Náma

Nýlega kom í ljós op í námunni í Undirhlíðum (við Bláfjallaveginn) þegar unnið var við að færa til efni úr hlíðinni. Uppistaðan er bólstraberg eins og glögg má t.d. sjá í giljunum milli Sveifluhálsar og Kaldárhnúka. Við athugun kom í ljós u.þ.b. 30 metra langur hellir. Skömmu eftir að hellirinn uppgötvaðist var hann skoðaður og myndaður.

Náman

Hellirinn er norðanlega í námunni. Þótt hin stóra náma falli ekki beinlínis inn í landslagið, heldur þvert á móti, gefur þessi hellir til kynna spennandi myndun, jafnvel þótt hellirinn sjálfur sé svo sem ekkert mjög spennandi. Hann er þó, sem fyrr sagði, um 30 m langur. Þarna í bólstabergi og breksíu drasli er, öllum að óvörum, hraunhellir. Í honum eru m.a. hraunreipi og alles… og ekki er hvað síst spennandi að velta fyrir sér myndun hans, en svo virðist sem þarna hafi hraun runnið frá A til B í holrúmi á töluverðu dýpi.
Bólstraberg getur myndast bæði úr basískri og súrri kviku þegar kvikan rennur í vatni. Við slíkar aðstæður kólnar yfirborð kvikunnar snögglega. Seigjan verður því mest á yfirborðinu og leitast kvikan því við að mynda því sem næst kúlulaga form svo yfirborð verði sem minnst miðað við rúmmál. Yfirleitt ná bólstrarnir ekki að verða kúlulaga en líkjast einna helst vel úttroðnum koddum sem fletjast út vegna eigin þunga og eru því yfirleitt ílangir. Oft sjást tengsl á milli þeirra því líklegt er að kvikan streymi úr einum bólstri í þann næsta.

Í hellinum

Bólstrarnir eru glerjaðir að utan en innar er fínkornótt blöðrótt berg sem er smástuðlað og vita stuðlarnir hornrétt á yfirborðið, þ.e. kólnunarflötinn.
Þegar basísk hraun renna út í sjó eða stöðuvötn mynda þau oft stóra, fremur óreglulega bólstra. Við mikinn vatnsþrýsting í djúpu vatni eins og gerist við eldgos á hafsbotni eða undir þykkum jökli myndast reglulegir bólstrar. Oft mynda þeir margra metra þykkt bólstrabergslag þar sem bólstrarnir liggja hver um annan þveran og eru þeir oftast fremur smáir. Þannig myndanir eru algengar neðst í stöpum og bólstrabergshryggjum. Má sjá slík bólstrabergslög í Stapafelli á Reykjanesi, Mosfelli í Mosfellsdal og Sigöldu sem er dæmigerður bólstrabergshryggur. Skálaga bólstraberg og bólstrabrotaberg myndast þegar gjall eða gjóska mynda skálaga hlíðar undir vatnsborði og einstaka bólstrar eða brot úr þeim renna niður hallann og umlykjast gjóskusalla. Slíkar myndanir eru algengar undir hraunhettum stapa og apalhraunum sem renna út í vatn.
Í UndirhlíðahelliUndirhlíðarnar eru eldri en t.d. hraunin umhverfis. Líklegt má telja að þær hafi myndast er ystu nes og tangar, s.s. Kársnes, Digranes, Arnarnes, Stapinn og Rosmhvalanes voru í bernsku fyrir u.þ.b. 200.000 árum. Mörg hinna eldri fjalla Reykjanesskagans byggja á bólstrabergi og er Stapafellið skýrasta dæmið um það, sem fyrr sagði, enda nú búið að “skafa það inn að skinni”. Í Stapafelli má t.d. sjá einn stærsta “bólstra” í heimi (sbr. Sig. Þórarinsson).
Hvað sem þessu öllu líður er hér um forvitnileg fyrirbæri að ræða, helli (rás) í bólstrabergi, sem reyndar verður að teljast nokkuð sjaldgæft, jafnvel hér í landi hraunhellafjölbreytileikans.
Utan í Undirhlíðum má sjá, auk þessa, gíga og hraun frá nútíma, s.s. hluta af Ögmundarhraunsgígaröðinni(Nýjahraun/Kapelluhraun til norðurs), Kerin og Gvendarselsgíga nyrst.

Heimild m.a.:
-http://www.ismennt.is/not/gk/jfr/ordskyr/
-Björn Hróarsson.

Í Undirhlíðahelli

Í Undirhlíðahelli.