Kristian Kaalund eða Kristian Kålund, fullu nafni Peter Erasmus Kristian Kaalund (19. ágúst 1844 – 4. júlí 1919) var danskur textafræðingur, lengst af bókavörður við Árnasafn (Den Arnamagnæanske Samling) í Kaupmannahöfn.
Kristian Kaalund fæddist í Søllested á Lálandi. Foreldrar hans voru Caspar Ernst Kaalund (1806–1853), sóknarprestur í Søllested, og kona hans Anna Helene Riedewaldt (1817–1888).
Kaalund var 9 ára þegar hann missti föður sinn. Hann varð stúdent frá Herlúfshólmsskólanum 1863, fór svo í Háskólann í Kaupmannahöfn og tók meistarapróf í norrænni textafræði 1869, með ritgerðinni: „Familielivet paa Island i den første sagaperiode (indtil 1030)“, sem birtist í Árbókum Fornfræðafélagsins 1870. Haustið 1872 fór Kaalund til Íslands og dvaldist þar í tvö ár. Hann ferðaðist um mestan hluta landsins sumrin 1873 og 1874 til þess að kynna sér sögustaði fornritanna. Þessar rannsóknir, sem hann jók síðar með viðbótarefni úr prentuðum og óprentuðum ritum, birtust síðar í tveggja binda riti: Bidrag til en historisk-topografisk beskrivelse af Island, 1877–1882. Það er enn talið undirstöðurit um íslenskar fornleifar og ómissandi handbók fyrir þá sem lesa Íslendingasögurnar, vegna ítarlegra upplýsinga, sem hann fékk m.a. hjá staðkunnugu fólki. Ritið kom út í íslenskri þýðingu 1984–1986, undir heitinu Íslenskir sögustaðir 1–4.
Hverfið, sem Arnarbæli í Ölfusi er hluti af, fékk nafnið Arnarbælishverfi. Arnarbælisforir eru mýrlendi á þessu frjósama landsvæði. Mikill vatnsagi gerði bændum erfitt fyrir og tilraunir voru gerðar til að ræsa vatnið fram. Geldneyti frá Arnarbæli voru gjarnan látin ganga á Hellisheiði á sumrin áður en afurðirnar voru seldar til Reykjavíkur. Margir áttu stundum fótum fjör að launa á leiðinni yfir heiðina undan galsafengnum eða jafnvel mannýgum nautum fyrrum.
Einhver mesti höfðingi Sturlungaaldar, Þorvarður Þórarinsson af Svínfellingaætt, fluttist austan af landi að Arnarbæli 1289. Hann bjó þar til dauðadags í 7 ár. Margir álíta, að hann hafi notað þennan tíma til að rita Njálssögu.
Arnarbæliskirkja stóð til ársins 1909 og þar var löngum prestssetur. Þetta ár var Reykjakirkja líka lögð niður og báðar sóknirnar lagðar til Kotstrandar. Margir merkisprestar sátu staðinn, s.s. Jón Daðason, sem flutti frá Djúpi 1641 og bjó þar til dauðadags 1676. Hann kenndi séra Eiríki Magnússyni, aðstoðarpresti og síðar sóknarpresti í Vogsósum, vísindi í 9 ár. Séra Jón varð að verjast mörgum sendingum frá fyrrum sóknarbörnum fyrir vestan, sem bekktust við hann, líkt og séra Snorra í Húsafelli.
Annálar 20. apríl 1706 segja frá jarðskjálfta, sem olli hruni margra bæja á Suðurlandi. Arnarbælisbærinn hrundi til grunna og presturinn, Hannes Erlingsson komst út um sprunginn vegg eða þak hálfnakinn með ungabarn. Teinæringur, sem prestur gerði út frá Þorlákshöfn, fórst um svipað leyti með 11 manna áhöfn, kvæntum hjáleigubændum úr Arnarbælishverfi. Bæjarhúsin hrundu aftur til grunna í jarðskjálftunum 6. september 1896.
Forn og stór rúst á Þingholti í Arnarbælislandi er friðuð.
Kålund skrifar m.a. um Arnarbæli, skipslátur í Ölfusá og bæinn Fell undir Ingólfsfjalli (-felli).
“Arnarbæli er nefnt í Harðar sögu Grímkelssonar (17), og er leið þangað með öllu ófær nema með kunnugum fylgdarmanni, og er vel fallin til að veita hugmynd um sérkenni í Ölfusi, flatt land sem flæðir yfir, blautar engjar, lækjar- og ármynni eða kvíslar úr Ölfusá ólga yfir flæðiland; er land þetta frábært til heyskapar.
Norðar sést Hengill og Reykjafjöll, giljótt og mosavaxin, og lengst í norðaustri fjallaþyrping, og áfast henni er Ingólfsfjall, mikið og virðulegt, sést hvartvetna úr Ölfusi og virðist vera stakt. Á miðri langri bungu háfjallsins er hóll, – sjáanlegur frá öllum hliðum fjallsins nema að norðan – alveg eins og fornmannahaugur að lögun og einnig stærð og því er virðist; tilsýndar er útlitslíking furðulega mikil; hóllinn nefnist Inghóll. Segir almenn sögn að þar sé heygður Ingólfur fyrsti landnámsmaður Íslands. Sögnin er allgömul – Þórðarbók – og eitthvað svipað virðist gefið í skyn í Hauksbók – bætir við texta Landnámu (45) um Ingólf: “Hann var hinn þriðja vetur undir Ingólfsfelli fyrir vestan Ölfusá”, orðunum “þar sem sumir menn segja að hann sé heygður”; en í Íslendingabók segir aðeins: “er þar Ingólfsfell fyrir vestan Ölfusá, er hann lagði sína eigu síðan”.
Auðvelt er að komast á fjallið að norðan og að hólnum, og er talið að þá megi sjá, að hann er aðeins gerður af klöpp, grjóti og möl, og öll gerð hans sýnir að hann er náttúrusmíð. (Brynjólfur Sveinsson, hinn frægi biskup (1639-74) reið samkvæmt “Descr. Ölves” upp á fjallið til að skoða hauginn. Þá var hann mældur og reyndist vera 200 faðmar að ummáli sbr. Ferðarbók E.Ó. 859.- Samkvæmt fornminjaskýrslu (1821) á sögn að vera tengd Ingólfi og Inghól lík sögunni um Egil á Mosfelli í Mosfellssveit og Ketilbjörn á Mosfelli í Grímsnesi; skömmu fyrir dauða sinn á hann að hafa látið tvo þræla sína og ambátt fela fé sitt í Inghól og síðan hafi hann drepið þau á stöðum í fjallinu, sem heita eftir þeim (Ímuskarð, Kagagil og Kaldbakur).
Efri helmingi fjallsins hallar jafnt niður, og síðan koma brattar hlíðar niður á jafnlendið, aðeins að sunnan teygir sig fram lágur rani. Fram af honum er keilu- og toppmynduð hæð, Kögunarhóll, sem áður fyrr á að hafa heitið Knörrhóll, þar sem munnmæli segja, að Ingólfur hafi sett skip sitt.
Í Harðar sögu Grímkelssonar segir (2), að maður að nafni Sigurður múli hafi fóstrað dóttur Grímkels goða, sem bjó fyrir sunnan Þingvallavatn. Sigurður á að hafa búið á bænum Felli (undir Felli). Síðar segir, að Hörður sonur Grímkels hafi látið flytja alla vöru sína undir Fwell til Sigurðar í múla, þá er faðir hans hafi látið hann fá, en hann ætlaði utan á Eyrum (austan við minni Ölfusár). Í skinnbókarbroti sem talið er vera af eldri gerð Harðar sögu, er bær Sigurðar múla nefndur Fjall (hann bjó undir Fjalli). Þessi bær Fell eða Fjall er vafalaust eyðibærinn Fjall; sést móta fyrir tóftum hans og túni skammt fyrir sunnan Ingólfsfjall. Jarðabók Á.M. og P.V. (1706) nefnir Fjall, sem áður fyrr hafi verið mikil jörð, og samkvæmt munnmælum á að hafa verið fyrrum þar kirkja. Við upphaf fyrri aldar höfðu verið byggðar fjórar harðir af hinni upphaflegu, en Fjall yngra lagst í eyði, einnig önnur af þessum fjórum (Fossnes), svo að nú séu aðeins tvær eftir af þessum fjórum (Laugarbakki eða -bakkar og Hellir).
Ekki er líklegt, að neitt af útrennsli Ölfusár hafi borið nafnið Arnarbælisós, því bærinn Arnarbæli stendur allmiklu ofar (1/2-1 mílu). Aftur á móti má hugsa sér, að því að varla hefur verið við mynni Ölfusár nokkurt lægi fyrir skip í fornöld, að lendingarstaðurinn hafi ef til vill nafn af þeim stað, sem skipin lögðu inn eða voru bundin.
Þetta fær ef til vill stuning af frásögn Landnámu (390) um landnámsmanninn Álf egska. Hann fór til Íslands og lenti skipi sínu í ósi þeim (mynni) sem hefur fengið nafn af honum og heitir Álfsós; hann nam allt land fyrir uatn Varmá og bjó að Gnúpum. Hér er Ölfusá ekki nefnd, en þótt hann hafi orðið að sigla inn um mynni árinnar til að komast í Álfsós og upp í neðri hluta Varmár, sem nefnist Þorleifslækur. Á sama hátt mætti álíta að Arnarbælisós hafi verið ármynni nálægt Arnarbæli, þar sem hafskipin venjulega lögðu inn og leituðu hafnar, sem var ekki að fá í mynni Ölfusár vegna breiddar ármynnisins, og ef til vill af fleiri ástæðum. Slíkt ármynni hefur einmitt verið þarna, því að varmá féll fyrrum í Ölfusá skammt fyrir austan Arnarbæli, en fyrir um 200 árum braut hún sér farveg í Álfsós og þar með í Þorleifslæk. Enn lifa sagnir sem benda til, að hafskip hafi lagst hjá Arnarbæli, og má nefna nokkur nöfn því til stuðnings, þannig var í túninu fyrir vestan pretsetrið hjáleiga, sem nefndist Búlkhús, þar sem sagt er, að skip hafi verið affermd.”
Heimildir:
-https://www.olfus.is/is/mannlif/gestir-og-gangandi/ahugaverdir-stadir/arnarbaeli
-Íslenskir Sögustaðir Bidrag til en historisk-topografisk Beskrivelse af Island – 1877), P.E. Kristian Kålund, Sunnlendingafjórðungur I, Bókaútgáfan Örn og Örlygur Hf, 1984, bls. 56-59.