Seltúnssel

M.a. var litið á “trúlegt sel” á Seltúni, sem þar mun hafa verið skv. Jarðarbókinni 1703, þ.e. sel frá Krýsuvík. Eftir endurtekna leit á svæðinu fundust  tóftir er gætu verið eftir sel á tveimur stöðum, beggja vegna þjóðvegarins.

Seltún

Seltúnsselið sést á þessari mynd Sigfúsar Eymundssonar frá 1884 – myndin er tekin frá Lambafelli að Seltúni.

Annars vegar er um að ræða jarðlægar tóftir, sem sléttaðar voru út við túnræktina á svæðinu um 1960. Sú tóft sést vel á ljósmynd Sigfúsar Eymundssonar, sem tekin var frá Lambafelli að Seltúni árið 1884. Hins vegar er  um að ræða tvær tóftir, önnur nú fótum troðin af hestum Hafnfirðinga og hin hringlaga gerði skammt sunnar, einnig illa farin af ágangi hrossa. Þessar minjar hafa ekki verið skráðar sem slíkar – svo vitað sé.
Ofan við Seltúnið er lítil ferkantlaga tóft á grasbala sunnan við hverasvæðið. Hún gæti hafa tengst athöfnum námumanna á hverasvæðinu á sínum tíma. Sjáanlegar leifar námuvinnslunnar er hluti einnar stíflunnar austan þjóðvegarins. Hana má m.a. sjá á ljósmynd, sem Englendingar tóku í þeim tilgangi að selja hlutabréf í námuvinnslufyrirtækinu erlendis. Þá eru norðan við Seltúnið a.m.k. þrjár tóftir og gerði er tengdust brennisteinsvinnslunni á sínum tíma. Sagt er frá þessum minjum annars staðar á vefsíðunni, auk þess sem brennisteinsvinnslunni er gerð góð skil.

Krýsuvík

Fell – tóftir.

Kíkt var á “hugsanlega sel eða mögulega hjáleiguna Fell” sunnan Grænavatns. Tóftir bæjarins kúra í dalkvos skammt sunnan við vatnið. Hann ku hafa verið í ábúð einungis skamman tíma.
Litið var á “afar fallegan brunn” við Litla-Nýjabæ suðvestan við Augun og síðan var gengið frá Ræningjahól og þaðan að “vel farinni og fallegri rétt” sunnan Arnarfells. Um er að ræða nokkuð stóra og heillega rétt í slakka í beina línu á milli Krýsuvíkurkirkju og vörðu á nyrsta Trygghólnum, svo til miðja vegu milli hans og Arnarfells.

Arnarfellsrétt

Arnarfellsrétt.

Réttin er svonefnd Arnarfellsrétt. Um er að ræða almenning og níu misstóra dilka. Frá henni sér í Bæjarfellsréttina í norðvestri.

Bæjarfellsrétt.

Bæjarfellsrétt í Krýsuvík.

Gengið var upp að Bæjarfellsréttinni (Krýsuvíkurrétt), norður með austanverðu Bæjarfelli og að svonefndum Hafliðastekk norðan undir Bæjarfelli. Hann er þar hlaðinn undir stórum steini. Tóft er þar hjá.

Hafliðastekkur

Hafliðastekkur – uppdráttur ÓSÁ.

Á leiðinni var gengið framhjá nokkrum gömlum tóftum í norðurhlíðum Bæjarfells. Guðað var eftir Drumbsdalaveginum vestan Bæjarfells yfir Sveifluhálsinn við Drumb. Augljóst er þaðan sést hvar vegurinn hefur legið yfir melana vestan sunnanvert Bæjarfell og áfram yfir sunnanverðan hálsinn.

Til gamans má velta fyrir sér hvernig nafnið Krýsuvík er til komið. Áður hefur heyrst og verið skráð að um hefði verið að ræða svonefnda “Krýsa” er byggt hafi Krýsuvík þar sem Húshólmi er nú. Þá hefur verið skráð að nafnið væri komið af “Krossavík”. Ekki er ólíklegra að álykta að nafnið “krýsa” sé til komið vegna deilna, sem sprottið hafa, hugsanlega milli frumbyggja og síðari tilkomandi norrænna manna. Skýringin á nafninu Krýsuvík væri því einfaldlega “Deiluvík”. Sennilegast er þó orðskýringin “krýsa”, sem er gamalt orð yfir grunna vík eða fjörð, sbr. grunn skora, t.d. í ask.
Sól, lygnt og roðagylltur himinn.

Krýsuvík

Krýsuvík – uppdráttur ÓSÁ.