Óttarsstaðasel

Gengið var að Óttarstaðafjárborginni (Kristrúnarborg). Borgin er mjög heilleg,

Brennisel

Brennisel – kolagröf fremst.

Skammt austan við borgina er Slunkakríki, rauðamölshóll í djúpri hraunkvos. Á hólnum stóð eitt sinn listaverk, en er nú niðurnítt. Gengið var upp að Brenniseli, en á leiðinni var leitað að öðru kolaseli, sem fannst fyrir u.þ.b. tveimur árum, en týndist aftur. Það kom í leitirnar skammt norðan við Brennisel. Það virðist vera mun eldra. Brenniselið er með fallegri fyrirhleðslu og tótt í gróinni kvos. Fast austan hennar er hlaðið fjárskjól. Í tóftinni er talsvert hrís. Erfitt er sjá tóftina eftir að runnar fara að laufgast í byrjun sumars.

Álfakirkja

Álfakirkja í Hraunum.

Haldið var upp í Álfakirkjuna og hún skoðuð. Norðan undir henni er hlaðið fjárskjól með fyrirhleðslum. Álfakirkjan var talinn einn helgasti staður álfanna í Hraunum. Hraunamenn trúðu því að álfarnir héldu verndarhendi yfir fénu er leitaði skjóls í skútanum.
Þá var haldið til suðurs upp í Lónakotssel. Í selinu eru fjögur hús, þrír stekkir og fjárskjól í hraunkvos. Fjárskjólið er niður og utan í hraunkvosinni vestan við selið. Í henni er einnig einn stekkjanna eða gömul rétt. Norðaustan seljanna er stekkur og annar sunnan þeirra. Tækifærið var notað og selið rissað upp.

Óttarsstaðasel

Óttarsstaðasel.

Þá var haldið yfir að Óttarstaðaseli. Vestan þess er Tóhólaskúti, hlaðið fjárskjól. Selið sjálft er einungis eitt hús með þremur rýmum (dæmigerð selstaða á Reykjanesskaganum). Sunnan þess er þrískiptur stekkur og lítil rétt. Enn sunnar er Rauðshólsskúti, hlaðið fjárskjól. Norðnorðaustan hans er hlaðinn nátthagi. Norðan selsins er Norðurskjól, svo til alveg við Óttarstaðaselsstíginn. Stígnum var fylgt til norðurs. Á leiðinni var komið við í Sveinsskúta, hlaðið fyrir fjárskjól, og Bekkjakúta, einnig hlöðnu fjárskjóli í hraunkvos. Komið var niður á Alfararleiðina og henni fylgt til vesturs uns hringnum var lokað.

Lónakotssel

Lónakotssel – uppdráttur ÓSÁ.