Selatangar

Þór Magnússon skrifaði um “Verbúðarrústir á Selatöngum” í Lesbók Morgunblaðsins 27. júní 1976:
Selatangar-2018“Selatangar eru undarlegt ævintýraland og óvíða munu jafnskemmtilegar minjar um útræði hér á landi og einmitt þar, þótt  staðurinn hafi verið litt þekktur fyrr en nú á síðustu árum.
Selatangar eru um það bil miðja vegu milli Grindavíkur og Krýsuvíkur, nokkru austan við Ísólfsskála. Þarna hefur Ögmundarhraun gengið í sjó fram og myndað tanga og er þar sæmileg lending. Hana hafa menn hagnýtt sér og smám saman myndazt þarna verstöð, sem harla lítið er þó vitað um úr rituðum heimildum. Hins vegar vitna rústirnar um það, sem þarna hefur farið fram.
Hér er fjöldinn allur af fiskbyrgjum og nokkrar verbúðir, sem hægt er að greina, og er þetta listilega vel hlaðið úr hraunhellum og stendur allvel, þótt tímans tönn hafi unnið á sumu.
Síðast er talið, að róið hafi verið frá Selatöngum 1884. Fyrir mun hafa komið, að menn lentu á Selatöngum síðar ef lending var ófær annars staðar, en síðasti formaður af Selatöngum mun hafa verið Einar bóndi í Stóra-Nýjabæ í Krýsuvík Einarsson, afi Þorvaldar Þórarinssonar lögfræðings.
Ruddur vegur liggur af þjóðveginum, Ísólfsskálavegi, gegnum hraunið og niður á Selatanga, en hann er illfær litlum bílum. En fjarlægðin er ekki meiri en svo, að þeir, sem röskir eru til gangs fara það á stuttri Selatangar - sjóbúðstundu og er vissulega ástæða til að hvetja þá, sem áhuga hafa á minjum sem þessum, að kynnast þessum einkennilega minjastað.
Erfitt er nú að sjá, hverju hlutverki hver og ein rúst hefur gegnt, enda eru þær mjög misgamlar og hinar elztu nokkuð ógreinilegar. Þó má yfirleitt greina verbúðirnar af bálkunum, sem sofið hefur verið á, og sumar eru skiptar með vegg. Uppsátrið sést einnig allglöggt, en rústirnar ná yfir talsvert stórt svæði með sjónum.
Vestan við rústirnar er sandfjara og í hraunjaðrinum þar vestan við er hellir, Nórarhellir, sem hægt er að komast í um fjöru. Hann mun draga nafn sitt af því, að Hraunsmenn í Grindavík geymdu þar selanætur sínar.”

Heimild:
-Verbúðarrústir á Selatöngum – Þór Magnússon – Lesbók Morgunblaðsins 27. júní 1976, bls. 12.
Selatangar - uppdráttur

Selatangar – uppdráttur ÓSÁ.