Eyjólfur Sæmundsson skrifaði þrjár greinar í Fjarðarpóstinn árið 1998 undir fyrirsögninni “Krýsuvík – náttúrperla og orkusjóður“:
Eyjólfur Sæmundsson
“Að undanförnu hefur orðið vart aukins áhuga Hafnfirðinga á Krýsuvík. Þessi víðáttumesta jörð í landnámi Ingólfs er að hluta í eigu Hafnfirðinga, en að hluta er eignarhaldið umdeilt og standa málaferli fyrír dyrum til að skera úr umþað. Sumir bæjarbúar þekkja Krýsuvík og eiga jafnvel uppruna sinn að rekja þangað. Aðrir hafa gengið þar um fornar þjóðbrautir eða hrjóstruga og víða hrikalega náttúruna sem er svo fjölbreytileg að undrum sætir. Þangað hafa menn sótt kraft og innblástur til sköpunar, svo sem Sveinn Björnsson listmálari sem þar hafði vinnustofu. Enn aðrir sjá fyrir sér nýtingu jarðvarmans og telja hann geta orðið auðsuppsprettu Hafnfirðinga.
En þeir eru líka fjölmargir sem lítið vita um Krýsuvík og þekkja ekki þá náttúruperlu, nema e.t.v. hina gjósandi borholu í Seltúni. Upplýsingar eru heldur ekki á lausu og full þörf á að bæta þar úr. Eyjólfur Sæmundsson hefur verið tengiliður bæjarins við Hitaveitu Reykjavíkur, m.a. varðandi hitaréttindin í Krýsuvík, en er auk þess áhugamaður um allt er varðar staðinn. Hann mun skrifa greinaflokk hér í blaðið til þess að upplýsa bæjarbúa um þessa náttúruparadís og kraumandi orkulind.
Inngangur
Kvöldsýn frá Grindaskörðum, ystu mörkum Krýsuvíkur í norðri.
Í þessum greinarflokki mun ég leitast við að gera lesendum nokkra grein fyrir málefnum Krýsuvíkur, landamerkjum jarðarinnar, tildrögum þessi að hún komst í eigu Hafnfirðinga, jarðhita sem þar er að finna og álitamálum sem uppi eru um eignarhald á landinu. Sögu og náttúrufari verða gerð nokkur skil, en það væri efni í langan greinaflokk eitt og sér ef vel ætti að vera.
Krýsuvíkurtorfan
Krýsuvíkurtorfan – kort; ÓSÁ
Þegar rætt er um Krýsuvík eða Krýsuvíkurland í dag er í raun átt við land jarðanna Krýsuvíkur og Stóra-Nýjabæjar og er það stundum nefnt Krýsuvíkurtorfan. Auk þessara jarða sem töldust eiga landið voru þarna allmörg kot, Norðurkot, Suðurkot, Snorrakot, Litli-Nýibær, Lækur, Fitjar, Arnarfell o.fl. voru á svæðinu umhverfis Bæjarfell og Arnarfell. Vigdísarvellir eru aftur á móti á milli Sveifluháls og Vesturháls og þar held ég að tvö kot hafi verið um skeið. Útræði var fram á síðustu öld frá Selatöngum sem eru austasti hluti Ögmundarhrauns þar sem það fellur í sjó fram. Þar eru miklar og merkar minjar sem friðlýstar hafa verið, en vert væri að gefa meiri gaum.
Víðátta og fjölbreytni
Skálatóft í Húshólma í Gömlu-Krýsuvík.
Landsvæðið er gríðarstórt eða rúmlega 200 ferkílómetrar sem jafngildir 20.000 hekturum. Það nær frá Brennisteinsfjöllum í austri að Höskuldarvöllum í vestri og frá sjó í suðri að Vatnsskarði í norðri. Landslagið er ótrúlega fjölbreytilegt, eldfjöll, stöðuvötn, Krýsuvíkurbjarg sem er mesta fuglabjarg utan Vestfjarðakjálkans, framræstar mýrar, sprengigýgar, rennislétt helluhraun, úfin og illfær apalhraun, móbergshryggir, ófærar gjár, hellar, formfagrir eldgígar, litfögur hverasvæði og svo mætti lengi telja. Fáar jarðir á Íslandi, ef nokkrar, eru jafn fjölbreytilegar hvað varðar jarðræði og landmótun. Það er helst gróðurleysið og hin hrjóstruga ásýnd sem kann að virka fráhrindandi á suma. Vitað er að gróður var mun meiri á svæðinu fyrr á tímum og landið er illa farið af ágangi búfjár og manna. Enn beita Grindvíkingar fé sínu á svæðið þó vonandi hilli nú undir endalok þess.
Krýsuvík 1923.
Jarðvegurinn er öskublandinn og mjög viðkvæmur. Nýlokið er könnun á ástandi gróðurfars og ljóst að mikið verk þarf að vinna við endurheimt landgæða.
Hraunstraumur fyllir víkina Byggðin sem lýst var að framan er ekki hin upprunalega Krýsuvík. Reyndar er ekki sjáanleg nein vík á ströndinni í dag sem landsvæðið gæti dregið nafn af. Líklegt er að hin upphaflega Krýsuvík hafi fyllst af hrauni þegar Ögmundarhraun rann árið 1151 (síðari ártöl hafa verið nefnd en þau koma ekki heim og saman við geislakolsmælingu á aldri hraunsins). Kapelluhraun rann í sjó fram í Straumsvík, hinum megin á nesinu um sama leyti, sennilega í sama gosi eða goshrinu.
Á hólma sem stendur upp úr Ögmundarhrauni má greina bæjarrústir sem að hluta fóru undir hraunið og nefnist hann Húshólmi. Líklegast er að þarna hafi hin gamla Krýsuvík staðið en hún lagst af í gosinu og íbúarnir fært sig ofar í landið. Þjóðsagan skýrir nafn Krýsuvíkur með frásögninni af tröllskessunum Krýsu og Herdísi sem heima áttu í víkunum og elduðu grátt silfur.
Stóri-Nýibær í Krýsuvík.
Landnám og þróun byggðar
Byggð hefur verið í Krýsuvík frá landnámsöld, en hún var innan landnáms Ingólfs Arnarsonar. Í Landnámu segir frá því að Þórir haustmyrkur nam land í Herdísarvík og Krýsuvík og að Heggur sonur hans bjó að Vogi (Selvogi). Því er freistandi að álykta að Þórir hafi sjálfur búið í Krýsuvík. Lítið er vitað um sögu byggðarinnar gegn um aldirnar. Skipst hafa á skin og skúrir í mannlífinu þar sem annars staðar og mannfjöldi sveiflast upp og niður. Við manntalið 1801 voru 39 í Krýsuvíkursókn og er þá aðeins búið á jörðunum tveim og þremur kotum. Ekki er þá byggð á Vigdísarvöllum.
Í fróðlegu viðtali í Lesbók Morgunblaðsins, sem Árni Óla átti við Guðmund árið 1932 segir svo: Hlunnindi eru lítil, trjáreki er þó nokkur og eggja- og fuglatekja í Krýsuvíkurbjargi, en síga verður eftir hverju eggi og hverjum fugli. Í Geststaðavatni, sem er þar uppi í heiðinni, er dálítil silungsveiði. Var silungur fluttur þangað fyrir mörgum árum, að ráði Bjarna Sæmundssonar, og hefur hann þrifist þar vel. Það hefði einhverntíma verið kallað gott bú hjá bóndanum í Nýjabæ: 3 kýr, 14 hross og rúmlega 400 fjár framgengið. En hvað er gott bú nú? „Ég hefi reynt að halda í horfinu“, segir Guðmundur, „og búið hefur ekki gengið saman. En nú er svo komið, að það er einskis virði, nema það sem fæst af því til heimilisins. Í haust sem leið fékk ég 200 krónur fyrir jafnmargar kindur og lögðu sig á 1100 krónur á stríðsárunum. Ull og gærur telur maður ekki lengur. Fyrir 10 punda sauðagæru fékk ég t.d. kr. 1,50 í haust sem leið.“
17 systkini í Stór-Nýjabæ
Stóri-Nýibær 1944.
Eftir því sem leið á síðustu öld virðist íbúum hafa eitthvað fjölgað og hef ég heyrt að þeir hafi komist upp undir hundraðið þegar flest var í byrjun þessarar aldar, en það er óstaðfest. Allmargir Hafnfirðingar eiga rætur að rekja til Krýsuvíkur. Hjónin Magnús Ólafsson frá Lónakoti og Þóra Þorvarðardóttir frá Jófríðarstöðum bjuggu í Krýsuvík. Þau eignuðust 5 börn og komust fjögur upp. Magnús dvaldist síðast á sumrin í Krýsuvík en flutti alfarið til Hafnarfjarðar 1945.
Hjónin Guðmundur Jónsson frá Hlíð í Ölfusi og Kristín Bjarnadóttir úr Herdísarvík voru gefin saman í Krýsuvíkurkirju 8. september 1895 og bjuggu í Stóra-Nýjabæ þaðan í frá til 1933. Þau eignuðust 18 börn og komust 17 á legg. Frá þeim er mikill ættbogi kominn.
Guðrún Runólfsdóttir, langamma þessi sem þetta ritar, fæddist í Krýsuvík 1865. Þá sat þar Sigurður Sverresen sýslumaður og sóknarprestur var Þórður Árnason, bróðir Jóns Árnasonar þjóðsagnaritara.
Krýsuvíkurkirkja
Útlit Krýsurvíkurkirkja árið 1810 fyrir endurbyggingu árið 1857.
Kirkja hefur sennilega verið í Krýsuvík frá ómuna tíð en sú sem nú stendur var reist árið 1857 af Beinteini Stefánssyni sem þá bjó á Arnarfelli en flutti síðar á Hvaleyri. Kirkjan fór í niðurníðslu og var endurvígð 1931 og svo aftur í maí 1964 eftir endurbyggingu sem Björn Jóhannesson bæjarfulltrúi stóð fyrir og kostaði af eigin fé. Yfirsmiður við það verk var kunnur Hafnfirðingur, Sigurbent Gíslason, barnabarn Beinteins sem upphaflega byggði kirkjuna. Hún er nú friðlýst og í umsjón Þjóðminjasafnsins [skrifað fyrir 2010 þegar kirkjan brann].
Krýsuvíkurkirkja var einföld timburkirkja í Krýsuvík. Hún var byggð árið 1857, endurbyggð árið 1964 og fór þá í vörslu þjóðminjavarðar og komst við það á lista yfir friðuð hús. Altaristafla kirkjunar var málverk eftir Svein Björnsson, listmálara. Krýsuvíkurkirkja var notuð sem sóknarkirkja allt fram undir 1910. Hún var aflögð 1917 og notuð til íbúðar frá 1929, en síðan aftur breytt í kirkju 1963-64 fyrir tilstuðlan Björns Jóhannessonar, fyrrverandi forseta bæjarstjórnar í Hafnarfirði, en Hafnarfjarðarbær færði Þjóðminjasafninu húsið til varðveislu haustið 1964.
Krýsuvíkurkirkja er fábrotin að allri gerð. Ef hún er borin saman við aðrar kirkjur frá svipuðum tíma, t.d. Skútustaðakirkju í Mývatnssveit, og gengið er út frá því að kirkjubyggingar endurspegli efnahag sóknarbarna, þá virðist ljóst að fremur hafi fólk verið fátækt í Krýsuvík um miðja síðustu öld. En Guðs ríki kemur til fátækra og margir skynja þann djúpa frið sem ríkir í þessu litla guðshúsi mitt í tröllaukinni náttúrunni.
Í þessari framhaldsgrein um málefni Krýsuvíkur er fjallað um landamerki hinna jarðanna þar, eignarnám þeirra og afsal til Hafnarfjarðar.
Árni Gíslason
Húshólmi.
Vorið 1880 urðu nokkur straumhvörf í Krýsuvík. Þá flutti þangað Árni Gíslason sem verið hafði sýslumaður Skaftfellinga og búið að Kirkjubæjarklaustri, en haft annað bú í Holti. Árni þótti búhöldur mikill. Reisulegt tvíflyft timburhús sem hann bjó í hefur verið endurreist á byggðasafninu í Skógum.
Krýsuvíkurkirkja – legsteinn Árna Gíslasonar.
Árni var sonur séra Gísla Gíslasonar í Vesturhópshólum. Bróðir Árni var Gísli Gíslasonar, síðari maður Skáld- Rósu, en þau bjuggu nokkur ár hér í Hafnarfirði í Flensborgarverslun og Óseyrarkoti. Árni lét af sýslumannsembættinu þegar hann flutti til Krýsuvíkur, en var þó gjarnan kallaður Arni sýslumaður í almannatali. Hann var einn mesti fjárbóndi landsins og hafði með sér hundruð fjár. Stór hluti þess strauk fljótlega og stefndi á heimaslóðir, en drukknaði flestallt í stórám á leiðinni. Sagt er að ein kind hafi komist alla leið heim í Holt.
Hvers vegna Árni fór frá embætti og eignum fyrir austan er ekki vitað. Það hlýtur að hafa farið gott orð af landkostum í Krýsuvík. Árni lést um síðustu aldamót og hvílir í kirkjugarðinum í Krýsuvík.
Gróðurkort af landi Hafnarfjarðar í Krýsuvík.
Landamerkjabréfið
Nokkru fyrir 1890 tóku gildi ný jarðalög sem kváðu á um að fyrir allar jarðir þyrfti að vera til þinglýst landamerkjabréf. Eigandi jarðar þurfti að standa fyrir gerð bréfsins og eigendur allra aðliggjandi jarða að skrifa upp á. Ef ekki voru uppi deilur um landamerki var greiður vegur að ganga frá málum.
Árni Gíslason gerði landamerkjabréf fyrir land Maríukirkju í Krýsuvík sem hann hafði keypt. Bréfið er dagsett 14. maí 1890 og því þinglýst 20. júní sama ár. Þar er Iandamerkjum lýst þannig:
1. að vestan; sjónhending úr Dagon (Raufarkletti), sem er klettur við sjávarmál á Selatöngum, í Trölladyngju fjallsrætur að vestan, sem er útbrunnið eldfjall, norðanvert í Vesturhálsi; þaðan bein stefna í Markhelluhól, háan steindranga við Búðarvatnsstæði.
2. að norðan; úr Markhelluhól, sjónhending norðan við Fjallið Eina í Melrakkagil (Markrakkagil (ofanlínu)) í Undirhlíðum og þaðan sjónhending að vesturmörkum Herdísarvfkur, eða sýslumörkum Gullbringu og Árnessýslu.
3. Að austan; samþykkt og þinglýst vesturmörk Herdísarvíkur, sjónhending úr Kóngsfelli, sem er lág, mosavaxin eldborg, umhverfis djúpan gíg, á hægri hönd við þjóðveginn frá Selvogi til Hafnarfjarðar, örskammt frá veginum, í Seljabótarnef, klett við sjó fram.
4. Að sunnan nær landið allt að sjó.
Krýsuvíkurbúið.
Allir nábúar skrifuðu upp á bréfið án umtalsverðra athugasemda, þar á meðal bændur á Vatnsleysuströnd sem skiptir miklu máli nú þegar landeigendur þar ásælast hluta landsins vegna jarðhitans. Athugasemd ábúenda Hvassahrauns um að “Markhellu” skyldi breytt í “Markhelluhól” var tekin til greina. Mótmæli séra Odds Sigurðssonar á Stað í Grindavík vegna vesturlandamerkja voru ekki tekin til greina enda var harm ekki aðili að málinu. Ýmislegt áhugavert kemur fram í bréfinu. Staðfest var t.d. að Krýsuvík ætti Sogasel en Kálfatjörn hefði þar sem ítak mánaðarselsetu á sumri hverju. Sogasel er í eldgíg sem er á jarðhitasvæðinu við Trölladyngju.
Landamerkjum breytt
Sýslusteinn.
Áhöld voru um það hvar Melrakkagil væri en með umdeildum dómi 1971 var það ákveðið.
Árið 1980 var gerð “dómsátt” sem breytti landamerkjunum að austanverðu þannig að þau væru ekki beint úr Stóra-Kóngsfelli í Seljarbótarnef heldur úr fellinu í svonefndan Sýslustein og þaðan í nefið. Þetta færði sneið úr Krýsuvíkurlandi yfir til Herdísarvíkur sem er í eigu Háskóla Íslands. “Sáttin” var gerð án aðildar Hafnarfjarðar sem þó á mestu verðmætín á svæðinu, þ.e. jarðhitann í Brennisteinsfjöllum. Bæjaryfirvöld þurfa að krefjast ógildingar á þessum gjörningi. Eignarnámið á fjórða áratugnum fara Hafnfirðingar að sýna áhuga á því að eignast Krýsuvíkurland og beitti Emil Jónsson sér í því máli.
Með lögum nr. 11/1936 var ríkissjóði heimilað að taka eignarnámi lönd í lögsagnarumdæmi Hafnarfjarðar og lönd sem liggja að Hafnarfirði. Heimildin nær m.a. til jarðanna Krýsuvíkur og Stóra-Nýjabæjar sem þá voru í eigu dánarbús Einars Benediktssonar skálds. Gerðu þau ráð fyrir að lönd þessi skyldu seld eða leigð bænum. Þessi lög þóttu óljós og taldi ríkisvaldið ekki unnt að afsala landinu eftir eignarnám á grundvelli þeirra. Því var þeim breytt með lögum nr. 101/1940. Í þeim segir: “Jarðir þær sem um getur í 4. tölulið 1. gr. skal afhenda Hafnarfjarðarkaupstað og Gullbringusýslu, þannig að sýslan fái í sinn hlut lítt ræktanlegt land jarðanna til sumarbeitar fyrir sauðfé, samkvæmt skiptagerð sem framkvæmd var af hinni þar til kjörnu matsnefnd, sbr. niðurlag þessarar greinar, 1. maí 1939. En Hafnarfjarðarkaupstaður fái jarðirnar að öðru leyti með öllum gögnum og hlunnindum, sem jörðunum fylgja og fylgja ber, að undanteknum námuréttindum.”
Afsalið til Hafnarfjarðar
Krýsuvík – fjósið 2022.
Afsal var gefið út 20. febrúar 1941, en einungis hluti landsins var lýstur full eign Hafnarfjarðar, þ.e. um 43 ferkílómetrar sem töldust ræktanlegt land og varð það síðar fært undir lögsögu Hafnarfjarðar. Hitaréttindum á öllu landi jarðanna fylgja í afsalinu, þ.e. einnig þau réttindi sem eru utan hins afsalaða landsvæðis. Bærinn hefur rétt til að athafna sig á öllu landinu vegna nýtingar hans. Greiddar voru kr. 44.000 fyrir hin afsöluðu réttindi samkvæmt matsgerð sem fyrir lá auk kostnaðar kr. 6.813,10. Ekki var greitt fyrir námuréttindi sem metin voru á kr.2.000 né lítt ræktanlegt land til sumarbeitar á kr. 5.000, þar sem þessi réttindi voru undanskilin. Greiðsla Hafnarfjarðar var fyrir jarðhita kr. 30.000, ræktanlegt land kr. 10.000, Krýsuvíkurbjarg kr. 4.000 og Kleifarvatn kr. O.
Ekki er kunnugt um að Gullbringusýsla hafi greitt fyrir beitarréttindin og ekki hefur verið gefið út afsal vegna þeirra.
Kúabú í Krýsuvík
Krýsuvíkurfjósið.
Tilgangur bæjaryfirvalda með því að eignast Krýsuvíkurland var tvíþættur, að komast yfir jarðhitaréttindin til húshitunar í bænum og að koma upp kúabúi á vegum bæjarins. Meirihluti Alþýðuflokksins í bæjarstjórn stóð fyrir kúabúshugmyndinni gegn króftugri andstöðu Sjálfstæðismanna. Byggð voru heilmikil mannvirki, en hugmyndin komst þó aldrei í framkvæmd.
Umdeilt beitarland og námuréttindi
Seltún – námuréttindin í Krýsuvík 1950.
Hér verður ekki farið út í lögskýringu á fyrrgreindum lögum og afsali, slíkt er fremur á færi annarra. Eðlilegt er að Hafnarfjörður krefjist eignarhalds á landinu öllu og láti á það reyna fyrir dómstólum. Það hefur verið undirbúið og er stefna í vændum. Til andsvars eru helst Grindvfkingar, en sá hluti landsins sem ekki var afsalað til Hafnarfjarðar er nú í lögsögu þeirra þó þeir eigi það ekki.
Í eignarnámslögunum kemur fram að ekki skuli afhenda Hafnarfirði námuréttindi, en í greinargerðum kemur fram að átt er við brennisteinsnámur vegna þess að eignarhald á þeim var óljóst eftir að erlendir aðilar höfðu eignast þau.
Í skjóli þessa hefur Landbúnaðarráðuneytið leyft stórfellda vinnslu jarðrefna við Vatnsskarð. Þetta verður að telja fullkomlega óeðlilegt. Engin hefð var fyrir slfkri efnistöku á svæðinu og vafasamt að hún teljist námaréttindi í skilningi eignarnámslaganna.
Hafnfirðingar standi á rétti sínum
Krýsuvíkurkirkja.
Ég leyfi mér að fullyrða að Landbúnaðarráðuneytið hefur verið Hafnfirðingum óvilhallt í gegnum tíðina og reynt að draga úr ítökum okkar eins og það hefur getað. Hér að framan var fjallað um breytinguna á landamerkjum 1980 sem gerð var að tilhlutan ráðuneytisins án samráðs við bæjaryfirvöld og vafasama efnistöku. Jafnframt stendur ráðuneytið í vegi þess að landinu sé öllu afsalað til Hafnarfjarðar, hefur margsynjað erindum þess efnis.
Þessu til viðbótar hefur ráðuneytið verið að kanna frekari skerðingu á landinu með breytingu á landamerkjum og fulltrúar þess farið í könnunarleiðangra með öðrum landeigendum í þessu skyni án minnsta samráðs við Hafnfirðinga. Þessari atlögu hefur tekist að hrinda, í bili a.m.k.
Hafnfirðingar þurfa að vera á varðbergi gegn ásælni annarra landeigenda á svæðinu og hlutdrægni ríkisvaldsins og krefjast síns réttar í Krýsuvík skilyrðislaust. Það er alveg ljóst af eignarnámslögunum að ríkinu var ekki ætlað að halda eftir neinum ítökum í Krýsuvfk öðrum en brennisteinsnámum.
Í nœstu grein verður fjallað um jarðhitann í Krýsuvík, mögulega nýtingu hans og samninginn við Reykjavíkurborg 1973 um hitaveitu í Hafnarfirði, en þá var réttindunum að hluta afsalað til Hitaveitu Reykjavíkur.
Í þessari þriðju og síðustu grein um Krýsuvík er fjallað um jarðhitann þar, mögulega nýtingu lians og samninginn við Reykjavíkurborg 1973 um hitaveitu í Hafnarflrði, en þá var réttindunum að hluta afsalað til Hitaveitu Reykjavíkur.
Eðli jarðhitans
Í Seltúni.
Jarðhitasvæðum er skipt í tvo flokka. Svokallaður lághiti er á svæðum þar sem ekki er eldvirkni (t.d. Mosfellsbæ). Þar er vatnið oftast innan við 100’C og yfirleitt má nota það beint á dreifikerfi hitaveitna. Háhiti er á eldvirkum svæðum og fær vatnið þá hitann frá bráðinni eða nýstorknaðri bergkviku sem þrengt hefur sér inn í jarðlögin eða orðið eftir við eldgos. Hitastig vatnsins er mun hærra en á lághitasvæðum, allt að 300’C og jafnvel hærra.
Borað í Krýsuvík um 1950.
Mikill þrýstingur er á vatninu og ryðst það út sem gufa ef borað er ofan í það og holan höfð opin. Þetta vatn er mettað af uppleystum efnum úr berginu og ekki hægt að nota það beint á dreifikerfi. Viðnám í jarðlögum er vísbending um jarðhita Þegar heitt vatn kraumar í jörðu leysir það upp ýmis efni úr berginu sem verður til þess að vatnið og jarðlögin sem það mettar leiða rafmagn mun betur en ella. Þvf hærri sem hitinn er þeim mun betur leíðir bergið rafmagn. Við rannsóknir á jarðhitasvæðum mæla menn viðnámið gegn rafleiðni. Því lægra sem það er, þeim mun betur leiða jarðlögin rafmagn og þeim mun sterkari vísbending er um jarðhita. Með þar til gerðum tækjum má mæla viðnámið djúpt í jörðu. Með því að kortleggja það á stórum svæðum þar sem jarðhita gætir má fara nokkuð nærri um útbreiðslu jarðhitans og uppstreymi.
Tvö háhitasvæði
Seltún – Trölladyngja.
Á Reykjanesskaganum eru fimm háhitasvæði sem tengjast jafnmörgum megineldstöðvum. Þetta eru Hengill (Nesjavellir eru innan þess), Brennisteinsfjöll, Sveifluháls-Trölladyngja, Svartsengi og Reykjanes. Af þeim eru tvö í landi Krýsuvíkur og Stóra-Nýjabæjar, Sveifluháls-Trölladyngja og Brennisteinsfjöll, og eru þau sýnd á kortinu sem fylgir greininni.
Svæðin teygja sig bæði út úr Krýsuvíkurlandi og eru hitaréttindin því sameign Hafnarfjarðar og annarra eigenda. Eins og fram kom í síðustu grein eignuðust Hafnfirðingar öll hitaréttindin í landi Krýsuvíkur og Stóra-Nýjabæjar með afsali sem gefið var út 20. febrúar 1941 og greiddi fyrir þau kr. 30.000. Þetta gildir bæði um þann jarðhita sem er á þeim hluta landsins sem bærinn eignaðist og þeim hluta sem átti að vera beitarland Gullbringusýslu.
Sveifluháls-Trölladyngja
Seltún árið 1950.
Þetta svæði hefur nokkuð verið rannsakað og tilraunir verið gerðar til nýtingar þess. Svæðið er nokkuð dreift, þ.e. viðnám í jörðu mælist lágt á mjög mörgum stöðum. Við Sveifluhálsinn og víðar er jarðhitinn áberandi á yfirborði, en annars staðar er hveravirkni vart sjáanleg.
Sveifluhálsinn er allur í landi Krýsuvíkur sem og fleiri „augu” á þessu kerfi þar í grennd. Borholan kunna við Seltún er ein nokkurra hola sem þarna hafa verið boraðar, flestar upp úr 1970. Því miður gáfu þær ekki nógu góða raun. Hiti er mikill ofarlega í jarðlögunum (efstu 500 m) en lækkar síðan eftir því sem neðar dregur í stað þess að hækka. Þetta bendir til þess að holurnar séu of fjarri meginuppstreymi hitans sem í raun og veru er ekki þekkt ennþá.
Við Trölladyngju eru tvö mjög álitleg hitasvæði sem kenna má við Sog og Eldborg. Landamæri Krýsuvíkur liggja í gegnum þessi svæði. Ein hola var boruð á Eldborgarblettinum upp úr 1970 og mældist þar hæsta hitastig í borholu á svæðinu öllu eða um 260’C. Hann lækkaði hins vegar þegar neðar kom eins og í öðrum holum sem boraðar voru og olli það vonbrigðum. Heitt svæði við Sandafell er hluti háhitasvæðisins, en það er utan landamæra Krýsuvíkur. Þar hefur ekki verið borað.
Nokkuð er um liðið síðan þetta svæði var rannsakað og holurnar sem boraðar voru þættu ekki merkilegar í dag. Nauðsynlegt er að rannsaka svæðið allt á ný með nýjustu tækni og ef menn hyggja á nýtingu þarf að bora 2 – 4 holur. Efnasamsetning vatns- og gasinnihald bendir til að þarna streymi upp mun heitara vatn en fannst í gömlu holunum eða allt að 290’C. Það væri mjög álitlegt til virkjunar.
Brennisteinsfjöll
Brennisteinsfjöll – Kistufellsgígur.
Háhitasvæðið í Brennisteinsfjöllum er minna rannsakað, þar hafa t.d engar holur verið boraðar. Orkustofnun hefur gert þarna viðnámsmælingar og birti um þær skýrslu haustið 1995. Niðurstöður gáfu skýra mynd af jarðhitasvæði sem þarna er og er það töluvert frábrugðið Sveifluháls-Trölladyngjusvæðinu, myndar meira eina heild eins og sést á kortinu. Hitastig á 700 – 800 m. dýpi er líklega um 240 °C en það gæti verið töluvert hærra á meira dýpi. Þetta svæði virðist efnilegt til nýtingar í framtíðinni. Hér erum við hins vegar komin í stórbrotna og lítt snortna náttúru og fara verður að öllu með gát.
Virkjun jarðhitans
Ögmundarhraun.
Hagkvæmasta leiðin til að virkja háhitasvæði er að framleiða bæði raforku og heitt vatn. Heita vatnið er þá tekið út borholunum sem gufa við háan þrýsting og látið knýja hverfla og framleiða rafmagn. Afgangur orkunnar er síðan notaður til að hita upp ferskt vatn til húshitunar.
Borað í Krýsuvík um 1950.
Ef einungis er framleitt rafmagn nýtast aðeins 10 – 15 % orkunnar, afganginum er kastað á glæ og það telst varla verjanleg nýting auðlindar sem annars myndi varðveitast að mestu í jörðu og nýtast komandi kynslóðum. Til umræðu hefur verið að nýta jarðhitann að hluta til iðnaðar á Straumsvíkursvæðinu og virðist það geta orðið vænlegur kostur. Þá gæti komið til greina raforkuvinnsla, iðnaðaraotkun og framleiðsla heits vatns, allt í senn. Kröfur Kyoto bókunarinnar gera okkur erfitt um vik að byggja frekari iðnvæðingu á brennslu eldsneytis og virkjanir á hálendinu eru umdeildar. Nýting jarðhitans getur skapað tækifæri sem eru laus við þessi vandamál bæði.
Nýtingu jarðhita á svæðum sem þessum má líkja við námavinnslu. Hitinn endurnýjast ekki og klárast því á endanum, nema eldgos eða kvikuinnstreymi eigi sér stað. Jarðhitinn er því ekki endurnýjanleg auðlind á sama hátt og vatnsaflið. Orkuinnihald einstakra svæða getur hins vegar verið geysimikið og kann að endast áratugum eða jafnvel öldum saman ef rétt er að nýtingu staðið.
Aðrir ásælast landið
Sog í Trölladyngju.
Eins og fram kom í síðustu grein eru rætur Trölladyngju að vestanverðu landamerki Krýsuvíkurlands. Þarna liggja landamærin í gegn um tvo heita reiti við Sog og Eldborg. Jarðirnar Stóra- og Minni Vatnsleysa eiga í þessum reitum einnig og er hlutur þeirra ámóta stór og Hafnfirðinga. Þessir landeigendur hafa talið sig eiga jarðhitann allan og viljað fá landamerkin færð upp í Grænavatnseggjar í fjalllendinu þarna fyrir ofan og notið stuðnings sveitarstjórnar Vatnsleysustrandarhrepps. Leitað var til Landbúnaðaráðuneytisins á árinu 1996 og beðið um atbeina þess í málinu. Eftir að ráðuneytið hafði legið yfir þessu í heilt ár var erindi landeigendanna loks synjað.
Borað í Krýsuvík um 1950.
Hafnarfjarðarbær gerði samning við Reykjavfkurborg um hitaveitu í Hafnarfirði. 11. gr. hans hljóðar þannig: „Hitaveitan skal hafa rétt til jarðhitaleitar og virkjunar til húshitunar í eignarlandi Hafnarfjarðarkaupstaðar í Krýsuvík. Ef Hitaveitan rœðst til virkjunar í Krýsuvík ber henni að greiða bœjarsjóði Hafnarfjarðar hlutfallslega sama verð og hitaréttindin hafa kostað Hafnarfjarðarkaupstað samkvœmt mati á hitaréttindunum þegar kaupstaðurinn fékk þau, og hlutfallslegan kostnað hans af rannsóknum, sem fram hafa farið á jarðhitasvœðinu, samkvæmt nánara samkomulagi aðila. Þessi réttur Hitaveitunnar nær eingöngu til húshitunar og annarrar venjubundinnar notkunar Hitaveitu Reykjavíkur. Verðmæti þessi skal meta til verðs á sama hátt og Hitaveita Reykjavíkur notar til endurmats eigna sinna á sama tíma, sbr. 8. gr. Aðilar eru sammála um, að önnur notkun jarðhitans í Krýsuvík verði ákveðin þannig að möguleikinn til virkjunar til húshitunar verði tryggður.” Ekki verður betur séð en að með þessu ákvæði sé Hitaveita Reykjavíkur orðinn eigandi jarðhitaréttindanna í Krýsuvík að miklu leyti. Þó er hugsanleg sú túlkun að jarðhitaréttur bæjarins á því svæði sem hann fékk ekki afsal fyrir (beitarland fyrir Gullbringusýslu) falli ekki undir þetta ákvæði og sjálfsagt að láta á það reyna.
Víti í Krýsuvík.
Lokaorð
Um þessar mundir er mjög til umræðu hvernig Hafnarfjörður skuli standa að orkumálum í framtíðinni og horft til samstafs við Suðurnesjamenn. Sjálfsagt er eiga samstarf við þá, en það á alls ekki að útiloka samstarf við nýtt orkufyrirtæki Reykvíkinga í þessum málum. En við þurfum að gæta okkar því báðir þessir aðilar ásælast jarðhitann í Krýsuvík. Við þurfum að gæta vel að stöðu okkar og hagsmunum. En við þurfum einnig að huga að því að Krýsuvíkurland er náttúruperla og eitt víðáttumesta útivistarsvæði á Suðvesturlandi. Við verðum að finna leiðir sem gera okkur kleift að nýta auðlindirnar á ábyrgan hátt án þess að spilla landinu varanlega.”
Heimild:
– Fjarðarpósturinn – 40. tölublað (26.11.1998) – I – Krýsuvík – náttúrperla og orkusjóður – Eyjólfur Sæmundsson.
– Fjarðarpósturinn – 41. tölublað (03.12.1998) – II – Krýsuvík – náttúrperla og orkusjóður – Eyjólfur Sæmundsson.
– Fjarðarpósturinn – 42. tölublað (10.12.1998) – III – Krýsuvík – náttúrperla og orkusjóður – Eyjólfur Sæmundsson.
Víti í Kálfadölum.