Gránuhellir

Gengið var um Brunatorfur (Brunntorfur/Brundtorfur) með það fyrir augum að koma við í nálægum seljum, Fornaseli og Gjáseli, og reyna að endurfinna Gránuhelli; fornt fjárskjól.
GjaselFERLIR fann hellinn fyrir nokkrum árum, en týndi honum síðan aftur. Mjög erfitt er að staðsetja opið, einkum þegar allt er gróið að sumri til, en því auðveldara að vetrarlagi. Landslagið þarna er keimlíkt; mosa- og kjarrvaxnir hraunhólar og – hryggir. Hlaðinn gangur er framan við opið á hellinum og inni er rými fyrir u.þ.b. þrjátíu kindur. Birkihríslur eru við opið og þekja þær innganginn að hluta.
Síðan hefur verið farið tíu sinnum á vettvang með það að markmiði að reyna að staðsetja opið, en án árangurs.
Í Örnefnalýsingu Gísla Sigurðssonar fyrir Þorbjarnastaði í Hraunum segir m.a. um selin: “Suður og upp frá lautinni, sem fyrr var nefnd, er Fornasel, sel frá Þorbjarnarstöðum. Má enn sjá, að þrjár hafa verið þarna vistarverur. Selið stendur á Fornaselshæð. Rétt við Selið er vatnsstæði, nokkuð niðurgrafið. Norðan undir hæðinni eru rústir eftir kvíar. Suður og upp frá selinu var Gránuskúti eða Gránuhellir. Suðvestur héðan var Litlaholt og lá milli Straumssels og Hafurbjarnarholts, en um Hafurbjarnar-holtsvörðu lá landamerkjalínan…

Granuhellir-2

Hér vestnorðvestur var Gjásel, sel frá Þorbjarnarstöðum, stoð á Gjáselshæð. Rétt hjá selinu var vatnsstæði. Á hæð skammt suður og upp frá selinu var Gjáselsvarða. Norðaustur frá Gjáselsvörðu (G.G.) voru þversprungnir hólar, Vonduhólar. Frá selinu lá Gjáselsstígur, en hann er nú óglöggur mjög. Upp frá Hrauntungukjafti eru hólar, sem nefnast Skyggnirar. Þar um liggur Hrauntungustígurinn og er ekki vel greinilegur.”
Hér er augljóslega um nokkra misvíxlun að ræða. Í fyrsta lagi er nöfnum seljanna ruglað saman, nema hér sé um sannnefni að ræða og aðrar lýsingar séu rangar. Sannanlega lítur Gjáselið út fyrir að vera eldra en Fornasel af ummerkjum að dæma. Litlaholt er suðvestur af Gjáseli en ekki Fornaseli. Rústir kvía eru norðan undan núverandi Gjáseli, en slíkar eru sunnan við Fornasel. Ef tekið er mið af því að Gjásel hafi verið Fornasel ætti Gránuhellir suður og upp af selinu (Fornaseli skv. örnefnalýsingu). Ekki er loku fyrir það skotið að hellir kunni að leynast suður af Fornaseli og að Gránuhellir, sem fannst og leitað var að nú, kunni að vera gleymdur fjárhellir.

Gjasel-3

Ummerki við hann benda frekar til þess. Leitað hefur verið að meintum helli suður af Fornaseli, en hann ekki fundist (fram að þessu a.m.k. hvað sem síðar verður). Mjög erfitt er að finna skjólin í hrauninu vegna þess hversu smáholt eru mörg og sprungin og jarðföll víða.
Eftir u.þ.b. tveggja klst. leit sunnan og vestan við Gjásel, fannst “Gránuhellir” loks vestnorðvestur af því. Á meðfylgjandi mynd má sjá hluta af hlaðna ganginum niður í hellinn.
Frábært veður. Gangan tók 2 klst og 2 mín.

Heimild:
-Örnefnalýsing fyrir Þorbjarnarstaði.

Gránuskúti

Í Gránuhelli.