Færslur

Brunntorfur

Í Þjóðviljanum helgina 23.-24. ágúst 1980 var viðtal við Björn Þorsteinsson undir fyrirsögninni “Landvinningar á Reykjanesi” um unaðsreiti og löglausan sauðfjárbúskap:

Fornasel

Hér reyndar um Fornasel ofan við Brunntorfur að ræða.

“Reykjanesskaginn hefur jafnan búið yfir mestu aðdráttarafli allra héraða á Íslandi. Björn Þorsteinsson prófessor hefur um áratugaskeið stundað skógrækt í Straumsheiðinni ásamt nokkrum öðrum áhugamönnum um landgræðslu. Þar heitir í Straumsseli. Björn telur Reykjanesskagann vera hið mesta gósenland vegna margvíslegra landkosta og vill friða hann fyrir sauðfé og láta úthluta fólki þar ræktunarlöndum. Við áttum samtal við Björn fyrir skemmstu og þar útlistaði hann sjónarmið sín.
— Já, Reykjanesskaginn hefur jafnan búið yfir mestu aðdráttarafli allra héraða á Íslandi. — Eftir rækilega rannsókn á landkostum sló fyrsti landnámsmaðurinn tjöldum til frambúðar í Reykjavík. Þar var mikið undirlendi, varp- og akureyjar, þar var hægt að rækta bygg og brugga, góð fiskimið, laxár, veiðivötn, selalátur, hvalreki og geirfuglabyggðir skammt undan og fuglabjörg, góðar hafnir, heitar laugar og talsverður reki. Auk þess var beitiland sem aldrei brást á Reykjanesskaga.

Björn Þorsteinsson

Björn Þorsteinsson í Brunntorfum.

Skaginn var skógi vaxinn og þar gekk sauðfé sjálfala frá upphafi vega uns Herdísarvíkur-Surtla féll fyrir hundum og mönnum árið 1952 að mig minnir, sællar minningar. Hvergi var öllum þessum gæðum hlaðið jafn ríkulega á eitt hérað og af því býr þar nú nálega helmingur þjóðarinnar. Skaginn var síðar nefndur Gullbringusýsla, en það mun afbökun. Dönsku umboðsmennirnir hafa kallað Bessastaðaumboðið: Den guld indbringende syssel.
Menn sóttu hingað á Inn- og Suðurnes frá upphafi vega, keyptu sér land eða hótuðu hernaði fengju þeir ekki jarðnæði. Eyvindur í Kvíguvogum hrökklaðist t.d. til Heiðarbæjar undan Hrolleifi Einarssyni Ölvissonar barnakarls. Hér urðu menn að bindast samtökum, stofna til þinghalds og stjórngæslu til þess að verjast hvers konar ágangi. Upphafs allsherjarríkis mun að leita á Þingnesi við Elliðavatn.

Fornasel

Þetta er vatnsstæðið í Fornaseli.

Blm.: Voru ekki útvegsbændur á Reykjanesskaga einhverjir ríkustu menn landsins hér fyrrum?
— Jú, fiskimiðin hafa verið svo stórgjöful við Reykjanes að þar hafa jafnan verið einhverjar bestu verstöðvar landsins. Allt frá því á 15. öld hafa stórveldi glímt um Reykjanesskaga. Ég vil einnig bæta því við að jarðhitinn á Reykjanesskaga er ómældur og lítið nýttur enn. Garðbæingar ættu að vita að laug var í Hliðstúni, en hefur aðeins komið upp síðustu aldir á blásandi fjöru. Volgra var norðan til við Arnarnesi undan Gvendarbrunni, en á Reykjanesskaga heitir fersk uppspretta Gvendarbrunnur. Um skagann liggja mörk skaparans milli austurs og vesturs. Þar skiptir hann veröldinni með eldsprungu sem er nú einna virkust norður í Gjástykki.
Brunntorfur—Skaginn er í rauninni ein af tilraunastöðvum skaparans í landasmíð. Þar æfir hann tilvonandi arkitekta sköpunarverksins áður en hann felur þeim stærri verkefni annars staðar í geimnum.
Þar er hvert náttúruundur öðru meira. Eitt er Kleifarvatn, ævintýravatn, sem menn nýta ekki til neinnar hlítar af því að í því er flóð og fjara, en láðst hefur að binda vatnsborðið. Það er auðgert með um 4 km skurði, en að honum gerðum opnast ómældir möguleikar til fiskræktar og annarrar ræktunar, búsetu og siglinga.
Blm.: Nú er Reykjanesskagi í vitund margra heldur hrjóstrugur. Ert þú á annarri skoðun?
— Já, skaginn er í raun mjög frjósamur, en gróðri var eytt þar gegndarlaust á 19. öld. Eftir 1820 hefur engin stórplága geisað hér landi og sveitirnar yfirfylltust af fólki. Þá flýði það hrönnum til verstöðva og á Vatnsleysuströnd komst fólksfjöldinn upp í um 650 manns árið 1870. Þá var gróðri skagans eytt svo að hann hefur staðið rúinn og eyddur eftir. Ég tel að mikill orkusparnaður yrði að því að veita ræktunarfúsu fólki landspildur á skaganum gegn ræktunarskyldu. Á þann hátt væri hægt að breyta skaganum í sígrænan gróðurreit á 10-15 árum. Fólk við Faxaflóa þarf ekki að æða norður í Aðaldal til þess að tjalda á hrauni. Skaginn er mjög fagur og fjölbreyttur og sökum orkukreppu er brýnt að Faxaflóaþjóðin kynnist því að þar eru dásemdir tilverunnar engu minni enn annars staðar á landinu.

Blm.: — Og því vilt sem sagt friða Reykjanesskaga fyrir sauðfé?
— Já, með því og að úthluta fólki þar ræktunarlöndum vinnst þrennt: Fólki hættir að leiðast, orkuvandinn leysist því að menn losna við að flýja austur á Hérað eða til sólarlanda sér til afþreyingar og nytjaskógar og unaðsreitir munu prýða Reykjanesskagann. Síðast en ekki síst er óhemjukostnaði við girðingar létt af ræktunarmönnum.

Hraunin

Hraunin ofan Straumsvíkur.

Blm.: Hafið þið Straumsheiðingjar orðið fyrir tjóni af völdum sauðfjár í landi ykkar?
— Við erum líklega búnir að planta um hundrað þúsund trjáplöntum síðan við byrjuðum og þó að girðingin sé tvöföld, bæði gaddavír og vírnet, er tjónið ómælt. Það þarf ekki nema eina kind að brjótast inn til að valda miklum skaða. Ísland var og er eignarréttarins land. Hingað komu menn til þess að eignast land og hér voru engir frumbyggjar fyrir, —landið var numið til séreignar, en með því er ekki sagt að eignarrétturinn sé svo heilagur að leggja þurfi í auðn hans vegna heil héröð. Ég tel að eigendur sauðfjár eigi að gæta eigna sinna í heldum girðingum. Þeir eiga að vera ábyrgir fyrir tjóni sem rollurnar valda hjá öðrum. — Það þættu skrýtin lög í landi ef innbrotsþjófar gætu afsakað gerðir sínar með því að læsingar væru ekki nægilega traustar. Hér hafa hirðingjasjónarmið ríkt um aldir og sauðfé verið friðheilagt enda hefur gróðurlendi eyðst  jafnt og þétt eins og hjá öðrum hirðingjum. Mál er að linni og gróðurinn verði friðhelgur.

Hraunin

Hraunin ofan Straumsvíkur.

Blm.: Hvað er til ráða? Hvernig á að breyta alda gamalli hefð?
— Í lögum er og hefur verið um aldir ákvæði um ítölu, ítölu búfjár í haga. — Ítala er ákvörðun eða öllu heldur áætlun um það hve margt búfé hver og einn megi hafa í sameiginlegu beitilandi. Ítala er leyfður fjöldi búfjár frá hverjum nytjanda beitar í sameiginlegt land. Nú mun um þriðjungi fullorðins sauðfjár ofaukið í haga hér á landi. Þennan bústofn verður að skera niður. Enginn, hvorki stétt manna né einstaklingur á minnsta rétt á því að eyða lífríki landsins, leggja gróðurlendi í auðn. Ítöluákvæðinu var framfylgt allstrangt oft á tíðum fram á öld véltækni og fóðurbætis, en eftir það hefur allt gengið úr skorðum. Vistfræðingar okkar eiga að vita nú orðið nákvæmlega hvað hektari gróðurlendis ber af búfé, og auðvitað þolir landið misjafnlega mikið eftir aðstæðum og gróðurfari. Þeir eiga að stjórna ítölu í landið undir forystu landgræðslustjóra með aðstoð stjórnvalda. Allt annað er stjórnleysi eða anarkismi. Útgerðarmenn verða að leggja skipum sínum af því að vernda þarf fiskistofna. Á sama hátt verða bændur að takmarka búsmala sinn af því að vernda þarf gróðurlendi. Landeyðing er höfuðglæpur og íslenskur sauðfjárbúskapur er víða vélvædd rányrkja.

Brunntorfur

Fjárskjólið í Brunntorfum.

Líttu á Grafninginn og uppsveitir Rangárvalla- og Árnessýslu, svo að dæmi séu tekin. Ég veit að núverandi landgræðslustjóri, Sveinn Runólfsson, hefur beitt ítöluákvæðum til þess að draga úr ofbeit á einstökum svæðum en gróðurlendur eru samt á undanhaldi og því má alls ekki una. Menn hafa verið að amast við sumarbústöðum borgarbúa á ýmsum forsendum en þeim fylgir gróður, sauðfjárbúskap og auðn.
Ingvi Þorsteinsson sagði í Þjóðviljanum fyrir hálfum mánuði að Grænland væri ekki ofbeitt enda fallþungi dilka þar meiri en hér. Þetta stafar ekki af framsýni bænda þar í sveitum, heldur af því að þeir setja enn á guð og gaddinn og horfalla árlega, gjörfelldu 1968 og rollubúskapurinn hangir þar á horriminni. Þeir eru litlir ræktunarmenn, en hér er heyöflunin vélvædd og þar með er haldið lífi í hundruðum þúsunda sauðfjár á vetrum og þeim sleppt á úthagann þessa fáu mánuði, sem hér er þíð jörð.
Ef náttúran fær að vera í friði ríkir oftast einhvers konar jafnvægi innan hennar. Nútímabúskapur hefur rofið þetta jafnvægi hjá okkur. Hér eru milljarðar greiddir í verðbætur til bænda til þess að þeir geti eytt landinu, en aðrir milljarðar eru greiddir í landgræðslusjóð. — Þessi háttur skipulagsmála var eitt sinn kenndur við Bakkabræður.
Stórsektir þarf að leggja við landeyðingu — í stað þess að nú er hún verðlaunuð.

Fornasel

Í Fornaseli (Brunnseli?).

Blm.: Þú minntist eitt sinn á það við mig að stofna þyrfti landvinningafélag til þess að herja á auðnirnar, endurheimta þær í ríki gróðursins. Hefurðu gert eitthvað í þeim málum.
— Ég er orðinn ónýtur í öllu félagsstarfi. Hins vegar þykir mér tímabært að gera menningarbyltingu á Íslandi. Hér verða menn að hverfa frá hirðingjamenningu og taka upp ræktunarmenningu. Þeir verða að hætta að trúa á heilaga sauði, og hver maður verður að vera ábyrgur fyrir eigum sínum og þar með sauðkindum, sem valda mér og öðrum óbætanlegu tjóni. Hirðingjar hafa ávallt skilið eftir sig sviðið land, hvort sem þeir búa austur í Mongólíu, suður í Arabíu eða norður á Íslandi.
Blm.: Eiga þá sauðfjáreigendur að girða af sauði sína?
Björn: Í ræktunarlöndum í grennd við þéttbýli á sauðfé ekki að líðast. Það er ómannlegt að leggja þá byrði á ræktunarmenn að girða af hvern skika vegna þess að nokkrir sauðfjárdýrkendur hafa það sér til dundurs að halda skemmdarvörgum til beitar í löndum þeirra. Allir sem vilja rækta land eiga að geta fengið erfðafestuskika að kostnaðarlausu gegn ræktunarskyldu á friðuðu landi. Erfðafestan á að falla úr gildi og landið að ganga aftur til fyrri eiganda, ef ræktunarskyldunni er ekki fullnægt.
Blm.: Þetta hljómar vel, en ríki og bæjarfélög eiga fæst mikið land til slíkra hluta.
Björn: Ef menn nýta ekki landið, eins og t.a.m. Reykjanesskagann, á ríkið að gera slík svæði upptæk til handa þeim, sem eru fúsir til þess að rækta þau. — Hér hefur ræktunarmálum verið mjög litið sinnt. Engin fræðsla er um þau mál innan hefðbundins skólakerfis. Eitt hið fyrsta sem gera þarf er að fræða fólk um það, hvernig hægt er að rækta landið. Ég get best borið um það sjálfur, að vanþekking mín á ræktunarmálum hefur verið mér dýr. —

Fornasel

“Brunnurinn” (vatnsstæðið) í Fornaseli (Brunnseli?).

Ræktunarfræðsla þarf að verða kjörsvið í öllum skólum. Þar á fólk að geta fræðst um undirstöðuatriði í garðrækt, ylrækt, trjárækt og skipulagningu garða og gróðursvæða, og margt annað kæmi til álita, ef mannafli og fræðslu væri til.
Hér er garðyrkjuskóli og útskrifar ágætlega menntað fólk, en þetta ágæta fólk fær mér vitanlega enga þjálfun í því að miðla öðrum af þekkingu sinni, kenna fræði sín. Þekking á lífríkinu í kringum okkur er hverjum manni dýrmætt veganesti. Fræðsla í margs konar náttúrufræðum hlýtur að vaxa í framtíðinni. Ræktunarfræðsla er mikið og vanrækt mál. — Það er ekki á okkar færi að fjalla um það sem skyldi. Menningarbylting verður að vera mjög róttæk ef hún á að standa undir nafni. – G.Fr

Rétt er að geta þess að sel það er fjallað er um í greininni er ekki Straumssel, heldur Fornasel ofan við Brunntorfur (sjá m.a. mynd af vatnsstæðinu við Fornasel, sem sagt er að sé við Straumssel). Fornasel er ofan við Gjásel (þessum seljum er stundum ruglað saman í skrifum), en það hefur einnig verið nefnt “Brunnsel”, sbr. “Brunntorfur”. Straumssel er mun vestar, í svonefnum Almenningum. – aths. ÓSÁ.

Heimild:
-Þjóðviljinn – 191.-192. tölublað (23.08.1980); Viðtal við Björn Þorsteinsson um unaðsreiti og löglausan sauðfjárbúskap á Reykjanesi, bls. 12-13.

Brunntorfur

Í Brunntorfum.

Þorbjarnastaðarborg

Gengið var til vesturs frá hliði við Krýsuvíkurveg að skógræktarsvæði SR skammt sunnan við rallykrossbrautina.

Fornasel

Fornasel – vatnsstæði.

Eftir u.þ.b. 10 mín. göngu eftir ruddri braut var beygt til suðurs inn á rudda braut áleiðis að Brunntorfum. Hægra megin við enda hennar, á mosahraunkantinum, er Þorbjarnarstaðafjárborgin, hlaðin af börnum Þorbjarnarstaðahjóna um aldamótin 1900. Greinilegt er að borgin hefur átt að verða topphlaðinn líkt og Djúpudalaborgin ofan við Selvog. Hætt hefur verið við hleðsluna í miðja kafi því með henni að utanverðu liggja steinar sem og í hrúgum allt í kring.
Varða er á holtinu sunnan borgarinnar. Frá henni eru vörður í suðaustur og einnig til suðvesturs, að Fornaseli.

Fornasel

Fornasel – tóft.

Þegar þeim er fylgt í u.þ.b. 15 mín. er komið að uppréttum steini í vörðu, sem stendur hátt á kletti. Norðvestan hans er Fornasel. Þarna eru nokkrar tóttir, sumar frá því um 1500.
Aðaltóttin er hæst á hæð og við það gott vatnsstæði. Þá eru tóttir bæði norðan og vestan við aðaltóttina. Stekkur er í lægð sunnan við hana. Einnig er að sjá að nálæg jarðföll hafi verið notuð í tenglsum við seljabúskapinn.

Gjásel

Gjásel – uppdráttur ÓSÁ.

Í norðvestur frá Fornaseli, í ca. 15 mín., er Gjásel. Það er einnig á hól skammt utan við skógræktargirðinguna. Breið varða er á hól norðaustan selsins. Það er nokkuð stór tvískipt tótt og er vatnssvæðið þétt norðvestan við hana. Það þornar í þurrkum. Norðan selsins, undir hraunhól, er hlaðinn stekkur undan skúta. Ef gengið er frá vörðunni norðaustan selsins sjást vörður í norðaustri. Næsta er á sprungubarmi og önnur á hól. Frá henni sést vel yfir að veginum í gegnum skógræktarsvæðið og því auðvelt að fylgja honum til baka að upphafsreit. Hraunið þarna er mjög gróið og því mikilvægt að fylgja hæðum og gæta þess að fara ofan við skógræktina sjálfa þegar þegar gengið er á milli seljanna.
Frábært veður.

Fornasel

Fornasel – uppdráttur ÓSÁ.

Stapaþúfa

Gengið var að Ólafsgjá þar sem Ólafur Þorleifsson frá Hlöðuneshverfi féll niður í þann 21. desember árið 1900 og fannst ekki fyrr en um 30 árum síðar (sjá nánar Frásagnir). Við gjána er myndarleg varða. Nefnd gjá er spölkorn ofan við Stóru-Aragjá, um 2.5 km austan núverandi Reykjanesbrautar. Neðar er Litla-Aragjá. Skammt vestan hennar eru gatnamót, annars vegar götu upp í heiðina frá Vogum og hins vegar stígs upp í Brunnastaðasel. Auðveldast er að finna Ólafsgjá með því að taka er mið af stærstu vörðunni á barmi Hrafnagjár og halda í beina stefnu á Kastið í Fagradalsfjalli. Um miðja vegu birtist Ólafsvarðan á gjárbarminum og vísar leiðina á staðinn.

Ólafsvarða við Ólafsgjá

Ólafsvarða við Ólafsgjá.

Frá Ólafsvörðu var haldið að Stapaþúfu og greni skoðuð í Stóru-Aragjá beint neðan þúfunnar. Haldið var til norðurs í Gjásel, 7 keðjuhúsa sel, eitt hið fallegasta á Reykjanesi. Það hvílir undir gjárveggnum. Vestan við það eru tveir hlaðnir stekkir. Tekin var krókur til suðausturs að hinu gamla Hlöðunesseli, en það kúrir í brekku ofan við mikið landrof. Gengið var til suðurs frá því að Brunnastaðaseli. Í því eru tóttir stórra húsa á þremur stöðum. Fallega hlaðin kví er í gjánni aftan við selið. Talsvert ofan við selið er hinn sögufrægi Hemphóll. Á honum er varða.

Þráinsskjöldur

Þráinsskjöldur – einn gíganna.

Lagt var upp frá henni á Þráinsskjöld og ekki staðnæmst fyrr en í grasivöxnum aðalgígnum. Um er að ræða fallega lægð efst á hraunbungunni. Ekki er auðvelt að finna hann, en staðkunnugur heimamaður úr Vogunum var með í för og gerði það leitina auðveldari. Þráinsskjöldur er geysistór hraundyngja, sennilega um 16 þúsund ára gömul, og frá henni hefur komið geysilegt hraunflæmi. Frá miðju hans er langt til allra átta. Frá gígnum blasir Keilir við í norðaustri, Litli-Keilir, Trölladyngja, Núpshlíðarháls. Litli-Hrútur, Hraunsels-Vatnsfell – Stóri-Hrútur, Fagradalsfjall, Mælifell og loks Fagradals-Vatnsfell í norðvestri. Í fjarska sést Snæfellsjökull vel. Aðrar megindyngjur á Reykjanesi eru Sandfellshæðin og Hrútargjádyngja.

Breiðagerðisslakki

Brak á Slysstað ofan Breiðagerðisslakka.

Þegar haldið var niður dyngjuna var gengið yfir greinilega götu er virtist liggja áfram vestan við Keili. Líklega sameinast hún götunni yfir hraunið norðan Driffells er síðan kemur inn á Selsvallastíginn norðan vallanna. Skoðuð voru greni vestast í Eldborgum, auk þriggja refabyrgja, sem þar hafa verið hlaðin. Þá var haldið í Knarrarnessel, en í því eru tóttir þriggja selja. Knarrarnessel er frábrugðið öðrum seljum á Reykjanesi að því leiti að það er ekki í skjóli við gjá eða hæð heldur stendur það á hól. Við það eru bæði hlaðnar kvíar og stekkir. Loks var flak þýskrar njósnaflugvélar skoðað í Breiðagerðisslakka, en hún var skotin niður af bandamönnum í seinni heimstyrjöldinni. Áhafnameðlimurinn var fyrsti fanginn sem Bandaríkjamenn handtóku í stríðinu (sjá meira undir Fróðleikur og Lýsingar).
Gangan tók 5 klst og 3 mín. Veður var stórfínt, sól og gola.

Gjásel

Gjásel – uppdráttur ÓSÁ.

 

 

Bekkjaskúti

Gengið var um Gerðisstíg, að Neðri-hellum, Vorréttinni og Efri-hellum og síðan yfir Seljahraun að klettasvæði sunnan línuvegarins. Hraunið á því svæði, þegar halla tekur til suðurs, er þarna mjög stórbrotið.

Rauðamelsrétt

Í Rauðamelsrétt.

Þá var vent til vesturs inn á Óttarsstaðaselsstíg (Rauðamelsstíg) (Skógargötu) og stefnan tekin til suðurs. Suðvestan af götunni, áleiðis upp í Óttarsstaðasel, í litlu jarðfalli, er Sveinshellir. Hleðslur eru við innganginn, en fyrir honum eru þéttar birkihríslur, sem fylla jarðfallið og loka hellinum svo til alveg. Óttastaðaselsstígurinn var genginn spölkorn til baka en síðan var beygt út af honum til norðausturs og haldið skáhallt yfir hraunið að línuveginum og yfir hraunkantinn norðan hans þar sem það er þrengst (örfáir metrar). Þaðan var greiður gangur niður að Alfaraleið. Við Þorbjarnastaði var litið á Kápuhelli og Gránuskúta, en fyrir honum eru svolitlar hleðslur.

Rauðamelsrétt

Rauðamelsrétt.

Við Neðri-hella er hlaðið gerði í hraunkantinum (Kapelluhraun). Hleðsla er innan við hraunkantinn og hlaðið er fyrir breiða sprungu, gróna í botninn sunnan við hellana. Fyrir meginhellinum er hleðsla.

Efri-Hellar

Efri-Hellar.

Þessir hellar hafa verið notaðir sem fjárskjól. Sama á við um Efri-hella, sem eru þarna skammt ofar, einnig á grónu svæði næri því utan í hraunkantinum. Falleg hleðsla er fyrir munnanum og einnig í jarðfalli skammt austar. Ofan við hellana gnæfir andlitslaga hraunklettur. Sagan segir að við Efri-hella geti verið mikill draugagangur á köflum, líkt og í Hrauntungum, sem eru þarna skammt ofar. Í þeim er einnig hlaðið fyrir fjárskjól, auk fleiri minja.

Vorréttin er undir Kaplahrauni, fallega hlaðinn. Frá henni er greiður gangur út af Gerðisstígnum upp að Kolbeinshæðaskjóli, enn einu fjárskjólinu á svæðinu.
Að þessu sinni var strikið hins vegar tekið yfir Selhraunið, þvert á Straumsselsstíginn og yfir á Óttarstaðaselstíg (Rauðamelsstíg/Skógargötu) og að Bekkjaskúta. Hann er þar uppi í stóru jarðfalli, einnig fallega hlaðið fyrir.

Sveinsskúti

Sveinsskúti.

Austar er Sveinsskúti, en á milli skútanna er hlaðið lítið byrgi, skjól fyrir einn mann. Annars er hraunið þarna einstaklega fallegt, einkum að haustlagi. Ofar er Óttarstaðaselið með Norðurskúta, Tóhólaskúta, Rauðhólsskúta, Nátthaga, stekk, vatnsstæði og öðrum mannvirkjum er prýtt getur eitt sel. Þá er hægt að fylgja Skógargötunni áfram upp í Skógarnef og áfram upp Mosana áleiðis að Trölladyngjusvæðinu.

Þorbjarnastaðir

Þorbjarnastaðir – tilgáta ÓSÁ.

Gengið var í rólegheitum í gegnum hraunið niður að Þorbjarnarstöðum og kíkt á nafngreinda skúta þar. Þorbjarnastöðum tilheyra mörg mannvirki í Hraununum, s.s. Þorbjarnastaðaborgin, líklega Fornasel í Almenningum og jafnvel Gjáselið, fjárhellir ofan við Brunntorfur, heimaréttin og Þorbjarnastaðréttinn suðaustan við bæinn, svo eitthvað sé nefnt. Allt er þetta innan seilingar fyrir þá, sem vilja og nenna að hreyfa sig svollítið í sagnaríku og fallegu umhverfi.
Veður var bjart, stillt og hlýtt. Gangan tók 2 klst og 22 mín.

Vorrétt

Vorréttin.

Ólafsgjá

Gengið var að Pétursborg á Huldugjárbarmi. Ágætir Vogabúar slógust með í för. Eftir u.þ.b. 20 mín gang var komið að Huldugjá. Fjárborgin á barminum er bæði heilleg og falleg. Hún mun vera fyrrum sauðabyrgi frá Tumakoti í Vogum, nefnt eftir Pétri Andréssyni bónda þar (1839-1904), sem talinn er hafa hlaðið borgina. Vesturveggurinn hefur haldið sér nokkuð vel, en austurveggurinn hefur aðhyllst jörðinni – að hluta a.m.k. Fjárhústóftir eru sunnan við borgina.

Arasel

Ara(hnúka)sel – tilgáta.

Frá borginni var stefnan tekin að Arahnúkaseli undir Stóru-Aragjá þar sem hún er hæst. Gjáinn er ein margra er marka landssigið að sunnanverðu í Vogaheiði. Hrafnagjá og Háibjalli markar það að norðanverðu. Þarna eru heillegar tóftir vænlegs sels á skjólgóðum stað með hið ágætasta útsýni niður heiðina að Vogum. Hlaðnir stekkir eru við selið líkt og í öðrum hinum 140 seljum á Reykjanesskaganum.
Þá var stefnan tekin að Stapaþúfu, stundum nefnd Stapaþúfuhóll, norðan Brunnastaðasels. Þúfan er hár kringlóttur hóll. Gamlar sagnir frá 18. öld kveða á um manngerðar hleðslur undir hólnum. Tilgangur ferðarinnar var m.a. að kanna hvort svo gæti verið. Ljóst er að norðanundir hólnum hafa verið gamlar hleðslur er lognast hafa út af. Þó sást enn móta fyrir hleðslum í samræmi við heimildir. Fokið hefur að hólnum og hann gróið upp, en grjótið stendur út undan honum við fótstykkið. Á þúfunni var hreiður með þremur eggjum og bak við stein austan í henni fundust þrír torkennilegir peningar.

Gjásel

Gjásel í heiðinni.

Frá Stapaþúfu var haldið að Gjáslel, einu fallegasta selinu á Reykjanesskaganum. Þar eru, auk stekkjar og kvíar, átta keðjuhústóftir undir gjárveggnum. Líklega er þetta eitt fyrsta raðhús hér á landi. Óvíst er frá hvaða bæ selstaðan þarna var. Það er ekki nefnt í Jarðabókinni 1703. Talið er þó líklegt að Hlöðunesmenn hafi haft þarna í seli, en sel þeirra var þá þarna ofar í heiðinni, en aflagt. Enn sést þó móta fyrir tóftum og stekk hins gamla Hlöðunesssels á stakri torfu, sem nú er að blása upp.

Ólafsgjá

Ólafsgjá og Ólafsvarða.

Haldið var niður heiðina að Ólafsgjá (6357678-2218860) og bæði varðan og gjáin skoðuð. Í gjána féll Ólafur Þorleifsson úr Hlöðuneshverfi á aðfangadag árið 1900 er hann var að huga að fé. Mikil leit var gerð að honum, en hann fannst ekki fyrr en u.þ.b. 30 árum síðar er menn voru að vitja kindar, sem átti að hafa fallið í gjána. Þar sást þá hvar Ólafur sat enn á klettasyllu í gjánni, en fótleggirnir höfðu fallið dýpra niður í hana.

Ólafur Þorleifsson

Bein Ólafs eftir fundinn.

Af verksummerkjum að dæma virtist hann hafa lærbrotnað við fallið í gjána, en reynt að nota göngustaf sinn til að komast upp aftur, en hann þá brotnað. Lengi vel var talið að Ólafi hafi verið komið fyrir í heiðinni og hlutust af því nokkur leiðindi.
Gátan leystist hins vegar 30 árum seinna, sem fyrr sagði. Gjáin, sem er á sléttlendi, er fremur stutt og þröng, en æði djúp. Frásögn af Ólafi og atburði þessum má lesa í Lesbók Morgunblaðsins fyrir nokkrum árum sem og í bókinni Hrakningar og heiðarvegir, 3. bindi, eftir Pálma Hannesson og Jón Eyþórsson.

Loks var gengið í Hólssel ofan Huldugjár og tóftirnar og hleðslurnar í og við hraunhólinn skoðaðar. Hólssel er það sel, sem einna erfiðast er að ganga að sem vísu í heiðinni. Það er á milli þriggja hóla austan við Pétursborgina ofan við Huldugjá.

Pétursborg

Pétursborg.

Í bakaleiðinni var skyggnst eftir Þóruseli, sem á að var stutt frá Reykjanesbrautinni nálægt Vogaafleggjara. Einn staður kemur sterklegar til greina en aðrir; hár klofinn hraunhóll, gróinn bæði að utan- og innaverðu. Sjá má móta fyrir tóftarhlutum utan í honum, í skjóli fyrir suðaustanáttinni. Komið var við í Gvendarstekk skammt ofan við Voga. Ýmislegt bendir til að hann sé gömul fjárborg, en enginn veit nú frá hvaða bæ hann var. Gvendarbrunnur er þarna skammt rá, einn af fjórum á Reykjanesskaganum. Ekki er með öllu útilokað að nafngiftin tengist að einhverju leyti Guðmundi góða, líkt og brunnurinn. Hann gæti t.d. hafa átt viðdvöl þar í skjólinu á leið sinni um Ströndina, án þess að nokkurt sé um það fullyrt. Taldið t.a.m. að sá góði maður hafi aldrei litið marga brunnnafna sína augum, ekki frekar en Grettir grettistökin víða um land.
Að göngu lokinni var þátttakendum boðið í kaffihlaðborð í Vogunum.
Skínandi veður. Gangan tók 3 klst og 33 mín.

Pétursborg

Pétursborg.

Fornasel
Gengið var í gegnum trjáræktarsvæði Skógrækar ríksins sunnan við Hrauntungur með beina stefnu að Laufhöfðavörðu ofan við Laufhöfða, norðvestan Gjásels. Vörður greina Hrauntungustíginn þarna í gegnum norðaustanverðan Almenning, sem nú hefur náð að ala af sér birkikjarr að nýju.
Þá var gengið upp í Gjásel og síðan að LaufhöfðavarðaSteininum sunnan Hafurbjarnarholts, Klofaklettsvörðu, Fjallgrensvörðu, síðan niður í Fornasel og að Þorbjarnarstaðaborginni utan í Háabruna norðvestan við Brunntorfur.
Laufhöfðavarða stendur á klettasnös og vísar leiðina milli Þorbjarnastaða og Gjásels, Fornasels og Fjárborgarinnar (Þorbjarnarstaðaborgar). Vestan vörðunnar eru þrjár smávörður, sem vísa á Illuholu, jarðfall sem gat reynst hættulegt mönnum og búfénaði, sérstaklega að vetrarlagi.
Stígur liggur upp með Laufhöfða frá Alfaraleið sunnan Þorbjarnastaða, svonefndur Straumsselsstígur. Á kafla markar stígurinn djúp för í harða hraunhelluna, sem ber vitni um mikla umferð í langan tíma. “Af honum” neðan Laufhöfða liggur síðan stígur upp í gegnum Gjásel og áfram upp í Fornasel. Þar heldur stígurinn áfram upp í Brunntorfur. Samkvæmt Jarðabókinni 1703 áttu Þorbjarnarstaðabændur selstöðu í Gjáseli; “Selstöðu á jörðin þar sem kallað er Gjásel, en þar eru hagar góðir, en vatn slæmt”, en óljósara er með Staðarhaldara í Fornaseli. Stígurinn liggur hins vegar, varðaður, svo til beint upp í fjárskjól Þorbjarnarstaðabóndans í Brunntorfum. Í Jarðabókinni 1703 segir að Lambhagabændur hafi “brúkað selstöðu ásamt Þorbjarnarstöðum þar sem heitir Gjásel…”. Hið vandkvæða er, og mun síðar verða útskýrt, hvers vegna er einungis ein selstaða í Gjáseli, en tvær í Fornaseli, þar skammt ofar. Gætu nöfnin hafa víxlast?
Steinninn Annar stígur, og mun greiðfærari, frá Straumi liggur upp í Straumssel, um gróið hraun vestan Draughólahrauns. Hann er enn vel greinilegur. Draughóll er kjarri vaxin hæð í miðju kargahrauni norðvestan Straumselshöfða. Villuráfandi sauðir áttu það til að gera fjármönnum lífið leitt er þeir sóttu í kjarrlendið í Draughólahrauni. Smalar reyndu þá að lokka sauðina úr hrauninu frekar en elta þá uppi, enda hraunið sjálft erfitt yfirferðar.
Gjásel er dæmigert sel á Reykjanesskaganum, þrískipt seltóft, stekkur (norðvestan við hraunholtið, sem selið er á) og vatnsstæði (vestan tóftanna). Víðsýnt er frá Gjáseli yfir Hrauntungur og Nýjahraun (Kapelluhraun).
Eftir að hafa skoðað Gjásel var stefnan tekin á Steininn um Hrauntungustíg.
Hrauntungustígur liggur frá Áslandi um Hádegisskarð með Hamranesi og suður yfir Háabruna að Hrauntungum í Almenningi. Þaðan liggur leiðin milli Gjásels og Fornasels, hjá Hafurbjarnarholti upp í hæsta hluta Almennings að Sauðabrekkum. Farið er yfir Sauðabrekkugjá um Mosa vestur fyrir Fjallið eina að Hrútagjárdyngju. Stefnt er á Hrúthólma og farið um helluhraun að Hrútafelli og þá er stutt í Ketilstíginn, sem liggur yfir hálsinn til Krýsuvíkur (Seltúns). Hrauntungustígur sést enn við Krýsuvíkurveginn, einkum milli hans og malarnámu, sem þar er. Malarnámið hefur síðan tekið stíginn í sundur, en hann sést síðan aftur sunnan þess. Þar má rekja sig eftir stígnum í gegnum Hrauntungurnar, framhjá Hrauntunguskjóli og áfram upp með Gjáseli.

Steinninn

Þegar skoðað er “vörðukort” af þessu svæði Almennings má sjá að hinar gömlu leiðir hafa eitthvað “misfarist” á kortum, a.m.k. Hrauntungustígurinn sem og Stórhöfðastígurinn. Þessar leiðir voru jafnan varðaðar. Skv. kortinu, ef vörðunum væri fylgt, ætti Hrauntungustígurinn að liggja í gegnum Fornasel og Stórhöfðastígurinn nokkuð vestar en hann er nú merktur inn á kort.
Steinninn er margsprunginn hraunhæð, sem er á landamerkjum Þorbjarnastaða og Straums. Umhverfis hæðina var gott beitiland, en mosi og lynggróður hafa náð að breyta ásýnd landsins frá því sem áður var. Fuglaþúfa á Steininum vekur athygli þegar horft er á hann frá réttu sjónarhorni. Í raun er Steinninn í austanverðri sprungu hæðarinnar og sést ekki fyrr en komið er að honum. Helsta leiðarmerkið eru tvær vörður á hæðinni. Sú vestari er steinn, sem stendur upp á endann, en skammt frá sprungunni er mjó varða með þremur eða fjórum steinum. Hún sést ágætlega úr fjarlægð, en á flestum hólum á þessu svæði eru litlar vörður er gætu villt fyrir fólki.
Steinninn, eða hraunhóllinn sem hann er í, er nokkurn veginn í suður af landamerkjastöplinum á Hafurbjarnarholti. Stöpullinn sést vel af hólnum. Frá honum sést einnig vel til Klofningskletts í vestri.
Þegar sólin dansar við skýin gleðjast mennirnir. Geislar hennar leika þá við valin svæði. Það sjónarspil er einka fallegt í Almenningi þar sem hver hraunhóllinn, ýmist mosavaxinn eða kjarrivaxinn, skipta litum á víxl eftir gróðrinum. Það gefur regnbogadansi sólarinnar lítið eftir.

Fornaselsvarða

Klofaklettsvarða er toppmjó landamerkjavarða á klofnum hraunkletti efst í hraunbrekkum, sem nefnast Bringur (nokkru vestar). Varðan sést ágætlega frá Steininum. Einnig Gamla Þúfa þar skammt norðnorðvestar. Frá Steininum ber vel á klettinum og varðan er auðþekkjanleg á löguninni. Svæðið ofan Klofakletts er kallað Mosar – líkt og svo mörg önnur í eða við Almenning. “Greinilegustu” Mosarnir eru þó vestan við Skógarnefið þar sem Mosastígur liggur upp með norðanverðu Lambafelli. Í því fallegur klofningshóll þar sem þunnfljótandi hraunið hefur náð að smyrja “klofið” mælt upp yfir handarkrika hærri manna.
Norðan við Litlu-Sauðabrekku og Sauðabrekkugíga er áberandi landamerkjavarða á mörkum Straumslands og Óttarsstaðalands, sem nefnist Fjallgrensvarða og skiptir hinum mosavöxnu Fjallgrensbölum á milli jarðanna, en þar voru áður grösugir hagar. Ofan vörðunnar tekur við nokkuð sléttir mosar á helluhrauni. Grenin eru merkt með dæmigerðum steinum á þremur stöðum og hlaðin skotbyrgi grenjaskyttnanna er þar skammt frá. Á norðurbrúninni verða umskipti; annars vegar er að baki hið daglega amstur, fagurt útsýni er yfir hraunsvæðin norðan Almennings og hin sjálfsagða nálægð við mennina, og hins vegar er framundan hið sérstaka, áskorunin og vonin um sigur á sljóttugri veiðibráð – tófunni. Brúnin hefði þess vegna mátt heiða “Umskiptabrún”.

Fjallsgrensvarða

Fjallsgrensvarða.

Þegar gengið var til baka áleiðis niður að Fornaseli mátti víða sjá fugla fljúga af hreiðrum eða með mat í goggi. Ungar voru greinilega að komast þarna til fugls.
Fornaselsvarða er tignarlega hlaðin og stendur austan við selið. Sá, sem sett hefur stærsta steininn í hana, hefurverið rammir að afli. Nema það hafi verið kona. Varðan vísar á selið (skammt norðvestar) og, að sögn, Hrauntungustíg, forna þjóðleið sem liggur um selshlaðið.
Fornleifarannsókn, sem gerð var 2000-2001 leiddi í ljós að selstaða mun hafa verið í Fornaseli frá u.þ.b. 1550 fram á miðja 19. öld. Grafið var í eldhústóftina sunnan seltóftanna tveggja, sem þarna eru. Þær eru báðar tvískiptar svo þarna hafa verið tvær selstöður, búr og baðstofa í hvoru um sig.
Gott vatnsstæði er við Fornasel. Líklegt má því telja að það hafi jafnan verið nýtt. Landið tilheyrir Þorbjarnarstöðum svo spurningin er hvort nöfn Gjásels og Fornasels hafi víxlast á einhverju tímabili. Það sem einkum styður þessar vangaveltur er það að í Fornaseli eru tvær selstöður, en einungis ein í Gjáseli. Samt áttu bæði Þorbjarnarstaðir og Lambhagi að hafa haft þar selstöðu. Hins vegar er einungis að sjá þar eitt eldhús, sem styrkir líkur á framkominni lýsingu á samnýtingu. Mögulegt er að Lambhagi, eða annar bær í Hraunum, hafi síðar nýtt sér selstöðuna, sem nú er nefnd Gjásel.

Gjáselsvarða

Sagt hefur verið að milli Gjásels og Fornasels liggi stígur um háhrygg Almennings, yfir Brunnhólagjá á jarðbrú, sem tvær smávörður vísa á. Þegar komið er yfir gjána er stefnan tekin á Fjallið eina og þar tekur Hrauntungustígur við. Austan Brunnhólagjár var gjöfult beitiland, svonefndir Brunnhólar, en líka kallaðir Sauðahólar. Trúlega er hér um eina leið af mörgum að ræða um þetta hraunssvæði. Þegar komið er ofan frá Hrúthólma og ætlunin er að feta mögulega leið niður um austanverðan Almenning verða ávallt nokkrir möguleikar úr um að velja. Þegar “vörðukort” er skoðað að svæðinu gefur það tilefni til að ætla að leiðirnar hafi verið fleiri en ein og fleiri en tvær. Og ekki er endilega víst að hver um sig hafi heitið eitthvað umfram annað. Fólk, sem þurfti að fara þarna um tók bara mið af greinilegum kennileitum og hélt sinni stefnu um þetta annars greiðfæra hraunsvæði. Víðast hvar eru góð skjól til áninga og jafnvel má finna þar vatn til að brynna skeppnum. Ágætt dæmi er um slíkt í “afbrigðilegum útidúr” frá Hrauntungustíg. Ef vikið er spölkorn af honum til austurs nokkuð sunnan Sauðabrekkuskjóla má finna þar hið ágætasta vatnsstæði. Að því liggur stígur og síðan áfram inn á hinn fyrrnefna aftur skammt sunnar. Kunnugir hafa að öllum líkindum getað fetað aðrar leiðir en þeir sem minna þekktu til.
 Ofar er Stórhöfðastígur. Hann liggur einnig frá Ástjörn um Hádegisskarð og Ásflatir, sniðhallt yfir Bleiksteinsháls að Hamranesflugvelli og út á Selhraun. Gengið er suður með vestanverðum Stórhöfða þar til komið að suðurhorni hans. Þar sést stígurinn liðast inn á hraunið til suðurs, hlykkjast á hraunhrygg að Bruna og í áttina að Snókalöndum. Þegar þangað er komið er farið yfir Krýsuvíkurveg í áttina að Brunntorfum og Þrísteinavörðum fylgt að Fjallgjá. Gengið er með misgenginu að Fjallinu eina og austanverðum eða vestanverðum (báðar leiðir farnar) fjallsrótum þess fylgt að Hrútargjárdyngju. Þegar farið er að austanverðu kemur að því að mætast Stórhöfðastígur og Undirhlíðavegur, sem fylgja norðanverðum Sveifluhálsi að Ketilsstíg. Þegar farið er að vestanverðu er gengið með norðanverðum Dyngjubökkum um Hrúthólma, framhjá Hrútafelli og inn á Ketilsstíg. Stórhöfðastígur og Hrauntungustígur sameinast Rauðamelsstíg, sem liggur upp frá Óttarsstaðaseli, við Hrúthólma.

Fornaselsvatnsstæði

Á leiðinni til baka niður að Þorbjarnarstaðaborg sýndu rjúpur þátttakendum sérkennilegt háttarlag. Í stað þess að fljúga frá viðkomandi flugu þær að þeim. Það gat einungis gefið eitt til kynna – jarðfætlingarnir voru of nálægt hreiðinu. Ekki var staðnæmst til að skoða hreiðrið, enda keppikeflið að raska sem minnst ró heimabúandi á svæðinu.
Þorbjarnarstaðaborgin var hlaðin af nokkrum barnanna ellefu á Þorbjarnarstöðum um aldamótin 1900. Hleðslulagi hennar og væntanlegu byggingarlagi hefur verið lýst í öðrum FERLIRslýsingum. Hið áhugaverða að þessu sinni var vörðuð leið er frá henni að skúta ofan við Brunntorfur. Vörður liggja þétt yfir hálsinn að hlöðnu fjárskjóli í Brunntorfum, þar sem nú er skógræktarsvæði. Það er há og löng hleðsla fyrir innskot undir háum hraunbakka með op til norðurs. Allt hefur þetta, vörður og aðrar mannvistarleifar, jú ákveðinn tilgang, sem óþarfi er að horfa framhjá.
Gangan tók 4 klst og 4 mín. Frábært veður – mikið fuglalíf er nú í Almenningi.

Heimildir m.a.:
-Ratleikur Hafnarfjarðar 2006.
-Gísli Sigurðsson.
-Ásbjörn (kort).

Steinninn

Steinninn.

Gjáselsvarða

Í örnefnalýsingu fyrir Þorbjarnastaði segir m.a.: “Suður og upp frá lautinni, sem fyrr var nefnd, er Fornasel, sel frá Þorbjarnarstöðum. Má enn sjá, að þrjár hafa verið þarna vistarverur. Selið stendur á Fornaselshæð. Rétt við Selið er vatnsstæði, nokkuð niðurgrafið. Norðan undir hæðinni eru rústir eftir kvíar. Suður og upp frá selinu var Gránuskúti eða Gránuhellir.”

Gránuskúti - Kápuhellir

Allt gekk þetta eftir, nema nafnið. Fornaselið er nokkru ofar (suðaustar) í hrauninu. Um það liggur Hrauntungustígurinn.
Kvín norðan undir klapparhólnum, sem seltóftirnar standa á, er grasi gróin, en í henni sést vel móta fyrir hlöðnum veggjum. Kvín er í góðu skjóli og sérstaklega góður nátthagi skammt norðar (norðvestar). Selið sjálft er dæmigert fyrir seltóftir á Reykjanesskaganum; þrjú rými. Gengið er inn í miðrýmið (sennilega eldhúsið) frá vestri, utan við innganginn eru op til beggja handa (búr og baðstofa). Framan við innganginn er niðurgrafinn brunnur.
Haldið var til suðurs með vestanverðu selstæðinu. Ætla mætti að auðvelt væri að finna nefndan Gránuskúta (Gránuhelli), en því fer fjarri. Allt um kring eru hraunhólar og lægðir. Hafurbjarnaholt er sunnar.
Fyrst var leitað næst selstæðinu, en þegar leitarsvæðið var smám saman útfært til suðurs og vesturs mátti allt í einu og öllum að óvörum, með glöggum augum, greina mikla vegghleðslu í kjarri vöxnum bolla vestan undir hæðunum. Í dag myndi stefnan teljast til vesturs. Við nánari athugun kom í ljós hellisop með miklum fyrirhleðslum. Inni var rúmgott skjól. Mosi við opið benti til þess að þarna hefði ekki nokkur lifandi vera stigið niður fæti um langa tíð. Spurningin er hvort þarna kunni Gránuskúti að hafa verið opinberaður, en um hann hefur jafnan verið fjallað í þátíð hingað til, líkt og hann hafi týnst. Þarna er a.m.k. veglegt fjárskjól og það við sel. Ekki er að sjá að því hafi verið lýst annars staðar – hingað til.
GjáselsvarðanAnnað kemur og til álita. Í örnefnalýsingunni segir m.a.: “Austan við Katlana var Laufhöfðahraun með Laufhöfðavatnsstæði, sunnan undir Laufhöfða. Í brúninni á 
hrauni þessu var Kápuhellir. Landamerkjalínan liggur um Katlana í Jónshöf’ða austast í Straumsselhöfðum ofan Kápuhellis (Gísli Guðjónsson.”

Kápuhellir hefur jafnan verið staðsettur uppi í Laufhöfðahrauninu. Hér er hann staðsettur “í brúninni á hrauni þessu”. Í raun kemur staðsetningin heim og saman við staðsetninguna á fyrrnefndum Gránuskúta. Hann er hins vegar sagður í örnefnalýsingu vera sunnan við selið. Þar er reyndar skúti, góður, en engin mannanna verk umleikis. Ef þetta er Kápuhellir gæti þar verið Gránuskúti.

Kápuskjól

Kápuskjól (Kápuhellir).

“Gjáselsvarðan” svonefnda er, ef betur er að gáð, fjárskjólsvarðan. Sjálfur selsstígurinn liggur svolítið sunnar og framhjá fjárskjólsmunnanum, sem reyndar er að sumarlegi þakinn birkihríslum og því illgreinanlegur.
Svæði þetta er einungis örskammt og í námunda við selið. Að vísu hverfur það óvönum sjáendum á landslagið, en með góðum merkingum væri hægt að gera það alveg sérstaklega aðgengilegt áhugasömu fólki um fyrri tíma lifnaðar- og búskaparháttu. Í selstæðinu, er sem fyrr sagði dæmigerðar húsatóftir, vatnsstæði, kví og fjárskjól. Ef vel væri leitað væri eflaust hægt að finna þar einnig nátthaga (sem reyndar er beint suður af selstöðunni).
Frábært veður. Gangan tók 1 klst og 1 mín.

Heimild:
-Örnefnalýsing fyrir Þorbjarnastaði (GS).

Gjásel

Gjásel

Haldið var inn á og upp Vogaheiði með það fyrir augum að skoða og rissa upp selin, sem þar eru sunnan Knarrarnessels.

Brunnastaðasel

Brunnastaðasel – uppdráttur ÓSÁ.

Nýjaselsballi (af sumum í seinni tíð nefndur Níelsbjalli) liggur út úr efstu tveimur Snorrastaðatjörnunum til norðurs. Bjallinn er nokkuð langt grágrýtisholt, sem sker sig svolítið úr umhverfinu, og því í rauninni ekki eiginlegur bjalli. Hann dregur nafn sitt af litlu seli, sem staðið hefur rétt norðaustan við bjallann. Þar eru tóftir af Nýjaseli og kúra þær í lægð undir lágum gjárvegg, sem snýr til norðurs. Þegar farið er um Skógfellaveginn er selstæðið skammt austan við götuna. Á efri gjárbarminum þarna rétt við selið eru þrjár “hundaþúfur” með stuttu millibili. Selið hefur tilheyrt bændum í Vogum og líklega byggst eftir að selstaða lagðist af ofar í heiðinni eða þá að þarna hafi eingöngu verið kúasel. Rétt norður af selinu eru grasgefnir hólar, sem gætu heitið Selhólar, en heimildir eru til um það örnefni á þessum slóðum.
Í Nýjaseli eru þrjár tóftir. Miðtófin er þremur rýmum og er sennilega hluti hennar stekkur eða kví. Tóftirnar sunnan og norðan við hana eru eitt rými hvor, nokkurn veginn jafn stórar. Þarna eru því dæmigerðar selstóftir frá fyrri tíð. Þær eru fremur litlar, en á skjólgóðum stað undir lágum hamrabakkanum, ekki svo langt frá norðurenda Snorrastaðatjarna. Aðskildar tóftirnar, og hversu lítil húsin eru, benda til þess að þara hafi verið kúasel, sem fyrr segir.
Snorrastaðasel er norðvestan tjarnanna. Ein heimild er til um selið sem segir að það hafi verið frá bæjum í Vogum. Í því eru einnig þrjár kofatóftir. Selið er einnig nálægt byggð og við vatn er bendir til að í þeim hafi eingöngu verið hafðar kýr. Tóftirnar voru ekki heimsóttar að þessu sinni, en verða rissaðar upp fljótlega.
Huldugjá er næsta gjá ofan við Nýjaselsbjalla. Huldur nefnast svæðið milli Hrafnagjár, sem er næst Reykjanesbrautinni að ofanverðu, og Huldugjár. Tvær skýringar hafa verið gefnar á nafninu. Önnur er sú að vegna þess að Huldur er jarðsig milli Hrafnagjár og Huldugjár (gjáveggirnir snúa andspænis hvor öðrum) er allt á “huldu” um það sem fjær er, Hitt er þó líklegra að nafnið Huldur komi til af því að austast á svæðinu eru margar litlar, en djúpar sprungur, sem geta verið varasamar ef snjór liggur yfir og því er unnt að tala um “huldar hættur” á þessum slóðum.
Á Huldugjárbarmi er Pétursborg, fyrrum sauðabyrgi frá Tumakoti í Vogum, nefnt eftir Pétri Andréssyni, bónda þar (1839-1904), en hann er sagður hafa hlaðið borgina. Hún er sporöskjulöguð og austurveggurinn er hrauninn að mestu. Lengd borgarinnar er 6-7 m, breidd 4-5 m, veggþykkt um 50 cm, hæð um 180 cm og dyr snúa í suðaustur. Við Pétursborg að austanverðu eru tvær gamlar fjárhústóftir og ein nokkuð nýrri aðeins ofar.

Gjásel

Gjásel – uppdráttur ÓSÁ.

Fjárhústóftirnar eru enn nokkuð greinilegar. Grjót hefur verið í útveggjum og sést það vel ó tóftunum. Hleðslurnar gefa vel stærð húsanna til kynna sem og legu þeirra. Efsta tóftin er ofan við borgina og snýr dyraopi til suðausturs. Austasta tóftin snýr dyraopi til suðvesturs og miðtóftin, milli hennar og borgarinnar, virðist hafa snúið dyrum til suðausturs. Allnokkur gróðureyðing er þarna, en tóftarsvæðið hefur haldið sér nokkurn veginn vegna tóftanna.

Norðaustur og upp af Pétursborg, en rétt neðan Litlu-Aragjár, er Hólasel eða Hólssel á milli þriggja hóla. Þar eru nokkuð heillegar hleðslur á grasbletti og einnig þvert á sprungu, sem liggur gegnum einn hólinn. Þarna hefur ólíklega verið sel, enda engar húsarústir sjáanlegar – eða hvað?
Ef vel er að gáð má sjá að þarna gæti hafa verið selstaða um skamman tíma. Hleðslurnar benda til stekks og að öllum líkindum hefur sprungan verið notuð sem skjól, hlaðið til endana og reft yfir. Ólíklegt má telja að selið hafi verið notað um langt skeið.
Næsta gjá fyrir ofan Litlu-Aragjá er Stóra-Aragjá. Þarna er bergveggurinn hæstur. Nefnist hann Arahnúkur. Hann sést vel af Vogastapa og víðar. Undir Arahnúk er Arahnúkssel eða Arasel. Í Jarðabók 1703 er ekki getið um þetta sel, en það kom fyrir að selstaða var færð neðar í heiðina eftir því sem vatnið minnkaði og gróðrinn eyddist.
Arahnúkaselstæðið er fallegt og grösugt í góðu skjóli við gjárvegginn. Þar má sjá tíu kofatóftir ásamt kví. Sagt er að bletturinn hafi síðast verið sleginn árið 1917. Ekkert vatnsból finnst við selið og líklega hefur vatn verið sótt í Snorrastaðatjarnir. Stór varða er á gjárbarminum skammt sunnan við selið og önnur minni (og nýrri) skammt austar.
Tóftirnar geyma fimm hús með átta til tíu kofa tóftum, sem fyrr segir. Kvíin, eða öllu heldur stekkur er undir hamraveggnum skammt suðvestan við tóftaþyrpinguna, sem er nokkurn veginn í beina línu undir veggnum. Eitt húsanna, tvískipt, stendur þá framar, lengra frá veggnum. Af ummerkjum að dæma virðast þrjár selstöður hafa verið í selinu. Stekkurinn er enda óvenjustór og er líklegt að hann hafi verið samnýttur. Svo er að sjá að þrjú hólf hafi verið í honum, auk safnhólfsins.

Hlöðunessel

Hlöðunessel – uppdráttur ÓSÁ.

Í bergveggnum á Arahnúk er hrafnsóðal og þar er sem uppgangan er á hnúkinn er Araselsgrenið. Svo virðist sem refurinn lifi þar enn góðu lífi því rjúpufiður á á víð og dreif ofan gjárinnar.
Vogheiði heitir svæðið einu nafni ofan Voga allt frá Gamla-Keflavíkurveginum upp úr og inn að landamörkum grannjarðanna. Vogaholtið er hins vegar á austurmörkum þess.
Í því er Jóhannesarvarða, er vestur undir Holtsgjá, aðeins norðan við austur frá Brandsgjá en v-n-v Vogasels. Í raun er Jóhannesarvarða á milli Arahnjúkssels og Vogasels. Varðan stendur hátt utan í litlum, en háum, klapparhól. Það eina sem vitað er um Jóhannesarvörðu er að þar hefði maður orðið úti.
Utan í Vogaholtinu að norðaustanverðu er Gamla-Vogasel eða Gömlu-Vogasel. Þar má sjá þrjár gamalgrónar tóftir og eina nýlega rétt fyrir ofan uppblásna kvos sem heitir Vogaselsdalur. Í Jarðabókinni 1703 segir að þarna hafi Stóru- og Minni-Vogar í seli. Ekkert vatnsból hefur fundist við Gamla-Vogasel. Norður af selinu er Vogaselsdalsgrenið og inn í “dalnum” eru þrjú greni sem heita Dalsbotnsgrenin.

Tóftirnar á neðra svæðinu, í jaðri Vogaselsdals, sem nú er að verða jarðvegseyðingunni að bráð, mótar fyrir einu húsi með tveimur rýmum, auk þess það þriðja virðist óljóst austan þess. Þarna er greinilega um mjög gamlar tóftir að ræða, enda að mestu orðnar jarðlægar.
Efri tóftirnar, ofar í holtinu til suðausturs, geyma hús á þremur stöðum. Það nyrsta er tvískipt. Miðhúsið er byggt að hluta til í hól og er erfitt að greina útlínur þess svo vel sé. Efsta tóftin er fast undir háum kletti. Mikið er gróið í kringum hana og er ekki ólíklegt að húsið hafi verið stærra, en virðist. Austan efstu tóftarinnar er hlaðinn tvískiptur stekkur og sést lega hans vel.
Norðan við Gamla-Vogasel er Brunnastaðsel undir Brunnastaðaselsgjá. Um 15. mín. gangur er milli seljanna. Á efri gjárbarminum fyrir ofan selið er Brunnastaðaselsvarða. Heimildir eru til um Brunnastaðaselsvatnsstæði ofan ogs unnan selsins, en það hefur ekki fundist enn svo óyggjandi sé.

Nýjasel

Nýjasel – uppdráttur ÓSÁ.

Selstæðið er stórt og fallegt, snýr í norðvestur, og blasir við af Reykjanesbrautinni þegar ekið er um Stapann og inn úr (frá Reykjanesbæ til Voga). Af seljunum í heiðinni er Brunnastaðasel fjærst bygðinni. Upp undir gjánni eru nokkrar gamalgrónar tóftir, en aðeins norðar og neðar á grasblettinum eru tvær til þrjár nýrri. Í þröngri gjánni er lítil kví, óskemmd með öllu og hafa gjárveggirnir verið notaðir sem aðhald þegar ærnar voru reknar inn á mjaltartíma.
Tóftirnar undir hlíðinni, næst gjánni geyma þrjú hús. Tvö þeirra eru tvískipt og virðist kví vera við suðurenda þess efra. Milli þessara húsa er hús með einu rými. Vestan vestasta hússins er stekkur. Ytri tóftirnar eru tvískipt hús og þriðja rýmið er hlaðið reglulega úr grjóti aftan (norðan) við húsið. Lítill hóll er norðaustan við tóftirnar og er hlaðið gerði eða kví vestan undir honum, í skjóli fyrir austanáttinni.
Enn má sjá talsvert grjót í innveggjum húsanna í Brunnastaðaseli. Veggir standa yfirleitt vel og eru u.þ.b. 120 cm á hæð. Kvíin í gjánni er heilleg og hefur varðveist vel.
Brunnastaðaselsstígur lá frá bæ í selið. Milli Brunnastaðasels og Gamla-Vogasels er Markhóll, sem skiptir löndum Brunnastaða og Voga. Um tvo hóla er að ræða. Sennilega er sá efri (með vörðu á) endamörk, en sá neðri hinn eiginlegi Markhóll. Neðan hans er Markhólsgrenið.
Í Brúnum ofan og austan við Brunnastaðasel er Hemphóll eða Hemphólar, en þar áður fyrr áður smalar úr Brunnastaðahverfi um leið og skipt var í leitir. Hemphóllinn er mjög áberandi séður frá Kúagerði og á honum er varða. Heimild frá Grindavík segir hólinn heita Stóruvörðu. Sagt er að prestar Kálfatjarnarsóknar og Staðarsóknar í Grindavík hafi átt sameiginlega hempu og að hún hafi verið sótt á hólinn fyrir messu á hvorum stað og vegna þess sé nafnið Hemphóll tilkomið. Hemphólsvatnsstæðið er lítill mýrarpollur rétt austur af hólnum.

Pétursborg

Pétursborg – uppdráttur ÓSÁ.

Brunnastaðaselsgjá er efsta gjáin, sem eitthvað kveður að í heiðinni og liggur hún í sveig langt inn úr. Nokkuð inn með gjánni frá Brunnastaðaseli og neðan hennar er Hlöðuneskinn, en aðeins ein heimild er til um þetta örnefni (Jarðabókin 1703). Hlöðuneskinn er nokkuð brött brekka eða brekkur, sem liggja frá gjánni til norðurs og eru þar sundurgrafnar af moldargiljum, sem myndast hafa við framrás vatns.
Undir Hlöðuneskinn í lægð mót austri standa leifar Gamla-Hlöðunessels eða Hlöðunessels. Þar eru tvær gamlar tóftir, en túnið er svo til horfið vegna uppblásturs sem er mikil þarna. Í Jarðabókinni 1703 segir að selið í Hlöðuneskinn sé aflagt vegna vatnsskorts. Ekkert vatnsból er sjáanlegt við selið.
Vestari tóftin virðist hafa verið óskipt hús, sem bendir til þess að hún sé mjög gömul. Austan hennar, samsíða, er tvískiptur stekkur, nokkuð stór.
Enn má sjá móta fyrir grjóthleðslum þátt þær séu nú vel grónar og næstum jarðlægar, líkt og húsatóftin.
Neðan af Vatnsleysustrandarheiði sést vel til Gjásels, austan og sunnan við Knarrarnessel. Síðarnefnda selið er ofan við Klifgjá, en hið fyrrnefnda kúrir undir næstu gjá fyrir ofan Klifgjá, stundum nefnd Gjárselsgjá. Óvíst er frá hvaða bæ haft var í seli þarna því selstæðið er sagt í eða alveg við austurmörk Brunnastaðasels.

Vogasel

Vogasel – uppdráttur ÓSÁ.

Gjásel er ekki nefnt í Jarðabókinni 1703 og virðast tóftirnar þar vera með þeim yngstu í heiðinni. Heimildir nefna bæði Hlöðunesmenn og Brunnastaðamenn, en líklega hafa Hlöðunesmenn haft þarna í seli því árið 1703 er selstaða þeirra ofar í heiðinni aflögð vegna uppblásturs, en Brunnastaðir höfðu þá enn nothæfa selstöðu.
Tóftir húsanna standa þétt hlið við hlið í beinni röð undir gjárveggnum, sem bendir til þess að nokkrir bæir hafi haft þarna í seli. Heimildir geta um gott og mikið vatn í gjánni við Gjásel og sagt er að vatnið hafi bunað út úr berginu, en jarðskjálftar á fyrri hluta síðustu aldar hafi eytt þessum eina “fossi” í hreppnum. Ein heikmild telur líklegt að selin umhverfis Gjásel hafi haft afnot af vatnsbólinu þar en áður fyrr hefur líklega verið vatnsstæði við hvert sel eða tiltölulega stutt frá þeim þó svo þau séu svo til vatnslaus nú.

Um er að ræða fjögur hús í selinu og stekk skammt sunnar. Hann er orðinn nokkuð óljós, en tóftirnar hafa varðveist vel. Húsin er öll í einni röð undir gjárveggnum, sem fyrr segir. Nyrsta húsið er utan í þrískiptu húsi. Hin húsin eru tvískipt með nokkuð stórum rýmum (af seljum að vera). Það bendir til þess að þau séu ekki mjög gömul miðað við sum önnur selin í heiðinni.

Arahnúkasel

Arahnúkasel – uppdráttur ÓSÁ.

Sjá má grjót í innveggjum. Vel gróið er í kringum tóftirnar og er selstaðan mjög vel greinileg þegar komið er að henni neðanfrá. Gjáselið er eitt hið fallegasta í heiðinni.
Gjáselsgjá og eins og aðrar gjár í heiðinni opnast þessi og lokast á víxl. Suðvestar er Holtsgjá, sem tengist að einhverju leyti Gjáselsgjá. Frá Gjáseli sést vel yfir til Knarrarnessels norðar í heiðinni.
Nokkurn veg norðvestur frá Arahnúk er Ólafsgjá og Ólafsvarða. Gjáin er í raun sprunga út úr vestasta hluta Klifgjár, en Ólafsgjá er mjög þröng og báðir veggir eru jafnháir landinu í kring. Hún sæist ekki fyrr en komi er að henni ef ekki væri varðan við hana. Um aldamótin 1900 hrapaði Ólafur Þorleifsson, bóndi úr Hlöðuneshverfi, þegar hann var að huga að fé rétt fyrir jól. Mikil leit var gerð að honum, en allt kom fyrir ekki. Árið 1931, eða um 30 árum seinna, fundust svo bein hans í gjánni þegar verið var að sækja kind, sem fallið hafði niður í sprunguna á nákvæmlega sama stað og Ólafur. Um atburðinn er ritað í bókinni Hrakningar og heiðarvegir, 3. bindi, eftir Pálma Hannesson og Jón Eyþórsson.
Í rauninni ætti óvant göngufólk ekki að fara eitt um Vogaheiðina – allra síst að vetrarlagi er snjór þekur jörð – því víða leynast sprungur og djúpar gjár opinberast oft skyndilega framundan, án minnsta fyrirvara. Það er a.m.k. mikilvægt að vera vel vakandi á göngum á þessu svæði. Þarna eru augun mikilvægasta skilningavitið.
Frábært veður. Fuglasöngur í heiði. Gangan tók 3 klst og 33 mín.

Heimild m.a.:
-Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi – SG – 1995.

Brunnastadassel-202

Brunnastaðasel.

 

Gjásel

Ara(hnúks)sel geymir fimm hús. Þrjú þeirra eru tvískipt. Kvíin, eða öllu heldur stekkur er undir hamraveggnum skammt suðvestan við tóftaþyrpinguna. Af ummerkjum að dæma virðast þrjár selstöður hafa verið í selinu. Stekkurinn er enda óvenjustór.

Hólssel

Í selstöðunni í Gjáseli eru “raðhús” undir háum gjárbarmi líkt og í Arahnúksseli. Nyrsta húsið er utan í þrískiptu húsi. Hin húsin eru tvískipt með nokkuð stórum rýmum (af seljum að vera). Það bendir til þess að þau séu ekki mjög gömul miðað við sum önnur selin í heiðinni. Mögulega hafa einhverjir bæir sameinast þarna um selstöður um tíma. Vel gróið er í kringum tóftirnar og er selstaðan mjög vel greinileg.
Ætlunin var að ganga upp Vogaheiði með viðkomu í framangreindum seljum sem og í Hólsseli (Hólaseli) – í sumarbyrjun. Í Bakaleiðinni var ætlunin að koma við í Ólafsgjá.
Í BA-ritgerð ÓSÁ í fornleifafræði er fjallað um “Sel vestan Esju”. Þar segir m.a. um Arasel og Gjásel:
Vogasel VI (Arasel /Arahnúksel) – (Ö): “Á Aragjábarmi er varða er nefnist Aragjárvarða. Austar og ofar er Arahnúkur og Arahnúksgjá er Gjáin þar kölluð, og í slakkanum er Arahnúkssel.”
AraselLíklega tekur selið nafn af Arahnúk og því rétt að kalla selstöðuna Arahnúkssel.
(Ö): “Og næsta gjá þar ofar heitir Stóra-Aragjá eða öðru nafni Arahnúksgjá og dregur þá nafn sitt af háum hól sem er við hana og heitir Arahnúkur og undir honum er Arahnúkasel, eru þar miklar rústir og hvanngrænar á hverju sumri, talsvert svæði.”
SG segir frá Arahnúkseli: “Undir Arahnjúk er Arahnjúkasel eða Arasel….Arahnjúkaselstæði er fallegt og grösugt í góðu skjóli við gjárvegginn og þar finnum við tíu kofatóftir ásamt kví. Sagt er að bletturinn hafi síðast verið sleginn árið 1917.  Ekkert vatnsból er við selið og líklega hefur vatn verið sótt í Snorrastaðatjarnir.”
Höfundur skoðaði Ara[hnúks]-sel árið 2003: Undir Arahnúk er Arahnúksel (Arahnúkssel) eða Arasel. Í Jarðabók 1703 er ekki getið um þetta sel, en það kom fyrir að selstaða var færð neðar í heiðina eftir því sem vatnið minnkaði og gróðurinn eyddist.
Arahnúkselstæðið er fallegt og grösugt í góðu skjóli við gjárvegginn. Þar má sjá tíu kofatóftir saman. Sagt er að bletturinn hafi síðast verið sleginn árið 1917. Ekkert vatnsból finnst við selið, en snjór hefur verið í djúpum gjánum langt frameftir sumri. Stór varða er á gjárbarminum skammt sunnan við selið og önnur minni (og nýrri) skammt austar.
ArahnúksselTóftirnar geyma fimm hús. Þrjú þeirra eru tvískipt. Kvíin, eða öllu heldur stekkur er undir hamraveggnum skammt suðvestan við tóftaþyrpinguna, sem er nokkurn veginn í beina línu undir veggnum. Eitt húsanna, tvískipt, stendur þá framar, lengra frá veggnum. Af ummerkjum að dæma virðast þrjár selstöður hafa verið í selinu. Stekkurinn er enda óvenjustór og er líklegt að hann hafi verið samnýttur. Svo er að sjá að þrjú hólf hafi verið í honum, auk safnhólfsins. Veggir tóftanna eru grónir, en gefa vel stærð og rýmin til kynna. Stekkurinn er einnig heillegur.”
Þá var haldið í Gjásel
. Í örnefnalýsingum segir: Ö: “Á Aragjábarmi er varða er nefnist Aragjárvarða. Austar og ofar er Arahnúkur og Arahnúksgjá er Gjáin þar kölluð, og í slakkanum er Arahnúkssel.  Enn austar er svo Vogaselið gamla.”
Gjásel(Ö): “Þá er á barminum Stapaþúfa. Litla-Aragjá er næst fyrir sunnan Holtsgjá. Austur með henni er Gjásel og þá er hún kölluð Gjáselsgjá.”
(Ö): “Í suðaustur frá Einiberjahólnum blasir við Gjáselsgjá, sem snýr hömrum í norðvestur; undir hömrunum er Gjásel. Þar mótar fyrir tóftarbrotum. Sennilega hefir selið verið notað af búanda eða búendum úr Brunnastaðahverfi.”
(Ö): “Í Gáseli, en svo heita gamlar selstöður, má nú sjá átta til níu tóttarbrot. Lítið seltún mun hafa verið þar framanvið. Ofan við selið er Gjáselsgjái, sem sagt var um að í væri óþrjótandi vatn, en erfiðleikum bundið að ná því.”
SG segir frá Gjáseli: “Af Einiberjahólum sjáum við vel til Gjásels sem kúrir undir næstu gjá fyrir ofan Klifgjá. Óvíst er frá hvaða bæ var haft í seli þarna því selstæðið er sagt í eða alveg við austurmörk Brunnastaðalands.  Gjásel er ekki nefnt í Jarðabókinni 1703 og virðast tóftirnar þar verið með þeim yngstu í heiðinni. Heimildir nefna bæði Hlöðunesmenn og Brunnastaðamenn en líklega hafa Hlöðunesmenn haft þarna í seli því árið 1703 er selstaða þeirra ofar í heiðinni aflögð vegna uppblásturs en Brunnastaðir höfðu þá enn nothæfa selstöðu. Tóftir af átta húsum standa þétt hlið við hlið í beinni röð undir fjárveggnum sem bendir til þess að nokkrir bæir hafi haft þarna í seli.  Heimildir geta um gott og mikið vatn í gjánni við Gjásel og sagt er að vatnið hafi bunað út úr berginu en jarðskjálftar á fyrri hluta þessarar aldar hafi eytt þessum eina “fossi” í hreppnum.”
Gjásel-6Höfundur skoðaði Gjásel árið 2003: Frá Stapaþúfu var haldið að Gjáseli, einu fallegasta selinu á Reykjanesskaganum. Þar eru, auk stekkjar og kvíar, átta keðjuhústóftir undir gjárveggnum. Þær mynda fjögur hús og eru tvö þeirra tvískipt, eitt þrískipt og eitt stakt. Þar gæti hafa verið eldhús? Líklega er þetta eitt fyrsta raðhús hér á landi. Óvíst er frá hvaða bæ/bæjum selstaðan þarna var.
Tóftir húsanna standa þétt hlið við hlið í beinni röð undir gjárveggnum, sem bendir til þess að nokkrir bæir hafi haft þarna í seli. Heimildir geta um gott og mikið vatn í gjánni við Gjásel og sagt er að vatnið hafi bunað út úr berginu, en jarðskjálftar á fyrri hluta síðustu aldar hafi eytt þessum eina „fossi“ í hreppnum.
ÓlafsvarðaUm er að ræða þrjú eða fjögur hús í selinu og stekk skammt sunnar. Hann er orðinn nokkuð óljós, en tóftirnar hafa varðveist vel. Veggir eru grónir og sjá má móta fyrir hleðslum í sumum þeirra. Húsin er öll í einni röð undir gjárveggnum, sem fyrr segir. Nyrsta húsið er utan í þrískiptu húsi. Hin húsin eru tvískipt með nokkuð stórum rýmum (af seljum að vera). Það bendir til þess að þau séu ekki mjög gömul miðað við sum önnur selin í heiðinni. Mögulega hafa einhverjir bæir sameinast þarna um selstöður um tíma. Sjá má grjót í innveggjum, sem fyrr segir. Vel gróið er í kringum tóftirnar og er selstaðan mjög vel greinileg þegar komið er að henni neðanfrá.
Magnús Ágústsson í Halakoti sagði að þegar smalar í heiðinni hefðu farið um Gjásel hefðu þeir losað stein í gjárveggnum og þá hefði komið þar út vatn til drykkjar.
Í bakaleiðinni var komið við í Ólafsgjá.
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 3 mín.

Heimildir:
-Örnefnaskrár.
-Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi – Sesselja Guðmundsdóttir.
-ÓSÁ- Sel vestan Esju, BA-ritgerð.

Ólafsgjá

Ólafsgjá.

 

Straumssel

Víða í hraununum sunnan, austan og vestan Hafnarfjarðar eru tóftir sem minna á horfna búskaparhætti. Hlaðnar réttir, fyrirhleðslur við skúta, kvíar, fjárhellar og vörður eru hluti af þeim minjum sem mest er af í Almenningi, en svo nefnist hraunið ofan Straumsvíkur. Þar eru líka tóftir frá þeirri tíð þegar haft var í seli á nær hverjum einasta bæ og koti á landinu. Eitt þessara selja var Straumssel og þar eru myndarleg tóftarbrot.

Selin framlenging á heimajörðunum
Straumssel-221Selin höfðu stóru hlutverki að gegna í Hraunum sem annarsstaðar. Þau liggja nánast í beinni línu frá býlunum á miðjum Reykjanesskaga um 3-4 km sunnan við bæina í svonefndum Almenningi, suður af Flám og Seljahrauni. Meðal þeirra voru Lónakotssel, Óttarsstaðasel, Straumssel, Gjásel og Fornasel. Að þessum selum lágu slóðir sem hétu ýmsum nöfnum s.s. Straumselsstígur, Hraungata og Skógarstígur. Um sauðburðinn var lambfé fyrst í stað haldið í heimatúninu, en lömbum í stekk svo þau gætu ekki sogið mæður sínar.  Síðan var féð rekið inn í stekkinn á kvöldin, lömbunum komið fyrir í lambakofa í stekknum og féð mjólkað að morgni. Gekk þetta svona til framyfir Jónsmessu, en þá voru ærnar rúnar áður en þær voru reknar í selið. Lömbum var haldið heima nokkru lengur, þar til þau voru rekin á afréttinn. Selráðskona eða matselja flutti sig um set í selið og hafði hún það hlutverk að mjólka féð og vinna matvöru úr mjólkinni.
Raudamelsrett-221Úr ærmjólkinn var framleitt smjör, ostur og skyr. Selráðskonan hafði með sér eina eða tvær unglingsstúlkur og smala, sem sat yfir ánum, daga og nætur. Hann hafði oft það hlutverk að strokka smjör á meðan hann sat yfir ánum og stundum var strokkurinn bundinn við bak hans og hann látinn eltast við féð á meðan smjörið strokkaðist Bóndinn kom síðan á þriggja daga fresti til að sækja smjör, skyr og annað sem framleitt var í selinu og færði heim á bæinn. Við selin eru stekkir eða kvíar og jafnvel náttból þar sem fénu var haldið yfir nóttina og gat þá smalinn sofið rólegur í selinu, eða fjárskúta sínum. Í Hraunum eru húsakynni selanna eins; þrjú áföst hús, mjólkurhús, baðstofa og eldhús. Stundum var fénu haldið langt fram á haust í seli og jafnvel allan veturinn þegar snjólétt var, en annars var það flutt heim eftir réttir og beitt á fjörur.

Búseta í Straumsseli
straumsselsstigur-221Almennt var hætt að hafa í seli um miðja 19. öldina víðast hvar á landinu og lagðist sá siður því af. Þó hélt einn og einn bóndi því áfram og eru heimildir fyrir því að Hvaleyrarbóndi hafi haft í seli við Hvaleyrarvatn lengst allra sem bjuggu í nágrenni Hafnarfjarðar. Oft voru selin ágætlega húsuð og því kjörið að nýta húsakostinn eftir að selstöður lögðust almennt af. Þegar Guðmundur Guðmundsson hafði keypt Straumsjörðina af Páli Árnasyni sem hafði keypt hana 1839 af konungssjóði. Guðmundur var gerður að skógarverði í Almenningi og settist þá að í Straumsseli. Þetta mun hafa verið um 1847. Hjá honum var faðir hans Guðmundur Bjarnason, oft nefndur Krýsuvíkur-Gvendur. Hann andaðist aldraður maður í Lambhaga vorið 1848, en Guðmundur skógarvörður andaðist fimm árum síðar í selinu, nánar tiltekið 1853. Þegar hann gerði Straumssel að bústað sínum klagaði leiguliði hans í Straumi búsetuna til sýslumanns. Leiguliðinn var Bjarni Einarsson en honum þótti það vera skerðing á fornum rétti landseta að skipta jörðinni upp með þessum hætti. Guðmundur lofaði að fjölga ekki býlum í Straumslandi meðan Bjarni byggi þar. Bjarni gekk að sáttinni að því tilskyldu að bygging hins gamla Straumssels væri sér með öllu óviðkomandi, skyldu yfirvöld kæra. Föst búseta var í Straumsseli í ein 40 á með hléum, enda vatnsstæði lélegt og erfið búsetuskilyrði. Meðal ábúenda í selinu voru hjónin Kolfinna Jónsdóttir og Siguður Halldórsson sem bjuggu þar á tímabilinu 1853-1863. Eftir það fluttu þau í Hafnarfjörð og bjuggu í Kolfinnubæ sem stóð þar sem nú er Strandgata nr. 41. Farnaðist þeim vel í selinu þó kjörin væru kröpp. Bjarni sonur þeirra fæddist í Straumsseli 1857. Talið er að síðast hafi verið búið í Straumsseli 1890-1895. Guðmundur lét reisa myndarlegt bæjarhús í Straumsseli sem stóð fram undir aldamótin 1900 en þá mun það hafa brunnið. Selið fór eftir það í eyði en bæjartóftirnar eru all myndarlegar.

Fjárskilaréttir

Búrfellsrétt

Búrfellsrétt. Gerðið fjær.

Á haustin voru leitir því geldfé sem gengið hafði á fjörubeit um veturinn var sleppt á vorin í úthaga, bæði sauðum og gemlingum. Einnig voru lömb látin ganga sjálfala í afrétti allt sumarið og þeim þurfti að koma heim á haustin til slátrunar. Var Gjárétt í Búrfellsgjá fjallskilarétt Álftnesinga lengi vel. Áttu allir fjáreigendur hreppsins hvort heldur voru búendur eða þurrabúðarmenn að gera fjallskil til Gjáréttar. Hraunamenn, Hafnfirðingar sunnan lækjar og Ásbóndinn fóru í svokallaða suðurleit, og höfðu náttstað í hellum við Kleifarvatn í Lambhaga.  Garðhverfingar, uppbæjarmenn, Hafnfirðingar norðan lækjar og Álftnesingar fóru í norðurleit og höfðu náttstað í Músarhelli við Valaból. Síðustu árin meðan byggð hélst í Hraunum var Guðjón Gíslason bóndi á Stóra-Lambhaga í Hraunum fjallkóngur suðurleitamanna. Þegar rétta þurfti í Hraunum var Þorbjarnarstaðarétt haustrétt fyrir Innhraunin eða Austur-Hraunbæina Litla- og Stóra Lambhaga, Gerði, Þorbjarnarstaði og Péturskot.   Rauðamelssrétt var vorrétt Hraunamanna og kallast þessu nafni þó hún hafi legið nokkuð frá melnum, en hún var skammt frá Réttargjá og voru réttir þessar aðallega notaðar til rúninga áður sem fóru oftast fram um fardagaleytið.

Hlunnindi og kvaðir
einir-221Ekki voru Hraunajarðirnar miklar hlunnindajarðir. Þó hefur kjarrskógur í Almenningi, eða Hraunaskógur, lengi talist til mestu hlunninda þessara jarða. Þar var hægt að gera kol til eldunar og stundum mátti fá þar stórvið. Kvaðir voru á jörðunum að færa nokkra hríshesta heim til Bessastaða ár hvert og jafnvel stórvið. Þessar kvaðir hafa íþyngt ábúendum jarðanna því árið 1703 kvartar Sigurður Oddleifsson ábúandi í Lónakoti við Árna Magnússon og Pál Vídalín ,,um að skógurinn í almenningum væri svo foreyddur að hann ei til treystist þar að safna kolviði til landskuldargjaldsins” til Bessastaða. Þegar birkihrís og einir eyddist voru bændur látnir rífa lyng og koma til Bessastaða. Var sortulyngið aðallega rifið því ekki mátti skerða krækiberjalyng eða bláberjalyng og enn síður beitilyngið þar eð sauðféð nærðist á því. Bændur áttu einnig að greiða afgjald til Bessastaða í dagsláttu, smjöri, fiskum, vaðmáli og mannsláni um vertíð og þurftu að fæða verkamennina að auki. Torfrista var engin, engjar voru ekki fyrir hendi og rekavon var lítil sem engin. Helstu hlunnindi voru fjörugrastekja, sölvafjara, hrognkelsatekja í lónum, selbitinn fiskur, skelfisksfjara til beitu og berjalestur.

Gjásel

Gjásel.