Húshólmi

Ætlunin var að ganga um Húshólma og skoða einar elstu fornleifar landsins, ganga síðan um Brúnavörðustíg og venda þaðan yfir í Óbrennishólma ofan við Miðreka þar sem einnig eru að finna hinar elstu fornaldarleifar á landinu. 

Vegvísir við Húshólmastíg

Gengið var upp frá Óbrennishólmanum um fornan stíg og gamli Ögmundarstígurinn síðan fetaður til baka.
Allir áhugasamir Grindvíkingar – og aðrir –  í sumarfríi voru boðnir velkomnir í ferðina, þeim að kostnaðarlausu – enda eignin fyrst og fremst þeirra.
Þegar gengið er frá Ísólfsskálavegi niður (suður) með austurbrún Ögmundarhrauns er vegarlengdin niður að Húshólmastíg 2.5 km. Gengið er eftir jafnsléttuðum slóða svo gangan er auðveld fyrir alla er lyft geta öðrum fætinum og komið honum síðan fram fyrir hinn – o.s.frv., o.s.frv.
Á leiðinni niður eftir var litið á hringlaga gerði utan í hraunkantinum, líklega eina af rúningsréttum Krýsvíkinga, en hún liggur vel við leið í krika utan í hraunkantinum. Veggur er gróinn, um 1.0 m á hæð. Inni í hrauninu í vestur frá  réttinni eru greni með tilheyrandi mannvirkjum grenjaskyttna.
Fjárborg í HúshólmaÞegar komið var niður að mótum Húshólmastígs sýndi vegvísir leiðina (1.1 km). Haldið var inn eftir ruddum stíg til vesturs í gegnum hraunið uns komið var að hleðslum austast í Húshólma. Áberandi var hversu vel brönugrasið hafði braggast í skjóli lyngs og lágvaxins runnagróðurs í grónum hólmanum ofanverðum.
Komið var að leifum að hlöðnum tvískiptum stekk í hraunkantinum norðanverðum. Skammt vestan hans er upphleypingur, að öllum líkindum tvískipt seltóft. Þriðja tóftin var skammt norðaustar í kantinum, líklega eldhúsið.
Norðvestar mátti berja hlaðið skól refaskyttu augum, auk merkinga (steinn) á greni. A.m.k. tvo innganga var að ræða. Skammt vestar eru leifar af fornri fjárborg. Roföflin höfðu náð að naga í hana suðaustanverða, en sáning og áburðargjöf náðu að stöðva eyðinguna. Grasið mun mynda jarðveg, en það mun síðan víkja fyrir staðbundnum plöntum. Hér er um að ræða mikilvægt samstarf Landgræðslu ríkisins og FERLIRs með það að markmiði að koma í veg fyrir frekari eyðingu hinna merku fornleifa í Húshólma. 

Merki þjóðminjavörslu landsins í Húshólma

Þær, sem í hólmanum eru, hafa verulega látið á sjá, svo mikið að það er einungis á færi mjög kunnugra að rekja garðana eins og þeir voru fyrrum. Ummerkin eru greinileg þeim er til þekkja. Í ferðinni var þátttakandi er rakti fyrrum dæmigerða ferð sína í Hólmann. “Ég fylgdi stígnum og kom inn í gróna svæðið, en síðan vissi í bara ekki hvert ég átti að fara. Ég reyndi að finna eitthvað áhugavert við hraunkantinn, en sá ekkert. Þá reikaði ég um svæðið, en það bætti ekki um betur. Loks ákvað ég að fara með hraunkantinum og kom þá að stíg út úr hólmanum. Honum fylgdi ég með ströndinni uns ég kom að hraunkantinum sömu megin og ég hafði áður komið inn í hann. Ég sá aldrei neitt af þessum merku minjum, sem þarna eiga að vera.”
Framangreind frásögn er dæmigerð fyrir ferðalanga í Húshólma. Langflestir finna aldrei neinar minjar í hólmanum – enda eru þær einungis merktar (utan sjónhendingar) með einni spýtu. Á henni stendur ekkert (en áður mun þar hafa verið merki Þjóðminjasafnsins um friðlýstar fornminjar). Einmana og eyðileg spýtan er táknrænt dæmi um áhugaleysi fornleifaverndaryfirvalda þessa lands á sínum merkilegustu söguminjum.

Vel hefur tekist að hefta jarðvegsrof í Húshólma

Þegar komið var að görðunum miklu í vestanverðum Húshólma var gengið eftir hluta þeirra; annars vegar er um að ræða langan bogadreginn garð utanverðan og hins vegar annan sveigðan innanverðan. Þvert á síðanefnda garðinn liggur annar í átt að hraunbrúninni. Norðan hans að vestanverðu er, að því er virðist hlaðið egglega gerði. Þar er um að ræða svonefnda Kirkjuflöt. Ekki er ólíklegt að ætla að þarna kunni að leynast forn grafreitur. Af hinum miklu görðum og öðrum mannvirkjum að dæma virðist þarna hafa verið fjölmenn byggð forðum. Hún teygir sig alla leið yfir í Óbrennishólma, rúmlega 1.0 km í norðvestri.
Gengið var eftir Kirkjustíg inn í Kirkjulág, þar sem tóftir hinnar fornu kirkju Krýsvíkinga stendur. Umleikis hana er bogadreginn garður og skálatóft vestan hennar. Norðan hennar er einnig bogadreginn garður. Vestan hans liggur Brúnavörðustígurinn til suðvesturs í gegnum hraunið, í átt að Brúnavörðunum, tveimur vörðum við sjónarrönd.
Gengið var um gróninga til norðurs og var þá komið að fornaldarskála, sem hraunið er rann 1151 hafði hlíft að öllu leyti. Grjótið í hleðslum er í bland sjávargrjót og holtagrjót. Þegar staðið er við skálann má vel sjá hvernig hin grunna vík (krys) hefur legið inn í landið neðan við tóftirnar, en hraunið síðan fyllt. Norðan skálatóftarinnar er önnur slík, nema hvað hraunið hafði runnið upp að henni og brennt svo veggir og þak féllu niður.
Skálatóft við Húshólma

Í gólfi tóftarinnar má þó enn sjá stoðholuförin eftir helming burðargrindarinnar. Þykktin á hrauninu í tóftinni er um 0.80 m. Umleikis eru hraunmyndanir er gætu einnig verið eftir slíkar brunahamfarir.
Ef allt væri með felldu á þessu svæði hefði bæði Þjóðminjasafnið og Fornleifavernd ríkisins gengið erinda tillögu Grindavíkurbæjar um staðbundna rannsókn á svæðinu. Líklegt er að sú rannsókn gæti gefið til kynna hvaða fólk hefði búið þarna og hvenær. Ekki er ólíklegt að niðurstaðan gæti og haft einhver áhrif á hina staðlaða upplýsingu Íslandssögunnar. (Kannski að vandinn liggi í því).

Ef tekið er mið af kvöðum Orkneyjabúa og Hjaleyinga um upphaf fornleifarannsókna, frágang og aðgengi almennings að slíkum stöðum er ólíku saman að jafna. Þar utan er gert ráð fyrir því í upphafi rannsókna að svæðin verði gerð aðgengileg almenningi með tilhlýtandi upplýsingum um niðurstöður o.fl. Hér á landi þarf að koma bæði hugarfarsbreytingu og öðrum verulegum breytingum hvað þetta varðar. Segja má að menntamálayfirvöld hafi sofið hér um langan tíma að feigðarósi. Gagnmerkra hugarfarsbreytinga er þörf í þessum efnum.
Forn tóft í ÓbrennishólmaGengið var til vesturs eftir Brúnavörðustíg. Þegar helluhraunshlutanum sleppti tók við úfið apalhraun. Stígurinn lá þó áfram inn í úfningana, handhunninn. Þarna voru að verki sonur Krýsuvíkur-Gvendar og fl. á árunum 1850-1870. Þeir fóru á milli Krýsuvíkur og Selatanga og þurftu greiðfæra götu. Ekki náðist þí að fullklára stíginn því hlutai af millikaflanum er enn ófrágengur. Hins vegar má með sanni segja að sá hluti stígsins, sem unninn hefur verið, hefur verið mikið þarfaverk – og nýtist fótgangandi enn þann dag í dag.
Þegar komið var að Brúnavörðunum, sem eru mið í Krýsuvíkur-Mælifell er blasir við víðast hvar úr Ögmundarhrauni og er reyndar helsta kennileiti vegfarenda um það, var haldið niðru fyrir hraunkantinn og síðan stígur á sléttu helluhrauni fetaður með honum til norðvesturs. Gatnamót götu að Miðrekum urðu á leiðinni, en skammt norðvestan hennar var vent til hægri inn í apalhraunið – eftir greiðfærum stíg inn í Óbrennishólma. Um tiltölulega stutt haft var að ræða. Óbrennishólmi er. líkt og Húshólmi, gróið hæðardrag í eldra hrauni, sem Ögmundarhraun hefur ekki náð að eyða. Efst á fremstu brún eru leifar mikillar fjárborgar eða virkis. Hið síðarnefnda er líklegra því borgin hefur staðið fremst ofan við sjávarbrúnina og verið nægilega stórt til að þar hafi íbúarnir getað varist ef óvini bar að höndum.
AForn garður í Óbrennishólmaustan við borgina, rétt utan við háan hraunkant, er gróin tóft, líklega af húsi. Svo til beint í norður af henni, fast við hraunkantinn ofanverðan, eru garðar, sem hraunið (frá 1151) stöðvaðist við. Líklega er hér um að ræða hluta af hinum miklu görðum, sem þarna voru. Skv. rannsóknum, sem gerðar hafa verið á garði í Húshólma benda niðurstöður til þess að mannvirkin hafi verið gerð áður en landnámsöskulagið lagðist þarna yfir.
Hvönn er farin að festa rætur í hólmunum.
Haldið var upp með háum hraunkanti og stefnan tekin á Mælifell. Í leiðinni kom í ljós hlaðið hringlaga gerði, en það hefur verið gert úr hraungrýtinu eftir að hraunið rann. Með því að feta hraunið í rólegheitum upp að vegi var fátt til trafala. Þegar upp fyrir þjóðveginn var komið var gengið eftir Ögmundarstíg til austurs, að upphafsreit.
Frábært veður. Gangan tók 4 klst og 24 mín. Gengnir voru 11 km.

Stoðhola