Krýsuvíkurkirkja

Kristján Eldjárn skrifaði eftirfarandi í Kirkjuritið  1953 um Björn Jóhannesson og endurreisn Krýsuvíkurkirkju:
Bjorn johannessin-1“Hinn 22. nóv. 1964, andaðist Björn Jóhannesson fyrrv. forseti bæjarstjórnar Hafnarfjarðar, tæplega sjötugur að aldri. Allmörg undanfarin ár bafði hann dregið sig í hlé frá þeim félagsmálastörfum, sem setja svip sinn mest á ævidag hans, og olli því sjúkdómur sá, er nú hefur snögglega dregið hann til dauða. En Björn sat þó ekki auðum höndum þessi síðustu ár sín. Hann átti sér merkilegt hugðarmál, sem honum auðnaðist að koma heilu í höfn, áður en var allur allur, og sá minnisvarði mun að öllu skaplegu lengi standa brautu nær og lofa sinn mann. Meðal þeirra stórbýla landsins, sem breyttir þjóðfélagshættir hafa dæmt úr leik og dregizt hafa upp fyrir augunum á þessari kynslóð, er Krýsuvík í Gullbringusýslu. Húsin féllu hvert á fætur öðru og lífið fjaraði út, uns ekkert stóð nema gamla kirkjan og í henni hírðist lengi gamall maður, síðasti Krýsuvíkingurinn, og þrjózkaðist við að hlýða tímans kalli, unz þar kom, hann var ekki að spurður. Lauk þar með langri sögu, en eftir stóð kirkjan ein, opin og öndverð, illa til reika en traust að stofni til, og umhverfis hana lágar þústir yfir gröfum þeirra, sem í kirkjugarðinum hvíla. Fór þá eins og oft vill verða, að margir hneyksluðust og létu þung orð falla um niðurníðslu kirkjunnar, en sá var einn, sem sá og skildi, að lítið stoðar að tala og skrifa og ætla öðrum. Það var Björn Jóhannesson. Hann tók málið í sínar hendur og gerði það ekki endasleppt.
Hinn 18. maí 1954 skrifaði Björn bæjarráði Hafnarfjarðar og gerði grein fyrir, hvernig komið væri hag gömlu kirkjunnar í Krýsuvík, benti á hve illa þetta lágreista guðshús væri nú leikið, en sýndi um leið fram á, að það væri þó ekki ver farið en svo, að með dálitlu átaki mætti færa það í sitt upphaflega lag. Í bréfi sínu segir Björn meðal annars: „Það mun margur álíta, að rétt væri að rífa þetta gamla kirkjuskrifli og slétta kirkjugarðinn, en ég tel, að það væri mjög misráðið. Þetta eru þær einu minjar, sem eftir eru af gömlu Krýsuvík, og þá um leið þær merkustu, og ég tel, að komandi kynslóðir hefðu gott af því að fá innsýn í hina lágreistu sali fortíðarinnar og sjá, hvað forfeðurnir urðu að gera sér að góðu og urðu að mætum og dugandi mönnum samt. Eg álít, að við Íslendingar höfum verið allt of kærulausir með að viðhalda ýmsum gömlum minjum, og eftir því sem þeim fækkar, þurfum við að vera fastheldnari með þær og sjá um, að þær fari ekki forgörðum, venjulegast fyrir trassaskap og sinnuleysi. Hvað vildum við ekki nú gefa fyrir ýmislegt, sem eyðilagzt hefur af þessum sökum?
Krysuvikurkirkja 1964-21En um það tjáir ekki að tala, heldur að reyna að bjarga því, sem bjargað verður”. Síðan biður Björn um, að sér verði leyft að hefjast handa um viðgerð kirkjunnar og að eigandi Krýsuvíkur, Hafnarfjarðarbær, veiti sér umráðarétt yfir henni og kirkjugarðinum að minnsta kosti tíu ár, sem hann kveðst vilja nota til að gera við kirkjuna, bænum að kostnaðarlausu, en síðan muni hann afhenda bænum hana aftur eða fyrr, ef þannig semdist. Bæjarstjórn Hafnarfjarðar brást vel og viturlega við þessari málaleitan Björns og lét allt vera svo sem hann vildi. Tók hann þá til óspilltra málanna um endurbyggingu kirkjunnar og vann að því ötullega á næstu árum. Kostnaðinn af því bar hann að langmestu leyti sjálfur, en naut þó góðrar fyrirgreiðslu nokkurra manna, og ber þar um fram allt að nefna Sigurbent Gíslason í Hafnarfirði, sem tók að sér að gera við kirkjuna sjálfa. Sagði Björn, að án liðlegheita og ósérplægni Sigurbents hefði sér orðið óhægt um að koma viðgerð kirkjunnar í kring. Skal það sízt efað, svo erfitt sem það er á vorum veltitímum að fá nokkurn mann til þess að vinna að dútli eins og þessu.
síðastliðnu sumri, hinn 31. maí var svo Krýsuvíkurkirkja vígð af biskupi landsins að viðstöddum þeim mannfjölda, sem rúmast getur í hinu litla guðshúsi. Þetta var sérkennileg stund, kirkjuvígsla á eyðistað, en Björn Jóhannesson hafði þá trú, að kirkjan yrði ekki aðeins minjagripur, þegar fram líða stundir, heldur yrði hún aftur sóknarkirkja þeirra manna, sem í framtíðinni myndu setjast að í Krýsuvík, þegar aftur verða not fyrir þau náttúrugæði staðarins, sem enginn verður um sinn til að nytja. En hvað sem menn kunna að halda um þessa trú Björns, munu þó allir þeir, sem staddir voru í Krýsuvík þennan sumardag hafa verið sammála um, að hér var gott málefni til lykta leitt.
krysuvikurkirkja 1940-21Krýsuvíkurkirkja er ekki stór eða vegleg, enda byggð fyrr fámennan söfnuð í afskekktri sveit, og ekki er hún heldur mjög gömul, smíðuð 1857, vafalítið af Beinteini Stefánssyni, smið í Arnarfelli, afa Sigurbents Gíslasonar, en hún er eigi að síður sögulegur minnisvarði og þokkaleg í öllu sínu látleysi. Víst mun einhverjum hafa fundizt fátt um, þegar Björn fór að láta hressa við hið vanrækta hús á eyðistað. Það er gamla sagan. Þegar verkinu er lokið, gleymast úrtöluraddirnar og allir verða ánægðir. Þessi varð reynsla Björns Jóhannessonar. Hann hafði sett sér mark, að gera við Krýsuvíkurkirkju og búa hana um nauðsynjum á tíu árum. Nú var sá tími liðinn, enda var kirkjan hér, risin upp úr sinni niðurlægingu, og allir kepptust um að votta Birni virðingu sína og þakka framtak hans. Vígsludagur kirkjunnar var sigurdagur í lífi hans.
Endurreisn Krýsuvíkurkirkju var langt komið, þegar Björn Jóhannesson kom fyrst að máli við mig um málefni hennar fyrir nokkrum árum. Eftir það höfðum við töluvert samband okkar á milli, og ég fór alloft með honum til Krýsuvíkur. Sú var hugmynd hans, að réttast væri að fela Þjóðminjasafni Íslands framtíðarforsjá kirkjunnar, og  hreyfði hann því máli við bæjarstjórn Hafnarfjarðar. Kom þar, að bæjarstjórnin ákvað að fela safninu kirkjuna ásamt vænni landspildu umhverfis hana, en Björn gaf allt sem hann hafði til hennar lagt. Er gjafabréf bæjarstjórnar dagsett í Hafnarfirði hinn 18. september 1964, og síðan er Krýsuvíkurkirkja á  fornleifaskrá og eitt þeirra húsa, sem vernduð verða á vegum hins  opinbera sem menningarsögulegar byggingar.
Á fögrum haustdegi, hinn 19. september, vorum við Björn í síðasta sinni saman í Krýsuvík. Gerðum við þá úttekt á öllu, sem í kirkjunni er, en Björn afhenti mér skrá þar sem nákvæmlega er tilgreint hvað hver og einn hafði til hennar gefið, en flest af því er að vísu frá honum  sjálfum. Þarna var ekkert hálfverk á, og mikil var gleði Björns að sjá þetta mikla áhugamál sitt komið heilt í þá höfn, sem hann hafði dreymt um. Honum var það mikið gleðiefni að verða þess var, hve margir lögðu leið sína heim að kirkjunni, eftir að opnaður var hinn nýi Grindavíkurvegur, sem liggur hjá garði í Krýsuvík. Þótti honum það sem staðfesting þess, að kirkjan sem hann hafði reist úr rúst, ætti enn erindi við lífið og hann hefði barizt fyrir réttum mál stað. Hugði hann gott til að fylgjast með mannaferðum heim að Krýsuvík á komandi árum, ef þess yrði auðið. En hann vissi líka, að kallið gat komið snögglega, eins og nú er komið á daginn, og það var honum því fró og fullnæging að honum hafði auðnazt að ná settu marki, og hann var þakklátur öllum, sem höfðu stutt hann til þess á einhvern hátt.
Ókunnugt er mér hvað upphaflega kveikti áhuga Björns fyrir málstað Krýsuvíkurkirkju, því að ekki var hann bundinn staðnum tryggðaböndum ættar og uppruna. En fágætur var sá áhugi, sem hann sýndi þessu málefni, og sá kærleikur, sem hann lagði þar í hvert handtak, og af dæmi hans mætti mikinn lærdóm draga. En efst er mér í huga þakklæti til Björns fyrir hið merkilega framtak. Hann var í fyllsta skilningi björgunarmaður Krýsuvíkurkirkju, og það er honum að þakka, að land vort er þannig einu menningarsögulegu húsi ríkara. Þau eru fá, mannaverkin á hinni nýju Grindavíkurleið. Þeirra merkast er hin gamla kirkjan, og minning Björns mun lifa með henni.”

Eftirfarandi viðtal við Björn Jóhannesson um endurreisn Krýsuvíkurkirkju birtist í Vísi 1964:

Krýsuvíkurkirkja endurreist.
Bjorn johannesson-22Fyrir nokkrum dögum birtum við fregn um það, að maður nokkur hér í borg að nafni Björn Jóhannesson hefði ráðizt í það að endursmíða og endurreisa kirkjan í Krýsuvík. Menn spurðu hvað vekti fyrir honum með þessu. Verk hans var lofsamlegt, það geta þeir bezt borið um, sem komið hafa suður í Krýsuvík á sfðustu áratugum og séð, hvernig hið gamla kirkjuhús þar var útleikið, Í stuttu máli í hinni verstu niðurníðslu. En hins vegar finnst þar enginn söfnuður, til skamms tíma var þar allt í eyði, nú vinna þar örfáir Hafnfirðingar við gróðurhúsarækt.
Við skulum lofa honum sjálfum að svara þessu, eins og hann orðaði það við fréttamann Vísis er heimsótti hann að heimili hans, Snorrabraut 83.
— Ég vildi endurreisa Krýsuvíkurkirkju fyrir framtíðina sagði hann. Það má vera, að mönnum finnist einkennilegt að byrja á kirkjunni áður en söfnuðurinn er til. En Krýsuvík er framtíðarstaður, einn mesti framtíðarstaður á landinu. Að hinu væri fremur að finna, að áður en áratugur er liðinn verður þessi kirkja orðin of lítil fyrir söfnuðinn. Helzt hefði þurft að stækka hana um leið og hún var endurreist. Framtíðarmöguleikarnir í Krýsuvík eru geysilegir, bæði í jarðrækt og jarðhita.
— En hverjar voru hvatirnar til að takast þetta verk á hendur upp á eigin spýtur? — Ætterni? — Uppruni?
— Nei, ég er ekki ættaður úr Krýsuvík, heldur húnvetnskur, en fluttist kornungur til Hafnarfjarðar með foreldrum mínum. Faðir minn var Jóhannes Sveinsson, sem lengi var ökumaður, var með hestvagn í flutningum í Hafnarfirði og til Reykjavíkur. Ég var líka í slíkum flutningum fyrst í stað, síðan fór ég út í ýmislegt annað, meðal annars útgerð, starfaði lengi með Ásgeiri Stefánssyni. Einnig var ég kosinn í bæjarstjórn Hafnarfjarðar og þannig kynntist ég Krýsuvík, þegar Hafnarfjarðarbær keypti jörðina af Einari Benediktssyni. Hann var með jörðina á vegum einhvers ensks fyrirtækis, sem vann þar brennistein. Sjálfur hélt hann eftir Herdísarvík fyrir sig eins og allir þekkja.
— En nú eruð þér fluttur til Reykjavíkur
— Já, ég veiktist, og varð að draga mig út úr flestu, en þá fékk ég áhuga á Krýsuvíkurkirkju. Ég hafði engar sérstakar taugar til staðarins, en þegar ég kom í Krýsuvík og sá niðurlægingu þessa húss, sem áður hafði verið guðshús, sveið mér það og mig greip löngun til að bæta úr því. Ég skrifaði vinum mínum í bæjarstjórn Hafnarfjarðar og beiddist leyfis til að mega gera kirkjuna upp og það leyfi var auðfengið.

Gamalt höfuðból.
Krysuvik 1810-22Við sitjum inni í bókaherbergi Björns á Snorrabrautinni.
Hér eru raðir bóka með sögnum og þjóðlegum fróðleik með veggjum, sýnilegt að húsráðandi hér hefur hugleitt liðna tíma, starf og ættir forfeðranna lítur í gráa forneskju. Og hér nefur hann kynnt sér sögu Krýsuvíkur af ýmsum ritum. Talið berst fljótlega að fyrri tímabilum blómlegrar byggðar, þegar þar var höfuðbólið Krýsuvík og fjöldi minni bæja og kota, sumir bændurnir bláfátækir, aðrir gátu með gætni og hyggindum orðið bjargálna. Hér er lifað á fjárrækt, Krýsuvík var meðal stærstu og beztu sauðjarða á landinu, fjárgæzla þó erfið. Í Krýsuvíkurbjargi var jafnan auðug eggjataka og margir æfðir sigmenn í byggðarlaginu. Og svo var sjórinn stundaður frá Herdísarvík, sem tilheyrði Krýsuvík.
Síðasti stórbóndinn í Krýsuvík var Árni Gíslason áður sýslumaður á Kirkjubæjarklaustri, bróðir séra Skúla þjóðsagnasafnarans fræga á Breiðabólstað. Árni flutti til Krýsuvíkur úr Skaftafellssýslu og flutti þá með sér á annað þúsund fjár. Hann varð fyrir miklum skakkaföllum í byrjun búskapar í Krýsuvík, en náði sér þó aftur á strik. Hann andaðist rétt fyrir aldamótin. Þá voru mjög erfiðir tímar fyrir landbúnaðinn, fjársalan til Bretlands hætt og almennur vinnufólksflótti að sjávarsíðunni. Eftir það bar Krýsuvík aldrei sitt barr og niðurlæging staðarins hófst nokkru síðar, kringum 1930 lagðist hann að mestu í eyði, einangrunin hafin, enginn þjóðvegur fyrr en seinna, — þegar Krýsuvíkurvegur var lagður var það orðið of seint, allt komið í eyði. Síðast bjó einsetumaður í Krýsuvík, Magnús Ólafsson. Og híbýli hans voru einmitt gamla kirkjan. Þá var búið að rífa úr henni allt. kirkjubekki, predikunarstól, altari, sumir kirkjumunir teknir til geymslu, annað glatað.

Reist upphaflega fyrir 107 árum.
krysuvik 1910-22Og svo snýst talið að sjálfri kirkjunni. Í Krýsuvík hefur verið kirkja frá því um 1200. En þessi kirkjubygging er frá 1857 Þá voru um 70 manns í sókninni. Hún var þá útkirkja frá Selvogi. Hún var reist ur rekaviði, en jafnan hefur verið nokkur reki á Krýsuvíkurfjörum. Það var vandað til hennar. Við komumst að því segir Björn, að viðir hennar voru enn sterkir og ófúnir, gólfið var verst farið, grautfúið.
Þá er það hvaða prestar þjónuðu þessari kirkju, en hún var ýmist útkirkja frá Selvogi eða Grindavík. Fyrst er að telja Lárus Scheving í Selvogi 1800-70. Þá koma Grindavíkurprestar Kristján Eldjárn Þórarinsson 1871-1878 og Oddur Gíslason 1878-1880. Þá koma aftur Selvogsprestar Ólafur Ólafsson voru á næsta tímabili Brynjólfur Gunnarsson 1908-1910 og Brynjólfur Magnússon 1910 og þar til kirkjan var lögð niður í Krýsuvík 1929, enda allt að komast í auðn.

Í niðurníðslu.
Krysuvik 1923-22Síðast bjó einsetumaðurinn Magnús Ólafsson sem fyrr segir í gömlu kirkjunni. Þegar hann veiktist og var fluttur burt kringum stríðsbyrjun lá Krýsuvík eftir mannlaus. Þá varð niðurlæging kirkjunnar mest. Var þá ömurlegt að skoða hana, gluggar brotnuðu úr henni, dyrnar opnuðust og stórgripir leituðu sér skjóls inni í henni. Þannig stóð í nærri tvo áratugi. Hvarvetna hef ég mætt áhuga og góðvild til þessa starfs og rekizt á margar skemmtilegar tilviljanir. Bezt af öllu var að ég fékk í lið með mér afbragðs smið, Sigurbent Gíslason í Hafnarfirði. Svo skemmtilega vildi til að hann er einmitt dóttursonur smiðsins sem reisti kirkjuna 1857. Afi hans smiðurinn var Beinteinn Stefánsson, sem bjó undir Arnarfelli í Krýsuvík. Dóttir hans var Sigríður móðir Sigurbents.

Gamlir kirkjugripir.
Svo voru til nokkrir gamlir kirkjugripir Krýsuvíkurkirkju, sem teknir höfðu verið til varðveizlu 1929 og settir á Þjððminjasafnið þegar kirkjan var lögð niður. Þá er að nefna kirkjuklukkuna. Hún hafði verið flutt til Grindavíkur og var í kirkjunni þar. Ég var að vísu hálf kvíðinn að fara að nefna það við sóknarprestinn, en sá kvíði var ástæðulaus. Hann skildi það fullkomlega að  Krýsuvíkurkirkja ætti að fá sína gömlu klukku, því að rétt skal vera rétt. Svo fór ég til Grindavíkur og klukkan var tekin niður. Nú klingir hún yfir eyðibyggðinni í Krýsuvík. Aðra klukku fékk ég að gjöf hjá Fríkirkjusöfnuðinum í Hafnarfirði. Það var minni klukka, sem hafði verið skipsklukka og á henni stóð grafið heitið Enganes. Hún lá ónotuð hjá fríkirkjusöfnuðinum og þeir vissu ekki hvaðan hún var komin.

Enganes-klukkan.
En ég komst líka að því fyrir tilviljun. Ég var að endurlesa æviminningar Thor Jensen, sem Valtýr skrifaði og þar blasir þá við mér öll saga litlu klukkunnar, botnvörpuskipsins Enganess, sem kom frá Englandi til Vídalíns-útgerðar í Hafnarfirði, en enski klukkusmiðurinn hafði misritað nafnið Enganes. Síðast strandaði Enganes í Grindavík haustið 1898. Og nú verður samhringt með Enganesklukkunni í Krýsuvík.
Þá hafði Krýsuvíkurkirkja átt gamla og mjög sérkennilega og fallega ljðsastjaka úr tini, sem munu vera frá miðri 17. öld. Þeir voru komnir á Þjóðminjasafnið, svo að ég lét gera afsteypu af þeim í kopar. Hins vegar lagði Þjóðminjasafnið til gamla altaristöflu af útlendri gerð af Kvöldmáltíðinni.
Þannig hefur Krýsuvíkurkirkja verið endurreist. Það var byrjað á kirkjunni, en ég er í engum vafa um það, að söfnuðurinn kemur á eftir, sagði Björn Jóhannesson að lokum.”

Heimild:
-Kirkjuritið, Kristján Eldjárn, Björn Jóhannesson og Krýsuvíkurkirkja, 31. árg. 1953, 1. tbl.,bls. 49-53.
-Vísir, 24. júní 1964, bls. 9 og 13.

Krýsuvíkurkirkja

Krýsuvíkurkirkja var einföld timburkirkja í Krýsuvík. Hún var byggð árið 1857, endurbyggð árið 1964 og fór þá í vörslu þjóðminjavarðar og komst við það á lista yfir friðuð hús. Altaristafla kirkjunar var málverk eftir Svein Björnsson, listmálara.
Krýsuvíkurkirkja var notuð sem sóknarkirkja allt fram undir 1910. Hún var aflögð 1917 og notuð til íbúðar frá 1929, en síðan aftur breytt í kirkju 1963-64 fyrir tilstuðlan Björns Jóhannessonar, fyrrverandi forseta bæjarstjórnar í Hafnarfirði, en Hafnarfjarðarbær færði Þjóðminjasafninu húsið til varðveislu haustið 1964.
Kirkja mun hafa risið í Krýsuvík í upphafi kristni hér á landi í Kirkjulág í Húshólma áður en Ögmundarhaun rann um miðja 12. öld. Eftir þann atburð var kirkjan færð ofar í landið. Kirkjuna sem brann smíðaði Beinteinn Stefánsson hjáleigubóndi í Krýsuvík úr rekatrjám 1857. Byggð lagðist af í Krýsuvík í byrjun síðustu aldar og 1929 var Krýsuvíkurkirkja aflögð sem helgidómur.