Færslur

Selatangar

Þór Magnússon skrifaði um Seltanga í Lesbók Morgunblaðsins árið 1976:

Selatangar

Verbúðartóftir á Seltatöngum.

“Selatangar eru undarlegt ævintýraland og óvíða munu jafnskemmtilegar minjar um útræði hér á landi og einmitt þar, þótt staðurinn hafi verið litt þekktur fyrr en nú á síðustu árum.
Selatangar eru um það bil miðja vegu milli Grindavíkur og Krýsuvíkur, nokkru austan við Ísólfsskála. Þarna hefur Ögmundarhraun gengið í sjó fram og myndað tanga ng er þar sæmileg lending. Hana hafa menn hagnýtt sér og smám saman myndazt þarna verstöð, sem harla lítið er þó vitað um úr rituðum heimildum. Hins vegar vitna rústirnar um það, sem þarna hefur farið fram.

Selatangar

Selatangar.

Hér er fjöldinn allur af fiskbyrgjum og nokkrar verbúðir, sem hægt er að greina, og er þetta listilega vel hlaðið úr hraunhellum og stendur allvel, þótt tímans tönn hafi unnið á sumu.
Síðast er talið, að róið hafi verið frá Selatöngum 1884. Fyrir mun hafa komið, að menn lentu á Selatöngum síðar ef lending var ófær annars staðar, en síðasti vermaður af Selatöngum mun hafa verið Einar bóndi í Stóra-Nýjabæ í Krýsuvík, Einarsson, afi Þorvaldar Þórarinssonar lögfræðings.

Selatangar

Selatangar – rekagatan um Katlahraun.

Ruddur vegur liggur af þjóðveginum, Ísólfsskálavegi, gegnum hraunið og niður á Selatanga, en hann er illfær litlum bílum. En fjarlægðin er ekki meiri en svo, að þeir, sem röskir eru til gangs fara það á stuttri stundu og er vissulega ástæða til að hvetja þá, sem áhuga hafa á minjum sem þessum, að kynnast þessum einkennilega minjastað.
Erfitt er nú að sjá, hverju hlutverki hver og ein rúst hefur gegnt, enda eru þær mjög misgamlar og hinar elztu nokkuð ógreinilegar. Þó má yfirleitt greina verbúðirnar af bálkunum, sem sofið hefur verið á, og sumar eru skiptar með vegg. Uppsátrið sést einnig allglöggt, en rústirnar ná yfir talsvert stórt svæði með sjónum.
Vestan við rústirnar er sandfjara og í hraunjaðrinum þar vestan við er hellir, Nótarhellir, sem hægt er að komast í um fjöru. Hann mun draga nafn sitt af því, að Hraunsmenn í Grindavík geymdu þar selanætur sínar.”

Sjá meira um Selatanga HÉR.

Heimild:
-Lesbók Morgunblaðsins – 24. tölublað (27.06.1976), Þór magnússon; Þjóðminjar – Verbúðarrústir á Selatöngum, bls. 12.

Selatangar

Tóftir á Selatöngum.

Grindavík

Grinda­vík hlaut kaupstaðarrétt­indi 10. apríl 1974. Saga Grindavíkur sem byggðar er þó mun lengri.
Í Fornleifaskráningu í Grindavík – 3. áfanga, má lesa eftirfarandi yfirlit um “Þróun byggðar í Grindavík” í sögulegu samhengi. Taka þarf þó skráninguna með hæfilegum fyrirvara.

Grindavík

Grindavík – umdæmi.

“Grindavíkurhreppur liggur með suðurströnd Reykjaness frá Valahnúk að vestan, sem skilur land og reka Grindavíkur og Hafna, austur að Seljabót, en þar austan við tekur við Selvogshreppur (nú Ölfus). Að norðan eiga Grindavíkingar hreppamörk á móts við Hafnamenn, Njarðvíkinga, Garðahrepp og Vatnsleysustrandarhrepp.

Geldingadalir

Geldingadalir – eldgos.

Náttúrufar í hreppnum einkennist af þeim miklu eldsumbrotum sem þar hafa orðið á nútíma og sögulegum tíma og er stór hluti svæðisins óbyggilegur af þeim sökum. Víða meðfram ströndinni og á milli hraunbreiðanna eru þó fagurgrænir og búsældarlegir vellir þar sem byggð hefur staðið öldum saman. En það eru ekki aðeins eldsumbrot sem ógna landi og lífi á þessum slóðum. Landbrot sjávar hefur verið, og er, mjög mikið og færist strandlínan ört upp í landið. Auk þess hefur uppblástur verið mikið vandamál og hafa þannig áður gróin og nýtileg svæði orðið að örfoka melum.

Staðarberg

Staðarberg.

Hér verður fyrst gerð grein fyrir landnámi í Grindavíkurhreppi eins og því er lýst í Landnámabók, en á grunni þess og staðsetningu kirkna og kumla má oft setja fram tilgátur um hvaða jarðir byggðust fyrstar. Kuml eru auðsjáanlega vísbending um búsetu fyrir árið 1000, en kirkjur og bænhús eru yfirleitt talin vera reist skömmu eftir kristnitöku.

Hóp

Hóp – minjar gamla bæjarins, þ.á.m. hofstóft.

Nærtækasta skýringin á hinum mikla fjölda guðshúsa almennt er sú að þau hafi upphaflega verið reist við heimagrafreiti, sem voru líklega við hvern bæ líkt og kumlateigar í heiðni. Sé svo má nota bænhús eða kirkjur sem vísbendingu um að viðkomandi bær hafi verið kominn í byggð á fyrri hluta 11. aldar. Jarðir þar sem kirkjur eða bænhús hafa verið eru einnig að jafnaði stærri og dýrari en þær sem ekki höfð slíkum húsum á að skipa og getur því verið freistandi að álykta að hinar síðarnefndu séu seinna til komnar, eða hafi að minnsta kosti ekki verið orðnar sjálfstæð býli á fyrri hluta 11. aldar. Lögbýli á skráningarsvæðinu, átta talsins, eru ef talið er frá vestri til austurs: Staður, Húsatóptir, Járngerðarstaðir, Hóp, Þórkötlustaðir, Hraun, Ísólfsskáli og Krýsuvík.

Grindavík

Útsýni til sjávar frá Grindavík.

Samkvæmt Landnámabók voru landnámsmenn í Grindavíkurhreppi tveir. Annars vegar Molda-Gnúpur Hrólfsson sem nam land í Grindavík, og hins vegar Þórir haustmyrkur Vígbjóðsson sem nam Krýsuvík og Selvog. Molda-Gnúpur var sonur Hrólfs höggvanda sem bjó á bænum Moldatúni á Norðurmæri í Noregi, en bróðir hans Vémundr. Gnúpur fór til Íslands fyrir vígasakir þeirra bræðra og nam land milli Kúðafljóts og Eyjaár. Þar bjó hann þar til landið spilltist af jarðeldum og hann flúði vestur til Höfðabrekku. Vémundur Sigmundarsonar kleykis, sem þar átti land, meinaði honum hins vegar dvöl þar og flutti Gnúpur sig þá í Hrossagarð þar sem hann var um veturinn.

Núpshlíð

Núpshlíðarhorn.

Þegar hér er komið sögu ber Hauksbók og Sturlubók Landnámu ekki saman um örlög Molda-Gnúps eða sona hans. Samkvæmt Hauksbók féll Molda-Gnúpur ásamt tveimur sona sinna í Hrossagarði, en Björn sonur hans (og e.t.v. einnig Gnúpur) fór til Grindavíkur og staðfestist þar. Sturlubók segir hins vegar að vegna ófriðar og vígafars í Hrossagarði hafi þeir feðgar allir farið til Grindavíkur og numið þar land. Hvorug bókanna nefnir nöfn landnámsjarða í Grindavík og verður því ekki af Landnámu einni séð hvaða bæir byggðust þar fyrstir.

Húshólmi

Húshólmi – tóftir í Ögmundarhrauni.

Um landnám í Krýsuvík eru Sturlubók og Hauksbók sammála og segja: „Þórir haustmyrkr nam Selvág ok Krýsuvík, en Heggr son hans bjó at Vági.“ Af því má áætla að Þórir hafi sjálfur búið í Krýsuvík. Um tímasetningu landnáms í Grindavík og Krýsuvík er ekkert vitað með vissu. Rannsóknir jarðfræðinga hafa þó bent til þess að frásögn Landnámu af jarðeldum í Skaftafellssýslu eigi við rök að styðjast og hafi þeir líklega átt sér stað á 4. áratug 10. aldar. Sé það rétt, og sögurnar jafnframt taldar trúverðugar, má hafa það sem vísbendingu um tímasetningu landnáms í Grindavík. Segja má að Grindavík hafi horfið af kortinu á 13. og 14. öld. Ástæðan var ítrekuð eldgos. Um þetta verður þó ekkert fullyrt.

Grindavík

Járngerðarstaðir – gömlu húsin færð í nútímann.

Hvenær Þórir haustmyrkur kom í Krýsuvík og Selvog er hins vegar ekki hægt að lesa úr frásögn Landnámu. Hvergi er heldur talað um hversu margir fylgdu þeim Þóri eða Molda-Gnúp að landnámum þeirra á Suðurströndinni. Staðsetning allra lögbýlanna í hreppnum er kunn, enda var búið á þeim öllum fram á 20. öld. Enn er búið á Járngerðarstöðum, Hópi, Þórkötlustöðum og Hrauni, þótt búskapur sé þar ekki mikill.

Staður

Staður 1960. Kirkjugarðurinn fjær.

Staður fór í eyði árið 1964, og hafa flestöll hús þar verið rifin og tún að miklu leyti sléttuð. Þar er þó enn kirkjugarður Grindvíkinga, þótt sóknarkirkja hafi ekki verið þar síðan 1909.

Húsatóftir

Húsatóftir.

Á Húsatóptum hefur ekki verið búið síðan 1946 en þar er nú Golfvöllur Grindvíkinga og er heimatúnið því meira og minna rennislétt. Síðasta íbúðarhúsið á Tóptum, reist 1930, er nú klúbbshús golfklúbbsins en nýtt íbúðarhús hefur verið reist í túninu norðaustan þess. Þar er þó enginn búskapur. Ísólfsskáli og Krýsuvík fóru í eyði um eða eftir miðja 20. öld. Á Ísólfsskála stendur íbúðarhús frá 1929 enn ásamt tveimur sumarbústöðum. Að öðru leyti eru þar engin hús og túnin meira og minna sléttuð. Í Krýsuvík hafa hús verið rifin, nema kirkjan frá árinu 1857 sem enn stendur. Ólíkt hinum jörðunum hafa tún þar hins vegar ekki verið sléttuð nema að litlu leyti.

Ísólfsskáli

Ísólfsskáli – gamli bærinn.

Tveir bæjanna hafa verið fluttir til svo vitað sé. Annars vegar Ísólfsskáli, en árið 1916 var bærinn fluttur, eftir að hafa verið í eyði í þrjú ár. Bærinn var byggður frá stofni um 150 m norðan við eldra bæjarstæði í túninu, en landbrot sjávar er mikið vandamál á þessum slóðum. Hins vegar Krýsuvík, en talið er að upprunalega hafi bærinn staðið þar mun sunnar, enda er nafngiftin einkennileg fyrir bæ sem stendur svo langt inn í landi. Austast í Ögmundarhrauni eru hólmar tveir í hrauninu og heitir sá eystri Húshólmi. Í honum eru rústir bæjar og kirkju og hafa þær verið nefndar Gamla-Krýsuvík. Munnmæli herma að þar hafi bærinn staðið áður en hraunið rann. Þótt ekkert sé vitað með vissu um það er víst að í hólmanum eru greinilegar tóftir sem benda til þess að þar hafi verið bær. Örnefnið Húshólmi kemur fyrst fyrir í trjáreikningi frá 1609.

Húshólmi

Húshólmi – tilgáta.

Í Ferðabók Eggerts og Bjarna, sem lýsir ferðum þeirra árin 1752-57, segir ennfremur: “Eldflóðið féll í sjó niður og eyddi nokkrum bæjum á því svæði, sem nú heitir Ögmundarhraun. Meðal þeirra var kirkjustaður, sem Hólmastaður hét, og sjást þar enn minjar kirkjugarðsins og húsatóttanna.” Örnefnið „Hólmastaður“ er þó líklega til komið eftir að hraunið rann og má því ímynda sér að þar hafi bærinn í Krýsuvík áður verið. Haukur Jóhannesson jarðfræðingur gróf tvö snið í Húshólma, annað í gegnum torfgarð sem þar er og hitt í vegghleðslu fjárborgar nyrst í hólmanum. Bæði sniðin bentu til þess að mannvirkin hefðu verið reist áður en landnámslagið féll, eða fyrir árið 900. Hins vegar lá miðaldalagið upp að hleðslunum beggja vegna sem bendir til þess að verulega hafi verið fokið að þeim þegar það féll 1226/27.

Þórkötlusdys

Þórkötludys.

Ekki hefur fundist heillegt kuml á skráningarsvæðinu svo vitað sé, en kuml eru sjálfstæður vitnisburður um byggð fyrir 1000. Sögusagnir herma þó að Járngerðarleiði og Þórkötluleiði sé að finna í túnum samnefndra bæja. Brynjúlfur Jónsson lét grafa í leiði Járngerðar sumarið 1902 og reyndist það vera öskuhaugur.

Kerlingadalur

Dysjar Herdísar og Krýsu ofan Kerlingahvamms. Dys smalans fremst.

Í landi Krýsuvíkur eru auk þess heimildir um fjórar steindysjar og eru tvær þeirra friðlýstar síðan 1964. Þar eiga að vera dysjaðar fornkonur tvær, þær Krýs og Herdís, en bæir þeirra, Krýsuvík og Herdísarvík, drógu nafn af þeim. Kerlingarnar greindi á um landamerki og mættust á Deildarhálsi og vildi hvorug gefa eftir. Lauk svo með þeim að hvor drap aðra og voru þær síðan dysjaðar í svonefndum Kerlingadal austan við hálsinn. Auk þeirra mun þar vera dysjaður smali sem einnig féll í átökum kvennanna. Hin fjórða dys í Krýsuvíkurlandi er svokallað Ögmundarleiði. Mun þar vera dysjaður Ögmundur sá er Ögmundarhraun dregur nafn sitt af og myrtur var eftir að hafa rutt braut í gegnum hraunið. Ekki hefur verið grafið í dysjar þessar svo vitað sé. Að lokum herma sögusagnir að í Geldingadölum í Hraunslandi sé þúst þar sem Ísólfur á Skála sé grafinn, en hún hefur ekki verið rannsökuð.

Dágon

Dágon á Selatöngum – í fjöruborðinu. Nú horfinn.

Frá fornu fari og allt til ársins 1946, þegar hluti Krýsuvíkurlands var innlimaður í lögsagnarumdæmi Hafnarfjarðar, náði Grindavíkurhreppur yfir tvær kirkjusóknir. Þetta voru Staðarsókn að vestan og Krýsuvíkursókn að austan. Staðarsókn, eða Grindavíkursókn eins og hún var einnig nefnd, teygði sig á milli Valahnúks að vestan að Selatöngum að austan. Miðuðust sóknarmörkin við klett í fjöruborðinu sem nefndur var Dágon, og náði Krýsuvíkursókn frá honum og austur að Seljabótarnefi.14 Allir bæirnir nema Krýsuvík, þ.e. Húsatóptir, Járngerðarstaðir, Hóp, Þórkötlustaðir, Hraun og Ísólfsskáli ásamt hjáleigum áttu kirkjusókn að Stað. Var því um langan kirkjuveg að fara, sérstaklega fyrir austustu bæina, Ísólfsskála og Hraun. Krýsuvík þjónaði heimilisfólki sínu og hjáleigum auk þeirra sem dvöldu í verstöðinni á Selastöngum.

Staður

Staður fyrrum.

Í dag er sóknarkirkja Grindvíkinga í Járngerðarstaðahverfi (Grindavíkurkaupstað), en kirkjugarður sóknarinnar er að Stað í Staðarhverfi, þar sem sóknarkirkja var til ársins 1909. Aðeins er ein önnur uppistandandi kirkja í hreppnum og er sú í Krýsuvík. Öruggar heimildir eru um kirkjur að Stað, á Hrauni og í Krýsuvík frá fornu fari, en hugsanlega hafa þær verið fleiri. Páll Jónsson biskup í Skálholti lét í sinni biskupstíð gera skrá yfir kirkjur í umdæmi Skálholtsstóls. Hann var biskup frá 1195 til 1211 og er skráin yfirleitt talin vera frá því um 1200. Kirknaskrá Páls greinir frá tveimur kirkjum í Grindavíkurhreppi. Annars vegar er sögð prestskyld kirkja að Stað í Grindavík og hins vegar í Krýsuvík.

Húshólmi

Húshólmi – kirkjutóft.

Eins og áður segir herma munnmæli að bærinn í Krýsuvík hafi í upphafi verið þar sem nú heitir Húshólmi í Ögmundarhrauni og telja menn að þar megi sjá bæði bæjartóftir og kirkjutóft. Ögmundarhraun er talið hafa runnið 1151 og ætti því sú kirkja sem nefnd er í kirknaskrá Páls að vera sú sem reist var eftir að bærinn var fluttur, en ekki sú í hólmanum. Það verður þó ekki fullyrt og telja sumir að svo sé einmitt ekki, heldur hafi kirkjan í Ögmundarhrauni verið í notkun í allt að fjórar aldir eftir að hraunið rann og þannig sé til komið nafnið „Hólmastaður“.18 Er sú tilgáta meðal annars reist á því að kirkjutóftin í Húshólma þykir mun heillegri en aðrar tóftir sem þar eru. Auk þess hefur kirkjan verið miðsvæðis, þ.e. á milli Krýsuvíkur og Selatanga. Að lokum er svo sú staðreynd að Krýsuvíkurprestakall var afnumið með hirðstjórabréfi árið 1563, fjórum öldum eftir að hraunið rann, vegna þess hve fámennt það var orðið. Guðshús fékk þó að standa þar áfram vegna þess heimilisfólks sem þó var þar.19 Ekkert af þessu eru óyggjandi rök fyrir því að meint kirkja í Húshólma hafi ekki lagst af um leið og byggðin þar.

Staður

Staður. Kirkjan stóð á hólnum nær. Gröf sjómannanna af Anlaby er vinstra megin ofanvert.

Hin kirkjan sem nefnd var í kirknaskrá Páls Jónssonar var sú að Stað í Grindavík, en þar var sóknarkirkja Grindvíkinga frá fornu fari til ársins 1909. Gömul munnmæli herma hins vegar að kirkja hafi einnig verið á Skarfasetri vestast á Reykjanesi. Árni Magnússon greinir frá munnmælum þessum í Chorographica Islandica og segist hafa þau eftir Eyjólfi Jónssyni og öðrum gömlum Grindvíkingum. Samkvæmt þeim var Staður áður í miðri sveit og sóttu Grindvíkingar kirkju að Hrauni þar til nesið brann og kirkjan var flutt frá Skarfasetri að Stað. Sjö bæir áttu þá að hafa verið vestan Staðar: Rafnkelsstaðir, Mölvík, Sandvík, Háleyjar, Krossvík, Herkistaðir og kirkjustaðurinn Skarfasetur. Engar heimildir styðja þessa frásögn né hrekja, en margir jarðfræðingar munu þó telja ólíklegt að þetta svæði hafi nokkurn tíma verið gróið og byggilegt. Sem fyrr er þó ekkert hægt að fullyrða í þessum efnum. Mögulega hefur kirkjan á Skarfasetri verið einhverskonar útkirkja, en höfuðkirkja Grindvíkinga, þá sem síðar, verið að Stað. Að minnsta kosti á það við svo langt sem öruggar heimildir ná. Reykjaneseldar eru taldir hefjast eftir 1210 og standa með hléum til um 1240 og því hefði Skarfasetur samkvæmt munnmælunum átt að vera í byggð þegar kirknaskrá Páls biskups var tekin saman. Ef þar hefði verið kirkja með prestskyldu hefði það átt að koma fram í skránni.

Grindavík

Grindavíkurkirkja.

Sóknarkirkja var að Stað til ársins 1909 er hún var aflögð og önnur kirkja vígð í Járngerðarstaðahverfi, þ.e. núverandi Grindavíkurkaupstað. Kirkjugarður Grindvíkinga er hins vegar enn að Stað og því hefur aldrei verið grafið við Grindavíkurkirkju. Bænhús og útkirkjur voru algeng á Íslandi og voru oft á öðrum til þriðja hverjum bæ, þótt heimildir séu ekki alltaf tiltækar um þau. Í bréfi um byggingu jarða Skálholtsstóls í Grindavík frá 1563 er boðið að breyta bænhúskúgildum á Hrauni, Þórkötlustöðum og Hópi í leigukúgildi og gæti það verið vísbending um bænhús á þessum stöðum. Engar aðrar heimildir minnast á bænhús á Þórkötlustöðum eða Hópi, en á Hrauni var sem áður segir.

Hraun

Hraun – forn signingafontur frá fv. kirkju nær.

Samkvæmt munnmælum, sem áður er greint frá, áttu Grindvíkingar að hafa sótt kirkju að Hrauni áður en Reykjaneseldar brunnu og kirkjan var flutt frá Skarfasetri að Stað. Þetta er fremur ólíklegt þar sem Hraunskirkju er ekki getið í kirknaskrá Páls Jónssonar biskups frá því um 1200. Hins vegar er enginn vafi á að kirkja var á Hrauni á miðöldum. Engar heimildir minnast á kirkju á Hrauni á 15. eða 16. öld, og er fyrstu beinu heimildina um hana að finna í Fitjaannál fyrir árið 1602. Þar segir: „Þá drukknuðu á stóra farmaskipi Skálholtsstaðar 24 manneskjur með einni stúlku, fyrir framan Þorkötlustaði í Grindavík … og voru þeir flestir jarðaðir í bænhúsinu í Grindavík á Hrauni.“ Skömmu síðar hefur kirkjan líklega verið aflögð, en í Chorographica Islandica, sem rituð var um 1700, segir Árni Magnússon kirkjuna aflagða fyrir um 100 árum. Í máldaga Staðarkirkju frá 1642 kemur auk þess fram að klukka í eigu hennar sé komin frá Hrauni. Að öðru leyti er lítið vitað með vissu um guðshús þetta. Líklega hefur það verið annaðhvort bænhús eða hálfkirkja, og þá vafalítið þjónað frá Stað. Við kirkjuna hefur verið kirkjugarður þar sem greftraðir hafa verið heimamenn og e.t.v. menn úr Þórkötlustaða- og Járngerðarstaðahverfum.

Hraun

Hraun.

Í Vilkinsmáldaga frá 1397 kveður á um kirkjutíundargreiðslur, legkaup og legsöngskaup Járngerðarstaðamanna, og ber Járngerðarstaðamönnum samkvæmt því að greiða legsöngskaup til Staðar en ekkert legkaup. Þetta gæti bent til þess að á Járngerðarstöðum hafi verið bænhús eða útkirkja, en um það eru engar frekari heimildir. Líklegra er hins vegar að þetta sé vísbending um að grafreitur Járngerðarstaðamanna, og þá væntanlega Þórkötlustaðamanna einnig, hafi verið á Hrauni en presturinn setið að Stað.

Staðarhverfi

Staðarhverfi. 

Í áðurnefndum Vilkinsmáldaga frá 1397 er eftirfarandi klausa: „Hún [kirkjan að Stað] á fjórðung úr Lónalandi, og skal sá hafa leigu af þeim sem kirkju varðveitir slíka sem settist við þann er þar býr.“ Þessi klausa hefur þótt torskilin þar sem jörð með þessu nafni hefur aldrei verið í Grindavík svo vitað sé. Í riti sínu Saga Grindavíkur. Frá landnámi til 1800 gerir Jón Þ. Þór ráð fyrir því að um misritun sé að ræða og í stað „Lónalands“ eigi þar að standa „Hraunsland“. Ennfremur leggur hann þann skilning í ofangreinda klausu að leiga af jarðarpartinum í Lónalandi skyldi renna til Staðar eftir því sem um semdist milli kirkjuhaldara á Lónalandi og ábúanda þar. Á þessum grunni telur hann hugsanlegt að kirkja á Hrauni sé risin 1397, þegar Vilkinsmáldagi er gerður. Hér er hins vegar um misskilning að ræða. Það sem átt er við með ofangreindri klausu er að leiga af eignarhlut Staðarkirkju í Lónalandi skyldi renna til kirkjunnar, þ.e. Staðarkirkju, eftir því sem um semdist við ábúanda á Lónalandi. Það er því auðséð að ekki má af þessu draga neinar ályktanir um kirkju á Hrauni.

Grindavík

Grindavík – Rafnkelsstaðir í Járngerðarstaðahverfi.

Örnefni, eins og t.d. bæjarnöfn, hafa mikið verið rannsökuð í gegnum tíðina og geta þau oft gefið einhverjar vísbendingar um aldur byggðar. Bæjarnöfn sem eru ósamsett náttúrunöfn eru yfirleitt talin til marks um elsta stig búsetu. Algengustu liðir í bæjarnöfnum í Landnámu eru fell, dalur, holt, nes vík, hóll, á og eyri, og flest þeirra ósamsett. Ósamsett náttúrunöfn í Grindavíkurhreppi eru tvö, Hraun og Hóp. Ein jörð, Krýsuvík, ber samsett náttúrunafn, og er í Landnámu sögð numin um leið og Selvogur, sem einnig er samsett náttúrunafn. Bæjarnöfn sem enda á –staðir eru yfirleitt talin tilheyra síðari stigum landnáms. Tvö lögbýli bera slík nöfn, Þórkötlustaðir og Járngerðarstaðir (og eyðijörðin Gestsstaðir í landi Krýsuvíkur), auk þess sem hugsanlega mætti telja Stað til þessa flokks.

Hóp

Hóp – tóftir gamla bæjarins.

Miðað við þessar vísbendingar einar mætti ætla að Hraun og Hóp hafi verið þær jarðir sem fyrstar byggðust í Grindavík. Sé hins vegar litið til áðurgreindra jarðfræðirannsókna á eldsumbrotum í Skaftafellssýslu, má e.t.v. samkvæmt þeim rekja landnám í Grindavík til 4. áratugar 10. aldar (en engan veginn er hægt að fullyrða um það). Það verður að teljast til síðari stiga landnáms, enda hafði Ari Þorgilsson, ritari Íslendingabókar, það eftir spökum mönnum „…at á sex tegum vetra yrði Ísland albyggt…“. Samkvæmt því væri eðlilegt að þær jarðir sem fyrstar byggðust í Grindavík hafi borið nöfn með endingunni –staðir. Auk þess má benda á að byggð í Grindavík skiptist í þrjú hverfi sem bera nafn af jörðunum Stað, Járngerðarstöðum og Þórkötlustöðum, þ.e. þeim jörðum sem samkvæmt nafnakenningunni teljast til síðari stiga landnáms. Í öllum hverfunum eru þó tvö lögbýli, Staður og Húsatóptir í Staðarhverfi, Járngerðarstaðir og Hóp í Járngerðarstaðahverfi og Þórkötlustaðir og Hraun í Þórkötlustaðahverfi.

Hraun

Hraun – Þórkötlustaðagata fremst.

Ef áðurnefnd kenning um náttúrunöfn ætti að standast í þessu tilviki og Hraun og Hóp væru þær jarðir sem fyrstar byggðust hefði verið eðlilegra að hverfin drægju nafn af þessum fyrstu lögbýlum, þ.e. „Hraunshverfi“ og „Hópshverfi“. En Jón Þ. Þór segir í Sögu Grindavíkur að líklega megi rekja hverfaskiptinguna allt aftur til landnámsaldar. Ef litið er á landfræðilega dreifingu jarðanna má einnig sjá að dreifing jarðanna Staðar, Járngerðarstaða og Þórkötlustaða er mun jafnari ( þ.e. fjarlægð á milli bæjanna er mjög svipuð) en Staðar, Hóps og Hrauns. Hafi landnámsmenn þá viljað skipta landinu bróðurlega á milli sín hefði því verið hyggilegra að velja fyrri kostinn. Þetta eru hins vegar aðeins getgátur einar og ekkert hægt að fullyrða um þessi efni. Standist þessar örnefnakenningar hins vegar má hugsa sér að landnám í Krýsuvík (og Selvogi) hafi orðið fyrr en í Grindavík.

Stóra-Gerði

Stóra-Gerði í Staðarhverfi.

Dýrleiki jarða getur oft gefið vísbendingar um byggðaþróun þar sem ætla má að dýrustu jarðirnar hafi byggst fyrstar. Dýrleikinn var fasteignamat sem virðist hafa verið fastsett mjög snemma, a.m.k. þegar á 12. öld og má því hafa hann sem vísbendingu um misjöfn gæði jarðanna. Dýrleiki flestra jarðanna helst sá sami milli 1695 og 1847. Ísólfsskáli, Hraun og Hóp lækka hins vegar verulega í dýrleika á tímabilinu og er líklegt að landbrot sjávar og uppblástur lands séu helstu orsakir þess. Eins og sést er Staður sagður vera í konungseign árið 1847. Neðanmáls í Jarðatali Johnsens segir hins vegar: „Sýslumaður, og eins jb. [jarðabók] 1803, telur jörð þessa konúngs eign, en jb. 1760 og en prentaða stólsjarðabók, með hér greindum dýrleika og lsk., meðal stólsjarða. “Líklega hefur Stað þarna verið ruglað saman við Húsatóptir, sem voru í konungseign (til 1837) og er getið meðal seldra konungsjarða frá 1760 til ársloka 1846 í jarðatali Johnsens. Staðar er hins vegar ekki getið meðal seldra jarða Skálholtsstóls í fyrrgreindu jarðatali og ætti því réttilega að teljast eign Skálholtsstóls en ekki konungs árið 1847.

Þórkötlustaðahverfi

Þórkötlustaðahverfi.

Í Grindavíkurhreppi var margbýlt á flestum jörðum, og hjáleigur og tómthús voru nokkuð mörg, enda ekki síður treyst á sjósókn en búskap í þessari sjávarsveit. Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá 1703 eru byggðar hjáleigur 27 talsins. Í Jarðatali Johnsens 150 árum síðar eru þær 23. Búseta á hjáleigum og afbýlum fór þó mjög eftir árferði, spratt upp í góðærum en dróst saman þegar harðnaði í ári, og hefur því verið mjög breytileg í gegnum aldirnar.

Þórkötlustaðahverfi

Þórkötlustaðahverfi – Túnakort 1918.

Bygging hjáleiga og þurrabúða var að mestu hætt þegar kom fram á 20. öld, en í staðinn var tekið að reisa nýbýli, oft í landi eldri bújarða. Fiskneysla jókst til muna á 12. og 13. öld og sjávarútvegur fór að fá aukið vægi. Ástæða þess er m.a. kólnandi veðurfar, samdráttur í landbúnaði, vaxandi fólksfjöldi, aukin byggð við sjávarsíðuna og tilkoma föstunnar. Verstöðvar tóku þá að spretta upp í Grindavík sem annars staðar þar sem stutt var á miðin og ný stétt manna, búðsetufólk og þurrabúðarfólk, varð til. Það er ljóst að sjávarútvegur hefur leikið stórt hlutverk í Grindavíkurhreppi frá öndverðu og svæðið fljótlega orðið mikilvægt að því leyti. Landgæði eru ekki mikil í byggðarlaginu og hafa í gegnum aldirnar spillst mjög af eldsumbrotum, uppblæstri og ágangi sjávar. Það verður því að teljast einsýnt að í byggðarlaginu hafi menn þurft að reiða sig á sjósókn samhliða búskapnum þar sem landbúnaðurinn einn hafi ekki staðið undir viðurværi manna.

Seltangar

Selatangar – vestasta sjóbúðin.

Verstöðvar voru á tveimur stöðum í Grindavíkurhreppi, í Grindavík og á Selatöngum. Á Selatöngum var útver með nokkrum verbúðum en aldrei föst búseta. Frá Selatöngum var einkum útræði Krýsuvíkurmanna og var síðast róið þaðan 1884. Þar var aldrei stórt útver, en til er gömul þula sem telur 73 menn við róðra þar. Í Grindavík var dæmigert „blandað ver“, þar sem var í senn heimaver, útver og viðleguver.

Keflavík

Keflavík – rekaítak Krýsuvíkurkirkju.

Þegar á 13. öld áttu Viðeyjarklaustur og Skálholtsstaður rekaítök í Grindavík og þótt þess sé ekki getið sérstaklega er líklegt að þessir staðir hafi þá þegar haft skipstöðu þar. Að minnsta kosti varð Grindavík, ásamt Þorlákshöfn, aðalverstöð Skálholtsstóls, enda átti biskupsstóllinn þar allar jarðir nema Húsatóptir þegar komið er fram á 17. öld. Það var jafnan margt aðkomu vermanna í Grindavík en bátafjöldinn var löngum breytilegur eftir árferði. Sem dæmi reru 26 skip þaðan á vetrarvertíð árið 1703, en árið 1767 eru taldir þar 75 bátar. Um 1870 voru 12 skip gerð út frá Grindavík og um aldamótin 1900 voru þau 30. Sögu Grindavíkur sem árabátaverstöðvar lauk ekki fyrr en á þriðja áratug síðustu aldar.

Grindavík

Grindavík – Gerðavellir fremst. Forn verslunarstaður.

Grindavík var einnig verslunarstaður og komu þangað erlend kaupskip allt frá miðöldum fram á 18. öld. Lengi vel, eða fram á 14. öld, sóttu Grindvíkingar líklegast verslun til Eyrarbakka, en fyrst er getið um komu kauskips til Grindavíkur í lok þeirrar aldar. Með vaxandi skreiðarútflutningi varð vægi kauphafnarinnar í Grindavík meira og benda tiltækar heimildir til þess að umsvifin hafi verið orðin þó nokkur á 15. öld. Englendingar og Hansakaupmenn komu mjög við sögu Grindavíkur á 15. og 16. öld, eins og landsins alls. Fyrsta koma ensks skips hingað til lands, sem heimildir greina frá, var árið 1412, en siglingar Englendinga jukust svo á næstu árum. Umsvif þeirra urðu mest á suður- og vesturlandi og Grindavík varð ein helsta bækistöð þeirra ásamt Básendum, Vestmannaeyjum, Hafnarfirði, Rifi og Flatey á Breiðafirði.

Virki

Virkið Jóhanns breiða ofan við Stórubót.

Aðsetur Englendinga í Grindavík mun hafa verið þar sem heitir „á Hellum“ í Járngerðarstaðahverfi, lítið eitt utan við aðalbyggðina þar. Þegar leið á 2. áratug 16. aldar fór að halla undan fæti hjá enskum kaupmönnum hér við land um leið og vegur Hansakaupmanna fór vaxandi. Um 1520 var svo komið að Englendingar höfðu hvergi fasta bækistöð nema í Grindavík og Vestmannaeyjum. Sögu þeirra í Grindavík lauk svo að fullu með „Grindavíkurstríðinu“ árið 1532 þegar Jóhann Breiði og menn hans voru drepnir í búðum sínum, og síðan dysjaðir þar sem síðan heitir Engelska lág. Eftir þetta komst útgerð í Grindavík að fullu í hendur heimamanna, konungs og kirkju, en Þjóðverjar tóku við versluninni og síðar þegnar Danakonungs. „Enska öldin“ í sögu Grindavíkur hefur því ekki staðið nema í um 14 ár, og samskipti þeirra við heimamenn því e.t.v. ekki verið gríðarleg.

Junkaragerði

Garður í Junkeragerði á Gerðavöllum – uppdráttur ÓSÁ.

Eftir brotthvarf Englendinga úr Íslandsversluninni færðust Þjóðverjar mjög í aukana og sátu þeir nánast einir að henni í um sjö áratuga skeið. Þessi útgerð og verslun Hansamanna hér við land var konungsvaldinu mikill þyrnir í augum enda stefndi það dönskum yfirráðum beinlínis í hættu. Samtímaheimildir greina ekki frá því hvort Hansakaupmenn stunduðu útgerð frá Grindavík, en það er þó ekki ólíklegt þar sem aðalbækistöðvar þeirra voru á Básendum og í Höfnum. Munnmæli herma að aðsetur þeirra í Víkinni hafi verið á Gerðavöllum í Járngerðarstaðahverfi. Eftir að svonefndur Skipadómur var dæmdur árið 1545 versnaði staða Þjóðverja hér við land til muna. Þeir héldu versluninni þó áfram út öldina en samkeppnin við Dani óx jafnt og þétt.

Járngerðarstaðir

Járngerðarstaðir – bæir og sögusvið “Tyrkjaránsins” – uppdráttur ÓSÁ.

Með opnu bréfi Kristjáns konungs IV, dagsettu þann 20. apríl 1602, var borgurum í Kaupmannahöfn, Málmeyjum og Helsingjaeyri veittur einkaréttur á allri Íslandsverslun. Lét konungur skipta kauphöfnum hér á landi á milli borganna þriggja og kom Grindavíkurhöfn í hlut Kaupmannahafnar. Hvar í Víkinni verslunin hefur verið er ekki vitað með vissu, en heimildir um Tyrkjaránið árið 1627 herma að danska kaupskipið hafi þá legið á Járngerðarstaðasundi. Hefur verslunin líklega haft bækistöðvar sínar þar til ársins 1639 þegar kaupmenn hættu að sigla til Grindavíkur vegna slæmrar hafnaraðstöðu þar. Urðu Grindvíkingar þá að sækja alla sína verslun að Básendum eða Eyrarbakka.

Húsatóftir

Húsatóftir.

Verslun í Grindavík hófst að nýju 1665 eftir að Skálholtsbiskup hafði hvatt til þess í bréfi. Að þessu sinni fór hún hins vegar ekki fram í Járngerðarstaðahverfi heldur voru verslunarbúðir reistar í Arfadalsvík í Staðarhverfi. Þangað sigldu kaupmenn til ársins 1745 að skyndilega var hætt að sigla þangað og báru kaupmenn fyrir sig að hafnaraðstaðan hefði spillst af sandi. Verslunin lagðist þó ekki af með öllu því nokkurskonar útibúi var haldið úti í Arfadal, þar sem undirkaupmaður frá Básendum sá um móttöku og afhendingu varnings. Grindvíkingar önnuðust sjálfir allan flutning á milli Grindavíkur og Básenda en þáðu kaup fyrir.

Húsatóptir

Kort Kristófers Klog frá 1751 af verslunarstaðnum á Húsatóftum og Stað.

Með konungstilskipun og lögum sem gefin voru út 13. júní 1787 var tekin upp svokölluð fríhöndlun á Íslandi, þ.e. öllum þegnum Danakonungs var frjálst að versla á Íslandi. Með lögunum voru stofnaðir sex kaupstaðir og landinu skipt í kaupsvið. Innan kaupsviðanna voru nokkrar úthafnir þar sem sjálfstæðir kaupmenn störfuðu. Með þessu lenti Grindavík, ásamt öðrum höfnum á Suðurnesjum, innan kaupsviðs Reykjavíkur. Eignir konungs á Búðasandi í Arfadal voru boðnar upp en kaupandinn, Árni Jónsson undirkaupmaður á Eyrarbakka, reyndist ekki farsæll í starfi og var versluninni brátt lokað. Næstu öldina urðu Grindvíkingar því að sækja verslun til Keflavíkur.

Hóp

Hóp í Grindavík – uppdráttur ÓSÁ.

Af dreifingu byggðar í Grindavíkurhreppi má greina þrjá byggðarkjarna eða „hverfi“, Staðarhverfi vestast, þá Járngerðarstaðahverfi og loks Þórkötlustaðahverfi. Raunar mætti með nokkrum rökum tala um Krýsuvík og hjáleigur hennar sem hið fjórða hverfi, en byggð þar er skýrt afmörkuð frá annarri byggð í hreppnum. Í heimildum frá 19. öld kemur einnig fram að Grindvíkingar litu margir hverjir á Krýsuvík sem „hverfi“ töluðu gjarnan um Krýsuvíkurhverfi. Ekkert er vitað með vissu um upphaf hverfanna en þó er líklegt að þau hafi tekið að myndast þegar á landnámsöld. Sé frásögn Sturlubókar Landnámu tekin fram yfir Hauksbók, og gert ráð fyrir að allir fjórir synir Molda-Gnúps hafi numið land í Grindavík, má telja hugsanlegt að þeir hafi byggt bæina Stað, Járngerðarstaði og Þórkötlustaði, án þess að hægt sé að fullyrða nokkuð um það. Þá má einnig ætla að einhverjir úr fylgdarliði þeirra hafi fengið land til búskapar á Húsatóptum og Hrauni. Þessar jarðir auk Hóps hafa svo orðið að lögbýlum sem hjáleigur eða önnur afbýli byggðust útfrá og þannig hafa hverfin smám saman orðið til.

Þórkötlustaðanes

Örnefni ofan bryggjunnar í Þórkötlustaðanesi – uppdráttur ÓSÁ.

Sú staðreynd að sjósókn hefur löngum verið stunduð jafnhliða landbúnaði á svæðinu hefur án efa einnig ráðið nokkru um tilurð og viðhald hverfanna. Um aldamótin 1800 var byggð í Grindavík með sama sniði og þá hafði verið um aldir. Fjölmennast var í hverfunum þremur og Járngerðarstaðahverfi þeirra stærst og þéttbýlast með 59 íbúa. Alla 19. öldina hélt byggðin í Járngerðarstaðahverfi áfram að vaxa og styrkjast og við upphaf 20. aldar var þar orðið til þorp, við og umhverfis Hópið.

Grindavík

Grindavík, Járngerðarstaðahverfi, 1963.

Margt hefur valdið því að þéttbýlisþróunin varð á þennan veg. Járngerðarstaðahverfi lá miðsvæðis í sveitinni og leiðin þangað frá öðrum vaxandi þéttbýliskjörnum á Reykjanesi og við Faxaflóa var bæði skemmri og greiðari en t.d. að Þórkötlustöðum. Auk þess voru skilyrði til lendingar og útróðra betri í Járngerðarstaðahverfi en á Þórkötlustöðum. Síðast en ekki síst tók fyrsta verslun svæðisins til starfa í Járngerðarstaðahverfi um aldamótin 1900, þ.e. sú fyrsta frá því verslun í Grindavík lagðist af í lok 18. aldar eins og áður greinir. Þessi þéttbýliskjarni, einkum vestan megin Hópsins, í Járngerðarstaðahverfi, varð þungamiðja Grindavíkurkauptúns sem síðan hlaut kaupstaðarréttindi árið 1947.”

Heimild:
-Fornleifaskráning í Grindavík – 3. áfangi, Fornleifastofnun Íslands, Reykjavík 2004.

Grindavík

Grindavík, Járngerðarstaðahverfi, 1958.

Selatangar

Selatangar á suðurströnd Reykjanesskagans, hin forna verstöð Krýsuvíkurbænda, Ísólfsskálabænda og Skálholtsdómkirkju hafa gefið af sér ýmiss ævintýri, skrímsla- og draugasögur sem og sagnir af álfum og tröllum.

Selatangar

Gengið um Selatanga.

Hér hefur verið gerð samantekt fyrir þá/þær, sem bæði hafa gaman af sögnum og vilja til að gæða landslagið lífi. Sumar sögurnar eru til í ýmsum myndum, en hér eru þær staðfærðar upp á Selatangana.
Ögmundarhraun er talið hafa runnið árið 1151. Katlahraun, það er umlykur Tangana að vestanverðu, er hluti þess. Verstöðin sjálf getur því ekki verið eldri en frá 12. öld. Þá er talið að Skálholtsdómkirkja hafi ásælst flestar sjávarjarðir á suðurströnd Skagans, en svæðið var eitt gjöfulasta forðabúr landsins á þeim tíma sem og eftirleiðis. Helsta útflutningsvaran varð og er enn verkaður fiskur. Þá var fiskur frá Grindavík og nágrenni helsta viðurværi biskups, hans fólks og skólasveinanna í Skálholti um langa tíð. Sjórinn hefur nú tekið til sín hinar fornu minjar fyrri alda. Núverandi minjar á Selatöngum eru því nánast allar frá því á 19. öld, en eru þó hinn ágætasti vitnisburður um söguleg tengsl fortíðar við nútíðina.

Tanga-Tómas (draugasaga)

Verkhús

Verkhús á Selatöngum.

Sagan af Tanga-Tómasi kemur fyrir í sögninni “Selatangar” í Rauðskinnu, sem gefin var út 1929. Síðan hefur hún verið gefin út í nokkrum útgáfum. Hér er sagan svona [með innskotum vegna mismunar í öðrum frásögnum af sama atburði]:
“Á Selatöngum, miðja vegu milli Grindavíkur og Krýsuvíkur, var fyrrum verstöð og útræði mikið. Gengu þaðan m.a. biskupsskip frá Skálholti. Þar sér enn allmikið af gömlum búðartóftum og göðrum, er fiskur og þorskhausar voru fyrrum hengdir á til herslu. Hjá Selatöngum eru hraunhellar margir, en flestir litlir. Var hlaðið fyrir opið á sumum þeirra til hálfs, og notuðu sjómenn þá til ýmissa hluta. Í einum þeirra höfðu þeir kvörn sína, og kölluðu þeir þann helli Mölunarkór, í öðrum söguðu þeir, og kölluðu hann því Sögunarkór o.s.frv. Reki var mikill á Selatöngum, og færðu sjómenn sér það í nyt; smíðuðu þeir ýmsa gripi úr rekaviðnum, þá er landlegur voru, en þær voru ekki ótíðar, því að brimasamt var þar og því sjaldan róið á stundum. Á Selatöngum mun ort hafa verið margt um manninn, eins og ráða má af vísu þessari um sjómenn þar:

Tuttugu og þrjá Jóna telja má,
tvo Árna, Þorkel, Svein,
fimm Guðmunda og Þorstein þá,
þar með Guðlaug, Freystein,
Einara tvo, Ingimund, Rafn,
Vilhjálmur Gesti verður jafn,
Selatanga sjóróðramenn;
sjálfur guð annist þá.

Selatangar

Selatangar – Vestari rekagatan.

[Hér er um að ræða stytta afbökun á vísunni. Hún mun vera til í nokkrum útgáfum og jafnvel heimfærð upp á aðrar verstöðvar með suðurströndinni.]. Á síðara hluta 19. aldar bjó í Stóra-Nýjabæ í Krýsuvík maður sá, er Einar Sæmundsson hét. Hann átti mörg börn, og er saga þessi höfð eftir tveim sonum hans, Einari og Guðmundi. Einar, faðir þeirra, var allt að 30 vertíðum formaður á Selatöngum. Var í mælt, að reimt hefði verið á Selatöngum, og var draugsi sá í daglegu tali nefndur Tanga-Tómas. Hann gerði búðarmönnum ýmsar smáglettur, en var þó ekki mjög hamramur.
Þá bjó á Arnarfelli í Krýsuvík maður sá, er Beinteinn hét. Var talið, að Tómas væri einna fylgispakastur við hann. Var Beinteinn þessi fullhugi mikill, smiður góður og skytta og hræddist fátt. Var þetta orðtak hans: “Þá voru hendur fyrir á gamla Beinteini”.
Einu sinni varð Beinteinn heylítill, og flutti hann sig þá niður á Selatanga með fé sitt til fjörubeita. var hann þarna um tíma og hafðist við í sjóbúð, er notuð var á vetrum. Kvöld eitt, er Beinteinn kemur frá fénu, kveikir hann ljós og tekur tóbak og sker sér í nefnið.

Selatangar

Selatangar – austari rekagatan.

Tík ein fylgdi honum jafnan við féð og var hún inni hjá honum. Veit Beinteinn þá ekki, fyrr en ljósið er slökkt og tíkinni hent framan í hann. Þreif hann þá byssuna og skaut út úr dyrunum. Sótti draugsi þá svo mjög að Beinteini, að hann hélst loks ekki við í sjóbúðinni og varð að hrökklast út í illviðrið og fara heim til sín um nóttina. [Í annarri sögu af sama atviki kemur fram að þegar Beinteinn hafi ætlað að ganga til náða, gert krossmark fyrir dyrum, lagt hurðina aftur og stein fyrir svo Tanga-Tómas héldist úti, hafi draugsi rumskað, séð að hann hafði verið lokaður inni, ráðist á Beintein og þeir slegist úti sem inni. Hafi Beinteinn komist berfættur og við illan leik heim að Arnarfelli og þurft að liggja þar næstu daga til að jafna sig]. Hafði Beinteinn skaröxi í hendi, og hvar sem gatan var þröng á leiðinni heim um nóttina, þá kom draugsi þar á móti honum og reyndi að hefta för hans, en undir morgun komst Beinteinn heim og var þá mjög þrekaður.

Selatangar

Selatangar – verbúð.

[Í hljóðrituðu viðtali við Sæmund Tómasson frá Járngerðarstöðum, sem varðveitt er hjá þjóðháttadeild Árnastofnunnar, kemur fram að Beinteinn frá “Vigdísarvöllum” hafi skorið silfurhnappa af peysunni sinni til þess að skjóta á drauginn því það hefði verið eina ráðið. Í enn annarri frásögn kemur hins vegar fram að silfurhnappar hefðu ekki dugað á Tanga-Tómas, einungis lambaspörð]. Sjá m.a. HÉR.
Um viðskipti draugsa og Beinteins er ekki fleira kunnugt, svo að sögur fari af. Þess má geta, að þá er Beinteinn var spurður, hvað hann héldi, að um draugsa yrði, er sjóbúðin yrði rifin, þá svaraði hann: “Og hann fylgir staurunum, lagsi”.
Nokkuru eftir þetta bar svo við, að tveir áður nefndir synir Einars bónda í Stóra-Nýjabæ fóru niður á Selatanga á jólaföstunni og hugðu að líta til kinda og ganga á reka; jafnframt ætluðu þeir að vita, hvort þeir sæu ekki dýr, því að annar þeirra var skytta góð.

Selatangar

Selatangar – verkhús fjær og verbúð nær.

Þeir komu síðla dags niður eftir og sáu ekkert markvert; fóru þeir inn í þá einu verbúð, sem eftir var þar þá, og ætluðu að liggja þar fram eftir nóttunni, en fara á fætur með birtu og ganga þá fjöru og vita, hvort nokkuð hefði rekið um nóttina.
Bálkar voru í búðinni fyrir fjögur rúm, hlaðnir úr grjóti, eins og venja var í öllum sjóbúðum, og fjöl eða borð fyrir framan. Lögðust þeir í innri rúmbálkinn að vestanverðu og lágu þannig, að Einar svaf við gaflhlaðið, en Guðmundur andfætis. Þá er þeir höfðu lagst niður, töluðu þeir saman dálitla stund, og segir þá Guðmundur meðal annars: “Skyldi þá Tómas vera hér nokkurs staðar”? Kvað Einar það líklegt vera. Fella þeir svo talið og ætla að sofna, en er þeir hafa legið litla stund, þá heyra þeir, að ofan af ytra bálkanum við höfuð Guðmundar stekkur eitthvað, Var það líkast því sem stór hundur hefði stokkið niður á gólfið; voru þeir þó hundlausir, er þeir komu þangað, og búðin lokuð. Segir þá annar bræðranna: “Þarna er hann þá núna”, en í sömu svipan er kastað tómu kvarteli, sem hafði staðið á ytra bálkinum hinum megin, einn í gaflhlað beint yfir höfuð Einari. Sofnuðu þeir bræður ekki um nóttina, en fóru á fætur. Ekki lét draugsi neitt frekar til sín heyra.
Eftir 1880 lagðist útræði niður frá Selatöngum. Um það leyti var seinasta sjóbúðin rifin, og hafa menn eigi hafst þar við síðan.

Tangaboli (skrýmsli)

Selatangar

Selatangar – þurrkbyrgi.

Við sjóinn vestan af hinum forna stað Húshólma í Krýsuvík, þann stað er hraunið í eyði lagði um miðja 12. öld, eru Selatangar eða Seltangar, eins og fyrrum var kveðið. [Það nafn færðist síðar á tanga í Hólmasundi]. Lengi vel var talið að þar hafi selstöð verið, en lagst af þegar Tangarnir voru teknir undir útver Krýsuvíkurbænda á 18. öldinni. Kletturinn Dágon með tveimur bræðrum sínum skiptir jörðum Krýsuvíkur og Ýsuskála, sem nú mun heita Ísólfsskáli, neðan við gömlu búðina. LM er klappað í klöppina neðan við Dágon og sést markið enn í lágfjöru.

Selatangar

Katlahraun.

Katlahraun heitir hraunið vestan við Tangana. Í því er Ketillinn.  [Sumir nefna þann stað Borgir eftir hraunborgunum í því miðju]. Austast í Katlahrauni, í viki víkur er krókur eða hellir nokkur sem kallaður var Bolabás, en nú nefndur Nótarhellir. Eftir að verstöðin lagðist af á Selatöngum var staðurinn notaður til selaveiða. Var þá dregið fyrir selinn yfir víkina af löngum tanga, sem enn sést og yfir í hellirinn. Ekki er hægt að komast niður í hann af háum hraunkambinum eða ganga þurrum fótum í hann með sjónum nema þegar velfjarað hefur út. Um Tangabola er saga sú er nú skal greina:

Það var trú manna að í Bolabás væri vættur einn sem kallaður var Tangaboli, og eru engar sögur um það hvörs kyns hann væri, en sagt er að hann hefði mannsmynd niður að mitti, en menn greinir á um hvort neðri hlutinn átti að hafa líkst sel eður nauti, en það var annað hvört. Öngvir eru nú lifandi er hann gátu hafa séð.

Selatangar

Selatangar – verkhús.

Þegar Tangaboli hafði aðsetur í hellinum hljóðaði hann ákaflega, einkarlega undir slæm suðaustanveður, sumar sem vetur, en sú átt stendur beint upp á Bolabás.
Engum átti hann þó að hafa gjört illt og líka var sjaldgæft að sjá hann; þó er sagt að eitthvört sinn hafi maður verið á gangi upp á kambinum að vitja um refagildru er hann heyrði Tangabola hljóða ámátlega. Maðurinn, sem var bæði hvatvís og ófyrirleitinn, fór með mesta flýti ofan og suður með hraunkambinum til að sjá skepnu þessa; honum tókst það líka og átti hann að segja svo frá að kvikindi þetta hafi verið mjög svo aumlegt og ljótt og hafi sagt við sig að honum mundi verða það lítið til gæfu að kappkosta að skoða sig, en fór við það svo búið í helli sinn. En sagt er að maðurinn hafi orðið lánlítill eftir þetta.

Selatangar

Selatangar – sjóbúðartóft.

Fáum árum áður lágu þar tveir menn við í búðinni á Selatöngum, en voru við róðra þess á milli. Höfðu ungan dreng með sér til léttis. Annar maðurinn var frekur og ósvífinn og alþekktur að því alla sína tíð. Nú um nóttina tók Tangaboli að hljóða, en fyrrnefndur maður tók undireins með háðsglósum til við að herma eftir honum. Við það espaðist Tangaboli svo að þeim sem vöktu þótti sem hljóðið væri einlægt að færast nær og verða grimmlegra, og seinast heyrðist þeim sem hljóðið væri komið heim undir búð. Þá beiddi hinn þennan að hætta að herma eftir því, hvað hann og gjörði, enda haldið að honum hafi ekki verið farið að finnast til, en þegar hann hætti að herma eftir. Þá hætti líka Tangaboli undireins að hljóða.

Sjóbúð

Sjóbúð.

Ekki er um það borið á móti að aftur hafi heyrst til Tangabola við komur manna á Selatanga, einkum þegar brimasamt er. En eftir að fella féll úr berginu ofan við op hellisins fyrir nokkrum árum er ekki vitað til að heyrst hafi til Tangabola enda er nú sjórinn búinn að brjóta mikið upp hellirinn hans svo hann er orðinn víðari og opnari og ólíkur því sem áður var. Því verður ekki neitað að vættur þessi var til, en líkast virðist hann hafa verið af sjóskrímslakyni. Vissa er um eina sanna sögu um það að það hafi verið til hér í sjónum:

Selatangar

Gengið um Selatanga.

Þegar Gvendur bjó á Skála var einn bræðra hans þar með honum um tíma. Bróðirinn var skotmaður frægur og hagleiksmaður með marga hluti.
Eitt sinn skaut Gvendur sel; bróðirinn stóð í fjörunni, en selurinn var á sundi út á sjó. Selurinn var dauðskotinn, og sendi Gvendur hundinn þeirra bræðra eftir honum, en hann réði ekki við selinn. Fór þá Gvendur sjálfur og ætlaði að sækja selinn, en sneri aftur allt í einu þegar hann átti skammt þangað sem selurinn var, og kom í land aftur. Var hann þá spurður hvað til hafi komið að hann fékkst ekki við selinn, en hann sagði að móti sér hefði komið sjóskrímsli bæði ljótt og mikið vexti og hann skyldi aldrei að nauðsynjalausu fara til sunds í þennan sjó.
Þótt kvikindið hafi ekki sést í seinni tíð er ekki hægt með öllu að fortaka að Tangaboli sé allur.

Sjórekna skútan (draugasaga)

Selatangar

Sögunarkór í Katlahrauni.

Fyrir mörgum árum fórst bátur utan við Selatanga með 7 mönnum. Þrír komust á kjöl og kölluðu á hjálp því að margir vermenn stóðu á sandinum – báturinn barst á skammt undan lendingu – en brimið var svo mikið að ómögulegt var að hjálpa þeim.
En er mennirnir voru allir dauðir og drukknaðir þá snerist báturinn við og kom sjálfur í land eins og honum væri stýrt. Stóð hann svo uppi í sandfjörunni vestan við Dágon og snart enginn við honum fyrr en veturinn eftir er hann var færður lengra upp á land. Vildi enginn róa bátnum framar því að geigur stóð mönnum af honum.
Þegar báturinn var settur upp á land stóð fjármaður frá Ísólfsskála, sem er þarna vestan við Hraunsnesið, uppi undir Katlahraunsbrúninni að leita fjár. Sá hann þá að öll dauða skipshöfnin gekk á eftir bátnum þegar hann var settur upp og var ófrýn á að sjá. Eftir það stóð báturinn í djúpri sandhvilft upp við berghamarinn.

Selatangar

Selatangar – rekagatan (Tangagatan) um Katlahraun.

Skömmu seinna reið þar um bóndi utan af Vík er Guðmundur hét og bjó á Þorkötlustöðum. Ætlaði hann austur undir Fjöll. Þetta var í svartasta skammdegi og reið Guðmundur bóndi Tangagötuna, um Ketilinn og út á bergbrúnina því þar liggur alfaravegurinn. Hundur fylgdi með í för. Gatan beygir þarna til norðausturs ofan við sandhvilft. Þegar Guðmudnur er kominn á móts við hana mætir honum maður er hann bar eigi kennsl á og segir sá við hann:
“Settu með okkur, lagsmaður!”

Guðmund grunar ekkert því að báturinn sást ekki af götunni og tekur hann vel undir þetta. Ekki mælti maður þessi fleira en snýr við og bendir Guðmundi að koma á eftir sér. Guðmundur ríður svo á eftir honum en það þótti honum skrýtið að hestur hans var alltaf að frýsa og virtist nauðulega vilja elta manninn. Hundurinn var og afundinn og flóttalegur ásýndum.

Selatangar

Refagildra við Selatanga.

Nú koma þeir í lágina þar sem báturinn stóð og sér Guðmundur þá 6 menn standa í kringum bátinn og voru svaðalegir álitum. Þá man Guðmundur fyrst eftir frásögnum af bátreikanum undan Tanganum um haustið og þykist hann þarna þekkja þá sem drukknað höfðu. Verður hann þá skelkaður mjög og slær upp á klárinn. Tekur hann til fótanna en Guðmundur heyrir draugana kveða vísu þessa um leið og hann reið upp úr lautinni:

Dágon

Dágon á Selatöngum.

Gagnslaus stendur gnoð í laut,
gott er myrkrið rauða.
Halur fer með fjörvi braut,
fár er vin þess dauða,
fár er vin þess dauða.

Guðmundur nam vísuna. [Hún er bæði til í annarri útgáfu auk þess sem vísan hefur verið notuð með öðrum þjóðsögnum]. Reið hann nú allt hvað af tók og náði í Krýsuvík um kvöldið. Eftir það fór Guðmundur bóndi aldrei einn um þennan veg og lét alltaf einhverja fylgja sér þótt albjartur dagur væri.
Báturinn var loks höggvinn að mestu niður í eldinn, en áður höfðu menn oft heyrt högg og brak í því, einkum er kvölda tók. Enn má þó merkja leifar úr bátnum inni í Rekavik [vik var stundum notað yfir skjól ofan ströndina, en vík niður við sjó] ofan við Selatanga.

Ketilskessan (tröllasaga)

Selatangar

Selatngar – þurrkbyrgi.

Skessa bjó í Festisfjalli ofan við Ægisand austan við Grindavík. Frænka hennar hafði dvöl í helli einum í Katlinum í Katlahrauni skammt vestan við Selatanga. Hellir þessi var stundum nefndur Skessuhellir, en vermenn er síðar voru á Selatöngum nefndu hann Mölunarhellir. Lítið hafði hún gjört mönnum til móðs. Einu sinni fór hún að ganga á rekana. Ekki er getið um að hún hafi fundið nokkuð á rekunum, en á heimleiðinni varð hún naumt fyrir, því hana greip skyndilega jóðsótt þar á leiðinni.
Á Katlinum er steinn mikill; skammt frá alfaraleiðinni. Þar lagðist hún við og fæddi barn sitt. Kom þá maður með hest til hennar og beiddi hún hann að liðsinna sér. Maðurinn gjörði það. Hún fékk hann til að lofa sér að ríða hestinum og hjálpa sér að Festisfjalli. Hann segir: “Stíg þú á bak stórkona, en sligaðu ekki hestinn.”

Selatangar

Selatangar – þurkkbyrgi.

Hún strauk höndum um hrygg hestsins og fór síðan á bak. Reiddi hann hana upp með Móklettum, á Siglubergsháls og að fjallinu. En er hún steig af baki var alblóðugt bakið á hestinum. Hún bað hann hafa þökk fyrir, en hesturinn mundi aldrei uppgefast.
Steinninn er síðan kallaður Skessusteinn og er enn í Katlinum og laut við hann.
Annað sinn fór skessan á fjöru, en er hún kom af fjörunni mætti henni maður sá er Hjálmar hét. Réðist hún á hann; fór hann heldur halloka. Urðu það úrræði hans að hann greip hægri hönd sinni í magaskegg skessunnar og felldi hana með því.
Bað hún hann þá að gefa sér líf, hvað hann gjörði. En er hún var upp staðin þakkaði hún Hjálmari lífgjöfina.
Sagt er að skessan hafi enn viðdvöl í helli sínum í Katlinum. Þegar veður eru góð og lygnt á Töngunum og vel er hlustað má heyra hana raula við barn það er hún fæddi við Skessustein, en hann er skammt frá opinu.

Bátamál (fyrirbærasaga)

Selatangar

Selatangar – Smíðahellir.

Eftirfarandi galdrasaga var oftlega sögð á sagnastundum vermanna á kvöldvökum eða landlegum Selatöngum:
“Stundum heyrist marra í bátunum þótt logn sé og þeir standi í naustum. Það er málipð bátanna sem fáum er gefið að skilja.
Einu sinni var þó maður er skildi bátamál. Hann kom þar að sem tveir bátar stóðu og heyrir hann að annar bátanna segir: “Lengi höfum við nú saman verið, en á morgun verðum við að skilja.”
“Það skal aldrei verða að við skiljum,” sagði hinn báturinn, “höfum við nú verið saman í þrjátíu ár og erum við orðnir gamlir, en ef annar ferst þá skulum við farast báðir.”
“Það mun þó ekki verða. Gott veður er í kvöld, en annað veður mun verða á morgun og mun enginn róa nema formaður þinn, en ég mun eftir verða og allir bátar aðrir. En þú munt fara og aldrei aftur koma; munum við eigi standa hér saman oftar.”
“Það skal ekki verða og mun ég ekki fram ganga.”
“Þú munt þó verða að ganga fram og er þessi nótt hin síðasta sem við verðum saman.”
“Aldrei skal ég fram ganga ef þú fer ekki.”

Selatangar

Rit um Selatanga.

“Það mun þó verða.”
“Ekki nema andskotinn sjálfur komi til.”
Eftir þetta töluðu bátarnir svo hljótt að heyrandinn í holtinu nær heyrði ekki hljóðskraf þeirra.
Morguninn eftir var veður ískyggilegt mjög og sýndist engum ráð að róa nema einum formanni og áhöfn hans. Gengu þeir til sjóar og margir fleiri sem ekki varð úr að réru.
“Skinnklæðið ykkur í Jesú nafni,” segir formaður sem títt er. Þeir gjöra svo.
“Setjum fram bátinn í Jesú nafni,” segir formaður eins og vant var. Þeir taka til, en báturinn gekk ekki fram. Heitir þá formaður á sjómenn aðra sem þar voru staddir að duga þeim, en það kom fyrir ekki. Þá heitir hann á alla sem við voru að setja fram bátinn og gekk þá maður undir manns hönd, og kallar nú formaður: “Setjum fram bátinn” með sama formála sem áður. En báturinn gekk ekki að heldur.
Þá kallar formaður hátt: “Setjið fram bátinn í andskotans nafni.” Hljóp þá báturinn fram, og so hart að ekki varð við ráðið og á sjó út. Sóferðabænin misfórst sem og annað regluverk. Höfðu haldsmenn nóg að vinna; síðan var róið, en ekki hefur sést til þess báts síðan og ekki spurst til nokkurs sem á honum var.”

Álfheimar (álfasaga)

Nótarhellir við Selatanga

Nótarhellir við Selatanga.

Unglingspiltur var einu sinni með öðrum vermönnum á Selatöngum. Hann hafði orðið eftir er aðrir réru. Ákvað hann að ganga sér til hreyfings. Veður var heitt eins og oft vill vera á suðurströndinni. Í leið sinni til baka varð hann bæði göngumóður og þyrstur, en hann kom hvergi auga á vatn til að svala sér á.

Katlahraun

Katlahraun – ströndin.

Hann gengur nú hjá hömrum vestast á Töngunum og heyrist honum þar eitthvað inni; hann ímyndar sér að einhverstaðar kunni vatn að renna ofan af klettinum og fer að skyggnast um. Þá heyrir hann glöggt strokkhljóð og í sama vetfangi þykir honum hamarinn vera opinn og sér hann þar unglegan kvenmann snöggklæddan sem stendur upp við háan rúmgafl og skekur strokk. Við þessa sýn verður honum nokkuð bilt, en horfir þó um stund á stúlkuna og virðir hana fyrir sér.
Hún horfir líka á hann og hættir á meðan verki sínu og segir loksins: “Ertu þyrstur; viltu drekka?”
Við þetta ávarp varð hann dauðhræddur og hljóp í burtu. Þegar aðrir vermenn komu að landi sagði hann einum þeirra, greindum manni, þessa sýn. Þá sagði hinn: “Ekki skyldi mér hafa farið eins og þér; ég skyldi hafa þegið það sem mér var boðið.”
En næstu nótt dreymdi piltinn sömu stúlkuna og segir hún við hann: “Því vildir þú ekki þiggja af mér svaladrykk? Ég bauð þér hann í einlægni.”
Pilturinn þóttist svara: “Ég gat það ekki fyrir hræðslu.”

Selatangar

Varða við vestari rekagötuna.

Þá segir hún: “Hefðir þú þegið af mér að drekka skyldir þú hafa orðið mesti auðnumaður, en nú legg ég það á þig að þú getir aldrei orðið annað en fjársmalamaður.” Að svo mæltu hvarf hún.
Er frá því að segja að pilturinn fór úr verinu af ótta við stúlkuna; hann sá hana ekki oftar, hvorki í vöku né svefni. En ámæli hennar urðu að áhrínsorðum.

Með réttu, án þess að þurfa að bæta þar nokkru við, er fjölmargt auk þessa að skoða og upplifa á Selatöngum. Minjasvæðið er bæði aðgengilegt og auðgengið, en hefur verið verulega vanrækt af þeim opinberu yfirvöldum, sem gæta eiga menningarverðmætanna. Grindavíkurbær hefur þó af eigin frumkvæði reynt að leiðbeina fólki um svæðið, leggja göngustíga og setja upp upplýsingaskilti, án þess að Menntamálaráðuneytið (Þjóðminjasafnið og Minjavernd ríkisins) hafi svo sem sýnt hinn minnsta vott um áhuga á menningarvarðveislu svæðisins. Benda má í því sambandi á viðleytni Menningarfélags Grindavíkur er gaf út á sínum tíma bækling um svæðið. Hann er enn til fáanlegur í Saltfisksetri Íslands í Grindavík. Síðast er fréttist voru sex eintök enn óseld.

Selatangar

Refagildra á Selatöngum.

Selatangar

Árið 2004 gaf Ferðamálafélag Grindavíkur út ritið “Selatangar – merkilegur staður í umdæmi Grindavíkur”.

Selatangar

Selatangar – rit.

Á baksíðu ritsins segir: “Samantekt þessi er unnin af Ómari Smára Ármannssyni fyrir Ferðamálafélag Grindavíkur í tilefni af 30 ára afmæli kaupstaðarins 10. apríl 2004. Nefndin stefnir að því að gefa út samantektir um fleiri merkilega staði í umdæmi Grindavíkur, s.s. Selöldu, Húshólma og Óbrennishólma, Þórkötlustaðanes, Þórkötlustaðarhverfi, Járngerðarstaðarhverfi, Staðarhverfi, ströndina, Baðsvelli og Selsvelli svo eitthvað sé nefnt.
Það er von nefndarinnar að efnið, sem hér er sett fram í texta, myndum og uppdráttum, muni nýtast áhugasömu fólki bæði til fróðleiks og gagns á vettvangi, en æ fl eiri gera sér nú ferð á Selatanga til að skoða minjarnar og fá innsýn í verbúðarlífið þar fyrr á öldum. Þá kemur fleira fólk til Grindavíkur í þeim tilgangi að skoða forna staði, kynnast sögu þeirra og njóta fagurs umhverfis.

Selatangar

Gengið um Selatanga.

Í samantektinni er m.a. handbragðinu lýst, skiplagi, nýtingu, hinu daglega lífi sjómanna, götunum og rekanum, auk þess sem getið er um hinar merkilegu refagildrur við Tangana og Ketilinn í Katlahrauni, hinu stórbrotna jarðfræðifyrirbrigði.
Í ritinu er uppdráttur af svæðinu.”

Ritið er nú upselt og ólíklegt er að það verði endurútgefið. Lesendur FERLIRs geta hins vegar skoðað innihaldið á vefsíðunni – sjá Selatangar – rit.

Selatangar

Selatangar – uppdráttur ÓSÁ.

 

Húshólmi

Gengið var um Húshólma og síðan frá Hólmasundi um Miðreka og yfir að Selatöngum. Í Ögmundarhrauni eru ein merkustu minjasvæði landsins og ætlunin að skoða a.m.k. tvö þeirra.
Auðvelt var að ganga niður mosavaxið Ögmundarhraun því mosinn var frosinn. Þegar komið var niður í Húshólma var stefnan hiklaust tekin að hinum fornu minjum vestan hans. Þar er talið að Krýsuvík hafi verið fyrra sinni.
Forn skáli í ÖgmundarhrauniBúseta í Krýsuvík undir Bæjarfelli, var frá 12. öld þegar talið er að bærinn hafi verið  fluttur frá Húshólma,  til ársins 1942. Krýsuvík var talin höfuðból, enda stærsta jörð á Reykjanesskaga. Jörðin náði að sjó frá Selatöngum austur að sýslumörkum. Byggðin náði hámarki á miðöldum en 1860 var t.a.m. búskapur á 13 býlum. Eftir aldamótin 1900 fór fólki að fækka og kotin fóru í eyði. Það eina sem minnir á höfuðbólið Krýsuvík og hjáleigurnar er Krýsuvíkurkirkja sem stendur austast á bæjarhólnum. Umhverfis hólinn eru tóftir Hnausa, Lækjar, Norðurkots, Snorrakots og Suðurkots.

Ögmundarhraun

Ögmundarhraun – loftmynd.

Ögmundarhraunið, sem umlykur minjarnar við Húshólma, er talið hafa runnið 1151 (-1188). Ljóst er að hraunið hefur ekki myndast í einu lagi hefur smám saman í allnokkrum spýjum með mismunandi bergsamsetningu. Það átti glögglega eftir að koma í ljós þegar gengið var um Miðrekana.
Í Lesbók Mbl 17. sept. 1961 er m.a. fjallað um Ögmundarhraun: “Áður en það var rutt, varð að fara vestur fyrir hálsa fyrir endann á hraunsuppkomu
nni, þegar fara þurfti til Njarðvíkur eða Keflavíkur. Bóndinn í Njarðvík, að nafni Gissur, átti dóttur. Hennar bað lausingi nokkurm er Ögmundur hét, tröllmenni að stærð og kröftum. Bóndi vildi ei gifta dóttur sína fúlmenni þessu, en treystist ei að standa á móti honum; tekur hann því það ráð að lofa honum stúlku þessari, ef hann vildi vinna það til hennar að gera færan veg yfir hraunið, þar sem beinn yrði vegur til Suðurnesja. Þetta verk tókst hann á hendur og framkvæmdi það duglega, en lagðist til svefns að loknu verkinu, austan til við hraunbrúnina, en bóndi lá í leyni í hraungrjótu, ætlaði hinum stundir að sofna vært og drap hann sofandi. Þar er dys hans, sem drepinn var og hraunið síðan við hann kennt og kallað Ögmundarhraun. (Úr sóknarlýsingu 1840).”

Verkhús við vestustu sjóbúðina á SelatöngumÍ Lesbók Mbl. 31. jan. 1954 er grein eftir Árna Óla; “Svona var lífið fyrir einum mannsaldri”. Í henni fjallar hann m.a. frásögn Stefáns Filipssonar um Ögmundarhraun: “Ögmundarhraun, lítið fyrir vestan Krýsuvík, runnið vestan úr Almenningi, sem allur er líka hraun, en þó grasi og skógi vaxið – er hann stórt óskipt landspláss hvar Krýsuvík á líka skógarítak. Ögmundarhraun er ekki upp gróið, heldur svart og ljótt útlits; gengur það heilt fram í sjó rjett fyrir austan Selatanga. Austan til við hraun þetta er kallaður Húshólmi. Þar eru stórar húsatóftir niðursokknar og ein þeirra snýr eins og kirkjur vanalega; hefir það verið vel stórt hús; þó sjást tóftirnar allar því hraunið hefir hlaupið yfir þær að vestanverðu, hvað maður veit maður ekki, þó til að geta eftir sjón á því sjáanlega, yfir fullan helming, því þar hefir vafalaust verið stórbygging. Þar eru 2 túngarðshringar; og hjer um bil 20 faðmar milli þeirra. Meina menn að Krýsuvík hafi þar verið áður hraunið hljóp þar yfir, en við það tilfelli verið flutt upp í fjallavikið, sem þar er þó töluvert langt frá. Við sjóinn er vík, sem bærinn gat nafn af tekið, n.l. Hæslvík nú nefnd. Í hrauni þessu, spölkorn hjer frá, er og óbrunninn hólmi og ófært hraun alt um kring bema einn lítill stígur, sem síðar hefir verið ruddur. Hólmi þessi nefnist Óbrennishólmi. Þar er sagt samalinn hafi verið með heimilisfjeð meðan hraunið hljóp fram yfir heila plássið (þar eru og 2 misstórar fjárborga rústir) og að hann hafi ekki getað komist undan því annað en á hól þennan, sem hraunið umkringdi.
Hólmasund - Krýsuvíkurbjarg fjærVestan undir Krýsuvíkurhrauni er stór hellir og besta hagaland í kring, í og með hrauninu, samt víðar út um heiðina, svo alltíð má beita fje undir vind af hverri átt sem hann er. Hellir þessi er langr frá bæjum, er því erfitt að nota hann í vetrarharðindum. Fyrir hjer um bil 100 árum, eð máske nokkuð meir, var bóndi í Krýsuvík að nafni Arngrímur, mig minnir Jónsson, Hann tíundaði jafnan 50 hundruð. Hann hafði fje sitt við helli þenna, en skyldi hafa átt 99 ær grákollóttar. Systir hans átti iena á eins lit, og bætti hann ei fyr að fala hana af sysur sinni, en hún yfirljet honum ána sárnauðgu, Sama veturinn seint gerði áhlaupabyl, sem stóð 6 dægur. Hrakti þá alt hans fje fram af Krýsuvíkurbjargi hjer og þar til dauðs og algjörs taps, því sjórinn tók við fyrir neðan bergið en vindurinn rak til hafs. Í hengisfönninni framan í bergsbrúninni stóð grákoll aleins er hann fjekk hjá systur sinni, þegar hann eftir bylinn fór að leita að fjenu. Teur hann ána þá og reynir í 3gang að kasta henni fram af breginu, en gat aldrei kastað henni svo langt, að hún færi niður fyrir. Og jafnótt og hún losnaði í hvert sinn við hendur hans, brölti hún upp að knjám hans. Loksins gaf hann frá sjer, og skal hafa sagt löngu seinna, að út af þessari á hefði hann eignast 100 fjár.

Í Arngrímshelli

Þetta hef jeg af sögusögn og gef það eit út sem áreiðanlegan sannleik. Ævilok Arngríms urðu þau, að steinn datt á hann úr Krýsuvíkurbergi og marði hann í sundur og 2 manneskjur aðrar. Þetta er víst (Arngrímur þessi var Bjarnason, sonarsonur Arngríms lærða, og hafði lengi verið ráðsmaður í Skálholti. Hinn 9. ágúst 1724 fór hann á báti í sölvufjöru undir Krýsuvíkurbjargi “og með honum kalrmaður einn og kvenmenn tveir. Og er þau voru farin til að taka sölin, sprakk hella mikil fram úr breginu og kom á þau, svo að hún laust Arngrím í höfuðið til bana, og undir henni varð karlmaðurinn er honum fylgdi og önnur konan, en önnur komst lífs undan; tók hellan þó hælinn af öðrum fæti hennar, og skaðaði hana ekkia ð öðru. Var hella þessi 13 faðma löng og 11 faðam breið. Náðust lík allra þeirra þriggja, er ljetust” (Vallaannáll). Öðrum annálunm ber saman um hve margir hafi farist þarna, en Hítardalsannaátt segir: – “Vinnukona hans mjög lömuð komst af og aðrir tveir sem af ofboði hlupu fram í sjó og náðu til skipsins”).

Krýsuvík

Bærinn Lækur í Krýsuvík – Garðhús nær.

Árið 1827 kom gamall bóndi til Krýsuvíkursóknar, Guðmdunrur Bjarnason, bygði nýbýlið Læk aldeilis að stofni, átti margt fje, hélt því við áðurnefndan helli. En þar honum þótti langt að hirða það þar, bygði hann þar annan bæ dásnotran sem hinn, með glæergluggum, sængurhúsi afþiljuðu með 2 rúmum; í hinum karminum geymsluhús. Bygði hann hús þetta framan við hellisdyrnar og rak fjeð gegnum göngin út úr og inn íhellinn, hlóð af honum þvervegg, bjó til lambastíu, gaf þeim þar þá henta þótti, bjó til jötur úr tilfengnum hellum alt um kring. Í stærra parti hellisins gaf hann fullorðna fjenu í innistöðum (sem verið mun hafa alt að 200 eftir ágiskun manna), flutti þangað talsvert hey og smiðju sína, og mun hafa starfað þetta að mestu, ef ei öllu leyti, aleinn á einu ári. Þarna var hann 10 vetur samfelt yfir kindum sínum aleinn, en á sumrum heima. Loks gafst hann upp yfir sjötugt og sagðist og sagðist hafa verið smali síðan hann hafði 6 ár að baki…” 

Minjar í Ögmundarhrauni

Húshólmi er merkur minjastaður suður af   Krýsuvíkur Mælifelli, í austurjaðri Ögmundarhrauns, nær sjávarhömrunum. Þar hefur hraunið runnið til hvorrar handar við óbrennishólma sem nefndur er Hólmastaður í gömlum heimildum. Þar er m.a. fornt bæjarstæði, skálatóftir, garðhleðsla og gerði, en í hrauninu vestan Húshólma er Kirkjulág og fleiri minjar. Samkvæmt gamalli munnmælasögu stóð Krýsuvíkurkirkja í Kirkjulág og stóð uppi löngu eftir að hraunflóðið eyddi bænum.  Óbrennishólmi er spölkorn suður af Latstöglum sem ganga vestur úr Latsfjalli. Þetta er gróinn hólmi sem sker sig á sérkennilegan hátt úr grófu apalhrauninu. Þar eru fornar búsetuminjar, tvær fjárborgir og vegghleðslur. Önnur fjárborgin virðist vera mjög forn hringlaga hleðsla, en hin nokkuð yngri.
Áður hefur nokkrum sinnum verið fjallað um minjarnar í og við Húshólma og í Óbrennishólma hér á vefsíðunni, auk þess sem Ferðamálafélag Grindavíkur hefur gefið út bækling þar sem rifjaðar eru upp heimildir og minjar skýrðar heilstætt á svæðinu. Annars er táknrænt að staldra við hjá þessum fornu minjum því við þær er staur frá Fornleifavörslunni – án orða. Um er að ræða friðlýstar fonleifar, en hið litla vesæla skilti við þær er löngu afmáð.
Á MiðrekumEftir að hafa staldrað við ofan við Hólmasund var stefnan tekin vestur með ströndinni. Þessi u.þ.b. 6 km kafli er torfarin.
Í fyrstu er um úfið hraun að fara með stuttum helluhraunspöllum, en síðan tekur við sjóbakað apalhraun, laust í sér og seinfarið. Að vísu opnast u.þ.b. 500 m kafli ofan við sjálfa Miðrekana, neðan við Brúnavörður, en síðan verður aftur með það sama – ófæra hefði einhver óvanur látið hafa eftir sér, en með rólegheitum má ýmist þræða ofanverða ströndina eða fjöruna, einkum síðasta spölinn, áður en komið er í Eystri-Látur. Víða má lesa myndunarsögu bergsins út úr jarðlögum þar sem brimið hefur brotið allt mélinu smærra og hreinsað ofan af heilu bergflekunum. Víða á leiðinni eru einstaklega sérkennilegar myndanir og þótt ekki væri fyrir annað en þær verður svona ferð alveg þess virði. Auk þess er óvænt rekavonin á leiðinni, einkum ofan við Miðreka, góð ábót á ágóðan. Í þessari ferð var t.d. gengið fram á brak af björgunarbát, sem rak þar upp fyrir ári og varð að engu. Björgunarhringurinn var þó enn heill og var honum komið í Saltfisksetrið að ferð lokinni.
Austasta sjóbúðin á SelatöngumSelatangar er gömul verstöð suður af   Núpshlíð og vestan við Ögmundarhraun.Vestan við Selatanga eru Borgir eða Katlahraun, fallegar hraunlægðir með allskonar hraunmyndunum. Frá bílastæðinu er um hálftíma gangur í austur að fjölda verbúðartófta, hlaðinna fiskibyrgja og fiskgarða úr grjóti. Talið er að um 100 manns hafi stundað útræði frá Selatöngum þegar mest var. Vermenn hættu að stunda róður frá Selatöngum um 1884, en ábúendur í Krýsuvík og Ísólfsskála stunduðu útræði frá Selatöngum fram á fyrstu áratugi 20.aldar.  
Eftirfarandi umfjöllun Ólafs Einarssonar um Selatanga, “Útræði á Selatöngum”, birtist í Ferðablaði Lesbókar Mbl 25. nóv. 1989 (Ólafur var frá Garðshúsum í Grindavík): “Ef draga má ályktanir af því, að skoðanir fil. dr. Sveinbjarnar Rafnssonar séu réttar eða nálægt sanni, má áætla að útróðrar frá Selatöngum hafi hafist seint á 15. öld eða nálægt aldamótunum 1600. Má þá slá því föstu að stöðugt útræði hafi verið þaðan um nærfellt þriggja alda skeið. Ekki er nokkur leið að sannreyna með nokkurri nákvæmni hvenær sjóróðrar hafi hafist þaðan. Afur á móti er fullkomin heimild fyrir því, að þeir hafi verið stundaður þaðan allar götur fram til ársins 1884 [reyndar var róið frá Selatöngum frá á byrjun 20. aldar].
Þurkkbyrgi á Selatöngum (t.h.)Í bók Ólafs Þorvaldssonar “Harðsporum” segir: “Útræði mun hafa að mestu lagst niður á Selatöngum á síðari hluta nítjándu aldar og munu síðustu útgerðarmenn þar hafa verið Beinteinn smiður í Arnarfelli og Sveinn ríki á Læk”.
Þórarinn Einarsson á Höfða á Vatnsleysuströnd skýrði Lúðvíki Kristjánssyni frá því á sínum tíma, að faðir hans, Einar, hafi verið þar við sjóróðra og að seinasta vertíð hans hafi verið 1884, en að þar með hafi líka sjóróðrar frá Selatöngum lagst niður [róið var þó lengur þaðan, bæði frá Krýsuvíkurbæjum og Ísólfsskála sbr. aðrar frásagnir]. Einar faðir Þórarins fæddist og ólst upp í Nýjabæ í Krýsuvík og koma að sjálfsögðu tengslin við sjóróðrana þaðan.
Rölti maður um það svæði á Selatöngum, sem vitað er að voru höfuðstöðvar þeirra, kemur greinilega í ljós að útræðið hefur verið talsvert. Má sjá það á þeim gróðri sem þar hefur myndast, þar sem annars er svartnættisgróðurleysi. Það er auðvitað slógið úr fiskinum, sem myndað hefur gróðurinn. Mörg fiskbyrgi eru þatrna tiltölulega vel á sig komin, en mannabústaðir gamlir, hrörlegir og niður fallnir. Gætu þeir varla kallast mannabústaðir í dag.
Hér má sjá viðgerð á austasta verkhúsinuHvað sem um þennan stað má segja, þá er það víst að á löngu tímabili var þar dregin nokkur björg í bú þeirra Krýsvíkinga. En aðstæðurnar hafa verið mjög erfiðar og mikið strit samfara veiðiskap og flutningum.
Varla er hægt að skrifa um útræðið frá Selatöngum, sem mun hafa hafist fljótlega eftir að Húshólmasund eyðilagðist með öllu í hamförunum þegar Ögmundarhraun rann, án þess að rifja upp eða lýsa þeim miklu reimleikum sem sagt er að þar hafi átt sér stað.
Draugur sá, sem magir kváðust hafa séð, var nefndur Tanga-Tómas og er hann sagður hafa gert mörgum búðarmönnum ýmsar skráveifur eða smáglettur.

Arnarfell

Bærinn Arnarfell undir Arnarfelli í Krýsuvík.

Á Arnarfelli í Krýsuvík bjó þá maður er Beinteinn hét, þrautreyndur í sjóróðrum frá Selatöngum, sem getið er hér að framan. Einu sinni var hann heylítill og flutti sig þá niður á Selatanga með fé sitt til fjörubeitar, einnig var ætlun hans að huga að reka. Var hann þarna um tíma og hafðist við í sjóbúð, er notuð var á vetrum. Kvöld eitt er Beinteinn kemur frá fénu kveikur hann ljós og tekur tóbak og sker sér í nefið. Tík ein fylgdi honum jafnan við féð og var hún inni hjá honum. Veit Beinteinn þá ekki fyrr til en ljósið er slökkt og tíkinni hent framan í hann. Þreif hann þá byssu sína og skaut út úr dyrum. Sótti Tanga-Tómas þá svo fast að honum að hann hélst ekki við í sjóbúðinni og varð að hrökklast út í illviðrið og fara heim til sín um nóttina. Eftir mikil átök við drauginn og illviðrið komst Beinteinn loks heim til sín um morguninn og var þá mjög þrekaður.
Það kom fyrir á Selatöngum einhverju sinni að unglingspiltur var orðinn mötustuttur. Buðust þá hásetar, á skipum þeim sem þar reru, til að gefa honum mötu til vertíðarloka ef hann kæmi nöfnum þeirra allra í eina þulu. Strákur kvað:

Tuttugu og þrjá Jóna telja má,
tvo Ara, Þorkel, Svein,
fimm Guðmunda og Þorstein þá,
þar með Guðlaug, Freystein, Einara tvo, Ingibjörn, Rafn,
Vilhjálmi Gesti verður jafn,
Selatanga sjóróðramenn
sjálfur Guð annist þá.

Þótt aldrei væri stórt útver á Selatöngum eru þar þó enn talsverðar verminjar. Þaðan var seinast róið 1884.”

Vestasta verbúðin á Selatöngum

Þór Magnússon skrifaði um “Þjóðminjar” í Lesbók Mbl þann 27. júní 1976 fjallaði hann um “Verbúðarrústir á Selatöngum”: “Selatangar eru undarlegt ævintýraland og óvíða munu jafnskemmtilegar minjar um útræði hér á landi og einmitt þar, þótt staðurinn hafi verið líttþekktur fyrr en nú á síðustu árum.
Selatangar eru um það bil miðja vegu milli Grindavíkur og Krýsuvíkur. Þarna hefur Ögmundarhraun gengið í sjó fram og myndað tanga og er þar sæmileg lending. Hana hafa menn hagnýtt sér og smám saman myndazt þarna verstöð, sem harla lítið er þó vitað um úr rituðum heimildum. Hins vegar vitna rústirnar um það, sem þarna hefur farið fram. Hér er fjöldinn allur af fiskbyrgjum og nokkrar verbúðir, sem hægt er að greina, og er þetta listilega vel hlaðið úr hraunhellum og stendur allvel, þótt tímans tönn hafi unnið á sumu.
Síðast er talið, að róið hafi verið frá Selataöngum 1884. Fyrir mun hafa komið, að menn lentu á Selatöngum síðar ef lending var ófær annars staðar, en síðasti formaður af Selataöngum mun hafa verið Einar bóndi í Stóra-Nýjabæ í Krýsuvík Einarsson, afi Þorvaldar Þórarinssonar lögfræðings.
Ruddur vegur liggur af þjóðveginum, Ísólfsskálavegi, gegnum hraunið og niður á Selatanga, en hann er illfær litlum bílum [nú er hann að sjálfsögðu greiðfær öllum bílum]. En fjarlægðin er ekki meiri en svo, að þeir, sem röskir eru til gangs fara það á stuttri stundu og er vissulega ástæða til aðhvetja þá, sem áhuga hafa á minjum sem þessum, að kynnast þessum einkennilega minjastað.
Erfitt er nú að sjá, hverju hlutverki hver og ein rúst hefur gegnt, enda eru þær mjög misgamlar og hinar elztu nokkuð ógreinilegar. Þó má yfirleitt greina verbúðirnar af bálkunum, sem sofið hefur verið á, og sumar eru skiptar með vegg. Dagon (Raufarklettur), landamerkjasteinn á SelatöngumUppsátur sést einnig allglöggt, en rústirnar ná yfir talsvert stórt svæði með sjónum.
Vestan við rústirnar er sandfjara og í hraunjarðrinum þar vestan við er hellir, Nótarhellir, sem hægt er að komast í um fjöru. Hann mun draga nafn sitt af því, að Hraunsmenn í Grindavík geymdu þar selanætur sínar.”
Í forverkefnisskýrslunni „Plokkfiskur” – Íslensk strandmenning sem grunnur fyrir ferðaþjónustu í framtíðinni, sem gefin var út af Samgönguráðuneytinu, Siglingastofnun Íslands og Húsafriðunarnefnd ríkisins í júlí 2004, er m.a. fjallað um strandminjasvæðið á Seltaöngum. “Aðrar mjög áhugaverðar strandminjar eru Selatangar, suð-austur af Grindavík. Þetta svæði mun líka hafa verið miðstöð fyrir árstíðabundnar veiðar og hér eru rústir, hellar og aðrar minjar. Talið er að þarna hafi verið verstöðvar af svipaðri stærðargráðu og gömlu verstöðvarnar á Snæfellsnesi; Dritvík og Djúpalónssandur þar sem oft gistu hundruðir vermanna. Okkur skilst að áhugasamur einkaaðili hafi gert svæðið aðgengilegt fyrir almenning og sett upp upplýsingaskilti, gangstíga og gefið út bækling. Bæði Óttarsstaðir og Selatangar eru dæmi um aðgengilega sögustaði á Íslandi sem hafa mikla möguleika í ferðaþjónustu. Það ætti að koma af stað vinnuhópi, með það að markmiði að gera yfirlit yfir slíka staði á landinu öllu, forgangsraða þeim og meta ástand þeirra og möguleika innan ferðaþjónustu.”
Vestasta sjóbúðin á Selatöngum

Ekki var vart við Tanga-Tómas í þessari ferð, eins og svo jafnan áður. Á skilti við Selatanga er texti er segir að þaðan hafi síðast verið róið 1884. Þá eru myndir af tilgátuhúsum á Töngunum. Þar voru þrjár búðir, en ólíklegt verður að telja, af ummerkjum að dæma, að útlit þeirra hafi verið með slíkum hætti.
Dagon er nú varla svipur hjá sjón. Hann sést þó enn neðst í fjörunni á Selatöngum (þríkolla). Á síðustu árum hefur Ægir farið ómjúkum öldum um hann. “Kletturinn” er þó enn ábending um að vestasta sjóbúðin og tilheyrandi mannvirki hafa tilheyrt Ísólfsskála. Líklegt má því telja, ef Beinteinn frá Arnarfelli hefur hafst við í sjóbúð á Selatöngum, að þar hafi hann verið í austustu búðinni, enda heillegust þeirra, sem enn má sjá á Töngunum.
Aflraunasteinarnir á Selatöngum voru nú horfnir undir sand og grjót, enda ströndin búið við mikla ágjöf í hinum hörðu rokum liðins vetrar.
Frábært veður. Gangan tók 4 klst og 4 mín.

Heimildir m.a.:
-Lesbók Mbl 17. sept. 1961.
-Lesbók Mbl. 31. jan. 1954.
-Lesbók Mbl 25. nóv. 1989.
-Lesbók Mbl 27. júní 1976.

Á Selatöngum

Á Selatöngum.

 

https://ferlir.is/husholmi-ii/https://ferlir.is/husholmi-i/

 

Selatangar

Á Selatöngum eru minjar gamallar verstöðvar.

Selatangar

Selatangar – verkhús.

Núverandi minjar eru líkast til u.þ.b. tveggja alda gamlar. Þær hafa eflaust tekið breytingum allnokkrum frá því að verstöðin var fyrst notuð sem slík. Á Selatöngum má enn sjá greinilega tóftir tveggja búða (Vestari búð og Austari búð) auk þess sem sést móta fyrir útlínum þeirrar þriðju miðsvæðis. Þar eru og a.m.k. þrjú verkunarhús þar sem gert var fyrst að fiski, þurrkbyrgi, þurrkgarðar, þurrkreitir, brunnur, smiðja, skútar með fyrirhleðslum, hesthús, Nótarhellir (þar sem dregið var fyrir sel), Mölunarkór, Sögunarkór og Smíðahelli, auk gamalla gatna og hlaðinna refagildra. Vestan við Seltanga er hið merkilega náttúrufyrirbrigði “Ketillinn” í Katlahrauni og fjárskjól þeirra Vigdísarvallamanna.

Selatangar

Jón Guðmundsson við brunninn á Selatöngum.

Undirritaður gekk einn góðan sumardag árið 2002 um Selatanga með Jóni Guðmundssyni frá Ísólfsskála, sem hann man eftir minjunum eins og þær voru þegar hluti verstöðvarinnar var enn í notkun. Hann lá þar með föður sínum í Vestustu búðinni árið 1926 er Skálabóndi gerði enn út frá Töngunum. Jón minnist þess vel að reki var reiddur þaðan að Ísólfsskála eftir vestari Rekagötunni, sem mótar enn vel fyrir og liggur í gegnum Ketilinn og áleiðis heim að Skála. Leiðin er vörðuð að hluta, en víða sjást för eftir hófa og fætur liðinna alda í klöppinni. Austari Rekagatan liggur til norðurs vestan vestari Látra. Rekagötunar voru einnig nefndar Tangagötur og jafnvel Lestargötur, allt eftir notkun og tilgangi á hverjum tíma.
Tækifærið var notað og svæðið rissað upp eftir lýsingu Jóns. Fylgir það þessum skrifum. Sennilega er þetta eina kortið, sem dregið hefur verið upp af þessari verstöð, þeirri einu sem eftir er á Reykjanesi.

Selatangar

Selatangar – þurrkbyrgi.

Jón sýndi undirrituðum m.a. Smíðahellinn, Sögunarkórinn (Mölunarkórinn), Nótahellinn, hlöðnu refagildrurnar, brunninn, búðirnar, fiskvinnslubyrgin, þurrkbyrgin, þurrkgarðana, smiðjuna, skútana, lendinguna og Dágon (landamerkjastein Ísólfsskála og Krýsuvíkur, en verstöðin er að mestu
innan landamerkja síðarnefndu jarðarinnar). Á sléttri klöpp neðan við Dágon eru klappaðir stafirnir LM (landamerki). Þá benti hann á lendinguna, skiptivöllinn o.fl. Ljóst er að ströndin hefur tekið miklum stakkaskiptum á síðustu áratugum og þarf að meta aðstæður á staðnum með tilliti til þess. Sjórinn hefur nú að mestu brotið skiptivöllinn sem og Dágon . Einnig hefur hann brotið niður byrgi og búðir næst ströndinni. Til merkis um það hefur miðverkunarhúsið syðst á Töngunum látið mikið á sjá á skömmum tíma. Fyrir ári síðan var það að mestu heilt, en sjórinn hefur nú brotið niður suðurhlið þess.

Selatangar

Selatangar – sjóbúð.

Jón taldi almennan misskilning ríkja um hlaðna fjárbyrgið norðan við Ketilinn. Sumir telja það mjög fornt, en það hefði í rauninni verið hlaðið af föðurbræðrum hans frá Vigdísarvöllum skömmu eftir aldarmótin 1900 vegna þess að fé þeirra Vígdísarvallamanna hefði tíðum leitað í fjöruna og þeir þá átt í erfiðleikum með að reka það hina löngu leið til baka. Því hafi skútinn verið hafður þarna fénu til skjóls.
Verstöðin hefur sennilegast notuð þegar á miðöldum. Hraunið (Ögmundarhraun) er frá því um 1150, en það ár lagði það gamla Krýsuvíkurbæinn í Húshólma, sem er þar litlu austar, í eyði. Reru frá Selatöngum meðal annarra skip Skálholtsstóls, auk þess menn alls staðar af landinu lágu þar í veri. Síðast var róið 1884, en selveiðar voru stundaðar nokkur ár eftir það. Þó var oft lent síðar ef lending var ófær annars staðar meðan róið var á opnum skipum, s.s. frá Þórkötlustöðum, Hrauni og víða. Við Dágon eru landamerki Ísólfsskála og Krýsuvíkur.

Selatangar

Selatangar – verkhús.

Á Selatöngum sjást enn miklar rústir verbúða hlöðnum úr hraungrýti svo og rústir af fiskbyrgjum þar sem hertur fiskur var geymdur. Á görðunum, sem enn sjást, var einnig hertur fiskur þegar veður gaf. Sums staðar er hlaðið fyrir hraunhella og þeir notaðir sem sjóbúðir eða byrgi. Vestan við Selatanga er hellir sem hafður var til eldamennsku – mötuneyti þess tíma. Einnig má sjá þar refagildrur frá síðustu öld.

Á Selatöngum var afturgangan Tanga-Tómas svo hatröm að ekki þýddi að skjóta á hana silfurhnöppum sem yfirleitt dugðu helzt á drauga, en frekast dugðu lambaspörð. Auk Tanga-Tómasar eru margir aðrir draugar á ferli á Selatöngum og í nágrenni þeirra, einkum þegar skyggja tekur.

Selatangar

Selatangar- Tanga-Tómas með FERLIRSfélögum.

Í skýrslu um menningarminjar í Grindavíkurkaupstað segir m.a. um Selatanga:
1703: “Jörðin á í sínu landi, en þó allfjarri, skipsuppsátur og brúkar heimabóndinn það um vertíð fyrir sig og hjáleigumenn sína. Öngvar eru þar verbúðir aðrar. Og er þó lending merkilega slæm, heitir “plátsið” á Selatöngum”, segir í jarðabók Árna og Páls.
1756: “Selatangi við Krýsuvík er lítill, en vel fallinn til sjósóknar, en ströndin er klettótt og lending ill sakir brima”, segir í Ferðabók Eggerts og Bjarna.

Selatangar

Miðrekar.

“Þegar kemur vestur fyrir Miðrekana og landinu fer að sveigja til norðurs, taka við Seltangar…. Á Seltöngum var fyrrum mikil útróðrastöð og verstöð. Er þar enn allmikið af búðarústum og fiskigörðum til herslu á fiski.
Hér er mikið af hraunhellum, þótt flestir séu þeir litlir, voru þeir notaðir til ýmissa hluta og hlutu nöfn af. Nokkru eftir 1880 lagðist útræði hér niður að fullu og öllu”, segir í örnefnalýsingu Krýsuvíkur.

Selatangar

Selatangar – refagildra.

“Austan við Hraunnef [þar sem leiðin er hálfnuð út á Selatanga er]…. Veiðibjöllunef… Austan við Veiðibjöllunef kemur Mölvík… þar upp af Mölvík austan til heitir Katlahraun… Austast í Katlahrauni er Nótarhellir og gengur í sjó fram…. Fyrir austan Nótarhellir er sandfjara og síðan taka við Selatangar”, segir í örnefnaskrá Ísólfsskála.
“Nokkuð austan við bæinn á Ísólfsskála, sem svarar klukkutíma gang, gengur tangi fram í sjóinn. Hann heitir Selatangar”, segir í örnefnaskrá AG um Ísólfsskála.
Friðlýstar minjar: “Verbúðartóftir, fiskbyrgi, fiskigarðar og önnur gömul mannvirki í henni fornu verstöð á Selatöngum”.

Selatangar

Selatangar – austasta verbúðin.

Á Selatöngum var aldrei föst búseta, heldur einungis útver með nokkrum verbúðum. Þaðan var einkum útræði Krýsuvíkurmanna, en Krýsuvík fylgdu lengi nokkrar hjáleigur.
Til er gömul þula sem telur 73 (aðrir segja 82) menn við róðra í Krýsuvík. Ástæðan fyrir þeim kveðskap er sögð vera sú, að strákur einn hafði orðið mötustuttur í verinu….. Líklegt er að bæði Krýsuvíkurbændur og Vigdísarvallabændur hafi gengið til skips, en ekki haldið til í verinu.
Þótt aldrei væri stórt útver á Selatöngum eru þó þar talsverðar verminjar. Þaðan var seinast róið 1884, skv. upplýsingum á skilti við bifreiðastæðið. Heimildir eru þó um að þarna hafi verið útræði frá Skála 1913.

Selatangar

Gengið um Katlahraun og nágrenni.

Guðrún Ólafsdóttir lýsir rústunum svo í skýrslu frá 1993: “Þarna eru nú minjar um verbúðir, fiskbyrgi og garðhleðslur sem eru að mestu horfnar. Rústirnar eru margar og er hægt að telja þær upp undir 20, auk garðhleðslanna sem eru á hraunnefunum og eru nú að mestu horfnar. Á vestustu hraunnibbunni er verbúð og rústir, auk garðhleðsla. Á næstu nibbu austan við eru rústir sömuleiðis, en hraunnibban er aðgreind frá þeirri vestari af sandi. Hinar rústirnar eru svo á þriðju nibbunni sem myndar samfelldara og stærra svæði en hinar og þar eru líka flestar rústirnar. Austast á þessu svæði er önnur verbúðartóft og byrgi í líkingu við það sem er vestast.

Selatangar

Selatangar – Smíðahellir.

Utan í hraunflákanum að austan eru fyrirhleðslur við skúta sem virðast hafa verið notaðir af fé. Margar hleðslurnar hafa farið verulega illa í flóðum undanfarin ár. Verbúðartóftin vestari er undir hraunbrúninni og er mjög fallinn, þó má greina húsaskipan. Rústin er hlaðin úr grjóti og torfi en hraungrjót er meginbyggingarefnið, enda hefur skort torf í hraunhafinu sem umlykur Selatanga að sjó. Við rústina að norðan- og sunnanverðu eru byrgi sem þarf að varðveita. Allt í nágrenninu eru svo hlaðnar rústir sem þarf að huga að. Nokkur byrgi eru uppistandandi og vel farin og slaga þau uppí að vera mannhæðarhá…. Stórflóðin á undanförnum árum hafa farið illa með rústirnar. Rústirnar eru á hraunnibbum sem skaga út frá Ögmundarhrauni og utan í þeim”.

Selatangar

Fjárskjól í Katlahrauni.

“Á Selatöngum var allmikil útgerð frá Skálholti í eina tíð, en lagðist fyrst niður um tíma eftir Básendaflóðið 1799 og svo að fullu og öllu milli 1880 og 1890. Þarna eru byrgi og búðatættur, sem eru nú friðlýstar. Dágon var klettur á kampinum suður af vestustu sjóbúðinni á Selatöngum, en er nú hruninn… Skiptivöllur er smáhæð fyrir austan Dágon, grasivaxinn að ofan. Sjóbúðirnar standa austan undir Skiptivelli á hraunnefi”, segir í örnefnaskrá Ísólfsskála.

Selatangar

Fiskbyrgi á Selatöngum.

“Á Selatöngum sjást byrgi og búðatættur, eldhús og önnur mannvirku, enda var þarna allmikil útgerð fyrir eina tíð…”, segir í Örnefnaskrá AG um Ísólfsskála.
Árið 1799 skemmdust nær öll mannvirki á reykjanesi er voru næst sjónum. Auk þess hefur sjórinn verið að naga smám saman af ströndinni í gegnum aldir. Ljóst er því að núverandi minjar á Selatöngum geta varla verið eldri en frá því um 1800. En þær eru eftir sem áður minnismerki um verstöð á Selatöngum um langan aldur og áþreifanlegur vitnisburður um sjósóknina fyrrum og horfna starfshætti.

ísólfs

Gengið um Selatanga.

Sjá má mikinn fróðleik um Selatanga í bæklingi Ferðamálafélags Grindavíkur – Seltangar, merkar minjar í umdæmi Grindavíkur.

ÓSÁ tók saman.

Selatangar

Selatangar – vel má sjá hversu erfitt útferið hefur verið utan við Tangana.

Selatangar

“Beinteinn var maður nefndur suður í Krýsuvík, bjó hann að Arnarfelli.

Selatangar

Selatangar – sjóbúð.

Eitthvert sinn var hann að smíða skip við sjó frammi, þar sem heitir á Selatöngum. Hafðist hann þar við í verskála. Þar hafði hann alltaf hjá sér hlaðna byssu. Hannn lét einatt loga ljós í skálanum þegar kveldaði.

Eitt kvöld, er hann hefur kveikt í skálanum, heyrir hann allt í einu mjög mikinn brest og skarkala í skáladyrum. Lítur hann þangað og sér þá að ógurlegt skrímsli treður sér inn úr dyrunum; það hafði brotið tréð úr þeim, hafði dyraumbúninginn á herðunum og tróð sér svo áfram. En þröngt varð um það á milli grjótveggjanna.
Það var eins og maður neðan en mjög ófreskjulegt eða dýrslegt ofan. Beinteinn var harðfær maður og alleinbeittur. Hann þrífur því byssu sína, lætur sér ekki bilt við verða og hleypir af á ófreskjuna. Henni bregður hvergi og treður sér því meir áfram. Beinteinn hleður aftur byssuna og hleypir af. Þá stansar þetta en ekkert sér á því. Enda var það allt að sjá hulið skeljarögg utan.

Selatangar

Á Selatöngum.

Beinteinn var í silfurhnepptri millifatapeysu. Hann man nú allt í einu að hann hefir heyrt sagt að þótt engin kúla vinni á skeljastakk skrímsla þá geri þó silfurhnappar það. Slítur hann því hnappana af peysunni sinni, hleður byssuna og hefur á fyrir högl eða kúlu og skýtur enn á skrímslið. Þá tók það snarpt viðbragð, reif sig út
og hvarf til sævar. En Beinteinn hljóp út. Þá fyrst greip hann hræðsla. Tók hann til fóta og hægði eigi á sprettinum fyrr en heima við bæ, óður af hræðslu og nærri sprunginn af mæði og sagði söguna. Að morgni sáust aðgerðir skrímslisins en sjálft var það með öllu horfið.”

SIGFÚS IV 39

Selatangar

Á Selatöngum.

Selatangar

“Tómas hét maður, er eitt sinn kom að Krýsuvík og baðst þar gistingar en honum var úthýst.

Arnarfell

Bærinn Arnarfell undir Arnarfelli í Krýsuvík.

Fór Tómas þá þaðan, en varð úti á Selatanga. Tómas gekk aftur og var draugurinn jafnan nefndur Tanga-Tómas. Margir urðu fyrir aðsókn hans en einkum Beinteinn úr Hraunum suður, enda var hann oft við selaskot á tanganum.
Stundum skaut Beinteinn silfurhnöppum á drauginn en það hreif ekkert. Aftur fældist hann í svipinn, þá er skotið var á hann lambaspörðum. Oft fylgdi draugurinn Beinteini heim og varð honum helzt til friðar að láta konu sína sofa fyrir framan sig, því að þá komst draugurinn ekki að honum. Einhverju sinni var draugurinn kominn inn í bæinn á undan Beinteini. Hann krossaði fyrir dyrnar, eins og þá var siður til, til þess að varna draugnum að komast inn, en þetta varð til þess í þetta skipti að draugurinn komst ekki út. Hann var með gustmesta móti um nóttina og var stundum bjart í baðstofunni af eldglæringum.”

ÓLAFUR DAVÍÐSSON I 315

Selatangar

Selatangar – sjóbúð.

ísólfs

Á Selatöngum var fyrrum verstöð og útræði mikið. Gengu þaðan m.a. biskupsskip frá Skálholti. Þar sér enn allmikið af gömlum búðartóftum og görðum, er fiskur og þorskhausar voru fyrrum hengdir á til herzlu.

Katlahraun

Í Katlahrauni – Sögunarkór.

Hjá Selatöngum eru hraunhellar margir, en flestir litlir. Var hlaðið fyrir opið á sumum þeirra til hálfs og notuðu sjómenn þá til ýmissa hluta. Í einum höfðu þeir kvörn sína og kölluðu þeir þann helli Mölunarkór, í öðrum söguðu þeir og kölluðu hann því Sögunarkór o.s.frv. Reki var mikill á Selatöngum og færðu sjómenn sér það í nyt; smíðuðu þeir ýmsa gripi úr rekaviðnum, þá er landlegur voru, en þær voru ekki ótíðar, því að brimasamt var þar og því sjaldan róið á stundum.

Selatangar

Selatangar – verbúð.

Á síðara hluta 19. aldar bjó í Stóra-Nýjabæ í Krýsuvík maður sá, er Einar hét. Hann átti mörg börn, og er saga þessi höfð eftir tveim sonum hans, Einari og Guðmundi. Einar, faðir þeirra, var allt að 30 vertíðum formaður á Selatöngum. Var í mæli, að reimt hefði verið á Selatöngum, og var draugsi sá í daglegu tali nefndur Tanga-Tómas. Hann gerði búðarmönnum ýmsar smáglettur, en var þó ekki mjög hamramur. Þá bjó á Arnarfelli í Krýsuvík maður sá, er Beinteinn hét. Var talið að Tómas væri einna fylgispakastur við hann. Var Beinteinn þessi fullhugi mikill, smiður góður og skytta og hræddist fátt. Var þetta orðtak hans: “Þá voru hendur fyrir á gamla Beinteini”.

Einu sinni varð Beinteinn heylítill, og flutti hann sig þá niður á Selatanga með fé sitt til fjörubeitar. Var hann þarna um tíma og hafðist við í sjóbúð, er notuð var á vetrum.

Seatangar

Gengið um Selatanga.

Kvöld eitt er Beinteinn kemur frá fénu, kveikir hann ljós og tekur tóbak og sker sér í nefið.
Tík ein fylgdi honum jafnan við féð og var hún inni hjá honum. Veit Beinteinn þá ekki fyrr en ljósið er slökkt og tíkinni hent framan í hann. Þreif hann þá byssuna og skaut út úr dyrunum. Sótti draugsi þá svo mjög að Beinteini að hann hélzt loks ekki við í sjóbúðinni og varð að hröklast út í illviðrið og fara heim til sín um nóttina. Hafði Beinteinn skaröxi í hendi og hvar sem gatan var þröng á leiðinni heim um nóttina, þá kom draugsi þar á móti honum og reyndi að hefta för hans, en undir morgun komst Beinteinn heim og var þá mjög þrekaður. Um viðskipti draugsa og Beinteins er ekki fleira kunnugt, svo að sögur fari af. Þess má geta, að þá er Beinteinn var spurður, hvað hann héldi, að um draugsa yrði, er sjóbúðin yrði rifin, þá svaraði hann: “Og hann fylgir staurunum, lagsi”.

Selatangar

Selatangar – fiskbyrgi.

Nokkru eftir þetta bar svo við, að tveir áður nefndir synir Einars bónda í Stóra-Nýjabæ fóru niður á Selatanga á jólaföstunni og hugðu að líta til kinda og ganga á reka; jafnframt ætluðu þeir að vita, hvort þeir sæju ekki dýr, því að annar þeirra var skytta góð.
Þeir komu síðla dags niður eftir og sáu ekkert markvert; fóru þeir inn í þá einu búð sem eftir var þar þá og ætluðu að liggja þar fram eftir nóttinni, en fara á fætur með birtu og ganga þá á fjöru og vita, hvort nokkuð hefði rekið um nóttina.

Selatangar

Selatangar – sjóbúð og fiskbyrgi.

Bálkar voru í búðinni fyrir fjögur rúm, hlaðnir úr grjóti, eins og venja var í öllum sjóbúðum og fjöl eða borð fyrir framan. Lögðust þeir í innri rúmbálkinn að vestanverðu og lágu þannig að Einar svaf við gaflhlaðið en Guðmundur andfætis. Þá er þeir höfðu lagzt niður, töluðu þeir saman dálitla stund og segir þá Guðmundur meðal annars:
“Skyldi þá Tómas vera hér nokkurs staðar?”
Kvað Einar það líklegt vera. Fella þeir svo talið og ætlað að sofna en er þeir hafa legið litla stund heyra þeir að ofan af ytra bálkinum við höfuð Guðmundar stekkur eitthvað. Var það líkast því sem stór hundur hefði stokkið niður á gólfið; voru þeir þó hundlausir er þeir komu þangað, og búðin lokuð. Segir þá annar bræðranna:

Selatangar

Tanga-Tómas á Selatöngum með FERLIRsfélögum.

“Þarna er hann þá núna”, en í sömu svipan er kastað tómu kvarteli sem hafði staðið á ytra bálkinum hinum megin, inn í gaflhlað beint yfir höfuð Einari. Sofnuðu þeir bræður ekki um nóttina, en fóru á fætur. Ekki lét draugsi neitt frekara til sín heyra. Eftir 1880 lagðist útræði niður frá Selatöngum. Um það leyti var seinasta sjóbúðin rifin, og hafa menn eigi hafzt þar við síðan.

Rauðskinna I 41

Fengið af:
http://bokasafn.rnb.is/default.asp?cat_id=233

Selatangar

Selatangar – uppdráttur

ísólfs

Farið var að Ísólfsskála og Selatöngum í fylgd Jóns Valgeirs Guðmundssonar, syni Guðmundssonar Hannessonar frá Vigdísarvöllum. Lýsing á hluta ferðarinnar fer hér á eftir.

Notarholl-223

Ísólfsskáli – fiskbyrgi við Nótarhól.

Haldið var eftir Ísólfsskálavegi frá Hrauni. Jón benti m.a. á hvilft í vestanverðum Siglubergshálsi þar sem hann kemur í Fiskidalsfjall og nefndi hana Lyngbrekku. Hann benti og á gamla veginn, sem lagður var frá Hraunssandi, upp hálsinn og áfram áleiðis yfir að Skála. Hann sést vel ofanvert í hálsinum og áfram á milli og yfir Móklettana. Þar liggur vegurinn inn með hlíðinni uns hann liggur áleiðis norður fyrir Slögu austan við Litlaháls.
Jón sagðist muna vel eftir LM-merkinu (ártal) í austanverðum Móklettum. Það var skoðað og benti Jón á stað, sem merkið er. Landamerkin að vestanverðu liggja úr Festisnýpu, í merkið á Móklettum og yfir í Rauðamelshól uppi á sunnanverðu Borgarfelli.

Ísólfsskáli

Ísólfsskáli – fiskgarðar.

Ekið er yfir Litlaháls og þá er Lyngfjall á hægri hönd, síðan Festisfjall sunnan við það. Áður en haldið var að Ísólfsskála var farið inn í Drykkjarsteinsdal að Drykkjarst. Á leiðinni var farið framhjá grettistaki suðvestan í Slögu, er Jón sagði heita Hattur. Jón sagði Símon Dalaskáld hafa ort fallegt kvæði um steininn, en hann er sunnan við þjóðleiðina austur að Mjöltunnuklifi og til Krýsuvíkur. Jón sagðist nú einn vera eftirlifandi þeirra, sem lögðu veginn árið 1933. Þeir hefðu þá verið fimm saman, en vegurinn hafi verið gerður að beiðni Hlínar í Krýsuvík og á hennar kostnað.

Méltunnuklif

Méltunnuklif.

Þeir hafi haft einn hest, Nasa, og einn vagn við vegagerðina. Hún hafi verið tiltölulega auðveld að Méltunnuklifi, en þá hafi þeir þurft að ryðja sér braut niður klifið og í gegnum Leggjabrjótshraun, yfir Núpshlíðina og áfram yfir hraunið að Latfjalli. Þá hafi Ögmundarhraunið tekið við og liggur gamli vegurinn skammt norðan núverandi vegar. Við austurenda hans er komið inn á leið þá er Ögmundur lagði forðum. Gengið var að dysinni, teknir punktar og hún skoðuð. Þá var gengið spölkorn eftir gömlu leið Ögmundar. Enn sést vel móta fyrir henni á kafla í hrauninu.
Komið var að Ísólfsskála. Vestan við Huldukonustein (norðan íbúðarhússins) er Bjallinn. Undir honum, þar sem hann er sléttastur og gamalt garðlag liggur að honum, voru Skálaréttir. Í þeim voru dilkar og almenningur. Þangað komu Grindvíkingar í réttir. Eftir að Borgarhraunsréttir voru hlaðnar lögðust þær af.
Notarholl-224Á Ísólfsskála benti Jón á Gvendarvör, sem er innan í fallegu lóni utan við Nótarhól austan við túnin á Skála. Á hólnum og við hann eru mikil fiskibyrgi og þurrkgarðar frá þeim tíma er fiskur var verkaður og þurrkaður á staðnum. Jón sagði að fiskurinn hafi verið flattur eins og saltfiskur nú, hann síðan lagður inn í byrgin og þess gætt að roðið lægi saman. Þannig hafi fiskurinn verið um veturinn. Um vorið hafi hann verið tekinn og lagður á garðana uns honum var pakkað og skúturnar komu erlendis frá og sóttu hann. Þær hafi verið á legu utan við víkina, stundum margar saman. Utan við Nótarhól er Gvendarvör, eins og fyrr sagði og heitir ysta mark lónis Gvendarsker. Frá því myndast alnbogi til lands með því austanverðu og sker að vestanverðu.

Ísólfsskáli

Ísólfsskáli – gamli bærinn.

Lending hafi verið í Börubót, sem verið hafði beint neðan við bæinn. Bærinn sjálfur var þar sem nú er bílastæði vestan við græna sumarbústaðinn vestast á túninu, undir Bjallanum. Enn sést móta svolítið fyrir hleðslum hússins að hluta. Austan við veginn að bústaðnum eru einnig hleðslur gripahúsanna, en göng voru yfir í þau úr bænum. Sjóbúðun var framan og vestan við bæinn, fast við veginn að bústaðnum. Hleðslurnar sjást þar að hluta. Beint þar fyrir neðan sjóbúðina er hlið. Sjávarmegin við það, þar sem nú er sjávarkampurinn, var hlaðinn brunnur bæjarins.

Notarholl-225Kampurinn hefur gengið mikið upp síðan því tún var niður að honum allt að móts við Lambastapann, sem er austasti klettur Festisfjalls, Skálamegin. Ofan hans er Hjálmarsbjalli, nefndur eftir bróður Guðmundar. Hann ruddi svæðið ofan við bjallann, hlóð veggi og gerði þar túnblett. Norðan við húsið er stakur steinn er nefnist Huldukonusteinn. Segir sagan að huldukona hafi eitt sinn birst heimasætunni er var að leik við steininn og beðið hana um að lána sér dúkku, sem hún hafði. Heimasætian lánaði huldukonunni dúkkuna, en svo óheppilega vildi til að hún missti hana svo hún brotnaði. Varð af grátur og gnýstan tanna, en huldukonan hvarf inn í steininn.

Ísólfsskáli

Ísólfsskáli – steinninn.

Haldið var að “nýja” Skálahúsinu, sem byggt var 1931. Austan þess er stór steinn. Hann féll úr Bjallanum er faðir Jóns var níu vetra og lenti á höfði hans. Hlaut hann langt og mikið sá þvert yfir höfuðið svo leðrið hékk laust. Varð að sækja lækni til Keflavíkur til að vinna saumaskapinn. Suðaustan við húsið, þar sem nú er grunnur, stóð Bergsstaðahúsið. Það var síðar flutt út í Þórkötlustaðahverfi og loks út í Járnegarðastaðahverfi, a.m.k. hluti þess. Guðbergur Bergsson hefur búið þar. Í stefnu austur frá húsinu, ríst klettaborg úti í hrauninu. Hún nefnist Kista. Fjárbólið var uppi í klettunum norðan við bæinn. Jón sagðist muna eftir því, t.d. árið 1928, að mikið af skútum hafi verið við veiðar utan við ströndina. Þær voru franskar, færeyskar, danskar og hollenskar.

Notarholl-226

Séð frá húsinu, í átt að Nótahól, er lágur grashóll og utan í honum hleðslur. Hann nefnist Hestagerði. Rangagerði er djúp skora utar með ströndinni og skerst hún allangt inn í bergið. Þangað komst t.d. sjómaður eitt sinn á bát sínum í vonskuverði og bjargaðist. Rangagerði varð áður fyrr austurmörk Ísólfsskála, eða eftir að bóndinn gaf Kálfatjörn rekann frá gerðinu að Dágon á Selatöngum sem sálargreiða. Í staðinn eftirlét Kálfatjörn Ísólfsskála grásleppuveiði utan við Kálfatjörn á Vatnsleysuströnd. Bárður, bóndi á Skála, keypti hann til baka árið 1916 svo nú eru austurmörkin aftur í Dágon.

Brandur

Vörðurnar Brandur og Bergur.

Þegar haldið var áfram austur Ísólfsskálaveg lýsti Jón Hrafnsskriðu undir Slögu, Stórusteinum, Lágaskarði o.fl. stöðum. Vörður tvær á hægri hönd heita Bergsvarða (nær veginum) og Bárðarvarða. Bergur, faðir Guðbergs, hlóð þá veglegri er hann sat yfir fénu þarna og vildi hafa eitthvað um að sýsla. Gil eitt á vinstri hönd er merkilegt fyrir það að í því eru drykkjarskál. Þar settist vatnið og gat fé gengið að því vísu.

Ögmundardys

Jón Guðmundsson við Ögmundardys.

Fyrsta hornið við veginn á vinstri hönd heitir Fyrsta brekka í Méltunnuklifi. Síðan tekur við Önnur brekka í Méltunnuklifi. Þangað voru kýrnar frá Skála venjulega reknar til beitar. Loks er Méltunnuklifið. Þá hafi vegurinn um klifið bæði ve mjór og svo þröngur að erfitt gat verið að komast með hesta þar um. Gamla þjóðleiðin, sem fyrr var líst, kemur ofan af klifinu skammt norðar. Þar heitir Innsta brekka í Méltunnuklifi. Grasi gróið dalverpi er þar austanvið. Farið er í gegnu gjallgíga. Þeir heita Moshólar.
Áður en haldið var að Selatöngum var farin gamla leiðin í gegnum Ögmundarhraun, þá er Jón og félagar ruddu á sínum tíma. Jón lýsti leiðinni og vinnunni. Verst gekk, að hans sögn, að komast í gegnum hraunhaftið skömmu áður en komið er austur fyrir hraunið. Í Mjöltunnuklifinu hafi þurft að sprengja klett, sem slútti út í stíginn og orsakaði erfiðleikana við flutninga fyrrum. Við austurjaðar hraunsins er dysin skammt frá. Enn má vel sjá móta fyrir hleðslum í henni.

Jón Guðmundsson

Jón Guðmundsson á fer með FERLIR á Selatöngum 2004.

Á leiðinni niður að Selatöngum lýsti Jón Eystri lestarleiðinni frá Krýsuvík, Rekagötunni og Vestari lestarleiðinni, um Katlahraun út að Ísólfsskála. Eystri leiðin liggur með hraunkantinum, sem er handan hraunssléttunar austan vegarins. Jón að þeir hefðu verið svo til allt haustið að reiða reka heim frá Selatöngum. Tanga Móri hefði stundum gert vart við sig, en vitað var að hann hafi verið vesalingur, sem orðið hafði úti þarna við Tangana. Fræg er sagan af viðureign hans og Arnarfellsbónda.
Gengið var að refagildrunum vestan við Selatanga. Faðir Jóns hlóð þær á sínum tíma. Jón sagði hann hafa verið meira gefinn fyrir veiðar en búskap. Gildrurnar hafði hann ekki séð í u.þ.b. hálfa öld. Gengið var eftir Vestari lestargötunni í gegnum Katlahraun og að Smíðahelli. Á leiðinni benti Jón á skarð suðvestan í Katlinum, en af því var áður tekið mið í Geitahlíðarenda – fiskimið. Jón sagði vermenn á Selatöngum stundum hafa stolist í Smíðahelli í landlegum, tekið með sér rekavið, og dundað við að smíða úr þeim ausur, spæni, tögl o.fl. Þetta hefðu þeir ekki mátt, en í hellinum gátu þeir dulist án þess að nokkur yrði þeirra var.

Selatangar-221Þar sem setið var utan við hellinn í kvöldsólinni benti Jón á Langahrygg í norðri. Hann sagðist hafa verið þarna niður á Töngunum haustið 1940 er hann og bróðir hans hefðu orðið var við hvítann flekk utan í hryggnum. Þeir hafi haldið heim, en síðan farið upp á hrygginn. Þegar þangað kom hafi þeir sé líkamsparta dreifða um hlíðina og brak úr flugvél upp og niður um hana alla. Þeir hafi gengið niður til Grindavíkur til að láta vita. Þaðan hafi verið haft samband við herinn, því þarna var um ameríska flugvél að ræða með marga háttsetta innanborð. Haldið var á hrygginn í bryndreka, en það hafi verið í fyrsta og síðasta skiptið sem hann hafi ferðast með slíku farartæki.

Selatangar

Selatangar – fjárskjólið.

Litið var á fjárskjólið norðan Katlahrauns. Jón sagði það hafa verið hlaðið um 1870 af föður hans, sem þá hafi búið á Vigdísarvöllum, vegna þess að féð hafi leitað niður í sunnanverðar Núpshlíðar og alveg niður í fjöru á Selatöngum. Eftir að faðir hans flutti að Skála komu þangað íslensk kona og fylgd hennar var Þjóðverji. Þetta var á stríðsárunum. Þau hafi beðið um húsaskjól. Guðmundur hafði slíkt ekki á lausu, en vísaði þeim á fjárskjólið. Þar dvaldi parið um tíma eð þangað til þau voru sótt þangað af Bretum.

Nótarhellir

Nótarhellir.

Jón vísaði á Nótahellir vestast á Seltöngum. Þar sagði hann bændur hafa lagt nótina yfir vík, sem þar er, til að veiða selinn, sem hafi verið fjölmennur á og utan við tangana í þá daga. Hellirinn sést vel á lágfjöru, en erfitt er að komast að honum í annan tíma. Fé leitaði stundum inn í hellinn og flæddi þá stundum inni. Þess vegna var reynt að gera gerði utan við hornið landmegin, en það fór veg allrar veraldar.
Þá var gengið um Selatangasvæðið sjálft. Það skal tekið fram að eftir gönguna sáu þátttakendur svæðið í allt öðru ljósi en áður. Þarna er svo margt og merkilegt að finna að erfitt er að lýsa því stuttum texta. Þess vegna var ákveðið að nota ferðina og gera uppdrátt af svo til öllum mannvirkjum á Seltaöngum, nefna þá og staðsetja svona nokkurn veginn.

Selatangar

Selatangar – verkhús.

Vestan við sjálfa Selatangana eru brunnurinn, þar sem vatn aldrei þraut. Ofan hans eru Brunntjarnirnar. Jón sagði að hann og bróðir hans hefðu fyllt svo til alveg upp í brunninn eftir að dauð rolla fannst ofan í honum. Hann hafi áður verið meira en mannhæða djúpur.
Vestast á Selatöngum, austur undir kletti, er hlaðið hesthúsi Á austurveggnum eru garðarnir. Sunnan hesthússins eru búðir þær, sem síðast var hafst við í. Innst, nyrst, er eldhúsið. Sjá má ennþá hlóðarsteinana í suðausturhorni þess. Framan við eldhúsið eru tveir bálkar, svefnhús. Austan við þá er hús, sem var hluti búðanna. Í þeim var hafst við allt til ársins 1880, en þá gerði faðir hans út bát frá Selatöngum.

Selatangar

Selatangar – verbúð.

Báturinn var jafnan í Tangasundinu, sem er neðan við vestasta fiskibyrgið á hól sunnan búðanna. Að því er gengið frá búðunum um hlaðið hlið. Byrgið stendur svo til heilt. Göt eru á báðum göflum. Jón sagði þau hafa verið lyklinn að önduninni. Fiskinum hafi verið staflað líkt og á Nótarhól og þess gætt að kjötið snertist ekki. Þannig hafi hann verið um veturinn. Um vorið hafi fiskurinn verið tekinn og borinn út, þurrkaður og ýmist fluttur út í skútur eða heim. Fiskibyrgin standa sum svo til heil, bæði með húslagi og ein hringlaga. Verbúðirnar eru við fyrstu sín illa sjáanlegar, en þegar betur er að gáð, sjást þær vel. Austustu búðirnar er vestan við Selalónið, en austan þess er klettaveggur. Hann heitir Vestari Látur. Austari Látur eru þar skammt austar. Rétt sést móta fyrir austustu búðunum, sunnan við austasta þurrkbyrgið, sem stendur þar nokkuð heillegt. Búðirnar eru vestan við hlaðinn stíg er liggur frá fiskbyrginu niður að ströndinni. Ofan byrgisins er Smiðjan í klettasprungu. Austan þess er hlaðið hringlaga fallegt fiskibyrgi.

Selatangar-223

Selatangar – Dágon fyrir miðju (nú horfinn).

Dágon er nær horfinn. Hann sést þó í fjöruborðinu sem lítill klettur, suðaustan við vestasta fiskibyrgið. Vestan hans er hærri klettur og annar stór uppi á bakkanum á milli þeirra og byrgisins. Á tiltölulega sléttum grágrýtisklöppunum neðan við Dágon er klappað LM, en þar voru austurmörk Ísólfsskála og Krýsuvík tók við. Áletrunin sést einungis á lágfjöru. Jón sagðist hafa ætlað að skýra fyrsta bátinn sinn Dágon, en þegar hann frétti að nafnið þýddi “djöfull” á dönsku, hafi hann hætt við það.
Neðan við það fiskibyrgi, sem er heillegast miðsvæðis, er Skiptivöllurinn, bergrani út í sjó. Þar voru áður sléttar klappir og voru þær notaðar sem skiptivöllur líkt og vellirnir við Stokkasundið í Selvogi.

Selatangar

Selatangar – gömul verstöð á Reykjanesskaga. Þetta byrgi er nú horfið til hálfs.

Þegar gengið er til vesturs á Töngunum má t.d. sjá þurrkgarða, fiskbyrgi fremst, verbúð austan undir kletti (þeirri er lýst var áður), hesthúsið norðar, fiskibyrgi, fjögur kringlótt fiskibyrgi, íveruhús, fullt að sandi, skiptivöllinn, hús, hringlaga fiskibyrgi, fiskibyrgi, tvö sandfyllt hús, tvo hringlaga byrgi, Smiðjuna, fiskibyrgi, hús, eldhús, bálka og loks fiskibyrgi. Utar er Selalón, eins og áður sagði. (Sjá nánar í bæklingi Ferðamálafélags Grindavíkur um Selatanga. Í honum er m.a. fyrrnefndur uppdráttur af Töngunum).
Veður var í einu orði sagt frábært – logn, sól og hiti.

Selatangar

Selatangar – uppdráttur ÓSÁ.