Í Emblu, 1. tbl. 01.01.1946, er “Ferðasaga Sigrúnar Gísladóttur frá Reykjavík í Selvog“:
“Þegar ég var telpa austur á Eyrarbakka, heyrði ég oft sjómenn tala um, að þeir ætluðu áð skreppa út í Vog, það er Selvog, rétt eins og við börnin skruppum milli liúsa. Hafði ég því á tilfinningunni, að þetta væri afar auðvelt.
Svo fluttist ég til Reykjavíkur, og árin liðu, en aldrei komst ég í Selvoginn. Áætlun var gerð þangað á ári hverju, því að í Voginn vildi ég komast, þar sem hann var nú líka eina sveitin á Suðurlandi, sem ég hafði ekki komið í. Mig langaði líka að sjá Strandarkirkju, þetta Htla, einfalda guðshús, sem á orðið fúlgur fjár fyrir trú manna á kraft þess, og Vogsósa, þar sem séra Eiríkur hinn fjölkunnugi sat.
Því var það í júní 1940, að ég fekk tvær stallsystur mínar til að skreppa með mér austur í Vog. Við fórum úr Reykjavík um hádegi á laugardag með bíl að Kleifarvatni, gengum upp Lönguhlíð og tókum stefnu þaðan á Herdísarvík. En hvernig er annars Langahlíð, þegar upp er komið, fjallið, sem dregið er með langri, beinni línu og sker sig því svo sterklega úr öðrum fjöllum Reykjaness, sem öll eru eintómar strýtur og hnúkar með skörðum á milli, séð úr Reykjavík? Það var nógu gaman að kynnast því.
Þegar brúninni, sem við sjáum úr Reykjavík, sleppir, taka við mosaþembur, síðan talsverður gróður og víða yndisfagrir valllendisbollar með háfjallablómgresi. Fórum við því ekki óðslega að neinu. Veður var hið bezta, logn og sólskin. En nú fundum við, að þetta fjall er ekki einstakt í sjón, heldur líka í raun. Gróðurinn fer minnkandi, og nú tekur við hraun og aftur hraun, sem virðist alveg ógengt; svo stórgert er það.
Eitt einkennir þennan stað sem fjall, að þaðan sér aðeins upp í himininn, og er því ekki hægt að átta sig á nokkrum hlut nema eftir korti og áttavita eða klukkunni og sólinni. Sjóndeildarhringurinn er ekkert nema hraun og þústir, hver annarri líkar. Frá norðurbrún, sem heitir Langahlíð, lækkar landið til austurs og hækkar svo aftur, svo að það er eins og maður sé niðri í skál. Við gengum upp á hæstu hraunstrýtuna og lituðumst um. Sáum við þá, að hraunið er lægst í miðju. Tókum við nú stóran krók á hala okkar til að leita að útgöngudyrum úr þessu völundarhúsi.
Þegar við komum að þessari lægð, reyndist hún vera helluhraun, sem liggur, má segja, þvert yfir þessar ógöngur. Fréttum við síðar í Selvogi, að það er eina leiðin, sem fær er, þarna yfir. Þarna sáum við meira að segja slóða á hellunum á stöku stað eftir hesta, en þær eru nokkuð víða, þessar steinlögðu götur á Reykjanesfjallgarði. Þegar við komum að suðurbrún þessarar miklu hraunskálar, sáum við út á sjóinn, en fram undan hallar landinu, sem er hraunstraumur mikill, til suðurs. Er hraun það illt yfirferðar, — betra að vera vel skóaður í slíku gangfæri. Í þessum hraunstraumi sáum við einhvers konar dauf strik, sem reyndust vera gata. Var mikil hvíld að fylgja henni. Þessi gata, sem þarna liggur yfir hraunið, er sú elzta, sem við höfum séð á ferðum okkar.
Þessir gömlu götuslóðar tala sínu hljóða máli. Svipir horfinna kynslóða birtast og líða fram hjá. Sagan tekur á sig undarlega skýrar myndir. — Þarna hillir undir langa lest, langt niður frá. Þar er einhver stórbóndinn að fara með ullina, sem er þétt troðið í mislita hærupoka. — Niður hraunið að vestan kemur önnur. Á henni eru skreiðarbaggar svo stórir, að þá ber við loft. Eitthvað á nú að borða af þorskhausum á þessum bæ. — Þarna glittir í gyllta hnappa og skrautbúin reiðtygi. Danska valdið er að fara með fátækan bónda suður að Bessastöðum. Það á að dæma hann til fangelsisvistar á Brimarhólmi, af því að hann stal gamalli rollu til að seðja hungur barna sinna. — Sitthvað segja þessi gömlu spor. — Þarna kemur fólk á stangli — fótgangandi, hörmulega útleikið, með sár á fótum, þrútin augu og svartar tanngeiflur. Gömul kona er að þrotum komin; hún sezt við götuna og stynur mjög. — Þetta fólk er að koma frá eldunum, — Skaftáreldunum. Svona verka gömul spor kynslóðanna á vegfarandann, sem rekur þau.
Nú vorum við komnar niður á Selvogsheiði og höfðum gras undir fótum. Var þá ekki beðið boðanna að tylla sér og taka upp malinn. — Nú gerðust fæturnir viljugir, og var nú gengið rösklega. Ekki sáum við samt Selvog. Þarna eru götur, krossgötur. Við völdum þá, sem stefnir á Herdísarvík, fylgdum henni, þangað til hún hvarf í stórgerðan móa. Allt í einu stóðum við fram á svimhárri brún. Fyrir neðan okkur lá sjórinn og strandlengjan. Við sáum niður í Herdísarvík og bæinn, þar sem stórskáldið okkar, Einar Benediktsson, kvaddi þetta líf. Selvogur blasti við með hinu stóra, fallega Hlíðarvatni. Svo langt, sem augað eygði til hægri og vinstri, sáum við svartar hamrabrúnir. Hvernig áttum við, vængjalausar, að komast þarna niður?
Við komum auga á þráðbeint strik, sem náði milli fjalls og fjöru. Það gat hvorki verið gjá né gata; það hlaut að vera girðing, sem lögð var alla leið upp á fjallsbrún, annars gagnslaus sem vörn fyrir fé. Ákveðið var að reyna þar niðurgöngu, sem reyndist líka sú eina þar um slóðir. Þar hefur vatn brotið skarð í fjallið og myndað skriðu endur fyrir löngu. Er þar einstigi niður. Þar sem nú var orðið kvöldsett og áætlað var að komast að Nesi um kvöldið, gátum við ekki komið að Herdísarvík án þess að taka á okkur stóran krók, þar sem girðingin liggur langt fyrir austan víkina. Var því haldið áfram. Nú voru greiðar götur til bæja. Þarna er fallegur gróður, blóm og birki, móti sólu, í skjóli fjallsins, mikil hvíld fyrir augað frá hraununum, sem við höfðum gengið allan daginn.
Stakkavík er vestasti bær í Selvogi. Komum við þar og fengum mjólk. Var fóikið þar hlýlegt og gott. Hlíðarvatn liggur alveg að Stakkavík að vestan, og var nú freistandi að fá bát yfir vatnið, sem sparaði okkur 2—3 klst. göngu. Bóndinn átti trillubát, sem synir hans voru að tjarga þá um morguninn. Var hann því ekki vel þurr að innan, en velkominn okkur, ef við vildum þiggja hann í slíku ástandi, sem við og gerðum. En botnóttar urðum við býsna vel.
Þá vorum við komnar að Vogsósum. Þar er ljómandi fallegt, — valllendisflatir, þegar túninu sleppir. Vatnið framan við bæinn rennur þar til sjávar gegnum ósinn, sem bærinn dregur nafn af.
Nú var miðnætti. Engin hreyfing sást á bænum. Sjálfsagt allir menn í fasta svefni. Svartbakur, ritur og kríur mynduðu hvítar breiður niðri á fjörunum. Endur syntu letilega með unga sína á vatninu, sem var purpuralitað frá endurskini sólarlagsins.
Við gengum niður að sjónum. Það var fjara. Skerin, vafin sjávargróðri, náðu langt út í sjó og mynduðu spegilslétt lón á milli sín. Þar var æðarfuglinn og ú-aði hálfólundarlega yfir þessu ónæði svona um hánóttina. Þá dró það ekki úr fegurðinni, að máninn, sem var kominn nokkuð hátt á loft, speglaðist í lónunum. Allt var kyrrt. Náttúran tók á sig náðir. Í svona andrúmslofti gleymist stund og staður. Maður samlagast náttúrunni, leggst endilangur á sjávarbakkann og teygar að sér ilminn úr jörðinni og seltuna frá sjónum, nýtur þess að vera til. Við gengum í rólegheitum gegnum byggðina.
Að Nesi, sem er austasti bærinn, komum við á fimmta tímanum. Þar hugðumst við að fá leigða hesta hjá Guðmundi bónda upp að Hveragerði.
Urðum við nú að vekja upp, því að við þörfnuðumst hvíldar. Var okkur mjög vel tekið. Sofnuðum við fljótt og sváfum til kl. 9 um morguninn. Fórum við þá að fala hestana af Guðmundi, en það var ekki auðsótt mál, enda ástæða til. Þannig var ástatt, að sauðburður stóð yfir og því nýafstaðnar miklar smalamennskur, enda dreifðu ærnar sér um tún og hága með lömbin sín. Líka barst að mikill rekaviður vegna stríðsins, liestar því notaðir til liins ýtrasta við störfin. Samt var nú svo komið, að Guðmundur ætlaði að reiða okkur upp að Hrauni í Ölfusi.
Á hlaðinu í Nesi voru kynstrin öll af rekaviði, sem staflað var upp í laupa. Hafði Guðmundur selt það allt til mæðiveikinefndar. Átti að senda bát eftir timbrinu í apríl-maí, en enginn hafði komið ennþá. Með þeim bát átti fólkið að fá nauðsynjar sínar úr kaupstaðnum. Var því víða orðið svo þröngt í búi, að til vandræða horfði. Skorti fólk marga hluti.
Húsmóðirin í Nesi átti eitthvað eftir af hrísgrjónum, svo að hún gat gefið okkur mjólkurgraut, svo og kjöt og slátur. Kaffikorn átti hún líka. Garðamatur var að þrotum kominn, því að það varð að ganga á hann, þegar mjölmatinn vantaði.
Fórum við stallsystur nú að skoða okkur um í Voginum, heimsóttum við einu manneskjuna, sem við þekktum þar, Margréti að nafni. Þótti henni hart að geta ekki gefið okkur kaffi, því að það var þrotið, og ekki þýddi að leita á náðir nágrannanna, því að alls staðar var sama sagan. Margrét var að elda sér kjötsúpu úr síðasta útákastinu, sem hún átti, og, sem meira var, síðasta kjötbitanum, svo að hún sagðist bara ekkert hafa að borða, þangað til báturinn kæmi með vörurnar. Ekki var að tala um að komast á sjóinn. Einn bátur sjófær, en engir menn til að róa, því að allur tíminn fór í að bjarga lömbunum.
Margrét fór með okkur út að Strandarkirkju og sýndi okkur hana. Er það ein snotrasta kirkja, sem ég hef komið í, mjög snyrtileg og vel við haldið. Einhver sérstök „stemning” er í þessari kirkju. Ef til vill er það ímyndun vegna þjóðsögunnar um hana, og hversu vel hún verður við áheitum. Mikill og sterkur garður er nú hlaðinn henni til varnar, og virðist þess ekki vanþörf, því að satt að segja er það furðulegt, að hún skuli ekki fyrir löngu vera komin í sjóinn, svo nærri honum sem hún stendur.
Þessi varnargarður hefur líka varið landið frá eyðileggingu foksandsins, sem teygði sig inn eftir landinu og át upp gróðurinn, svo að þar, sem fyrir nokkrum árum sá ekki stingandi strá, eru nú gróðursælar valllendisflatir. Þegar við komum aftur heim að Nesi, færði Guðmundur okkur þau tíðindi, að hins langþráða báts væri nú loksins von upp úr hádegi þann sama dag. Var því alveg sjálfsagt að nota ferðina til Stokkseyrar, en þaðan var báturinn. Bæði var það fljótara og svo komumst við hjá því að níðast á veslings lúnu klárunum.
Eftir burtfarartíma bátsins frá Stokkseyri að dæma reiknaðist þeim í Selvogi svo til, að hann gæti farið þaðan um sex leytið e. h. þann dag. Með því móti átti okkur að heppnast að ná í síðustu áætlunarferð til Reykjavíkur.
Teitur Eyjólfsson, forstjóri Vinnuhælisins að Litla-Hrauni, hafði veg og vanda af þessari bátsferð. Þurftum við því að leita til hans með flutning á okkur. Teitur sló á glens, þegar við bárum upp bónorðið, sagðist hreínt ekki vita, hvernig það færi, þar sem við værum þrjár ungar stúlkur. Skipshöfnin væri nefnilega þrír ungir piltar. Formaðurinn væri reyndar talinn einn sá öruggasti á Stokkseyri, Ingimundur á Strönd. Hann sagðist ekki vita, nema þeir slepptu allri stjórn á bátnum og keyrðu í strand, ef þeir hefðu slíkan ágætis farm um borð! Ég hugsaði í símann: Það sér á, að síminn er ekki sjónvarp!
Tafir urðu svo miklar við útskipun í Voginum, að klukkan var orðin 2 um nóttina, þegar lagt var af stað þaðan. Við stúlkurnar áttum auðvitað „kojuvakt”. Við héldum eldinum við í „kabyssunni”, fengum okkur kaffi, sem var þar á könnunni, og létum fara vel um okkur.
Nú vorum við komin upp undir Stokkseyri. Var þá ekki orðið það hátt í, að við gætum flotið inn fyrir. Urðum við því að doka við. Settist þá öll „skipshöfnin” að kaffidrykkju niðri í „lúkar”.
Var þar glatt á hjalla. Allt í einu tekur báturinn snarpan kipp. — Jú, við dinglum þar uppi á skeri. — Báturinn er kominn í strand! Það er yfirleitt ekki hlátursefni, þegar skip stranda á þessum slóð um, en í þetta sinn vakti það óskiptan hlátur skipshafnar og farþega vegna spár Teits forstjóra. Flóðið losaði um bátinn með hjálp vélarinnar, og allir björguðust vel í land. Til Reykjavíkur komumst við um hádegi á mánudag.”
Heimild:
-Embla, 1. tbl. 01.01.1946, Ferðasaga, Sigrún Gísladóttir, bls. 83-89.