Skoðaður var Stórhöfðastígur í Stórhöfðahrauni. Stígurinn liggur frá suðurhorni Stórhöfða, með norðanverðum hraunkanti Óbrennishólabruna og til suðurs í gegnum Selhraun og áleiðis upp í Almenninga austan við Brunntorfur. Þaðan virðist stígurinn óljós en við nánari gaumgæfni má vel lesa sig eftir honum að Hraunhól norðan Fjallsins eina.
Nú var ætlunin einungis að skoða stíginn þar sem hann liggur frá Stórhöfða og í gegnum Selhraunið. Í fyrstu er stígurinn vel greinilegur og auðvelt að fylgja honum í gegnum tiltölulega slétt hraunið. Þegar komið er á móts við og austan athafnasvæðis refabús, sem þar var reist og var nothæft í skamman tíma, hallar stígurinn meira til vesturs, en beygir síðan aftr til suðurs sunnan þess. Þar er yfir úfnara hraun að fara en stígurinn er gróinn og kastað hefur verið úr honum á kafla. Áður en komið er að háum kletti má sjá hvar stígurinn liggur niður í hraunbolla, sunnan línuvegarins. Þar hefur hann verið lagaður. Eftir það tekur við eyðilegging mannanna handa; búið að grafa hraunið út þvers og kruss. Þarna mun vera “ör” Skógræktar ríkisins á landi, sem ekki hentaði til skógræktar og var því “yfirborðslandið” selt til flutnings. Það eru ekki bara verndarnir á Miðnesheiði, sem hafa fengið keypt land og fundið hefur verið að. Margur mætti líta sér nær í þeim efnum (áminning til þeirra, sem telja sig bera umhyggju fyrir landinu).
Sunnan við námusvæðið sést Stórhöfðastígurinn á ný. Vörður eru við hann og auðvelt er að fylgja honum yfir brunahaft, námusvæðið á ný og síðan yfir ósnert gróið hraunsvæði að Krýsuvíkurvegi, og áfram upp í gegnum kjarrið sunnan vegarins. Vörður eru á hæðunum upp af Brunntorfum, en þær segja ekki til um legu Stórhöfðastígs heldur leið að meintu fjárskjóli í norðaustanverðum Brunntorfum.
Stígurinn liggur þarna skammt ofar. Við hann er m.a. fallega hlaðið gerði, væntanlega frá Ási, enda innan marka þess.
Ofan og austan við stíginn sunnan vegarins gegnt Bláfjallavegi eru hleðslur í hraungjá undir gamla girðingu á mörkum Straumslands. Hleðslan hefur einnig þjónað því hlutverki að vera brú yfir gjána. Um er að ræða mjög fallegt mannvirki skammt frá veginum. Landamerkjastaur Straums er þar skammt frá.
Þrátt fyrir skemmdirnar er alveg þess virði að verja síðdegisstund til að ganga Stórhöfðastíginn á framangreindum kafla.
Frábært veður – Gangan tók eina klukkustund og eina mínútu.