Færslur

Seltúnssel

M.a. var litið á “trúlegt sel” á Seltúni, sem þar mun hafa verið skv. Jarðarbókinni 1703, þ.e. sel frá Krýsuvík. Eftir endurtekna leit á svæðinu fundust  tóftir er gætu verið eftir sel á tveimur stöðum, beggja vegna þjóðvegarins.

Seltún

Seltúnsselið sést á þessari mynd Sigfúsar Eymundssonar frá 1884 – myndin er tekin frá Lambafelli að Seltúni.

Annars vegar er um að ræða jarðlægar tóftir, sem sléttaðar voru út við túnræktina á svæðinu um 1960. Sú tóft sést vel á ljósmynd Sigfúsar Eymundssonar, sem tekin var frá Lambafelli að Seltúni árið 1884. Hins vegar er  um að ræða tvær tóftir, önnur nú fótum troðin af hestum Hafnfirðinga og hin hringlaga gerði skammt sunnar, einnig illa farin af ágangi hrossa. Þessar minjar hafa ekki verið skráðar sem slíkar – svo vitað sé.
Ofan við Seltúnið er lítil ferkantlaga tóft á grasbala sunnan við hverasvæðið. Hún gæti hafa tengst athöfnum námumanna á hverasvæðinu á sínum tíma. Sjáanlegar leifar námuvinnslunnar er hluti einnar stíflunnar austan þjóðvegarins. Hana má m.a. sjá á ljósmynd, sem Englendingar tóku í þeim tilgangi að selja hlutabréf í námuvinnslufyrirtækinu erlendis. Þá eru norðan við Seltúnið a.m.k. þrjár tóftir og gerði er tengdust brennisteinsvinnslunni á sínum tíma. Sagt er frá þessum minjum annars staðar á vefsíðunni, auk þess sem brennisteinsvinnslunni er gerð góð skil.

Krýsuvík

Fell – tóftir.

Kíkt var á “hugsanlega sel eða mögulega hjáleiguna Fell” sunnan Grænavatns. Tóftir bæjarins kúra í dalkvos skammt sunnan við vatnið. Hann ku hafa verið í ábúð einungis skamman tíma.
Litið var á “afar fallegan brunn” við Litla-Nýjabæ suðvestan við Augun og síðan var gengið frá Ræningjahól og þaðan að “vel farinni og fallegri rétt” sunnan Arnarfells. Um er að ræða nokkuð stóra og heillega rétt í slakka í beina línu á milli Krýsuvíkurkirkju og vörðu á nyrsta Trygghólnum, svo til miðja vegu milli hans og Arnarfells.

Arnarfellsrétt

Arnarfellsrétt.

Réttin er svonefnd Arnarfellsrétt. Um er að ræða almenning og níu misstóra dilka. Frá henni sér í Bæjarfellsréttina í norðvestri.

Bæjarfellsrétt.

Bæjarfellsrétt í Krýsuvík.

Gengið var upp að Bæjarfellsréttinni (Krýsuvíkurrétt), norður með austanverðu Bæjarfelli og að svonefndum Hafliðastekk norðan undir Bæjarfelli. Hann er þar hlaðinn undir stórum steini. Tóft er þar hjá.

Hafliðastekkur

Hafliðastekkur – uppdráttur ÓSÁ.

Á leiðinni var gengið framhjá nokkrum gömlum tóftum í norðurhlíðum Bæjarfells. Guðað var eftir Drumbsdalaveginum vestan Bæjarfells yfir Sveifluhálsinn við Drumb. Augljóst er þaðan sést hvar vegurinn hefur legið yfir melana vestan sunnanvert Bæjarfell og áfram yfir sunnanverðan hálsinn.

Til gamans má velta fyrir sér hvernig nafnið Krýsuvík er til komið. Áður hefur heyrst og verið skráð að um hefði verið að ræða svonefnda “Krýsa” er byggt hafi Krýsuvík þar sem Húshólmi er nú. Þá hefur verið skráð að nafnið væri komið af “Krossavík”. Ekki er ólíklegra að álykta að nafnið “krýsa” sé til komið vegna deilna, sem sprottið hafa, hugsanlega milli frumbyggja og síðari tilkomandi norrænna manna. Skýringin á nafninu Krýsuvík væri því einfaldlega “Deiluvík”. Sennilegast er þó orðskýringin “krýsa”, sem er gamalt orð yfir grunna vík eða fjörð, sbr. grunn skora, t.d. í ask.
Sól, lygnt og roðagylltur himinn.

Krýsuvík

Krýsuvík – uppdráttur ÓSÁ.

Þórkötlustaðarétt

Í Sjómannadagsblaði Grindavíkur árið 2017 fjallar Ómar Smári m.a. um “Réttir í Grindavík“:

Sjómannadagsblað Grindavíkur 2017.

Sjómannadagsblað Grindavíkur 2017.

“Eftirfarandi upplýsingar um Þórkötlustaðarétt eru fengnar úr minni Sigurðar Gíslasonar frá Hrauni við Grindavík, 84 ára (f: 05. maí 1923). Siggi á Hrauni, eins og hann er jafnan nefndur, þekkir manna best austurumhverfi Grindavíkur. Hann man tímana tvenna og hefur ávallt verið reiðubúinn að miðla öðrum fróðleik um liðna tíð. Siggi fylgdi FERLIRsfélögum að réttinni í Þórkötlustaðahverfi, sem lítið hefur verið vitað um – fram að þessu. (Rétt er að geta þess að Þórkötlustaðahverfið í Grindavík er eitt hið fegursta með því nafni á gjörvöllu landinu, að mati staðfæddra).

Þórkötlustaðarétt

Þórkötlustaðarétt.

“Þórkötlustaðaréttin, sú sem nú er, var komin, óbreytt að stærð og lögun, þegar ég man fyrst eftir mér. Faðir minn sagði að hún hefði verið hlaðin af Grindavíkurbændum um aldamótin 1900. Grjótið var að einhverju leyti úr Vatnsheiðinni og Efra-Leiti, auk þess sem einstaka grjót kom upp úr túnsléttun í hverfinu og áreiðanlega hefur einhver hraunhella verið þarna umhverfis réttina. Hún var síðan endurbætt fyrir nokkrum árum. Efnið í endubótina var fengið í landi eigenda Þórkötlustaða, að þeim forspurðum. Réttin hefur þó ávallt þótt góð til síns brúks.”

Þórkötlustaðarrétt

Gamla Þórkötlustaðarréttin.

Fyrrum var fé Grindvíkinga vel á fjórða þúsund á vetrarfóðrum. Féð af fjalli fyllti safnhólfið sem og alla dilka. Urðu bændur að rýma af og til úr dilkunum svo þeir gætu dregið allt sitt fé. Þegar gerðið kom til, ofan við réttina, greiddist heldur úr þrengslunum. Fjárbóndinn Dagbjartur Einarsson hefur upplýst um heildarfjáreign Grindarvíkurbænda á vetrarfóðrum, en hún mun nú vera 524 um þessar mundir (árið 2007) og er þá allt meðtalið.

Þórkötlæustaðarétt

Þórkötlustaðarétt.

Frægt er útvarpsviðtalið við nefndan Dagbjart; “stórbóndann í Grindavík”:
Spyrjandi: “Hvað áttu margt fjár, Dagbjartur?”
Dagbjartur: “Ég á einar fimm..”.
Spyrjandi greip fram í: “Fimmhundruð. Það þykir nú allnokkuð”.
Dagbjartur sagði ekki orð. Hið rétta var að Dagbjartur átti þá einungis fimm ær þá stundina.

Bæjarfellsrétt.

Bæjarfellsrétt í Krýsuvík.

Áður var lögréttin í Krýsuvík, suðvestur undan Arnarfelli (Arnarfellsréttin). Hætt var að nota hana um 1950. Þangað til varð að reka úrdrátt frá Þórkötlustöðum upp í Krýsuvík og var afgangsféð selt þar.
Réttin suðaustan við Bæjarfellið var vorrétt. Þá voru rúningsréttir t.d. á Vigdísarvöllum og í Stóra-Hamradal, sem enn sjást leifar af.
Áður en Þórkötlustaðaréttin kom til réttuðu Þórkötlustaðabændur þar sem nú er grjótgarður vestast innan girðingar Efra-Lands, þ.e. þar í norðvesturhorninu, sem nú er. Þar var Gamla réttin. Í henni var enginn dilkur, einungis gerði. Sjá má leifar hennar ef vel er að gáð. Réttin var mun stærri en ætla mætti, en grjót var tekið úr henni og notað í garðana, sem sjá má ofan við Efra-Land.”

Arnarfellsrétt

Arnarfellsrétt í Krýsuvík.

Hafur-Björn Molda-Gnúpsson er sagður, ef marka má þjóðsöguna, hafa átt gnægð fjár, enda “efnaðist hann mjög af fé” eftir draumfarirnar með landvættinum og tilkomu geithafursins í hjörð hans (þess vegna er allt fé Grindvíkinga öðruvísi en annað fé landsmanna), og bræður hans fiskuðu aldrei sem fyrr. Auðguðust þeir bræður bæði af gæðum lands og sjávar.

Þórkötlustaðarétt

Dagbjartur Einarsson í Þórkötlustaðarrétt.

Ekki þarf að leita að fjárrétt Hafur-Björns og bræðra því annað hvort hafa þeir ekki þurft að rétta eða sú rétt gæti löngu verið komin undir hraun því ekki eru ófá hraunin við Grindavík, sem runnið hafa eftir að ætt Molda-Gnúps bjó þar eftir árið 934. Fyrstu heimildir um byggð í Þórkötlustaðahverfi er um miðja 13. öld, en þá höfðu hraunin ofan núverandi byggðar runnið og kólnað að mestu. Við norðvesturhúshornið á núverandi Þórkötlustöðum (Miðbæjar) eru tóftir fornaldarskála að mati Brynjúlfs Jónssonar frá Minna-Núpi (skrifað 1903). Hann skyldi þó aldrei vera eldri, og það jafnvel mun eldri, en yngsta gosið ofan við Grindavík rann árið 1226. Það náði þó ekki niður að Þórkötlustöðum. Minjarnar, ef vel er að gáð og ef tilgáta Brynjúlfs er rétt, gætu þess vegna verið frá upphafi landnáms í Grindavík.” – Ómar Smári.

Viðbót;
Þórkötludys

Þórkötludys – Sigurður Gíslason á Hrauni við dysina.

“Sigurður Guðjón Gíslason fæddist á Hrauni 5. maí 1923. Hann lést á hjúkrunarheimilinu Víðihlíð 30. júní 2010.

Foreldrar voru Gísli Hafliðason útvegsbóndi, f. á Hrauni 11. maí 1891, d. 21. mars 1956 og Margrét Jónsdóttir húsfreyja, f. á Einlandi 15. nóvember 1891, d. 9. maí 1967. Bróðir Sigurðar var Þorvaldur, f. 3. febrúar 1919, d. 11. maí 1984.

Sigurður kvæntist 18. október 1960 Hrefnu Ragnarsdóttur, f. í Reykjavík 10. maí 1931, dóttur hjónanna Jóns Ragnars Jónassonar, skipasmiðs og Jóhönnu Eiríksdóttur, húsfreyju. Þau eru bæði látin.

Hraun

Hraun í Grindavík.

Sigurður og Hrefna eignuðust þrjú börn. Þau eru: Gísli Grétar, f. 13. desember 1955, sonur hans er Sigurður Guðjón, f. 21. apríl 1982. Unnusta Gísla er Margrét Hinriksdóttir. Hörður, f. 5. febrúar 1967, kvæntur Valgerði Valmundsdóttir, börn þeirra eru Hrefna, f. 14. ágúst 1990 og Hafliði, f. 28. september 2000. Margrét, f. 16. október 1968, synir hennar eru Axel Örn, f. 15. febrúar 1993 og Vignir Þór, f. 1. júní 1996. Fóstursonur var Ragnar Jóhann Alfreðsson, f. 16. nóvember 1953, d. 11. júní 1987, sonur hans er Þorvaldur, f. 17. maí 1981. Barnabarnabörn eru tvö.

Sigurður starfaði lengst af sem sjómaður, útgerðarmaður og bóndi í Grindavík.”

Hraun

Hraun – minja- og örnefnakort af Hrauni; unnið í samráði við Sigurð Gíslason…

Er minnugur orða Sigurðar stuttu fyrir andlátið; “Ómar, ef þú hefðir ekki skráð örnefnin og sögulegar minjarnar á Hrauni hefði ég tekið það nánast allt með mér í gröfina”…

FERLIRsfélagar þakka Sigurði samfylgdina – og virða minningu hans.

Heimild:
-Sjómannadagsblað Grindavíkur 2017, Réttir í Grindavík, Ómar Smári Ármannsson, bls. 67-69.
-Morgunblaðið 9. júlí 2010, minningargrein, Sigurður Guðjón Gíslason.

Þórkötlustaðarétt

Í Þórkötlustaðarétt.