Krýsuvík
M.a. var litið á “trúlegt sel” á Seltúni, en þar mun hafa verið skv. Jarðarbók sel frá Krýsuvík. Þrátt fyrir endurtekna leit á svæðinu fundust hvergi tóftir er gætu verið eftir sel. Hins vegar fannst lítil ferkanlaga tóft á grasbala sunnan við hverasvæðið. Hún gæti líka hafa tengst selstöðu, en einnig athöfnum námumanna á hverasvæðinu á sínum tíma (sjá annan FERLIR). Einu sjáanlegu leifarnar af námuvinnslunni er hluti einnar stíflunnar austan þjóðvegarins. Hana má m.a. sjá á ljósmynd, sem Englendingar tóku í þeim tilgangi að selja hlutabréf í námuvinnslufyrirtækinu erlendis.

Krýsuvík

Bæjarfellsréttin í Krýsuvík.

Kíkt var á “hugsanlega sel eða mögulega hjáleiguna Fell” sunnan Grænavatns. Tóftir bæjarins kúra í dalkvos skammt sunnan við vatnið.
Litið var á “afar fallegan brunn” við Litla-Nýjabæ suðvestan við Augun og síðan var gengið frá Ræningjahól og þaðan að “vel farinni og fallegri rétt” sunnan Arnarfells. Um er að ræða nokkuð stóra og heillega rétt í slakka í beina línu á milli Krýsuvíkurkirkju og vörðu á nyrsta Trygghólnum, svo til miðja vegu milli hans og Arnarfells. Réttin er svonefnd Arnarfellsrétt. Um er að ræða almenning og níu misstóra dilka. Frá henni sér í Bæjarfellsréttina í norðvestri.
Gengið var upp að Bæjarfellsréttinni (Krýsuvíkurrétt), norður með austanverðu Bæjarfelli og að svonefndum Hafliðastekk norðan undir Bæjarfelli. Hann er þar hlaðinn undir stórum steini. Tóft er þar hjá. Á leiðinni var gengið framhjá nokkrum gömulum tóftum í norðurhlíðum Bæjarfells. Guðað var eftir Drumbsdalaveginum vestan Bæjarfells yfir Sveifluhálsinn við Drumb. Augljóst er þaðan sést hvar vegurinn hefur legið yfir melana vestan sunnanvert Bæjarfell og áfram yfir sunnanverðan hálsinn.
Til gamans má velta fyrir sér hvernig nafnið Krýsuvík er til komið. Áður hefur heyrst og verið skráð að um hefði verið að ræða svonefnda “Krýsa” er byggt hafi Krýsuvík þar sem Húshólmi er nú. Þá hefur verið skráð að nafnið væri komið af “Krossavík”. Ekki er ólíklegra að álykta að nafnið “krýsa” sé til komið vegna deilna, sem sprottið hafa, hugsanlega milli frumbyggja og síðari tilkomandi norrænna manna. Skýringin á nafninu Krýsuvík væri því einfaldlega “Deiluvík”. Sennilegast er þó orðskýringin “krýsa”, sem er gamalt orð yfir grunna vík eða fjörð, sbr. grunn skora, t.d. í ask.
Sól, lygnt og roðagylltur himinn.

Krýsuvík

Krýsuvík – uppdráttur ÓSÁ.