Kaldá

Kaldá er kristaltær lindá sem á upptök í Kaldárbotnum norðan við Helgafell. Hún á, líkt og margar aðrar lindár, upptök í lindum á hrauna-, móbergs- og grágrýtissvæðinu millum Kaldárhnúka. Lindár eiga sér jafnan glögg upptök, oft í ólgandi lindum eða úr stöðuvötnum.
Flóð eru sjaldgæf nema þegar jörðin er frosin. Hitastig í lindám er jafnt allt árið um kring. Kaldá hverfur undir hrauniðÞess vegna leggur Kaldá sjaldan, en vatnsmagnið ræðst gjarnan af úrkomunni frá einum tíma til annars. Þegar þurrkar eru og heitt í veðri dregur verulega úr vatnsrennsli árinnar, bæði vegna minna vatnsmagns er fellur til og vatnsnotkunar Hafnfirðinga, en þeir sækja nú vatn sitt í lindina.
Náttúrulegar aðstæður í nágrenni Kaldár skýra af hverju svo mikið af vatni er í Kaldárbotnum. Eldgos í tugi þúsunda ára hafa hlaðið upp jarðmyndunum á svæðinu. Á meðan ísaldir ríktu hlóðust upp móbergsfjöll og bólstrabergshryggir. Á hlýskeiðum runnu hraun og gígir hlóðust upp en við öll þessi eldsumbrot brotnaði jarðskorpan og seig og reis. Þannig hafa myndast sigdalir og gapandi gjár, sem stundum fóru á kaf í ný hraun.
Kaldárbotnar sjálfir eru í bólstrabergsmyndun. Bólstrabergið er nokkuð gamalt á mælikvarða jarðmyndana á svæðinu og segja má að það sé umflotið ungum hraunum. Bólstrabergið er afburða góð náttúruleg sía ásamt því að vera mjög vel vatnsleiðandi, sérstaklega eftir sprungum.
Ástæður fyrir þessu mikla vatni sem kemur upp austan við misgengið eru því þrjár; vatnsleiðandi bergsprungur tengdar misgengjum, setfylling í megin misgenginu sjálfu og bólstrabergið.
Í eldgosi sem líklega varð á tólftu öld, rann örþunnt hraun niður í Kaldárbotna sjálfa og þaðan niður fyrir Kaldársel og nam þar staðar. Þetta hraun hefur líklega verið mjög heitt og þunnfljótandi því að það fyllti í allar lægðir á leið sinni og storknaði án þess að í því mynduðust kólnunarsprungur og gjótur. Þegar grunnvatnsborð í Kaldárbotnum lækkar niður fyrir efri brún hraunsins hverfur Kaldá. Þegar mest er í ánni rennur hún að hraunbrúninni skammt vestan Kaldársels þar sem hún fer hindrunarlaust undir það á tveimur stöðum. Þar undir eru að öllum líkindum myndarlegar rásir, sem áhugavert væri að kíkja inn í við tækifæri – þegar lítið er í ánni.
Hafnfirðingar voru í fararbroddi í upphafi síðustu aldar. Árið 1904 var Vatnsveitufélag Hafnarfjarðar stofnað af nokkrum framtakssömum einstaklingum í bænum, með héraðslækninn fremstan í flokki. Lét félagið grafa brunn við svonefnt Kaldadý vestan í Jófríðarstaðaholtinu og leggja þaðan vatnsleiðslur um bæinn. Þótti framtak þetta hið besta og göfugasta, en fljótlega varð ljóst að gera þurfti betur.
Áletrun á bakka KaldárÁrið 1909 kaus bæjarstjórnin nefnd til að vinna að gerð stærri vatnsveitu, sem þjóna skyldi öllum bæjarbúum – en ekki bara þeim er bjuggu út frá Strandgötunni. Varð úr að Hafnfirðingar keyptu rör til framkvæmdanna í félagi við Reykvíkinga sem um svipað leyti unnu að framkvæmdum við sína vatnsveitu. Ákvað nefndin að vænlegast væri að taka vatnið úr Lækjarbotnum, en þar eru upptök Hamarkotslækjar.
Haustið 1909 lauk framkvæmdum við Lækjarbotnaæðina. Var hún einungis þriggja tommu breið og flutningsgetan því takmörkuð. Var hún enda orðin of lítil innan fárra ára. Var þá gripið til ýmissa bráðabirgðaráðstafanna, s.s. byggingu vatnsgeymis og lagningu nýrra aðfærsluæða, en ekki var þar tjaldað til margra nátta.
Strax árið 1916 fengu Hafnfirðingar augastað á Kaldá sem framtíðarvatnsbóli bæjarins og ári síðar ákvað bæjarstjórnin að freista þess að veita vatni úr Kaldá yfir á Lækjarbotnasvæðið, með það að makmiði að tryggja vatnsveitunni og vatnsaflsvirkjuninni í Hamarkotslæknum nægilegt vatn.

Kaldá

Vatnið úr Kaldá var leitt mestan hluta leiðarinnar í opinni trérennu. Trérennan var lögð yfir Hjallamisgengið og hraunið en vatninu var síðan  sleppt við suðurenda Setbergshlíðar þar sem hraunið byrjar að falla að Lækjarbotnum í þeirri von um að jarðlög undir hrauninu skiluðu vatninu í Lækjarbotna sem það og gerði eftir nokkra daga. Þegar þetta var ekki fullnægjandi var lögð breiðari pípa. Við þá aukningu höfðu flestar götur bæjarins nægilegt vatn. Það dugði samt ekki lengi því að eftir nokkur ár fór svo aftur að bera á vatnsskorti. Ástæðan fyrir því var m.a. sú að rennan úr Kaldá gekk smá saman úr sér og úreltist og þá minnkaði stöðugt vatnsmagnið sem hún gat flutt. Einnig var þetta vegna þess að þrýstingurinn í vatnsleiðslunum í bænum var ófullnægjandi og náði vatnið þá ekki upp í þau hús sem hæst stóðu.
Þá  var ákveðið að leggja vatnsæð úr Kaldárbotnum. Nokkrar endurbætur voru svo gerðar á henni þegar húsum í bænum fór að fjölga. Þegar grunnvatnsyfirborðið fór að lækka ört vegna minnkunar á úrkomu, voru nokkrar holur boraðar við Kaldárbotna og þær tengdar við vantsveituna. Orsakir hinnar miklu vatnsnotkunar í Hafnarfirði voru taldar vera vegna mikils fjölda fiskvinnslustöðva, göllum í gatnakerfi bæjarins, óhóflegrar vatnsnotkunar og vegna skemmda og bilana á heimilislögnum. Árið 1967 rættist svo úr þessu. Vatnsmagnið í vatnsbólinu í Kaldárbotnum jókst vegna aukinnar úrkomu og ýmsar endurbætur voru gerðar á vatnsveitunni.
KVatnsstokkurinnaldá, affall neysluvatnsvirkjunarinnar í Kaldárbotnum, rennur ofan á hrauninu en hverfur niður í og inn undir það um 1000 metrum neðar. Það sem veldur því að Kaldá kemur þarna upp á yfirborðið er misgengi sem hefur hindrað grunnvatnsstreymið. Misgengi þetta er kallað Helgadalsmisgengið og liggur eftir Undirhlíðum og norður um Búrfell. Það hefur þvingað vatnið upp á yfirborðið í Kaldárbotnum og þegar langvarandi úrkoma hefur verið kemur vatn líka upp á yfirborðið austan undan misgenginu. Eftir mikla þurrka getur Kaldá horfið að fullu.
Vatn hefur líklega aldrei þrotið í Kaldárbotnum. Þó er það þekkt. Hafnarfjörður varð vatnslaus af og til á árunum 1965-68. Við vatnsskorti lá einnig 1979 og 1986.
Grunnvatnsrennsli af Kaldársvæði er um 2500 lítrar á sekúndu. Vatnsnotkun er um 190 lítrar á sekúndu en vatnsrennsli í Kaldá er að meðaltali um 1300 lítrar á sekúndu og vatnsnotkun er um 190 lítrar á sekúndu. Hiti vatnsins í Kaldárbotnum er 3,2°C allt árið um kring.
Kaldá sprettur, sem fyrr segir, fram undar Kaldárhnúkum (Kaldárhöfða). Talið er að hún renni í sjó fram við Straumsvík og hraunin sunnan Hafnarfjarðar. Kaldárstraumur á upptök í sunnanverðum Bláfjöllum og Lönguhlíð. Hann streymir þaðan til norðvesturs um Húsfellsbruna og Heiðmörk. Grunnvatnsskil liggja frá Straumsvík og í vesturenda Lönguhlíðar. Sprungur auka mjög vatnsleiðni og hafa afgerandi áhrif á grunnvatnsstreymið. Sprungurnar eru hluti af sprunguskara sem kenndur hefur verið við Krýsuvík. Þær beina grunnvatninu úr sunnanverðri Heiðmörk til suðvesturs í átt til Kaldárbotna. Athyglisvert er að fyrir vikið streymir grunnvatnið á þessum slóðum ekki hornrétt á grunnvatnshæðarlínur, eins og algengast er, heldur skálægt á þær. Straumþunginn fylgir því sprunguskaranum.

Niðurfall

Í Kaldárbotnum sést örlítið brot af því vatni sem þarna er á ferð. Meðalrennsli Kaldár skammt neðan upptakanna er 800 l/s samkvæmt mælingum í vatnshæðarmælinum vhm 124, en sveiflur eru miklar í rennslinu. Kaldá er einskonar yfirfall úr grunnvatnsstraumnum. Áin verður lengst um einn kílómetri á lengd því hún hverfur þar inn undir hraunið og hverfur til grunnvatnsins á ný. Neðan við Undirhlíðar sveigir grunnvatnið út úr sprunguskaranum og flæðir um hraunin til norðvesturs uns það birtist í fjörulindum í Straumsvík og í Hraunsvík, en svo nefnist bugurinn milli Hvaleyrarholts og Straumsvíkur. Þar upp af ströndinni eru vatnsból Álversins. Sennilegt er að einungis minnihluti lindarennslisins komi í ljós í fjörulindum þegar lágt stendur í sjó en að meirihluti þess sé jafnan í flæðarmálinu sjálfu eða neðan þess. Kaldárstraumur er langmesti grunnvatnsstraumurinn á höfuðborgarsvæðinu.
Þjóðsagan segir að fyrrum hafi Kaldá komið úr Þingvallavatni en eftir að Ingólfur landnámsmaður gróf Soginu farveg úr því, þar sem síðan heitir Grafningur, hafi Kaldá þorrið. Önnur saga segir að tveir synir fjölkunnugs karls nokkurs hafi drukknað í ánni og eftir það hafi hann kveðið hana niður. Þriðja sagan segir að hún hafi þornað eftir mikið eldgos.
Hugmynd Eggerts Ólafssonar var þess efnis að áin renni neðan jarðar all aleið vestur á Reykjanestá og þar til hafs, en af straumi hennar myndist Reykjanesröst. Brynjúlfur Jónsson frá Minna-Núpi sagði það almælt að á fyrri öldum hafi á sú runnið úr Þingvallavatni, “eitthvert hið mesta vatnsfalla á Íslandi”. Hún á að hafa runnið norðan við Hengil og ofan þar, sem nú eru Fóelluvötn, og svo suður með hlíðum og í sjó á Reykjanesi. “Sé sagt, að hún komi upp í Reykjanesröst og að Kaldá hjá Helgafelli sé úr henni”. “En svo þurfti að fá skýringu á því, hvernig stóð á því stóð, að þetta mikla vatnsfall skyldi hverfa, og eru um það ýmsar sögur. Ein er sú, að karl nokkur, sem var kraftaskáld, missti í ána tvo sonu sína, og kvað hana þá niður. Önnur sögn, og öllu vísindalegri, er sú, að Kaldá hafi horfið eitt sinn, er suðurfjöll brunnu, svo einn var eldur ofan úr Hengli og út í sjó á Reykjanesi og hafi þá jörðin gengið upp fyrir sunnan Elliðavatn.”

Heimildir m.a.:
-Haukur Hafsteinsson.
-Eggert Ólafsson.
-Brynjúlfur Jónsson.
-Vatnsveita Hafnarfjarðar.Kaldárhnúkar