Krýsuvíkurkirkja

Timburkirkja á grunni torfkirkjunnar frá því á 12. öld í Krýsuvík var byggð 1857 og var hún sóknarkirkja allt fram undir 1910, en aflögð 1917.

Krýsuvíkurkirkja

Krýsuvíkurkirkja fyrrum – tilgáta.

Fyrir altari var „fornfáleg altaristafla“. Kirkjuhúsið var í framhaldinu m.a. notuð til íbúðar frá 1929 uns hún var endurbyggð 1964 og endurvígð þann 31. maí það ár af biskupi landsins. Viðgerðir við kirkjuna hófust svo á ný 1986 og var kirkjan þá færð til upprunalegri gerðar. Hún brann til grunna aðfaranótt 2. janúar 2010, en var byggð að nýju skv. upphaflegu fyrirmyndinni og komið á kirkjustaðinn þann 10. okt. 2020.

Ný endurgerð Krýsuvíkurkirkja var vígð hvítasunnudaginn 5. júní s.l. Af því tilefni var gefinn út bæklingur um sögu endurbyggingarinnar, flutninginn á vettvang í Krýsuvík, afhendinu og kirkjuvígsluna. Í honum er m.a. að finna yfirlit um þátttakendur í endurreisninni, sbr. meðfylgjandi upplýsingamynd.

Krýsuvíkurkirkja

Krýsuvíkurkirkja – altaristaflan borin til kirkja á vígsluathöfninni. (Ljósm. Árni Sæberg)

Krýsuvíkurkirkja brann til grunna aðfaranótt 2. janúar 2010 en kirkjan var byggð árið 1857, gerð upp og endurbyggð 1964 og síðar færð sem næst í upprunalegt horf með vinnu sem hófst 1986. Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi svo rúmlega tvítugan mann í eins árs fangelsi, skilorðsbundið til tveggja ára, fyrir að leggja eld að Krýsuvíkurkirkju.
Kirkjan stóð við hlið Krýsuvíkurbæjarins en það sem eftir var af honum var jafnað við jörðu með jarðýtu um 1960 ásamt fleiri minjum.

Krýsuvíkurkirkja

Krýsuvíkurkirkja – kirkjugestir við vígsluna. (Ljósm. Árni Sæberg)

Þann 25. febrúar 1964 samþykkti bæjarstjórn Hafnarfjarðar að afhenda Krýsuvíkurkirkju ásamt kirkjugarði og öðrum mannvirkjum tilheyrandi staðnum Hafnarfjarðarsókn til fullrar eignar og varðveislu, ásamt landspildu umhverfis kirkjuna, samtals 7.096 m² að stærð.

Krýsuvíkurkirkja

Endurnýjað og uppfært upplýsingaskilti við Krýsuvíkurkirkju.

Áfallið varð mikið þegar gamla kirkjan í Krýsuvík var brennd í ársbyrjun 2010. Endurgerð hennar í framhaldinu, sem fór fram undir handleiðslu kennara og nemenda Iðnskólans í Hafnarfirði, síðar Tækniskólans, lauk áratug síðar. Þann 9. október 2020 var kirkjan flutt á grunn gömlu kirkjunnar í Krýsuvík. Formleg afhending fór fram á vettvangi 22. júní 2020. Þá var kirkjan afhent Þjóðminjasafni Íslands, eiganda kirkjunnar frá árinu 1857, sem síðan fól hana Hafnarfjarðarkirkju til varðveislu.

Krýsuvíkurkirkja

Krýsuvíkurkirkja – Kristján Valur Ingólfsson, vígslubiskup, annaðist vígsluna. (Ljósm. Árni Sæberg)

Formleg vígslan tafðist hins vegar vegna heimsfaraldurs þar til s.l. hvítasunnudag, árið 2022. Fyrrum vígslubiskup í Skálholti, séra Kristján Valur Ingólfsson, annaðist vígsluna og flutti bæn að því tilefni.

Krýsuvíkurkirkja

Krýsuvíkurkirkja – altaristaflan komin á sinn stað ásamt öðrum kirkjumunum.

Meðal annarra dagskrárliða voru innganga og upphenging altaristöflu Sveins Björnssonar, upphafsorð Jónatans Garðarssonar, formanns Vinafélags Krýsuvíkurkirkju, ritningarorð Hildar Ingvarsdóttur, skólameistara Tækniskólans, “Upp er risin Krýsuvíkurkirkja; ljóð ort og flutt af sr. Gunnþóri Ingasyni í tilefni af vígslu kirkjunnar og kirkjubæn sr. Jónínu Ólafsdóttur.

Krýsuvíkurkirkja

Krýsuvíkurkirkja – Þorkell Marinósson, yfirsmiður.

Að lokaorðum Magnúsar Gunnarssonar, formanns sóknarnefndar Hafnarfjarðarkirkju, loknum var messuvíni dreypt á gröf Sveins Björnssonar utan við kirkjuna. En hvers mátti fyrrum sýslumaðurinn Árni Gíslason í Krýsuvík að gjalda? Hann var sýslumaður í Skaftafellssýslum 1852-1879 en bjó síðast í Krýsuvík 1880 til dauðadags 26. júní 1898. Hafði um tíma hæsta lausafjártíund allra búandi manna á Íslandi. Talinn dugandi embættismaður og vinsæll í héraði, einkennilegur í lund og háttum, gamansamur og hagmæltur. (Ísl. æviskrár I, bls. 44.). Hann var jarðsettur aftan við kirkjuna og er legsteinn hans þar enn í dag.

Hryssingslegt veður var í Krýsuvíkinni á vígsludaginn; suðaustan rigning og þokusúld – dæmigert. Hið jákvæða var að kirkjuhúsið hélt vatni og veitti skjól. Að vígslu lokinni var kirkjugestum boðið til stofu í Sveinssafni.

Hrafnkell Marinósson, kennari við Iðnskólann, átti ekki minnstan þátt í nýsmíðinni. Aðspurður eftir vígsluathöfnina í Krýsuvík hvað væri honum minnistæðast í tíu ára byggingarsögu kirkjunnar á lóð Iðnskólans í Hafnarfirði (síðar Tækniskólans) svaraði hann án umhugsunar: “Félagi, það er samvinna og trú”.

Krýsuvíkurkirkja

Krýsuvíkurkirkja – Þátttakendur í endurreisn Krýsuvíkurkirkju.