Færslur

Grindavík

Gengið var eftir Staðarbergi frá Mölvík yfir að Staðarmölum. Fremst er Brimketillinn – eða brimkatlarnir því þeir eru fleiri en einn. Á leiðinni, við Bergsenda að austanverðu, er Ræningjasker það er „Tyrkir“ komu að þá er þeir rændu Grindavík 1627 ef marka má munnmæli og þar var eitt hörmulegasta sjóslys við Grindavík þann 4. apríl 1924, í strandi Önnu frá Tofte. Þá fórust fimmtán eða sextán menn, flestir ungir menn úr sömu fjölskyldum frá litlu þorpi í Færeyjum. Þessi færeyski kútter kom upp við Bergsendasker, sem er við austurenda Staðarbergs. Þeir voru síðan jarðsettir í kirkjugarðinum í Reykjavík.

Brimketill

Staðarbergið er einn af fjölmörgum úivistarmöguleikum Grindvíkinga – og gesti þeirra. Bergið er bæði fjölbreytt og tiltölulega auðvelt göngu ef rétt er farið. Á leiðinni voru skoðaðar, auk hinna ýmsu bergumbreytinga, nokkrar hlaðnar refagildrur, sem enn eru óhreyfðar í Bergshrauni. Aðaltilgangurinn var þó að skoða slysstaðinn fyrrnefnda og rifja uppp atburðinn.

Þriðjudaginn 9. september var níundi fundur ársins 2008 haldinn í framkvæmdastjórn Kirkjugarða Reykjavíkurprófastsdæma. Rekstrarstjóri sagði frá framtaki færeysks manns, Jakob Michael Mikkelsen
84 ára, sem hefur látið útbúa minningarskjöld úr steini með nöfnum 17 samlanda sinna sem fórust á vélbátnum „Önnu frá Tofte” við Íslandsstrendur í apríl árið 1924, þeirra á meðal faðir Jakobs. Skjöldurinn verður afhjúpaður í Hólavallagarði næsta laugardag, þann 13. september.

Á Staðarbergi

Í 12. árgangi Bautasteins var í greininni „Minningarmörk atburða“ eftir Björn Th. Björnsson fjallað um
örlög áhafnarinnar á Önnu frá Tofte sem fórst við Grindavík fyrir 85 árum síðan. Jarðarför skipverjanna fór fram þann 11. apríl 1924 og var þar mikið fjölmenni sem sýndi þá virðingu og hlýhug sem ríkti í garð frænda okkar Færeyinga. Í september á síðasta ári var afhjúpuð minningarplata um áhöfnina og á henni má sjá hversu stórt skarð var höggvið í lítið samfélag á sínum tíma sem minnir okkur á hversu margar fórnir voru færðar á fjarlægum miðum.
Jakob Michael Mikkelsen, sonur eins áhafnarmannanna, hefur sýnt einstaka ræktarsemi og
virðingu í minningu föður síns og skipsfélaga hans og beitti hann sér fyrir gerð minningarplötunnar en
Kirkjugarðar Reykjavíkur gáfu vinnu og efni við uppsetninguna í virðingu við þá sem létust í þessu
hryggilega sjóslysi.

Staðarberg

Í bókinni Minningarmörk í Hólavallagarði, eftir Björn Th. Björnsson, segir m.a. um þennan atburð: „Þess eru dæmi, m.a. í Hólavallagarði, að legsteinn sé ekki aðeins minningarmark um liðinn einstakling, heldur um atburð, oftast vofveiflegan, þar sem margir menn eiga í hlut og hvíla saman undir einu og sama legmarki. Vestast í Hólavallagarði, nálægt Ljósvallagötu, má sjá mikið bjarg, óhöggvið að öðru en letri, sem minnir á raunarlegan stóratburð á þriðja áratugi liðinnar aldar. Í bókinni Minningarmörk í RefagildraHólavallagarði segir svo frá: „Þegar menn úr Staðarhverfi vestan Grindavíkur fylgdu fé í fjöru morguninn þess 6. apríl 1924, komu þeir auga á torkennilegt brak; síðan sáu þeir lík fljóta upp og óðu út í að draga það undan sjó. Síðdegis fóru fleiri menn ofan á Staðarmalir og gaf þá enn að líta: fjögur lík til viðbótar. Á bátsþóftunum og árunum stóð nafnið „Anna Tofte“, eftir því sem bezt varð lesið, en menn voru þó engu nær. Sumir minntust þess nú, að ljós hefðu sézt ískyggilega
nálægt landi í útsynningnum nóttina áður. Þegar hringt var til Reykjavíkur kom brátt það svar, að hér myndi sennilegast vera um að ræða færeyska fiskikútterinn Önnu frá Tofte á Austurey, sem verið hefði á leið til Reykjavíkur utan af Selvogsbanka. Væri þetta 82 smálesta skip, sem áður var í eigu Péturs J. Thorsteinssonar og hét þá Sléttanes, og að færeyskri venju um margmennið á slíkum skútum hefðu líklega verið allt að 25 mönnum um borð.
Refagildra á StaðarbergiE
nn rak lík, og enn brak. Og enn fréttist það frá Reykjavík, að önnur færeysk skúta, Marsdal, hefði haft samflot með Önnu frá Tofte utan af Banka og stefnt fyrir Reykjanes, en skipstjórinn á Marsdal hefði um kvöldið séð af ljósunum að Anna sigldi allt of austarlega, undan veðrinu, og óttazt að hún næði ekki fyrir nesið. Engin fjarskiptatæki voru þá á slíkum skipum; hver varð að sjá fyrir sér. Enn fengust þær upplýsingar frá útgerðinni í Færeyjum, að 17 menn hefðu verið á Önnu, en til þessa hafði aðeins 7 líkum verið bjargað undan sjó.
Lík færeysku sjómannanna voru flutt heim á Stað og þar búizt til að jarða þau, svo sem fyrrum hafði verið siður um sjórekna menn. En þá komu þau orð frá sendiherra Dana í Reykjavík, að flytja ætti líkin þangað og ef til vill áfram til Færeyja. Voru nú sendir af stað bílar þessa torfæru leið að sækja líkin. Var jarðarförin ákveðin föstudaginn 11. apríl og skyldi jarðað hér heima.
Var allnokkuð skrifað í blöðin um þetta hryggilega slys og skorað á bæjarbúa að fjölmenna við jarðarförina til þess að votta færeysku þjóðinni virðingu og samúð. „Hér eru lagðir í íslenzkan kirkjugarð erlendir menn, en þó frændur vorir, synir smáþjóðar, eins og við erum, norrænir menn, sprottnir af sama stofni og við: hrjóstrugt land, bólgið brim við sand, óblíða Færeyskarnáttúru og örðugleika
smáþjóðar … Seytján hrausta, vinnandi menn hefir litla færeyska fiskimannaþjóðin misst.“
Daginn sem jarðarförin átti að fara fram var símað frá Grindavík að áttunda líkið hefði rekið, og var bifreið þegar send eftir því. Þegar suðureftir kom, hafði það níunda enn bæzt við, og fylgdust þau öll að í eina og sömu gröf. „Jarðarför þessara manna hefir verið einhver sú hátíðlegasta og fjölmennasta sem hér hefir farið fram í langa tíð. Var kirkjan troðfull út í dyr, og líkfylgd suður í garðinn afar fjölmenn“, segir Morgunblaðið daginn eftir, þann 12. apríl. Séra Bjarni Jónsson flutti ræðu í kirkjunni og mælti á danska tungu, og þegar sunginn var sálmurinn „Dejlig er Jorden“ , stóðu allir upp. Kisturnar níu voru bornar alla leið suður í garðinn, og gengu undir þeim meðlimir verzlunarráðsins, útgerðarmenn og Færeyingar sem búsettir voru í bænum. Í garð-inum mælti færeyski trúboðinn Alfred Petersen yfir gröfinni, en hann fylgdi færeysku skútunum meðan þær voru hér að veiðum.
„Hafa aldrei verið jarðaðir svo margir menn síðan 1906, að drukknunin mikla varð við Viðey“, segir í blaðinu að lokum.
Færeyingar eru einstakir að því að búa að sínum látnu af mikilli virðingu. Hér brást það heldur ekki. Ekki leið á löngu þar til fluttur var í garðinn mikill klettur með áhöggnu letri og lagður á hlæður yfir gröfinni, í reit D 9 – 8 . Af áletruninni má sjá, að enn hafa fundizt fimm af áhöfn Önnu af Tofte og verið jarðaðir þar nokkru síðar, því framan á steininum stendur:
TIL MINDE OM SYTTEN FÆRØISKE FISKERE
DER FORLISTE MED KUTTER ANNA AF TOFTE
VED GRINDAVÍK DEN 5. APRIL 1924
FJORTEN HVILE HER
Ofan á steininum getur að lesa þessa hendingar:
HVIL I FRED OG GUD I VOLD
VÆRE EDERS SJÆLE
OM JER GRAV BLEV BØLGEN KOLD
ELLER HER I DVÆLE
Steininn yfir sjómennina af Önnu af Tofte er ólíkur öðrum steinum í garðinum, skófum þakið grettishaf á undirsteinum eða hlæðum. Annað minnismerki er í garðinum um færeyska sjómenn sem einnig sker sig nokkuð úr, en á talsvert annan hátt, þar sem það er mjög unninn steinn með gylltu letri og lágmynd af skútu undir fullum seglum. Hann er í reit G9 – 33, nýlega hreinsaður og gull dregið í stafina, svo aldurinn er ekki á honum að sjá. Steinninn er óreglulegur í laginu, grófur að utan, en á framhliðinni eru höggnir tveir sléttir fletir, sá efri með lágmynd skútunnar á bárum, en sá neðri með eftirfarandi áletrun úr gylltum stöfum og nú á færeysku en ekki dönsku:
VIÐ FØROYSKA FISKISKIPNUM
A C O R N
BRENDUST OG DOYÐU HESIR
MENN 20 – 3 – 1928
D. DEBES – GJÓGV
H.J. JOENSEN – –
N. KLEIN – – –
H.J. BISKOPTSTØ –
BrakD.P. OLSEN – FUNNING
H. JACOBSEN – EIÐI
H.D. MØRKØRE – –
TEIR SKOÐAÐU STÓRVERK HARRANS
OG Í DÝPINUM UNDUR HANS
Í NEYÐ SÍNI HEITTU TEIR Á HARRAN
OG HANN HJÁLPTI ÚR TRÓNGDUM.
Orð þessi eru tekin úr Davíðssálmum, 107, 24-28, en í íslenzku biblíunni eru þau svolátandi: „Þeir hafa séð verk Drottins / og dásemdir hans í djúpinu – Þá hrópuðu þeir til Drottins í neyð sinni, / og hann leiddi þá úr angist þeirra.“

Lesandi á stein þennan hlýtur að staldra við orðin „brendust og doyðu“, því oftar er að erlendir sjómenn í görðum okkar hafi orðið sjódauðir. En til þess er einkar átakanleg saga sem lesa mátti í íslenzkum blöðum í marslok 1928. Færeyska skútan Acorn var að veiðum á Selvogsbanka er hún fékk skyndilega á sig krappan hnút, svo hún var nærri farin á hliðina, og allt lauslegt um borð kastaðist til. Frammi í lúkar voru níu menn og höfðu hjá sér ljóstýru. Við ágjöfina streymdi sjór niður í lúkarinn, en í sama mund sentist karbíðdunkur ofan af hillu niður á gólf og laskaðist, en um leið varð af ógurleg sprenging. Einn mannanna hné þegar dauður niður, en hinir átta komust upp, flestir í logahafi. Þeir sem höfðu verið aftur á hlupu þegar til, reyndu að slökkva í mönnunum og draga þá aftur í káetuna, meðan skipið logaði framan og sjór gekk yfir það í föllum.
BrakTveir í viðbót létust þegar, og meðan barizt var við eldinn gáfu enn þrír upp öndina, mjög illa brenndir. Var nú reynt að koma upp seglum og stefna fyrir Reykjanes, í átt til Reykjavíkur. „Var það erfið ferð, því að þeir fengu hvorki neytt svefns né matar allan tímann. Í káetunni máttu þeir ekki kveikja upp eld, því hinir brunasáru þoldu ekki hitann. Enda ekki aðgengilegt að vera að matseld innan um líkin.“ Um leið og Acorn kom til Reykjavíkur voru þeir þrír brunasáru, sem enn lifðu, fluttir á Landakotsspítala. Voru þá liðnir þrír sólarhringar frá því að slysið varð. Einmitt þessa dagana var staddur í Reykjavík Jóhannes Patursson kóngsbóndi í Kirkjubæ og flutti hann opinber erindi um færeyska menningu og fiskiveiðar í Nýja Bíó. Kom þessi voðasending af hafinu því sorglega heim við þá erfiðu og frumstæðu sjósókn landa sinna sem Paturson lýsti.
Jarðarför sjómannanna af Acorn fór fram þann 29. mars frá Líkhúsinu í kirkjugarðinum. Kisturnar voru þá orðnar sjö, því einn, Hans Doris Mörköre frá Eiði, hafði látist á spítalanum. Mikið var við haft, séra Bjarni flutti líkræðu, Karlakór KFUM söng, en sendiherrar Dana, Svía og Finna, auk Jóhannesar kóngsbónda og skipverja af Acorn fylgdu kistunum til grafar. Ekki leið heldur á löngu áður en legsteinninn barst hingað til lands, sennilega höggvinn í Færeyjum, og minnir með skútumynd sinni á þann skamma tíma sem liðinn er síðan sjómenn urðu að berjast tækjalausir með berum höndum við ógnaröfl sjávar – og elds.“

Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 3 mín.

Heimild m.a.:
-Kafli úr bókinni Minningarmörk í Hólavallagarði, eftir Björn Th. Björnsson. Útgefin af Máli og Menningu 1988. Bls. 225-230.
-Þriðjudaginn 9. september, 9. fundur 2008, haldinn í framkvæmdastjórn Kirkjugarða Reykjavíkurprófastsdæma.

Ingólfsskáli

Gengið var um Ísólfsskála, verminjarnar á og við Nótarhól ofan við Gvendarvör austan Rangagjögurs neðan Skálabótar, og haldið með ströndinni um Tranta, Hattvík og Kvennagöngubása út í Hraunsnes. Þaðan var gengið um Veiðibjöllunef og Mölvík í Katlahraun uns staðnæmst var við fjárskjólið þar uppi í hrauninu.

hraun-121

Hraunið ofan við Hraunsnes, austan Ísólfsskála, nefnist Skollahraun, en hraunið ofan við Mölvík nefnist Leggjarbrjótshraun. Austar er Katlahraun. Samheiti á hraunum þessum er Ögmundarhraun (sbr. landakort), en eins og af nöfnunum sem og útliti má sjá er Ögmundarhraun fleiri en eitt hraun.
Á leiðinni var m.a. ætlunin að huga að fallegum brimkatli við ströndina, gati, sem sjórinn hafði brotið sig upp um allnokkuð ofan við ströndina og kíkja í sprungu, sem opnaðist nýlega í Katlahrauni. Ketillinn og gatið sáust vel í nýlegu yfirlitsflugi FERLIRs.
Umhverfið er eitt, en veðrið annað. Athyglin og skynjunin tengja hvorutveggja saman í heildir. Að þessu sinni hafði verið samið um ásýnilega sjávarágjöf, hvítfryssandi háöldur og skynjanlegt samstuð sjávar og strandar (átök Gyms og móður Jarðar) – svona að til auka enn á áhrif umhverfis og veðurs.

Molvik-122

Göngunni er hér lýst upp í vindinn, rangsælis við leiðina, sem gengin var – upphafið var því við fjárskjólið í Katlahrauni og endirinn við Ísólfsskála – til þess að auðveldara væri að sjá það sem fyrir augu bar á leiðinni. Svæði þetta er ótrúleg náttúrusmíð – ekki síst þegar veðrið fær að leika lausum hala.
Tillaga frá Náttúrfræðistofnun Íslands árið 2002 og síðar Umhverfisstofnun frá árinu 2004 hefur legið fyrir um að koma svæðinu á náttúruminjaskrá. Í umsögn stofnananna um svæðið segir m.a. að þar séu “fallegar og óvenjulegar hraunmyndanir og einstakar mannvistarleifar, svo greinilega yfirbugaðar af eldvirkni landsins. Á svæðinu eru jarðmyndanir, vatnafar, plöntur, dýr, vistkerfi, vistgerðir, búsvæði, landslag, víðerni, menningar- og söguminjar og fágætar náttúruminjar. Sumar þeirra eru í hættu. Katlahraun, sem er vestan Ögmundarhrauns, hefur runnið í sjó fram. Katlahraun er talsvert eldra en hið eiginlega Ögmundarhraun. Sama má segja bæði um Leggjarbrjótshraun og Skollahraun. Þarna eru mikil hraunflæmi, sérkennilegar hrauntjarnir og hellar. Áhrifaríkt er að koma að fyrrum byggð Í Húshólma í Ögmundarhrauni og sjá þar húsatóttir, sem hraunið rann yfir (1151). Á Selatöngum eru hlaðnar rústir eftir útræði fyrri alda. Þar eru friðlýstar fornminjar, líkt og gildir um minjarnar í Húshólma.”

Hraun-123Í Náttúruverndaráætlun Umhverfisstofnunar 2004-2008 er gert ráð fyrir að svæðið verði sett á náttúruminjaskrá. Í umsögn um umhverfismats um Suðurstrandaveg er þó látið sem svæðið sé allt á náttúrminjaskrá. Hvað sem því líður er hér í heild um bæði áhugavert og verðmætt svæði að ræða, einkum út frá framangreindum efnisþáttum.
Forstjóri Umhverfisstofnunar hefur sagt að eitt af mikilvægari verkefnum stofnunarinnar frá því að hún hóf starfsemi sína hinn 1. janúar 2003 sé m.a. að reka smiðshöggið á tillögu um náttúruverndaráætlun sem unnið hafði verið að um nokkra hríð í samræmi við lög nr. 44/1999, um náttúruvernd. Þar segir að
„maðurinn hefur nýtt sér auðlindir náttúrunnar frá örófi alda. Hann hefur reynt að móta náttúruna í viðleitni sinni til að brauðfæða sig og afkomendur sína. Athafnasaga mannsins er ekki samfelld sigurganga heldur endurspeglar hún, líkt og önnur saga mannsins, þróun þar sem mörg mistök hafa átt sér stað, þar sem menn hafa lent í blindgötu með framkvæmdir sínar, þær verið endurskoðaðar og nýjar leiðir reyndar þar til betri árangur náðist. Í upphafi var viðleitnin vanmáttug, en smám saman varð manninum meira ágengt við að móta náttúruna að sínu höfði. Margir telja að iðnbyltingin á miðri 19. öld marki upphaf þeirra gríðarlegu breytinga sem síðan hafa átt sér stað. En á síðustu öld varð nánast stökkbreyting þar sem saman fór gífurlega hröð fólksfjölgun og tæknibylting sem á sér enga hliðstæðu í sögu mannsins.

Hraunsnes-21

Í byrjun 21. aldar ræður maðurinn yfir verkfærum og þekkingu sem geta breytt og mótað náttúruna á örskömmum tíma með ófyrirsjáanlegum afleiðingum ef varúðar er ekki gætt, enda er tæknin orðin slík að auðvelt er að valda óbætanlegum skaða með vanhugsuðum aðgerðum. Það er eðlilegt þegar fólk sér þær breytingar sem hafa orðið á umhverfinu að margir vilji staldra við og spyrja um ávinning af þessum breytingum og hverju sé fórnað. Nýting náttúruauðlinda er undirstaða efnahagslegrar velferðar flestallra þjóða heims. Hins vegar eru það einnig eftirsóknarverð lífsgæði að mega njóta fjölbreyttrar náttúru.  Nýting náttúrugæða jarðar hefur margar hliðar. Síðarnefndu sjónarmiðunum hefur vaxið mjög ásmegin eftir því sem tækninni hefur fleygt fram, efni fólks hafa orðið meiri, og meiru hefur verið raskað. Það er hlutskipti þeirra sem sinna náttúruvernd að horfa til framtíðar og til þeirrar ábyrgðar sem við sem nú lifum berum á þeim heimi sem við skilum til komandi kynslóða. Óhjákvæmilega stangast hagsmunir annarrar nýtingar, fjárhagslegir eða félagslegir, stundum á við hagsmuni náttúruverndar. Þess vegna verða náttúruverndarmál oft átakamál. Það er ákaflega mikilvægt að rök, t.d. fyrir friðun lands, séu sett skilmerkilega fram og að þau séu aðgengileg almenningi jafnt og stjórnvöldum.“ Staðreyndin er því miður sú að of margt fólk hugsar lítið sem ekkert um umhverfi sitt og allt of margir hugsa yfirleitt ekki um nokkurn skapan hlut – nema kannski svolítið um þá sjálfa.
GatkletturSkoðuð voru hlaðin byrgi og garðar ofan við Gvendarvör. Um er að ræða svipaðar og hinar friðlýstu minjar og á Selatöngum, en þó minni í sniðum. Mannvirkin lýsa vel sögu fiskverkunarinnar, sem lýst er nákvæmlega í umfjöllun um skreið undir Fróðleikur hér á vefsíðunni (ath. megnið af fyrri vefsíðuskrifum er hulin um sinn).
Sker utan við ströndina skammt suðaustar nefnast Trantar og austan þeirra er Hattvíkin. Þar skammt austar eru Kvennagöngubásar, hin þokkalegasta lending. Þá tekur Hraunsnesið við, en það er smækkuð mynd af Dimmuborgum og Katlinum (Borgunum) í Katlahrauni. Þunnfljótandi hraun (Skollahraun) hefur runnið þar í „sjóketil“. Við það hafa myndast formfagrir hellulaga stöplar sem og hinar ótrúlegustu hraunmyndanir. Storknuð hraunhellan hefur síðan fallið niður og stöplarnir staðið eftir. Gerður hefur verið slóði út í nesið og hafa einhverjir verið að dunda sér við að fjarlægja hellurnar utan af stöplunum, sem er hin mesta eyðilegging á þessu fallega náttúrufyrirbæri, og nota í garða sína þar sem allt samhengi við þær skortir. Litbrigði og myndanir í klettum eru einstök í Hraunsnesi.

Molvik-123 Jón Guðmundsson frá Ísólfsskála sagði fyrir skömmu í samtali að áður hafi jafnan verið róið úr Gvendarvör og gert að á Nótarhól. Austan við hólinn eru rústir verkhúss. Trantar þar utan við væru í raun hrjúft hraun, sem stendur upp úr sjónum. Nafnið benti til þess að það hafi hrannast upp, tranað eða trantað sér upp og myndað strýtur. Austar væru Rangargjögur og Hattvík. Rangagjögur væri í raun stórmerkilegt. Best væri að skoða það á fjöru til að þá sjá megi það vel. Gjögrið er á milli Tranta og Hattvíkur. Bát rak þar inn í vitlausu veðri fyrir u.þ.b. 20 árum síðan, er Ísólfur bjó enn á Skála, og lenti inni í skorunni. Þar er bæði þröngt og hyldjúpt. Áhöfnin, einn maður, komst gangandi heim að bæ og bankaði upp á. Bátnum varð hins vegar ekki bjargað. Kista er kistulaga klettur vestarlega og miðsvæðis uppi í hrauninu. Frá Nótarhól sést vel yfir að Festarfjalli, Lambafelli, nær og Lambastapa neðan þess, niður við sjó. Ofan við Skála er Bjalli (Hjálmarsbjalli) og Lyngfellið ofan hans.
Heimastibás heitir þröngur klettabás skammt austar og Kvennagöngubásar eru þar austan við. Veiðibjöllunef, stundum nefnt Vondanef, var mið af sjó austan úr Hælsvík. Þá átti Veiðibjöllunef að bera í Langageira í Fiskidaldsfalli. Þessa lýsingu hafði Jón fengið frá Manga á Hrauni, en Jón gaf m.a. út rit um miðin utan við Grindavík á sínum tíma, en þau skrif voru bæði byggð á reynslu hans sjálfs og þeirra manna, sem þá voru þegar gengnir.

Molvik-124

Mölvíkin virðist ekkert sérstök, en fyrir fiskimennina var hún það svo sannarlega. Mölvíkurleirinn (slétt hraunið ofan við víkina) var afmarkaður af Skála-Mælifelli að vestan og með skoru upp í Lönguhlíð að austan. Utar, á sléttum botni, voru togmiðin, en góðan og mikinn fisk var að hafa á hrauninu í Mölvíkinni, einkum á veturna. Á sumrin var veitt alveg upp við fjöru (Þorskmið). Þar sem Geitarhlíð kemur í skarðið á Katlahrauni og hrauk í hrauninu ber í vestari Görnina á Núpshlíðar (lægð er liggur upp í grasi búna hliðina – undir Görninni er fjárból) er hraundrangur undir. Þar eru um 7 faðmar niður. Fiskurinn sest að við hraundranginn, sem er um hálfur annar metri á hæð, undir sjólínu. Fiskurinn sést og tók líka vel ef verið var að. Straumurinn leikur um dranginn og þar lá fiskurinn í vari (líkt og fé í hlíð).
Jón sagði að vörðurnar uppi í Skollahrauni, skammt frá þjóðveginum undir Slögu, austan við Löngukvos, nefndust Bárðarvarða, eftir gömlum einsetumanni á Skála er hélt þar til um vetur, og Bergsvarða (faðir Hinriks og Guðbergs). Í umsögn um Suðurstrandarveginn eru þær sagðar „gamlar vörður við forna þjóðleið“. Þær þjónuðu hins vegar ekki öðrum tilgangi en þeim að stytta byggjendunum stundir á og meðan var.

Hraun-126

Gengið var inn í Leggjarbrjótshraun með Mölvíkinni. Um er er að ræða fallegt útsýni út með ströndinni. Þegar komið var inn í Katlahraun var gengið niður í Borgirnar (Ketilinn) og þær bornar saman við myndun stöplana í Hraunsnesi. Um er að ræða nátengd fyrirbæri.
Haldið var norður um hraunið að hlöðnu fjárskjóli fólksins á Vigdísarvöllum. Féð þaðan vildi leita niður í fjörur Selatanga og var þá hlaðið fyrir skúta þarna í hrauninu því til skjóls. Helgi Einarsson, sem var með í för, sagði að skjólið hafi einnig verið notað eftir að forfeður hans frá Vigdísarvöllum flutti búferlum niður að Ísólfsskála. Helgi er mjög kunnugur örnefnum á svæðinu, auk þess sem hann hefur bæði gengið mikið um það og ástundað miðin út undan því.
Brimketillinn fannst ekki í særokinu, en gatið tilnefnda fannst skammt vestan við fallegan gatklett í Mölvíkinni. Rúmlega 20 metra langur sjávarhellir gengur inn undir ströndina, étið malbergið og hefur síðan brotið sér leið upp um grágrýtishelluna þegar sjórinn hefur ætt þar inn og þrýstingurinn verið orðinn of mikill. Þá var kíkt í sprunguna í Katlahrauni, en hún myndaðist í jarðskjálfta fyrir u.þ.b. tveimur árum. Hún hefur verið að stækka smám saman og er þegar orðin alldjúp. Hellir gæti leynst undir niðri. Ekki er ólíklegt að sjórinn leyti finni sér leið um síðar meir. Skoðaður var skúti í Katlahrauni skammt norðan við Rekagötuna, en svo virðist sem hlaðið hafi verið að hluta til fyrir opið. Skútinn rúmar vel nokkra menn.
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 3 mín.

Ísólfsskáli

Brimketill við Kvennagöngubása.

Ísólfsskáli

Gengið var um Ísólfsskála, frá Skálabót að Gvendarvör skammt austar og mannvirkjunum ofan hennar, að Tröntum og áfram um Hattvík og Kvennagöngubása. Haldið var eftir ruddum slóða út í Hraunsnes og hin merkilegu jarðfræðifyrirbæri skoðuð. Þá var haldið áfram ofan við Veiðibjöllunef, framhjá Mölvik og inn í borgirnar (Ketilinn) áður en komið var að Selatöngum.

Ísólfsskáli

Ísólfsskáli.

Á Ísólfsskála var gengið að bæjarstæði gamla bæjarins, sem var þar sem nú er sumarhús niður við sjó, ofan við Skálabótina, vestast í túninu. Vestan og neðan við hann var sjóbúð, sem enn sést móta fyrir. Þar sem járnhlið er á girðingunni sjávarmegin var brunnurinn, sem nú er kominn undir sjávarkambinn. Sjóbúðun var framan og vestan við bæinn, fast við veginn að bústaðnum. Austan við veginn að bústaðnum eru einnig hleðslur gripahúsanna, en göng voru yfir í þau úr bænum.
Réttin var undir hamrinum ofan við núverandi íbúðarhus að Ísólfsskála, þ.a.e.s. það íbúðarhús, sem síðast var búið í. Nú er húsið notað sem „fjölskyldurefreshment“ skv. nútímamáli, sem endurspeglar að nokkru nálægð varnarliðsins um nokkurt skeið. Það hafi fjarskiptastöð undir Fiskidalsfjalli/Húsafjalli er lagðist af undir lok sjötta áratugar tuttugustu aldar.
Gengið var austur með Skálabótinni að Gvendarvör. Hún er innan í fallegu lóni utan við Nótarhól austan við túnin á Skála. Á hólnum og við hann eru mikil fiskibyrgi og þurrkgarðar frá þeim tíma er fiskur var verkaður og þurrkaður á staðnum. Fiskurinn var flattur eins og saltfiskur nú, hann síðan lagður inn í byrgin og þess gætt að roðið lægi saman. Þannig hafi fiskurinn verið um veturinn. Um vorið var hann tekinn og lagður á garðana uns honum var pakkað og skúturnar komu erlendis frá og sóttu hann. Þær voru á legu utan við víkina, stundum margar saman. Utan við Nótarhól er Gvendarvör, eins og fyrr sagði og heitir ysta mark lónis Gvendarsker. Frá því myndast Alnbogi til lands með því austanverðu og sker að vestanverðu.

Ísólfsskáli

Fiskbyrgi við Nótarhól.

Lending var í Börubót, sem var beint neðan við bæinn. Kampurinn hefur gengið mikið upp síðan því tún var niður að honum allt að móts við Lambastapann, sem er austasti klettur Festisfjalls, Skálamegin. Ofan hans er Hjálmarsbjalli, nefndur eftir bróður Guðmundar. Hann ruddi svæðið ofan við bjallann, hlóð veggi og gerði þar túnblett. Norðan við húsið er stakur steinn er nefnist Huldukonusteinn. Segir sagan að huldukona hafi eitt sinn birst heimasætunni er var að leik við steininn og beðið hana um að lána sér dúkku, sem hún hafði. Heimasætian lánaði huldukonunni dúkkuna, en svo óheppilega vildi til að hún missti hana svo hún brotnaði. Varð af grátur og gnýstan tanna, en huldukonan hvarf inn í steininn.
Haldið var að “nýja” Skálahúsinu, sem byggt var 1931. Í stefnu austur frá húsinu, ríst klettaborg úti í hrauninu. Hún nefnist Kista. Fjárbólið var uppi í klettunum norðan við bæinn.

Hraunsnes

Bergstandur við Hraunsnes.

Gamla lestargatan, eða rekagatan (lestargatan) vestari, liggur frá Ísólfsskála, í gegnum hraunið til austurs og út að Selatöngum. Þangað er um 20 mín. gangur. Gatan er áberandi ígegnum hraunið, en þegar hún kemur út á sandflákana ofan við ströndina (ofanvið Veiðibjöllunef og Mölvík, hverfur hún að mestu. Þó má sjá þar vörðubrot á stangli.
Djúp gjá opnaðist nýlega við götuna skömmu áður en komið er að Smíðahellinum austan við Ketilinn (Borgirnar) í Katlahrauni. Gatan, sem hefur verið löguð til, liggur niður í Ketilinn, gegnum hann og út hann að austanverðu. Þaðan er ágætt útsýni yfir Selatangasvæðið.
Á Selatöngum var fyrrum mikil útróðrarstöð og verstöð. Þar eru verbúðarústir, fiskbyrgi og fiskgarðar auk hraunhella sem voru notaðir til ýmissa hluta. Standa mörg fiskbyrgin og fiskgarðarnir enn að miklu leyti. Svæði þetta var allt friðlýst 1966 af Kristjáni Eldjárn, þáverandi þjóðminjaverði.
Selatangar eru í Ögmundarhrauni á mörkum jarðanna Ísólfsskála og Krýsuvíkur. Landamerkin liggja um klett (Dágon) í ofan við fjöruborðið. Ljóst er að hraunið hefur runnið eftir landnámsöld því undir því eru leifar mannvirkja sem greinilegar eru t.d. á svonefndum Húshólma.
Geislakolsaldursgreining á koluðum gróðurleifum dagsettu hraunið til miðrar 12. aldar og annálar nefna eldgos 1151. Óvíst er hvenær útgerð hefst frá Selatöngum en samkvæmt ofangreindu eru minjarnar ekki eldri en frá miðri 12. öld.

Hraunsnes.

Í Hraunsnesi.

Víst er að útgerðin lagðist niður um tíma eftir Básendaflóðið 1799, og svo að fullu og öllu 1884 en það ár var síðast róið frá Selatöngum. Um það leyti var seinasta sjóbúðin rifin, og hafa menn eigi hafzt þar við síðan.
Rústirnar eru margar og er hægt að telja þær upp undir 20, auk garðhleðslanna sem eru á hraunnefunum og eru nú að mestu horfnar. Á vestustu hraunnibbunni er verbúð og rústir auk garðhleðsla. Á næstu nibbu austan við eru rústir sömuleiðis en hraunnibban er aðgreind frá þeirri vestari af sandi. Fleiri rústir eru svo á þriðju nibbunni sem myndar samfelldara og stærra svæði en hinar og þar eru líka flestar rústirnar. Austast á þessu svæði er önnur verbúðartóft og byrgi í líkingu við það sem er vestast. Utan í hraunflákanum að austan eru fyrirhleðslur við skúta sem virðast hafa verið notaðir af fé. Margar hleðslurnar hafa farið verulega illa í flóðum undanfarin ár.
Frábært veður. Gangan tók 2 klst og 22 mín.

Heimildir m.a.:
-Fornleifaskrá. Skrá um friðlýstar fornleifar. Ágúst Ó. Georgsson tók saman. Reykjavík 1990.
-Ísólfsskáli. Örnefnalýsing. Guðmundur Guðmundsson bóndi Ísólfsskála. Ari Gíslason skráði. Örnefnastofnun Íslands.
-Lúðvík Kristjánsson: Íslenzkir sjávarhættir II. Rvk. 1982, bls. 410-11

Ísólfsskáli

Brimketill utan við Ísólfsskála.