Blasíusbás

Blasíus hét helgur maður austur í Armeníu, læknir upphaflega en síðan biskup í borginni Sebasteu (sem heitir nú Sivas og tilheyrir Tyrklandi). Hann dó píslarvættisdauða árið 316 e.Kr. Á ensku er Blasíus nefndur Saint Blaise, á ítölsku San Biagio o.s.frv. Af helgum mönnum eins og honum voru snemma skrifaðar sögur á latínu. Sögu hans var snúið á norrænt mál þegar á 12. öld og er varðveitt í íslenskum handritum. Í Blasíussögu er sagt frá ævi Blasíusar og endalokum, miklum píslum en líka kraftaverkum.

BlasíusEn guðs vottur Blasíus biskup var höggvinn hinn 3. dag febrúaris mánaðar, en sá er hinn næsti eftir Kyndilmessu, er hann fór af jörðu til himins, frá mönnum til engla, frá heimi þessum guði til handa, píndur mörgum píslum, í myrkvastofu settur, stöngum barður og staglfestur, ullarkömbum slitinn og á vatn færður, en að nestlokum sverði höggvinn (Blasíus saga, bls. 269).

Stöku sinnum er minnst á Blasíus í íslenskum ritum. Í Þorlákssögu helga er greint frá jartein sem gerðist á Stór-Reykjavíkursvæðinu, nánar tiltekið á bænum Bútsstöðum (eða Bússtöðum) sem Bústaðavegur hefur síðar verið kenndur við. Smalamaður kom heim frá dagsverki sínu, mælti eitt orð en missti þá málið og gat engu stunið upp í sjö daga. Bóndi hans hét þá á Blasíus en það dugði ekki til. Var þá heitið á Þorlák biskup að auki og þá báða saman og fékk þá smalamaður loks málið (Biskupa sögur II. Íslenzk fornrit XVI (2002), bls. 284).

Kirkjan í Reykjavík fyrr á öldum var kölluð Jónskirkja postula í Vík, eftir guðspjallamanninum og postulanum Jóhannesi (sem lengi framan af var kallaður Jón á íslensku). Heilagur Blasíus virðist hafa verið í hávegum hafður í þessari kirkju. Líkneski af Blasíusi stóð í kirkjunni frá fornu fari og þegar ný kirkja var reist og vígð 1505 var það gert á messudegi Blasíusar, 3. febrúar. (Saga Dómkirkjunnar e. Þóri Stephensen (http://www.domkirkjan.is/AI007.html)).

Kirkjan á Stað í Grindavík var einnig helguð Blasíusi og ekki langt frá var boði í hafi kenndur við hann, Blasíusboði í Reykjanesröst. Hann var sagður „hættulegur jafnvel stærri skipum í þoku og brimi, þar á honum er yfrið grunnt um fjöru; samt munu þar fáir hafa farist“ (Gullbringu- og Kjósarsýsla. Sýslu- og sóknarlýsingar (2007), bls. 40).

Blasíusarbás

Blasíus þessi kemur víðar fyrir í sögu íslenskra örnefna. Á Hrafnkelsstöðum í Hrunamannahreppi nefndist hóll í túninu skammt vestan við bæinn Blasíus en engin skýring er á nafninu. Á Ásgarði í Grímsnesi var völlur í túni kallaður Blasíusvöllur. Þessi nöfn gætu tengst eitthvað dagsetningu Blasíusmessu 3. febrúar eða áheitum á dýrlinginn. Um Blasíus er sagt að hann væri verndari nautasmala og svínahirða, ullarkembumanna og -kvenna, spunamanna og -‘kvenna, og allra tóvinnumanna og -kvenna, vefara, skóara, steinhöggvara og skipasmiða, en gott að heita á hann gegn hálsbólgu, kíghósta og alls konar hálskvillum, barkadrepi og tannpínu, gegn villidýrum og þrumuveðri, og fyrir veikum börnum, svínum og geitum og öllum búpeningi (Guðbrandur Jónsson, Hverjir og hvers vegna, Skírnir CVII, 1933, bls. 53).

Kunnasta örnefnið á Íslandi kennt við Blasíus er sennilega Blasíusbás í landi Staðar í Grindavík. Í örnefnaskrá segir um hann: „Inn í bergið á milli Valborgarkeldu og Skarfaseturs skerst skeifulaga bás og slær bláma á bergveggi hans. Heitir hann Blásíðubás og svo hafa [heimildarmenn] alltaf heyrt hann nefndan“ (Örnefnaskrá Staðar). Í bók eftir séra Gísla Brynjólfsson segir um Blásíðubás: „Eldra nafn er Blasiusarbás. Í honum átti Skálholtsirkja allan reka áður fyrr. Þetta er falleg og sérkennileg náttúrusmíð, ágætt dæmi um átök hraunsins og hafsins, sem molar bergið og hleður því í stórgrýtta urð í sjávarmálinu“ (Mannfólk mikilla sæva – Staðhverfingabók (1975), bls. 31–32).

Brak úr ClamÞarna kemur fram að nafnið sé nú Blásíðubás en ekki Blasíusbás. Fyrir nafnbreytingunni er góð og gild ástæða. Eftir siðaskipti var mikið til hætt að heita á kaþólska dýrlinga og þegar fennt var yfir nafn Blasíusar var örnefnið Blasíusbás orðið óskiljanlegt. Það var því endurtúlkað sem Blásíðubás og hefur tekið yfir örnefnið eða a.m.k. lifað samhliða því. Önnur örnefni kennd við Blasíus sýna þó svo ekki verður um villst að tíðkast hefur að nefna kennileiti eftir dýrlingnum. Athyglisvert er að örnefnin eru öll á suðvesturhorni landsins og aðrar heimildir benda til þess að Blasíus hafi einkum verið kunnur í þessum landshluta. Áður er minnst á tengsl við kirkjuna í Reykjavík og á Stað og bæta má við að Blasíus var aðaldýrlingur kirkjunnar á Laugarvatni og aukadýrlingur víðar, bæði í Árnessýslu og í Borgarfirði (Margareth Cormack, The Saints in Iceland (1994), bls. 85).

Reykjanesviti

Nefna má að fleiri básar við sjó á Suðurnesjum eru kenndir við kirkjunnar menn. Þannig er Lárentíusbás skammt frá Höfnum, sennilega kenndur við Lárentíus Kálfsson, íslenskan biskup sem uppi var á 13. og 14. öld. Það hefur þótt vita á gott að kenna staði við helga menn. Blasíus tengdist sjósókn líka sérstaklega á þann hátt að á Blasíusmessu, 3. febrúar, hófst vetrarvertíð á Suðurlandi. „Þá streymdu vermenn úr flestum héruðum landsins til verstöðvanna á Suðurnesjum og réðu sig í skipsrúm til 11. maí. En þá voru vertíðarlok“ (Jón Eyþórsson, Um daginn og veginn, (1969), bls. 192).

Blasíusmessa var líka haldin hátíðleg í Færeyjum. Þar var dagurinn einnig nefndur Blámessa. Væri veður stillt og gott á Blámessu í Færeyjum vissi það á blautt vor. Sjómenn máttu ekki nefna nafn Blasíusar á báti því þá var hætta á hvassviðri. Blásius eða Blásus er til sem mannsnafn í Færeyjum (Axel Tórgarð, Dagar og nøvn í almanakkanum (1994), bls. 24).

Viðbót: Í Fornbréfasafni Íslands, bindi XV, bls. 630, er getið um Blasinsdal eða Blaciusdal í landi Innra-Hólms á Akranesi. Heimildin er úr Gíslamáldaga frá síðari hluta 16. aldar.

Heimild:
-Hallgrímur J. Ámundason (maí 2010).
-http://www.arnastofnun.is/page/ornefnapistlar_blasius.

Blasíubás

Blasíubás.