Færslur

Krýsuvík

Þessi grein um Krýsuvík birtist í Skinnfaxa árið 1951 og er byggð á upplýsingum Jens Hólmgeirssonar, bústjóra í Krýsuvík, varðandi gróðurhús og búskap, og Valgarðs Thoroddsen rafveitustjóra í Hafnarfirði. varðandi boranir, en hann veitir borunum og raforkuframkvæmdum í Krýsuvík forstöðu:
“Myndirnar 3 af húsum í Krýsuvík eru teknar núna í marz, en óvenju mikill snjór hefur verið þar í vetur.

Krýsuvík

Á síðari árum hefur margt og mikið verið rætt og ritað um framkvæmdir Hafnarfjarðar-kaupstaðar í Krýsuvík. Verður hér stuttlega skýrt frá því, sem þegar hefur verið gert þar og helztu fyrirætlunum. Krýsuvík liggur um miðbik Reykjaness að sunnanverðu, milli Grindavíkur og Herdísarvíkur, en suðvestan við Kleifarvatn. Fyrr á tímum var þar höfuðból með sex hjáleigum, og um síðustu aldamót lifðu þar um 40 manns. Var sauðf járræktin undirstaða búskaparins þar og sömuleiðis sjósókn. — Síðan tók fólki stöðugt að fækka og byggðin að eyðast. Olli því að sjálfsögðu breyttir búskaparhættir og þjóðarhættir, og auk þess samgönguleysi. Kom þar að lokum, að aðeins einn maður dvaldi í Krýsuvík, og hafðist hann við í leifum af kirkjunni. Leið þó ekki nema einn vetur, að mannlaust væri í Krýsuvík, áður en starfsfólk Hafnarfjarðarbæjar settist þar að.

Krýsuvík

Krýsuvík 1906 – herforingjaráðskort.

Hafnarfjarðarbær fékk eignarrétt á ræktunarlandi og hitasvæði í Krýsuvík árið 1937. Undirstaða framkvæmda þar hlaut að teljast vegarlagning þangað, en lög um Krýsuvíkurveg höfðu verið samþykkt á Alþingi árið 1936. Síðan sá vegur tengdist Suðurlandsundirlendinu, hefur hann komið í góðar þarfir á vetrum, — ekki hvað sízt á síðastliðnum vetri. — Milli Hafnarfjarðar og Krýsuvíkur eru 25 km.
Framkvæmdir í Krýsuvík eru þríþættar, og hafa þessir þrír þættir frá upphafi verið aðskildir, þótt á síðasta ári hafi tveir þættirnir verið sameinaðir undir eina stjórn. Þessir þrír þættir eru: Ræktun í gróðurhúsum, grasrækt og kúabúsframkvæmdir og boranir eftir jarðhita.

A. Gróðurhús.

Krýsuvík

Vinnuskóladrengir við vinnu í gróðurhúsi í Krýsuvík (HH).

Vegna jarðhitans eru skilyrði til ræktunar í gróðurhúsum ótakmörkuð í Krýsuvík. Nú eru gróðurhúsin orðin fjögur, og eru ca. 1600 ferm. undir gleri. Tvö þessara gróðurhúsa (600 ferm.) voru tekin í notkun vorið 1949, en hin tvö er verið að ljúka við. 1 gróðurhúsunum eru einkum ræktaðir tómatar, agúrkur, gulrætur og blóm. Í sambandi við gróðurhúsin er auk þess hálfur hektari útiræktar, þar sem gert er ráð fyrir að rækta alls konar grænmeti. Jarðhitinn, sem gróðurhúsin eru hituð með, er gufa, og er hún leidd í þró, þar sem katli hefir verið komið fyrir, og hitar gufan þannig vatnið í hitakerfi gróðurhúsanna, en það er venjulegt miðstöðvarkerfi.
Í sambandi við gróðurhúsin hafa verið reist tvö íbúðarhús, ca. 360 ferm. að grunnflatarmáli, fyrir bústjóra og starfsfólk. Eru í húsunum öll þægindi, vatnsleiðsla, skólpræsi og rafmagn frá dieselrafstöð.

B. Búskapur.
Í Krýsuvík eru ca. 300 ha. ræktanlegt graslendi, en auk þess melar, sem e.t.v. mætti rækta með sérstakri aðferð. Kom fljótt til tals að setja þarna á fót stórt kúabú, er jafnan gæti séð Hafnfirðingum fyrir ferskri og góðri barnamjólk. Á þessum grundvelli hafa verið hafnar allmiklar búskaparframkvæmdir, þótt enn megi þær teljast á byrjunarstigi. Þegar hafa verið brotnir um 30 ha. lands, en vinnslu er misjafnlega langt á veg komið. Meginhlutann mætti þó fullvinna undir grasfræssáningu á þessu vori. Grafnir hafa verið 8 km langir, opnir skurðir til landþurrkunar, en ca. 45 km löng lokræsi (kílræsi). Tveir súrheysturnar hafa verið reistir. Eru þeir 5 m í þvermál og 14 m háir. Fjós fyrir 154 kýr og tilheyrandi ungviði er komið undir þak.

Krýsuvík

Krýsuvík – fjósið 2021.

Hér er komið að framkvæmdum í búskaparmálum í Krýsuvík, en um framhaldið verður ekki sagt á þessu stigi málsins. Það er rétt að geta þess, að í Krýsuvík er mjög votviðrasamt, og verður því naumast gerlegt að vera háður náttúrunni með verkun á heyi. Gera má ráð fyrir, að þarna mætti hafa um 300 kýr. Öll mannvirki, sem hingað til hafa verið reist í Krýsuvík, bæði vegna ræktunar í gróðurhúsum og fyrirhugaðs búskapar, eru hin vönduðustu og af fullkomnustu gerð.

C. Boranir eftir jarðhita.

Krýsuvík

Borað í Krýsuvík um 1950.

Í Krýsuvík er eitt mesta jarðhitasvæði á landinu, enda ber Reykjanesskaginn allur ljósar menjar mikilla jarðumbrota og eldgosa. — Festi Hafnarfjarðarbær ekki hvað sízt kaup á Krýsuvík vegna jarðhitans, enda hafa jafnan miklar vonir til hans staðið og standa enn.
Fyrstu jarðboranir í Krýsuvík voru framkvæmdar af rannsóknarráði ríkisins árið 1941 og 1942. Var þá borað við suðurenda Kleifarvatns. Þetta var aðeins gert í rannsóknarskyni til þess að kynnast jarðlögum. Festust borarnir tíðum, og engin gufa kom. Næst var borað 1945. Rafmagnseftirlit ríkisins hafði þær boranir með höndum, einnig í tilraunaskyni. Borað var við svonefndan Austurengjahver og í Seltúni. Jarðhorar voru grannir. Nokkurt gufumagn kom þó, en þar sem holurnar voru þröngar, stífluðust þær fljótt, enda var hér um rannsókn að ræða.
Haustið 1946 var Ólafur Jóhannsson úr Hveragerði fenginn til að bora eftir gufu vegna væntanlegra gróðurhúsa. Þá voru boraðar 3 holur, ein með allgóðum árangri, og er íbúðarhús starfsfólks gróðurstöðvarinnar hitað með gufu þaðan.
Um áramótin 1946—47 tók til starfa í Krýsuvík nýr jarðbor, sem Hafnarfjarðarbær hafði keypt, en Rafveitu Hafnarfjarðar var falið að annast rekstur hans. Þessi bor er fallbor, en fram til þessa höfðu verið notaðir snúningsborar. Fallborar geta borað víðari holur en snúningsborar, þótt vélaorkan, sem knýr þá, sé hin sama. Ennfremur er minni festuhætta fyrir þá gerð, en áður hafði það tafið mikið, hve horar vildu festast.

Krýsuvík

Borað á hlaðinu í Krýsuvík um 1950.

Með fallbornum var fyrst borað vegna gróðurstöðvarinnar, skammt frá henni. Sú borhola mistókst. Var þá borinn fluttur i svonefnt Seltún og byrjað að bora með tilliti til væntanlegrar raforkuvirkjunar. Meðan á því stóð, var aftur fenginn bor frá rafmagnseftirliti ríkisins til þess að bora uppi í fjallinu ofan við gróðurstöðina, í svonefndum Hveradölum. Voru þær boranir vegna gróðurhúsanna og gáfu nægjanlegt gufumagn fyrir þau, eins og þau voru þá. — Þessar holur hafa þó stíflazt, og hefur fallborinn þá verið fluttur upp í Hveradalina til þess að bora upp þessar stíflur. Ennfremur hafa víðari holur verið boraðar með fallbomum í Hveradölum, sem heppnazt hafa, og gefa þær samtals um 10 tonn af gufu á klst. Gufumagn, sem fyrir hendi er úr borholum í Hveradölum, er þref alt meira en gróðurstöðin þarfnast, eins og hún er nú. Í Seltúni hafa boranir gengið upp og ofan, enda er jarðvegur í Krísuvík sérstaklega erfiður viðfangs fyrir jarðboranir. Með fenginni reynslu tókst þó að endurbæta svo borvélina á síðastliðnu ári, að borun hefur gengið mun greiðar en áður. Hefur nú tekizt að bora allt að 13 m á dag, en stundum áður varð ekki komizt nema nokkra centimetra niður á degi hverjum.
Það var 12. sept. síðastl., að verulegur árangur varð af borunum i Seltúni. Þá kom skyndilega gos úr holu, sem verið var að bora, og orðin var 229 m djúp. Hola þessi er fóðruð með 8 tommu víðum járnpípum 100 m niður. Gosið hefur sífellt haldið áfram, síðan það byrjaði, og kemur úr holunni allvatnsblönduð gufa. Hefur magnið verið mælt við mismunandi mótþrýsting, þ.e. þrengt hefur verið mismunandi mikið að gosinu. Gufa sú, sem úr holunni kemur, mun geta framleitt um 5000 kílóvött rafmagns. En auk þess koma úr holunni um 30 1 af 100° heitu vatni á sekúndu, sem nota mætti í hitaveitu eða til annars. — Til samanburðar má geta þess, að Hafnarfjarðarbær notar nú 3000 kílóvött rafmagns. Gos kemur úr 5 holum alls, þótt gosið úr fyrrnefndri holu sé langmest, en heildargufan úr öllum holunum er 60 tonn á klst. Í ráði er að virkja þarna í Seltúni, og hefur ýmsum fyrirtækjum i Evrópu og Bandaríkjunum verið send greinargerð um þelta efni og óskað eftir tilboðum um vélar og tæki.

Krýsuvík

Borað í Krýsuvík um 1950.

Komið hefur í ljós, að ítölsk og svissnesk fyrirtæki ein telja sig geta sinnt svo sérstæðu verkefni, sem hér um ræðir. Stendur Rafveita Hafnarfjarðar nú í sambandi við ítölsk fyrirtæki varðandi þessi mál. Bráðabirgðaáætlun sýnir, að slík gufuvirkjun yrði nokkru ódýrari en samsvarandi vatnsvirkjanir. Stendur rafveitan i sambandi við ítölsk orkuver, sem reynslu hafa af gufuvirkjunum. Hafa Ítalir gufuorkuver, sem framleiða 300 þús. kílóvött rafmagns.  Til samanburðar má geta þess, að nýja Sogsvirkjunin, eins og hún er nú áætluð, mun framleiða 31 þús. kílóvött.
Borunum er að sjálfsögðu haldið áfram í Krýsuvík.” – S.J.

Heimild:
-Skinfaxi – 1. tölublað (01.04.1951), Landið og framtíðin: Krýsuvík, S.J., bls. 17-23.

Krýsuvík

Krýsuvík.

Krýsuvíkurkirkja

Eyjólfur Sæmundsson skrifaði þrjár greinar í Fjarðarpóstinn árið 1998 undir fyrirsögninni “Krýsuvík – náttúrperla og orkusjóður“:

Eyjólfur

Eyjólfur Sæmundsson

“Að undanförnu hefur orðið vart aukins áhuga Hafnfirðinga á Krýsuvík. Þessi víðáttumesta jörð í landnámi Ingólfs er að hluta í eigu Hafnfirðinga, en að hluta er eignarhaldið umdeilt og standa málaferli fyrír dyrum til að skera úr umþað. Sumir bæjarbúar þekkja Krýsuvík og eiga jafnvel uppruna sinn að rekja þangað. Aðrir hafa gengið þar um fornar þjóðbrautir eða hrjóstruga og víða hrikalega náttúruna sem er svo fjölbreytileg að undrum sætir. Þangað hafa menn sótt kraft og innblástur til sköpunar, svo sem Sveinn Björnsson listmálari sem þar hafði vinnustofu. Enn aðrir sjá fyrir sér nýtingu jarðvarmans og telja hann geta orðið auðsuppsprettu Hafnfirðinga.
En þeir eru líka fjölmargir sem lítið vita um Krýsuvík og þekkja ekki þá náttúruperlu, nema e.t.v. hina gjósandi borholu í Seltúni. Upplýsingar eru heldur ekki á lausu og full þörf á að bæta þar úr. Eyjólfur Sæmundsson hefur verið tengiliður bæjarins við Hitaveitu Reykjavíkur, m.a. varðandi hitaréttindin í Krýsuvík, en er auk þess áhugamaður um allt er varðar staðinn. Hann mun skrifa greinaflokk hér í blaðið til þess að upplýsa bæjarbúa um þessa náttúruparadís og kraumandi orkulind.

Inngangur

Grindarskörð

Kvöldsýn frá Grindaskörðum, ystu mörkum Krýsuvíkur í norðri.

Í þessum greinarflokki mun ég leitast við að gera lesendum nokkra grein fyrir málefnum Krýsuvíkur, landamerkjum jarðarinnar, tildrögum þessi að hún komst í eigu Hafnfirðinga, jarðhita sem þar er að finna og álitamálum sem uppi eru um eignarhald á landinu. Sögu og náttúrufari verða gerð nokkur skil, en það væri efni í langan greinaflokk eitt og sér ef vel ætti að vera.

Krýsuvíkurtorfan

Krýsuvík

Krýsuvíkurtorfan – kort; ÓSÁ

Þegar rætt er um Krýsuvík eða Krýsuvíkurland í dag er í raun átt við land jarðanna Krýsuvíkur og Stóra-Nýjabæjar og er það stundum nefnt Krýsuvíkurtorfan. Auk þessara jarða sem töldust eiga landið voru þarna allmörg kot, Norðurkot, Suðurkot, Snorrakot, Litli-Nýibær, Lækur, Fitjar, Arnarfell o.fl. voru á svæðinu umhverfis Bæjarfell og Arnarfell. Vigdísarvellir eru aftur á móti á milli Sveifluháls og Vesturháls og þar held ég að tvö kot hafi verið um skeið. Útræði var fram á síðustu öld frá Selatöngum sem eru austasti hluti Ögmundarhrauns þar sem það fellur í sjó fram. Þar eru miklar og merkar minjar sem friðlýstar hafa verið, en vert væri að gefa meiri gaum.

Víðátta og fjölbreytni

Húshólmi

Skálatóft í Húshólma í Gömlu-Krýsuvík.

Landsvæðið er gríðarstórt eða rúmlega 200 ferkílómetrar sem jafngildir 20.000 hekturum. Það nær frá Brennisteinsfjöllum í austri að Höskuldarvöllum í vestri og frá sjó í suðri að Vatnsskarði í norðri. Landslagið er ótrúlega fjölbreytilegt, eldfjöll, stöðuvötn, Krýsuvíkurbjarg sem er mesta fuglabjarg utan Vestfjarðakjálkans, framræstar mýrar, sprengigýgar, rennislétt helluhraun, úfin og illfær apalhraun, móbergshryggir, ófærar gjár, hellar, formfagrir eldgígar, litfögur hverasvæði og svo mætti lengi telja. Fáar jarðir á Íslandi, ef nokkrar, eru jafn fjölbreytilegar hvað varðar jarðræði og landmótun. Það er helst gróðurleysið og hin hrjóstruga ásýnd sem kann að virka fráhrindandi á suma. Vitað er að gróður var mun meiri á svæðinu fyrr á tímum og landið er illa farið af ágangi búfjár og manna. Enn beita Grindvíkingar fé sínu á svæðið þó vonandi hilli nú undir endalok þess.

Krýsuvík

Krýsuvík 1923.

Jarðvegurinn er öskublandinn og mjög viðkvæmur. Nýlokið er könnun á ástandi gróðurfars og ljóst að mikið verk þarf að vinna við endurheimt landgæða.
Hraunstraumur fyllir víkina Byggðin sem lýst var að framan er ekki hin upprunalega Krýsuvík. Reyndar er ekki sjáanleg nein vík á ströndinni í dag sem landsvæðið gæti dregið nafn af. Líklegt er að hin upphaflega Krýsuvík hafi fyllst af hrauni þegar Ögmundarhraun rann árið 1151 (síðari ártöl hafa verið nefnd en þau koma ekki heim og saman við geislakolsmælingu á aldri hraunsins). Kapelluhraun rann í sjó fram í Straumsvík, hinum megin á nesinu um sama leyti, sennilega í sama gosi eða goshrinu.
Á hólma sem stendur upp úr Ögmundarhrauni má greina bæjarrústir sem að hluta fóru undir hraunið og nefnist hann Húshólmi. Líklegast er að þarna hafi hin gamla Krýsuvík staðið en hún lagst af í gosinu og íbúarnir fært sig ofar í landið. Þjóðsagan skýrir nafn Krýsuvíkur með frásögninni af tröllskessunum Krýsu og Herdísi sem heima áttu í víkunum og elduðu grátt silfur.

Stóri-Nýibær

Stóri-Nýibær í Krýsuvík.

Landnám og þróun byggðar
Byggð hefur verið í Krýsuvík frá landnámsöld, en hún var innan landnáms Ingólfs Arnarsonar. Í Landnámu segir frá því að Þórir haustmyrkur nam land í Herdísarvík og Krýsuvík og að Heggur sonur hans bjó að Vogi (Selvogi). Því er freistandi að álykta að Þórir hafi sjálfur búið í Krýsuvík. Lítið er vitað um sögu byggðarinnar gegn um aldirnar. Skipst hafa á skin og skúrir í mannlífinu þar sem annars staðar og mannfjöldi sveiflast upp og niður. Við manntalið 1801 voru 39 í Krýsuvíkursókn og er þá aðeins búið á jörðunum tveim og þremur kotum. Ekki er þá byggð á Vigdísarvöllum.

Stóri-Nýibær

Í fróðlegu viðtali í Lesbók Morgunblaðsins, sem Árni Óla átti við Guðmund árið 1932 segir svo: Hlunnindi eru lítil, trjáreki er þó nokkur og eggja- og fuglatekja í Krýsuvíkurbjargi, en síga verður eftir hverju eggi og hverjum fugli. Í Geststaðavatni, sem er þar uppi í heiðinni, er dálítil silungsveiði. Var silungur fluttur þangað fyrir mörgum árum, að ráði Bjarna Sæmundssonar, og hefur hann þrifist þar vel. Það hefði einhverntíma verið kallað gott bú hjá bóndanum í Nýjabæ: 3 kýr, 14 hross og rúmlega 400 fjár framgengið. En hvað er gott bú nú? „Ég hefi reynt að halda í horfinu“, segir Guðmundur, „og búið hefur ekki gengið saman. En nú er svo komið, að það er einskis virði, nema það sem fæst af því til heimilisins. Í haust sem leið fékk ég 200 krónur fyrir jafnmargar kindur og lögðu sig á 1100 krónur á stríðsárunum. Ull og gærur telur maður ekki lengur. Fyrir 10 punda sauðagæru fékk ég t.d. kr. 1,50 í haust sem leið.“

17 systkini í Stór-Nýjabæ

Krýsuvík

Stóri-Nýibær 1944.

Eftir því sem leið á síðustu öld virðist íbúum hafa eitthvað fjölgað og hef ég heyrt að þeir hafi komist upp undir hundraðið þegar flest var í byrjun þessarar aldar, en það er óstaðfest. Allmargir Hafnfirðingar eiga rætur að rekja til Krýsuvíkur. Hjónin Magnús Ólafsson frá Lónakoti og Þóra Þorvarðardóttir frá Jófríðarstöðum bjuggu í Krýsuvík. Þau eignuðust 5 börn og komust fjögur upp.  Magnús dvaldist síðast á sumrin í Krýsuvík en flutti alfarið til Hafnarfjarðar 1945.
Hjónin Guðmundur Jónsson frá Hlíð í Ölfusi og Kristín Bjarnadóttir úr Herdísarvík voru gefin saman í Krýsuvíkurkirju 8. september 1895 og bjuggu í Stóra-Nýjabæ þaðan í frá til 1933. Þau eignuðust 18 börn og komust 17 á legg. Frá þeim er mikill ættbogi kominn.
Guðrún Runólfsdóttir, langamma þessi sem þetta ritar, fæddist í Krýsuvík 1865. Þá sat þar Sigurður Sverresen sýslumaður og sóknarprestur var Þórður Árnason, bróðir Jóns Árnasonar þjóðsagnaritara.

Krýsuvíkurkirkja

Krýsuvík

Útlit Krýsurvíkurkirkja árið 1810 fyrir endurbyggingu árið 1857.

Kirkja hefur sennilega verið í Krýsuvík frá ómuna tíð en sú sem nú stendur var reist árið 1857 af Beinteini Stefánssyni sem þá bjó á Arnarfelli en flutti síðar á Hvaleyri. Kirkjan fór í niðurníðslu og var endurvígð 1931 og svo aftur í maí 1964 eftir endurbyggingu sem Björn Jóhannesson bæjarfulltrúi stóð fyrir og kostaði af eigin fé. Yfirsmiður við það verk var kunnur Hafnfirðingur, Sigurbent Gíslason, barnabarn Beinteins sem upphaflega byggði kirkjuna. Hún er nú friðlýst og í umsjón Þjóðminjasafnsins [skrifað fyrir 2010 þegar kirkjan brann].

Krýsuvíkurkirkja

Krýsuvíkurkirkja var einföld timburkirkja í Krýsuvík. Hún var byggð árið 1857, endurbyggð árið 1964 og fór þá í vörslu þjóðminjavarðar og komst við það á lista yfir friðuð hús. Altaristafla kirkjunar var málverk eftir Svein Björnsson, listmálara. Krýsuvíkurkirkja var notuð sem sóknarkirkja allt fram undir 1910. Hún var aflögð 1917 og notuð til íbúðar frá 1929, en síðan aftur breytt í kirkju 1963-64 fyrir tilstuðlan Björns Jóhannessonar, fyrrverandi forseta bæjarstjórnar í Hafnarfirði, en Hafnarfjarðarbær færði Þjóðminjasafninu húsið til varðveislu haustið 1964.

Krýsuvíkurkirkja er fábrotin að allri gerð. Ef hún er borin saman við aðrar kirkjur frá svipuðum tíma, t.d. Skútustaðakirkju í Mývatnssveit, og gengið er út frá því að kirkjubyggingar endurspegli efnahag sóknarbarna, þá virðist ljóst að fremur hafi fólk verið fátækt í Krýsuvík um miðja síðustu öld. En Guðs ríki kemur til fátækra og margir skynja þann djúpa frið sem ríkir í þessu litla guðshúsi mitt í tröllaukinni náttúrunni.
Í þessari framhaldsgrein um málefni Krýsuvíkur er fjallað um landamerki hinna jarðanna þar, eignarnám þeirra og afsal til Hafnarfjarðar.

Árni Gíslason

Húshólmi

Húshólmi.

Vorið 1880 urðu nokkur straumhvörf í Krýsuvík. Þá flutti þangað Árni Gíslason sem verið hafði sýslumaður Skaftfellinga og búið að Kirkjubæjarklaustri, en haft annað bú í Holti. Árni þótti búhöldur mikill. Reisulegt tvíflyft timburhús sem hann bjó í hefur verið endurreist á byggðasafninu í Skógum.

Krýsuvíkurkirkja

Krýsuvíkurkirkja – legsteinn Árna Gíslasonar.

Árni var sonur séra Gísla Gíslasonar í Vesturhópshólum. Bróðir Árni var Gísli Gíslasonar, síðari maður Skáld- Rósu, en þau bjuggu nokkur ár hér í Hafnarfirði í Flensborgarverslun og Óseyrarkoti. Árni lét af sýslumannsembættinu þegar hann flutti til Krýsuvíkur, en var þó gjarnan kallaður Arni sýslumaður í almannatali. Hann var einn mesti fjárbóndi landsins og hafði með sér hundruð fjár. Stór hluti þess strauk fljótlega og stefndi á heimaslóðir, en drukknaði flestallt í stórám á leiðinni. Sagt er að ein kind hafi komist alla leið heim í Holt.
Hvers vegna Árni fór frá embætti og eignum fyrir austan er ekki vitað. Það hlýtur að hafa farið gott orð af landkostum í Krýsuvík. Árni lést um síðustu aldamót og hvílir í kirkjugarðinum í Krýsuvík.

Gróðurkort

Gróðurkort af landi Hafnarfjarðar í Krýsuvík.

Landamerkjabréfið
Nokkru fyrir 1890 tóku gildi ný jarðalög sem kváðu á um að fyrir allar jarðir þyrfti að vera til þinglýst landamerkjabréf. Eigandi jarðar þurfti að standa fyrir gerð bréfsins og eigendur allra aðliggjandi jarða að skrifa upp á. Ef ekki voru uppi deilur um landamerki var greiður vegur að ganga frá málum.
Árni Gíslason gerði landamerkjabréf fyrir land Maríukirkju í Krýsuvík sem hann hafði keypt. Bréfið er dagsett 14. maí 1890 og því þinglýst 20. júní sama ár. Þar er Iandamerkjum lýst þannig:
1. að vestan; sjónhending úr Dagon (Raufarkletti), sem er klettur við sjávarmál á Selatöngum, í Trölladyngju fjallsrætur að vestan, sem er útbrunnið eldfjall, norðanvert í Vesturhálsi; þaðan bein stefna í Markhelluhól, háan steindranga við Búðarvatnsstæði.
2. að norðan; úr Markhelluhól, sjónhending norðan við Fjallið Eina í Melrakkagil (Markrakkagil (ofanlínu)) í Undirhlíðum og þaðan sjónhending að vesturmörkum Herdísarvfkur, eða sýslumörkum Gullbringu og Árnessýslu.
3. Að austan; samþykkt og þinglýst vesturmörk Herdísarvíkur, sjónhending úr Kóngsfelli, sem er lág, mosavaxin eldborg, umhverfis djúpan gíg, á hægri hönd við þjóðveginn frá Selvogi til Hafnarfjarðar, örskammt frá veginum, í Seljabótarnef, klett við sjó fram.
4. Að sunnan nær landið allt að sjó.

Krýsuvíkurbúið

Krýsuvíkurbúið.

Allir nábúar skrifuðu upp á bréfið án umtalsverðra athugasemda, þar á meðal bændur á Vatnsleysuströnd sem skiptir miklu máli nú þegar landeigendur þar ásælast hluta landsins vegna jarðhitans. Athugasemd ábúenda Hvassahrauns um að “Markhellu” skyldi breytt í “Markhelluhól” var tekin til greina. Mótmæli séra Odds Sigurðssonar á Stað í Grindavík vegna vesturlandamerkja voru ekki tekin til greina enda var harm ekki aðili að málinu. Ýmislegt áhugavert kemur fram í bréfinu. Staðfest var t.d. að Krýsuvík ætti Sogasel en Kálfatjörn hefði þar sem ítak mánaðarselsetu á sumri hverju. Sogasel er í eldgíg sem er á jarðhitasvæðinu við Trölladyngju.

Landamerkjum breytt

Sýslusteinn

Sýslusteinn.

Áhöld voru um það hvar Melrakkagil væri en með umdeildum dómi 1971 var það ákveðið.
Árið 1980 var gerð “dómsátt” sem breytti landamerkjunum að austanverðu þannig að þau væru ekki beint úr Stóra-Kóngsfelli í Seljarbótarnef heldur úr fellinu í svonefndan Sýslustein og þaðan í nefið. Þetta færði sneið úr Krýsuvíkurlandi yfir til Herdísarvíkur sem er í eigu Háskóla Íslands. “Sáttin” var gerð án aðildar Hafnarfjarðar sem þó á mestu verðmætín á svæðinu, þ.e. jarðhitann í Brennisteinsfjöllum. Bæjaryfirvöld þurfa að krefjast ógildingar á þessum gjörningi. Eignarnámið á fjórða áratugnum fara Hafnfirðingar að sýna áhuga á því að eignast Krýsuvíkurland og beitti Emil Jónsson sér í því máli.
Með lögum nr. 11/1936 var ríkissjóði heimilað að taka eignarnámi lönd í lögsagnarumdæmi Hafnarfjarðar og lönd sem liggja að Hafnarfirði. Heimildin nær m.a. til jarðanna Krýsuvíkur og Stóra-Nýjabæjar sem þá voru í eigu dánarbús Einars Benediktssonar skálds. Gerðu þau ráð fyrir að lönd þessi skyldu seld eða leigð bænum. Þessi lög þóttu óljós og taldi ríkisvaldið ekki unnt að afsala landinu eftir eignarnám á grundvelli þeirra. Því var þeim breytt með lögum nr. 101/1940. Í þeim segir: “Jarðir þær sem um getur í 4. tölulið 1. gr. skal afhenda Hafnarfjarðarkaupstað og Gullbringusýslu, þannig að sýslan fái í sinn hlut lítt ræktanlegt land jarðanna til sumarbeitar fyrir sauðfé, samkvæmt skiptagerð sem framkvæmd var af hinni þar til kjörnu matsnefnd, sbr. niðurlag þessarar greinar, 1. maí 1939. En Hafnarfjarðarkaupstaður fái jarðirnar að öðru leyti með öllum gögnum og hlunnindum, sem jörðunum fylgja og fylgja ber, að undanteknum námuréttindum.”

Afsalið til Hafnarfjarðar

Krýsuvík

Krýsuvík – fjósið 2022.

Afsal var gefið út 20. febrúar 1941, en einungis hluti landsins var lýstur full eign Hafnarfjarðar, þ.e. um 43 ferkílómetrar sem töldust ræktanlegt land og varð það síðar fært undir lögsögu Hafnarfjarðar. Hitaréttindum á öllu landi jarðanna fylgja í afsalinu, þ.e. einnig þau réttindi sem eru utan hins afsalaða landsvæðis. Bærinn hefur rétt til að athafna sig á öllu landinu vegna nýtingar hans. Greiddar voru kr. 44.000 fyrir hin afsöluðu réttindi samkvæmt matsgerð sem fyrir lá auk kostnaðar kr. 6.813,10. Ekki var greitt fyrir námuréttindi sem metin voru á kr.2.000 né lítt ræktanlegt land til sumarbeitar á kr. 5.000, þar sem þessi réttindi voru undanskilin. Greiðsla Hafnarfjarðar var fyrir jarðhita kr. 30.000, ræktanlegt land kr. 10.000, Krýsuvíkurbjarg kr. 4.000 og Kleifarvatn kr. O.
Ekki er kunnugt um að Gullbringusýsla hafi greitt fyrir beitarréttindin og ekki hefur verið gefið út afsal vegna þeirra.

Kúabú í Krýsuvík

Krýsuvík

Krýsuvíkurfjósið.

Tilgangur bæjaryfirvalda með því að eignast Krýsuvíkurland var tvíþættur, að komast yfir jarðhitaréttindin til húshitunar í bænum og að koma upp kúabúi á vegum bæjarins. Meirihluti Alþýðuflokksins í bæjarstjórn stóð fyrir kúabúshugmyndinni gegn króftugri andstöðu Sjálfstæðismanna. Byggð voru heilmikil mannvirki, en hugmyndin komst þó aldrei í framkvæmd.

Umdeilt beitarland og námuréttindi

Seltún

Seltún – námuréttindin í Krýsuvík 1950.

Hér verður ekki farið út í lögskýringu á fyrrgreindum lögum og afsali, slíkt er fremur á færi annarra. Eðlilegt er að Hafnarfjörður krefjist eignarhalds á landinu öllu og láti á það reyna fyrir dómstólum. Það hefur verið undirbúið og er stefna í vændum. Til andsvars eru helst Grindvfkingar, en sá hluti landsins sem ekki var afsalað til Hafnarfjarðar er nú í lögsögu þeirra þó þeir eigi það ekki.
Í eignarnámslögunum kemur fram að ekki skuli afhenda Hafnarfirði námuréttindi, en í greinargerðum kemur fram að átt er við brennisteinsnámur vegna þess að eignarhald á þeim var óljóst eftir að erlendir aðilar höfðu eignast þau.
Í skjóli þessa hefur Landbúnaðarráðuneytið leyft stórfellda vinnslu jarðrefna við Vatnsskarð. Þetta verður að telja fullkomlega óeðlilegt. Engin hefð var fyrir slfkri efnistöku á svæðinu og vafasamt að hún teljist námaréttindi í skilningi eignarnámslaganna.

Hafnfirðingar standi á rétti sínum

Krýsuvíkurkirkja

Krýsuvíkurkirkja.

Ég leyfi mér að fullyrða að Landbúnaðarráðuneytið hefur verið Hafnfirðingum óvilhallt í gegnum tíðina og reynt að draga úr ítökum okkar eins og það hefur getað. Hér að framan var fjallað um breytinguna á landamerkjum 1980 sem gerð var að tilhlutan ráðuneytisins án samráðs við bæjaryfirvöld og vafasama efnistöku. Jafnframt stendur ráðuneytið í vegi þess að landinu sé öllu afsalað til Hafnarfjarðar, hefur margsynjað erindum þess efnis.
Þessu til viðbótar hefur ráðuneytið verið að kanna frekari skerðingu á landinu með breytingu á landamerkjum og fulltrúar þess farið í könnunarleiðangra með öðrum landeigendum í þessu skyni án minnsta samráðs við Hafnfirðinga. Þessari atlögu hefur tekist að hrinda, í bili a.m.k.
Hafnfirðingar þurfa að vera á varðbergi gegn ásælni annarra landeigenda á svæðinu og hlutdrægni ríkisvaldsins og krefjast síns réttar í Krýsuvík skilyrðislaust. Það er alveg ljóst af eignarnámslögunum að ríkinu var ekki ætlað að halda eftir neinum ítökum í Krýsuvfk öðrum en brennisteinsnámum.

Í nœstu grein verður fjallað um jarðhitann í Krýsuvík, mögulega nýtingu hans og samninginn við Reykjavíkurborg 1973 um hitaveitu í Hafnarfirði, en þá var réttindunum að hluta afsalað til Hitaveitu Reykjavíkur.

Í þessari þriðju og síðustu grein um Krýsuvík er fjallað um jarðhitann þar, mögulega nýtingu lians og samninginn við Reykjavíkurborg 1973 um hitaveitu í Hafnarflrði, en þá var réttindunum að hluta afsalað til Hitaveitu Reykjavíkur.

Eðli jarðhitans

Seltún

Í Seltúni.

Jarðhitasvæðum er skipt í tvo flokka. Svokallaður lághiti er á svæðum þar sem ekki er eldvirkni (t.d. Mosfellsbæ). Þar er vatnið oftast innan við 100’C og yfirleitt má nota það beint á dreifikerfi hitaveitna. Háhiti er á eldvirkum svæðum og fær vatnið þá hitann frá bráðinni eða nýstorknaðri bergkviku sem þrengt hefur sér inn í jarðlögin eða orðið eftir við eldgos. Hitastig vatnsins er mun hærra en á lághitasvæðum, allt að 300’C og jafnvel hærra.

Krýsuvík

Borað í Krýsuvík um 1950.

Mikill þrýstingur er á vatninu og ryðst það út sem gufa ef borað er ofan í það og holan höfð opin. Þetta vatn er mettað af uppleystum efnum úr berginu og ekki hægt að nota það beint á dreifikerfi. Viðnám í jarðlögum er vísbending um jarðhita Þegar heitt vatn kraumar í jörðu leysir það upp ýmis efni úr berginu sem verður til þess að vatnið og jarðlögin sem það mettar leiða rafmagn mun betur en ella. Þvf hærri sem hitinn er þeim mun betur leíðir bergið rafmagn. Við rannsóknir á jarðhitasvæðum mæla menn viðnámið gegn rafleiðni. Því lægra sem það er, þeim mun betur leiða jarðlögin rafmagn og þeim mun sterkari vísbending er um jarðhita. Með þar til gerðum tækjum má mæla viðnámið djúpt í jörðu. Með því að kortleggja það á stórum svæðum þar sem jarðhita gætir má fara nokkuð nærri um útbreiðslu jarðhitans og uppstreymi.

Tvö háhitasvæði

Seltún - Trölladyngja

Seltún – Trölladyngja.

Á Reykjanesskaganum eru fimm háhitasvæði sem tengjast jafnmörgum megineldstöðvum. Þetta eru Hengill (Nesjavellir eru innan þess), Brennisteinsfjöll, Sveifluháls-Trölladyngja, Svartsengi og Reykjanes. Af þeim eru tvö í landi Krýsuvíkur og Stóra-Nýjabæjar, Sveifluháls-Trölladyngja og Brennisteinsfjöll, og eru þau sýnd á kortinu sem fylgir greininni.
Svæðin teygja sig bæði út úr Krýsuvíkurlandi og eru hitaréttindin því sameign Hafnarfjarðar og annarra eigenda. Eins og fram kom í síðustu grein eignuðust Hafnfirðingar öll hitaréttindin í landi Krýsuvíkur og Stóra-Nýjabæjar með afsali sem gefið var út 20. febrúar 1941 og greiddi fyrir þau kr. 30.000. Þetta gildir bæði um þann jarðhita sem er á þeim hluta landsins sem bærinn eignaðist og þeim hluta sem átti að vera beitarland Gullbringusýslu.

Sveifluháls-Trölladyngja

Seltún

Seltún árið 1950.

Þetta svæði hefur nokkuð verið rannsakað og tilraunir verið gerðar til nýtingar þess. Svæðið er nokkuð dreift, þ.e. viðnám í jörðu mælist lágt á mjög mörgum stöðum. Við Sveifluhálsinn og víðar er jarðhitinn áberandi á yfirborði, en annars staðar er hveravirkni vart sjáanleg.
Sveifluhálsinn er allur í landi Krýsuvíkur sem og fleiri „augu” á þessu kerfi þar í grennd. Borholan kunna við Seltún er ein nokkurra hola sem þarna hafa verið boraðar, flestar upp úr 1970. Því miður gáfu þær ekki nógu góða raun. Hiti er mikill ofarlega í jarðlögunum (efstu 500 m) en lækkar síðan eftir því sem neðar dregur í stað þess að hækka. Þetta bendir til þess að holurnar séu of fjarri meginuppstreymi hitans sem í raun og veru er ekki þekkt ennþá.
Við Trölladyngju eru tvö mjög álitleg hitasvæði sem kenna má við Sog og Eldborg. Landamæri Krýsuvíkur liggja í gegnum þessi svæði. Ein hola var boruð á Eldborgarblettinum upp úr 1970 og mældist þar hæsta hitastig í borholu á svæðinu öllu eða um 260’C. Hann lækkaði hins vegar þegar neðar kom eins og í öðrum holum sem boraðar voru og olli það vonbrigðum. Heitt svæði við Sandafell er hluti háhitasvæðisins, en það er utan landamæra Krýsuvíkur. Þar hefur ekki verið borað.
Nokkuð er um liðið síðan þetta svæði var rannsakað og holurnar sem boraðar voru þættu ekki merkilegar í dag. Nauðsynlegt er að rannsaka svæðið allt á ný með nýjustu tækni og ef menn hyggja á nýtingu þarf að bora 2 – 4 holur. Efnasamsetning vatns- og gasinnihald bendir til að þarna streymi upp mun heitara vatn en fannst í gömlu holunum eða allt að 290’C. Það væri mjög álitlegt til virkjunar.

Brennisteinsfjöll

Brennisteinsfjöll

Brennisteinsfjöll – Kistufellsgígur.

Háhitasvæðið í Brennisteinsfjöllum er minna rannsakað, þar hafa t.d engar holur verið boraðar. Orkustofnun hefur gert þarna viðnámsmælingar og birti um þær skýrslu haustið 1995. Niðurstöður gáfu skýra mynd af jarðhitasvæði sem þarna er og er það töluvert frábrugðið Sveifluháls-Trölladyngjusvæðinu, myndar meira eina heild eins og sést á kortinu. Hitastig á 700 – 800 m. dýpi er líklega um 240 °C en það gæti verið töluvert hærra á meira dýpi. Þetta svæði virðist efnilegt til nýtingar í framtíðinni. Hér erum við hins vegar komin í stórbrotna og lítt snortna náttúru og fara verður að öllu með gát.

Virkjun jarðhitans

Ögmundarhraun

Ögmundarhraun.

Hagkvæmasta leiðin til að virkja háhitasvæði er að framleiða bæði raforku og heitt vatn. Heita vatnið er þá tekið út borholunum sem gufa við háan þrýsting og látið knýja hverfla og framleiða rafmagn. Afgangur orkunnar er síðan notaður til að hita upp ferskt vatn til húshitunar.

Krýsuvík

Borað í Krýsuvík um 1950.

Ef einungis er framleitt rafmagn nýtast aðeins 10 – 15 % orkunnar, afganginum er kastað á glæ og það telst varla verjanleg nýting auðlindar sem annars myndi varðveitast að mestu í jörðu og nýtast komandi kynslóðum. Til umræðu hefur verið að nýta jarðhitann að hluta til iðnaðar á Straumsvíkursvæðinu og virðist það geta orðið vænlegur kostur. Þá gæti komið til greina raforkuvinnsla, iðnaðaraotkun og framleiðsla heits vatns, allt í senn. Kröfur Kyoto bókunarinnar gera okkur erfitt um vik að byggja frekari iðnvæðingu á brennslu eldsneytis og virkjanir á hálendinu eru umdeildar. Nýting jarðhitans getur skapað tækifæri sem eru laus við þessi vandamál bæði.
Nýtingu jarðhita á svæðum sem þessum má líkja við námavinnslu. Hitinn endurnýjast ekki og klárast því á endanum, nema eldgos eða kvikuinnstreymi eigi sér stað. Jarðhitinn er því ekki endurnýjanleg auðlind á sama hátt og vatnsaflið. Orkuinnihald einstakra svæða getur hins vegar verið geysimikið og kann að endast áratugum eða jafnvel öldum saman ef rétt er að nýtingu staðið.

Aðrir ásælast landið

Sog

Sog í Trölladyngju.

Eins og fram kom í síðustu grein eru rætur Trölladyngju að vestanverðu landamerki Krýsuvíkurlands. Þarna liggja landamærin í gegn um tvo heita reiti við Sog og Eldborg. Jarðirnar Stóra- og Minni Vatnsleysa eiga í þessum reitum einnig og er hlutur þeirra ámóta stór og Hafnfirðinga. Þessir landeigendur hafa talið sig eiga jarðhitann allan og viljað fá landamerkin færð upp í Grænavatnseggjar í fjalllendinu þarna fyrir ofan og notið stuðnings sveitarstjórnar Vatnsleysustrandarhrepps. Leitað var til Landbúnaðaráðuneytisins á árinu 1996 og beðið um atbeina þess í málinu. Eftir að ráðuneytið hafði legið yfir þessu í heilt ár var erindi landeigendanna loks synjað.

Krýsuvík

Borað í Krýsuvík um 1950.

Hafnarfjarðarbær gerði samning við Reykjavfkurborg um hitaveitu í Hafnarfirði. 11. gr. hans hljóðar þannig: „Hitaveitan skal hafa rétt til jarðhitaleitar og virkjunar til húshitunar í eignarlandi Hafnarfjarðarkaupstaðar í Krýsuvík. Ef Hitaveitan rœðst til virkjunar í Krýsuvík ber henni að greiða bœjarsjóði Hafnarfjarðar hlutfallslega sama verð og hitaréttindin hafa kostað Hafnarfjarðarkaupstað samkvœmt mati á hitaréttindunum þegar kaupstaðurinn fékk þau, og hlutfallslegan kostnað hans af rannsóknum, sem fram hafa farið á jarðhitasvœðinu, samkvæmt nánara samkomulagi aðila. Þessi réttur Hitaveitunnar nær eingöngu til húshitunar og annarrar venjubundinnar notkunar Hitaveitu Reykjavíkur. Verðmæti þessi skal meta til verðs á sama hátt og Hitaveita Reykjavíkur notar til endurmats eigna sinna á sama tíma, sbr. 8. gr. Aðilar eru sammála um, að önnur notkun jarðhitans í Krýsuvík verði ákveðin þannig að möguleikinn til virkjunar til húshitunar verði tryggður.” Ekki verður betur séð en að með þessu ákvæði sé Hitaveita Reykjavíkur orðinn eigandi jarðhitaréttindanna í Krýsuvík að miklu leyti. Þó er hugsanleg sú túlkun að jarðhitaréttur bæjarins á því svæði sem hann fékk ekki afsal fyrir (beitarland fyrir Gullbringusýslu) falli ekki undir þetta ákvæði og sjálfsagt að láta á það reyna.

Víti

Víti í Krýsuvík.

Lokaorð
Um þessar mundir er mjög til umræðu hvernig Hafnarfjörður skuli standa að orkumálum í framtíðinni og horft til samstafs við Suðurnesjamenn. Sjálfsagt er eiga samstarf við þá, en það á alls ekki að útiloka samstarf við nýtt orkufyrirtæki Reykvíkinga í þessum málum. En við þurfum að gæta okkar því báðir þessir aðilar ásælast jarðhitann í Krýsuvík. Við þurfum að gæta vel að stöðu okkar og hagsmunum. En við þurfum einnig að huga að því að Krýsuvíkurland er náttúruperla og eitt víðáttumesta útivistarsvæði á Suðvesturlandi. Við verðum að finna leiðir sem gera okkur kleift að nýta auðlindirnar á ábyrgan hátt án þess að spilla landinu varanlega.”

Heimild:
– Fjarðarpósturinn – 40. tölublað (26.11.1998) – I – Krýsuvík – náttúrperla og orkusjóður – Eyjólfur Sæmundsson.
– Fjarðarpósturinn – 41. tölublað (03.12.1998) – II – Krýsuvík – náttúrperla og orkusjóður – Eyjólfur Sæmundsson.
– Fjarðarpósturinn – 42. tölublað (10.12.1998) – III – Krýsuvík – náttúrperla og orkusjóður – Eyjólfur Sæmundsson.

Víti

Víti í Kálfadölum.

Seltún

Ásdís Dögg Ómarsdóttir jarðfræðingur, gönguleiðsögumaður og einn eigenda Asgard ehf. og starfsmaður Fjallakofans hefur smekk fyrir ævintýrum. Hún elskar náttúruna og dýrkar Ísland. Hún deilir hér með okkur gönguleið vikunnar sem er 5 km ganga sem tekur einn og hálfan tíma til tvo tíma að ganga og er erfiðleikstigið 2 á skalanum 1-5. Leiðin er Seltún – Arnarvatn.

Ketilsstígur

Upphaf Ketilsstíg við Seltún.

Hverasvæðið Seltún er staðsett um 40 mínútna akstur frá Reykjavík, við suðvesturenda Kleifarvatns á Reykjanesskaganum. Aksturinn frá höfuðborginni er upplifun útaf fyrir sig, eftir að komið er í gegnum Vatnsskarð. Vegurinn hlykkjast um stórkostlegt landsvæði sem er furðuleg blanda af aðlaðandi svörtum sandströndum og girnilegum grænum lautum og svo skuggalegum móbergsmyndunum og draugalegri jarðhitagufu sem minna mann á að hér er landið okkar unga með vaxtaverki og það þarf ekki mikið til að það teygi sig og hristi. Það er hollt að láta minna sig á að það er náttúran; jörðin sem stjórnar okkur, en ekki við sem stjórnum henni, þegar öllu er á botninn hvolft.

Arnarvatn

Ásdís Dögg Ómarsdóttir á Ketilsstíg.

Það fer ekki á milli mála þegar komið er að Seltúni. Þar rjúka gufustrókar úr hverum, líkt og stórtæk skýjaverksmiðja reki þar starfsemi sína. Veglegt bílastæði tekur á móti manni, sem alla jafna er fullt af bílaleigubílum, rútum og ferðamönnum.

Einu sinni var þarna mikil athafnastarfsemi og brennisteinsvinnsla í blóma. Því miður koma hvorki inn gjaldeyristekjur af brennisteini né ferðamönnum þessa dagana. Það býr þó til meira pláss fyrir okkur sem hér búum, til að njóta.

Arnarvatn

Arnarvatn.

Gengið er upp Ketilsstíg. Auðvelt er að koma auga á göngustíginn sem er merktur með skilti sem stendur við landvarðarhúsið. Leiðin liggur upp aflíðandi brekku að Arnarvatni. Stígur þessi var fjölfarinn um miðja 19. öld þegar brennisteinsvinnslan var á svæðinu. Þá lá hann yfir Sveifluháls norðan Arnarvatns og síðan um Hrauntungustíg til Hafnarfjarðar, og var flutningsleiðin fyrir brennisteininn.

Arnarvatn

Arnarvatn.

Tilvalið er að staldra við hjá Arnarvatni og njóta fagurs útsýnis. Þaðan má meðal annars sjá Stóra- og Litla Lamba­fell, Austurengjahver sem er aflmesti gufuhver Reykjanesskagans og Arnarnýpu sem er hæsti tindur Sveifluhálsins. Á meðan við nutum landslagsins hristist jörðin af eftirskjálftum meginskjálfta dagsins og drunur skriðufalla fylgdu í kjölfarið þetta stórskjálftasíðdegi, 20. október síðastliðinn.

Í logni síðdegissólarinnar staðfesti Veðurstofan síðar að skjálfti, 5,6, hefði riðið yfir fyrr um daginn og við fundum svo sannarlega fyrir eftirköstunum af á göngunni. Það fór ekki fram hjá okkur að stórir grjóthnullungar höfðu fallið í skriðum umleikis í stóra skjálftanum fyrr um daginn. Það var ekki laust við að maður yrði á vettvangi frekar lítill í sér í annars stórbrotinni náttúru skagans við þá sjón.

Folaldadalir

Folaldadalir.

Frá norðanverðu Arnarvatni liggja leiðir til allra átta, s.s. til norðvesturs að Katlinum með framhald að Hrauntungustíg, til suðurs að Hettuvegi yfir að Vigdísarvöllum, til norðurs um Folaldadali – en hringurinn sem við lýsum hér, fer með okkur hálfhring um vatnið og að frábærasta útsýnisstaðnum af þeim öllum, hvernum Pýni austan Baðstofu. Leiðin niður að Seltúni er brött á köflum, og þar þarf að fara varlega því undirlagið er laust í sér, hér getur veri gott að hafa með sér göngustafi.

Seltún

Í Seltúni.

Í lok göngunnar er tilvalið að rölta um veglega stíga háhitasvæðisins í Seltúni og hlusta á hviss og bubbl hveranna er eiga sér þá íslenskulegustu lykt sem til er og njóta litadýrðarinnar sem gefur Landmannalaugum og Sogunum sunnan Trölladyngju á Núpshlíðarhálsi lítið eftir.

Njótið útivistarinnar.

Heimild:
-https://www.mbl.is/ferdalog/frettir/2020/10/23/gonguleid_vikunnar_seltun_arnarvatn/

Arnarvatn

Arnarvatn.

Brennisteinn

Brennisteinn var fluttur út frá Íslandi allt frá 14. öld en hann var nauðsynlegur til púðurgerðar og því gat brennisteinsnám verið arðvænlegt. Konungur áttaði sig á þessu snemma og reyndi mikið að ná undir sig einkarétti á þessari verslun.

Krýsuvík

Krýsuvík – tóftir brennisteinsnámsins í Hveradal.

Bændur áttu brennisteinsnámurnar og unnu í þeim en vinnslan fór þó aðeins fram hluta af ári þar sem vinnuaflið var bundið við landbúnaðarstörf mikinn hluta ársins og hefur það væntanlega komið í veg fyrir að hægt væri að gera brennisteinsvinnslu að arðvænlegum iðnaði. Því varð brennisteinsvinnsla aðeins hliðarbúgrein bænda.
Á miðöldum var íslenski brennisteinninn notaður til hernaðar og var einkum eftirsóttur á 15. og 16. öld þegar farið var að nota byssupúður en brennisteinn var einmitt nauðsynlegur til púðurgerðar þar sem honum var blandað saman við saltpétur og kol.

Brennisteinsnám

Brennisteinsvinnslan í Seltúni á 19. öld.

Brennisteinn var útflutningsvara frá 14. öld en segja má að blómatími brennisteinsverslunar hér á landi hafi verið á 15. og 16. öld. Nokkuð var um brennistein á Íslandi en svo virðist sem brennisteinsvinnsla hafi hafist snemma hér á landi en elsta heimild um brennisteinsnám er frá 1279. Mest er af brennisteini á norðausturhluta og suðvesturhluta landsins og er þar að finna stærstu námurnar, t.d. í Reykjahlíð í Mývatnssveit á Norðausturlandi en í Krýsuvík á Suðvesturlandi. Fyrr á öldum voru heimildir um brennisteinsmagn hér á landi mjög misvísandi. Til dæmis segir í ferðasögu erlends ferðalangs að “nægtir séu svo miklar (af brennisteini), að það land eitt (Ísland) gæti gert allan heiminn birgan af brennisteini.”

Námuhvammur

Tóftin í Námuhvammi oafn við brennisteinsnámurnar.

Í því landbúnaðarsamfélagi, sem var á Íslandi á fyrri öldum, sáu bændur um að vinna brennistein enda engin önnur stétt sem gat unnið þau störf þar sem mestallt vinnuaflið var bundið í sveitum landsins. Því var upptaka brennisteins venjulega í júnímánuði, eða frá þeim tíma sem hestarnir voru búnir að jafna sig eftir veturinn þangað til heyannir byrjuðu. Brennisteininn er að finna á háhitasvæðum og var hann grafinn úr jörðu. Niels Horrebow, erlendur ferðamaður á Íslandi á 18. öld, lýsti aðförunum við moksturinn svona:

Brennisteinsfjöll

Námur í Brennisteinsfjöllum – bræðsluofn.

“Þegar heitt er í veðri þola menn ekki að vinna að brennisteinsgreftrinum á daginn. Þá er unnið á nóttunni, sem á sumrin er nægilega björt til þess. Menn þeir, sem að greftrinum eru, vefja vaðmálsdruslum um skó sína. því að annars myndu þeir brenna þegar í stað, en brennisteinninn er svo heitur, þegar hann kemur úr jörðinni að ekki er unnt að snerta á honum, en hann kólnar fljótt.”

Brennisteinninn, sem grafinn var upp hér á landi, innihélt um 14-22% óhreinindi og þurfti því að hreinsa hann. Fyrr á öldum var hann þó fluttur út óhreinsaður en árið 1753 var á vegum Innréttinganna reist hreinsunarverk í Krýsuvík og árið 1762 á Húsavík. Samkvæmt skýrslu voru um 72,5 tonn af brennisteini frá Krýsuvík flutt út á árunum 1755-1763 á vegum Innréttinganna sem fengið höfðu einkaleyfi til að vinna og hreinsa brennistein um 1752.

Kerlingarskarð

Tóft brennisteinsvinnslumanna undir Kerlingarskarði.

Brennisteinninn var hreinsaður með vatni og lýsi og hann síðan bræddur í járnpotti sem yfirleitt var hitaður upp með mó. Gæta þurfti þess að hita pottinn ekki um of því þá gufaði brennisteinninn upp. Við bræðsluna flutu óhreinindi og lýsi, sem notað var við bræðsluna, ofan á brennisteininum, sem fleytt var af með járnspaða. Brennisteininum var síðan hellt ofan í eikarmót gegnum síu og honum síðan raðað ofan í tunnur til útflutnings.

Verslun með brennistein gat verið arðbær en svo virðist sem bæði kirkju- og konungsvald hafi áttað sig á þessu snemma enda reyndu þau mikið til að afla sér einkaréttar á verslun með brennistein. Landið varð snemma frægt fyrir þetta gula efni en í tilraunum Danakonunga fyrr á öldum til þess að veðsetja landið var talinn mikill kostur að landið væri ríkt af brennisteini.

Kristjánsdalir

Tóft ofan Kristjánsdala í leið námumanna.

Árið 1560 náði konungur undir sig brennisteinsversluninni en hagnaður hans af þeirri verslun fyrsta árið var nokkur. Hagnaðurinn fór síðan minnkandi og mátti m.a. kenna um lágu verði á brennisteini erlendis. Á fyrri hluta 18. aldar lifnaði þó aftur yfir brennisteinsversluninni en árið 1852 var ákveðið að hvíla brennisteinsnámurnar þar sem búið var að fara illa með þær og vinna í þeim í langan tíma en brennisteinninn hafði í raun ekki fengið að endurnýja sig. Undir lok 19. aldar var nokkur brennisteinsvinnsla í Krísuvík. Árið 1951 gerði Íslenska brennisteinsvinnslan hf. tilraun til brennisteinsvinnslu í námum í Suður-Þingeyjarsýslu en sú starfsemi gaf fljótt upp öndina.

Sjá meira undir Fróðleikur.

www.idan.is

Brennisteinsfjöll

Brennisteinsnámurnar í Brennisteinsfjöllum – uppdráttur ÓSÁ.

Sveifluháls

Gengið var af Norðlingahálsi yfir í Folaldadali í Sveifluhálsi um Köldunámur. Haldið var upp úr suðurenda dalanna upp að Arnarvatni, niður í Hveradal með Hnakk og síðan upp Ketilsstíg af Seltúni, yfir Sveifluhálsinn og niður í Móhálsadal.
Sveifluháls, öðru nafni Austurháls, er móbergshryggur (hæstur 395 m.y.s). Hæstu tindar á hálsinum eru Hellutindar, Stapatindar og Miðdegishnúkur. Þeir sjást vel þegar komið er upp á hrygginn milli Norðlingaháls og Folaldadala.

Ferlir

FERLIR á Sveifluhálsi.

Köldunámur eru þarna vestan í Sveifluhálsinum, alllangt frá öðrum jarðhitasvæðum í Krýsuvík. Þar skammt vestur af eru gufuaugu í hraunbolla og nokkur brennisteinn (Leynihver), en í hlíðinni köld jarðhitaskella. Gipsmulningur sést sem bendir til að þar hafi einhvern tíma verið brennisteinshverir.
Þar sem staðið er á hryggnum og horft anars vegar upp að Stapatindum í austri og Hrútargjárdyngju og hraunin í vestri hlýtur þjóðtrú og útilegumenna ð koma upp í hugann. Orðið þjóðtrú er oft notað um trú á yfirnáttúrleg fyrirbæri sem birtist í umhverfinu og náttúrunni.

Sveifluháls

Sveifluháls.

Gísli Sigurðsson segir einhvers staðar að orðið “þjóð” í þjóðtrú vísi til fólks en ekki hugmynda um þjóðir og þjóðríki. Þjóðtrú Íslendinga er því ekki mjög ólík þjóðtrú annarra “þjóða” heldur saman sett úr hugmyndum sem bárust hingað á landnámsöld, bæði frá Norðurlöndum og Bretlandseyjum, í bland við nýsköpun og aðlögun sem hér hefur átt sér stað. Helst má segja að útilegumannatrúin hafi séríslensk einkenni og margt í álfa- og huldufólkstrúnni ber fremur keim af gelískri þjóðtrú meðal Íra og Skota en því sem þekkist meðal Norðmanna.

Sveifluháls

Sveifluháls.

Þessi menningarblanda er í ágætu samræmi við það sem ritheimildir segja um uppruna landsmanna og fellur vel að þeim erfðarannsóknum sem sýna að hér hefur blandast fólk af ólíku þjóðerni frá öndverðu.
Þekking á útilegumönnum er fyrst og fremst komin úr þjóðsögum og því er erfitt að tala um útilegumenn öðruvísi en sem þjóðsagnapersónur – sem dæmi eru um allt frá fornöld í sögum af Gretti sterka. Í munnmælasögum frá 17. öld eru huldudalir í óbyggðum ekki setnir útilegumönnum sem fólki stafar ógn af, eins og algengt er í þjóðsögum Jóns Árnasonar tvö hundruðárum síðar, heldur gengur fé þar sjálfala eða á búum huldufólks.

Folaldadalir

Í Folaldadölum.

Í þjóðsagnasafni Jóns Árnasonar eru útilegamannasögur víða að af landinu, en þó er áberandi að þær eru teknar eftir norðlenskum sögnum, oft skagfirskum og eyfirskum, og sumar úr Biskupstungum sem liggja undir hálendinu. Samverkamaður Jóns, Magnús Grímsson, hefur skráð margar þeirra en af öðrum riturum er Þorvarður Ólafsson oft nefndur. Oft minna útilegumennirnir á tröllslegar vættir á fjöllunum þegar byggðafólkið lendir hjá þeim eftir villur í þoku eða hríð. Yfirleitt hafast þeir við í búsældarlegum afdölum.

Sveifluháls

Á Sveifluhálsi.

Í útilegumannasögunum birtist óskasýn fátækra landsmanna sem bjuggu við válynd veður, og réðu lítt örlögum sínum. Uppi á öræfum gátu þeir ímyndað sér skjólgóða dali sem væru óháðir óblíðum náttúruöflum og óréttlátum lögum, og þar sem fé gengi sjálfala, ástin blómstraði og lífið væri fyrirhafnarlítið í faðmi fjalla blárra og fagurra stúlkna. En útilegumannasögurnar birta líka ógurlega grimmd og ótta við hið óþekkta sem menn hika ekki við að drepa þegar svo ber undir. Þær vitna um þröngsýni og fáfræði sem okkur þykir stundum með ólíkindum hjá fólki sem þurfti að smala saman fé af fjöllunum á hverju ári og leggja leið sína fótgangandi á sauðskinnskóm eða ríðandi um þær ómælisvíðáttur sem hafa nú breyst í vel kortlögð og vinsæl útivistarlönd.

Miðdegishnúkur fór stækkandi á vinstri hönd og Hofmannflöt lá undir hálsinum á þá hægri. Á brúninni var tröllsandlit er fylgdist með mannaferðum úr vestri.

Sveifluháls

Á Sveifluhálsi.

Gengið var um sléttan sendinn dal í miðjum Sveifluhálsi og upp úr honum að Arnarvatni. Svæði þetta er ákaflega tilkomumikið og fallegt þrátt fyrir gróðurfátæktina. Haldið var suður fyrir vatnið og þar beygt til austurs, gengið nuður með Hnakk og stefnan tekin á Hveradal. Kleifarvatnið var framundan, en það er stærsta vatnið á Reykjanesskaga og liggur á milli Sveifluháls og Vatnshlíðar. Það er þriðja stærsta vatnið á Suðurlandi, 9,1 km², og eitt af dýpstu vötnum landsins, 97m.

Sveifluháls

Við Miðdegishnúk á Sveifluhálsi.

Í Hveradal eða Seltúni, eins og svæið allt er jafnan nefnt, varð mikil gufusprenging í októbermánuði 1999. Svartur gufubólstur steig til himins og stór gígur myndaðist þar sem sprengingin hafði orðið. Grjót og drulla dreifðust fleiri hundruð metra frá gígnum. Kaffiskúr sem stóð í um 100 metra fjarlægð frá gígnum eyðilagðist í sprengingunni, rúður brotnuðu og stór steinn féll niður í gegnum þakið á skúrnum. Gígurinn mældist um 43 metrar í þvermáli en drullan dreifðist 700 metra til norðurs frá holunni.

Seltún

Seltún – orkuvinnsla.

Ástæðu sprengingarinnar má rekja til gamallar rannsóknarholu sem Rafveita Hafnarfjarðar lét bora árið 1949. Þegar borað hafði verið niður á 229 metra dýpi þeyttist bormeitillinn og borvírinn upp úr holunni. Þá var lokað fyrir holuna en haldið var áfram að mæla afl og afköst holunnar. Í október 1999 var talið að holan hefði sofnað en líklegra er að hún hafi stíflast af útfellingum. Töluverður þrýstingur hefur þá byggst upp og er talið að þrýstingurinn hafi náð 10-20 bör. Eftir sprenginguna hætti öll gufuvirkni í gígnum en ekki er ólíklegt að virknin komi upp á nýjan leik seinna meir.
Haldið var upp frá hverasvæðinu um Ketilsstíg, yfir Sveifluhálsinn og niður í Móhálsadal um Ketilinn. Af brúninni er fallegt útsýni yfir að Hrútafelli og Núpshlíðarhálsi.
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 3 mín.

Heimild m.a.:
-http://visindavefur.hi.is/svar.asp?id=2065
-http://www.reykjanes.is/Um_Reykjanes/Fjoll/Sveifluhals/
-http://www.os.is/jardhiti/krysuvik.htm

Seltún

Hverasvæðið við Seltún.

Seltún

Í bókinni “Auður úr iðrum jarðar” skrifar Sveinn Þórðarson m.a. um Brennisteinsnám í Krýsuvík og víðar.
Seltun-22“Brennisteinn hefur fyrir víst verið fluttur héðan á tóftu öld og út allar miðaldir..:” Í Árna sögu biskups er vikið að brennisteins-útflutningi eftir fall þjóðveldisins 1262-64. Þar kemur fram að konungur vill nú einkarétt til brennisteinskaupa en áður hafi erkibiskupinn í Niðarósi mátt kaupa hér “frjálslega brennustein og fálka”. Erkibiskup beitti sér gegn þessu áformi konungs og urðu lyktir þær að kirkjan fékk tíund af þeim brennisteini sem fluttur var til Noregs. Engar hömlur virðast hins vegar hafa verið lagðar á það hér á miðöldum að menn græfu sjálfir eftir brennisteini og seldu hann hverjum sem kaupa vildi…
Suðvestanlands, í Krýsuvík og Brennisteinsfjöllum, var grafið eftir brennisteini en í mun minna mæli en fyrir norðan.
Seltun-23Brennisteinn var notaður í hernaði til þess að búa til gríska eldinn sem svo kallðaðist en honum var meðal annars varpað á skip til að kveikja í þeim. Þá var brennisteinn notaður til þess að gera herbrest en honum var ætlað að skjóta óvinum skelk í bringu.
Þegar farið var að nota brennistein til púrgerðar á Norðurlöndum á fimmtándu öld er líklegt að ásókn í brennistein frá Íslandi hafi aukist. Styrjaldi í Evrópu, til dæmis hundraðárastríðið, jók vitaskuld eftirspurnina og hann varð arðvænleg verslunarvara. Enskir kaupmenn keyptu brennistein sem fluttur var landleiðina úr Mývatnssveit að Straumi við Hafnarfjörð. Þjóðverjar keyptu líka talsvert af honum af Íslendingum. Þegar Kristján III (1534-1559) var á dögum reyndi hann að herja út lán hjá Englandskonungi. Var þá um það rætt að Seltun-28veðsetja Ísland og Færeyjar fyrir láninu.
Til þess að gylla Ísland fyrir Englendingum var tekið fram að hér væri gnægð af brennisteini.
Friðrik II (1559-1588) hafði úti öll net og öngla til að hafa sem mestar tekjur af landinu enda runnu þær óskiptar í fjárhirslu hans. Hann áskildi sér einkarétt á brennisteinstekju árið 1561 og lét lengi upp frá því reka brennisteinsnám og verslun með brennistein á sinn kostnað. Lýsi var notað til þess að hreinsa brennisteininn. Konungur tók sér því einkarétt til lýsisikaupa bæði norðan- og sunnanlands og einnig í Noregi 1562…

Seltun-24

Gísli Magnússon, Vísi-Gísli, hafði einkaleyfi til brennisteinstekju um hríð eða frá 1647. Hann missti einkalyfi sitt í hendurnar á auðugum, flæmskum kaupmanni, sem var lánadrottinn Danakonunga árið 1665. Þriðja einkaleyfið var veitt tveim Þjóðverjum árið 1724, en þeir máttu einungis flytja brennisteininn til Danmerkur eða Noregs. Hreinsistöð var reist í Kaupmannahöfn. Sú hreinsistöð var starfrækt til ársins 1729.
Þegar Innréttingar Skúla Magnússonar voru stofnaðar um miðja átjándu öld var komið upp húsi í Krýsuvík árið 1753 til að vinna brennistein á Íslandi. Erfiðlega mun hafa borið við að selja brennisteininn þrátt fyrir að verðinu væri í hóf stillt. Því var það að Norðmaðurinn Ole Hencel var sendur hingað til lands sumarið 1775, en hann var nemandi við námuskólan í Kóngsbergi. skyldi hann meðal annars skoða námurnar norður í landi og í Krýsuvík en þá hafði raunar ekki verið grafið eftir brennisteini þar um alllangt skeið eða frá 1764. enn fremur skyldi hann kynna sér aðferðir sem notaðar voru við brennisteinsnámið og hreinsunina og gera tillögur um úrbætur ef þurfa þætti.

seltun-25

Hreinsunin fór í stuttu máli fram þannig að lýsi var hellt í járnpott þegar brennisteinninn var að því kominn að bráðna og því hrært saman við hann en allur leir blandaðist lýsinu og flaut ofan á. Þegar brennisteinninn var þunnbráðinn var lýsið fleytt ofan af ásamt óhreinindunum og var til þess notuð járnskólfa með götum. Þá var brennisteinninum ausið í gegnum sáld í trémót. Þess var gætt að þau væru gegnsósa af vatni til þess að brennisteinninn festist ekki í þeim.

seltun-26

Hneckel lagði til að brennisteinninn yrði þveginn með vatni, en til þess þurfti annan útbúnað, semhann teiknaði upp. Slíkur búnaður var algengur í námum þar sem grafið var eftir málmsandi.
Sumarið 1812 fór Englendingurinn John Parker til Krýsuvíkur. Undirrót ferðarinnar var stríð bandamanna við Frakka. Árið 1858 keypti breskur plantekrueigandi í Vestur-Indíum, Joseph William Bushby, brennisteinsnámurnar í Krýsuvík af Sigurði Sigurðssyni á Stórahrauni og Sveini Eiríkssyni bónda í Krýsuvík “við afarverði”, eða á 1.400 ríkisdali. 

seltun-27

Bushby hóf þegar að grafa og afla brennisteins og lagði út í mikla fjárfestingar. Hélt hann námurekstrinum áfram tvö sumur en kostnaðurinn við að flytja brennisteininn óhreinsaðan á klyfjahestum til Hafnarfjarðar reyndist mikill svo að eftirtekjan varð rýr. Eftir það fara engar sögur af brennisteinsnámi á hans vegum.
Dr. E.W. Perkins gerði sér ferð til Íslands sumarið 1868 þeirra erinda að skoða og kanna brennisteinsnámurnar í Krýsuvík. Hann hvarf síðan af landi brott en kom aftur umhaustið ásamt tveimur löndums ínum. Hafði þá verið stofnað félag í London, “Krísikrbrennisteinsfélagið”, sem hafði “keypt” námurnar af Bushby samkvæmt því sem segir í Þjóðólfi. Hið rétta er að tveir Bretar, Goeorge Seymour og farðir hans, tóku námurnar á leigu til 14 ára.

Seltun-29

Oddur V. Gíslason var ráðinn verkstjóri við brennisteinsgröftinn sem hófst þá um veturinn. Þennan vetur, 1868-1869, voru tíu og stundum yfir tuttugu manns við brennisteinsgröft í Krýsuvík. Grafnar voru upp 650 lestir af óhreinsuðum brennisteini en gert var ráð fyrir að úr honum mætti vinna ríflega 100 lestir af hreinsuðum brennisteini. Skömmu fyrir jól 1870 fórst skip á leið til landsins á þeirra vegum undir Eyjafjöllum og fara engar sögur af frekara brennisteinsnámi þeirra í Krýsuvík eftir það.
Árið 1872 er getið um Bretann George Thome við brennisteinsgröft í Krýsuvík ásamt bræðrum sínum.
Seltun-30Thomas George Paterson, málafærslumaður frá Edinborg, tók námurnar í Krýsuvík á leigu 1876. Um vorið árið eftir kom til landsins bróðir hans, efnafræðingurinn William Gilbert Spence Paterson, og “útreiknaði brennisteinsjörðina í “Krýsivík”. Ári síðar var stofnað félag, Brennisteinsfélag Krýsuvíkur, sem síðar hlaut nafnið Hið íslenska brennisteins- og kopafélag. Enn var nýtt félag stofnað, Bórax-félagið árið 1882, en forsprakki beggja þessara félaga var Paterson í Edinborg.
Svo hagaði til í Krýsuvík þegar hér var komið við sögu að lítið var orðið eftir af brennisteini ofanjarðar þar sem auðvelt var að ná í hann. Því urðu menn að færa sig ofar í fjallshlíðina og grafa eftir honum þar.
Til þess að koma honum niður eftir var útbúinn rennustokkur og undir hann Seltun-31brugðið krosstrjám. Fyrst var brennisteininum mokað í hann ásamt leir og öðrum óhreinindum. Eftir stokknum rann vatn sem bar brennisteininn með sér. Neðar höfðu verið myndaðir stíflupollar sem öllu var hleypt í, vatninu, brennisteininum og því sem kom upp með honum. Þegar fyrsti pollurinn var orðinn fullur var látið renna í hinn næsta og þannig koll af kolli. Brennisteinninn settist á botninn og þegar búið var að hleypa úr vatninu var honum mokað upp á handbörur og borinn burt.
Brennisteinninn var fluttur á hestum til Hafnargjarðar og geymdur þar uns hægt var að flytja hann úr landi. Í lestunum voru 70-80 burðarklárar. Tveir bátasmiðir frá Skotlandi voru fengnir til þess að smíða stóran bát til þess að flytja brennistein frá námunum yfir Kleifarvatn árið 1870 en leiðin til Hafnarfjarðar eftir Ketilsstíg vestur yfir Sveifluháls var vafalaust ógreiðfær hestum með klyfjar. Við norðurenda vatnsins voru reistir tveir “járnskúrar” eins og þeir voru kallaðir, að öllum líkindum sem geymslur, og einnig var byggt geymsluhús í Hafnarfirði.
Á námusvæðinu í Krýsuvík voru reist tvö hús og voru bæði klædd bárujárni. Hið sama á líklega við skúrinn við Kleifarvatn. Munu þetta hafa verið fyrstu bárujárnshúsin á Íslandi.
Ofangreindum framkvæmdum mun að mestu hafa verið lokið um mitt ár 1880. Þá um sumarið auglýsti Spence Paterson ýmsan varning til sölu tengdum námugröftinum.”
Í fornleifaskráningu svæðisins kemur m.a. fram að “engar sýnilegar minjar sé að finna við Seltún frá brennisteinsvinnslunni” og að námuhúsin framangreindi hafi verið “þar sem nú er bílastæði”. Hvorutveggja er rangt. Námuhúsin stóðu á Seltúnsbarði. Auk þess má sjá minjar bæði norðan við Kleifarvatn og undir Baðstofu vestan Hveradals. Steinsteypuminjar og tréþil í Seltúnslæknum neðan þjóðvegar eru minjar borunar á svæðinu eftir heitu vatni um miðja síðustu öld.
Frábært veður. Gangan tók 4 klst og 4 mín. 

Heimild:
-Sveinn Þórðarson, Auður úr iðrum jarðar, saga hitaveitna og jarðhitanýtingar á Íslandi, XII. bindi, Reykjavík 1998, bls. 113-127.
-Frank Ponzi, Ísland fyrir aldamót, 1995.
-Fornleifaskráning fyrir Krýsuvík og Trölladyngju, 2008.

Seltún

Seltún – ljósmynd Sigfúsar Eymundssonar 1882. Aðstaða brennisteinsvinnsumanna.

Krýsuvík

Í Sögu Hafnarfjarðar má lesa um tilraunir til rafmagnsframleiðslu í Krýsuvík sem og virkjun jarðvarma til húshitunar á miðri síðustu öld, eða stuttu eftir að bærinn fékk hluta Krýsuvíkurlands eftir að íslenska ríkið tók það eignarnámi 1941.
seltunkr-2“Bæjaryfirvöld í Hafnarfirði hófust handa um að láta kanna, hvort unnt yrði að nýta gufuna í Krýsuvík til rafmagnsframleiðslu og ráða þannig bót á þeim annmörkum, sem voru í rafmagnsmálum Hafnfirðinga. Ef vel tækist til, stóðu vonir til þess, að unnt reyndist að ná þeim markmiðum, að sjá Hafnfirðingum fyrir nægri raforku án truflana og spennufalls og einnig rafmagni til stóriðnaðar, og síðast en ekki sízt, að koma upp rafmagnsveitu í bænum.
Haustin 1941 og 1942 voru boraðar þrjár holur í Krýsuvík, 90 m, 145 m og 132 m djúpar við suðurenda Kleifarvatns, og annaðist Rannsóknarráð ríkisins verkið að beiðni Hafnarfjarðarbæjar. Úr holum þessum fékkst hvorki heitt vatn né gufa, en hins vegar mældist töluverður hiti. Hlé var á borunum 1943 og 1944, en vorið 1944 ályktaði bæjarráð að fara þess á leit við ríkisstjórnina, að hún notaði heimild þá, er fólst í þingsályktunartillögu um rannsókn á jarðhitasvæðinu í Krýsuvík.
Haustið 1945 samþykkti bæjarstjórn hafnarfjarðar að hefja jarðboranir á ný í Krýsuvík á grundvelli áætlunar, sem Rafmagnseftirlit ríkisins hafði gert. Tilgangur jarðborananna var að rannsaka möguleika á virkjun jarðvarmans í Krýsuvík til raforkuframleiðslu og einnig að fá hita fyrir gróðurhús og íbúðarhús á staðnum. Í upphafi var notazt við lítinn tilraunabor, sem Jarðborunardeild ríksins átti, en með honum var einungis hægt að bora litlar holur. Árið 1946 festi Hafnarfjarðarbær kaup á stærri bor. Með þeim borunum var ljóst, að unnt var að fá geysimikla gufu í Krýsuvík.
Krysuvik-24Fyrstu árin gengu boranir erfiðlega vegna lítillar reynslu og hins sérstæða jarðvegs, sem bora þurfti. Sumarið 1949 fól bæjarstjórn rafveitustjóra að gera áætlun um kostnað við virkjun á gufu úr borholunum í Seltúni í Krýsuvík til að framleiða raforku, er fullnægði rafmagnsþörf Hafnarfjarðar og nágrennis. Í árslok 1951 var borunum í Krýsuvík svo langt komið, að í holunum voru um 60 tonn af gufu á klukkustund, sem samsvaraði um 7-8000 kw, ef alt væri virkjað. Áætlun var lögð fram um gufuaflsstöð. Bæjarráð samþykkti að óska þess við þingmann Hafnarfjarðar, að hann bæri fram á Alþingi frumvarp til laga um virkjun gufunnar í Krýsuvík. Tveimur dögum síðar, 5. des. 1951, flutti Emil Jónsson á Alþingi frumvarp til laga um virkjun jarðgufu í Krýsuvík. Frumvarpið dagaði upp, ekki síst vegna þess a á sama tíma var unnið að öðrum áfanga Sogsvirkjunar. Þar við bættist, að virkjun á borð við þá, sem fyrirhuguð var í Krýsuvík, var alger nýjung hér á landi og því vart við því að búast, að málið fengi brautargengi þegar í upphafi. Þar með lauk jarðborunum þeim, sem hófust að ráði í Krýsuvík 1945.

Krysuvik-25

Hitaveita frá Krýsuvík komst aftur á dagskrá vorið 1955, en þá var stefnt að samstarfi Hafnarfjarðar og Reykjavíkurborgar um auknar jarðboranir og hagnýtingu gufuorku í Krýsuvík í því skyni fyrst og fremst, að þaðan yrði lögð hitaveita til Hafnarfjarðar og Reykjavíkur.
Síðla árs 1955 hófust viðræðu að frumkvæði Reykjavíkur um fyrirhugaða hitaveitu frá Krýsuvík. Viðræðum var haldið áfram á árinu 1956. Drög að samningi lá fyrir, en ákvörðun var frestar. Í maí 1957 gerði Reykjavíkurborg Hafnarfjarðarbæ tilboð um sameignafélag um virkjun jarðhitans í Krýsuvík. Skortur á nægilega stórvirkum jarðborum hamlaði afgreiðslu málsins.
Meðan á þessum viðræðum við Reykjavíkurborg stóð um heitaveitu í Krýsuvík, voru einnig kannaðir aðrir möguleikar á því að hagnýta jarðhitann þar. Árið 1955 voru gerðar athuganir á því í Krýsuvík á vegum saltvinnslunefndar, hvort unnt væri að nota gufuna þar til að framleiða salt.
Það var ekki fyrr en 1960, að hinn stórvirki jarðbor ríkisins og Reykjavíkurborgar hóf boranir í Krýsuvík. Árið 1963 var gerð grein fyrir þeim árangri, sem náðst hafði við boranir í Krýsuvík, og rannsóknum, sem var verið að gera í nágrenni Hafnarfjarðar í sambandi við jarðhita.
Árið 1964 varð sú stefnubreyting að horfið var frá því að halda áfram borunum í Krýsuvík, enda var ljóst, að hita veita frá krýsuvík krafðist víðtækra undirbúningsrannsókna.

Krysuvik-26

Haustið 1969 gerði Hafnarfjarðarbær samning við Virkni h.f. um, að félagið gerði samanburðarkönnun á hitaveitu fyrir Hafnarfjörð, annars vegar með heitu vatni og hins vegar með rafmagni, frá jarðhitasvæðinu í Krýsuvík eða nágrenni hennar. Niðurstaðan varð sú að hraða skyldi viðræðum um hugsanlega samvinnu við reykjavíkurborg um nýtingu hins mikla jarðhitavatns á Reykjasvæðinu í Mosfellssveit og kaupum á heitu vatni frá Hitaveitu Reykjavíkur. Í nóvember 1971 hófust formelgar viðræður milli Hafnarfjarðarbæjar og Reykjavíkurborgar um hugsanleg kaup á heitu vatni frá Hitaveitu Reykjavíkur til að hita upp hús í Hafnarfirði. Það var samþykkt á fundi bæjarstjórnar 18. okt. 1972.”
Á ferð FERLIRs um fyrrum sögusvið jarðborana til raforku- og hitaveituöflunar í Krýsuvík kom í ljós að ein borholan, sem steypt hafði verið yfir, hafði látið á sér kræla; sprengt af sér byrðinginn og af óhljóðum að dæma undir niðri, virtist til alls líkleg. Skammt frá var önnur borhola þangað til fyrir áratug síðan, en þá sprakk hún í loft upp með tilheyrandi afleiðingum. Líklegt má telja að hinar borholurnar sex láti einnig að sér kveða í náinni framtíð, verði ekkert að gert.
Þess má geta að fyrrum borholusvæðið í Krýsuvík er nú eitt vinsælasta ferðamannaaðdráttarafl hér á landi.
Þrjár ástæður eru fyrir að ekki er enn búið að virkja í Krýsuvík; andvararleysi bæjarfulltrúa, takmörkuð tæknikunnátta fyrrum og frumkvæði annarra á virkjun jarðvarmans utan Krýsuvíkur.

Heimild:
-Ásgeir Guðmundsson, Saga Hafnarfjarðar 1908-1983, II. bindi, Skuggsjá 1983, bls. 31-43.

Seltún

Seltún – borhola 1956.

Seltún

Eftirfarandi er úr grein um sögu brennisteinsvinnslu hér á landi eftir Ingvars Birgirs Friðleifssonar í Lesbók Morgunblaðsins árið 1997:
Krysuvikurnama-5“Þótt Íslendingar hefðu ekki mikil not af jarðhitanum, allavega ekki þegar átti að tíunda hann til skatts eins og í Jarðabókinni, hafði Danakóngur þeim mun meira gagn af brennisteini sem víða finnst á gufuhverasvæðum. Brennisteinn var snemma fluttur út frá Íslandi og varð er fram liðu stundir dýr verslunarvara. Svo virðist sem erkibiskup í Niðarósi hafi á 13. öld haft nokkurs konar einkarétt til að flytja eða kaupa brennistein frá Íslandi, en síðar náði kóngur réttinum undir sig. Ekki er vitað hvað mönnum erkibiskups gekk til að flytja út brennistein, því púðurgerð hófst ekki í Evrópu fyrr en eftir 1400. Lýður Björnsson, sagnfræðingur, hefur komið með þá athyglisverðu tilgátu að prestar hafi ef til vill kveikt í brennisteini í kirkjum sínum til að hrella sóknarbörnin, sýna þeim hvernig Vítislogar líta út og leyfa þeim “að finna lyktina” (Lýður Björnsson, munnlegar upplýsingar 1995).
Á fyrri hluta 16. aldar keyptu Hamborgarar brennistein á Íslandi og varð Danakóngur að kaupa af þeim brennistein til púðurgerðar á krysuvikurnamur-4geypiverði. Árið 1561 forbauð kóngur Íslendingum að selja útlendingum brennistein, nema þeir hefðu sérstakt leyfisbréf. Eftir þetta lét danska stjórnin flytja út brennistein frá Íslandi út 16. öldina og var verslunin svo arðsöm framan af að kóngur hafði eitt sinn 6000 ríkisdala ábata af einum skipsfarmi. Þetta svaraði til 1500-2000 kýrverða sem jafngilda 150-200 milljónum króna í dag. Brennisteinsverslunin var þá helsti arður sem Danir höfðu af Íslandi.
Helstu brennisteinsnámurnar voru í Krýsuvík og Brennisteinsfjöllum á Suðvesturlandi og í Þingeyjarsýslu (Hlíðarnámur í Námafjalli, Fremrinámur, Kröflunámur og Þeystareykjanámur). Fróðlegt er að lesa um hvernig kóngsins mönnum tókst í skugga Stóradóms, sem þá var verið að lögfesta, að sölsa undir sig námuréttindi í Mývatnssveit vegna legorðsmála þar í sveit (sjá Ásverjasögu eftir Arnór Sigurjónsson, 1967).
Í byrjun 17. aldar hætti stjórnin sjálf að kaupa og flytja brennistein enda fór hann þá mjög að falla í verði í Evrópu. Var brennisteinsnámið því í minni metum á 17. og 18. öld og fengu þá ýmsir einkaleyfi til brennisteinsverslunar. Brennisteinsvinnsla var einn liður í Innréttingum Skúla Magnússonar, fógeta, en var lítt arðbær.”

Heimild:
-Ingvar Birgir Friðleifsson, Lesbók Morgunblaðsins 20. sept. 1997, bls. 10-13.

Brennisteinsvinnsla

Brennisteinsvinnsla Við Seltún.

Seltúnssel

Gengið var um Seltún í Krýsuvík og leitað Seltúnsselja, en gamlar heimildir kveða á um sel á túninu (sjá meira HÉR).
JóiSeltún er í Hveradal, en þar hafa orðið talsverðar (reyndar allmiklar) breytingar á landi síðan fyrrum. Síðast sprakk ein borholan í dalnum með miklum látum, en áður hafði hið ævintýralega brennisteinsnám farið þar fram með eftirminnilegum tilfæringum. Einu leifar þess ævintýris er hraukur af brennisteini sunnan Seltúnsgils, en þar var brennisteininum mokað upp eftir að hafa verið þveginn í þremur þróm og síðan fluttur á hestum til Hafnarfjarðar, óunninn. Það var enskt “milljónafélag”, sem að því stóð (sjá meira HÉR).
Þá var gengið upp Ketilsstíg, yfir Sveifluháls, framhjá Arnarvatni og Arnarnípu og niður Ketilinn í Móhálsadal, með hálsinum til suðurs og síðan upp á hverasvæðið er lækurinn um Bleikinsdal niður í Ögmundarhraun rennur úr. Þaðan var gengið áfram upp að Arnarvatni og til baka niður í Hveradal um Ketilsstíg. Um var að ræða létta göngu, 2-3 klst. Falleg gömul þjóðleið að hluta, sem æ fleiri fylgja nú á dögum.
Annars er frábært útsýni norður Sveifluhálsdalina þar sem staðið er norðan Arnarvatns. Þaðan sést vel hvernig hálsinn greinist um gígaröðina sem hann myndaði á síðasta jökulskeiði.
Frábært veður – sól og hiti.

Seltún

Seltún – minjar (ÓSÁ).

 

 

Austurengjar

Í Viðauka 66 af 92 við skýrslu Orkustofnunar OS-2015/04 – Virkjunarkostir til umfjöllunar í 3. áfanga rammaáætlunar, er fjallað um Austurengjar í Krýsuvík. Í Viðaukanum segir m.a.:

Austurengjar

Austurengjar.

“Austurengjar er hluti af mjög stóru jarðhitasvæði sem kennt hefur verið við Krýsuvík. Frá 2006 hefur HS Orka haft rannsóknarleyfi á öllu svæðinu til 10 ára. Margs konar yfirborðsrannsóknum má heita lokið. Næsta skref rannsókna er borun djúpra rannsóknarholna, en holurnar eru nauðsynleg forsenda fyrir mati á orkugetu svæðisins og til að afla upplýsinga um eðliseiginleika sjálfs jarðhitakerfisins eins og hita, þrýsting og lekt.
Austurengjar voru flokkaðar í biðflokk í Rammaáætlun 2, valkostur nr. 67 sbr. kort Rammaáætlunar. Miðað við núverandi skilgreiningu biðflokks er ekki unnt að bora rannsóknarholur á svæðinu, sem kemur í veg fyrir frekari rannsóknir þess.

Austurengjar

Hveraummyndanir á Austurengjum.

HS Orka gerir ráð fyrir að nýta jarðvarma úr Austurengjum fyrir jarðvarmavirkjun til framleiðslu á rafmagni og heitu vatni. Gert er ráð fyrir að svæðið verði virkjað í áföngum, byggt á niðurstöðum jarðfræði- og jarðeðlisfræðirannsóknum, rannsóknarborunum og auðlindamati. Áætlaðar helstu kennistærðir slíkrar virkjunar eru í töflu 1. Ef vilji er til þess af hálfu sveitafélags eða sveitarfélaga sem fara með skipulagsvald á svæðinu mætti gera ráð fyrir því í hönnun virkjunar að upphitun grunnvatns yrði möguleg fyrir staðbundna hitaveitu t.d. fyrir stóran notanda og/eða smærri notendur sem kysu nálægð við orkuver.

Jarðhiti

Viðnámsþversnið niður á 4 km dýpi frá Höskuldarvöllum, undir Trölladyngju, Móhálsadal, Sveifluháls og austur fyrir Kleifarvatn. Miðja háhitasvæðisins er undir Móhálsadal.

Umræða um heildstæða nýtingu Krýsuvíkursvæðisins hefur m.a. snúist um að á því væri unnt að byggja upp virkjanakerfi sem gæti framleitt heitt vatn fyrir notendur á höfuðborgarsvæðinu þ.e.a.s. því svæði sem Nesjavalla- og Hellisheiðavirkjun sjá fyrir heitu vatni. Með þessu fyrirkomulagi yrði afhendingaröryggi heits vatns aukið til muna komi t.d. til umbrota á Hengilssvæðinu.

Reykjanesskagi

Virkjanir og virkjanakostir á Reykjanesskaga.

Svæðið sem hér er kennt við Austurengjar er í lögsögu tveggja sveitarfélaga, Grindavíkur norðan til en Hafnarfjarðar sunnan til. Austurhluti svæðisins er undir Kleifarvatni sunnanverðu og þar suður af, undir Sveifluháls og Móhálsadal að Trölladyngjusvæðinu og þaðan suður af að mörkum þess svæðis sem við kennum við Sveifluháls. Krýsuvíkurvegurinn liggur með Sveifluhálsi austanverðum, fær hvers kyns farartækjum, en slóðar annars staðar.

Sveifluháls

Sveifluháls.

Sveifluháls er um 15 km langur goshryggur, samsettur úr nokkrum móbergshryggjum sem gusu undir jökli. Þeir elstu sýna lítilsháttar jarðhitaummyndun á yfirborði en þeir yngri ekki nema þar sem virkur eða nýlega kulnaður yfirborðshiti hefur leikið um móbergið. Hveravirkni er við og í Kleifarvatni sunnanverðu og í sprungurein þar suður af kenndri við Austurengjar. Vestan Sveifluháls er lítilsháttar jarðhitaummyndun sjáanleg í Köldunámum og Folaldadal, um 10 m2 99°C, heit hitaskella finnst út í hrauni þar vestur af. Vegslóði liggur frá Undirhlíðum suður um Móhálsadal að Djúpavatni. Slóðinn er rútufær en þarfnast styrkingar til að flytja stærri tæki, s.s. bor. Vatn til rannsóknarborunar vestan við Sveifluháls mætti sækja í Djúpavatn, og leita mætti eftir köldu grunnvatni með 150-200 m djúpum holum í Móhálsdal norðanverðum. Austan megin er skolvatn til borana auðsótt í Kleifarvatn.

Seltún

Seltún.

Austurengjar eru innan marka Reykjanesfólkvangs. Í reglum um Reykjanesfólkvang sbr. Stjórnartíðindi B, nr. 520/1975, segir m.a.: „Allt jarðrask er bannað innan fólkvangsins nema leyfi Umhverfisstofnunar komi til. Undanskilin er hagnýting jarðhita, t.d. í Krýsuvík, og mannvirkjagerð í því sambandi“.
Stjórn fólkvangsins hefur látið vinna ágætis lýsingar á almennri jarðfræði, gróðurfari, dýralífi, mannvistarleifum og fleira innan fólkvangsins og er vísað til þeirra hér (Sigrún Helgadóttir, 2004; Hildur A. Gunnarsdóttir, ritsj. 2008). Mýrlendið austan þjóðvegar suður af Kleifarvatni hefur þar nokkra sérstöðu hvað gróður, dýralíf og verndargildi varðar, enda eina mýrlendið á Reykjanesskaganum. Þar eru hross frá Sörla höfð í sumarbeit í afgirtu landi.

Austurengjahver

Austurengjahver.

Suðaustanvert við Kleifarvatn eru rofnir og hálfgrónir móbergshálsar og liggur slóði yfir þá næst Kleifarvatni. Vestan Kleifarvatns er norðurhluti móbergshryggjarins Sveifluháls mest áberandi, með háreista móbergskolla, skörðótta tinda, klettabelti og skriður, með stöku gróðurtorfum og lynghvömmum hér og þar. Vestan Sveifluháls í Móhálsadal er helluhraunsbreiða mest áberandi. Ekkert undirlendi er meðfram Kleifarvatni vestanverðu.
Í matsskyldufyrirspurn til Skipulagsstofnunar um borteig fyrir rannsóknarboranir neðan Hveradals er aðstæðum lýst á svæðinu og þar sem Austurengjar eru í nágrenni þess svæðis eiga lýsingar á ýmsum umhverfisþáttum í fyrirspurninni við um svæðið við Austurengjar. Greinargerð matskyldufyrirspurnar er fylgiskjal með innsendum gögnum HS Orku hf.

Móhálsadalur

Móhálsadalur.

Svæðið sem hér er kennt við Austurengjar nær yfir norðaustur hluta háviðnámskjarnans sem skilgreindur hefur verið með viðnámsmælingum á Krýsuvíkursvæðinu. Miðja svæðisins er í Móhálsadal.
Veruleg skjálftavirkni hefur verið á Krýsuvíkursvæðinu öðru hverju allt frá síðustu aldamótum og þaðan af fyrr. Umtalsvert landris og sig með miðju í Móhálsadal hefur komið fram. Skjálftarnir koma í hrinum sem vara í nokkra dag, en fjöldi þeirra hefur verið meiri austan til á svæðinu. Þar af voru nokkrir skjálftar yfir 5 að stærð. Nokkur virknibreyting hefur sést á hverasvæðunum, einkum ofan við Seltún, en jafnframt komu hverir við suðurenda Kleifarvatns undan vatni er vatnsborð Kleifarvatns lækkaði um nokkra metra í kjölfar aldamótaskjálftans. Ekki hefur tekist að tengja landris eða skjálfta við bráðið berg eða kvikuinnskot undir svæðinu.

Seltún

Seltún.

Rannsóknir og boranir á Krýsuvíkursvæðinu hafa verið talsverðar gegnum tíðina og er þeim lýst nánar í lýsingu HS Orku á Sveifluhálsi fyrir Rammaáætlun 3. Eitt af því sem einkenndi hitaferlana í mörgum þessara holna var viðsnúningur þeirra þ.e.a.s. holurnar voru heitastar á 200-500 m dýpi en kaldari þar fyrir neðan og því ekki fýsilegar til virkjunar. Mælingarnar benda til þess að jarðhitakerfið hitni aftur þegar neðar dregur, einkum nær miðju uppstreymisrása. Rannsóknaboranir munu gefa upplýsingar um á hvaða dýpi kerfið byrjar að hitna aftur og hversu hratt það hitnar og þar með skapast grundvöllur til þess að meta vinnslugetu svæðisins. Eins og sjá má í töflu 2 voru fyrstu 4 holurnar sem boraðar voru á sínum tíma innan Austurengjareinar, 1941-1945, og ein 816 m djúp hola 1971.

Austurengjahver

Austurengjahver.

Staðsetning og stefna 2-3 km djúpra rannsóknarholna HS Orku er ætlað að skera úr um hita og lekt á 1-3 km dýpi. Á Austurengjasvæðinu hefur HS Orka enn sem komið er einungis ráðgert boranir frá hugsanlegum borteigum fyrir stefnuboraðar rannsóknarholur, annar vegar við Kleifarvatn og hins vegar við Köldunámur. Skolvatn til borana yrði sótt í Kleifarvatn í fyrra tilvikinu. Algengt er að efstu 700-1000 m háhitasvæða séu fóðraðir af með steyptum stálfóðringum og að jarðhitavökvi sé unnin úr dýpri jarðlögum. Borun djúpra rannsóknarholna er frumforsenda hvers kyns orkunýtingar á Austurengjasvæðinu.

Austurengjar

Á Austurengjum.

Austurengjareinin sjálf er 5-6 km löng og um 1 km á breidd, eða um 6 km2 að flatarmáli í heild ef nýtanlegur jarðhiti væri eingöngu bundinn við þá rein. Óvissa er um stærðarmatið/orkugetuna án rannsóknarborana, en jarðhitaleit með borunum myndi þó klárlega beinast að reininni sjálfri fremur en jöðrum hennar. Vegna umhverfis- og verndarsjónarmiða væri auðveldast að skoða orkugetu Austurengjareinarinnar með því að teygja sig inn í reinina með stefnuboraðri holu frá vatnsbakka Kleifarvatns suður af Syðristapa. Vestan Sveifluháls væri eðlileg staðsetning fyrstu rannsóknarholu nærri Köldunámum.

Austurengjar

Stöðull á Austurengjum.

Nýtingarsvæði Austurengja liggur að áætluðum nýtingarsvæðum Sveifluháls í suðri og Trölladyngju í vestri. Iðnaðarsvæði og framkvæmdasvæði yrðu innan nýtingarsvæðisins og lega þeirra háð samþykki skipulagsyfirvalda. Ekki er hægt að afmarka framkvæmda- og iðnaðarsvæðið á þessu stigi þar sem það ræðst af niðurstöðum rannsóknarboranna.

Austurengjar

Minjar á Austurengjum.

Áður en vinnsla hæfist úr jarðhitasvæði Austurengja yrði gert reiknilíkan fyrir jarðhitakerfið, byggt á þeirri þekkingu sem þá liggur fyrir. Spár verða gerðar um þrýstingslækkun í jarðhitakerfinu fyrir áætlaða vinnslu. Þessar spár verða bornar undir leyfisveitendur eins og Orkustofnun varðandi gildandi kröfur, til dæmis um sjálfbærni. Mögulegar mótvægisaðgerðir yrðu reifaðar í mati á umhverfisáhrifum, umsókn um nýtingar- og virkjunarleyfi og samráð haft við leyfisveitendur.

Austurengjar

Austurengjar.

Jarðhitavökvi á Austurengjasvæðinu er líklegast ferskvatn að uppruna og samsvarar því þeim jarðhitavökva sem algengur er á öðrum jarðhitasvæðum inn til landsins, rannsóknaboranir munu staðfesta það. Vegna staðhátta á Austurengjasvæðinu verður að vanda til vals á niðurdælingarsvæði. Ekki verður myndað lón við Austurengjar, en mögulega þyrfti þró á iðnaðar- og framkvæmdasvæði virkjunar sem gæti tekið við affalli við stýringu, prófanir eða bilun virkjunar.

Austurengjar

Austurengjar.

Líklega verður orkuvinnsla byggð upp í áföngum og holufjöldi því algerlega háður stærð hvers áfanga. Hér er miðað við að hægt yrði að reisa allt að 100 MWe virkjun á nýtingarsvæðinu, því þyrfti að reikna með að bora þyrfti minnst 20 vinnsluholur og 3-4 niðurdælingarholur fyrir virkjun þessa afls. Ef gert er ráð fyrir að einhverjar holur geti ekki nýst virkjun gæti holufjöldinn í byrjun hækkað um 3-5 holur miðað við almenna tölfræði fyrir rannsóknarboranir á Íslandi. Ómögulegt er að segja fyrirfram til um fjölda uppbótarholna sem þyrfti til að halda fullu afli virkjunar yfir ætlaðan líftíma hennar því það byggir á rekstrarforsendum virkjunar og viðbrögðum viðkomandi jarðhitakerfis. Þannig útreikningar verða hins vegar gerðir þegar niðurstöður rannsóknarborana liggja fyrir, framkvæmdalýsing sett í mat á umhverfisáhrifum og sótt verður um nýtingar- og virkjanaleyfi.

Austurengjar

Stóri-Stampur (sprengigígur) við Austurengjar.

Framkvæmdasvæði getur stækkað nokkuð þegar fjarlægð að niðurdælingarsvæði eykst. Fyrir Austurengjar er reiknað með að borholur yrðu á nokkrum afmörkuðum borteigum sem dregur úr yfirborðsröskun, en á móti gæti komið aukin fjarlægð til niðurdælingaholna. Vegna þessa er hér áætlað að framkvæmdasvæði gæti orðið allt að 6 km2.

Heimild:
-Austurengjar í Krýsuvík: Viðauki 66 af 92 við skýrslu Orkustofnunar OS-2015/04 – Virkjunarkostir til umfjöllunar í 3. áfanga rammaáætlunar.
Austurengjar

Austurengjar og nágrenni – jarðhitasvæði í Krýsuvík.