Grindavík

Gengið var eftir Staðarbergi frá Mölvík yfir að Staðarmölum. Fremst er Brimketillinn – eða brimkatlarnir því þeir eru fleiri en einn. Á leiðinni, við Bergsenda að austanverðu, er Ræningjasker það er “Tyrkir” komu að þá er þeir rændu Grindavík 1627 ef marka má munnmæli og þar var eitt hörmulegasta sjóslys við Grindavík þann 4. apríl 1924, í strandi Önnu frá Tofte. Þá fórust fimmtán eða sextán menn, flestir ungir menn úr sömu fjölskyldum frá litlu þorpi í Færeyjum. Þessi færeyski kútter kom upp við Bergsendasker, sem er við austurenda Staðarbergs. Þeir voru síðan jarðsettir í kirkjugarðinum í Reykjavík.

Brimketill

Staðarbergið er einn af fjölmörgum úivistarmöguleikum Grindvíkinga – og gesti þeirra. Bergið er bæði fjölbreytt og tiltölulega auðvelt göngu ef rétt er farið. Á leiðinni voru skoðaðar, auk hinna ýmsu bergumbreytinga, nokkrar hlaðnar refagildrur, sem enn eru óhreyfðar í Bergshrauni. Aðaltilgangurinn var þó að skoða slysstaðinn fyrrnefnda og rifja uppp atburðinn.

Þriðjudaginn 9. september var níundi fundur ársins 2008 haldinn í framkvæmdastjórn Kirkjugarða Reykjavíkurprófastsdæma. Rekstrarstjóri sagði frá framtaki færeysks manns, Jakob Michael Mikkelsen
84 ára, sem hefur látið útbúa minningarskjöld úr steini með nöfnum 17 samlanda sinna sem fórust á vélbátnum „Önnu frá Tofte” við Íslandsstrendur í apríl árið 1924, þeirra á meðal faðir Jakobs. Skjöldurinn verður afhjúpaður í Hólavallagarði næsta laugardag, þann 13. september.

Á Staðarbergi

Í 12. árgangi Bautasteins var í greininni „Minningarmörk atburða“ eftir Björn Th. Björnsson fjallað um
örlög áhafnarinnar á Önnu frá Tofte sem fórst við Grindavík fyrir 85 árum síðan. Jarðarför skipverjanna fór fram þann 11. apríl 1924 og var þar mikið fjölmenni sem sýndi þá virðingu og hlýhug sem ríkti í garð frænda okkar Færeyinga. Í september á síðasta ári var afhjúpuð minningarplata um áhöfnina og á henni má sjá hversu stórt skarð var höggvið í lítið samfélag á sínum tíma sem minnir okkur á hversu margar fórnir voru færðar á fjarlægum miðum.
Jakob Michael Mikkelsen, sonur eins áhafnarmannanna, hefur sýnt einstaka ræktarsemi og
virðingu í minningu föður síns og skipsfélaga hans og beitti hann sér fyrir gerð minningarplötunnar en
Kirkjugarðar Reykjavíkur gáfu vinnu og efni við uppsetninguna í virðingu við þá sem létust í þessu
hryggilega sjóslysi.

Staðarberg

Í bókinni Minningarmörk í Hólavallagarði, eftir Björn Th. Björnsson, segir m.a. um þennan atburð: “Þess eru dæmi, m.a. í Hólavallagarði, að legsteinn sé ekki aðeins minningarmark um liðinn einstakling, heldur um atburð, oftast vofveiflegan, þar sem margir menn eiga í hlut og hvíla saman undir einu og sama legmarki. Vestast í Hólavallagarði, nálægt Ljósvallagötu, má sjá mikið bjarg, óhöggvið að öðru en letri, sem minnir á raunarlegan stóratburð á þriðja áratugi liðinnar aldar. Í bókinni Minningarmörk í Hólavallagarði segir svo frá: „Þegar menn úr Staðarhverfi vestan Grindavíkur fylgdu fé í fjöru morguninn þess 6. apríl 1924, komu þeir auga á torkennilegt brak; síðan sáu þeir lík fljóta upp og óðu út í að draga það undan sjó. RefagildraSíðdegis fóru fleiri menn ofan á Staðarmalir og gaf þá enn að líta: fjögur lík til viðbótar. Á bátsþóftunum og árunum stóð nafnið „Anna Tofte“, eftir því sem bezt varð lesið, en menn voru þó engu nær. Sumir minntust þess nú, að ljós hefðu sézt ískyggilega
nálægt landi í útsynningnum nóttina áður. Þegar hringt var til Reykjavíkur kom brátt það svar, að hér myndi sennilegast vera um að ræða færeyska fiskikútterinn Önnu frá Tofte á Austurey, sem verið hefði á leið til Reykjavíkur utan af Selvogsbanka. Væri þetta 82 smálesta skip, sem áður var í eigu Péturs J. Thorsteinssonar og hét þá Sléttanes, og að færeyskri venju um margmennið á slíkum skútum hefðu líklega verið allt að 25 mönnum um borð.
Refagildra á StaðarbergiE
nn rak lík, og enn brak. Og enn fréttist það frá Reykjavík, að önnur færeysk skúta, Marsdal, hefði haft samflot með Önnu frá Tofte utan af Banka og stefnt fyrir Reykjanes, en skipstjórinn á Marsdal hefði um kvöldið séð af ljósunum að Anna sigldi allt of austarlega, undan veðrinu, og óttazt að hún næði ekki fyrir nesið. Engin fjarskiptatæki voru þá á slíkum skipum; hver varð að sjá fyrir sér. Enn fengust þær upplýsingar frá útgerðinni í Færeyjum, að 17 menn hefðu verið á Önnu, en til þessa hafði aðeins 7 líkum verið bjargað undan sjó.
Lík færeysku sjómannanna voru flutt heim á Stað og þar búizt til að jarða þau, svo sem fyrrum hafði verið siður um sjórekna menn. En þá komu þau orð frá sendiherra Dana í Reykjavík, að flytja ætti líkin þangað og ef til vill áfram til Færeyja. Voru nú sendir af stað bílar þessa torfæru leið að sækja líkin. Var jarðarförin ákveðin föstudaginn 11. apríl og skyldi jarðað hér heima.

Færeyskar

Var allnokkuð skrifað í blöðin um þetta hryggilega slys og skorað á bæjarbúa að fjölmenna við jarðarförina til þess að votta færeysku þjóðinni virðingu og samúð. „Hér eru lagðir í íslenzkan kirkjugarð erlendir menn, en þó frændur vorir, synir smáþjóðar, eins og við erum, norrænir menn, sprottnir af sama stofni og við: hrjóstrugt land, bólgið brim við sand, óblíða náttúru og örðugleika smáþjóðar … Seytján hrausta, vinnandi menn hefir litla færeyska fiskimannaþjóðin misst.“
Daginn sem jarðarförin átti að fara fram var símað frá Grindavík að áttunda líkið hefði rekið, og var bifreið þegar send eftir því. Þegar suðureftir kom, hafði það níunda enn bæzt við, og fylgdust þau öll að í eina og sömu gröf. „Jarðarför þessara manna hefir verið einhver sú hátíðlegasta og fjölmennasta sem hér hefir farið fram í langa tíð. Var kirkjan troðfull út í dyr, og líkfylgd suður í garðinn afar fjölmenn“, segir Morgunblaðið daginn eftir, þann 12. apríl.
Séra Bjarni Jónsson flutti ræðu í kirkjunni og mælti á danska tungu, og þegar sunginn var sálmurinn „Dejlig er Jorden“ , stóðu allir upp. Kisturnar níu voru bornar alla leið suður í garðinn, og gengu undir þeim meðlimir verzlunarráðsins, útgerðarmenn og Færeyingar sem búsettir voru í bænum. Í garð-inum mælti færeyski trúboðinn Alfred Petersen yfir gröfinni, en hann fylgdi færeysku skútunum meðan þær voru hér að veiðum.
„Hafa aldrei verið jarðaðir svo margir menn síðan 1906, að drukknunin mikla varð við Viðey“, segir í blaðinu að lokum.
Færeyingar eru einstakir að því að búa að sínum látnu af mikilli virðingu. Hér brást það heldur ekki. Ekki leið á löngu þar til fluttur var í garðinn mikill klettur með áhöggnu letri og lagður á hlæður yfir gröfinni, í reit D 9 – 8 . Af áletruninni má sjá, að enn hafa fundizt fimm af áhöfn Önnu af Tofte og verið jarðaðir þar nokkru síðar, því framan á steininum stendur:
TIL MINDE OM SYTTEN FÆRØISKE FISKERE
DER FORLISTE MED KUTTER ANNA AF TOFTE
VED GRINDAVÍK DEN 5. APRIL 1924
FJORTEN HVILE HER
Ofan á steininum getur að lesa þessa hendingar:
HVIL I FRED OG GUD I VOLD
VÆRE EDERS SJÆLE
OM JER GRAV BLEV BØLGEN KOLD
ELLER HER I DVÆLE
Steininn yfir sjómennina af Önnu af Tofte er ólíkur öðrum steinum í garðinum, skófum þakið grettishaf á undirsteinum eða hlæðum. Annað minnismerki er í garðinum um færeyska sjómenn sem einnig sker sig nokkuð úr, en á talsvert annan hátt, þar sem það er mjög unninn steinn með gylltu letri og lágmynd af skútu undir fullum seglum. Hann er í reit G9 – 33, nýlega hreinsaður og gull dregið í stafina, svo aldurinn er ekki á honum að sjá. Steinninn er óreglulegur í laginu, grófur að utan, en á framhliðinni eru höggnir tveir sléttir fletir, sá efri með lágmynd skútunnar á bárum, en sá neðri með eftirfarandi áletrun úr gylltum stöfum og nú á færeysku en ekki dönsku:
VIÐ FØROYSKA FISKISKIPNUM
A C O R N
BRENDUST OG DOYÐU HESIR
MENN 20 – 3 – 1928
D. DEBES – GJÓGV
H.J. JOENSEN – –
N. KLEIN – – –
H.J. BISKOPTSTØ –
BrakD.P. OLSEN – FUNNING
H. JACOBSEN – EIÐI
H.D. MØRKØRE – –
TEIR SKOÐAÐU STÓRVERK HARRANS
OG Í DÝPINUM UNDUR HANS
Í NEYÐ SÍNI HEITTU TEIR Á HARRAN
OG HANN HJÁLPTI ÚR TRÓNGDUM.
Orð þessi eru tekin úr Davíðssálmum, 107, 24-28, en í íslenzku biblíunni eru þau svolátandi: „Þeir hafa séð verk Drottins / og dásemdir hans í djúpinu – Þá hrópuðu þeir til Drottins í neyð sinni, / og hann leiddi þá úr angist þeirra.“

Lesandi á stein þennan hlýtur að staldra við orðin „brendust og doyðu“, því oftar er að erlendir sjómenn í görðum okkar hafi orðið sjódauðir. En til þess er einkar átakanleg saga sem lesa mátti í íslenzkum blöðum í marslok 1928. Færeyska skútan Acorn var að veiðum á Selvogsbanka er hún fékk skyndilega á sig krappan hnút, svo hún var nærri farin á hliðina, og allt lauslegt um borð kastaðist til. Frammi í lúkar voru níu menn og höfðu hjá sér ljóstýru. Við ágjöfina streymdi sjór niður í lúkarinn, en í sama mund sentist karbíðdunkur ofan af hillu niður á gólf og laskaðist, en um leið varð af ógurleg sprenging. Einn mannanna hné þegar dauður niður, en hinir átta komust upp, flestir í logahafi. Þeir sem höfðu verið aftur á hlupu þegar til, reyndu að slökkva í mönnunum og draga þá aftur í káetuna, meðan skipið logaði framan og sjór gekk yfir það í föllum.
BrakTveir í viðbót létust þegar, og meðan barizt var við eldinn gáfu enn þrír upp öndina, mjög illa brenndir. Var nú reynt að koma upp seglum og stefna fyrir Reykjanes, í átt til Reykjavíkur. „Var það erfið ferð, því að þeir fengu hvorki neytt svefns né matar allan tímann. Í káetunni máttu þeir ekki kveikja upp eld, því hinir brunasáru þoldu ekki hitann. Enda ekki aðgengilegt að vera að matseld innan um líkin.“ Um leið og Acorn kom til Reykjavíkur voru þeir þrír brunasáru, sem enn lifðu, fluttir á Landakotsspítala. Voru þá liðnir þrír sólarhringar frá því að slysið varð. Einmitt þessa dagana var staddur í Reykjavík Jóhannes Patursson kóngsbóndi í Kirkjubæ og flutti hann opinber erindi um færeyska menningu og fiskiveiðar í Nýja Bíó. Kom þessi voðasending af hafinu því sorglega heim við þá erfiðu og frumstæðu sjósókn landa sinna sem Paturson lýsti.
Jarðarför sjómannanna af Acorn fór fram þann 29. mars frá Líkhúsinu í kirkjugarðinum. Kisturnar voru þá orðnar sjö, því einn, Hans Doris Mörköre frá Eiði, hafði látist á spítalanum. Mikið var við haft, séra Bjarni flutti líkræðu, Karlakór KFUM söng, en sendiherrar Dana, Svía og Finna, auk Jóhannesar kóngsbónda og skipverja af Acorn fylgdu kistunum til grafar. Ekki leið heldur á löngu áður en legsteinninn barst hingað til lands, sennilega höggvinn í Færeyjum, og minnir með skútumynd sinni á þann skamma tíma sem liðinn er síðan sjómenn urðu að berjast tækjalausir með berum höndum við ógnaröfl sjávar – og elds.“

Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 3 mín.

Heimild m.a.:
-Kafli úr bókinni Minningarmörk í Hólavallagarði, eftir Björn Th. Björnsson. Útgefin af Máli og Menningu 1988. Bls. 225-230.
-Þriðjudaginn 9. september, 9. fundur 2008, haldinn í framkvæmdastjórn Kirkjugarða Reykjavíkurprófastsdæma.

Staðarberg

Staðarberg – Bergsendi ofan Ræningjaskers.