Færslur

Ingólfsfjall

Kristian Kaalund eða Kristian Kålund, fullu nafni Peter Erasmus Kristian Kaalund (19. ágúst 1844 – 4. júlí 1919) var danskur textafræðingur, lengst af bókavörður við Árnasafn (Den Arnamagnæanske Samling) í Kaupmannahöfn.

Arnarbæli

Arnarbæli í Ölfusi.

Kristian Kaalund fæddist í Søllested á Lálandi. Foreldrar hans voru Caspar Ernst Kaalund (1806–1853), sóknarprestur í Søllested, og kona hans Anna Helene Riedewaldt (1817–1888).
KaalundKaalund var 9 ára þegar hann missti föður sinn. Hann varð stúdent frá Herlúfshólmsskólanum 1863, fór svo í Háskólann í Kaupmannahöfn og tók meistarapróf í norrænni textafræði 1869, með ritgerðinni: „Familielivet paa Island i den første sagaperiode (indtil 1030)“, sem birtist í Árbókum Fornfræðafélagsins 1870. Haustið 1872 fór Kaalund til Íslands og dvaldist þar í tvö ár. Hann ferðaðist um mestan hluta landsins sumrin 1873 og 1874 til þess að kynna sér sögustaði fornritanna. Þessar rannsóknir, sem hann jók síðar með viðbótarefni úr prentuðum og óprentuðum ritum, birtust síðar í tveggja binda riti: Bidrag til en historisk-topografisk beskrivelse af Island, 1877–1882. Það er enn talið undirstöðurit um íslenskar fornleifar og ómissandi handbók fyrir þá sem lesa Íslendingasögurnar, vegna ítarlegra upplýsinga, sem hann fékk m.a. hjá staðkunnugu fólki. Ritið kom út í íslenskri þýðingu 1984–1986, undir heitinu Íslenskir sögustaðir 1–4.

Arnarbæli

Arnarbæli.

Hverfið, sem Arnarbæli í Ölfusi er hluti af, fékk nafnið Arnarbælishverfi. Arnarbælisforir eru mýrlendi á þessu frjósama landsvæði. Mikill vatnsagi gerði bændum erfitt fyrir og tilraunir voru gerðar til að ræsa vatnið fram. Geldneyti frá Arnarbæli voru gjarnan látin ganga á Hellisheiði á sumrin áður en afurðirnar voru seldar til Reykjavíkur. Margir áttu stundum fótum fjör að launa á leiðinni yfir heiðina undan galsafengnum eða jafnvel mannýgum nautum fyrrum.

Einhver mesti höfðingi Sturlungaaldar, Þorvarður Þórarinsson af Svínfellingaætt, fluttist austan af landi að Arnarbæli 1289. Hann bjó þar til dauðadags í 7 ár. Margir álíta, að hann hafi notað þennan tíma til að rita Njálssögu.

Arnarbæli

Arnarbæliskirkja stóð fyrrum í steinsins stað.

Arnarbæliskirkja stóð til ársins 1909 og þar var löngum prestssetur. Þetta ár var Reykjakirkja líka lögð niður og báðar sóknirnar lagðar til Kotstrandar. Margir merkisprestar sátu staðinn, s.s. Jón Daðason, sem flutti frá Djúpi 1641 og bjó þar til dauðadags 1676. Hann kenndi séra Eiríki Magnússyni, aðstoðarpresti og síðar sóknarpresti í Vogsósum, vísindi í 9 ár. Séra Jón varð að verjast mörgum sendingum frá fyrrum sóknarbörnum fyrir vestan, sem bekktust við hann, líkt og séra Snorra í Húsafelli.

Arnarbæli

Arnarbæli eftir jarðskjálftann 1896.

Annálar 20. apríl 1706 segja frá jarðskjálfta, sem olli hruni margra bæja á Suðurlandi. Arnarbælisbærinn hrundi til grunna og presturinn, Hannes Erlingsson komst út um sprunginn vegg eða þak hálfnakinn með ungabarn. Teinæringur, sem prestur gerði út frá Þorlákshöfn, fórst um svipað leyti með 11 manna áhöfn, kvæntum hjáleigubændum úr Arnarbælishverfi. Bæjarhúsin hrundu aftur til grunna í jarðskjálftunum 6. september 1896.

Forn og stór rúst á Þingholti í Arnarbælislandi er friðuð.

Kålund skrifar m.a. um Arnarbæli, skipslátur í Ölfusá og bæinn Fell undir Ingólfsfjalli (-felli).

Arnarbæli

Arnarbæli og nágrenni.

“Arnarbæli er nefnt í Harðar sögu Grímkelssonar (17), og er leið þangað með öllu ófær nema með kunnugum fylgdarmanni, og er vel fallin til að veita hugmynd um sérkenni í Ölfusi, flatt land sem flæðir yfir, blautar engjar, lækjar- og ármynni eða kvíslar úr Ölfusá ólga yfir flæðiland; er land þetta frábært til heyskapar.

Ingólfsfjall

Ingólfsfjall – AMC-kort.

Norðar sést Hengill og Reykjafjöll, giljótt og mosavaxin, og lengst í norðaustri fjallaþyrping, og áfast henni er Ingólfsfjall, mikið og virðulegt, sést hvartvetna úr Ölfusi og virðist vera stakt. Á miðri langri bungu háfjallsins er hóll, – sjáanlegur frá öllum hliðum fjallsins nema að norðan – alveg eins og fornmannahaugur að lögun og einnig stærð og því er virðist; tilsýndar er útlitslíking furðulega mikil; hóllinn nefnist Inghóll. Segir almenn sögn að þar sé heygður Ingólfur fyrsti landnámsmaður Íslands. Sögnin er allgömul – Þórðarbók – og eitthvað svipað virðist gefið í skyn í Hauksbók – bætir við texta Landnámu (45) um Ingólf: “Hann var hinn þriðja vetur undir Ingólfsfelli fyrir vestan Ölfusá”, orðunum “þar sem sumir menn segja að hann sé heygður”; en í Íslendingabók segir aðeins: “er þar Ingólfsfell fyrir vestan Ölfusá, er hann lagði sína eigu síðan”.

Ingólfsfjall

Inghóll á Ingólfsfjalli (-felli).

Auðvelt er að komast á fjallið að norðan og að hólnum, og er talið að þá megi sjá, að hann er aðeins gerður af klöpp, grjóti og möl, og öll gerð hans sýnir að hann er náttúrusmíð. (Brynjólfur Sveinsson, hinn frægi biskup (1639-74) reið samkvæmt “Descr. Ölves” upp á fjallið til að skoða hauginn. Þá var hann mældur og reyndist vera 200 faðmar að ummáli sbr. Ferðarbók E.Ó. 859.- Samkvæmt fornminjaskýrslu (1821) á sögn að vera tengd Ingólfi og Inghól lík sögunni um Egil á Mosfelli í Mosfellssveit og Ketilbjörn á Mosfelli í Grímsnesi; skömmu fyrir dauða sinn á hann að hafa látið tvo þræla sína og ambátt fela fé sitt í Inghól og síðan hafi hann drepið þau á stöðum í fjallinu, sem heita eftir þeim (Ímuskarð, Kagagil og Kaldbakur).

Kögunarhóll

Kögunarhóll 1897 – Collingwood.

Efri helmingi fjallsins hallar jafnt niður, og síðan koma brattar hlíðar niður á jafnlendið, aðeins að sunnan teygir sig fram lágur rani. Fram af honum er keilu- og toppmynduð hæð, Kögunarhóll, sem áður fyrr á að hafa heitið Knörrhóll, þar sem munnmæli segja, að Ingólfur hafi sett skip sitt.

Fell

Tóftir Fells.

Í Harðar sögu Grímkelssonar segir (2), að maður að nafni Sigurður múli hafi fóstrað dóttur Grímkels goða, sem bjó fyrir sunnan Þingvallavatn. Sigurður á að hafa búið á bænum Felli (undir Felli). Síðar segir, að Hörður sonur Grímkels hafi látið flytja alla vöru sína undir Fwell til Sigurðar í múla, þá er faðir hans hafi látið hann fá, en hann ætlaði utan á Eyrum (austan við minni Ölfusár). Í skinnbókarbroti sem talið er vera af eldri gerð Harðar sögu, er bær Sigurðar múla nefndur Fjall (hann bjó undir Fjalli). Þessi bær Fell eða Fjall er vafalaust eyðibærinn Fjall; sést móta fyrir tóftum hans og túni skammt fyrir sunnan Ingólfsfjall. Jarðabók Á.M. og P.V. (1706) nefnir Fjall, sem áður fyrr hafi verið mikil jörð, og samkvæmt munnmælum á að hafa verið fyrrum þar kirkja. Við upphaf fyrri aldar höfðu verið byggðar fjórar harðir af hinni upphaflegu, en Fjall yngra lagst í eyði, einnig önnur af þessum fjórum (Fossnes), svo að nú séu aðeins tvær eftir af þessum fjórum (Laugarbakki eða -bakkar og Hellir).

Fell

Tóft við Fell.

Ekki er líklegt, að neitt af útrennsli Ölfusár hafi borið nafnið Arnarbælisós, því bærinn Arnarbæli stendur allmiklu ofar (1/2-1 mílu). Aftur á móti má hugsa sér, að því að varla hefur verið við mynni Ölfusár nokkurt lægi fyrir skip í fornöld, að lendingarstaðurinn hafi ef til vill nafn af þeim stað, sem skipin lögðu inn eða voru bundin.

Ölfusá

Ölfusá – Þorleifslækur.

Þetta fær ef til vill stuning af frásögn Landnámu (390) um landnámsmanninn Álf egska. Hann fór til Íslands og lenti skipi sínu í ósi þeim (mynni) sem hefur fengið nafn af honum og heitir Álfsós; hann nam allt land fyrir uatn Varmá og bjó að Gnúpum. Hér er Ölfusá ekki nefnd, en þótt hann hafi orðið að sigla inn um mynni árinnar til að komast í Álfsós og upp í neðri hluta Varmár, sem nefnist Þorleifslækur. Á sama hátt mætti álíta að Arnarbælisós hafi verið ármynni nálægt Arnarbæli, þar sem hafskipin venjulega lögðu inn og leituðu hafnar, sem var ekki að fá í mynni Ölfusár vegna breiddar ármynnisins, og ef til vill af fleiri ástæðum. Slíkt ármynni hefur einmitt verið þarna, því að varmá féll fyrrum í Ölfusá skammt fyrir austan Arnarbæli, en fyrir um 200 árum braut hún sér farveg í Álfsós og þar með í Þorleifslæk. Enn lifa sagnir sem benda til, að hafskip hafi lagst hjá Arnarbæli, og má nefna nokkur nöfn því til stuðnings, þannig var í túninu fyrir vestan pretsetrið hjáleiga, sem nefndist Búlkhús, þar sem sagt er, að skip hafi verið affermd.”

Heimildir:
-https://www.olfus.is/is/mannlif/gestir-og-gangandi/ahugaverdir-stadir/arnarbaeli
-Íslenskir Sögustaðir Bidrag til en historisk-topografisk Beskrivelse af Island – 1877), P.E. Kristian Kålund, Sunnlendingafjórðungur I, Bókaútgáfan Örn og Örlygur Hf, 1984, bls. 56-59.

Arnarbæli

Arnarbæli og Fell undir Ingólfsfjalli (-felli).

Helgafell

Fólk hefur löngum deilt um tilefni örnefna á fjöllum, fellum, hæðum og hólum. Á Reykjanesskaganum má t.d. finna Fagradalsfjall, Húsafjall, Fiskidalsfjall, Borgarfjall, Festarfjall, Latsfjall, Fjallið eina og Bláfjöll.

Fagradalsfjall

Fagradalsfjall.

Fellin eru fleiri, s.s. Bæjarfell, Helgafell, Sandfell, Þórðarfell, Mælifell, Arnarfell, Vörðufell, Driffell, Oddafell, Húsafell, Sílingafell, Sýrfell, Geitafell, Vífilsfell, Snókafell, Lambafell, Kóngsfell, Skálafell, Grímannsfell, Reykjafell, Lágafell, Úlfarsfell, Mosfell og Ármannfell.

Esjan er t.d. fjall, sem á sér nokkur fell, s.s. Kistufell og Þverfell.

Á Vísindavef Háskóla Íslands má lesa eftirfarandi: “Engar fastar skilgreiningar eru til á þessu, að minnsta kosti ekki ennþá, en samkvæmt málskyni íslenskumælandi manna er fjall stærst, þá fell, síðan hóll, en þúfa minnst. Öll koma þessi orð fyrir í örnefnum, og rétt stærðaröð kemur til dæmis fram í örnefnunum Akrafjall, Búrfell, Orrustuhóll og Svalþúfa.

Reykjanesskagi

Reykjanesskagi – örnefnakort.

Örnefnafræðingar benda á að fell vísi oftast til stakrar myndunar (Búrfell, Vörðufell, Snæfell) en fjall geti hvort sem er verið stakt eða hluti af stærri heild (Akrafjall, Ingólfsfjall/fell, Hverfjall/fell, Selsundsfjall).
Almennt finnst mér að hóll vísi til mishæðar í heimalöndum, til dæmis bæjarhólsins, en fjall hins vegar utan bæjarhólsins.” – Sigurður Steindórsson

Framangreindur fróðleikur er langt í frá að geta talist tæmandi…

Heimild m.a.:
-https://www.visindavefur.is/svar.php?id=797

Helgafell

Búrfell.

Vigdísarvellir

Á vefsíðu Minjastofnunar getur að lesa eftirfarandi um Vigdísarvelli austan við Núpshlíðarháls (Vesturás):

Vigdísarvellir

Vigdísarvellir – uppdráttur Minjastofnunar. Á hann vantar nokkrar minjar.

“Á Vigdísarvöllum má sjá mjög fallegt og heillegt minjasvæði kotbýla frá 19. öld.

Vigdísarvellir

Vigdísarvellir.

Samkvæmt Jarðabók Árna og Páls frá 1703 var á Vigdísarvöllum selstaða frá Þórkötlustöðum í Grindavík. Henni var lýst sem góðri en langt og erfitt að fara. Selstaðan var í landi Krýsuvíkur en Þórkötlustaðabændur fengu að nýta hana í skiptum fyrir skipsstöðu í Þórkötlustaðalandi.

Vigdísarvellir

Vigdísarvellir – Bali.

Á Vigdísarvöllum var og er eitt besta gróðurlendi í Grindavíkurhreppi en staðurinn var hins vegar afskekktur. Árið 1830 var þar reist nýbýlið Vigdísarvellir og skömmu síðar nýbýlið Bali. Ekki er alveg ljóst hvaða ár Bali byggðist, það er ekki nefnt í heimildum fyrir 1840 þegar fyrst er getið búsetu þar en árið 1846 bjó þar sex manna fjölskylda. Síðasta heimild um búsetu á Bala er frá árinu 1850.

Vigdísarvellir

Vigdísarvellir – útihús.

Á Vigdísavöllum var búið allavega til ársins 1901, mögulega með einhverju hléi milli 1870 og 1890. Þriðja nýbýlið á svæðinu sem heimildir eru um er býlið Fell. [Fell er reyndar ekki nálægt Vigdísarvöllum heldur sunnan Grænavatns]. Þar er getið búsetu í manntalinu 1855 en hvorki fyrr né síðar. Í lok janúar árið 1905 hrundu eða stórskemmdust öll hús á Vigdísarvöllum og fór bærinn eftir það í eyði.

Bærinn Vigdísarvellir eru í norðvesturhorni vallanna sem þeir heita eftir. Utan um túnið er mikill túngarður afar greinilegur og heill að mestu, alls rúmlega 1 km. að lengd. Bali er í austurhluta túnsins á Vigdísarvöllum. Tóftin er mjög greinileg með tveimur samföstum kálgörðum.

Þórkötlustaðasel

Þórkötlustaðasel við Vigdísarvelli – uppdráttur ÓSÁ.

Minjarnar eru vel varðveittar og menningarlandslagið í heild mjög skýrt. Þó svo minjarnar séu flestar ungar eða frá seinni hluta 19. aldar eru þær afar áhugaverðar sérstaklega sem minnisvarði um kotbýli frá þessum tíma sem annars staðar eru flest horfin vegna seinni tíma byggðar.”

Þess ber að geta að selstaða Þórkötlustaða fyrrum var á sunnanverðum Völlunum, sem þá hétu reyndar ekki Vigdísarvellir en voru norðurhluti Bleikingsvalla. Á þeim tíma var ekkert tún, sem síðar varð umleikis Vigdísarvelli og Bala sunnan undir Bæjarfelli.

Heimild:
-https://skyrslur.minjastofnun.is/Verkefni_2571.pdf

Vigdísarvellir

Vigdísarvellir – uppdráttur ÓSÁ.

Seltúnssel

Gengið var frá Seltúni að tóftum bæjarins Fells skammt sunnan Grænavatns.

Arnarfellsrétt

Arnarfellsrétt.

Nafnið Seltún bendir til selstöðu frá einhverjum Krýsuvíkurbæjanna, en hvergi er hægt að greina ummerki eftir það svo glögglega megi teljast. Lítil tóft er á gróinni skák nálægt hverasvæðinu, en hún gæti einnig hafa verið eftir námumenn, sem unnu brennistein á svæðinu á 19. öld. Ágætt handunnið kort er til af námusvæðinu, sem reyndar voru þrjú, þ.e. upp í Baðstofu undir Hettu, utan í Hnakk og ofan við Seltún. Á síðastnefna svæðinu munu umsvifin hafa verið mest. Til eru ljósmyndir Englendinga er sýna háa brennisteinshrauka þar sem nú er bílastæði. Lækurinn var stíflaður með tréþiljum á nokkrum stöðum til að mynda þvottaþrær og má enn sjá leifar þeirrar neðstu austan þjóðvegarins. Frá Seltúni liggur Ketilsstígurinn upp á Austurháls.

Grænavatn

Grænavatn.

Grænavatn skammt frá Krýsuvík er ekki einvörðungu merkilegt fyrir sinn græna lit sem líklega orsakast af dýpt þess heldur einnig af því að margar sögur gengu af undarlegum skepnum sem komu stundum upp úr því. Einn maður fullyrti að hann hefði séð eina slíka skepnu, þó eigi mjög stóra, líkasta marsvíni. Hún hvarf fljótt.
Reyndar segir einnig af skrímsli í Kleifarvatni. 1755 sást undarleg skepna líkasta skötu að lit og lögun koma upp úr vatninu, yfirmáta stóra eins og öllum bar saman um að allar þær skepnur væru er menn þóttust sjá í þessu vatni; væru þær bæði stærri og lengur uppi en í Grænavatni.

Arnarfell

Arnarfell – bæjartóftir.

1750 þorði fólk eigi að veiða í Kleifarvatni þótt það væri fullt af fiski í uppivöðum vegna orms eða slöngu sem væri svört að lit og kæmi iðulega upp og léki sér í vatninu. Hún var að stærð við meðalhval, 30-40 metra löng.
Maður nokkur kvaðst oft, bæði einn og með öðrum, hafa séð hana og aðgætt vel því hún hefði oft verið uppi tvær mínútur. Hann bætti því líka við að menn og konur sem voru að vinnu við vatnið í stilltu veðri og sólbjörtu 1749 í ágústmánuði hefði allt séð þennan orm miklu betur en nokkrir aðrir áður þegar hann skaut sér upp úr vatninu og skreið upp á mjóan tanga eða nes og lá þar hér um bil tvo tíma uns hann fór aftur í vatnið. Fólkið þorði eigi að honum en flýði eigi heldur af því hann lá kyrr. Þó gat það eigi lýst hversu hann hreyfði sig frá og í vatnið, dróst saman og rétti úr sér á mis.

Krýsuvík

Fell í Krýsuvík.

Litið var á tóftir Fells, sem er í gróinni hvylft vestan í melhæð norðan Stóra-Nýjabæjar. Fáar sagnir eru til af bæ þessum, en hann mun hafa verið einn af fjórtán hjáleigum frá Krýsuvík. Aðrar má t.d. telja Eyri og Fitjar við Selöldu. Vigdísarvelli, Snorrakot, Suðurkot, Norðurkot, Læk, Litla-Nýjabæ og Hnausa. Gestsstaðir suðvestan Gestsstaðavatns og Kaldrani suðvestan Kleifarvatns eru með elstu minjum bæja á svæðinu.
Litið var á Augun, tvo gíga er þjóðvegurinn liggur millum, Sefið er tengist sögunni af barnsmorði ólánskonu frá Stóra-Nýjabæ, brunn við Litla-Nýjabæ og strikið síðan tekið að Grjóthólsrétt utan í Gráhól. Því miður hafa bæjarstæði fyrrnefndu bæjanna verið afmáð og sama gildir um réttina. Þegar þjóðvegurinn var lagður var hún tekin í undirlagið. Norðan við hólinn má sjá gamla veginn áleiðis til Krýsuvíkur og enn móta þar fyrir steinbrú, sem á honum hefur verið.

Stínuskúti

Stínuskúti.

Gengið var yfir Vestari-læk, um bæjartóftir Lækjar og stefnan tekin á Arnarfell. Norðan við fellið er hlaðinn stekkur og upp í fellinu að norðauatsnverðu er lítill skúti er jafnan hefur verið nefndur Stínuskúti. Frá Norðuröxl Arnarfells sést vel yfir Krýsuvíkurtorfuna. Suðvestan við kirkjuna er áberandi hóll og tóft austan í honum. Hóllinn heitir Ræningjahóll og tóftin Ræningjadys.
Svo er sagt að ræningjar hafi komið í land ekki langt frá Krýsivíkurlandi og hefði flokkur mikill af þeim komið gangandi og stefnt fram til Krýsuvíkur, en er til þeirra sást var strax sendur maður til Eiríks prests. Reið hann sem mest mátti, hitti prest og bjóst hann strax með sendimanni, en er þeir sáu heim að bænum þá hafði ræningjaflokkurinn staðar numið á hóli nokkrum fyrir sunnan kirkjuna í Krýsuvík og börðust í ákafa svo að þeir drápust þannig niður fyrir vopnum sjálfra sín, en komust aldrei heima að bænum.

Krýsuvík

Bærinn Arnarfell í Krýsuvík.

Gengið var um tóftir bæjarins undir Arnarfelli. Beinteinn var maður nefndur er bjó að Arnarfelli. Eitthvert sinn var hann að smíða skip við sjó frammi, þar sem heitir á Selatöngum. Hafðist hann þar við í verskála. Þar hafði hann alltaf hjá sér hlaðna byssu. Hannn lét einatt loga ljós í skálanum þegar kveldaði.

Eitt kvöld, er hann hefur kveikt í skálanum, heyrir hann allt í einu mjög mikinn brest og skarkala í skáladyrum. Lítur hann þangað og sér þá að ógurlegt skrímsli treður sér inn úr dyrunum; það hafði brotið tréð úr þeim, hafði dyraumbúninginn á herðunum og tróð sér svo áfram. En þröngt varð um það á milli grjótveggjanna. Það var eins og maður neðan en mjög ófreskjulegt eða dýrslegt ofan.

Krýsuvík

Arnarfell fjær.

Beinteinn var harðfær maður og alleinbeittur. Hann þrífur því byssu sína, lætur sér ekki bilt við verða og hleypir af á ófreskjuna. Henni bregður hvergi og treður sér því meir áfram. Beinteinn hleður aftur byssuna og hleypir af. Þá stansar þetta en ekkert sér á því. Enda var það allt að sjá hulið skeljarögg utan.
Beinteinn var í silfurhnepptri millifatapeysu. Hann man nú allt í einu að hann hefir heyrt sagt að þótt engin kúla vinni á skeljastakk skrímsla þá geri þó silfurhnappar það. Slítur hann því hnappana af peysunni sinni, hleður byssuna og hefur á fyrir högl eða kúlu og skýtur enn á skrímslið. Þá tók það snarpt viðbragð, reif sig út og hvarf til sævar. En Beinteinn hljóp út. Þá fyrst greip hann hræðsla. Tók hann til fóta og hægði eigi á sprettinum fyrr en heima við bæ, óður af hræðslu og nærri sprunginn af mæði og sagði söguna. Að morgni sáust aðgerðir skrímslisins en sjálft var það með öllu horfið.
Litið var á Arnarfellsrétt suðvestan undan fellinu. Um er að ræða fallega hlaðna rétt og er hún enn nokkuð heilleg.
Í bakaleiðinni var komið við í Krýsuvíkurétt, Krýsuvíkurkirkju og skoðaðar tóftir bæjanna að Hnausum, Norðurkoti og Snorrakoti, auk þess sem komið var í hinum fornu tóftum að Gestsstöðum, gengið með börmum Gestsstaðavatns og yfir á Seltún. Síðastnefndu stöðunum er lýst í annarri FERLIRslýsingu (sjá HÉR).

Seltúnssel

Seltúnsselið.

 

Seltúnssel

M.a. var litið á “trúlegt sel” á Seltúni, sem þar mun hafa verið skv. Jarðarbókinni 1703, þ.e. sel frá Krýsuvík. Eftir endurtekna leit á svæðinu fundust  tóftir er gætu verið eftir sel á tveimur stöðum, beggja vegna þjóðvegarins.

Seltún

Seltúnsselið sést á þessari mynd Sigfúsar Eymundssonar frá 1884 – myndin er tekin frá Lambafelli að Seltúni.

Annars vegar er um að ræða jarðlægar tóftir, sem sléttaðar voru út við túnræktina á svæðinu um 1960. Sú tóft sést vel á ljósmynd Sigfúsar Eymundssonar, sem tekin var frá Lambafelli að Seltúni árið 1884. Hins vegar er  um að ræða tvær tóftir, önnur nú fótum troðin af hestum Hafnfirðinga og hin hringlaga gerði skammt sunnar, einnig illa farin af ágangi hrossa. Þessar minjar hafa ekki verið skráðar sem slíkar – svo vitað sé.
Ofan við Seltúnið er lítil ferkantlaga tóft á grasbala sunnan við hverasvæðið. Hún gæti hafa tengst athöfnum námumanna á hverasvæðinu á sínum tíma. Sjáanlegar leifar námuvinnslunnar er hluti einnar stíflunnar austan þjóðvegarins. Hana má m.a. sjá á ljósmynd, sem Englendingar tóku í þeim tilgangi að selja hlutabréf í námuvinnslufyrirtækinu erlendis. Þá eru norðan við Seltúnið a.m.k. þrjár tóftir og gerði er tengdust brennisteinsvinnslunni á sínum tíma. Sagt er frá þessum minjum annars staðar á vefsíðunni, auk þess sem brennisteinsvinnslunni er gerð góð skil.

Krýsuvík

Fell – tóftir.

Kíkt var á “hugsanlega sel eða mögulega hjáleiguna Fell” sunnan Grænavatns. Tóftir bæjarins kúra í dalkvos skammt sunnan við vatnið. Hann ku hafa verið í ábúð einungis skamman tíma.
Litið var á “afar fallegan brunn” við Litla-Nýjabæ suðvestan við Augun og síðan var gengið frá Ræningjahól og þaðan að “vel farinni og fallegri rétt” sunnan Arnarfells. Um er að ræða nokkuð stóra og heillega rétt í slakka í beina línu á milli Krýsuvíkurkirkju og vörðu á nyrsta Trygghólnum, svo til miðja vegu milli hans og Arnarfells.

Arnarfellsrétt

Arnarfellsrétt.

Réttin er svonefnd Arnarfellsrétt. Um er að ræða almenning og níu misstóra dilka. Frá henni sér í Bæjarfellsréttina í norðvestri.

Bæjarfellsrétt.

Bæjarfellsrétt í Krýsuvík.

Gengið var upp að Bæjarfellsréttinni (Krýsuvíkurrétt), norður með austanverðu Bæjarfelli og að svonefndum Hafliðastekk norðan undir Bæjarfelli. Hann er þar hlaðinn undir stórum steini. Tóft er þar hjá.

Hafliðastekkur

Hafliðastekkur – uppdráttur ÓSÁ.

Á leiðinni var gengið framhjá nokkrum gömlum tóftum í norðurhlíðum Bæjarfells. Guðað var eftir Drumbsdalaveginum vestan Bæjarfells yfir Sveifluhálsinn við Drumb. Augljóst er þaðan sést hvar vegurinn hefur legið yfir melana vestan sunnanvert Bæjarfell og áfram yfir sunnanverðan hálsinn.

Til gamans má velta fyrir sér hvernig nafnið Krýsuvík er til komið. Áður hefur heyrst og verið skráð að um hefði verið að ræða svonefnda “Krýsa” er byggt hafi Krýsuvík þar sem Húshólmi er nú. Þá hefur verið skráð að nafnið væri komið af “Krossavík”. Ekki er ólíklegra að álykta að nafnið “krýsa” sé til komið vegna deilna, sem sprottið hafa, hugsanlega milli frumbyggja og síðari tilkomandi norrænna manna. Skýringin á nafninu Krýsuvík væri því einfaldlega “Deiluvík”. Sennilegast er þó orðskýringin “krýsa”, sem er gamalt orð yfir grunna vík eða fjörð, sbr. grunn skora, t.d. í ask.
Sól, lygnt og roðagylltur himinn.

Krýsuvík

Krýsuvík – uppdráttur ÓSÁ.

Krýsuvík

Í “Fornleifaskráningu fyrir Krýsuvík – Trölladyngju” árið 2008 er m.a. fjallað um bæina Vigdísarvelli, Bala og Fell:

Vigdísarvellir

Vigdísarvellir.

“Samkvæmt Jarðabók Árna og Páls frá 1703 var á Vigdísarvöllum selstaða frá Þórkötlustöðum í Grindavík. Henni var lýst sem góðri en langt og erfitt að fara. Selstaðan var í landi Krýsuvíkur en Þórkötlustaðabændur fengu að nýta hana í skiptum fyrir skipsstöðu í Þórkötlustaðalandi.

Þórkötlustaðasel

Þórkötlustaðasel við Vigdísarvelli – uppdráttur ÓSÁ.

Á Vigdísarvöllum var og er eitt besta gróðurlendi í Grindavíkurhreppi en staðurinn var hins vegar afskekktur. Árið 1830 var þar reist nýbýlið Vigdísarvellir og skömmu síðar nýbýlið Bali. Ekki er alveg ljóst hvaða ár Bali byggðist, það er ekki nefnt í heimildum fyrir 1840 þegar fyrst er getið búsetu þar, en árið 1846 bjó þar sex manna fjölskylda. Síðasta heimild um búsetu á Bala er frá árinu 1850.

Vigdísarvellir

Vigdísarvellir – uppdráttur ÓSÁ.

Á Vigdísavöllum var búið allavega til ársins 1901, mögulega með einhverju hléi milli 1870 og 1890. Þriðja nýbýlið á svæðinu sem heimildir eru um er býlið Fell. Þar er getið búsetu í manntalinu 1855 en hvorki fyrr né síðar. Í lok janúar árið 1905 hrundu eða stórskemmdust öll hús á Vigdísarvöllum og fór bærinn eftir það í eyði.”

Krýsuvík

Fell í Krýsuvík.

Leifar tveggja býla eru á norðanverðum Völlunum; Bali að austanverðu og Vigdísavellir vestar (síðar rétt). Skammt sunnar eru minjar selstöðunnar frá Þórkötlustöðum. Engar minjar eru eftir býlið Fell, enda var það kotbýli ekki á eða við Vigdísarvelli heldur sunnan við Stampa milli Grænavatns og Stóra-Nýjabæjar í Krýsuvík. Þar í gróinni kvos má sjá leifar bæjarins, sem mun einungis hafa verið í byggð um skamman tíma. Á botni Litla-Stamps má enn sjá leifar óskráðs stekks frá bænum.

Heimildir:
-Árni Magnússon og Páll Vídalin: Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns III, 14.
-Jón Þ. Þór: Saga Grindavíkur frá landnámi til 1800, 166.
-Jón Þ. Þór og Guðfinna M. Hreiðarsdóttir: Saga Grindavíkur frá 1800 til 1974, 86-87.
-Árni Óla: Strönd og Vogar, 252.

Bali

Bali.