Eyrarhraun

Í Fornleifaskrá Hafnarfjarðar I-2020 er m.a. fjallað um bæina Eyrarhraun og Langeyri ofan við Malir:

Eyrarhraun var byggt árið 1904 af Engilráð Kristjánsdóttur og Sigurjóni Sigurðarsyni, en íbúðarhúsið brann vegna íkveikju árið 2005, en hafði staðið mannlaust í ár fyrir það.

Langeyri

Langeyri og nágrenni – Loftmynd 1954.

Í fasteignamati frá 1918 var húsakosti og jörð Eyrarhrauns lýst svona: Eigandi: Sigurjón Sigurðsson, þrbm. notar eignin sjálfur. Eignin er:
1. Íbúðarbær, stærð 6 x 3.90m hæð 1.45m með risi, byggður úr timbri, varinn pappa að veggjum, járn á þaki, skipt i eitt og eldhús, þiljaður panel. Inngönguskúr, stærð 2 x 1.40m, hæð 1.80m, með vatnshallaþaki, byggður úr sama og bærinn.
Eyrarhraun
2. Útihús: Fjárhús, stærð 6 x 3.50m, hæð 1.45m með risi, veggir að mestu úr torfi og grjóti, þak úr járni á langböndum. Heyhlaða, stærð 8.35 x 3.25m, hæð 1.45m með risi, veggir úr grjóti, þak járnvarið á langböndum. Eldhús, stærð 4.40m x 3.35m, hæð 1m, m. risi, veggir úr grjóti, þak úr járni á langböndum.
3. Lóðin er réttindalaus, óræktuð og ógirt, er býlið hefur grasblett og matjurtagarða á lóð þeirri á Langeyrarmölum er Aug. Flygering á. [ógreinilegt] árlega kr. 10.00.
Virðing Eyrarhrauns var að íbúðarhúsið með viðbyggingum var virði 800 kr., útihúsin það sama, og lóðin 200kr. virði.
Bænum var einnig lýst í brunavirðingu frá 1929:
„a. Bærinn einlyftur með risi. Klæddur innan með panel og málaður, honum er skipt í 2 herbergi og eldhús, notaður til íbúðar. Undir hálfum honum er kjallari, notaður til geysmlu..
b. Við austurhlið bæjarins er skúr með vatnshallaþaki, klæddur innan með panel og málaður, notaður til inngöngu.
c. Fjárhús við norðurhlið bæjarins. Í brunavirðingunni segir einnig að útveggir bæjarins og skúrsins voru úr járnvörðu timbri, kjallarinn sé grjóthlaðinn, og að veggir fjárhússins voru torf og grjót nema suðurgafl.

Eyrarhraun

Eyrarhraun – bæjarstæði.

Stefán Júlísson sagði frá búskap á Eyrarhrauni í endurminningum sínum „Byggðin í hrauninu“ en hann fluttist þangað ásamt foreldrum sínum 1923 og bjó þar til 1937. Í bókinni sagði hann t.d. frá kartöflugarði sem stunginn hafði verið upp við húsið og frá brunni sem var vestan við húsið og réðist vatnsstaða hans af sjávarföllum. Hann sagðir frá eljusemi Engilráðar og Sigurjóns við uppræktun á svæðinu: „Þessar grasnytjar voru á hraunbölum og í lautardrögum, sem reynt hafði verið að rækta upp með ærinni fyrirhöfn. Víðast var þó grunnt í grjót, og því var sprettan aldrei góð, en engum farartækjum nema hjólbörum varð við komið til að flytja að mold.“

Eyrarhraun

Eyrarhraun – garðar.

„Við tók ræktun á úfnu hrauni, hleðsla á görðum, burður á mold og grjóti. Mörg hafa þau handtök reynzt, og notinvirk hafa þau Engilráð og Sigurjón verið bæði og samstillt við gróðurblettina í kringum litla bæinn sinn…“
Flestar minjarnar að Eyrarhrauni tengjast að öllum líkindum búskap á svæðinu, t.a.m. garðlögin
og útihúsin.

Langeyri

Langeyri

Langeyri um 1920.

Langeyri var hjáleiga frá Görðum og í Garðakirkjueign. Þar var rekin verslun á síðari hluta 18. og fyrri hluta 19. aldar, en þar á undan hafði verið þar þurrabúð, en ekki er vitað hve lengi.
Langeyri hafði verið í hvað stöðugastri byggð af þeim þurrabúðum sem voru á svæðinu, frá 18. öld og fram á þá 20.35 Langeyri var stundum nefnd Skóbót en það gæti verið afbökun eða stytting af nafninu Skómakarahús.

Langeyri

Langeyri um 1920.

Ekki er minnst á jörðina Langeyri í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá árinu 1703 en þar segir frá 7 þurrabúðum og er Langeyrarbúð þar á meðal. Þegar jarðabókin var skrifuð voru sumar þessara þurrabúða orðnar um 50 ára gamlar. Fiskveiði í Hafnarfirði hafði eitthvað minnkað árin áður en jarðabókin var gerð og voru flestar þurrabúðirnar niðurfallnar.
Í bréfi frá 1776 bauð Thodal stiftamtmaður Guðmundi Runólfssyni sýslumanni að finna hentuga staði til þess að reisa geymsluhús og íbúðarhús handa verkafólki vegna húkkorta og jaktfiskveiða í Hafnarfirði. Það varð úr að Hvaleyri var valið til þess að byggja vetrarbústað fyrir stýrimenn og háseta á jöktunum en á Langeyri átti að byggja hús fyrir eftirlegumenn en Langeyri varð fyrir valinu vegna þess að þar var nógu víðáttumikil möl til salfiskverkunnar.

Langeyri

Síðasta íbúðarhúsið á Langeyri.

Ýmis starfsemi hefur átt sér stað í gegnum tíðina á Langeyrarmölum en þar var um tíma starfrækt fiskverkunarstöð sem August Flygenring lét reisa um aldamótin 1900 en hann var lengi vel einn stórtækasti athafnamaður í Hafnarfirði. Seinna voru Malirnar í eigu hlutafélagsins Höfrungs sem gerði þaðan út togara og verkaði þar fisk. Fiskverkunarstöðvarnar á Mölunum veittu því fólkinu í hraunkotunum vinnu við fiskverkun eftir því sem aðstæður leyfðu.
Í brunabótavirðingu frá 1916 var sagt að á Langeyri séu fimm hús: Íbúðarhús úr timbri, skúr úr grjóti og timbri, eldhús úr grjóti og timbri og tvö fjárhús, annað úr torfi, grjóti og timbri, og hitt úr torfi og grjóti.

Langeyri

Langeyri – Lýsisbræðsla út á Mölum í Hafnarfirði. „Lifrarbræðslustöð Augusts Flygenring á Langeyrarmölum.

Í fjörunni við Herjólfsbraut, rétt NV við Gönguhólsklif er að finna leifar Grútarstöðarinnar og Grútarbryggjunnar, lifrabræðslu sem reist var á bæjarrústum 1903. Þar má enn sjá hleðslur, undirstöður fyrir bræðsluker og einna greinilegast er bólverkið, sem er hlaðið hafnarmannvirki og í skýrslu sinni frá 2005 sagði Karl Rúnar Þórsson að þetta séu fágætar minjar.

Langeyri

Langeyri – skráð fjárskjól?

Í fornleifaskráningunni 2020 segir m.a. um ofanverða Langeyri:
“Hellir – fjárskýli. Úr hraungrýti. Hleðsla framan við helli, inngangur í austur. Í hrauni norðan við Herjólfsgötu. Er vestan við gerði.

Í hrauni norðan Herjólfsgötu og vestan við Hjallabraut, upp við klett. Austan við garð. Fjárskýli, úr hraungrýti. Hleðsla við gjótu í klett.”

Langeyri

Eyrarhraun – gata.

Ljóst er að framangreind “fjárskýli” hafa aldrei verið notuð sem slík. Um er að ræða hróf, væntanlega hlaðin af börnum, til skjóls.

Langeyri

Langeyri – vegur.

“Við hraunhól NV við Herjólfsgötu 24. Á grasivöxnum blett í hrauninu. Tóft er nánast áföst rústinni. Er vestan við gerði. Inngangur í vestur. Vestur veggur er töluvert lægri en hinir. Klettar nýttir í hleðsluna.

Við hraunhól NV við Herjólfsgötu 24. Á grasivöxnum blett í hrauninu. Tóft er nánast áföst rústinni. Er vestan við gerði. Inngangur í vestur. Hefur verið brotið úr hrauninu fyrir tóftinni.”

Heimild:
-Fornleifaskrá Hafnarfjarðar I-2020.

Langeyri

Varða við fyrrverandi Eyrarhraun. Á hana er markaður bókstafurinn E til minningar um Engilráð Kristjánsdóttur er byggði húsið upphaflega.