Tag Archive for: Tvígígahellir

Eldvörp

Stefnan var tekin á Eldvörp. Ætlunin var að reyna að opna leið milli tveggja eldgíga, en í fyrri ferðum FERLIRs á svæðið hafði komið í ljós að ekki væri ómögulegt að komast í gegnum þröngt gat með því að víkka það og síðan um rás úr öðrum gígnum og áfram inn í annan hærri (dýpri). Báðir gígarnir eru um 12 metra djúpir, en hægt er að komast undir þann fremri um gat á hlið hans.

Eldvörp

Eldvörp – Tvígígahellir.

Eldvörp er gígaröð norðvestur af Grindavík. Röðin liggur á réttvísandi sprungurein, líkt og aðrar á Reykjanesskaganum. Eldvörpin eru í rauninni einstaklega falleg gígaröð með fjölmörgum formfögrum gjall- og klepragígum. Í sumum þeirra eru litlir hellar. Við sunnanverða gígaröðina eru t.d. útilegumannaskjól með mannvistarleifum í. Í nyrði hluta hennar eru hyldjúpar hraunsprungur og djúpir gígar. Auk þess má sjá í þeim fjölmargar hraunmyndanir, litasamsetningar og annað er glatt getur auga áhugafólks um jarðfræði.
Nyrsti og efsti hluti Eldvarpanna geyma t.d. fallegt hraundríli, u.þ.b. 8 m djúpt. Í því eru sérkennilegar hveraútfellingar. Ljóst er að Eldvörpin hafa ekki orðið til í einu gosi, en líklegt má telja að þau hafi orðið með stuttu millibili.

Eldvörp

Í Tvígígahelli.

Þegar komið var niður í fremri gíginn blasti við hyldjúp sprunga, sem þunnfljótandi hraunið úr gígunum hafði runnið niður um og smurt veggi hennar slétta. Mikill gustur kom upp um rifuna. Hellasérfræðingur, sem var með í för, stóðst ekki mátið og fetaði sig u.þ.b. 8 metra niður í sprunguna. Þá sást enn önnur eins vegarlengd niður á við. Hann staðnæmdist þó áður og bað aðra um að fylgjast með sér ef hann kæmi ekki upp aftur. Þeir báðu hann í guðana bænum um að fara ekki þessa leið niður á við fyrr en fengist hefði viðhlítandi búnaður. Það væri aldrei að vita hvar hann endaði. Hann varð við þeirri beiðni. Ljóst er að ekki mun líða á löngu að þessi leið verður könnuð til fulls. Ekki er ólíklegt að ætla að hún kunni að liggja niður í stóra hraunrás þar undir.

Eldvörp

Í Tvígígahelli.

Hafist var handa við að víkka opið í gini gígsins. Það gekk bæði vel og fljótt fyrir sig. Haftið reyndist vera þunnt og auðvelt snyrtingar. Þegar hreinsað hafði verið frá var skriðið inn og síðan rás, sem þar var fyrir innan, rakin yfir að efri gígnum. Sennilega eru fáir slíkir staðir til hér á landi og jafnvel í öllum heiminum, sem bjóða upp á aðstæður sem þessar. Þarna er farið undir djúpan gíg, í gegnum rás um undirheimana og yfir í annan gíg, síst lægri. Vel má gera sér í hugalund hvað hafi gengið þarna á á meðan á eldsumbrotunum stóð.

Eldvörp

Í Tvígígahelli.

Í efri gígnum voru fallegir hraungúlpar, sléttlagaðir. Inn úr gígnum liggur rás og síðan upp á við. Önnur liggur annars staðar svo til beint upp á við, alveg undir jarðskelina. Gifs er á veggjum og innri rásir fagurrauðar, sums staðar a.m.k. Þegar horft var upp blasti við blár himininn.
Nú er búið að skapa nýjan möguleika fyrir fólk, sem langar til að skoða stutta hella, kíkja undir og inn í gosgíga og virða fyrir sér stórbrotna sprungurein með öllum þeim gígum, sem henni fylgir – og það einungis eftir stutta göngu.
Hellir þessi hafði ekki fengið nafn, áður en ferðin var farin. Lagt hefur verið til að hann verði nefndur „Tvígígahellir“. Björn Símonarson og fleiri höfðu skoðað þetta hellasvæði áður og þá talið að þarna væri rás á milli.
„Mission completed“.
Frábært skjól var í gígunum meðan regnið barði þá utan.

Myndun Eldvarpa

Eldvörp

Gengið var um norðurhluta Eldvarpa. Þessi hluti er allstórbrotinn, fallegir gígar og hyldjúpir svelgir. Teknir voru GPS-punktar á fjórum þeirra, en ekki reyndist unnt að komast niður í tvo til viðbótar vegna þess hver djúpir þeir voru. Í einum þeirra (sjá myndina) er falleg rás, en band þarf til að komast niður.

Eldvörp

Í Eldvörpum.

Sá fyrsti var 15 metra langur. Á honum voru þrjú op og reyndist hægt að komast niður í hann um nyrsta opið. Annar var um 15 metrar, bogadreginn. Þriðji var litskrúðug hola niður á við er endaði í sal. Litskrúðugir kleprar voru í lofti. Fjórði var með inngang í fallegu gígopi.

Eldvörp

Eldvörp.

Svæðið er eins og ostur. Ekki er að sjá að margir hafi stigið þar niður fæti. Þunnt hraunið brotnar auðveldlega undan fótum og hætta er á að stíga niður úr mosaþakinni skelinni. Landið er stórbrotið og býður upp á óvænta sýn við hvern gíg, hæð eða bugðu.
Í einum gíganna er víð rás. Hún lokaðist að hluta, en með lagni var hægt að komast úr henni inn í ókleifan gíg. Rásin var nefnd Tvígígahellir.

Eldvörp

Í Tvígígahelli.

Gengið var yfir slétt mosahraun, eftir gamalli götu, sem farið er að gróa yfir og inn í stóra og breiða hrauntröð austan við gíg milli Lágafells og Þórðarfells. Tröðin virðist enda í krika eftir 90° beygju, en mjó tröð er þaðan inn í tröð nær gígnum, hærri og fallegri. Í tröðinni er m.a. stórt fallegt skjól. Gengið var um gíginn og upp á hann að norðanverðu. Milli hans og Þórðarfells var op, sem leitað var að eftir lýsingu BH. Gekk vel að finna það. Innan þess reyndist vera um 90 metra langur hellir, um 10-15 metra breiður á köflum, en ganga varð hálfboginn um hann að mestu. Sandur var í botni.
Á bakaleiðinni var gengið inn á gamla götu austan Árnastígs og kom hún inn á hann norðan Eldvarpa. Við gatnamótin er varða.
Árnastígurinn var síðan genginn að upphafsstað.
Í Örnefnaskrám Grindavíkur er gefin eftirfarandi skýring á örnefninu Árnastígur: “ Rétt fyrir suðaustan Klifgjá er vegurinn ruddur og greiðfær. Heitir sá spölur Árnastígur. Árni nokkur, sem fyrrum bjó í Kvíadal, litlu koti í Staðartúni, mun hafa rutt þennan stíg.“
Veður var frábært – sól, lygnt og hiti. Gangan tók 4 klst og 11 mínútur.

Eldvörp

Í Tvígígahelli.