Krýsuvík

Gengið var um svæðið í kringum Krýsuvíkurkirkju og tóftir bæjanna Snorrakots, Norðurkots, Lækjar, Suðurkots og Hnausa skoðaðar. Krýsuvíkurkirkja á sér langa sögu. Athyglinni var því einkum beint að kirkjunni að þessu sinni, sögu hennar að fornu og nýju. Til hliðsjónar var lýsing Ólafs Þorvaldssonar er hann ritaði í jólablað Alþýðublaðs Hafnarfjarðar árið 1961. Í henni segir hann m.a.

Ólafur Þorvaldsson

Ólafur Þorvaldsson.

“Eftir öllum líkum mun óhætt að segja, að kirkja hafi verið í Krýsuvík í átta til níu aldir. Ég held, að sögu Krýsuvíkurkirkju sé þannig farið, að erfitt sé að rekja hana, í það minnsta fyrstu aldirnar, svo öruggt samhengi fáist. Ég held, að margur myndi hnjóta um það spursmál, hvar fyrsta kirkja Krýsuvíkur hafi verið reist, hvenær, og hver hana lét gera. Við þessum spurningum höfum við hvergi getað fengið fullnægjandi svar.
Í Landnámabók Ara Þorgilssonar segir svo: “Þórir haustmyrkur nam Selvog og Krýsuvík.” Einar Arnórsson prófessor telur líklegt, að Þórir haustmyrkur hafi komið nokkuð seint út. Fyrir þessu færir hann þau helst rökum að “Súgandi”, þriðji maður frá Þóri, ætti að vera uppi um 1000.
Landnám Þóris er því að nokkru í Gullbringusýslu, en sýslumörkin telja, að kirkjan hafi ekki löngu eftir kristnitöku verið byggð í Krýsuvík. Yfir hinu mun hvíla algjör óvissa, svo sem fyrr er á minnst, hvar og af hverjum sú kirkja var byggð.
Elsta heimild, sem mér er kunn um kirkju í Krýsuvík er, að um 1200 er hennar getið í kirknaskrá Páls biskups. Kirkjan er talin Maríukirkja, og á heimaland allt, ásamt Herdísarvík og níu mæla lands á Þorkötlustöðum, auk ítaka.

Krýsuvíkurkirkja

Krýsuvíkurkirkja um 1940.

Eftir það er Krýsuvíkurkirkju getið í ýmsum máldögum allt fram undir 1600. Flestir máldagarnir fjalla um eignir kirkjunnar fastar og lausar, ítök o.fl., og ber víðast fátt á milli, utan þá orðalag. Á tíma þeim, sem máldagarnir ná yfir, hefur lausafé kirkjunnar ekki ávallt verið það sama, munir gengið úr sér, og stundum aðrir komið í þeirra stað, lifandi peningi fækkað, þar til horfinn var með öllu, og segja má, að svo hafi farið um flesta muni kirkjunnar.
Allt bendir til, að Krýsuvíkurkirkja hafi aldrei rík verið af lausafé. Hitt mun helur mega telja, að fram eftir öldum hafi hún eftir öllum bréfum að dæma mátt teljast allveg á vegi stödd í föstum eignum, þar sem hún hefur átt allt land sóknarinnar, byggt og óbyggt, og meira þó, það er hún átti einnig Herdísarvíkina, bestu verstöð í Selvogi, landríka vildisjörð, og lágu lönd saman. Auk þessa ýmis ítök.

Hitt er ljóst, bæði af íslenskum heimildum svo og ferðabókum erlendra, sem um landið reistu og til Krýsuvíkur fóru, flestir til athugunar jarðhita og brennisteini, að meðal sóknarmanna hafi þar oftar ríkt fátækt en auður, jafnvel svo, að til landauðnar dró á tímabili.

Krýsuvíkurkirkja

Krýsuvíkurkirkja 1940 – Sigríður Hansen Guðmundsdóttir.

Ég skal nefna hér eitt dæmi þessu til stuðnings. Árið 1553-’54 telur Marteinn biskup “kirkju þar góða, – en enginn bær er þá í sókninni”. Eitthvað hefur þetta ömurlega hlutskipti þess byggðarlags varðað, því að með bréfi 27. Sept. 1563 leggur Páll Stígsson hirðstjóri, í samráði við Gísla Jónsson biskup í Skálholti, niður sóknarkirkju í Krýsuvík, og leggist hún og eitt kot “sem þar er hjá”, til Strandarkirkju í Selvogi. Þó skal í Krýsuvík standa lítið húskorn, Guðs vegna og þess heimilisfólks, sem þar kann að vera sjúkt eða gamalt. “Og herra Gísli skyldi nokkur kúgildi til leggja, svo að Guðs orðs þénari mætti þar hvíld nætursakir hafa, þá hann þar kæmi eða þyrfti þar að koma guðlegrar hjarðar að vitja.”
Krýsuvíkurkirkja virðist þó standa eftir sem áður. Árni Magnússon telur hana útkirkju frá Strönd. Svo er og í kirkjuskrá 1748, og enn í prestakallaskipunarlögum frá 1880.
Krýsuvíkurkirkja
Með prestakallalögum 1907 er Krýsuvíkursókn lögð ti Staðarprestakalls í Grindavík. Loks er með stjórnarráðsbréfi 21. október 1929 Krýsuvíkurkirkja lögð niður og sóknin sameinuð Grindavík (Stjt. 1929 B. 305).
Með þessari síðustu ráðstöfun mætti ætla, að lokið væri sögu Krýsuvíkurkirkju hinnar fornu. Þó má segja enn sem fyrr, að kirkjan stendur eftir sem áður, – en mennirnir viðurkenna hana ekki lengur. – Ég fæ ekki betur séð en við þetta yfirgefna hús, sem einu sinni var guði vígt, hafi komið fram hinn sami “huldi verndarkraftur”, sem Jónas kveður um í Gunnarshólma, um “hólmann, þar sem Gunnar sneri aftur”, og forðaði því frá að afmást með öllu, svo enginn sæi þess lengur stað.

Krýsuvíkurkirkja

Krýsuvíkurkirkja 1964.

Það má segja, að frá 1563-1929 hafi Krýsuvíkurkirkjusókn verið í útlegð, eða í 366 ár. Í 344 ár var hún á vist hjá Strandarkirkju í Árnessýslu og í tuttugu og tvö ár hjá Staðarkirkju í Grindavík, þ.e. frá 1907-1929. Það ár er kirkja lögð niður í Krýsuvík. Eftir það eiga Krýsvíkingar kirkjusókn til Grindavíkur. Löng kirkjugata það.
Árið 1929, þegar kirkjan var lögð niður, eru þrjár fjölskyldur í sókninni, ein mannmörg, tvær miðlungi stórar. Þá mun hafa verið búið að ákveða vegarlagningu um Krýsuvík, ef hún hefur ekki þegar verið hafin.
Og vegurinn kom. Með veginum kom fólkið og nokkrar framkvæmdir, þótt eitthvað af þeim hafi farið nokkuð á annan veg en skyldi, – en þetta kemur í hendi, sagði karlinn.

Magnús Ólafsson

Magnús Ólafsson í Krýsuvík. Síðasti bóndinn.

Svo fóru gömlu Krýsvíkingarnir alfarnir. Flestir fóru þeir eftir hinum aldagömlu slóðum, sem þeir höfðu farið margir alla ævina, aðrir skemur. Svo kom nýtt fólk eftir nýja veginum, sumir til búsetu, aðrir sem farfuglar. Það var því enn komið fólk í hina fornu Krýsuvíkursókn, – en “kirkja fyrirfinnst engin á staðnum”.
Eftir að síðasti ábúandinn var fluttur veikur burt frá Krýsuvík og átti þangað ekki afturkvæmt, var lokið allri umhirðu um hina fornu kirkju, er hann hafði búið í mörg síðustu árin þar. Það beið heldur ekki lengi, þar til þar fyrirfannst hvorki gluggi né hurð. Hurðarleysið kom sér líka betur fyrir þá hjörð, sem þá tók að sækja þetta forna guðshús. Þar inni fann skjól í hrakviðrum fjöldi nautgripa og hesta, er þarna voru til hagagöngu á sumrin.
Flestir, sem þarna voru kunnugir, töldu víst, að um þetta forna, vanhirta hús færi þá og þá sömu leiðina sem önnur hús staðarins, það hryndi í rúst eða fyki burt. Nei, hin forna, yfirgefna kirkja fauk hvorki né hrundi. Hún stóð af sér öll stórvirði og alla “hverakippi”.

Krýsuvík

Krýsuvíkurkirkja 2010.

Hún bara beið, beið eftir sveini, er leysti hana úr böndum. Og sveinninn kom. Fyrir hans tilverknað stendur í dag á hlaði hinnar fornu stórjarðar fegurra hús en þar hefur áður staðið og bíður þess að vígjast í kirkju eða kapellu Krýsuvíkursóknar.
Vonandi bíður þess húss aldrei önnur eins niðurlæging sem hinnar síðustu kirkju staðarins.
Þessi síðasta Krýsuvíkurkirkja, sem hér um ræðir, mun að öllum líkindum vera fyrsta kirkja þar, er byggð var úr timbri einu saman.

Krýsuvíkurkirkja

Innansmíð Krýsurvíkurkirkju teiknað árið 1810 – Holland.

Þessi kirkja var byggð 1857. Síðan er henni getið í mörgum prófastavisitasíum og ávallt nefnd “timburhús”.

Í biskupsvísitasíu árið 1875 er Krýsuvíkurkirkju lýst allnákvæmlega. Þar kvartar biskup yfir, að ekki hafi þá verið gert við galla þá, sem á kirkjunni hafi verið við síðustu vísitasíu hans. Sér í lagi er það ytri klæðning á þaki, sem sé orðin léleg og þurfi endurnýjunar við. Telja má fullvíst að aðalsmiður hafi verið Beinteinn Stefánsson bóndi að Arnarfelli í Krýsuvík, og má heita skemmtileg tilviljun, að dóttursonur hans var til þess að gera nú upp hina gömlu kirkju af nákvæmni og hagleik, sem þeim frændum hefur báðum verið í blóð borinn.”
Staldrað var við hjá leiði Sveins Björnssonar, málara og yfirlögregluþjóns í Hafnarfirði, en hann var síðastur grafinn í kirkjugarðinum í Krýsuvík.
Frábært veður. Gangan tók 1 klst og 11 mín.

Krýsuvík

Krýsuvík – uppdráttur ÓSÁ.