Grindavík

Gengið var upp úr Klifhólahrauni á Þorbjarnarfell að suðvestanverðu um svonefndan Gyltustíg og upp á vesturöxlina.

Gyltustígur

Gyltustígur (t.h.).

Af henni er fallegt útsýni yfir Illahraun og Bláa lónið. Móbergshamrar eru undir og sjá má fýlinn fljúgja með brúninni. Haldið var áfram til norðausturs með norðuröxl fjallsins að vestanverðu og síðan beygt til hægri handan vesturbrúnar misgengisins, sem liggur um miðju fjallsins. Þar niður liggur mikil gjá, en hún tekur fljótt enda undir háum veggjum gjárinnar. Skammt austar er Þjófagjá. Ætlunin var að ganga niður hana og rifja upp söguna af þjófunum, sem þar áttu að hafa hafst við fyrr á öldum.

Þorbjarnarfell er í daglegu tali nefnt Þorbjörn. Þetta er stakt móbergsfjall, 243 m. á hæð. Af því er mikið útsýn yfir Grindavík og nærliggjandi svæði.

Þjófagjá

Í Þjófagjá.

Norðan og norðaustan í fjallinu er mikil jarðhitamyndun þar sem fyrir er Svartsengi og Sýlingafell, jarðhitasvæði þar sem Bláa lónið er m.a. staðsett. Toppurinn á Þorbirni hefur fallið niður og miðja þess myndað misgengi og sigdal. Misgengið fylgir ekki SV og NA sprungureininni líkt og meginlandsflekamörkin heldur liggur sprungan SN líkt og nokkrar slíkar syðst á Reykjanesskaganum. Reykjanesinu er gjarnan skipt í 4 eða 5 eldstöðvakerfi, Reykjanes-Grindavík-Vogar (oft talið sem tvö kerfi), Krýsuvík-Trölladyngja, Brennisteinsfjöll-Bláfjöll og Hengill-Selvogur. Hliðrunarbelti með austur-vestur stefnu í gegnum þessi kerfi veldur tíðum jarðskjálftum á Reykjanesi og á því hafa myndast háhitasvæði á yfirborði, s.s. á Reykjanesi, í Eldvörpum, í Svartsengi, í Krýsuvík og í Brennisteinsfjöllum. Þorbjörninn hefur verið talinn frá því á síðasta jökulskeiði, en rannsóknir á honum benda til að hluti hans geti einnig verið frá fyrra jökulskeiði. Hann er þannig með eldri fjöllum á Reykjanesskaganum.

Þorbjarnarfell

Leifar Camp Vail á Þorbjarnarfelli.

Þar sem staðið var efst á Gyltustígnum og umhverfið norðan og vestan Þorbjörns litið augum mátti t.d. horfa niður á Baðsvelli, grasi gróna velli norður af fellinu þar sem gróðursett hafa verið tré á undanförnum árum. Skammt norður af Baðsvöllum er orkuver Hitaveitu Suðurnesja úti í Illahrauni, kennt við Svartsengi. Illahraun er frá sögulegum tíma, sennilega frá 13. öld. Aðstandendur Bláa lónsins segja að varla sé hægt að fara hjá Svartsengi án þess að fara í bað í Bláa lóninu, en það er þó vel hægt, eins og dæmin sanna. Það er alveg eins hægt, að lokinni göngu, að halda niður til Grindavíkur og skella sér í hina ágætu sundlaug þarlendra. A.m.k. er hægt að spara verulega á því.

Gálgaklettar

Gálgaklettar í Hagafelli.

Þegar gengið er til austurs má sjá Hagafellið að handan. Austan þess er hamraveggur, sem er misgengi sem klýfur fellið, en undir hamraveggnum eru Gálgaklettar. Þeirra er einnig getið í þjóðsögunni um þjófana í Þorbirni.
Þegar komið er að Þjófagjá má sjá stríðsminjar í gígnum fyrir neðan. Um var að ræða hluta af ratstjárstöð og kampi líkt og voru uppi á hnjúknum Darra í Aðalvík á Vestfjörðum. Einnig var slík stöð uppi á á Hraunhóli á Reynisfjalli í Vík, Siglunesi, Skálum Laugarnesi, Vattarnesi við Reyðarfjörð og Hafnartanga í Stokksnesi.
Þegar gengið er niður í Þjófagjá skiptir miklu máli að fara rétt niður í hana. Kunnugir rata einstigið niður í gjána, en eftir það er leiðin tiltölulega greiðfær, sé rétt að farið. Niðri í miðri gjánni er hellisskúti þjófanna, en hann hefur gengið nokkuð saman eftir því sem árin hafa liðið.

Þjófagjá

Þjófagjá.

Er svo sagt, að þar hafi einu sinni hafst við fimmtán þjófar, sem lögðust á fé Grindvíkinga. Eigi sáu byggðarmenn færi á að vinna þá fyrr, en bóndason frá Hópi tókst á hendur að svíkja þá. Hann fór til þeirra, sór þeim trúnaðareið og var með þeim um hríð. Hann varð þess vís, að þeir fóru hvern laugardag í bað í laug þeirri, sem er á Baðsvöllum norðan undir fjallinu.
Einn gætti klæða þeirra, meðan þeir voru í baðinu, og gerðu þeir það til skiptis. Svo kom, að þeir trúðu bóndasyni fyrir að geyma föt sín. Þá sneri hann um annarri skyrtuerminni og annarri brókarskálminni hjá þeim öllum og hljóp síðan, sem fætur toguðu, til bæja. Það fór eins og hann ætlaðist til; þjófunum varð tafsamt að komast í föt sín, og ekki fóru þeir nema í nærklæðin og eltu hann síðan, en náðu honum ekki. Urðu þeir mjög sárfættir í grjótinu.

Baðsvellir

Baðsvellir.

Nú þustu byggðarmenn að þeim, og gátu þeir ekki komist undan. Voru þeir allir teknir höndum og hengdir þar, sem síðan heita Gálgaklettar. Bóndasonurinn varð ólánsmaður, en eigi er getið, hvað fyrir hann kom.
Þegar komið er niður í gjána opnast hún mót suðri og Grindavíkurbær og hraunsvæðin og ströndin framundan breiðir úr sér á móti þeim, sem það ber augum. Gangan þarna niður af fellinu er auðveld.

Heimild m.a.: http://bokasafn.rnb.is/default.asp?cat_id=270

Þjófagjá

Í Þjófagjá.