipverja með því seiðandi töframagni að þeir urðu allir að hætta að draga. Doðnaði þegar yfir flestum smám saman uns allir voru fallnir í svefndvala nema Ormur forsöngvari.

hafmey-1

Hann tók það til ráðs að syngja líka og byrjaði á einu laginu eftir annað og söng hafmeyjan hvert lag til enda með honum. Þetta gekk lengi dags. Fór Ormi þá ekki að lítast á gamanið því nú var hann loks að þrotum kominn með lögin sem hann kunni. En þá hugkvæmdist honum að syngja Pater noster. Byrjaði hann þá á því. Þá þagnaði hafmeyjan loksins, brá upp annarri hendinni og seig loðbeint niður í sjóinn.
Ormur kallaði þá til skipverja og bað þá heim róa, sagði að nú væri hafmeyjan fagra loksins unnin og sigin í sæ. Höfðu þeir þá verið búnir að sofa lengi og allir þeir sem þá voru á sjó voru komnir í land fyrir löngu og búnir að setja skip sín í naust. Skipverjar tóku þá geystan róður í land. Þökkuðu þeir Ormi lífgjöf sína og lofuðu hann fyrir þrótt hans, kunnáttu og dirfsku. Varð hann frægur fyrir þennan söng. Klerkur hélt og til hans þakkarræðu fyrir mannbjörg þessa.
Ári síðar geisaði Stórabóla hér yfir land og felldi mikinn mannfjölda til moldar. Var talið víst að hafmeyjan hefði boðað hana fyrir því marbúar birtast helst á undan stórtíðindum. Þetta sama skip fórst í sjóhrakningi með allri áhöfn nokkrum árum síðar. Fórst Ormur á því og þótti að honum mannskaði mikill.”

Heimild:
-Sigfús IV 14 – huldufólks 136.

Staðarhverfi

Staðarhverfi.