Krýsuvík

Í  Alþýðublaðinu 1963 mátt m.a. lesa eftirfarandi um Vinnuskólann í Krýsuvík:

Krýsuvík

“Starfsmaður” Vinnuskólans við vinnu í gróðurhúsi.

“Barnaverndarnefnd Hafnarfjarðar rekur á vegum Hafnarfjarðarbæjar Vinnuskóla í Krýsuvík og hefur gert það um 12 ára skeið. Alþýðublaðið skrapp upp í Krýsuvík í gær og heimsótti þar 55 drengi, sem eru þar á vinnuskólanum.
Vinnuskólinn í Krýsuvík byrjaði að þessu sinni hinn 18. júní síðastliðinn, en það er nokkru seinna en venja hefur verið. Ýmsar framkvæmdir og lagfæringar á staðnum ollu þessari töf.
Í sumar munu dveljast þarna tveir hópar drengja, hvor hópur í 25 daga. í fyrri hópnum, sem fór í vinnuskólann hinn 18. júní voru 55 röskir drengir á aldrinum 9 til 12 ára. Nú er þeirra tími á skólanum að verða útrunninn og fer þá annar álíka stór hópur upp í Krýsuvík til vinnu og leikja.

Krýsuvík

Starfsfólk Vinnuskólas í Krýsuvík. Rúnar er lengst til vinstri og Sævar lengst til hægri. Fróðlegt væri að fá nöfnin á annars myndarlegt starfsliðið.

Forstöðumaður vinnuskólans í Krýsuvík í sumar er Rúnar Brynjólfsson kennari og skátaforingi, en undanfarin fjögur ár hefur Haukur Helgason, skólastjóri, annast forstöðu skólans. Rúnar var starfsmaður skólans í fyrrasumar og kynntist þá háttum og starfsreglum hans, og taldi hann það hafa orðið sér til ómetanlegs gagns. Sævar Örn Jónsson heitir aðstoðarmaður Rúnars og skipuleggja þeir hvern dag og annast stjórn á drengjunum við hin daglegu störf. Sigurrós Skarphéðinsdóttir, kennari, er ráðskona skólans og hefur þrjár stúlkur sér til aðstoðar.

Stóriskógarhvammur

Piltar úr Vinnuskólanum í Krýsuvík í Stóraskógarhvammi ásamt Hauki Helgasyni.

Verkefni drengjanna eru hin margvíslegustu svo sem garða — og gróðurhúsavinna, trjárækt, vegavinna, ýmis fegrun og snyrting á umhverfinu og margt fleira, auk þess sem þeir hirða herbergi sín sjálfir, hjálpa til í eldhúsi og aðstoða við fleiri innanhússstörf. Vinnuskólinn hefur gróðursett yfir 100 þúsund trjáplöntur í Undirhliðum undanfarin ár.
KrýsuvíkDrengjunum er skipt í 10 flokka og er einn þeirra flokksstjóri fyrir hverjum flokki. —
Svo er verkefnum skipt á miili flokkanna. Vinnutíminn er um 4 klukkustundir á dag, og sagði Rúnar að drengirnir ynnu yfirleitt vel þennan tíma, meðan þeir voru að verki. Og kaup hafa drengirnir fyrir vinnu sína. Við, hin fullorðnu, myndum sennilega ekki vera ánægð með það fyrir okkur, en drengirnir eru ánægðir með sín daglaun, sem eru allt frá tveimur krónum og upp í 4.50 krónur. Upphæð launa fer ekki eftir aldri, heldur dugnaði.

Krýsuvík

Drengir í Krýsuvík við sundlaugagerð sunnan Bleikhóls.

Herbergin, sem drengirnir búa í eru fimm og er keppni milli herbergjanna, hvaða herbergi líti bezt út. Á hverju kvöldi ganga Rúnar og Sævar um herbergin og gefa fyrir, hvernig gengið hefur verið um það um daginn. Hæst eru gefin 10 stig. Þegar herbergið hefur náð samtals 100 stigum fær það verðlaunaskjal úr skinni, sem hengt er upp á einn vegginn í herberginu.
Seinasta kvöldið, sem hver hópur dvelst á skólanum, er athugað, hvaða herbergi hafi hlotið flest stig fyrir umgengnina allan tímann. Það herbergið, sem hlýtur hæstu stigatölu fær stóra og myndarlega rjómatertu í verðlaun og skipta íbúar herbergisins henni milli sín. Í gærkveldi, þegar úrslit voru birt í herbergjakeppninni, vildi svo til, að öll herbergin voru jöfn að stigum Þetta þýddi hvorki meira né minna en það, að fimm glæsilegar rjómatertur voru veittar í verðlaun og 55 drengir ljómandi af ánægju tóku hraustlega til matar síns.

Krýsuvík

Sundlaugin undir Bleikhól.

Þegar hver hópur kveður Vinnuskólann í Krýsuvík er skólanum slitið við hátíðlega athöfn og hver drengur fær í hendur einkunnabók frá skólanum, þar sem gefin er umsögn um vinnu, reglusemi, hreinlæti drengsins og framkomu hans við félaga sína. Í einkunnum eru fjórir möguleikar, prýðilegt, ágætt, gott og sæmilegt.
Einhver spyr kannski: Til hvers er þessi vinnuskóli? —
Svarið við þessu er skráð oftan á einkunnarbækur Vinnuskólans í Krýsuvík en þar stendur: „Vinnuskólinn vill leitast við að efla þroska nemenda sinna bæði í leik og starfi, kenna þeim gildi vinnunnar, vísa þeim leið til sjálfsbjargar og um leið efla félagsþroska þeirra”.

Krýsuvík

Krýsuvík – starfsmannahúsið. Í því dvöldu þátttakendur Vinnuskólans.

Að lokum skulum við athuga hvernig hver dagur er í stórum dráttum skipulagður í Vinnuskólanum í Krýsuvík. Fótaferð hefst klukkan 8 að morgni og morgunverður er snæddur klukkan 9. Klukkan 9.15 er fáninn dreginu að húni og síðan er unnið til hádegis. Þá er matur og hvíld. Klukkan 13.30 er aftur tekið til við vinnuna og unnið til klukkan 15.

Krýsuvík

Vinnan í gróðurhúsunum.

Svo er „kaffi” klukkan 15.30 og síðan leikir, íþróttir, gönguferðir og fleira. Kvöldverður er klukkan 19. Eftir kvöldmat er fáninn dreginn niður. Annað hvert kvöld er kvikmyndasýning, en hitt kvöldið fara fram margskonar íþróttir og keppnir. Klukkan 21.30 fá drengirnir „kvöldkaffið” sitt. Háttatími er klukkan 22. Þá er gengið í öll herbergin, umsjónarmennirnir fara með faðir vorið með drengjunum og bjóða góða nótt.
Drengirnir hverfa inn í draumalöndin, en framundan bíður þeirra heillandi og skemmtilegur dagur.”

Heimild:
-Alþýðublaðið 44. árg., laugardagur 13. júlí 1963, bls. 5.
-Alþýðublað Hafnarfjarðar 16. maí 1962, bls. 5.

Krýsuvík

Texti í Alþýðublaði Hafnarfjarðar 16. maí 1962, bls. 5, um Vinnuskólann.