Seltúnssel

Gengið var um Seltún í Krýsuvík og leitað Seltúnsselja, en gamlar heimildir kveða á um sel á túninu (sjá meira HÉR).
JóiSeltún er í Hveradal, en þar hafa orðið talsverðar (reyndar allmiklar) breytingar á landi síðan fyrrum. Síðast sprakk ein borholan í dalnum með miklum látum, en áður hafði hið ævintýralega brennisteinsnám farið þar fram með eftirminnilegum tilfæringum. Einu leifar þess ævintýris er hraukur af brennisteini sunnan Seltúnsgils, en þar var brennisteininum mokað upp eftir að hafa verið þveginn í þremur þróm og síðan fluttur á hestum til Hafnarfjarðar, óunninn. Það var enskt “milljónafélag”, sem að því stóð (sjá meira HÉR).
Þá var gengið upp Ketilsstíg, yfir Sveifluháls, framhjá Arnarvatni og Arnarnípu og niður Ketilinn í Móhálsadal, með hálsinum til suðurs og síðan upp á hverasvæðið er lækurinn um Bleikinsdal niður í Ögmundarhraun rennur úr. Þaðan var gengið áfram upp að Arnarvatni og til baka niður í Hveradal um Ketilsstíg. Um var að ræða létta göngu, 2-3 klst. Falleg gömul þjóðleið að hluta, sem æ fleiri fylgja nú á dögum.
Annars er frábært útsýni norður Sveifluhálsdalina þar sem staðið er norðan Arnarvatns. Þaðan sést vel hvernig hálsinn greinist um gígaröðina sem hann myndaði á síðasta jökulskeiði.
Frábært veður – sól og hiti.

Seltún

Seltún – minjar (ÓSÁ).