Í Fornbréfasafninu, 287 og síðar, er m.a. fjallað um Grindavíkurstríðið 1532, aðdraganda og eftirmála:
287 – [Um 4. apríl 1532] – [Básendum]
“Afrit af sættargerð milli Ludkens Schmidts og manna hans annars vegar og Roberts Leggde, Thomasar Hirlacks, Harije Fijtzerths og Bartrams Farors hins vegar. Þeir síðarnefndu koma til hafnar að Básendum á páskadag (þann 31. mars 1532), þar sem L. Sm. liggur fyrir, og spyrja hann, hvort hann muni þola þeim hafnarvist. Þeir fá það svar, að þeim sé óheimilt að koma inn í höfnina, sökum þess að L. Sm. hafi tilkynnt Hinriki nokkrum Berndes að hann mundi halda höfninni honum til handa. Þá fær Robert Legghe John Willers í lið með sér og freista þeir á miðvikudagsmorgun eftir páska (þann 3. apríl) að komast inn á höfnina með valdi, lögðu aftan og framan við skip L. Sm. og skutu og slógu hann og menn hans eftir beztu getu. Árásin mistekst, og gáfu árásarmenn upp skip og góss til að bjarga lífi sínu…”.
288 – 16. maí 1532, bls. 539
“Óstaðsett viðurkenning Roberts Legghe og félaga hans á því, að þeir hafi afhent í skip Ludtkyns Smuthe fjörutíu lestir samkvæmt gerðum samningi og skulu það með lausir allra mála út af atburðunum á Básendum.”
290 – 18. júlí 1532 [Reykjavík], bls. 541-542
“Tylftardómur útnefndur af Erlendi Þorvarðarsyni lögmanni til þess að dæma um líflát Jóns Breens og manna hans í Grindavík. – Þar er borið, að Jón Breen hafi tekið með ofbeldi í Grindavík (góss) frá Katli Jónssyni og Þorgrími Halldórssyni, bundið þá og pínt, en hótað Þórði Guðmundssyni að höggva af honum höfuðið, ef hann léti nokkurn fisk af hendi við aðra en Jón og menn hans; einnig hefði hann gripið fisk frá þýzkum kaupmönnum, 20 lestir eða meir; einnig hefði hann hindrað með valdi, aðrir menn flytti fisk sinni burt, og dæmist Jón Breen eftir lögbókarinnar hljóðan ránsmaður og fyllilega af lífi tekinn ásamt fylgjurum sínum, en skip hans og góss fallið undir konung og umboðsmann hans Diðrik frá Mynden. Einnig eiga þeir að dæma um skip og góss, sem rak á land við Básenda í bardaga milli Lutken (Smith) og Joen Wyler og dæmist það fallið undir konung, ásamt öðru, sem bréfið greinir.”
bls. 544-545
Um þessa atburði er nokkrum sinnum getið í íslenzkum heimildum; elzt mun frásögn biskupasagna talin frá því um 1593 (SJ Biskupasögur Bókmenntafélagsins II. b. bls. 237 og 240), merkt a), en textinn tekinn eftir ritgerð Jóns Gissurarsonar; þá kemur frásögn Jóns Egilssonar í Biskupaannálum frá því um 1605 merkt b) og að lokum annálsgrein Björns Jónssonar á Skarðsá frá Ps um 1639, hér merkt c).
a) Á þeim tima lá skip í hverri höfn fyrir sunnan og sums staða ij: þýzkir víðast, utan í Grindavík lágu engelskir. Það bar eitt sinn til á dögum biskups Ögmundar, að engelskir lágu eitt ár í Grindavík á fimm skipum og voru ómildir við íslenzka, svo fólk gat ekki það liðið; réði fólk engu sínu og fékk ekkert fyrir sitt; voru, fyrir mönnum þeirra ij Jónar, kallaður Eldri-Bragur og Yngri-Bragur. Tóku íslenzkir sig þá saman og riðu til Bessastaða, kröfðu höfuðsmanninn, Didrech van Minden, liðveizlu móti slíkum í mennum. Varð hann vel við og sendi strax í alla kaupstaði, því íslenzkir hefðu ella látið illa að honum sjálfum, ef hann hefði ekki við orðið; skipaði hann þýzkum að finna sig við Þórðarfell sem er hjá Grindavík.
Komu þeir saman að kveldi dags í tilsettan tíma, Lxxx menn annars hundraðs og gengu þaðan í Víkina fyrir sólaruppkomu; höfðu engelskir búizt við og gjört sér virki um torf og grjót, en þeir höfðu lítið gagn af því. Hlupu þeir í skip sín, sem það gátu, og sigldu út með iiij skipum, fimmta gátu þeir þýzku náð og drápu xviij engelska, en vij létu þeir lifa og pilt. Fylgdu þeir engelska skipinu til Bessastaða með þeim þýsku sem á það voru látnir, en eitt af hinum fjórum forgekk í Víkinni strax í útsiglingunni, og sökk það þar strax, svo ekki neitt náðist af því.
Ritgjörð Jóns Gissurarsonar, Safn til sögu Íslands, I. b. bls.658, Biskupasögur gefnar út af Hinu ísl. bókmenntafélagi, II. b. Khöfn 1878, bls. 238—’39.
b) Á dögum biskups Ögmundar slógust þeir þýzkir og engelskir í Grindavík og unnu þeir þýzku, því hinir voru ekki við búnir og þýskir villtu fyrir þeim daginn og komu á þá óvart drukkna; þar féllu 14 engelskir, og hét sá Ríki-Bragi, sem fyrir þeim var. Þeir voru dysjaðir í virkinu.
Biskupsannálar Jóns Egilssonar, Safn til sögu Íslands, I. b. bls. 79.
c) Anno 1532. — Var hér á landi í Grindavík einn engelskur kaupmaður, hét Jóhann Breiði. Hann var missáttur við kóngsfóveta á Bessastöðum og vildi ekki gjalda honum toll, sem vera átti. Einninn kom misgreiningur í með þessum Jóhann og Hamborgurum, sem lágu til kaupskapar á Suðurnesjum, og keypti hann og hélt skreið nokkurri, er þeir áttu að hafa, og komu og komu orð með í hvorutveggjum um þessi efni. Gerði sagður Jóhann Breiði sér þá vígi eður virkisgarð skammt frá búðum á Járngerðarstöðum, sem enn sér merki, og gerði orð með spotti þeim Hamborgurum að sækja til sín skreiðina. Tóku þeir sig þá til hinir þýsku menn og Bessastaða fóveti og komu óvart um nótt upp í Grindavík, komust upp í virki Jóhanns og slógu hann til dauðs og alla hans menn, en tóku skip og góss og allt hvað þeir áttu. Þar sést kuml þeirra dysjar hjá virkisgarði.
Skarðsannáll, Annálar 1400—1800 I. b., bls. 92—93.)”
291 – 29. júlí 1532 [Lundúnum], bls. 545-546
Bréf öldurmanna kaupmannagildisins þýzka í Lundúnum (de Staalhof) til borgarstjóra og ráðs í Hamborg. Þeir segja, að á Síðasta ári hafi Englendingar kært fyrir Englandskonungi og ráði hans, að þýzkir sæfarar frá Hamborg og Brimum beittu sig ofbeldi á Íslandi, en af þeim sökum hafi þýskir kaupmenn í Englandi orðið fyrir óþægindum. Þeir fara þess á leit, að borgarstjórnin sjái til þess að Þjóðverjar, sem sigli til Íslands, ástundi friðsamleg samskipti við Englendinga. Nú segja þeir, að kæra hafi borist Englandskonungi á hendur Lutskenn Smith, William Kenet og Jóhanni Sowermer frá Biskups Lynn fyrir að hafa ráðist á skip frá Lynn, sært menn og drepið, rænt skipið, eyðilagt og sökkt því. Þeir senda Hamborgurum kæruskjal Englendinga og biðja þá að gera upptækt skip og góss L. Sm. og taka hann og menn hans höndum og senda Matthias van Emerszen, ritara sinn, til þess að fylgja fram máli sínu, auk annars sem bréfið greinir.”
Heimild;
Fornbréfasafn 287, bls. 537-546.