Stekkur

Í “Fornleifaskrá Hafnarfjarðar árið 2021” segir frá Áslandi:

Ás
HafnarfjörðurElsta heimild um Ás er svokallað Gilzbréf en það var ritað þann 4. ágúst 1506 í Ási og var vitnisburður um að Eiríkr Þorsteinsson hafi selt Þórarni Jónssyni jörðina Gil í Borgarþingum í Skagafirði fyrir þrjá tigi hundraða. Næst var sagt frá Ási í fógetareikningum frá 1553 og þar sagði að Tómas nokkur bóndi hafi greitt í skatt átta álnir vaðmála.
Árið 1585 gerðist það að unglingspiltur, Hjálmar Sveinsson, stal tveimur sauðum frá Ási. Var hann dæmdur á Kópavogsþingi til húðstrýkingar „svo sem hann þola mátti“. Var honum svo haldið á lífi í sjö daga til að fá að „lifa við minningu þessarar húðstrýkingar“ og var svo hálshöggvinn.
Næst var sagt frá Ási í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá 1703, þá var ábúandinn Þórður Jónsson. Þar sagði að jarðadýrleiki á kóngsins parti hafi verið óviss en að hlutur Jóns Péturssonar á Hliði lögréttumanns hafi líklega verið iii hundruð og lxxx álnir, var þá talið líklegt að jörðin hafi í heildina verið xii hundruð og þá hafi kóngsparturinn verið xiii hundruð og xl álnir, þó var tekið fram að tíund bóndans hafi fallið niður vegna örðugra hreppamannaflutninga yfir Kapelluhraun að Þorbjarnarstöðum.

Ás

Ás – gamli bærinn.

Jörðin var að mestu í konungseign fyrir utan hlut Jóns Péturssonar. Leigukúgildi af jörðinni voru jöfn á milli þessara hluta, eitt á hvorn hlut, og greiddist leigan af konungshlutanum í smjöri til Bessastaða en af bóndahlutanum ýmist í smjöri eða fiski til bóndans eða í kaupsstað.
Kvaðir af kóngshlutanum voru mannslán um vertíð og einn hrísshestur árlega heim til Bessastaða. Einnig var nýlega byrjað að heimta heyhest frá Ási til Bessastaða til þess að fóðra kvikfénaðinn sem var ætlaður til þess að fæða fálka sem seldir höfðu verið seldir úr landi og fóru með Hólmsskipi. Engar kvaðir voru á bóndahlutanum.

Ás

Ástjörn og nágrenni – örnefni.

Þegar Jarðabókin var skrifuð voru á Ási fjórar kýr, átta ær, einn tvívetra sauður og sjö veturgamlir, átta lömb og einn þrívetra foli. Þar gat fóðrast þrjár kýr og eitt ungnaut og heimilismenn voru fjórir. Jörðin átti þá selstöðu í eigin landi og voru hagar þar sæmilegir og vatnsból gott. Jörðin átti hrísrif í almenningi til kolagerðar og eldiviðar en notaði einnig lyngrif í eigin landi til eldiviðar og til þess að fæða fé í heyskorti. Torfrista og stunga var léleg og varla nothæf.
Jörðin var með skipsuppsátur í Ófriðarstaðalandi en það virðist ekki vera visst hvort hún fékk uppsátrið frítt eða gengt selstöðu Ófriðarstaða í landi Áss. Engar engjar fylgdu jörðinni en útigangur kvikfénaðs var sæmilegur og vatnsból brást sjaldan.
Gerð var úttekt á bæjarhúsum Áss árið 1769 en þá bjó á Ási Þórný Gísladóttir ekkja. Úttektin var gerð þann 2. maí 1769 af Jóni Jónssyni og Guðmundi Gíslasyni en Landfógeti mætti ekki né neinn á hans vegum, sem virðist hafa verið óvenjulegt.
Árið 1783 virðist að ástand húsa hafi versnað frá þessari úttekt og var álagið komið í 110 álnir.

As

Ás – túnakort 1918.

Í Sýslu- og sóknarlýsingum frá 1842 minntist séra Árni Helgason á Ás í upptalningu á bæjunum í Garðaprestkalli og þá var Ás með tómthúsi (Stekkur). Þá sagði hann frá alfaravegum en sá syðsti upp í Krýsuvík lá upp frá Ási og hét Stórhöfðastígur, beygði hann suður með Undirhlíðum og yfir fjallið og hét þá Ketilsstígur.

Ás

Ás- loftmynd 1960.

Í Jarðatali Johnsen frá 1847 var jörðinni gefið númerið 169 og var hún þá alfarið í konungseign. Þá var dýrleiki jarðarinnar 12 hundruð, landskuldin 0.80, kúgildin tvö og einn ábúandi sem var leigjandi.

Ás

Ás – leifar fjóss.

Árin 1871 og 1872 kom upp miltisbrandur á Ási. Þann 16. og 17. október 1871 drápust þar snögglega tvær kýr og höfðu miltin í þessum kúm verið mjög stór og blóðhlaupin. Ekkert var þó gert í þessu fyrr en þriðja kúin drapst tæpum þrem vikum síðar og var þá dýralæknir kallaður til. Við krufningu kom fram að „blóðið var svart sem tjara og rann eigi saman; aptur af kúnni og úr nösum hennar hafði gengið blóð, rjett áður en hún drapst, lungun voru mjög sollin, miltið miklu stærra en vanalega, svart og meyrt; þarmarnir voru fullir af blóðkorgi, og að utan höfðu þeir marga blóðhlaupna bletti“. Daginn áður hafði dýralæknirinn krufið hest á Ófriðarstöðum
sem hafði sömu einkenni.

Ás

Ás – letursteinn.

Á túnakorti frá 1918 voru túnin við Ás sögð nálægt til helminga sléttuð og töldust 2,8 teigar, kálgarðar voru 670 fermetrar.
Ástjörn var friðuð árið 1978 til þess að vernda dýra- og jurtalíf á svæðinu og er umferð um svæðið óheimil á varptíma. Ástjörn og Ásfjall voru svo gerð að fólkvangi árið 1996.
Lítið er eftir af minjum á sjálfu bæjarstæði Áss, þar sjást nokkur veggjabrot af húsi sem reist var árið 1904 (2658-13), fjósið sem grafið er inn í bæjarhólinn og bæjarhóllinn sjálfur, en svæðið hefur verið lagt undir skógrækt og teljast þess vegna allar minjar innan skógræktarsvæðisins í mikilli hættu. Eitthvað af minjum er að finna utan skógræktarsvæðisins og er þá kannski helst að minnast á Ásbrunn og útihúsatóft, sem þó er illgreinanleg.

Stekkur

Stekkur

Stekkur – túnakort 1918.

Minna er til af heimildum um Stekk en þannig voru oft hlutskipti hjáleigna, þá sérstaklega þeim sem ekki voru í byggð lengi.
Stekkur var byggður í kringum 1830 og mun hafa hlotið nafn sitt af því að þarna á Ás hafa verið með stekk. Bærinn stóð þar sem nú er endi gatnanna Blikaás og Lóuás. Bæjarstæði Stekks var gróflega lýst í örnefnaskrá: „[…] Hér enn vestar var svo býli, þurrabúð, nefndist það Stekkurinn, Ásstekkur, Vindás og Vindásstekkur. Honum fylgdi Stekkstúnið umgirt Stekkstúngörðum, vesturtúngarður, suðurtúngarður, austurtúngarður og norðurtúngarður. Þar sem saman komu norður- og vesturtúngarður var norðurhlið. Þaðan lá Stekksgata niður að Brandsbæ og áfram niður til Fjarðar. Suðurhlið var neðarlega á mótum vestur- og suðurtúngarðs. En Lindargatan lá heiman frá Stekksbæ austur um austurgarðshlið austur að Lindinni. Brunngatan var löng frá Stekk og austur.“

Ás - Stekkur

Stekkur – minjar neðan Stekks.

Jörðin var auglýst til leigu árið 1959 og þá var íbúðarhúsið sagt vera með 7 herbergi og að á jörðinni væri stórt hænsnahús. Stekkur var einnig um tíma miðstöð keðjubréfasvindls sem var mörgum til ama á árunum í kringum 1970.
Við byggingaframkvæmdir árið 2000 varð rask á minjum á og við bæjarstæði Stekks og voru t.d. leifar íbúðarhússins jafnaðar við jörðu.
Enn má þó sjá móta fyrir bæjarhólnum, matjurtagarði og kartöflukofa, túngörðum og útihúsatóftum á svæðinu.

Stekkur

Stekkur – loftmynd 1960.

FERLIR saknar minja og heimilda í skráningunni, annarra en getið er um í tilvitnuðum og sumum hverjum gölluðum eldri skýrslum Byggðasafns Hafnarfjarðar um fornleifar í Hafnarfirði.

Heimild:
-Fornleifaskrá Hafnarfjarðar 2021 – Ásland. https://byggdasafnid.is/wp-content/uploads/2021/10/Fornleifaskra%CC%81-Hafnarfjardar-VIII-A%CC%81sland.pdf

Ás - Stekkur

Ás – stekkur við Hádegisskarð.