Færslur

Krýsuvíkurkirkja

Ný glæsileg Krýsuvíkurkirkja er nú komin á grunn sinn á Krýsuvíkurtorfunni þar sem eins kirkja var upphaflega byggð þar 1957.

Var kirkjan hífð á sinn stað rétt yfir kl. 11 laugardaginn 10. okt. 2020 í blíðskaparveðri og gekk hífingin eins og í sögu. Stóran krana þurfti til að hífa kirkjuna sem er 6,8 tonn að þyngd.

Krýsuvíkurkirkja

Flutningur á nýju kirkjunni gekk vel undir öruggri lögreglufylgd.

Þegar kirkjan var komin á sinn stað ávarpaði Jónatan Garðarsson, formaður Vinafélags Krýsuvíkurkirkju viðstadda og sr. Gunnþór Ingason var með stutta helgistund.

Ný Krýsuvíkurkirkja, sem verið hefur í smíðum um tíu ára skeið hjá nemendum trésmíðadeildar Tækniskólans í Hafnarfirði, var í vikunni hífð af jörðu og sett á dráttarvagn.

Kirkjan var síðan flutt með dráttarbifreið frá Hafnarfirði til Krýsuvíkur daginn áður en hún var híft á stæði gömlu kirkjunnar norðan Ræningjahóls.

Fyrri kirkja í Krýsuvík var byggð árið 1857 en brann til kaldra kola í eldsvoða af völdum íkveikju 2. janúar 2010. Strax í kjölfarið kom fram áhugi meðal stjórnenda Iðnskólans í Hafnarfirði, sem þá var, á að smíði nýrrar kirkju yrði verkefni trésmíðanema skólans. Hljómgrunnur var fyrir slíku og þar með komst málið á hreyfingu milli stjórnenda skólans og kirkjunnar fólks.

Nákvæmum fyrirmyndum hefur verið fylgt við smíði kirkjunnar, en starfsmenn Þjóðminjasafnsins tóku þá gömlu út mjög nákvæmlega árið 2003; mældu, mynduðu og skráðu. Hafa þær upplýsingar í raun gert þessa vandasömu smíði gerlega, en hún hefur tekið rúman áratug.

Kirkjan stóð við hlið Krýsuvíkurbæjarins en það sem eftir var af honum var jafnað við jörðu með jarðýtu um 1960 ásamt fleiri minjum.

Þann 25. febrúar 1964 samþykkti bæjarstjórn Hafnarfjarðar að afhenda Krýsuvíkurkirkju ásamt kirkjugarði og öðrum mannvirkjum tilheyrandi staðnum Hafnarfjarðarsókn til fullrar eignar og varðveislu, ásamt landspildu umhverfis kirkjuna, samtals 7.096 m² að stærð.

Krýsuvíkurkirkja

Krýsuvíkurkirkja híft á gamla kirkjustæðið.

Kirkjan, sem byggð var 1857 af Beinteini Stefánssyni smið, hafði þá verið í mjög lélegu ástandi, var þá endurbyggð og friðuð.

Hún var sóknarkirkja allt fram undir 1910 en aflögð 1917. Hún var notuð m.a. til íbúðar frá 1929.

Engir gamlir kirkjumunir hafa varðveist og innanstokksmunir af nýlegri og einfaldari gerð. Mjög var farið að sjá á kirkjunni um 1980, rúður brotnar og bárujárn ryðgað í gegn. Skátar í Skátafélaginu Hraunbúum, sem voru með mótssvæði sitt undir hlíðum Bæjarfells, gerðu við helstu skemmdir, lokuðu húsinu og máluðu kirkjuna en Þjóðminjasafn greiddi fyrir efni. Þá var svæðið allt girt af en áður hafði fé gengið frítt um kirkjugarðinn.

Krýsuvíkurkirkja

Nýja kirkjan komin á gamla kirkjustæðið.

Viðamiklar viðgerðir hófust svo 1986 og var kirkjan færð til upprunalegri gerðar. Var kirkjan vinsæll áningarstaður og fleiri þúsund komu í kirkjuna árlega og skrifuðu í gestabók sem þar var.

Stofnað var Vinafélag Krýsuvíkurkirkju árið 2010 með það að markmiði að byggja nýja kirkju í upprunalegri mynd en góðar teikningar voru til af kirkjunni. Þjóðminjasafnið gaf Vinafélaginu tryggingabætur fyrir kirkjuna til að kosta efni í endurbygginguna.

Byggingarfulltrúi samþykkti 11. ágúst sl. byggingarleyfi fyrir kirkjuna og Ríkiseignir, fyrir hönd ríkissjóðs, hafa óskað eftir að gefa aftur lóð Krýsuvíkurkirkju til Hafnarfjarðarkaupstaðar, 7.097 m² lóð.

Hafnarfjarðarkaupstaður mun gera lóðarleigusamning við Hafnarfjarðarkirkju um lóð umhverfis kirkjuna sambærilegan og gerður er við aðrar kirkjur þar sem sveitarfélag er eigandi.

Eftirfarandi helgistund undir handleiðslu séra Gunnþórs Þ. Ingasonar fór fram við Krýsuvíkurkirkju eftir að hún hafði verið hífð á grunn gömlu kirkjunnar:

Signing og bæn: „Í nafni Guðs, föður og sonar og heilags Anda, Amen. Himneski faðir, ver þínu húsi, nýsmíðaðri Krýsuvíkurkirkju í Anda þínum og verndarkrafti í Jésú nafni. Amen.“

Gunnþór Ingason

Séra Gunnþór Þ. Ingason í Krýsuvík.

Guðspjall: Matt; 5.1-10. Forn ísrk/keltnesk trúarjátning frá 7. öld: Um það bil 670 e. Kr. hóf ísrskur biskup að nafni Tírechán söfnun heimilda og frásagna af heilögum patreki í bók sína Collectanea (samsafn). Þar segir hann frá því að Patrekur hittir fyrir tvær dætur konungsins í Tara (hákonungs Íra) við uppsprettulind. Önnur þeirra spyr Patrek um Guð kristinna manna. Sem svar setur Tírechán fram eftirfarandi trúarskilgreiningu/trúarjátningu fyrir munn Patreks. Ekkert er vitað hvaðan hún er komin en hún ber augljós merki þess að hafa verið viðhöfð í liturgíunni, helgisiðum ískrar kristni:  „Guð er Guð allra manna, Guð himins og jarðar, Guð sjávar og fljóta. Guð sólar og tungls. Guð allra himneskra vera. Guð hárra fjalla, Guð lágra dala. Guð er himnum ofar og hann er í himninum og hann er undir himnunum. Himinn, jörð og haf og allt í þeim er honum bústaður. Hann andar á allt og feur öllu líf og er þó öllu ofar og undir öllu. Hann tendrar loga sólar, hann glæðir ljós nætur og stjarna. Uppsprettur býr hann til á þurru landi og eyjar í sjó. Og hann lætur stjörnur þjóna æðri ljósum. Hann á sér son sem á sér eilífð með honum og er líkur honum í hverri grein. Og hvorki er snonurinn yngri föðurnum né faðirinn eldri syninum og andi heilagur andar í þeim.
Faðir og Sonur og Heilagur Andi eru óaðskiljanlegir.“ [þýð. Gunnþór Þ. Ingason.]

Krýsuvíkurkirkja

Verkinu lokið.

Bæn: „Himneski faðir. Þökk fyrir nýsmíðaða Krýsuvíkurkirkju og að hún skuli vera komin á sitt helga kirkjustæði í Krýsuvík. Þökk fyrir hve vel hefur tekist að smíða hana og færa hana hingað og koma henni uðð á kirkjuhólinn á sinn rétta stað, þar sem fyrri kirkjur í Krýsuvík hafa löngum staðið. Þökk fyrir alla þá er komu að verkunum sem til þessa hefur leitt, Vinafélagi kirkjunnar sem hefur staðið fyrir þeim verkum, og Iðnskólanna og Tækniskólann, er sáu um kirkjusmíðina meðs ínu góða starfsliði, og aðra að auki sem liðsinnt hafa. Og nú biðjum við þig um að vernda kirkjuna, bægja hættum frá henni, blessa vígslu hennar og vernda og blessa kirkjuna á komanda tíð sem helgað Guðshús, sem verndað er og varðveitt af umhyggju og elsku þinni. Og blessa þú helgihald endurreistrar Krýsuvíkurkirkju og gildi hennar og vægi fyrir kristni og þjóðmenningu hér á landi og kristni í heimi í Jesú nafni. Faðir vor“…

Krýsuvíkurkirkja

Ný Krýsuvíkurkirkja kominn á systravettvang.

Keltnesk blessu:
Djúpur friður berist þér í bylgjuflæði,
friður í streymandi andblænum,
friður frá jarðarkyrrð,
friður frá skínandi himinsstjörnum,
djúpur friður frá friðarsyninum góða.
Blessun Guðs gefist þér og reynist.

Framangreind athöfn styrkir vantrúaða í þeirri vissu að „Guð“ er í eðli sínu myndlíking. Uppspretta hins eiginlega „guðs“ er að finna í náttúrunni; allt umleikis – frá upphafi lífs til loka þess. Allt líf dafnar og hrærist í henni og hún er óumflýjanlegur hluti af tilverunni. Krýsuvíkurkirkja verður í framtíðinni tákn staðfestu þess…

Hér má sjá nokkrar myndir af endurbyggingu Krýsuvíkurkirkju s.l. tíu ár sem og flutningi hennar á á gamla kirkjustæðið.

Heimildir m.a.:
-https://www.mbl.is/frettir/innlent/2020/10/08/krysuvikurkirkju_lyft_a_vorubilspall/ – 08.10.2020.
-https://www.fjardarfrettir.is/frettir/ny-krysuvikurkirkja-komin-i-krysuvik

Krýsuvíkurkirkja

Krýsuvíkurkirkja hífð á gamla kirkjustæðið.

Krýsuvíkurkirkja

Kristján Eldjárn skrifaði eftirfarandi í Kirkjuritið  1953 um Björn Jóhannesson og endurreisn Krýsuvíkurkirkju:
Bjorn johannessin-1„Hinn 22. nóv. 1964, andaðist Björn Jóhannesson fyrrv. forseti bæjarstjórnar Hafnarfjarðar, tæplega sjötugur að aldri. Allmörg undanfarin ár bafði hann dregið sig í hlé frá þeim félagsmálastörfum, sem setja svip sinn mest á ævidag hans, og olli því sjúkdómur sá, er nú hefur snögglega dregið hann til dauða. En Björn sat þó ekki auðum höndum þessi síðustu ár sín. Hann átti sér merkilegt hugðarmál, sem honum auðnaðist að koma heilu í höfn, áður en var allur allur, og sá minnisvarði mun að öllu skaplegu lengi standa brautu nær og lofa sinn mann. Meðal þeirra stórbýla landsins, sem breyttir þjóðfélagshættir hafa dæmt úr leik og dregizt hafa upp fyrir augunum á þessari kynslóð, er Krýsuvík í Gullbringusýslu. Húsin féllu hvert á fætur öðru og lífið fjaraði út, uns ekkert stóð nema gamla kirkjan og í henni hírðist lengi gamall maður, síðasti Krýsuvíkingurinn, og þrjózkaðist við að hlýða tímans kalli, unz þar kom, hann var ekki að spurður. Lauk þar með langri sögu, en eftir stóð kirkjan ein, opin og öndverð, illa til reika en traust að stofni til, og umhverfis hana lágar þústir yfir gröfum þeirra, sem í kirkjugarðinum hvíla. Fór þá eins og oft vill verða, að margir hneyksluðust og létu þung orð falla um niðurníðslu kirkjunnar, en sá var einn, sem sá og skildi, að lítið stoðar að tala og skrifa og ætla öðrum. Það var Björn Jóhannesson. Hann tók málið í sínar hendur og gerði það ekki endasleppt.
Hinn 18. maí 1954 skrifaði Björn bæjarráði Hafnarfjarðar og gerði grein fyrir, hvernig komið væri hag gömlu kirkjunnar í Krýsuvík, benti á hve illa þetta lágreista guðshús væri nú leikið, en sýndi um leið fram á, að það væri þó ekki ver farið en svo, að með dálitlu átaki mætti færa það í sitt upphaflega lag. Í bréfi sínu segir Björn meðal annars: „Það mun margur álíta, að rétt væri að rífa þetta gamla kirkjuskrifli og slétta kirkjugarðinn, en ég tel, að það væri mjög misráðið. Þetta eru þær einu minjar, sem eftir eru af gömlu Krýsuvík, og þá um leið þær merkustu, og ég tel, að komandi kynslóðir hefðu gott af því að fá innsýn í hina lágreistu sali fortíðarinnar og sjá, hvað forfeðurnir urðu að gera sér að góðu og urðu að mætum og dugandi mönnum samt. Eg álít, að við Íslendingar höfum verið allt of kærulausir með að viðhalda ýmsum gömlum minjum, og eftir því sem þeim fækkar, þurfum við að vera fastheldnari með þær og sjá um, að þær fari ekki forgörðum, venjulegast fyrir trassaskap og sinnuleysi. Hvað vildum við ekki nú gefa fyrir ýmislegt, sem eyðilagzt hefur af þessum sökum?
Krysuvikurkirkja 1964-21En um það tjáir ekki að tala, heldur að reyna að bjarga því, sem bjargað verður“. Síðan biður Björn um, að sér verði leyft að hefjast handa um viðgerð kirkjunnar og að eigandi Krýsuvíkur, Hafnarfjarðarbær, veiti sér umráðarétt yfir henni og kirkjugarðinum að minnsta kosti tíu ár, sem hann kveðst vilja nota til að gera við kirkjuna, bænum að kostnaðarlausu, en síðan muni hann afhenda bænum hana aftur eða fyrr, ef þannig semdist. Bæjarstjórn Hafnarfjarðar brást vel og viturlega við þessari málaleitan Björns og lét allt vera svo sem hann vildi. Tók hann þá til óspilltra málanna um endurbyggingu kirkjunnar og vann að því ötullega á næstu árum. Kostnaðinn af því bar hann að langmestu leyti sjálfur, en naut þó góðrar fyrirgreiðslu nokkurra manna, og ber þar um fram allt að nefna Sigurbent Gíslason í Hafnarfirði, sem tók að sér að gera við kirkjuna sjálfa. Sagði Björn, að án liðlegheita og ósérplægni Sigurbents hefði sér orðið óhægt um að koma viðgerð kirkjunnar í kring. Skal það sízt efað, svo erfitt sem það er á vorum veltitímum að fá nokkurn mann til þess að vinna að dútli eins og þessu.
síðastliðnu sumri, hinn 31. maí var svo Krýsuvíkurkirkja vígð af biskupi landsins að viðstöddum þeim mannfjölda, sem rúmast getur í hinu litla guðshúsi. Þetta var sérkennileg stund, kirkjuvígsla á eyðistað, en Björn Jóhannesson hafði þá trú, að kirkjan yrði ekki aðeins minjagripur, þegar fram líða stundir, heldur yrði hún aftur sóknarkirkja þeirra manna, sem í framtíðinni myndu setjast að í Krýsuvík, þegar aftur verða not fyrir þau náttúrugæði staðarins, sem enginn verður um sinn til að nytja. En hvað sem menn kunna að halda um þessa trú Björns, munu þó allir þeir, sem staddir voru í Krýsuvík þennan sumardag hafa verið sammála um, að hér var gott málefni til lykta leitt.
krysuvikurkirkja 1940-21Krýsuvíkurkirkja er ekki stór eða vegleg, enda byggð fyrr fámennan söfnuð í afskekktri sveit, og ekki er hún heldur mjög gömul, smíðuð 1857, vafalítið af Beinteini Stefánssyni, smið í Arnarfelli, afa Sigurbents Gíslasonar, en hún er eigi að síður sögulegur minnisvarði og þokkaleg í öllu sínu látleysi. Víst mun einhverjum hafa fundizt fátt um, þegar Björn fór að láta hressa við hið vanrækta hús á eyðistað. Það er gamla sagan. Þegar verkinu er lokið, gleymast úrtöluraddirnar og allir verða ánægðir. Þessi varð reynsla Björns Jóhannessonar. Hann hafði sett sér mark, að gera við Krýsuvíkurkirkju og búa hana um nauðsynjum á tíu árum. Nú var sá tími liðinn, enda var kirkjan hér, risin upp úr sinni niðurlægingu, og allir kepptust um að votta Birni virðingu sína og þakka framtak hans. Vígsludagur kirkjunnar var sigurdagur í lífi hans.
Endurreisn Krýsuvíkurkirkju var langt komið, þegar Björn Jóhannesson kom fyrst að máli við mig um málefni hennar fyrir nokkrum árum. Eftir það höfðum við töluvert samband okkar á milli, og ég fór alloft með honum til Krýsuvíkur. Sú var hugmynd hans, að réttast væri að fela Þjóðminjasafni Íslands framtíðarforsjá kirkjunnar, og  hreyfði hann því máli við bæjarstjórn Hafnarfjarðar. Kom þar, að bæjarstjórnin ákvað að fela safninu kirkjuna ásamt vænni landspildu umhverfis hana, en Björn gaf allt sem hann hafði til hennar lagt. Er gjafabréf bæjarstjórnar dagsett í Hafnarfirði hinn 18. september 1964, og síðan er Krýsuvíkurkirkja á  fornleifaskrá og eitt þeirra húsa, sem vernduð verða á vegum hins  opinbera sem menningarsögulegar byggingar.
Á fögrum haustdegi, hinn 19. september, vorum við Björn í síðasta sinni saman í Krýsuvík. Gerðum við þá úttekt á öllu, sem í kirkjunni er, en Björn afhenti mér skrá þar sem nákvæmlega er tilgreint hvað hver og einn hafði til hennar gefið, en flest af því er að vísu frá honum  sjálfum. Þarna var ekkert hálfverk á, og mikil var gleði Björns að sjá þetta mikla áhugamál sitt komið heilt í þá höfn, sem hann hafði dreymt um. Honum var það mikið gleðiefni að verða þess var, hve margir lögðu leið sína heim að kirkjunni, eftir að opnaður var hinn nýi Grindavíkurvegur, sem liggur hjá garði í Krýsuvík. Þótti honum það sem staðfesting þess, að kirkjan sem hann hafði reist úr rúst, ætti enn erindi við lífið og hann hefði barizt fyrir réttum mál stað. Hugði hann gott til að fylgjast með mannaferðum heim að Krýsuvík á komandi árum, ef þess yrði auðið. En hann vissi líka, að kallið gat komið snögglega, eins og nú er komið á daginn, og það var honum því fró og fullnæging að honum hafði auðnazt að ná settu marki, og hann var þakklátur öllum, sem höfðu stutt hann til þess á einhvern hátt.
Ókunnugt er mér hvað upphaflega kveikti áhuga Björns fyrir málstað Krýsuvíkurkirkju, því að ekki var hann bundinn staðnum tryggðaböndum ættar og uppruna. En fágætur var sá áhugi, sem hann sýndi þessu málefni, og sá kærleikur, sem hann lagði þar í hvert handtak, og af dæmi hans mætti mikinn lærdóm draga. En efst er mér í huga þakklæti til Björns fyrir hið merkilega framtak. Hann var í fyllsta skilningi björgunarmaður Krýsuvíkurkirkju, og það er honum að þakka, að land vort er þannig einu menningarsögulegu húsi ríkara. Þau eru fá, mannaverkin á hinni nýju Grindavíkurleið. Þeirra merkast er hin gamla kirkjan, og minning Björns mun lifa með henni.“

Eftirfarandi viðtal við Björn Jóhannesson um endurreisn Krýsuvíkurkirkju birtist í Vísi 1964:

Krýsuvíkurkirkja endurreist.
Bjorn johannesson-22Fyrir nokkrum dögum birtum við fregn um það, að maður nokkur hér í borg að nafni Björn Jóhannesson hefði ráðizt í það að endursmíða og endurreisa kirkjan í Krýsuvík. Menn spurðu hvað vekti fyrir honum með þessu. Verk hans var lofsamlegt, það geta þeir bezt borið um, sem komið hafa suður í Krýsuvík á sfðustu áratugum og séð, hvernig hið gamla kirkjuhús þar var útleikið, Í stuttu máli í hinni verstu niðurníðslu. En hins vegar finnst þar enginn söfnuður, til skamms tíma var þar allt í eyði, nú vinna þar örfáir Hafnfirðingar við gróðurhúsarækt.
Við skulum lofa honum sjálfum að svara þessu, eins og hann orðaði það við fréttamann Vísis er heimsótti hann að heimili hans, Snorrabraut 83.
— Ég vildi endurreisa Krýsuvíkurkirkju fyrir framtíðina sagði hann. Það má vera, að mönnum finnist einkennilegt að byrja á kirkjunni áður en söfnuðurinn er til. En Krýsuvík er framtíðarstaður, einn mesti framtíðarstaður á landinu. Að hinu væri fremur að finna, að áður en áratugur er liðinn verður þessi kirkja orðin of lítil fyrir söfnuðinn. Helzt hefði þurft að stækka hana um leið og hún var endurreist. Framtíðarmöguleikarnir í Krýsuvík eru geysilegir, bæði í jarðrækt og jarðhita.
— En hverjar voru hvatirnar til að takast þetta verk á hendur upp á eigin spýtur? — Ætterni? — Uppruni?
— Nei, ég er ekki ættaður úr Krýsuvík, heldur húnvetnskur, en fluttist kornungur til Hafnarfjarðar með foreldrum mínum. Faðir minn var Jóhannes Sveinsson, sem lengi var ökumaður, var með hestvagn í flutningum í Hafnarfirði og til Reykjavíkur. Ég var líka í slíkum flutningum fyrst í stað, síðan fór ég út í ýmislegt annað, meðal annars útgerð, starfaði lengi með Ásgeiri Stefánssyni. Einnig var ég kosinn í bæjarstjórn Hafnarfjarðar og þannig kynntist ég Krýsuvík, þegar Hafnarfjarðarbær keypti jörðina af Einari Benediktssyni. Hann var með jörðina á vegum einhvers ensks fyrirtækis, sem vann þar brennistein. Sjálfur hélt hann eftir Herdísarvík fyrir sig eins og allir þekkja.
— En nú eruð þér fluttur til Reykjavíkur
— Já, ég veiktist, og varð að draga mig út úr flestu, en þá fékk ég áhuga á Krýsuvíkurkirkju. Ég hafði engar sérstakar taugar til staðarins, en þegar ég kom í Krýsuvík og sá niðurlægingu þessa húss, sem áður hafði verið guðshús, sveið mér það og mig greip löngun til að bæta úr því. Ég skrifaði vinum mínum í bæjarstjórn Hafnarfjarðar og beiddist leyfis til að mega gera kirkjuna upp og það leyfi var auðfengið.

Gamalt höfuðból.
Krysuvik 1810-22Við sitjum inni í bókaherbergi Björns á Snorrabrautinni.
Hér eru raðir bóka með sögnum og þjóðlegum fróðleik með veggjum, sýnilegt að húsráðandi hér hefur hugleitt liðna tíma, starf og ættir forfeðranna lítur í gráa forneskju. Og hér nefur hann kynnt sér sögu Krýsuvíkur af ýmsum ritum. Talið berst fljótlega að fyrri tímabilum blómlegrar byggðar, þegar þar var höfuðbólið Krýsuvík og fjöldi minni bæja og kota, sumir bændurnir bláfátækir, aðrir gátu með gætni og hyggindum orðið bjargálna. Hér er lifað á fjárrækt, Krýsuvík var meðal stærstu og beztu sauðjarða á landinu, fjárgæzla þó erfið. Í Krýsuvíkurbjargi var jafnan auðug eggjataka og margir æfðir sigmenn í byggðarlaginu. Og svo var sjórinn stundaður frá Herdísarvík, sem tilheyrði Krýsuvík.
Síðasti stórbóndinn í Krýsuvík var Árni Gíslason áður sýslumaður á Kirkjubæjarklaustri, bróðir séra Skúla þjóðsagnasafnarans fræga á Breiðabólstað. Árni flutti til Krýsuvíkur úr Skaftafellssýslu og flutti þá með sér á annað þúsund fjár. Hann varð fyrir miklum skakkaföllum í byrjun búskapar í Krýsuvík, en náði sér þó aftur á strik. Hann andaðist rétt fyrir aldamótin. Þá voru mjög erfiðir tímar fyrir landbúnaðinn, fjársalan til Bretlands hætt og almennur vinnufólksflótti að sjávarsíðunni. Eftir það bar Krýsuvík aldrei sitt barr og niðurlæging staðarins hófst nokkru síðar, kringum 1930 lagðist hann að mestu í eyði, einangrunin hafin, enginn þjóðvegur fyrr en seinna, — þegar Krýsuvíkurvegur var lagður var það orðið of seint, allt komið í eyði. Síðast bjó einsetumaður í Krýsuvík, Magnús Ólafsson. Og híbýli hans voru einmitt gamla kirkjan. Þá var búið að rífa úr henni allt. kirkjubekki, predikunarstól, altari, sumir kirkjumunir teknir til geymslu, annað glatað.

Reist upphaflega fyrir 107 árum.
krysuvik 1910-22Og svo snýst talið að sjálfri kirkjunni. Í Krýsuvík hefur verið kirkja frá því um 1200. En þessi kirkjubygging er frá 1857 Þá voru um 70 manns í sókninni. Hún var þá útkirkja frá Selvogi. Hún var reist ur rekaviði, en jafnan hefur verið nokkur reki á Krýsuvíkurfjörum. Það var vandað til hennar. Við komumst að því segir Björn, að viðir hennar voru enn sterkir og ófúnir, gólfið var verst farið, grautfúið.
Þá er það hvaða prestar þjónuðu þessari kirkju, en hún var ýmist útkirkja frá Selvogi eða Grindavík. Fyrst er að telja Lárus Scheving í Selvogi 1800-70. Þá koma Grindavíkurprestar Kristján Eldjárn Þórarinsson 1871-1878 og Oddur Gíslason 1878-1880. Þá koma aftur Selvogsprestar Ólafur Ólafsson voru á næsta tímabili Brynjólfur Gunnarsson 1908-1910 og Brynjólfur Magnússon 1910 og þar til kirkjan var lögð niður í Krýsuvík 1929, enda allt að komast í auðn.

Í niðurníðslu.
Krysuvik 1923-22Síðast bjó einsetumaðurinn Magnús Ólafsson sem fyrr segir í gömlu kirkjunni. Þegar hann veiktist og var fluttur burt kringum stríðsbyrjun lá Krýsuvík eftir mannlaus. Þá varð niðurlæging kirkjunnar mest. Var þá ömurlegt að skoða hana, gluggar brotnuðu úr henni, dyrnar opnuðust og stórgripir leituðu sér skjóls inni í henni. Þannig stóð í nærri tvo áratugi. Hvarvetna hef ég mætt áhuga og góðvild til þessa starfs og rekizt á margar skemmtilegar tilviljanir. Bezt af öllu var að ég fékk í lið með mér afbragðs smið, Sigurbent Gíslason í Hafnarfirði. Svo skemmtilega vildi til að hann er einmitt dóttursonur smiðsins sem reisti kirkjuna 1857. Afi hans smiðurinn var Beinteinn Stefánsson, sem bjó undir Arnarfelli í Krýsuvík. Dóttir hans var Sigríður móðir Sigurbents.

Gamlir kirkjugripir.
Svo voru til nokkrir gamlir kirkjugripir Krýsuvíkurkirkju, sem teknir höfðu verið til varðveizlu 1929 og settir á Þjððminjasafnið þegar kirkjan var lögð niður. Þá er að nefna kirkjuklukkuna. Hún hafði verið flutt til Grindavíkur og var í kirkjunni þar. Ég var að vísu hálf kvíðinn að fara að nefna það við sóknarprestinn, en sá kvíði var ástæðulaus. Hann skildi það fullkomlega að  Krýsuvíkurkirkja ætti að fá sína gömlu klukku, því að rétt skal vera rétt. Svo fór ég til Grindavíkur og klukkan var tekin niður. Nú klingir hún yfir eyðibyggðinni í Krýsuvík. Aðra klukku fékk ég að gjöf hjá Fríkirkjusöfnuðinum í Hafnarfirði. Það var minni klukka, sem hafði verið skipsklukka og á henni stóð grafið heitið Enganes. Hún lá ónotuð hjá fríkirkjusöfnuðinum og þeir vissu ekki hvaðan hún var komin.

Enganes-klukkan.
En ég komst líka að því fyrir tilviljun. Ég var að endurlesa æviminningar Thor Jensen, sem Valtýr skrifaði og þar blasir þá við mér öll saga litlu klukkunnar, botnvörpuskipsins Engjaness, sem kom frá Englandi til Vídalíns-útgerðar í Hafnarfirði, en enski klukkusmiðurinn hafði misritað nafnið Enganes. Síðast strandaði Enganes í Grindavík haustið 1898. Og nú verður samhringt með Enganesklukkunni í Krýsuvík.
Þá hafði Krýsuvíkurkirkja átt gamla og mjög sérkennilega og fallega ljðsastjaka úr tini, sem munu vera frá miðri 17. öld. Þeir voru komnir á Þjóðminjasafnið, svo að ég lét gera afsteypu af þeim í kopar. Hins vegar lagði Þjóðminjasafnið til gamla altaristöflu af útlendri gerð af Kvöldmáltíðinni.
Þannig hefur Krýsuvíkurkirkja verið endurreist. Það var byrjað á kirkjunni, en ég er í engum vafa um það, að söfnuðurinn kemur á eftir, sagði Björn Jóhannesson að lokum.“

Sjá meira um Krýsuvíkurkirkju HÉR.

Heimild:
-Kirkjuritið, Kristján Eldjárn, Björn Jóhannesson og Krýsuvíkurkirkja, 31. árg. 1953, 1. tbl.,bls. 49-53.
-Vísir, 24. júní 1964, bls. 9 og 13.

Krýsuvíkurkirkja

Þann 2. janúar 2010 brann Krýsuvíkurkirkja til kaldra kola. Mörgum þótti mikill missir í þessari litlu Krysuvikurkirkja endurbyggd-1sveitakirkju enda hafði henni verið haldið sæmilega vel við síðustu ár. Aðeins nokkrum dögum eftir brunann, voru stofnuð samtökin Vinafélag Krýsuvíkurkirkju og ákveðið að kirkjan skyldi endurbyggð. Kennarar og nemendur við Iðnskólann í Hafnarfirði tóku verkið að sér. FERLIR heimsótti Iðnskólann til að sjá hvernig verkið gengi þar sem grindaruppbyggingin var langt komin framan við gamla Álhaldahús Hafnarfjarðarbæjar við Flatahraun.
Upprunalega kirkjan, sem brann, var byggð árið 1857. Kirkjuhúsið var bæði notuð fyrir helgihald og síðar búsetu. Um aldarmótin 1900 var hún orðin illa farin. Kirkjan var síðan afhelguð árið 1929, en búið í henni um tíma. Um 1960 var kirkjan svo lagfærð og endurvígð 1964.
Eftir brunann var stofnað VinaKrysuvikurkirkja endurbyggd-2félag Krýsuvíkurkirkju er hafði það m.a. að markmiði að endurgera kirkjuna á sínum stað. Nemendur við Iðnskólann í Hafnarfirði tók verkið af sér og endurbyggingin unnin í samstarfi við Þjóðminjasafnið, sem hafði umsjón með gömlu kirkjunni á meðan var og hét.
Krysuvikurkirkja endurbyggd-3Hrafnkell Marinósson er deildarstjóri byggingadeildar Iðnskólans. „Notast er að mestu leyti við handverkfæri. Engar skrúfur eru notaðar, ekkert lím heldur fyrst og fremst gamaldags samsetningar. Allt er gert á gamla mátann. Höggnar eru holur ogKrysuvikurkirkja endurbyggd-4 grópir gerðar. Notaðir eru trétappar og reynt að virða gamlar samsetningar. Verkið er m.a. unnið í samvinnu við Tækniskóla atvinnulífsins, t.d. varðandi flesta málningar-vinnu. Þetta er sérlega gott verkefni til að viðhalda gömlu handverki“.
Stefnt er að því að koma „nýju“ kirkjunni fyrir á grunni þeirrar gömlu í Krýsuvík n.k. sumar
.
Sjá meira um brunann 2010 HÉR.

Heimild:
http://dagskra.ruv.is/sjonvarpid/4565168/2011/03/27/1/

Krysuvik 1810

Krýsuvík 1810.

Krýsuvíkurkirkja

Eftirfarandi grein skrifaði Hrafnkell Ásgeirsson í Morgunblaðið eftir að hafa setið messu í Krýsuvíkurkirkju árið 2000. Innihaldið gefur ágætar upplýsingar af sögu svæðisins. Á fyrri hluta tuttugustu aldar lagðist kirkjusókn í Krýsuvík niður og var kirkjan afhelguð á árinu 1929. Hrafnkell Ásgeirsson segir hér frá messu í Krýsuvíkurkirkju.

Hrafnkell

„Á HVÍTASUNNUDAG, 11. júní sl., sóttum við hjónin messu í Krýsuvíkurkirkju. Hér var um að ræða upphaf árþúsundaverkefnis Hafnarfjarðarbæjar. Prestur var síra Gunnþór Ingason, prestur í Hafnarfjarðarkirkju.
Presturinn skýrði frá því að skv. ákvörðun þjóðminjavarðar hefði verið fest upp mynd í kirkjunni af Birni Jóhannessyni, velgjörðarmanni kirkjunnar, eins og komið verður að hér á eftir og hengd yrði upp eftir vetrarsetu altaristafla, máluð af Sveini heitnum Björnssyni, listmálara og rannsóknarlögreglumanni í Hafnarfirði. Þá hefði kirkjunni verið afhent frá móðurkirkjunni í Hafnarfirði biblía, skrautrituð af Ingólfi P. Steinssyni, tengdasyni Björns Jóhannessonar.
Kirkjan var þéttsetin enda ekki stór. Þegar ég leit yfir hópinn gerði ég mér grein fyrir að stór hluti kirkjugesta voru afkomendur síðustu ábúenda í Stóra-Nýjabæ í Krýsuvík, hjónanna Kristínar Bjarnadóttur og Guðmundar Jónssonar. Þau voru mikið dugnaðarfólk, eignuðust 18 börn, eitt lést í æsku en öll hin 17 komust til manns. Eiginmaðurinn tók sjálfur á móti mörgum barnanna í fæðingu enda ekki um marga íbúa að ræða í sveitinni. Þegar þau brugðu búi á fyrri hluta síðustu aldar fluttust þau til Hafnarfjarðar og flest barna þeirra fluttust einnig til Hafnarfjarðar.
Stori-NyibaerÁ mínum yngri árum vann ég með nokkrum sona þeirra hjóna í fiski. Þetta voru dugnaðarmenn sem höfðu frá ýmsu að segja. Ég var í barnaskóla og Flensborg með nokkrum barnabörnum þeirra hjóna og þetta var hörkunámsfólk.
Kirkjan var byggð árið 1857, smiður var Beinteinn Stefánsson, afi Sigurbents heitins Gíslasonar, byggingarmeistara í Hafnarfirði, sem bjó lengst af við Suðurgötuna, en sá endurbyggði kirkjuna. Á fyrri hluta tuttugustu aldar lagðist kirkjusókn í Krýsuvík niður og var kirkjan afhelguð á árinu 1929.
Þegar ég sat í kirkjunni kom mér í hug að eftir afhelgun kirkjunnar notaði Magnús Ólafsson í Hafnarfirði, faðir byggingarmeistaranna Ólafs og Þorvarðar Magnússona, kirkjuhúsið sem íverustað. Ekki var þar mikið rými fyrir sex manna fjölskyldu.
Krysuvikurkirkja-3Björn Jóhannesson, bæjarfulltrúi og forseti bæjarstjórnar, var mikill hugsjónamaður. Hann helgaði líf sitt verkalýðs- og bæjarmálum í Hafnarfirði. Hann hafði næmt auga fyrir því sem ekki mátti farga og var reiðubúinn að leggja sinn skerf fjárhagslega til þess þótt hann hafi aldrei verið neinn efnamaður.
Ég nefni þar aðeins tvö dæmi: Varða hafði lengi staðið á Ásfjalli og sást hún vel frá Hafnarfirði. Einhverra hluta vegna hafði varðan fallið. Beitti hann sér fyrir því að smala saman hópi manna til þess að leggja fram fé til að endurhlaða vörðuna og fékk síðan hagleiksmann til verksins. Björn sagði að það vantaði stórt í ásýnd bæjarins þegar varðan væri ekki til staðar.
Á sjötta áratug síðustu aldar fékk Björn heimild bæjaryfirvalda í Hafnarfirði til þess að endurbyggja kirkjuna í Krýsuvík en Krýsuvík var þá orðin eign Hafnarfjarðarbæjar. Kostaði hann sjálfur endurbyggingu hennar og réð smiðinn Sigurbent Gíslason, mikinn völundarsmið, til verksins.
Krysuvikurkirkja-6Fórst Sigurbent verkið vel úr hendi eins og vænta mátti. Kirkjan var síðan endurvígð 31. maí 1964 af þáverandi biskupi, Sigurbirni Einarssyni, að viðstöddu fjölmenni og var þá um leið afhent þjóðminjaverði til varðveislu.
Að lokinni messu neyttu kirkjugestir súpu í Krýsuvíkurskóla þar sem nú er unnið merkt og fórnfúst starf.
Vinnustofa Sveins heitins Björnssonar listmálara í Krýsuvík var þennan dag opnuð almenningi. Kirkjugestir skoðuðu vinnustofu Sveins undir leiðsögn sona hans. Sveinn lést árið 1997 og var grafinn í kirkjugarðinum í Krýsuvík.
Það var friðsæl og hátíðleg stund á hvítasunnudag í kirkjunni í Krýsuvík.“

Heimild:
-Hrafnkell Ásgeirsson, mbl.is, Laugardaginn 1. júlí, 2000.

Krýsuvíkurkirkja

Krýsuvíkurkirkja endurgerð.

Krýsuvíkurkirkja

Krýsuvíkurkirkja brann til kaldra kola í nótt [02.01.2010]. Slökkvilið Grindavíkur var kallað út laust eftir klukkan tvö í nótt.
Krýsuvíkurkirkja á afmælinuÁsmundur Jónsson, slökkviliðsstjóri í Grindavík, sagði að útkallið hafi komið frá Neyðarlínunni kl. 02:04 og að einn bíll hafi verið sendur á vettvang. Leiðin úr Grindavík í Krýsuvík er ekki auðfarin á þessum árstíma og var slökkviliðið um hálftíma að Krýsuvíkurkirkju.
Þegar slökkviliðsmennirnir komu á vettvang var kirkjan fallin og gátu þeir ekki gert annað en að slökkva í glæðunum. Fenginn var tankbíll með vatn frá Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins í Hafnarfirði.
Ekkert rafmagn er á staðnum og ekki er vitað um eldsupptök. Nokkuð ljóst þykir að aðeins komi þar tvennt til greina: Íkveikja eða mannleg mistök. Lögreglan mun rannsaka eldsupptökin í dag.
Krýsuvíkurkirkja eftir brunanAltaristafla Sveins Björnssonar listmálara prýddi kirkjuna að sumarlagi. Hún bjargaðist enda geymd í Hafnarfjarðarkirkju yfir veturinn.
„Þetta er skelfilegt. Það er eina orðið sem ég á yfir þetta,“ sagði séra Þórhallur Heimisson, sóknarprestur í Hafnarfjarðarkirkju. Krýsuvíkurkirkja er í Hafnarfjarðarprestakalli. „Það var dýrgripur sem var þarna í Krýsuvík, einstök kirkja og gríðarlega mikið heimsótt.“
Í kirkjunni var gestabók og þúsundir gesta skrifuðu nöfn sín í hana á hverju ári. Þegar messað var í kirkjunni var hún alltaf setin til þrengsla og fjöldi fólks utandyra, að sögn Þórhalls. Hann sagði marga hafa borið vinarhug til gömlu kirkjunnar í Krýsuvík. Missir hennar sé því mikið áfall.
Leiði Sveins BjörnssonarÞórhallur sagði að altaristafla Sveins Björnssonar, sem hann málaði sérstaklega fyrir kirkjuna, hafi bjargast.  Venjan var að messa í Krýsuvíkurkirkju í lok september ár hvert. Eftir þá messu var altaristaflan tekin niður og geymd ásamt öðrum lausum kirkjugripum í Hafnarfjarðarkirkju yfir veturinn.
Krýsuvíkurkirkja var byggð árið 1857, fyrir 153 árum, og endurbyggð og endurvígð árið 1964. Kirkjan var í vörslu þjóðminjavarðar.
Krýsuvíkurkirkja var reist árið 1857 og var í umsjá Þjóðminjavarðar. Hún var aflögð fyrri hluta síðustu aldar og endurbyggð og endurvígð árið 1964. 

Krýsuvíkurkirkja á 150 ára afmælinu

Gunnþór Ingason er sérþjónustuprestur á sviði þjóðmenningar og helgihalds og hefur verið umsjónarmaður Krýsuvíkurkirkju sem helgidóms. Hann segir kirkjuna vera merka fyrir látleysi sitt. Hún hafi sögulegt gildi og bera helgihaldi fyrri tíðar vitni. Upphaf messuhalds í kirkjunni má rekja til jarðarfarar Sveins Björnssonar listmálara fyrir rúmum áratug, en hann hafi látið sig kirkjuna miklu varða. Sú hefð hefur skapast að hengja altaristöflu eftir hann í kirkjunni á vorin en taka hana niður á haustin. Altaristaflan og aðrir helgigripir hafi því ekki verið í í kirkjunni þegar hún brann.
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu rannsakar brunann. Varðstjóri lögreglunnar segir ekkert hægt að segja um tildrög eldsvoðans á þessari stundu. Ekki sé hægt að útiloka íkveikju.
150 ára afmælis kirkjunnar var minnst með hátíðarmessu árið 2007. Matthías Johannessen orti ljóð sérstaklega fyrir 150 ára afmælið og Atli Heimir Sveinsson tónskáld samdi tónverk við ljóðið.
Kirkjan„Menn eru í áfalli vegna þess að við upplifum þetta sem árás á varnarlaust lítið barn,“ segir Þórhallur Heimisson prestur í Hafnarfirði um Krýsuvíkurkirkju sem brann í nótt. Kirkjan heyrði undir Hafnarfjarðar-prestkall og segir Þórhallur hafa messað þar tvisvar á ári. Kirkjan var fjölsótt bæði af Íslendingum og erlendum ferðamönnum. Þórhallur segist hafa talað við slökkvilið og lögreglu um brunann.“
Um eldsupptök er ekki vitað. Sumir telja að þau megi rekja til þess að skemmtanahald meðal álfa hafi farið úr böndunum á nýársnótt, en að sögn lögreglunnar er líklegt að kviknað hafi út frá kerti eða kertum. Sjónarvottur, sem kom í kirkjuna daginn áður, tók eftir tveimur kertum á altarinu. Þar var og gestabókin.
Líklegt má telja að einhver eða einhverjir, sem komu í kirkjuna á nýársdag eða nýársdagkvöld, hafi kveikt á kertunum, hugsanlega til að skrifa í gestabókina, og síðan farið óviljandi án þess að slökkva logana. Eldsupptökin virðast hafa orðið austast í kirkjunni þar sem altarið var.
Þjóðminjavarslan mun án efa íhuga að láta af endurbyggingu kirkjunnar á þessum stað. Með því getur hún sparað einhverja aura. Aðrir vilja að kirkja verði byggð að nýju í Krýsuvík og mun það væntanlega ganga eftir.
Sjá meira um Krýsuvíkurkirkju HÉR, HÉR, HÉR og HÉR.

Heimild:
http://www.mbl.is/mm/frettir/innlent/2010/01/02/krysuvikurkirkja_brann_i_nott/
http://www.ruv.is/heim/frettir/frett/store64/item319188/
http://www.dv.is/frettir/2010/1/2/kirkjubruninn-menn-eru-i-afalli/

Krýsuvíkurkirkja

Gengið var um svæðið í kringum Krýsuvíkurkirkju og tóftir bæjanna Snorrakots, Norðurkots, Lækjar, Suðurkots og Hnausa skoðaðar. Krýsuvíkurkirkja á sér langa sögu. Athyglinni var því einkum beint að kirkjunni að þessu sinni, sögu hennar að fornu og nýju. Til hliðsjónar var lýsing Ólafs Þorvaldssonar er hann ritaði í jólablað Alþýðublaðs Hafnarfjarðar árið 1961. Í henni segir hann m.a.

Ólafur Þorvaldsson

Ólafur Þorvaldsson.

“Eftir öllum líkum mun óhætt að segja, að kirkja hafi verið í Krýsuvík í átta til níu aldir. Ég held, að sögu Krýsuvíkurkirkju sé þannig farið, að erfitt sé að rekja hana, í það minnsta fyrstu aldirnar, svo öruggt samhengi fáist. Ég held, að margur myndi hnjóta um það spursmál, hvar fyrsta kirkja Krýsuvíkur hafi verið reist, hvenær, og hver hana lét gera. Við þessum spurningum höfum við hvergi getað fengið fullnægjandi svar.
Í Landnámabók Ara Þorgilssonar segir svo: “Þórir haustmyrkur nam Selvog og Krýsuvík.” Einar Arnórsson prófessor telur líklegt, að Þórir haustmyrkur hafi komið nokkuð seint út. Fyrir þessu færir hann þau helst rökum að “Súgandi”, þriðji maður frá Þóri, ætti að vera uppi um 1000.
Landnám Þóris er því að nokkru í Gullbringusýslu, en sýslumörkin telja, að kirkjan hafi ekki löngu eftir kristnitöku verið byggð í Krýsuvík. Yfir hinu mun hvíla algjör óvissa, svo sem fyrr er á minnst, hvar og af hverjum sú kirkja var byggð.
Elsta heimild, sem mér er kunn um kirkju í Krýsuvík er, að um 1200 er hennar getið í kirknaskrá Páls biskups. Kirkjan er talin Maríukirkja, og á heimaland allt, ásamt Herdísarvík og níu mæla lands á Þorkötlustöðum, auk ítaka.
Eftir það er Krýsuvíkurkirkju getið í ýmsum máldögum allt fram undir 1600. Flestir máldagarnir fjalla um eignir kirkjunnar fastar og lausar, ítök o.fl., og ber víðast fátt á milli, utan þá orðalag. Á tíma þeim, sem máldagarnir ná yfir, hefur lausafé kirkjunnar ekki ávallt verið það sama, munir gengið úr sér, og stundum aðrir komið í þeirra stað, lifandi peningi fækkað, þar til horfinn var með öllu, og segja má, að svo hafi farið um flesta muni kirkjunnar.

Krýsuvíkurkirkja

Krýsuvíkurkirkja.

Allt bendir til, að Krýsuvíkurkirkja hafi aldrei rík verið af lausafé. Hitt mun helur mega telja, að fram eftir öldum hafi hún eftir öllum bréfum að dæma mátt teljast allveg á vegi stödd í föstum eignum, þar sem hún hefur átt allt land sóknarinnar, byggt og óbyggt, og meira þó, það er hún átti einnig Herdísarvíkina, bestu verstöð í Selvogi, landríka vildisjörð, og lágu lönd saman. Auk þessa ýmis ítök.
Hitt er ljóst, bæði af íslenskum heimildum svo og ferðabókum erlendra, sem um landið reistu og til Krýsuvíkur fóru, flestir til athugunar jarðhita og brennisteini, að meðal sóknarmanna hafi þar oftar ríkt fátækt en auður, jafnvel svo, að til landauðnar dró á tímabili. Ég skal nefna hér eitt dæmi þessu til stuðnings. Árið 1553-’54 telur Marteinn biskup “kirkju þar góða, – en enginn bær er þá í sókninni”. Eitthvað hefur þetta ömurlega hlutskipti þess byggðarlags varðað, því að með bréfi 27. sept. 1563 leggur Páll Stígsson hirðstjóri, í samráði við Gísla Jónsson biskup í Skálholti, niður sóknarkirkju í Krýsuvík, og leggist hún og eitt kot “sem þar er hjá”, til Strandarkirkju í Selvogi. Þó skal í Krýsuvík standa lítið húskorn, Guðs vegna og þess heimilisfólks, sem þar kann að vera sjúkt eða gamalt. “Og herra Gísli skyldi nokkur kúgildi til leggja, svo að Guðs orðs þénari mætti þar hvíld nætursakir hafa, þá hann þar kæmi eða þyrfti þar að koma guðlegrar hjarðar að vitja.”
Krýsuvíkurkirkja virðist þó standa eftir sem áður. Árni Magnússon telur hana útkirkju frá Strönd. Svo er og í kirkjuskrá 1748, og enn í prestakallaskipunarlögum frá 1880.

Krýsuvíkurkirkja

Krýsuvíkurkirkja.

Með prestakallalögum 1907 er Krýsuvíkursókn lögð ti Staðarprestakalls í Grindavík. Loks er með stjórnarráðsbréfi 21. október 1929 Krýsuvíkurkirkja lögð niður og sóknin sameinuð Grindavík (Stjt. 1929 B. 305).
Með þessari síðustu ráðstöfun mætti ætla, að lokið væri sögu Krýsuvíkurkirkju hinnar fornu. Þó má segja enn sem fyrr, að kirkjan stendur eftir sem áður, – en mennirnir viðurkenna hana ekki lengur. – Ég fæ ekki betur séð en við þetta yfirgefna hús, sem einu sinni var guði vígt, hafi komið fram hinn sami “huldi verndarkraftur”, sem Jónas kveður um í Gunnarshólma, um “hólmann, þar sem Gunnar sneri aftur”, og forðaði því frá að afmást með öllu, svo enginn sæi þess lengur stað.
Það má segja, að frá 1563-1929 hafi Krýsuvíkurkirkjusókn verið í útlegð, eða í 366 ár. Í 344 ár var hún á vist hjá Strandarkirkju í Árnessýslu og í tuttugu og tvö ár hjá Staðarkirkju í Grindavík, þ.e. frá 1907-1929. Það ár er kirkja lögð niður í Krýsuvík. Eftir það eiga Krýsvíkingar kirkjusókn til Grindavíkur. Löng kirkjugata það.

Krýsuvíkurkirkja

Krýsuvíkurkirkja.

Árið 1929, þegar kirkjan var lögð niður, eru þrjár fjölskyldur í sókninni, ein mannmörg, tvær miðlungi stórar. Þá mun hafa verið búið að ákveða vegarlagningu um Krýsuvík, ef hún hefur ekki þegar verið hafin.
Og vegurinn kom. Með veginum kom fólkið og nokkrar framkvæmdir, þótt eitthvað af þeim hafi farið nokkuð á annan veg en skyldi, – en þetta kemur í hendi, sagði karlinn.
Svo fóru gömlu Krýsvíkingarnir alfarnir. Flestir fóru þeir eftir hinum aldagömlu slóðum, sem þeir höfðu farið margir alla ævina, aðrir skemur. Svo kom nýtt fólk eftir nýja veginum, sumir til búsetu, aðrir sem farfuglar. Það var því enn komið fólk í hina fornu Krýsuvíkursókn, – en “kirkja fyrirfinnst engin á staðnum”.
Eftir að síðasti ábúandinn var fluttur veikur burt frá Krýsuvík og átti þangað ekki afturkvæmt, var lokið allri umhirðu um hina fornu kirkju, er hann hafði búið í mörg síðustu árin þar. Það beið heldur ekki lengi, þar til þar fyrirfannst hvorki gluggi né hurð. Hurðarleysið kom sér líka betur fyrir þá hjörð, sem þá tók að sækja þetta forna guðshús. Þar inni fann skjól í hrakviðrum fjöldi nautgripa og hesta, er þarna voru til hagagöngu á sumrin.
Flestir, sem þarna voru kunnugir, töldu víst, að um þetta forna, vanhirta hús færi þá og þá sömu leiðina sem önnur hús staðarins, það hryndi í rúst eða fyki burt. Nei, hin forna, yfirgefna kirkja fauk hvorki né hrundi. Hún stóð af sér öll stórvirði og alla “hverakippi”.

Magnús Ólafsson

Magnús Ólafsson.

Hún bara beið, beið eftir sveini, er leysti hana úr böndum. Og sveinninn kom. Fyrir hans tilverknað stendur í dag á hlaði hinnar fornu stórjarðar fegurra hús en þar hefur áður staðið og bíður þess að vígjast í kirkju eða kapellu Krýsuvíkursóknar.
Vonandi bíður þess húss aldrei önnur eins niðurlæging sem hinnar síðustu kirkju staðarins.
Þessi síðasta Krýsuvíkurkirkja, sem hér um ræðir, mun að öllum líkindum vera fyrsta kirkja þar, er byggð var úr timbri einu saman. Þessi kirkja var byggð 1857. Síðan er henni getið í mörgum prófastavisitasíum og ávallt nefnd “timburhús”. Í biskupsvísitasíu árið 1875 er Krýsuvíkurkirkju lýst allnákvæmlega. Þar kvartar biskup yfir, að ekki hafi þá verið gert við galla þá, sem á kirkjunni hafi verið við síðustu vísitasíu hans. Sér í lagi er það ytri klæðning á þaki, sem sé orðin léleg og þurfi endurnýjunar við. Telja má fullvíst að aðalsmiður hafi verið Beinteinn Stefánsson bóndi að Arnarfelli í Krýsuvík, og má heita skemmtileg tilviljun, að dóttursonur hans var til þess að gera nú upp hina gömlu kirkju af nákvæmni og hagleik, sem þeim frændum hefur báðum verið í blóð borinn.”
Staldrað var við hjá leiði Sveins Björnssonar, málara og yfirlögregluþjóns í Hafnarfirði, en hann var síðastur grafinn í kirkjugarðinum í Krýsuvík.

Krýsuvíkurkirkja

Krýsuvíkurkirkja var reist árið 1857, en lögð af sem sóknarkirkja 1929, notuð till íbúðar, endurbyggð og síðan endurvígð 1964. Hún tilheyrir nú Hafnarfjarðarprestakalli í Kjalarnesprófastsdæmi.
Kirkjan er varðveitt af þjóðminjaverði. Þegar Krýsuvíkurbærinn, hið merka stórbýli um aldir, var orðinn svo hrörlegur á fyrri hluta 20. aldar að ekki var lengur hægt að hafast við í honum, flutti ábúandinn í kirkjuna. Hún var afhelguð og notuð sem bústaður um tíma. Þangað komu margir á ferðum sínum um Krýsuvík og nutu skjólsins þótt stundum væri vistin köld á vetrum. Ofn var þá í kirkjunni og var hann kyntur duglega, en kulnaði á milli.
Kirkjan er dæmi um einfalda sveitakirkju frá síðari hluta 19. aldar.
Krýsuvík er nú í eigu Hafnarfjarðarbæjar. Krýsuvík fór endanlega í eyði eftir 1950. Stórbýlið Krýsuvík hafði um tíma 14 hjáleigur, enda jarðgæði mikil áður en uppblástur tók að herja. Víða í Krýsuvík má sjá búsetuminjar, allt frá Selöldu í suðri að Kleifarvatni í norðri, Seljabót í austri og Selatöngum í vestri.
Sveinn Björnsson, listamaður og lögreglumaður, hafði vinnustofu í Krýsuvík. Þegar hann andaðist 28.04.1997, sjötíu og tveggja ára, var hann jarðaður í Krýsuvíkurkirkjugarði 9. maí. Þá hafði ekki verið jarðsett í garðinum síðan 1917.

Krýsuvíkurkirkja

Í tilefni af 150 ára afmæli Krýsuvíkurkirkju var haldin messa í kirkjunni á hvítasunnudag 27. maí 2007. Prestur var Gunnþór Ingason. Jafnframt var minnst 10. dánarártíðar Sveins Björnssonar, fyrrv. yfirlögregluþjóns í Hafnarfirði, sem síðastur manna var jarðsettur í kirkjugarðinum í Krýsuvík.
Krýsuvíkurkirkja 27. maí 2007Jónatan Garðason og Þór Magnússon tóku saman ágrip af sögu Krýsuvíkurkirkju. Birtist það í bæklingi, sem gefinn var út í tilefni tímamótanna. Í honum er saga kirkna í Krýsuvík m.a. rakin: „Talið er að bændakirkja hafi risið í Krýsuvík á fyrstu áratugum eftir kristnitöku. Örnefnið Kirkjulág í Húshólma og munnmæli gefa vísbendingu um að þar hafi staðið kirkja áður en Ögmundarhraun rann um miðja 12. öld. Krýsuvíkurkirkju er getið í kirknaskrá Páls biskups Jónssonar um 1200, en hún kemur einnig fyrir í broti úr máldaga sem varðveist hefur frá 1275. Þá var kirkjan helguð Maríu mey. Árnaannáll sem Árni Helgason biskup setti 1307 er efnislega samhljóða hinum fyrri um eignarhald og ítök í hlunnindum en lausafjár kikrjunnar er að engu getið. Krýsuvík var sérstakt prestakall og kirkjulén og var hálfkirkjunni í Herdísarvík þjónað þaðan. Krýsuvíkurkirklja átti í löndum alla heimajörðina Krýsuvík, alla Herdísarvík, níu mæla land á Þórkötlustöðum í Grindavík og fjórðung jarðarinnar Vatnsleysu á Vatnsleysuströnd. Hún átti umtalsverð ítök í hvalreka og viðreka í Selvogi, auk búfénaðar.
Krýsuvík var beneficium fram til 1563 er prestakallið var lagt niður þó prestar og kapellánar sætu staðinn lengieftir það. Selvogsprestar áttu um langan veg að fara til messu í Krýsuvík því milli Strandarkirkju og Krýsuvíkur er hálf þingmannaleið. Messað var þriðja hvern sunnudag á sumrin, en fjórða hvern á veturna, samkvæmt sýslu- og sóknarlýsingu séra Jóns Vestmann frá 1843. Krýsuvík var hKrýsuvíkurkirkja 1810öfuðból í kaþólskri tíð og hagur staðarins fór þverrandi eftir siðarskipti, einkum eftir að jörðin komst í bændaeign 1787.
Skoski vísindamaðurinn Sir George Steuart
Mackenzle kom til Krýsuvíkur 1810 ásamt Richard Bright og Henry Holland, sem lýstu staðháttum í dagbók sinni: „Þetta er ömurlegur staður, sex eða átta kofar standa þar á víð og dreif á ósléttu svæði við rætur á starkri hæð. Stolt og prjál staðarins er timburkirkja…“. Þegar inn í kirkjuna kom barst þeim óþefur af hertum fiski og eftirfarandi sjón: „Gólfið var svo óslétt, að við hefðum naumast getað skorðað tjaldsængina okkar þar, og ofan á allt annað var svo hið litla gólfrými fyllt með kössum, timbri og alls konar skrani. Predrikunarstóllinn í þessari einstöku byggingu Krýsuvíkurkirkja 1887stendur undir annarri hliðinni, og snýr gegnt kirkjudyrum. En svo lágt er undir loftið yfir honum, að presturinn verður annaðhvort að sitja eða krjúpa eða vera kengboginn, meðan hann flytur ræðu sína.“ [Mynd, sem dregin var upp af Krýsuvíkurkirkju og nágrenni þetta sama á, sýnir afstöðu hennar og bæjarins. Fremst á myndinni er Ræningjadysin, sem síðar fór undir þjóðvegsstæðið].
Hálfri öld síðar var kirkjan úr sér gengin og ákveðið að byggja nýtt guðshús. Beinteini Stefánssyni hjáleigubónda í Krýsuvík var falið að annast smíðina. Hann hófst strax handa við að safna veglegum rekatrjám og vinna þau í stoðir og borðvið. Hann vandaði til verksins og byggði nýja kirkju af slíkum hagleik að hún stendur enn 150 árum eftir að hún var vígð. Kirkjan hefur að vísu verið endurbyggða að stórum hluta, en burðarvirkið og lögun hússins er verk Beinteins. Krýsuvíkurkirkja þjónaði söfnuðinum til 1929 en þá var hún aflögð sem helgidómur og rúin öllum verðmætum.
Krýsuvíkurkirkja 1887Nokkru eftir afhelgunina fékk Magnús Ólafsson fjárbóndi í Krýsuvík mág sinn til að breyta kirkjunni í gripa- og íbúðarhús. Magnús bjó í kirkjunni til 1945 er hann flutti til fjölskyldu sinnar í Hafnarfirði vegna heilsuleysir. [Loftur Jónsson í Grindavík var einn þeirra manna er heimsótti Magnús í kirkjuna. Sagðist hann vel muna að rúmfletinu í suðaustuhorninu]. Fljótlega eftir að síðasti íbúi gömlu byggðarinnar undir Bæjarfelli flutti burt grotnaði húsið niður. Björm Jóhannesson, forseti bæjarstjórnar og formaður Krýsuvíkurnefndar, vildi byggja kirkjuna upp á eigin kostnað og réð Sigurbent Gíslason til að stjórna endursmíðinni. Sigurbent var dóttursonur Beinteins kirkjusmiðs og nánast sjálfkjörinn til verksins. Björn vildi tryggja verndun kirkjunnar til frambúðar og fékk samþykki bæjarstjórnar til að fela þjóðminjaverði umsjón hennar.
Krýsuvíkurkirkja 1964Herra Sigurbjörn Einarsson biskup og séra Garðar Þorsteinsson sóknarprestur í Hafnarfirði önnuðust endurvígslu Krýsuvíkurkirkju 31. maí 1964 og við sama tækifæri var hún færð Þjóðminjasafninu til varðveislu. Gömul altaristafla frá Þjóðminjasafninu var hengd upp fyrir athöfnina, kirkjan fékk kirkjuklukku og tvo altaristjaka að gjöf sem steyptir voru eftir gömlum stjökum. Ljósahjálmur og vegglampar sem Sigurbent Gíslason gaf kirkjunni voru einnig hengdir upp. Björn hafði lokið ætlunarverki sínu er hann andaðist 22. nóv. 1964 sáttur við guð og menn. Nokkru seinna hurfu kirkjugripirnir en altaristöflunni var komið fyrir í geymslu. (Skv. óstaðfestum upplýsingum munu áhafnameðlimir á Suðurnesjabát hafa tekið gripina í brýaríi og tekið þá með sér í siglingu til Þýskland þar sem gripirnir voru seldir lægstbjóðanda. Þessir menn eru enn á lífi svo ekki er of seint fyrir þá að iðrast og bæta fyrir gjörðir sínar – enda hafa þeir vel efni á því).
Kirkjan  var látin afskiptalaus um árabil en þegar kom fram á miðjan níunda áratug 20. aldar var ástand hennar mjög bágborðið. [Hér ber að hafa í huga að forstöðumenn og vinnuskólanemar í Krýsuvík á sjöunda áratugnum gættu Á 150 ára afmæli Krýsuvíkurkirkju - Þór Magnússon. f.v. þjóðminjavörður fremstkirkjunnar mjög  vel og fóru m.a. reglulega að henni til að sjá til þess að þar væru engu raskað. Auk þess fylgdust Hafnarfjarðarskátar reglulega með kirkjunni og hlúðu að henni eftir föngum]. Gluggar voru [síðar] brotnir, hurðin ónýt og veruleg hætta á að kirkjan yrði eyðileggingu að bráð. Sveinn Björnsson listmálari hafði um árabil haft vinnustofu í bústjórahúsinu í Krýsuvík. Hann kom reglulega við í Krýsuvíkurkirkju og rann til rifja ástand hússins. Fyrir hans tilstilli var hafist handa við að mæla kirkjuna upp og undirbúa endurbætur á henni.“
Hér ber að bæta við að hvorki Þjóðminjasafnið né Hafnarfjarðarbær hafa sýnt Krýsuvíkurkirkju viðhlítandi skilning. Einstaklingar hafa jafnan gætt kirkjunnar og staðið vörð um heill hennar. Peningar og hagræðing hafa verið hennar helsti óvinur í gegnum aldirnar – líkt og verið hefur undanfarna áratugi.
Fumkennd viðbrögð við ástæðulausum hættum hafa jafnan skemmt heildarmynd kirjunnar. Svo mun einnig verða um sinn. Krýsuvíkurkirkja er hins vegar miðlægt tákn um kjarnabyggð í íslensku samfélagi, líkt og verið hefur allt frá upphafi búsetu hér á landi – að vísu í annarri mynd fyrstu aldirnar, en síðan óraskað í u.þ.b. 1007 ár. Er það ekki a.m.k. einnar viðurkenningar virði? Kirkjan, í sínu náttúrulegasta umhverfi, hefur verið mörgum mikilvægt skjól – einnig þegar hún hafði verið afhelguð. Háreistar kirkjubyggingar og skrauti hlaðnar virðast ekki ná slíkri skírskotun til fólks sem einfaldleiki lágreisnarinnar í Krýsuvík. Hvar var kirkjumálaráðherrann á þessum þjóðlegu tímamótum?“

Krýsuvík

Í tilefni af 150 ára afmæli Krýsuvíkurkirkju var haldin messa í kirkjunni á hvítasunnudag 27. maí 2007. Prestur var Gunnþór Ingason. Jafnframt var minnst 10. dánarártíðar Sveins Björnssonar, fyrrv. yfirlögregluþjóns í Hafnarfirði, sem síðastur manna var jarðsettur í kirkjugarðinum í Krýsuvík.
Krýsuvíkurkirkja 27. maí 2007Jónatan Garðason og Þór Magnússon tóku saman ágrip af sögu Krýsuvíkurkirkju. Birtist það í bæklingi, sem gefinn var út í tilefni tímamótanna. Í honum er saga kirkna í Krýsuvík m.a. rakin: „Talið er að bændakirkja hafi risið í Krýsuvík á fyrstu áratugum eftir kristnitöku. Örnefnið Kirkjulág í Húshólma og munnmæli gefa vísbendingu um að þar hafi staðið kirkja áður en Ögmundarhraun rann um miðja 12. öld. Krýsuvíkurkirkju er getið í kirknaskrá Páls biskups Jónssonar um 1200, en hún kemur einnig fyrir í broti úr máldaga sem varðveist hefur frá 1275. Þá var kirkjan helguð Maríu mey. Árnaannáll sem Árni Helgason biskup setti 1307 er efnislega samhljóða hinum fyrri um eignarhald og ítök í hlunnindum en lausafjár kikrjunnar er að engu getið. Krýsuvík var sérstakt prestakall og kirkjulén og var hálfkirkjunni í Herdísarvík þjónað þaðan. Krýsuvíkurkirklja átti í löndum alla heimajörðina Krýsuvík, alla Herdísarvík, níu mæla land á Þórkötlustöðum í Grindavík og fjórðung jarðarinnar Vatnsleysu á Vatnsleysuströnd. Hún átti umtalsverð ítök í hvalreka og viðreka í Selvogi, auk búfénaðar.
Krýsuvík var beneficium fram til 1563 er prestakallið var lagt niður þó prestar og kapellánar sætu staðinn lengieftir það. Selvogsprestar áttu um langan veg að fara til messu í Krýsuvík því milli Strandarkirkju og Krýsuvíkur er hálf þingmannaleið. Messað var þriðja hvern sunnudag á sumrin, en fjórða hvern á veturna, samkvæmt sýslu- og sóknarlýsingu séra Jóns Vestmann frá 1843. Krýsuvík var höfuðból í kaþólskri tíð og hagur staðarins fór þverrandi eftir siðarskipti, einkum eftir að jörðin komst í bændaeign 1787.

Krýsuvíkurkirkja 1810

Skoski vísindamaðurinn Scott McKenzie kom til Krýsuvíkur 1810 ásamt Richard og Henru Holland, sem lýstu staðháttum í dagbók sinni: „Þetta er ömurlegur staður, sex eða átta kofar standa þar á víð og dreif á ósléttu svæði við rætur á starkri hæð. Stolt og prjál staðarins er timburkirkja…“. Þegar inn í kirkjuna kom barst þeim óþefur af hertum fiski og eftirfarandi sjón: „Gólfið var svo óslétt, að við hefðum naumast getað skorðað tjaldsængina okkar þar, og ofan á allt annað var svo hið litla gólfrými fyllt með kössum, timbri og alls konar skrani. Predrikunarstóllinn í þessari einstöku byggingu Krýsuvíkurkirkja 1887stendur undir annarri hliðinni, og snýr gegnt kirkjudyrum. En svo lágt er undir loftið yfir honum, að presturinn verður annaðhvort að sitja eða krjúpa eða vera kengboginn, meðan hann flytur ræðu sína.“ [Mynd, sem dregin var upp af Krýsuvíkurkirkju og nágrenni þetta sama á, sýnir afstöðu hennar og bæjarins. Fremst á myndinni er Ræningjadysin, sem síðar fór undir þjóðvegsstæðið].
Hálfri öld síðar var kirkjan úr sér gengin og ákveðið að byggja nýtt guðshús. Beinteini Stefánssyni hjáleigubónda í Krýsuvík var falið að annast smíðina. Hann hófst strax handa við að safna veglegum rekatrjám og vinna þau í stoðir og borðvið. Hann vandaði til verksins og byggði nýja kirkju af slíkum hagleik að hún stendur enn 150 árum eftir að hún var vígð. Kirkjan hefur að vísu verið endurbyggða að stórum hluta, en burðarvirkið og lögun hússins er verk Beinteins. Krýsuvíkurkirkja þjónaði söfnuðinum til 1929 en þá var hún aflögð sem helgidómur og rúin öllum verðmætum.
Krýsuvíkurkirkja 1887Nokkru eftir afhelgunina fékk Magnús Ólafsson fjárbóndi í Krýsuvík mág sinn til að breyta kirkjunni í gripa- og íbúðarhús. Magnús bjó í kirkjunni til 1945 er hann flutti til fjölskyldu sinnar í Hafnarfirði vegna heilsuleysir. [Loftur Jónsson í Grindavík var einn þeirra manna er heimsótti Magnús í kirkjuna. Sagðist hann vel muna að rúmfletinu í suðaustuhorninu]. Fljótlega eftir að síðasti íbúi gömlu byggðarinnar undir Bæjarfelli flutti burt grotnaði húsið niður. Björm Jóhannesson, forseti bæjarstjórnar og formaður Krýsuvíkurnefndar, vildi byggja kirkjuna upp á eigin kostnað og réð Sigurbent Gíslason til að stjórna endursmíðinni. Sigurbent var dóttursonur Beinteins kirkjusmiðs og nánast sjálfkjörinn til verksins. Björn vildi tryggja verndun kirkjunnar til frambúðar og fékk samþykki bæjarstjórnar til að fela þjóðminjaverði umsjón hennar.
Krýsuvíkurkirkja 1964Herra Sigurbjörn Einarsson biskup og séra Garðar Þorsteinsson sóknarprestur í Hafnarfirði önnuðust endurvígslu Krýsuvíkurkirkju 31. maí 1964 og við sama tækifæri var hún færð Þjóðminjasafninu til varðveislu. Gömul altaristafla frá Þjóðminjasafninu var hengd upp fyrir athöfnina, kirkjan fékk kirkjuklukku og tvo altaristjaka að gjöf sem steyptir voru eftir gömlum stjökum. Ljósahjálmur og vegglampar sem Sigurbent Gíslason gaf kirkjunni voru einnig hengdir upp. Björn hafði lokið ætlunarverki sínu er hann andaðist 22. nóv. 1964 sáttur við guð og menn. Nokkru seinna hurfu kirkjugripirnir en altaristöflunni var komið fyrir í geymslu. (Skv. óstaðfestum upplýsingum munu áhafnameðlimir á Suðurnesjabát hafa tekið gripina í brýaríi og tekið þá með sér í siglingu til Þýskland þar sem gripirnir voru seldir lægstbjóðanda. Þessir menn eru enn á lífi svo ekki er of seint fyrir þá að iðrast og bæta fyrir gjörðir sínar – enda hafa þeir vel efni á því).
Kirkjan  var látin afskiptalaus um árabil en þegar kom fram á miðjan níunda áratug 20. aldar var ástand hennar mjög bágborðið. [Hér ber að hafa í huga að forstöðumenn og vinnuskólanemar í Krýsuvík á sjöunda áratugnum gættu Á 150 ára afmæli Krýsuvíkurkirkju - Þór Magnússon. f.v. þjóðminjavörður fremstkirkjunnar mjög  vel og fóru m.a. reglulega að henni til að sjá til þess að þar væru engu raskað. Auk þess fylgdust Hafnarfjarðarskátar reglulega með kirkjunni og hlúðu að henni eftir föngum]. Gluggar voru [síðar] brotnir, hurðin ónýt og veruleg hætta á að kirkjan yrði eyðileggingu að bráð. Sveinn Björnsson listmálari hafði um árabil haft vinnustofu í bústjórahúsinu í Krýsuvík. Hann kom reglulega við í Krýsuvíkurkirkju og rann til rifja ástand hússins. Fyrir hans tilstilli var hafist handa við að mæla kirkjuna upp og undirbúa endurbætur á henni.“
Hér ber að bæta við að hvorki Þjóðminjasafnið né Hafnarfjarðarbær hafa sýnt Krýsuvíkurkirkju viðhlítandi skilning. Einstaklingar hafa jafnan gætt kirkjunnar og staðið vörð um heill hennar. Peningar og hagræðing hafa verið hennar helsti óvinur í gegnum aldirnar – líkt og verið hefur undanfarna áratugi.
Fumkennd viðbrögð við ástæðulausum hættum hafa jafnan skemmt heildarmynd kirjunnar. Svo mun einnig verða um sinn. Krýsuvíkurkirkja er hins vegar miðlægt tákn um kjarnabyggð í íslensku samfélagi, líkt og verið hefur allt frá upphafi búsetu hér á landi – að vísu í annarri mynd fyrstu aldirnar, en síðan óraskað í u.þ.b. 1007 ár. Er það ekki a.m.k. einnar viðurkenningar virði? Kirkjan, í sínu náttúrulegasta umhverfi, hefur verið mörgum mikilvægt skjól – einnig þegar hún hafði verið afhelguð. Háreistar kirkjubyggingar og skrauti hlaðnar virðast ekki ná slíkri skírskotun til fólks sem einfaldleiki lágreisnarinnar í Krýsuvík. Hvar var kirkjumálaráðherrann á þessum þjóðlegu tímamótum?“
Sjá meira HÉR.

Krýsuvíkurkirkja

Krýsuvíkurkirkja.

 

Krýsuvík

 Gengið var um svæðið í kringum Krýsuvíkurkirkju og tóftir bæjanna Snorrakots, Norðurkots, Lækjar, Suðurkots og Hnausa skoðaðar. Krýsuvíkurkirkja á sér langa sögu. Athyglinni var því einkum beint að kirkjunni að þessu sinni, sögu hennar að fornu og nýju. Til hliðsjónar var lýsing Ólafs Þorvaldssonar er hann ritaði í jólablað Alþýðublaðs Hafnarfjarðar árið 1961. Í henni segir hann m.a.

Ólafur Þorvaldsson

Ólafur Þorvaldsson.

“Eftir öllum líkum mun óhætt að segja, að kirkja hafi verið í Krýsuvík í átta til níu aldir. Ég held, að sögu Krýsuvíkurkirkju sé þannig farið, að erfitt sé að rekja hana, í það minnsta fyrstu aldirnar, svo öruggt samhengi fáist. Ég held, að margur myndi hnjóta um það spursmál, hvar fyrsta kirkja Krýsuvíkur hafi verið reist, hvenær, og hver hana lét gera. Við þessum spurningum höfum við hvergi getað fengið fullnægjandi svar.
Í Landnámabók Ara Þorgilssonar segir svo: “Þórir haustmyrkur nam Selvog og Krýsuvík.” Einar Arnórsson prófessor telur líklegt, að Þórir haustmyrkur hafi komið nokkuð seint út. Fyrir þessu færir hann þau helst rökum að “Súgandi”, þriðji maður frá Þóri, ætti að vera uppi um 1000.
Landnám Þóris er því að nokkru í Gullbringusýslu, en sýslumörkin telja, að kirkjan hafi ekki löngu eftir kristnitöku verið byggð í Krýsuvík. Yfir hinu mun hvíla algjör óvissa, svo sem fyrr er á minnst, hvar og af hverjum sú kirkja var byggð.
Elsta heimild, sem mér er kunn um kirkju í Krýsuvík er, að um 1200 er hennar getið í kirknaskrá Páls biskups. Kirkjan er talin Maríukirkja, og á heimaland allt, ásamt Herdísarvík og níu mæla lands á Þorkötlustöðum, auk ítaka.
Eftir það er Krýsuvíkurkirkju getið í ýmsum máldögum allt fram undir 1600. Flestir máldagarnir fjalla um eignir kirkjunnar fastar og lausar, ítök o.fl., og ber víðast fátt á milli, utan þá orðalag. Á tíma þeim, sem máldagarnir ná yfir, hefur lausafé kirkjunnar ekki ávallt verið það sama, munir gengið úr sér, og stundum aðrir komið í þeirra stað, lifandi peningi fækkað, þar til horfinn var með öllu, og segja má, að svo hafi farið um flesta muni kirkjunnar.
Allt bendir til, að Krýsuvíkurkirkja hafi aldrei rík verið af lausafé. Hitt mun helur mega telja, að fram eftir öldum hafi hún eftir öllum bréfum að dæma mátt teljast allveg á vegi stödd í föstum eignum, þar sem hún hefur átt allt land sóknarinnar, byggt og óbyggt, og meira þó, það er hún átti einnig Herdísarvíkina, bestu verstöð í Selvogi, landríka vildisjörð, og lágu lönd saman. Auk þessa ýmis ítök.

Krýsuvíkurkirkja

Krýsuvíkurkirkja.

Hitt er ljóst, bæði af íslenskum heimildum svo og ferðabókum erlendra, sem um landið reistu og til Krýsuvíkur fóru, flestir til athugunar jarðhita og brennisteini, að meðal sóknarmanna hafi þar oftar ríkt fátækt en auður, jafnvel svo, að til landauðnar dró á tímabili. Ég skal nefna hér eitt dæmi þessu til stuðnings. Árið 1553-’54 telur Marteinn biskup “kirkju þar góða, – en enginn bær er þá í sókninni”. Eitthvað hefur þetta ömurlega hlutskipti þess byggðarlags varðað, því að með bréfi 27. Sept. 1563 leggur Páll Stígsson hirðstjóri, í samráði við Gísla Jónsson biskup í Skálholti, niður sóknarkirkju í Krýsuvík, og leggist hún og eitt kot “sem þar er hjá”, til Strandarkirkju í Selvogi. Þó skal í Krýsuvík standa lítið húskorn, Guðs vegna og þess heimilisfólks, sem þar kann að vera sjúkt eða gamalt. “Og herra Gísli skyldi nokkur kúgildi til leggja, svo að Guðs orðs þénari mætti þar hvíld nætursakir hafa, þá hann þar kæmi eða þyrfti þar að koma guðlegrar hjarðar að vitja.”
Krýsuvíkurkirkja virðist þó standa eftir sem áður. Árni Magnússon telur hana útkirkju frá Strönd. Svo er og í kirkjuskrá 1748, og enn í prestakallaskipunarlögum frá 1880.
Með prestakallalögum 1907 er Krýsuvíkursókn lögð ti Staðarprestakalls í Grindavík. Loks er með stjórnarráðsbréfi 21. október 1929 Krýsuvíkurkirkja lögð niður og sóknin sameinuð Grindavík (Stjt. 1929 B. 305).
Með þessari síðustu ráðstöfun mætti ætla, að lokið væri sögu Krýsuvíkurkirkju hinnar fornu. Þó má segja enn sem fyrr, að kirkjan stendur eftir sem áður, – en mennirnir viðurkenna hana ekki lengur. – Ég fæ ekki betur séð en við þetta yfirgefna hús, sem einu sinni var guði vígt, hafi komið fram hinn sami “huldi verndarkraftur”, sem Jónas kveður um í Gunnarshólma, um “hólmann, þar sem Gunnar sneri aftur”, og forðaði því frá að afmást með öllu, svo enginn sæi þess lengur stað.

Krýsuvíkurkirkja.

Krýsuvíkurkirkja.

Það má segja, að frá 1563-1929 hafi Krýsuvíkurkirkjusókn verið í útlegð, eða í 366 ár. Í 344 ár var hún á vist hjá Strandarkirkju í Árnessýslu og í tuttugu og tvö ár hjá Staðarkirkju í Grindavík, þ.e. frá 1907-1929. Það ár er kirkja lögð niður í Krýsuvík. Eftir það eiga Krýsvíkingar kirkjusókn til Grindavíkur. Löng kirkjugata það.
Árið 1929, þegar kirkjan var lögð niður, eru þrjár fjölskyldur í sókninni, ein mannmörg, tvær miðlungi stórar. Þá mun hafa verið búið að ákveða vegarlagningu um Krýsuvík, ef hún hefur ekki þegar verið hafin.
Og vegurinn kom. Með veginum kom fólkið og nokkrar framkvæmdir, þótt eitthvað af þeim hafi farið nokkuð á annan veg en skyldi, – en þetta kemur í hendi, sagði karlinn.
Svo fóru gömlu Krýsvíkingarnir alfarnir. Flestir fóru þeir eftir hinum aldagömlu slóðum, sem þeir höfðu farið margir alla ævina, aðrir skemur. Svo kom nýtt fólk eftir nýja veginum, sumir til búsetu, aðrir sem farfuglar. Það var því enn komið fólk í hina fornu Krýsuvíkursókn, – en “kirkja fyrirfinnst engin á staðnum”.
Eftir að síðasti ábúandinn var fluttur veikur burt frá Krýsuvík og átti þangað ekki afturkvæmt, var lokið allri umhirðu um hina fornu kirkju, er hann hafði búið í mörg síðustu árin þar. Það beið heldur ekki lengi, þar til þar fyrirfannst hvorki gluggi né hurð. Hurðarleysið kom sér líka betur fyrir þá hjörð, sem þá tók að sækja þetta forna guðshús. Þar inni fann skjól í hrakviðrum fjöldi nautgripa og hesta, er þarna voru til hagagöngu á sumrin.
Flestir, sem þarna voru kunnugir, töldu víst, að um þetta forna, vanhirta hús færi þá og þá sömu leiðina sem önnur hús staðarins, það hryndi í rúst eða fyki burt. Nei, hin forna, yfirgefna kirkja fauk hvorki né hrundi. Hún stóð af sér öll stórvirði og alla “hverakippi”.

Krýsuvíkurkirkja

Krýsuvíkurkirkja.

Hún bara beið, beið eftir sveini, er leysti hana úr böndum. Og sveinninn kom. Fyrir hans tilverknað stendur í dag á hlaði hinnar fornu stórjarðar fegurra hús en þar hefur áður staðið og bíður þess að vígjast í kirkju eða kapellu Krýsuvíkursóknar.
Vonandi bíður þess húss aldrei önnur eins niðurlæging sem hinnar síðustu kirkju staðarins.
Þessi síðasta Krýsuvíkurkirkja, sem hér um ræðir, mun að öllum líkindum vera fyrsta kirkja þar, er byggð var úr timbri einu saman. Þessi kirkja var byggð 1857. Síðan er henni getið í mörgum prófastavisitasíum og ávallt nefnd “timburhús”. Í biskupsvísitasíu árið 1875 er Krýsuvíkurkirkju lýst allnákvæmlega. Þar kvartar biskup yfir, að ekki hafi þá verið gert við galla þá, sem á kirkjunni hafi verið við síðustu vísitasíu hans. Sér í lagi er það ytri klæðning á þaki, sem sé orðin léleg og þurfi endurnýjunar við. Telja má fullvíst að aðalsmiður hafi verið Beinteinn Stefánsson bóndi að Arnarfelli í Krýsuvík, og má heita skemmtileg tilviljun, að dóttursonur hans var til þess að gera nú upp hina gömlu kirkju af nákvæmni og hagleik, sem þeim frændum hefur báðum verið í blóð borinn.”
Staldrað var við hjá leiði Sveins Björnssonar, málara og yfirlögregluþjóns í Hafnarfirði, en hann var síðastur grafinn í kirkjugarðinum í Krýsuvík.
Frábært veður. Gangan tók 1 klst og 11 mín.

Krýsuvík

Krýsuvík – uppdráttur ÓSÁ.

Portfolio Items