Hafnarfjörður

“Fast sunnan undir Hvaleyrarholti stóð til skamms tíma lítill hóll að mestu úr rauðu hraungjalli og með grunna gígskál í kolli. Hann hét Rauðhóll.
Raudholl-552Nú er lítið eftir af Rauðhól. Í hans stað er komin stór malargryfja. Um 1940 var farið að taka þarna mikið af rauðamöl í vegi og fleira. Nú er hún upp urin að kalla, svo að undirlag hennar, sem er harðla fróðlegt, kemur í ljós. Eftir stendur þó stabbi í miðju, og sér enn fyrir botni gígskál arinnar upþi á honum. Þessi stabbi, sem er sjálfur hrauntappinn í gígnum, reyndist of fastur fyrir, er rauðamölinni var mokað á bíla, og því var honum leift. Rauðhóll er mjög lítið eldvarp. Þar hefur aðeins komið upp eitt smágos, sem virðist ekki hafa afrekað annað en hrúga upp þessum gíghól. Ekki er að sjá, að neitt hraun hafi runnið frá honum. En því get ég Rauðhóls hér, að hann hefur að geyma furðu merkilegar og auðlésnar jarðsöguheimildir. Þær komu ekki í ljós fyrr en hann var allur grafinn sundur. Þessar heimildir eru vitaskuld jarðlög, og við lestur þeirra ber að byrja á neðstu línunni og lesa upp eftir. Þessi lög hafa eflaust myndazt víðar, en máðst burt aftur, þar sem þau lágu berf en Rauðhóll hefur hreint og beint innsiglað þau og varðveitt með því að hrúgast ofan á þau og liggja þar eins og ormur á gulli.
raudholl-523Dýpzt í malargryfjunni liggur einkennilegt leirlag allt að hálfum metra á þykkt. Þetta er svokölluð barnamold. Hún er mjúk og þjál og ljós-gulbrún að lit meðan hún er vot, en verður stökkari viðkomu og snjóhvít við þurrk. Ef barnamoldin er látin undir smásjá, kemur í ljós, að hún er því nær eingöngu úr örsmáum skeljum og skeljabrotum, af lífverum þeim, er nefnast kísilþörungar (eða eskilagnir eða díatómeur). Þetta eru örsmáar svifverur, sem lifa víða í mikilli mergð í vatni, og teljast til jurtaríkisins, þó að margar þeirra syndi knálega um í vatninu. Þegar jurtirnar deyja, rotna þær upp, en skeljarnar falla til botns og mynda eðju eins og þá, sem hér var lýst. Danskur sérfræðingur hefur rannsakað fyrir mig lítið sýnishorn af barnamoldinni undan Rauðhól og fann í henni 117 tegundir kísilþörunga. Sú tegundagreining leiddi í ljós, að barnamoldin hefur setzt til í ósöltu vatni, a.m.k. að mestu leyti. Af þessu er sýnt, að þarna hefur verið tjörn, oftast eða alltaf með ósöltu vatni, löngu áður en Rauðhóll varð til.
Raudholl-553Ennfremur sannar barnamoldin, að sjávarflóðið mikla í ísaldarlokin hefur þá verið að mestu fjarað, eða a. m. k. niður fyrir 10 m hæð yfir núv. sjávarmál, því að í þeirri hæð liggur hún. Yfir barnamoldinni í Rauðhólsgryfjunni liggur fínn ægissandur morandi af skeljum og skeljabrotum. Skeljarnar eru allar af sjódýrum. Eg hef getað greint tíu tegundir af þeim örugglega, og eru allar þær tegundir enn algengar lifandi á sams konar sandbotni hér í Faxaflóa. Þetta lag sýnir, að sjórinn hefur hækkað aftur í bili og flætt ínn yfir landið, þar sem tjörnin var áður. Ennfremur sýna dýrategundirnar, sem eru frekar kulvísar, að þetta hið síðara sjávarflóð var ekki öllu kaldara en Faxaflói er nú, og hefur því ekki getað átt sér stað fyrr en alllöngu eftir ísaldarlokin, er sjórinn var fullhlýnaður. Yfir þessum ægissandi liggur fremur þunnt lag af fínni, brúnni sandhellu, sem er miklu fastari í sér og hefur engar skeljar að geyma. Þykir mér sennilegt, að það sé fokmyndun, til orðin á þurrlendi, eftir að síðara sjávarflóðið fjaraði. Ekki hef ég fundið neinar gróðurleifar í þessu lagi, en það sannar engan veginn, að landið hafi verið ógróið.
Raudholl-555Ofan á þessu móhellulagi stendur loks Rauðhóll sjálfur. Hann hefur hrúgazt þarna upp í litlu eldgosi, eins og fyrr segir, ofan sjávar, en ef til vill nærri sjávarströndu. Rauðhóll er elzta gosmyndun í grennd við Hafnarfjörð — að undanskildu grágrýtinu, sem að vísu er hraun að uppruna, en runnið löngu fyrir ísaldarlok, enda ekki. kallað hraun í daglegu tali. Nokkur rauðamöl er enn eftir í Rauðhól, en ekki auðvelt að ná henni. Það ber til, að hraunflóð eitt mikið hefur runnið kringum hólinn og ekki aðeins upp að honum, heldur yfir hin yztu börð hans, sem einnig eru úr Rauðamöl. Aðeins háhóllinn, sem stóð upp úr hrauninu, er burt grafinn. Hraunið kringum Rauðhól nefnist nú Hvaleyrarhraun. Það hefur runnið út í sjó sunnan við Hvaleyrarholt og komið að suðaustan, en verður ekki rakið lengra í átt til upptaka en að Stórhöfða. Þar hverfur það undir miklu yngra hraun, Brunann, sem síðar verður getið. Í börmum malargryfjunnar í Rauðhól liggur Hvaleyrarhraunið víðast milliliðalaust á rauðamölinni. Það þótti mér lengi benda til, að aldursmunur væri lítill, jafnvel enginn, á hólnum og hrauninu. En þegar gryfjan stækkaði, kom reyndar í ljós á litlum kafla í nýja stálinu örþunnt moldarlag og þar yfir svart öskulag, hvort tveggja á milli rauðamalarinnar og hraunsins. Í öskunni fundust kolaðir lyngstönglar. Þetta þunna millilag með jurtaleifum sínum sannar ótvírætt, að þarna hefur þó verið komin lyngtó með þunnum moldarjarðvegi neðarlega í austurbrekku Rauðhóls, áður en Hvaleyrarhraun rann þar yfir. Askan er sennilega úr sama gosi og hraunið, sem yfir henni liggur.
Hvaleyrarhraun er einna fomlegast hrauna í grennd við Hafnarfjörð, og má vel vera, að það sé elzt þeirra allra.”

Heimild:
-Þjóðviljinn, 24. desember 1954, Hraunin í kringum Hafnarfjörð, Guðmundur Kjartansson, bls. 10-12.