Eftirfarandi frásögn Gísla Sigurðssonar lögreglumanns og síðar forstöðumanns Byggðasafns Hafnarfjarðar birtist í jólablaði Alþýðublaða Hafnarfjarðar 1959 undir fyrirsögninni “Hafnfirðingur”. Gísli fæddist 1903 í Hrunamannahreppi. Árið 1910 fluttist hann með fjölskyldu sinni til Hafnarfjarðar. Gísli skráði fjölmargar örnefnalýsingar á vestanverðum Reykjanesskaganum. Hér segir hann frá því hvernig er að verða Hafnfirðingur. Margir aðrir geti samsvarað honum um slíkan áunnin titil í gegnum tíðina:

Gísli Sigurðsson

Gísli Sigurðsson, eftir að hafa hlotnast fálkaorðan.

“Ég gekk með pabba út á móana fyrir vestan lækinn. Þar kvaddi hann mig. Hann var að fara í verið til Grindavíkur. Það hafði hann gert frá því fyrst ég mundi eftir mér. Frá því ég fór að ganga hafði ég fylgt honum stuttan spöl, fyrst ásamt mömmu, en nú í tvö ár einn þar sem mamma var vistuð á öðrum bæjum.

Sólheimar

Sólheimar í Hrunamannahreppi.

Ég bar ekki allt of mikið skyn á hvað það var „að fara í verið,“ en pabbi skildi það, enda var hann heitur til augnanna, þegar hann kvaddi mig. Ég staldraði við og horfði á eftir honum, þar sem hann gekk léttum skrefum troðninginn vestur með fjallinu. Ég man hann hafði brugðið sokkunum utan yfir buxnaskálmarnar. Hann var á skóm með ristar- og hælþvengjum. Mamma hafði gert skóna. Þeir fóru vel á fæti. Hann hafði bundið poka á bakið og í honum voru allar eigur hans, sokkaplögg, nærföt til skiptanna og vinnuföt, og svo var hann með nestisbita, sem duga skyldi ferðina á enda. Er ég hafði horft eftir honum um stund sneri ég heim aftur til stóra, góða leiksystkinahópsins, en börnin tíu á Sólheimum í Ytri-Hrepp voru öll þremenningar við mig. Ég minnist þess, að oft eftir þetta var á heimilinu farið að tala um Hafnarfjörð og að farið var að kalla mig Hafnfirðing.

Rétt eftir sumarmál kom mamma. Hún var að kveðja frændfólkið, því þau pabba og mamma höfðu þá ákveðið að flytjast úr vinnu- og lausamennsku í Hreppnum til Hafnarfjarðar í þurrabúð.
Mamma ætlaði sér að vera komin suður, þegar pabbi kæmi úr verinu. Ég og Margrét vinnukona fylgdum mömmu vestur á fjallið, Galtafellsfjall. Þegar við sáum niður á bæinn Galtafell stönzuðum við. Þarna kvaddi ég mömmu og sneri til baka með Margréti.

Hrepphólar

Hrepphólar.

Hún mamma sagði frá því síðar, að ekki ætlaði henni að ganga vel að fá ferð úr Hreppnum, þá loksins það var ákveðið. Margir bændanna fóru þá í svokallaðar lokaferðir til Reykjavíkur. Hún hafði hugsað sér að komast með einhverjum þeirra. En þótt farangur hennar væri aðeins poki með sængurfötum og annar með rokknum, Helgi bróðir á fimmta ári og hún sjálf, þá var næsta óvíða rúm fyrir þetta. Fyrst reyndi hún að koma flutningnum fyrir hjá þeim bændum, sem ætluðu suður með tvo vagna, en þar varð engu á bætt.
Eftir mikla fyrirhöfn kom hún svo pokunum og Helga á vagn hjá bónda, sem aðeins fór með einn vagn. Sjálf varð hún að ganga, en það var nú ekki frágangssök. Mamma mundi þessum bónda alla tíð síðan þennan greiða, enda sagði hún oft: „Hann var fátækur eins og ég, því gat hann gert mér þennan greiða borgunarlaust.”
Mömmu munaði ekki um að ganga frá Reykjavík til Hafnarfjarðar 10 km, þó að hún þyrfti að bera Helga mestan hluta leiðarinnar, þar sem hún hafði nýlokið 100 km göngu austan úr Hreppum til Reykjavíkur. Pokana skildi hún eftir. Pabbi gat nálgast þá, þegar hann væri kominn.

Lækjargata 6

Lækjargata 6.

Mamma lagði leið sína strax suður í Hafnarfjörð og kom heim til Vigfúsar klénsmiðs bróður síns og konu hans Steinunnar. Þar vissi hún að tekið yrði móti henni opnum örmum, enda var það svo. Seint á lokadagskvöldið kom pabbi, og fengu þau að vera fyrstu næturnar hjá Vigfúsi og Steinunni. Strax næsta dag fóru þau pabbi og mamma að leita fyrir sér um íbúð. Gekk það greiðlega. Í húsinu nr. 6 við Lækjargötu var eitt herbergi í vesturenda laust til íbúðar, ásamt aðgangi að eldhúsi og geymslu í kjallara, fyrir kr. 4 um mánuðinn. Hér réðu húsum Guðlaugur Jónasson úr Flóa ættaður og Halldóra Gíslína Magnúsdóttir frá Fiskakletti hér í Firðinum, langt í ættir framskyld pabba. Húsráðendurnir bjuggu með þrjú börn sín í tveimur herbergjum niðri, en á loftinu bjuggu Auðunn Magnússon, bróðir Halldóru, og kona hans Þórunn Hansdóttir með tveimur sonum sínum. Þau pabbi og mamma voru þegar komin í félagsskap ágæts fólks.
Hafnarfjörður 1910
Svo fluttu þau í herbergið með allar sínar föggur. En hvar voru húsgögnin og búshlutirnir? Engir til. Var þá ekki heppilegt, að Vigfús og Steinunn höfðu nýlega lagt til hliðar m.a. ágætt rúmstæði sundurdregið, smíðað í Dverg hjá Jóhannesi Reykdal. „Hvort þau gætu notast við þetta?“ spurðu Vigfús og Steinunn. „Já, ég held nú það, blessuð verið þið,“ sögðu pabbi og mamma. „Svo er heima hjá okkur borð,“ sögðu þau Vigfús og Steinunn, „sem við getum ekki komið fyrir, þar sem við erum að fá okkur annað stærra, hvort pabbi og mamma gætu notað það?
Jú, jú, fyrst svo stóð á var alveg sjálfsagt að taka við borðinu. Svo voru þau í vandræðum með stóra kistu. Gætu þau pabbi og mamma ekki tekið hana af þeim, það væri hægt að geyma í henni matvæli, svo sem hveiti, sykur og útákast og margt fleira. Svo var hún ágætt sæti, ef á þyrfti að halda. Þau urðu örlög þessara muna, að þeir fylgdu pabba og mömmu alla þeirra búskapartíð og voru þá fyrst lögð niður, er þeim hafði verið valinn annar hvíldarstaður. Nú, það var ekki erfitt að hefja búskap, þegar nauðsynjahlutirnir bárust svona upp í hendurnar á fólki.
Hansensbúð
„En margs þarf búið með,“ sagði Sighvatur á Grund. Pabbi kom með vertíðarkaupið sitt óskert og fyrir það voru keyptir búshlutir ýmiss konar. Í Hansensbúð var þá margt góðra búshluta. Þar var keypt olíuvél, þríkveikja, pottar tveir, ketill, kaffikanna og stryffa (kastarola), bollaskrúfa, sykurkar, diskar djúpir og grunnir, ágætt steintau, olíubrúsi 10 potta. Spænirnir voru látnir duga og sjálfskeiðingarnir til að borða með. Borðhnífar og gaflar komu ekki fyrr en löngu seinna. Svona var sveitafólk lengi að átta sig á breyttum lifnaðarháttum.
Hér var búið að stofna til nýs heimilis í Hafnarfirði. Maður og kona með barn höfðu bætzt við þann hóp manna, sem kölluðu sig Hafnfirðinga. Þessir nýju Hafnfirðingar eignuðust vini og bundust tryggðaböndum, sem ekki brustu meðan báðir aðilar lifðu. En bezt var þó vináttan við þau hjón Vigfús og Steinunni. Þeim pabba og mömmu gekk vel að fá sér atvinnu. Enginn gekk þess dulinn, að þau voru bæði dugleg og ósérhlífin. Þau myndu leggja fram sinn skerf til uppbyggingar þessa byggðarlags. Svo leið vorið með nægri vinnu og velmegun. Helgi eignaðist vini við sitt hæfi. Hann kynntist Rósa og svo fékk hann líka að vera með Pétri.

Gísli Sigurðsson

Gísli Sigurðsson, lögregluþjónn.

Á krossmessu, vinnuhjúaskildaga, fór ég frá Sólheimum og fluttist að Hrepphólum. Það er víst nokkuð mikið sagt, að strákur á áttunda ári hafi ráðizt hjú á slíkt stórbýli, en þó var það svo. Þetta sumar átti ég að fá kaup. Jég átti að vinna fyrir mat mínum og þjónustu allri sumarlangt. Ég smalaði ám um vorið og sumarið, sótti hesta í haga og flutti þá, rak kýr á beit og sótti þær á kvöldin, færði mat og kaffi á engjar, var í alls konar snúningum heima við.

Nóg var að gera frá morgni til kvölds, gott viðurværi og atlæti allt. Þá má ekki gleyma rjómaflutningnum. Til þess hafði ég hest, sem hét Toppur, kallaður Lati-Toppur, röltstyggur skratti og stríðinn, lét mig elta sig hvert sinn, sem ég þurfti að sækja hann. Ég var honum öskuþreifandi vondur hvert sinn, en þegar hann sá, að ég ætlaði ekki að gefa mig, stanzaði hann. Þá rann mér þegar í stað reiðin. Ég lagði við hann beizli og fór á bak. Þá rölti hann aðeins fetið hvernig sem ég barði fótastokkinn og skammaði hann. Ég flutti rjómann að Birtingaholtsbúinu. Það tók mig tvo til þrjá tíma fram og til baka. Ég flutti einnig rjóma frá Galtafelli, Núpstúni og Hólakoti móti öðrum drengjum þaðan. Svona leið sumarið.

Gísli Sigurðsson

Gísli Sigurðsson, minjavörður.

Á réttadagsmorgun var ég eldsnemma á fótum eins og allir aðrir, sem fóru í réttirnar, þessa hátíð allra hátíða. Nú var ég ekki á Lata-Topp. Ég var vel ríðandi eins og hinir. Féð rak ég heim úr Hóladilknum. Er komið var á Hólamýri var því sleppt. Var þá sprett úr spori og riðið hart í hlað eins og höfðingja er siður.
Viku seinna yfirgaf ég svo Ytri-Hreppinn í bili og fluttist á hestvagni suður. Pabbi fór með rekstur og var því nokkru seinna á ferð. Hann hafði lagt svo fyrir, að ég biði hans á Árbæ hjá frændkonu okkar Margréti veitingakonu þar. Síðla sama dag kom pabbi, borgaði Margréti fyrir mig og kyssti hana mikið, eins og allra karla var siður. Svo reiddi hann mig til Reykjavíkur, þar sem ég gisti fyrstu nóttina, en pabbi fór til Hafnarfjarðar. Daginn eftir kom pabbi og sótti nokkrar kindur, sem hann hafði komið með í rekstrinum og hafði tekið upp í kaup sitt.

Ég rak svo kindurnar með pabba suður til Hafnarfjarðar. Fyrsta húsið, sem sást í Hafnarfirði, þegar komið var suður, var einlyft hús með porti og risi, nafnið skorið í tré á hliðinni, er vissi að götunni: „Sjónarhóll”. Þegar við höfðum komið kindunum í hús fórum við heim. Mamma kom á móti okkur fram í dyrnar og þar faðmaði hún að sér drenginn sinn. Voru þá liðin tvö og hálft ár, síðan ég hafði verið á sama bæ og hún. Þá flutti hún mig frá Seli að Hvítárholti í Ytri-Hrepp og lét mig eftir hjá vandalausum, góðu fólki að vísu, sem reyndist mér mjög vel. Og nú bar mamma okkur mat, sem hún hafði sjálf eldað. Færði upp úr sínum eigin potti á sína eigin diska og bar fyrir sitt fólk. Hún var glöð yfir þessu, því að nú var að rætast lengi þráður draumur.

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður 1954.

Svo kom haustið með rökkurkvöldum sínum, þegar við Helgi sátum sinn á hvora hlið henni og hún sagði okkur ævintýri og sögur. Þessi rökkurkvöld munu seint úr minni liða. Alltaf var eitthvað nýtt að bætast við í búið. Eitt kvöldið kom pabbi heim með fjórtán línu blússbrennara, logagylltan hengilampa, sem hægt var að draga niður og ýta upp. Hann gaf bæði ljós, og svo hitaði hann vel upp herbergið. Spegill kom á einn vegginn og almanak á þilið, tjald fyrir gluggann og slökkviliðsmerkið hans pabba. Allt var þetta mikið skraut og svo tístandi járnrúmið, sem við Helgi sváfum í. Já, pabbi var strax settur á slökkviliðsdælu nr. 2. Þar var hann dælumaður og fékk nr. 30. Sprautustjórar á þeirri dælu voru þeir feðgar Vigfús og Jón Gestur frændur okkar. Fúsi frændi gaf okkur strákunum marga væna gusu. Hann vissi hvað okkur kom. Í þann tíð gerði það ekki svo mikið til þótt við kæmum hundblautir heim, bara ef hægt var að segja: Hann Fúsi frændi sprautaði á okkur. Auðvitað kom þetta aðeins fyrir, þegar slökkviliðsæfingar voru. Ég var búinn að fá skírnina. Ég var orðinn fullgildur Hafnfirðingur, fjórði maður fjölskyldunnar.

Brunalið Hafnarfjarðar

Brunabíll í Hafnarfirði  fyrir utan Reykjavíkurveg 9 um 1920.

Þegar ég hef að undanförnu farið yfir manntals- og kirkjubækur, hefur mér oft komið í hug, hvort flestir þeir, sem hér hafa setzt að, hafi ekki svipaða sögu að segja og ég hef hér sagt. Og því hef ég skráð þetta og látið það frá mér fara.
Vera má, að þú, lesari góður, rifjir upp þína eigin sögu eða foreldra þinna, sem að sjálfsögðu er viðburðaríkari en okkar og skemmtilegri. Öll höfum við flutzt hingað í leit að því, sem betra var, og fundið það í Hafnarfirði og erum hreykin yfir því að vera Hafnfirðingar.”

Sjá meira um Gísla Sigurðsson HÉR.

Heimild:
-Alþýðublað Hafnarfjarðar, jólablað 19.12.1959, Hafnfirðingur – Gísli Sigurðsson, bls. 21-22.

Gísli Sigurðsson

Gísli Sigurðsson, foreldrar og systkini.