Fornigarður

Fornigarður í Selvogi er forn vörslugarður er náði milli Hlíðarvatns við Vogsósa og austur fyrir Nes, austasta bæinn í Selvogi, eða Sæluvogi, eins og hann áður var nefndur. Garðurinn mun ekki alltaf hafa heitið “Fornigarður”. Áður nefndist hann Strandargarður eða Langigarður, en nú á tímum er hann nefndur Fornigarður vegna þess að hann telst með elstu mannvirkjum hér á landi. Reyndar er um tvískiptan garð að ræða; annars vegar Langagarð og hins vegar Fornagarð.

Fornigarður

Fornigarður í Selvogi.

Heimildir um Fornagarð eru t.d. eftirfarandi:
1821: “Máské mætti telia Meniar-Fornaldar: Sýnishorn af þeim stóra Vördslu gardi, úr Hlídar-Vatni, allt framm ad Strónd og einlægum Túngardi þadan, austur ad Snióthúsa vórdu, fyrir óllum Túnum sveitarinnar / sem óll skyldu þá hafa samfóst verid / med læstu Hlidi ad Lógbýli hvóriu; – Eignad er vrk þetta Erlendi Þorvardssyni sem Hér var Lógmadur sunnan og Austan, frá 1520, til 1554; bió léngi sin efri ár ad Strónd i Selvogi og Deidi þar 1576. … Þessum naudsynlegu Túna og Vórdslu Górdum verdur hér ei vidhaldid, vegna sandfoks, sem þegar hefur eydilagt, þetta, i Fyrndinni góda og Prídilega Pláts, er þá nefndist Sæluvogur, ad sógn Manna.”

Fornigarður

Fornigarður ofan Ness.

1840: “Engar fornleifar eru hér af neinu merkilegu, nema garðlag eftir stóran varnargarð frá tíð Erlendar lögmanns Þorvarðssonar, sem liggur úr Hlíðarvatni og austur að Snjóthúsavörðu, fyrir ofan alla byggðina. Var þá hagalandið milli garðs og fjalls, en tún og engjar milli garðs og sjóar, allt sjálfvarið. Mælt er, að læst hlið hafi verið fyrir hverju lögbýli, og átti hvör heimabóndi að passa sitt hlið, að ei stæði opið, og þessvegna læst, að enginn gæti opnað hliðið óforvarandis.”

Fornigarður

Fornigarður í Selvogi.

1902: “Aðalgarður lá fyrir ofan alla bæi í Selvogi, frá Hlíðarvatni fyrir ofan Vogsósa í landsuður að Stórhól, og aftur í austur frá Stórhól austur fyrir Nes. Sést hann enn glögt víðast hvar. Fyrir austan Nes sér þó ekki garð austar en nú er túngarðurinn … Án efa hefir aðalgarðurinn legið fyrir austan Snjólfshús. En hann hefir líklegast verið færður þangað sem hann er nú, eftir að þau voru komin í eyði, og þá bygður aftur úr sama grjótinu, en sandur hulið það, sem eftir kann að hafa orðið.”

Fornigarður

Fornigarður – ÓSÁ.

“Ævagamall túngarður liggur fyrir ofan alla byggðina [í Selvogi]; hann nær alveg austur undir vita og vestur að Vogósum. Víða hefur fokið mjög að honum sandur, svo hann er nær á kafi, en þó sést hann sums staðar. Hlið voru á garðinum heim að hverjum bæ, gjarnan kennd við bæina. Sagt er að hliðin hefðu verið læst og grind í.”

Hægt er að ganga eftir garðinum frá Hlíðarvatni yfir að Nesi. Skammt ofan við túnið á Vogsósum eru tóftir og fjárborg (ekki vitað hvað er – ekki skráð). Ofan við Strönd kemur garðurinn saman við annan engu minni. Á loftmynd sést lögun hans vel. Austaqn Strandarkirkju beygir garðurinn til austurs, yfir veginn að kirkjunni og liðast síðan um Selvoginn austur fyrir nes, sem fyrr sagði.
Sjá lýsingu á hinum u.þ.b. 7 km langa garði í annarri FERLIRslýsingu er Þórarinn bóndi Snorrason á Vogsósum fylgdi þátttakendum úr hlaði við vesturenda garðsins – sjá HÉR.

Heimildir:
FF, 228; SSÁ, 226-27; Brynjúlfur Jónsson 1903, 51-52; Ö-Þorkelsgerði, 1.

Selvogur - örnefna- og minjakort

Selvogur – örnefna- og minjakort – ÓSÁ.