Kaldársel

Í maí 2000 var fimmti Ratleikur Hafnarfjarðar opinberaður. Pétur Sigurðsson, útivistarkempa, hefur verið driffjöður leiksins.

Ásfjall

Byrgi á Ásfjalli.

Leikurinn gengur út á að far á milli merktra staða á korti, fræðast um þá og reyna að finna númeruð spjöld, semþar eru með áletrunum. Áletrunina á síðan að skrá á kortið og skila því inn til Upplýsingamiðstöðvar ferðamanna í Hafnarfirði með von um verðlaun. Að þessu sinni var athafnasvæðið Almenningur ofan Hrauna og svæðið milli Grísaness og Undirhlíða, þ.á.m. Kaldársel. Í Almenningum var lögð áhersla á selin, þ.e. Fornasel, Gjásel, Straumssel, Óttarstaðasel og Lónakotssel, auk Óttarstaðafjárborgar og Gvendarbrunn við Alfaraleiðina.

Ás

Ástjörn og nágrenni – örnefni.

Haldið var í Kaldársel og týnd upp merki frá 11 til 18; Grísanes, Hamranes, Stórhöfði, Fremstihöfði og Kaldársel, en til baka var gengi um Bleikingsháls og Ásfjall.
Á og við Grísanes eru nokkrar tóftir frá Ási, s.s. fjárborg, rétt, beitarhús, sauðakofar og gerði, auk leifa frá stríðsárunum frá því að Bretinn hélt til á og við Ásfjallið. Yfir Ásfjallsöxlina lá gamla leiðin frá Ási áleiðis í Hrauntungur og upp Dalinn þar sem enn má sjá leifar fjárhellis í gróinni kvos. Inngangurinn var hlaðinn, en þak hellisins er að hluta til fallið niður. Gatan lá síðan áfram upp á Stórhöfðastíg eða upp í Kaldársel.

Ásfjall

Ásfjall – varða.

Í Hamranesi eru miklar grjótnámur og eiginlega sárgrætilegt að horfa uppá hvernig bæjaryfirvöld, og þá einkun námunefndin, hafa leyft meðferð á landinu. Efst á Hamranesinu var eitt merki ratleiksins (666BÍR).

Gengið var áfram suðaustur eftir Selhrauninu sunnan Hamraness. Þá er Hvaleyrarvatn á vinstri hönd. Þar má enn sjá móta fyrir tóftum Hvaleyrarsels og Ásels sunnan við vatnið, auk beitarhúss og stekks utan í vestanverðum Stórhöfða austan við vatnið. Á hægri hönd er hlaðinn stekkur frá selinu. Uppi á Selhöfða eru leifar tveggja fjárborga og utan í honum sunnanverðum eru tóft kofa eða gerðis.

Selhöfði

Fjárborg á Selhöfða.

Þegar upp á öxlina á Seldal var komið var stefnan tekin á Stórhöfða, sem Stórhöfðahraun er kennt við. Það e rmikið hraunflæmi sunnan og vestan við höfðann. Eitt merkið var norðan í honum, en vandlega falið. Annars er leiðinlegast við ratleikinn hversu sumt fólk finnst sig knúið til að fela merkin betur eftir að það hefur fundið þau sjálft. Þeir, þ.e.a.s. venjulegt fólk, sem á eftir koma, þurfa því að hafa vel þjálfaða leitarhunda sér til aðstoðar.
Gengið var yfir suðuröxlina á Seldalnum og áleiðis yfir á Fremstahöfða. Utan í honum suðaustanverðum er hálfhlaðið fjárhús, líklega frá Kaldárseli. Er eins og hætt hafi verið við húsagerðina í miðjum klíðum.

Fremstihöfði

Hálfhlaðið fjárhús undir Fremstahöfða.

Tínt var upp merki í klapparsprungu meðal burkna, í hvammi innan um lyng og birki, í gulvíði undir ljónslappa við hellisop og í hraunkanti. Hellirinn er svonefndi Kaðalhellir. Hann var nefndur svo af krökkunum í KFUMogK í Kaldárseli því aðstoða kaðals þarf til að komast upp í efri hluta hans. Farið var auk þess niðurí nerði hluta hellisins beggja vegna misgengis, sem þarna er, og er alveg þess virði að kíkja þangað niður. Í botni vestari hlutans er jökull, þ.e. klakinn bráðnar aldrei, og skapar hann skemmtilega birtu í hellinum.
Í Kaldárseli má m.a. sjá hvar gamla selið eða kotið (undir aldarmótin 1900) var sunnan við sumarbúðahúsið. Neðan þess, við Kaldá má sjá móta fyrir tóft, auk áletraðra hraunhellna frá fyrstu tíð stúkustrákanna sunnan við ána. Annars er Kaldáin merkilegt fyrirbrigði og í rauninni efni í aðra lýsingu.

Kaldársel

Kaldársel – fjárborg á Borgarstandi.

Mikið misgengi gengur til austurs norðan Kaldársel. Hluti þess eru Smyrlabúðir miðja vegu að Búrfellsgjánni/Selgjánni. Norðan við Kaldardársel er Borgarstandur. Á honum voru áður tvær fjárborgir, en nú er einungis önnur eftir, þ.e. sú vestari. Hún er friðlýst. Hin, sú austari, hefur líklega verið tekin undir vatnsleiðsluna, sem þarna liggur m.a. yfir Lambagjá (mikil hleðsla).

Kaldársel

Kaldársel – fjárhús undir Borgarstandi.

Norðvestan undir Borgarstandi eru leifar fjárhúss og gerðis út frá því. Vestan við það lá gamla leiðin um Kaldársel. Sjá má hana klappaða í bergið á kafla skammt norðar. Enn norðar eru svo fjárhellarnir. Hlaðið er fyrir munnana og inni í einum þeirra er hlaðinn garður. Einnig er þarna tóft hlöðu. Þorsteinn Þorsteinsson hafði fé þarna um tíma sem og í Sauðahellinum syðri vestan Selgjár. Sömuleiðis Kristmundur Þorláksson frá Hafnarfirði, síðar Stakkavík, um tveggja eða þriggja vetra tímabil.

Ásfjall

Ásfjall – stríðsminjar.

Gengið var með höfðunum með viðkomu í nátthaga og helli og síðan áleiðis upp á Ásfjall um Vatnshlíð og Bláberjahrygg. Í Nátthaga norðvestan Kaldársels er hlaðinn nátthagi utan í háum hraunhól mót norðri. Vestan í Ásfjalli er hlaðið byrgi eftir Bretana. Einnig undir vörðunni, Dagmálavörðu, efst á fjallinu. Þá eru leifar byrgja vestar í fjallinu, en trúlega haf þeir notað þar gamla fjárborg því glögglega má sjá á handbragðinu hvort hleðslan hafi verið eftir Íslendinga eða Breta. Bretar virðast hafa hróflað upp görðum, líkt og á Flóðahjalla, en Íslendingar hlóðu þá jafnan vel og vandlega.
Af Ásfjalli er fagurt útsýni yfir höfðustað höfuðborgarsvæðisins.
Frábært veður – Gangan tók 3 klst og 33 mín.

PS. Svo skemmtilega vildi til að einn FERLIRsfélaga vann til verðlauna eftir að dregið hafði verið í Ratleiknum. Fékk hann bakpoka að launum. FERLIR hefur eftir það ekki skilað inn lausnum í Ratleiknum – svo aðrir eigi þar betri möguleika.

Kaldársel

Kaldárssel – uppdráttur ÓSÁ.