Krýsuvík

Ólafur Þorvaldsson skrifaði um Krýsuvíkurkirkju í Lögberg-Heimskringlu árið 1962:

Ólafur Þorvaldsson“Þegar þess var farið á leit við mig, að ég skrifaði fyrir þetta blað nokkuð um Krýsuvíkurkirkju, varð mér fyrst ljóst, hve lítið það er, sem ég veit í þessu efni, — en menn fara stundum enn þá í geitarhús að leita ullar. Ég er því smeykur um, að svipað hafi hent vin minn, þegar hann villtist til mín með þetta efni.
Og nú detta mér í hug sem oftar, þegar svipað stendur á sem hér, hendingar í einu kvæði Fornólfs, þar sem hann segir: „Þótt einhver verði ýtingin, er óviss lendingin”.
Ég er því miður illa að mér í sögu kirkna á Íslandi frá fornu og nýju, uppruna þeirra, endurbyggingu eða tilfærslu, og allt þar á milli. Það mun mála sannast, að erfitt mun vera að rekja sögu margra kirkna okkar frá fyrstu tíð, þótt sjálfsagt mætti fá úr mörgu skorið í því efni, en til þessa hefur mig skort hvort tveggja, tíma og tækifæri.
Eftir öllum líkum mun óhætt að segja, að kirkja hafi verið í Krýsuvík úrfallalítið í átta til níu aldir. Ég held, að Krýsuvíkurkirkja sé ein af þeim kirkjum, að erfitt sé að rekja sögu hennar í það minnsta fyrstu aldirnar, svo öruggt samhengi fengist í þá sögu. Ég skal aðeins nefna eitt, upphaf þeirrar sögu. Ég held að margur myndi hnjóta um það spursmál, hvar fyrsta kirkja Krýsuvíkur hafi verið reist, hvenær og hver hana lét gera. Við þessum spurningum höfum við hvergi getað fengið fullnægjandi svar. Síðar kem ég lítillega að þessu óráðna spursmáli, ef rúm leyfir.
Lesendur þessa blaðs munu litlu nær um Krýsuvíkurkirkju af formálanum einum. Þess vegna skal nú sagt hér það helsta, sem ég veit og man um nefnda kirkju, og er því bezt að byrja á byrjuninni.

Húshólmi

Húshólmi – Kirkjulágar; meint kirkjutóft vinstra megin.

Í Landnámabók Ara Þorgilssonar segir svo: „Þórir haustmyrkur nam Selvog og Krýsuvík.” Einar Arnórsson prófessor telur líklegt, að Þórir haustmyrkur hafi komið nokkuð seint út. Fyrir þessu færir hann þau helst rök, að „Súgandi”, þriðji maður frá Þóri, ætti að vera uppi um 1000.
Landnám Þóris er því að nokkru í Gullbringusýslu, en þau sýslumörk komu löngu síðra. Líklegt má telja, að kirkja hafi ekki löngu eftir kristnitöku verið byggð í Krýsuvík. Yfir hinu mun hvíla algjör óvissa, svo sem fyrr er á minnst, hvar og af hverjum sú kirkja var byggð.
Elsta heimild, sem mér er kunn um kirkju í Krýsuvík er, að um 1200 er hennar getið í kirknaskrá Páls biskups. Kirkjan er talin Maríukirkja, og á heimaland allt ásamt Herdísarvík og níu mæla lands á Þorkötlustöðum auk ítaka.

Krýsuvík

Krýsuvík 1810.

Eftir það, er Krýsuvíkurkirkju getið í ýmsum máldögum allt fram undir 1600. Flestir máldagarnir fjalla um eignir kirkjunnar fastar og lausar, ítök o. fl. og ber víðast fátt þar á milli utan þá orðalag. Á tíma þeim, sem máldagarnir ná yfir, hefur lausafé kirkjunnar ekki ávallt verið það sama, munir gengið úr sér, og stundum aðrir komið í þeirra stað. Lifandi peningi fækkað, þar til horfinn var með öllu, og má segja, að svo hafi farið um flesta muni kirkjunnar.
Til að sýna megin efni í lestra máldaganna tek ég upp kafla úr máldaga Gísla biskups Jónssonar fré 1577 (í F. XV. 3, bls. 641). Þar segir:… „Ennfremur 6 kýr og 5 ásauðar kúgildi, (þ. e. 30 ær). Einnig þrjá hesta og eitt hross (þ.e. hryssa). Innan kirkju tvenn messuklæði alfær og kantara kápu eina. Einnig tvenn altarisklæði. Ein brún. Einn kaleik, þrjár klukkur, koparstiku með þremur pípum. Glóðker. Einn ampli. Paxspjald . Vatnsklukka. Kirkjustokkur, Þrjár merkur vax. Bækur nokkrar. — Innanstokks tvær skálar, tvo spæni, tvö trog, hægindi, hvíluvoðir og áklæði.”

Krýsuvíkurkirkja

Innansmíð Krýsurvíkurkirkju – teiknað árið 1810.

Allt bendir til, að Krýsuvíkurkirkja hafi aldrei rík verið að lausafé. Hitt mun heldur mega telja, að fram eftir öldum hafi hún eftir öllum bréfum að dæma mátt heita allvel á vegi í föstum eignum, þar sem hún hefur átt allt land sóknarinnar, byggt og óbyggt, og meira þó, þar eð hún átti einnig Herdísarvíkina, beztu verstöð í Selvogi, landríka vildisjörð, og lágu lönd saman. Auk þessa ýms ítök. Hitt er ljóst bæði af íslenzkum heimildum svo og ferðabókum erlendra, sem um landið reistu og til Krýsuvíkur fóru sem flestir munu hafa gert til athugunar á jarðhita og brennisteini, að meðal sóknarmanna hafi þar oftar ríkt fátækt en auður, jafnvel svo að til landauðnar dró á tímabili. Ég skal nefna hér eitt dæmi þessu til stuðnings.
Árið 1553—54 telur Marteinn biskup „kirkju þa r góða, — en enginn bær er þá í sókninni”. Eitthvað hefur þetta ömurlega hlutskipti þessa byggðarlags varað, því að með bréfi 27. sept. 1563 leggur Páll Stígsson hirðstjóri í samráði við Gísla Jónsson biskup í Skálholti niður sóknarkirkju Krýsuvík og leggist hún og eitt kot, sem þar er hjá, til Strandarkirkju í Selvogi. Þó skal í Krýsuvík standa lítið húskorn Guðs vegna og þess heimilisfólks, sem þar kann að vera sjúkt eða gamallt. Og herra Gísli skyldi nokkur kúgildi til leggja, svo að Guðs orðs þénari mætti þar hvíld nætursakir hafa, þá hann þar kæmi eða þyrfti þar að koma Guðlegrar hjarðar að vitja.” Krýsuvíkurkirkja virðist þó standa eftir sem áður. Árni Magnússon telur hana útkirkju frá Strönd. Svo er og í kirkjuskrá 1748, og enn í prestakallaskipunarlögum frá 1880.
Með prestakallalögum 1907 er Krýsuvíkursókn lögð til Staðarprestakalls í Grindavík. Loks er með stjórnarráðsbréfi 21. okt. 1929 Krýsuvíkurkirkja lögð niður og sóknin sameinuð Grindavík (Stjt. 1929 B. 305).
Með þessari síðustu ráðstöfun mætti ætla, að lokið væri sögu Krýsuvíkurkirkju hinnar fornu. Þó má segja enn sem fyrr, að kirkjan stendur eftir sem áður, — en mennirnir viðurkenndu hana ekki lengur. — Ég fæ ekki betur séð en við þetta yfirgefna hús, sem einu sinni var guði vígt, hafi komið fram hinn sami ,,huldi verndar kraftur”, sem Jónas kveður um í Gunnarshólma, um „hólmann, þar sem Gunnar snéri aftur”, við að forða því frá að afmást með öllu svo enginn sæi þess lengur stað.

Krýsuvíkurkirkja

Krýsuvíkurkirkja 1810.

Það má segja, að frá 1563—1929 hafi Krýsuvíkursókn verið í útlegð eða í 366 ár. Í 344 ár var hún á vist hjá Strandarkirkju í Árnessýslu og í tuttugu og tvö ár hjá Staðarkirkju í Grindavík, þ.e. frá 1907—1929. Það ár er kirkja lögð niður í Krýsuvík. Eftir það eiga Krýsvíkingar kirkjusókn til Grindavíkur. Löng kirkjuganga það.
Árið 1929, þegar kirkjan er lögð niður, eru þrjár fjölskyldur í sókninni, ein mannmörg, tvær miðlungi stórar. Þá mun hafa verið búið að ákveða vegarlagningu um Krýsuvík, ef hún hefur ekki þegar verið hafin. Og vegurinn kom. Með veginum kom fólkið og nokkrar framkvædir, þótt eitthvað af þeim hafi farið nokkuð á annan veg en skyldi, — en þetta kemur í hendi, sagði karlinn. Vegurinn var kominn um eina samfellda stóra gróðursvæðið í hinni miklu hraunbreiðu Reykjanesskagas. Land með mikla möguleika í jörð og á allmikil hlunnindi við sjó, þótt enginn vilji nýta í dag.
Svo fóru gömlu Krýsvíkingarnir alfarnir. Flestir fóru þeir eftir hinum aldagömlu slóðum, sem þeir höfðu farið margir alla ævina, aðrir skemur. Svo kom nýtt fólk eftir nýja veginum, sumir til búsetu, aðrir sem farfuglar. Það var því enn komið fólk í hina fornu Krýsuvíkursókn, — en „kirkja fyrirfannst engin á staðnum”, en til staðar mun hann ekki hafa verið, sá sem fyrir kúgildunum hefur séð, — en síðustu prestar þar voru það ekki.

Magnús Ólafsson

Magnús Ólafsson – síðasti ábúandinn í Krýsuvík.

Eftir að síðasti ábúandinn var fluttur veikur burt frá Krýsuvík og átti þangað ekki afturkvæmt, var lokið allri umhirðu um hina fornu kirkju, er hann hafði búið í mörg síðustu árin þar. Það beið heldur ekki lengi, þar til þar fyrirfannst hvorki gluggar né hurð. Hurðarleysið kom sér líka betur fyrir þá hjörð, sem þá tók að sækja þetta forna guðshús. Þar inni fann skjól í hrakviðrum fjöldi nautgripa og hesta, er þarna voru til hagagöngu á sumrin. Flestir, sem þarna voru kunnugir, töldu víst, að um þetta forna vanhirta hús færi þá og þá sömu leiðina, sem önnur hús staðarins, hryndi í rúst eða fyki burt. Nei, hin forna, yfirgefna kirkja fauk hvorki né hrundi. Hún stóð af sér öll stórviðri og alla „hverakippi”. Hún bara beið, beið eftir sveini, er leysti hana úr böndum. Og sveinninn kom. Fyrir hans tilverknað stendur í dag á hlaði hinnar fornu stórjarðar fegurra hús heldur en þar hefur áður staðið og bíður nú þess að vígjast í kirkju eða kapellu Krýsuvíkursóknar. Vonandi bíður þess húss aldrei önnur eins niðurlæging sem hinnar síðustu kirkju staðarins.
Áður er þess getið í grein þessari, að óvíst væri hvar hin fyrsta Krýsuvíkurkirkja hafi staðið. Þótt allt þar um sé í mikilli óvissu enn sem komið er en sem ég veit að á eftir að skýrast áður en langt um líður, þá tel ég, að ekki sé hægt að skrifa svo um Krýsuvík og kirkju þar, að gengið sé með öllu fram hjá hinni aldagömlu sögu, að sú Krýsuvík, sem við þekkjum í dag hafi ekki í upphafi byggðarinnar verið þar sem nú er.

Húshólmi

Húshólmi – skáli.

Til fróðleiks skal ég tilfæra hér í sem stytztu máli það helzta, sem vísinda og fræðimenn hafa um þetta efni skrifað. Eggert Ólafsson segir í ferðabók sinni um jarðelda í Trölladyngju: „Að minnsta kosti er það víst, að Krýsvíkingar kunna að segja frá ægilegum jarðeldi, er brann í fjöllum þessum í fornöld. Eldflóðið féll í sjó niður og eyddi nokkrum bæjum á því svæði, sem nú heitir Ögmundarhraun. Meðal þeirra var kirkjustaður, sem Hólmastaður hét, og sjást þar enn minjar kirkjugarðsins og húsatóftanna”. Hér er vitanlega átt við þann stað, sem nú heitir Húshólmi. Hólmastaðar hef ég hvergi heyrt getið utan í bók Eggerts. Fullvíst má telja, að þetta nafn hafi til orðið eftir að hraunið hólmaði þennan blett af.
Þorvaldur Thoroddsen segir í ferðabók sinni I. bls. 186, um rústirnar í Húshólma: „Ein sú lengsta er 49 fet, en breidd hennar sést ei fyrir hrauni”.

Húshólmi

Húshólmi – meintur grafreitur.

Og enn segir hann: „Þessar tóttir, sem hraunið hefur runnið yfir, eru full sönnun fyrir því, að það hefur myndast síðan land byggðist, þótt hvergi finnist þess getið í sögum eða annálum”. Einnig getur Þorvaldur Thoroddsen um alllanga garða, sem sjáist þar enn. Þorvaldur Thoroddsen segir um Ögmundarhraun, að Jónas Hallgrímsson hafi gizkað á, að það hafi runnið kringum 1340, „án þess þó að færa heimildir fyrir því”.
Brynjólfur Jónsson frá Minna-Núpi skrifar í Árbók Hins ísl. fornleifafélags 1903 um Húshólma og fornminjar þar. Getur hann þa r garða og húsarústa á svipaðan hátt og Þorvaldur Thoroddsen. Í grein sinni kemst Brynjólfur þannig að orði á einum stað:

Húshólmi

Húshólmi og Gamla-Krýsuvík.

„Krýsuvík hefur til forna staðið niður undir sjó fyrir vestan endann á Krýsuvíkurbergi. Nafnið Krýsuvík bendir til þess”. Brynjólfur er sá eini af þessum þremur fræðimönnum, sem minnist á og telur víst, að Krýsuvík hafi verið upphaflega þar sem nú er Húshólmi. Það sem einkum styður þá kenningu, að Krýsuvíkin hafi í upphafi staðið við sjó, er aðallega þetta: Nafn byggðarinnar — Krýsuvík eins og Brynjólfur Jónsson bendir á, því að lítt hugsanlegt er, hafi byggðin staðið frá landnámi þar sem nú er að hún hefði þá fengið þetta nafn því að þar er ekki um neina vík að ræða, ekki einasta að byggðin sé það nærri Kleifarvatni, að nafnið gæti þaðan verið komið. Í öðru lagi eru það hinar miklu húsarústir og önnur verksummerki í Húshólma með nöfnum svo sem Kirkjuflöt og Kirkjulág. Nöfn þessi benda til, að þar hafi kirkja verið en aldrei mun getið nema einnar kirkju í Krýsuvík.
Rúmsins vegna verð ég að láta staðar numið hér, en um þetta má nánar lesa í bókinni „Harðsporar” frá 1951, bls. 109.
Vel veit ég, að í framangreindar frásagnir vantar vísindalegar sannanir og er það rétt svo langt sem það nær og þá er að afla þeirra. — Í Húshólma munu svo merkilegar fornminjar vera, að óvíst er hverju þær við rannsókn gætu aukið við hinar fornu sögu okkar. Þegar hér er komið lestri má vera, að einhverjum detti í hug þessi spurning: Hvað kemur þessi týnda byggð ef til hefur verið Krýsuvíkurkirkju við? Hér ber allt að einum brunni. Um þetta vantar aðeins órækar sannanir.
Eggert Ólafsson hafði engar sannanir þá hann skrifaði orð þau, sem að framan getur. En líkurnar hafa honum sýnst svo ljósar, að þar væri ekki um efamál að ræða.

Húshólmi

Húshólmi – einn hinna fornu garða.

Hafi fyrsta byggð Krýsuvíkur verið niður við sjó svo sem hin aldna saga hermir og minjar þar benda til, hefur vitanlega ekki liðið langur tími þar til þar hafi kirkja risið. Svo stór hefur Krýsuvíkurkirkja aldrei þurft að vera, að efni til hennar hafi skort, þar eð reka fjörur eru miklar og rekasælar, svo sem við vestasta hluta Krýsuvíkurbergs allt til Selatanga vestur.
Skal nú vikið nokkrum orðum aftur til ársins 1200. Þá er sem fyrr segir Krýsuvíkurkirkju getið í kirknaskrá Páls biskups, og þar þess getið að kirkjan sé Maríukirkja svo og landaeigna hennar. Hér hefur þess ekki þótt þurfa við að tilgreina nánar hvar kirkjan væri staðsett, því vitanlega hefur það verið svo sem nafn hennar bendir til í Krýsuvík, og þá var engin nauðsyn að geta þess, hvar sú Krýsuvík væri vegna þess, að aldrei hefur verið nema ein byggð með því nafni, — en hvar var sú Krýsuvík, sem Páll biskup minnist á um árið 1200? Þessari gömlu og nýju spurningu er enn þá ósvarað, en við verðum að vona, að svarið komi von bráðar.

Húshólmi

Húshólmastígur um Ögmundarhraun.

Ef það væri nú svo, að Ögmundarhraun hafi runnið kringum 1340 svo sem Jónas Hallgrímsson gizkar á, er ekkert líklegra en að fólkið sem flýði eldana hafi leitað áður en eldurinn lokaði leiðum upp í landið inn milli fjallanna, þar sem eldar sem þá brunnu náðu því ekki. Vegarlengdin var ekki nema röskur stundargangur. Þetta land var þess heimaland, sjálfsagt fyrr nytjað á margan hátt. Þar var búsmali þess hagvanur, heyskaparlíkur meiri og betri, svörður til eldsneytis í mýrum og ef til vill fleira, sem nú er ekki gott að segja um.
Til endurbyggingar húsatimbur á víðáttumiklum rekafjörum, — en dálítið lengra til dráttar. Hafi þetta svona verið þá hefur fólkið flutt með sér nafn þeirrar byggðar, sem það af illri nauðsyn varð að yfirgefa og þá von bráðar komið sér upp kirkju, sem hefur verið Krýsuvíkurkirkja jafnt sem áður.

Krýsuvíkurkirkja

Þótt erfitt sé að fullyrða, hvar fyrsta kirkja þeirra fyrstu Krýsvíkinga hafi staðið, mun aftur á móti óhætt að telja fullvíst, að margar síðustu aldirnar hafi kirkja þeirra staðið þar sem hún stóð fram á þessa öld, — og stendur í rauninni enn. Þeim mun nú óðum fækka, sem við messugerð voru hjá séra Eggert Sigfússyni presti Selvogsþinga, þá hann messaði í Krýsuvíkurkirkju, því eins og fyrr segir þá var Krýsuvíkurkirkja útkirkja frá Strönd til 1907. Sá er þetta skrifar var við eina guðsþjónustu í Krýsuvík hjá séra Eggert 1901. Margt var vel um séra Eggert þótt alleinkennilegur þætti í ýmsu. Ágætur ræðumaður var hann talinn á tækifærisræður, enda var hann gáfaður lærdómsmaður.
Aftur á móti voru flestar kirkjuræður hans mjög stuttar og var sem hohum lægi mikið á við flest verk í kirkju og viðurkenndi þetta sjálfur svo sem þetta dæmi sýnir. Eitt sinn þá hann kom úr kirkju í Krýsuvík segir hann strax þegar hann kom í bæinn: „Nú gerði ég það gott, nú hafði ég faðirvorið í einu andartaki.”

Krýsuvíkurkirkja

Krýsuvíkurkirkja.

Margt mætti um séra Eggert segja og allt gott sérdeilis sem mann. Hann var vammlaus maður og heiðarlegur fram í fingurgóma. Hann var einn þeirra, sem samtíðin misskildi, þótt þar væru undantekningar. Á öðrum vettvangi gefst mér ef til vill tækifæri til að segja nánar frá þessum sérkennilega manni.

Ég ætla, að ég hafi verið við síðasta prestsverk, sem framkvæmt var í Krýsuvíkurkirkju, það um árið 1917. Þá var jarðsunginn þar síðasti maður í Krýsuvíkurkirkjugarði, og var ég einn af líkmönnunum. Verkið framkvæmdi sóknarpresturinn séra Brynjólfur Magnússon frá Stað.
Þessi síðasta Krýsuvíkurkirkja, sem hér um ræðir, mun að öllum líkindum vera fyrsta kirkja þar, er byggð er af timbri einu saman. Þessi kirkja var byggð 1857. Síðan er hennar getið í mörgum prófastavísitasíum og ávallt nefnd „timburhús”.

Krýsuvík

Krýsuvík 1920.

Í biskupsvísitasíu árið 1875 er Krýsuvíkurkirkju lýst all nákvæmlega. Þar kvartar biskup yfir, að ekki hafi þá verið gert við galla þá, sem á kirkjunni hafi verið við síðustu vísitasíu hans. Sér í lagi er það ytri klæðning á þaki, sem sé orðin léleg og þurfi endurnýjunar við. Hvenær viðgerð sú, er Pétur biskup hvetur til 1875 hefur fram farið hefur mér ekki auðnast að grafa upp, en á síðasta fjórðungi síðustu aldar hefur það verið gert. Þótt mér hafi ekki tekizt að finna reikninga yfir kirkjusmíðar 1857 má fullvíst telja að þar hafi aðalsmiður verið Benteinn Stefánsson bóndi að Arnarfelli í Krýsuvík og má heita skemmtileg tilviljun, að dóttursonur hans Sigurbent varð til þess að gera nú upp hina gömlu kirkju af nákvæmni og hagleik, sem þeim frændum mun báðum hafa verið í blóð borið. Með endurnýjun þessa rösklega hundrað ára gamla húss, sem lengst af var kirkja, hefst nýr kapítuli í sögu kirkjunnar í Krýsuvík, sem verður ekki sagður hér. Í þeim kapítula hlýtur ávallt að gnæfa hæst nafn þess manns, sem af svo mikilli höfðingslund og óeigingirni og þó í algerri kyrrþey hefur látið gera þetta hús eins og það er í dag, ásamt umbótum á kirkjugarðinum, algeriega fyrir fé úr eigin vasa. Maður þessi er Björn Jóhannesson fyrrverandi bæjarfulltrúi í Hafnarfirði. Þá mun heldur ekki gleymast nafn þess, sem verkið leysti af hendi, þjóðhagans Sigurbents Gíslasonar í Hafnarfirði. Verk það, sem þessir tveir menn hafa innt af hendi í Krýsuvík á síðustu árum, lofar báða þessa meistara.

Björn Jóhannesson

Björn Jóhannesson.

Ég hygg, að með húsi því í Krýsuvík, sem nú hefur verið þar endurbyggt og innan skamms mun albúið til vígslu á ný til guðsþjónustuhalds, hafi Björn Jóhannesson unnið það lofsverða verk, sem fá dæmi munu finnast fyrir hér á landi í seinni tíð, — og trúað gæti ég að „Fáir muni eftir leika”, og mætti þó gjarnan verða hrakspá.
Að lokum skal hér getið þeirra presta, sem kunnugt er um að þjónað hafi Krýsuvík og setið þar meðan sérstakt prestakall var, en talið er að prestur hafi verið þar allt til 1641. Prestarnir voru þessir: Kálfur Jónsson 1375, Þórarinn Felixson 1447, Guðmundur Steinsson 1525, Björn Ólafsson um 1528 til um 1580, Tómas Björnsson 1586 til um 1602, Bjarni Gíslason 1603, Gísli Bjarnason 1606, Eiríkur Stefánsson 1609.
Eftir að Krýsuvíkursókn var lögð til Strandar í Selvogi þjónuðu þar ýmsir prestar og munu margir enn kannast við nöfn margra þeirra. Má þar til nefna Eirík Magnússon hinn fróða, Jón Vestmann og síðast Eggert Sigfússon. Allir sátu þessir að Vogshúsum. Af síðari tíma prestum, er þjónuðu Krýsuvík um lengri eða skemmri tíma, má nefna Odd Gíslason að Stað í Grindavík, Kristján Eldjárn Þórarinsson að Stað, Ólaf Ólafsson að Vogshúsum síðar fríkirkjuprestur í Reykjavík, og Hafnarfirði og síðast Brynjólf Magnússon að Stað, er síðastur vann prestsverk í Krýsuvík.” – (Tekið saman í janúar 1961 – Ólafur Þorvaldsson).

Sjá einnig hér frásögn Ólafs Þorvaldssonar um Krýsuvíkurkirkju að fornu og nýju í Alþýðublaði Hafnarfjarðar – jólablað 1961.

Heimild:
Lögberg-Heimskringla, 45. tbl. 22.11.1962, Krýsuvíkurkirkja, Ólafur Þorvaldsson, bls. 4 og 7
Lögberg-Heimskringa, 46. tbl. 29.11.1962, Krýsuvíkurkirkja, Ólafur Þorvalddson, bls. 1, 2 og 7.

Krýsuvíkurkirkja

Krýsuvíkurkirkja 1964.